Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2010


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Sjómaður


                                                        

Miðvikudaginn 16. júní 2010.

Nr. 44/2010.

Heimir Hannibalsson

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Samskipum hf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

Skaðabætur. Örorka. Sjómenn.

H varð fyrir slysi um borð í skipi í eigu S. H krafðist fyrir dómi viðurkenningar á bótaskyldu S á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð og samkvæmt 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Talið var að slys H hefði á engan hátt verði tengt starfi hans um borð í skipinu. Ekkert benti til þess að slysið mætti rekja til vanbúnaðar skipsins, saknæmra mistaka eða aðgæsluleysis starfsmanna S. Tjón S var rakið til óhapps og gáleysis hans í umrætt sinn. Krafa H um bætur á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga þótti of seint fram komin. Var S sýknað af kröfum H í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2010. Hann krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna slyss er hann varð fyrir 16. febrúar 2000 um borð í skipi stefnda m.s. Helgafelli í höfn í Bremerhaven. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Heimir Hannibalsson, greiði stefnda, Samskipum hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2009.

I

Mál þetta, sem var dómtekið þann 30. september 2009, var höfðað 29. janúar 2009. Stefnandi er Heimir Hannibalsson, Sléttuvegi 7, Reykjavík en stefndi er Samskip hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að viðurkennd/staðfest verði með dómi óskipt bótaskylda/bótaábyrgð stefnda vegna slyss er stefnandi varð fyrir um borð í skipi stefnda, ms. Helgafelli, er skipið var statt í Bremerhaven, Þýskalandi, hinn 16. febrúar 2000. Til vara krefst stefnandi að viðurkennd/staðfest verði með dóm skipt bótaskylda/bótaábyrgð stefnda og stefnanda vegna eigin sakar stefnanda að mati dómsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefndu eru að félagið verði alfarið sýknað af kröfum stefnanda og málskostnaður verði að skaðlausu greiddur úr hendi stefnanda.

II

Atvik málsins eru þau að stefnandi, sem var háseti hjá stefnda, varð fyrir slysi þann 16. febrúar árið 2000 um borð í skipi félagsins, M/V Helgafelli, er það lá í höfn í Bremerhaven í Þýskalandi. Stefnandi féll niður af efsta palli í skorsteinshúsi skipsins, um það bil 10,7 metra, niður á millipall á C-dekki skipsins. Stefnandi hlaut mikla og alvarlega fjöláverka við fallið. Varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins hefur verið metinn 50% með tilliti til fjöláverka og skerðingar á vitrænni starfsemi sem hann hlaut við slysið og varanleg örorka 90%, samkvæmt matsgerð læknis frá 4. september 2009.

Samkvæmt lögregluskýrslu, dagsettri 16. febrúar 2000, var slysið tilkynnt til lögreglu á Íslandi 21. febrúar 2000. Í skýrslunni segir að stefnandi hafi verið að fela fíkniefni uppi í skorsteinshúsi skipsins, þar sem það lá í höfn í Bremerhaven, og hrapað niður frá palli efst í skorsteinshúsinu niður á pall sem sé í sömu hæð og C-dekk. Fallið hafi verið um 10,7 metrar.  Fram kemur að engin vitni hafi verið að fallinu sjálfu en  Haukur B. Gunnarsson háseti, Snorri St. Gunnarsson háseti og Sigþór H. Guðnason stýrimaður, hafi verið staddir inni í setustofu háseta á A-dekki, og heyrt skellinn þegar stefnandi datt. Snorri hafi strax farið að athuga með stefnanda og fundið hann á millipalli í skorsteinshúsinu. Skipsfélagarnir hafi hlúð að stefnanda þar til sjúkralið kom. Stefnandi muni vera mikið slasaður. Þann 22. febrúar 2000 liggi hann enn meðvitundarlaus á sjúkrahúsi í Þýskalandi með mikla höfuðáverka og allur meira og minna brotinn.

