Hæstiréttur íslands

Mál nr. 431/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 431/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Magnúsi Birki Magnússyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorðsrof. Ítrekun.

M var ákærður fyrir líkamsárás skv. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa ráðist á V á heimili hennar og gripið í hár hennar, hárreytt hana og fellt í gólfið og eftir að hún hafi staðið upp tekið hana kverkataki og ýtt upp við vegg. M játaði verknaðinn fyrir héraðsdómi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að M hafði áður verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. hegningarlaga og hafði sá dómur ítrekunaráhrif á brot M, skv. 71. gr., sbr. 1. mgr. 218. gr. hegningarlaga. Þá var litið til þess að um skilorðsrof var að ræða og að M réðst á V þó börn hennar væru á heimilinu og yrðu að einhverju leyti vitni að átökunum. Hins vegar var einnig litið til 2. málsliðar 3. mgr. 218. gr. b. laganna þar sem aðdragandi árásarinnar voru erfiðleikar í samskiptum M og V og hún hafði ögrað og hótað honum. Var refsing M ákveðin fangelsi í fimm mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. júní 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði felld niður en til vara mildunar refsingar.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var ákærði dæmdur 19. maí 2003 í þriggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur dómurinn ítrekunaráhrif á brot ákærða samkvæmt 71. gr., sbr. 1. mgr. 218. gr. b. laganna og verður það metið honum til refsiþyngingar. Af hálfu ákæruvalds hefur verið fallist á þá málsvörn ákærða að aðdragandi árásarinnar hafi verið erfiðleikar í samskiptum hans og konunnar og hafi hún ögrað sér og hótað. Við ákvörðun refsingar hans er því einnig litið til 2. málsliðar 3. mgr. 218. gr. b. laganna. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing ákærða ákveðin fangelsi í fimm mánuði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Magnús Birkir Magnússon, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 237.241 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 14. maí 2008.

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 2. janúar 2008 á hendur ákærða, Magnúsi Birki Magnússyni, kt. [...], Einigrund 4 á Akranesi. Málið var dómtekið 23. apríl 2008.

Í ákæruskjalinu segir að málið sé höfðað gegn ákærða

„fyrir líkamsárás á Akranesi með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 15. október 2007, ráðist á Valgerði Magnúsdóttur, kt. [...], á heimili hennar að Heiðargerði 21 og gripið í hár hennar, hárreytt hana og fellt hana í gólfið þannig að hún slóst utan í stól og eldhúsinnréttingu íbúðarinnar. Eftir að henni tókst að standa upp á nýjan leik, tekið hana kverkataki og ýtt henni upp að vegg, allt með þeim afleiðingum að Valgerður hlaut eymsli yfir hægra kjálkalið, eymsli í hnakka þar sem nokkurt hárlos var, marblett og afrifa á hægri olnboga og á hægri upphandlegg, marblett, afrifa og eymslapunktur á brjóstkassa við vinstra herðablað og marblett við litlu tá.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110.  gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

I.

Hinn 16. október 2007 mætti Valgerður Magnúsdóttir á lögreglustöðina á Akranesi og lagði fram kæru vegna líkamsárásar á hendur ákærða. Lýsti Valgerður atvikum þannig að nóttina áður, um kl. 1.30, hefði ákærði komið á heimili hennar og verið drukkinn. Kom fram hjá Valgerði að þau hefðu átt í sambandi um nokkurt skeið en verið hætt saman fyrir um fjórum vikum.

Valgerður sagði að ákærði hefði farið að ásaka hana um að halda framhjá honum. Hann hefði orðið mjög æstur og hún þá beðið hann að fara en hann virt þau tilmæli að vettugi. Valgerður kvaðst hafa orðið mjög hrædd og hrópað á hann en þá hefði ákærði ráðist á hana með því að grípa í hár hennar og snúa hana niður. Kvaðst Valgerður hafa kastast utan í stól og rekist í eldhúsinnréttinguna, en síðan hefði ákærði setið ofan á henni og haldið henni niðri á hárinu.

Þegar hér var komið sagði Valgerður að sonur hennar, 11 ára að aldri, hefði komið og reynt að fá ákærða til að hætta. Valgerður kvaðst síðan hafa náð að rífa sig lausa og standa upp og beðið ákærða að fara. Hann hefði þá gripið með hendinni um kverkar hennar og ýtt henni upp að vegg. Nánar lýsti Valgerður þessu þannig að ákærði hefði kreist háls hennar þannig að hún náði ekki andanum. Við þetta hefði sonur hennar flúið inn í herbergi sitt grátandi. Valgerður sagðist hafa reynt að ná taki á ákærða og slá til hans svo hún losnaði en hann haldið áfram að kreista háls hennar og þrengja að öndunarvegi. Kvaðst Valgerður hafa misst mátt í fótunum og séð allt í móðu en ákærði hefði sleppt henni þegar hún var að missa meðvitund. Þá hefði hún verið fallin í gólfið og skriðið eftir því en það næsta sem hún mundi var að börn hennar, fyrrgreindur sonur 11 ára og dóttir 9 ára, voru hjá henni grátandi. Ákærði hefði þá verið farinn.