Samkvæmt skýrslu sem lögreglan í Reykjavík tók þann 23. febrúar 2000 af Sigþóri Hilmar Guðnasyni, 1. stýrimanni á M/V Helgafelli, hafði stefnandi beðið hann um frí til að fara í land kl. 17.25. Hann hafi veitt stefnanda leyfið með því skilyrði að hann kæmi til baka fyrir kl. 22.00. Um kl. 22.25 hafi vitnið verið í setustofu háseta með hásetunum Hauki og Snorra. Sá síðarnefndi hafi séð út um gluggann mann koma niður stigann frá B-dekki sem hafi hrasað neðst í stiganum. Snorri hafi talað um að þetta væri stefnandi og farið út til að kanna með stefnanda en að sögn Snorra hafi stefnandi þá verið staðinn upp, farinn fyrir hornið og verið á leið inn í skorsteinshús. Snorri hafi einnig sagt þeim að stefnandi verið með tösku og í þeim töluðum orðum hafi þeir heyrt skell. Snorri hafi farið að kanna hvað hafi komið fyrir. Þegar hann kom til baka hafi hann greint þeim frá því að hann hafi séð stefnanda slasaðan á ristargólfi tveim hæðum ofar í skorsteinshúsinu. Þeir hafi farið til stefnanda en Snorri síðan upp á efsta pall og fundið þar töskuna sem hann hafði séð stefnanda með. Aðspurður sagði hann skorsteinshúsið ekki eiga að vera læst nema í vondum veðrum þar sem það lofti út fyrir vélarrúmið auk þess sem útigallar væru þurrkaðir þar og verkfæri og fleira geymt. Vitnið tók fram að stefnandi hefði ekkert erindi átt þangað upp sem hann hefði farið og þangað færu ekki nema vélstjórar einstaka sinnum.

Samkvæmt skýrslu, sem lögreglan í Reykjavík tók þann 23. febrúar 2000 af vitninu Snorra S. Gunnarssyni, háseta á M/V Helgafelli, var hann sá sem kom fyrstur að þar sem stefnandi lá slasaður. Hann hafi verið inni í setustofu háseta á A-dekki ásamt Hauki og Sigþóri og þannig að glugginn blasti við honum. Hann hafi séð mann koma niður stigann af B-dekki með svarta handtösku á bakinu, svipaða íþróttatösku. Maðurinn hafi hrasað er hann var kominn niður stigann en staðið strax upp og gengið fyrir hornið. Hann hafi ekki verið alveg viss hver hafi verið á ferðinni og Sigþór hafi beðið hann að kanna málið. Hann hafi gengið út og séð þegar maðurinn gekk inn í skorsteinshúsið að það var stefnandi. Örskömmu seinna hafi heyrst skellur innan úr skorsteinshúsinu og hafi hann þá farið inn í skorsteinshúsið, litið upp og séð hvar stefnandi lá á bakinu upp á millirist. Þá greindi vitnið frá því að hann hafi farið upp stigann í skorsteinshúsinu til að kanna með töskuna sem stefnandi hafði verið með og fundið hana á efsta palli. Hann hafi gáð í töskuna og séð að sennilega væru fíkniefni í henni. Það hafi þá látið töskuna vera og sagt skipstjóranum frá henni. Aðspurður kvaðst hann hurðina að skorsteinshúsinu ekki eiga að vera læsta. Gott væri að hengja upp blauta galla þar auk þess sem fleira væri geymt þar á 1. palli. Þá væri verkstæði á neðri þiljum skorsteinshússins sem hásetar þyrftu að fara í.

Samkvæmt skýrslu, sem lögreglan í Reykjavík tók þann 23. febrúar 2000 af vitninu Hauki B. Gunnarssyni, háseta á M/V Helgafelli, var hann ásamt Sigþóri og Snorra inni í setustofu háseta þegar Snorri tók eftir manni sem kom niður stigann frá B-dekki sem honum sýndist vera stefnandi en hafi þó ekki verið alveg viss. Að beiðni Sigþórs hafi Snorri farið út til að kanna með ferðir stefnanda og komið skömmu seinna og greint frá að stefnandi hafi farið inn í skorsteinshúsið. Þá hafi þeir farið í setustofunni farið að ræða ferðir stefnanda og talið líklegt að hann væri að fela eitthvað. Þeir hafi ætlað að fara að kanna það þegar skellur hafi heyrst frá skorsteinshúsinu. Snorri hafi farið þar inn en komið skömmu seinna og sagt frá að hann hefði fundið stefnanda slasaðan á millipalli í skorsteinshúsinu. Aðspurður um hvað hafi liðið langur tími frá því að Snorri hafi komið og tilkynnt um ferðir stefnanda og þar til að þeir hafi heyrt skellinn sagði vitnið það hafa verið um hálfri mínútu seinna. Aðspurt greindi vitnið einnig frá því að á meðan beðið hafi verið eftir sjúkrabílnum hafi Snorri farið upp á efsta pall í skorsteinshúsinu og fundið tösku. Snorri hafi látið töskuna liggja en lögreglan síðan sótt töskuna.

Í ódagsettri greinargerð lögreglunnar í Reykjavík vegna slyssins segir enn fremur að lögreglan í Þýskalandi hafi tekið töskuna sem fannst á efsta palli og að hún hafi innihaldið hass. Þar kemur einnig fram að stefnandi hafi farið í land umrætt sinn ásamt Rögnvaldi Bjarnasyni skipverja.

Í taugasálfræðilegri greinargerð, dagsett 18. desember 2001, er það niðurstaða sálfræðings á Endurhæfingarsviði Grensásdeildar Landspítalans að vegna alvarlegrar skerðingar á hugrænni starfsemi stefnanda teljist hann ekki hæfur til þess að fara í skýrslutöku hjá Lögreglunni í Reykjavík. Þar kemur fram að greinargerðin er skrifuð að beiðni lögmanns stefnanda vegna óska Lögreglunnar í Reykjavík um að taka skýrslu af honum vegna meints fíkniefnamáls sem sagt er að tengist því hörmulega slysi sem stefnandi varð fyrir. Óumdeilt er að stefnandi var hvorki saksóttur í Þýskalandi né á Íslandi vegna málsins.

Aðilar deila um hvort stefndi beri bótaábyrgð á slysi stefnanda en með bréfi til stefnanda, dagsettu 25. júlí 2000, hafnaði stefndi bótaskyldu vegna slyssins m.a. með þeim rökum að fyrir lægi að meginorsök slyssins væri sú að stefnandi hefði fallið í skorsteinshúsinu eftir að hafa komið þar fyrir tösku með hassi og hann hefði ekki verið við vinnu þegar slysið hefði átt sér stað. Málið væri í rannsókn hjá þýsku lögreglunni og stefnandi væri grunaður um fíkniefnamisferli.

Við aðalmeðferð gáfu stefnandi, fyrrgreind þrjú vitni skýrslu fyrir dómi og Rögnvaldur Bjarnason. Stefnandi kvaðst aðspurður ekki geta sagt frá því hvernig slysið bar að á, hann myndi ekki eftir því. Allt hefði þurrkast úr höfði hans við slysið, hann hefði hlotið heilaskaða og ætti við minnisörðugleika að stríða.