II.

                Eftir að ákærði var farinn frá Valgerði hafði hún samband símleiðis við Jón Valgeir Pálsson, barnsföður sinn. Í skýrslutöku hjá lögreglu 24. október 2007 sagði Jón að Valgerður hefði verið í mikilli geðshræringu og beðið sig að koma þegar í stað. Þegar Jón kom á heimili Valgerðar sagði hann að hún og börnin hefðu staðið í einum hnapp í forstofunni og hann strax séð að börnin voru í miklu uppnámi, dóttirin grátandi en sonurinn stjarfur. Þau hefðu svo lýst atvikum fyrir sér.

III.

Næsta morgun eftir umræddan atburð leitaði Valgerður sér aðhlynningar á Heilsugæslustöðinni á Akranesi. Í áverkavottorði Reynis Þorsteinssonar, heilsugæslulæknis, 16. október 2007 segir meðal annars svo:

Við skoðun eru eymsli yfir hægri kjálkalið. Það eru eymsli í hnakka þar sem nokkurt hárlos hefur orðið. Á hægri olnboga sést marblettur og afrifa og sömuleiðis á upphandlegg hægra megin. Á brjóstkassa til hliðar við vinstra herðablað er marblettur, smá afrifa og eymslapunktur. Á vinstri rist er marblettur proximalt við litlu tá.

Valgerður afhenti lögreglu hár til rannsóknar sem hún sagði að ákærði hefði reytt af höfði hennar. Voru hárin send til rannsóknar með smásjárskoðun. Í niðurstöðum þeirrar rannsóknar segir að 25 hár hafi verið valin af handahófi úr hárflókanum en af þeim hafi 23 hár verið á anagen-stigi hárvaxtar, sem þýði að þau hafi ekki fallið eðlilega úr hársverðinum heldur verið kippt úr. Enn fremur hafi nokkur háranna borið þess greinilega merki að þeim hafi verið kippt úr með átaki.

IV.

 Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 24. október 2007 og neitaði að hafa í umrætt sinn ráðist á Valgerði. Þvert á móti sagði ákærði að hún hefði ráðist á sig og klórað í andlitið. Kvaðst ákærði hafa brugðist við því með að snúa hana niður og halda henni á gólfinu. Við yfirheyrsluna var ákærða sýndur hárflóki sem Valgerður hafði látið lögreglu í té og taldi hann að hárið væri úr hárbursta hennar. Í öllu fallið hefði hann ekki hárreitt hana. Aðspurður um börn Valgerðar sagði ákærði að stelpan hefði vaknað og komið en hann hefði ekki orðið var við strákinn.

Fyrir dómi játaði ákærði hins vegar afdráttarlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Ákærði tók þó fram að aðdragandinn hefðu verið erfiðleikar í samskiptum við brotaþola með ögrunum og hótunum í sinn garð. Af hálfu ákæruvaldsins var ekki vefengd sú frásögn ákærða um tildrög málsins.

V.

                Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök og er játning hans studd sakargögnum, sem hér hafa verið rakin í einstökum atriðum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 125. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið, sem réttilega er heimfært til refsilaga í ákæru.

                Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði hlotið sex dóma á árunum 1994 til 2006 fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Þar af hlaut ákærði dóm 19. maí 2003 fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga vegna líkamsárásar gegn lögreglumanni. Fyrir það brot hlaut ákærði þriggja mánaða fangelsi. Næst hlut ákærði dóm 28. september 2005 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og var refsing ákveðin tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár. Ákærða var gerður hegningarauki við þann dóm með dómi 21. febrúar 2006 fyrir hótanir, en það brot var talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing samkvæmt fyrri skilorðsdómi tekin upp og hún dæmd í einu lagi vegna beggja málanna og ákveðin þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár.

                Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í þessu máli rauf hann skilorð dómsins frá 21. febrúar 2006. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður refsing samkvæmt þeim dómi tekin upp og ákærða gerð refsing í einu lagi vegna beggja málanna að teknu tilliti til 77. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar horfir til þyngingar að ákærði lét það ekki aftra sér frá því að ráðast að brotaþola þótt börn hennar væru á heimilinu og urðu þau að einhverju leyti vitni að átökunum. Að þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Þegar virt er brotið og sakaferill ákærða eru engin efni til að skilorðsbinda refsinguna.

                Engan kostnað leiddi af rannsókn og meðferð málsins.

                Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Ákærði, Magnús Birkir Magnússon, sæti fangelsi í fjóra mánuði.