Sigþór H. Guðnason bar fyrir dóminum að hann hefði veitt stefnanda frí til að fara í land seinni partinn um kl. 16 og 17. Stefnandi hefði átt að vera kominn um borð kl. 22 um kvöldið. Aðspurður kvaðst hann hvorki muna hvað stefnandi hefði ætlað að gera í landi né hvort hann hefði farið með einhverjum. Stefnandi hefði komið til baka klukkan rúmlega tíu. Vitnið og tveir hásetar hefðu verið í setustofu niðri á A-dekki þar sem þeir hefðu séð stefnanda koma niður stiga. Vitnið og Haukur hefðu setið við gluggann en Snorri upp að vegg og séð út um gluggann. Snorri hefði tekið eftir því að hann hrasar í stiganum niður af B-dekki niður á A-dekk Hann hefði beðið Snorra að athuga með hann en þá hafði hann verið farinn fyrir bakborðsmegin á skipinu og inn í skorsteinshús að því er Snorri sagði. Nánar aðspurður um hver hefði séð stefnanda sagði vitnið að Snorri hefði séð að maðurinn var stefnandi en vitnið ekki þar sem það sat við gluggann og sá hann ekki koma niður. Þeir hefðu bara séð bakhlutann á honum þegar hann kemur niður. Um það bil 30 sekúndum seinna hafi þeir heyrt þennan svakalega skell. Snorri hefði áður tekið eftir að stefnandi hafði verið með tösku. Snorri hafði síðan komið til baka og sagt að stefnandi hafi dottið. Aðspurður um töskuna kvað vitnið Snorra hafa farið alveg upp í topp í skorsteinshúsinu, skoðað töskuna og það hafi reynst vera fíkniefni í henni sem þýska lögreglan gerði upptæk. Vitnið kvaðst ekki kunna frekari deili á því máli og aðspurt kvaðst það ekki geta staðhæft að fíkniefni hefðu verið í töskunni. Vitnið sagði stefnanda hafa legið á ristahliði og hann hefði fallið rúmlega 10 metra af efsta palli en þangað upp væri stigi, 10 metra frá millipalli upp í efsta pall. Vitnið sagði aðspurt að hann gæti ekki séð að stefnandi hefði átt neitt erindi þangað. Strákarnir hefðu stundum þurrkað galla þarna og geymt ákveðin verkfæri sem ekki voru í notkun á þessari stundu. Aðspurður hvort menn hefðu eitthvað verið að fara upp á efsta pall svaraði vitnið því neitandi og sagði að það hefði enginn átt erindi þar upp. Það hefðu eingöngu farið þangað eftirlitsmenn og menn í þess háttar erindisgjörðum. Fram kom hjá vitninu að engin vitni hefðu verið að slysinu.

Snorri St. Gunnarsson bar einnig vitni fyrir dóminum og var spurður um aðdraganda slyssins. Aðspurður kvaðst hann hafa séð stefnanda ganga um borð, koma niður stigann og detta í neðstu tröppunni. Síðan hefði hann séð stefnanda fara fyrir hornið og síðan ekki söguna meir. Hann mundi ekki hvort hann hefði séð stefnanda fara inn í skorsteinshúsið. Síðan hefði heyrst skellur og þá hefði hann farið inn í skorsteinshús og séð stefnanda liggjandi á millipalli. Aðspurður hvernig skorsteinshúsið hefði almennt verið notað og sagði vitnið að stundum hefðu menn sett þar inn blauta galla. Um aðra notkun vissi vitnið ekki. Þá sagði vitnið að það hefði farið upp á efsta pall í skorsteinshúsinu og fundið lokaða tösku á pallinum sjálfum sem í hefði verið brúnt eða svart efni. Þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hann fór þarna upp og hann vissi ekki til að menn ættu erindi upp á efsta pallinn. Nánar aðspurður hvort hann hefði verið viss um að hann hefði séð stefnanda með töskuna sagði vitnið að það hefði talið að þetta væri stefnandi. Hann hefði gert ráð fyrir því. Vitnið var einnig spurt um frágang í kringum pallinn og sagðist það minna að það hefði verið handrið, „bara venjulegt handrið í handriðahæð“.

Þá var tekin skýrsla af Hauki B. Gunnarssyni í gegnum síma og hann spurður um atburðarásina fyrir slysið. Hann sagði að hann, Sigþór og Snorri hefðu setið inni í setustofu háseta. Snorri hefði staðið í hurðinni og síðan hefðu þeir séð mann koma niður af B-dekki, næstu hæð fyrir ofan þá, utan á stýrishúsinu og detta í stiganum á bakið. Hann hefði verið með tösku á bakinu. Hann hefði farið bakborðs megin á skipið. Þeim hefði fundist þetta grunsamlegt þar sem þeir hefðu í fyrstu ekki séð hver þetta var þannig að Snorri hefði stokkið til að sjá hvert maðurinn var að fara og séð hann fara inn í skorsteinshúsið. Snorri hefði svo komið til baka og sagt þeim þetta. Þeir hefðu rétt verið byrjaðir að spá í hvort þetta gæti verið stefnandi og þá heyrt skömmu seinna þungan dynk. Snorri hefði farið að athuga hvað væri um að vera og komið til baka og sagt að maður lægi uppi í skorsteinshúsinu, á vélaristinni.  Vitnið var spurt að því hvernig menn færu upp á efsta pall og kvað hann þar vera lóðréttan járnstiga. Þá var vitnið spurt hvaða erindi menn ættu í skorsteinshúsið og sagði vitnið að það væri eina leiðin til að komast niður í vél og verkstæði þar niðri. Einnig að menn hefðu geymt vettlinga og galla þarna þar sem það loftaði vel um, auk þess sem sápur og þrifbúnaður hefðu verið geymd þar. En að öðru leyti hefðu menn ekkert notað skorsteinshúsið nema svona inn og út úr vélinni. Aðspurt hvort menn hefðu átt erindi upp á efsta pall skorsteinshússins svaraði vitnið því neitaði. Þetta væri pallur til að fara upp á til að opna loftrist aftan á skorsteinshúsinu, svona öndunarrist, og eftir því sem það myndi best ættu menn ekkert erindi þarna upp nema til að opna ristina. Aðspurt um töskuna sagði vitnið að það hefði aldrei séð hana. Snorri hefði fundið hana uppi á pallinum.

Loks kom fyrir dóminn Rögnvaldur Bjarnason sem var skipverji á M/V Helgafelli. Vitnið bar að hann hefði farið með stefnanda í bæinn um kl. 18 kvöldið sem hann lenti í slysinu. Þeir hefðu farið á bari og fengið sér bjór. Aðspurður hvort stefnandi hefði drukkið áfengið svaraði vitnið því játandi og en kvaðst ekki hafa beina hugmynd um hve mikið en bar að stefnandi hefði drukkið um það bil sex til átta bjóra. Þeir hefðu síðan orðið viðskila um níuleytið og hann vissi hvorki um ferðir stefnanda eftir það né hvað hann hefði ætlað að gera.

III

Í stefnu er á því byggt að stefndi beri bótaábyrgð á slysi stefnanda á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar. Stefnandi hafi starfað sem háseti í skipi stefnda og því verið launþegi stefnda þegar slysið varð. Hann hafi verið á vinnustað sínum um borð í skipi stefnda.

Stefnandi heldur því fram að ábyrgð stefnda byggi á „undantekningarreglum frá reglum um vinnuveitendaábyrgð, m.a. hvað varðar vinnutíma og á reglunni um nafnlaus mistök“. Með öðrum orðum falli tilvikið undir regluna um vinnuveitendaábyrgð, m.a. í ljósi þess að hvorki liggi fyrir í gögnum málsins hvernig slysið hafi borið að né sé með vissu hægt að segja til um það. Vegna alvarlegra afleiðinga slyssins sé stefnandi hvorki til frásagnar um það né hvernig það hafi borið að höndum. Þá segir að stefnandi hafi staðfastlega neitað því að hafa tekið þátt eða átt þátt í meintu fíkniefnamisferli.

Þá er á því byggt að slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti. Vettvangur hafi ekki verið rannsakaður, m.a. með tilliti til aðbúnaðar og öryggisþátta. Allan vafa um það hver hafi verið tildrög slyssins, þ.e. hver hafi valdið tjóni stefnanda og hvernig því hafi verið valdið beri að skýra stefnanda í hag. Með hliðsjón af atvikum málsins hvíli sönnunarbyrðin á stefnda um að það beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda og þar með bótaskyldu. Um vinnuslys sé að ræða í skilningi og samkvæmt skilgreiningu ákvæða almennra tryggingalaga um slysatryggingar, sbr. nú 27. gr. laganna.

Málið sé höfðað til að fá úr því skorið hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð/bótaskyldu í málinu og vísar stefnandi í því sambandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Um lagarök vísar stefnandi m.a. til reglna skaðabótaréttarins, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, þ.á m. „reglunnar – nafnlaus mistök“.

Krafa stefnanda um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

Við aðalmeðferð málsins var enn fremur byggt á því stefnda bæri bótaábyrgð samkvæmt 1. mgr. 172. gr. Siglingalaga nr. 34/1985. Stefandi hélt því fram að reglan félli undir málsástæðu um vinnuveitendaábyrgð með undantekningu, eins og byggt væri á stefnu, enda væri það eðli sínu samkvæmt hlutlæg ábyrgð.

IV

Krafa stefnda um sýknu er á því byggð að stefnandi hafi með engum hætti sýnt fram að stefndi, eða starfsmenn stefnda, hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leitt hafi til slyssins. Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að atvik hafi verið með einhverjum þeim hætti að skilyrði skaðabótaskyldu stefnda séu uppfyllt í málinu. Stefnandi hafi ekki bent á eitt einasta atriði í þeim efnum. Slysið hafi orðið í frítíma stefnanda og ekki verið í nokkrum tengslum við vinnu stefnanda fyrir stefnda eða starfsskyldur hans. Þegar af þeirri ástæðu eiga sjónarmið um bótaskyldu vinnuveitanda gagnvart starfsmanni ekki við í málinu, enda slysið ekki vinnuslys. Bótaskylda verði enn fremur ekki reist á einhverjum óljósum og óskýrðum grundvelli s.s. þeim sem stefnandi byggir á, þ.e. „undantekningarreglum frá reglum um vinnuveitendaábyrgð, m.a. hvað varðar vinnutíma og reglunni um nafnlaus mistök“. Það sé algerlega óljóst hvað hér sé átt við og sjónarmiðum þessum alfarið hafnað sem málinu óviðkomandi. Ekkert bendi til að aðstæður eða aðbúnaður á vettvangi hafi verið ófullnægjandi. Slysið hafi gerst í skorsteinshúsi skipsins, á stað þar sem stefnandi hafi ekki átt nokkurt einasta erindi. Enn síður hafi stefnandi átt erindi á efsta pall skorsteinshússins þaðan sem hann datt. Inn í skorsteinshúsið fari almennt ekki aðrir en vélstjórar, einstaka sinnum, auk þess sem fyrir komi að útigallar væru þurrkaðir þar og verkfæri og fleira geymt þar. Enginn hafi beðið stefnanda um að fara í skorsteinshúsið umrætt sinn heldur hafi hann gert það að eigin frumkvæði, og utan vinnutíma, í þeim tilgangi að koma þar fyrir og fela tösku á efsta palli. Taskan hafi ekki verið í neinum tengslum við vinnu stefnanda enda hafi hún innihaldið hass. Stefndi geti því með engum hætti borið ábyrgð á slysinu.

Engin lagarök standi til þess að sönnunarbyrði um tilurð slyssins eigi að snúa við. Þar sem ekki hafi verið um vinnuslys að ræða hafi engin skylda hvílt á stefnda að tilkynna um slysið til Vinnueftirlits og rannsókn Vinnueftirlits hefðu engu breytt í málinu. Ákvæði 27. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar séu málinu óviðkomandi. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á eitt einasta atriði sem gæti mögulega leitt til bótaskyldu stefnda í málinu og raunar sé rökstuðningur stefnanda fyrir bótaskyldu stefnda í málinu enginn, eða a.m.k. afar rýr.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda vegna reksturs máls þessa. Um lagagrundvöll þeirrar kröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 131. gr. laganna enda málið byggt á kröfum, málsástæðum og staðhæfingum sem séu bersýnilega haldlausar. Ekkert tilefni sé til málshöfðunar þessarar.

Af hálfu stefnda var því sérstaklega mótmælt við aðalmeðferð málsins að fyrst við flutning málsins væri byggt á hlutlægri bótaábyrgð skv. 1. mgr. 172. gr. siglingalaga. Það væri ný málstæða sem samræmdist ekki málsgrundvelli í stefnu og væri of seint fram komin. Því var enn fremur mótmælt að reglan ætti við. Skipið hefði verið skráð á eyjunni Mön.

V

Aðilar deila um hvort stefndi beri bótaábyrgð á slysi stefnanda. Sakarefni málsins er það álitefni hvort stefndi beri bótaábyrgð á slysinu sem stefnandi varð fyrir um borð í skipi stefndu, þann 16. febrúar árið 2000, á grundvelli reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, eins og byggt er á í stefnu. Grundvallarskilyrði reglunnar er að starfsmaður vinnuveitenda hafi valdið tjóni með saknæmum hætti. Sú röksemd stefnanda, sem fyrst kom fram við aðalmeðferð málsins, að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda, samkvæmt 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, og stefndi mótmælti sem of seint fram kominni, verður því að teljast ný málsástæða sem kemur ekki til frekari skoðunar, samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Engin vitni voru að slysi stefnanda og fyrir dóminum bar stefnandi fyrir sig minnisleysi um það. Þá kemur fram í gögnum málsins að vegna afleiðinga slyssins gat lögregla ekki tekið skýrslu af stefnanda um slysið. Með hliðsjón af framburði vitna þykir þó ljóst að erindi stefnanda upp í skorsteinshúsið getur á engan hátt hafa tengst starfi hans hjá stefnda. Slysinu verður þar af leiðandi ekki jafnað til slyss í starfi. Ákvæði 27. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem fjallað er um slysatryggingar og sérregla þeirra um slys sjómanna hefur ekki þýðingu hér þar sem krafa stefnanda um bótaábyrgð er reist á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.

Fyrir liggur að stefndi tilkynnti þýsku lögreglunni strax um slysið og íslensku lögreglunni fimm dögum seinna. Þá er í framlögðum skjölum m.a. að finna tilkynningu stefnda til „Isle of Man Marine Administration“ um slysið, dagsett 21. febrúar 2000, og enn fremur tilkynningu stefnda til Tryggingastofnunar um slysið, dagsetta 17. mars 2000. Jafnframt hefur stefnandi ekki fært nein rök fyrir því að skylt hafi verið að tilkynna Vinnueftirliti um slysið en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eru siglingamál undanþegin lögunum. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að allur vafi um það hver hafi verið tildrög slyssins skuli skýrður stefnanda í hag.

Í málinu er ekkert sem bendir til þess að slysið megi með einum eða öðrum hætti rekja til vanbúnaðar skipsins, saknæmra mistaka eða aðgæsluleysis starfsmanna stefnda, eða að nokkur þau atvik séu fyrir hendi í málinu sem réttlæti það að sönnunarbyrðin fyrir því að stefndu beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda, eins og það er orðað í stefnu, hvíli á stefndu. Í ljósi þess sem þó er upplýst um slysið og aðdraganda þess verður að telja að það verði rakið til óhapps eða gáleysis stefnanda í umrætt sinn. Stefndi er því sýknaður af kröfum stefnanda.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins, og samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 150.000 krónur í málskostnað.

Dóminn kveður upp Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Samskip hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Heimis Hannibalssonar. Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.