Hæstiréttur íslands

Mál nr. 351/2015


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Barnavernd
  • Gjafsókn


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015.

Nr. 351/2015.

A

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Börn. Forsjársvipting. Barnavernd. Gjafsókn.

Barnaverndarnefnd R krafðist þess að A, sem hafði átt við langvarandi vímuefnavanda að stríða, yrði svipt forsjá dóttur sinnar. Taldi héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að fullnægt væri skilyrðum a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að A yrði svipt forsjá stúlkunnar. Studdist sú niðurstaða meðal annars við álit dómkvadds matsmanns sem taldi forsjárhæfni A verulega skerta nema henni tækist til lengri tíma að halda sig frá fíkniefnum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt ekki væri unnt að fullyrða hvort A tækist að vinna bug á vímuefnavanda sínum renndu gögn málsins stoðum undir að hún ætti enn langt í land með það. Af gögnum málsins yrði jafnframt ráðið að reynt hefði verið til hlítar að beita öðrum og vægari úrræðum, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 2015. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.   

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

Í hinum áfrýjaða dómi eru málsatvik skilmerkilega rakin og gerð grein fyrir djúpstæðum vanda áfrýjanda vegna langvarandi neyslu hennar á vímuefnum. Þótt ekki sé unnt að fullyrða hvort áfrýjanda takist að vinna bug á þeim vanda renna gögn málsins, þar á meðal þau gögn sem lögð voru fyrir Hæstarétt, stoðum undir að áfrýjandi eigi enn langt í land með það.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hafi til hlítar reynt að beita öðrum og vægari úrræðum áður en gerð var krafa um að áfrýjandi yrði svipt forsjá dóttur sinnar, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar er tekið tillit til þess að samhliða máli þessu var flutt samkynja mál milli aðila.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2015.

                Mál þetta var höfðað 29. október 2014 og dómtekið þann 31. mars 2015. Málið er forsjársviptingarmál og sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Stefnandi er Reykjavíkurborg vegna barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Ráðhúsi Reykjavíkur, en stefnda er A, með lögheimili að [...] í [...].

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, B, kt. [...] á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

                Stefnda krefst þess að kröfu stefnanda um sviptingu forsjár verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I.

                B er fædd [...] 2009 og er því á sjötta aldursári. Stefnda, A, er fædd árið [...] og á fimm börn: C, fæddan árið [...], D, fædda árið [...], E, fæddan árið [...], B, fædda árið 2009, og F, fæddan árið [...]. Faðir B er G sem fæddur er [...]. B lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna sem hafa verið í sambúð með hléum.

                Stefnda hefur glímt við vímuefnavanda í langan tíma. Hefur hún ítrekað leitað sér meðferðar, meðal annars á Vogi, Teigi og Landspítalanum. Stefnda hefur verið greind með fíkniheilkenni af völdum alkóhólnotkunar, lyfjafíkn, streituröskun eftir áfall, fíkniheilkenni af völdum annarra örvandi lyfja, þ. á m. koffíns, almenna kvíðaröskun, „mental and behavioural disorders due to use of alcohol – dependence syndrome“ og vandamál tengt félagslegu umhverfi.

                Mál B hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum frá því B var í móðurkviði, en í [...] 2009 barst barnaverndaryfirvöldum í [...] tilkynning frá geðsviði Landspítalans um að stefnda hefði drukkið sig ofurölvi þrátt fyrir að vera komin 35 vikur á leið. Einnig var tilkynnt um vanrækslu eldri barna stefndu. Þegar starfsmenn barnaverndaryfirvalda í [...] ætluðu að boða hana til viðtals hafði stefnda flutt til [...] og fluttist málið því þangað.

                Á meðan fjölskyldan bjó á [...] bárust tilkynningar frá lögreglunni og frá slysa- og bráðadeild Landspítalans vegna ofneyslu móður. Málefni fjölskyldunnar voru könnuð, en fjölskyldan flutti til [...] og þaðan til [...] áður en þeirri könnun lauk og bjó þar fram á haust 2011.

                Samkvæmt framlögðum gögnum höfðu barnaverndaryfirvöld í [...] í [...] ítrekað afskipti af stefndu og börnum hennar, þ. á m. B. Höfðu barnaverndaryfirvöld m.a. áhyggjur af áfengisneyslu stefndu og því að börn stefndu yrðu vitni að heimilisófriði. Dvaldist stefnda ásamt börnum sínum í kvennaathvarfi um hríð. Hlutuðust [...] yfirvöld til um að þrjú elstu börn stefndu, þ.e. C, D og E, yrðu send til föður síns á Íslandi og hafa þau búið hjá honum síðan. Yngsta barn stefndu á þessum tíma, B, var þó enn í umsjá föður síns og stefndu, sem bjuggu saman á þessum tíma.

                Eftir komu stefndu til Íslands frá [...] unnu barnaverndaryfirvöld í Reykjavík að gerð meðferðaráætlunar með foreldrum B. Var máli B lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur 25. maí 2012 eftir meðferðarvinnuna á grundvelli gagna sem bentu til þess að drykkja væri ekki lengur stunduð á heimili B. Þá þáði móðir stuðning frá einni af þjónustumiðstöðvum borgarinnar.

                Haustið 2012 fluttist fjölskyldan í [...]. Í október 2012 bárust barnaverndaryfirvöldum í [...] tilkynningar frá lögreglu og föðurafa B vegna neyslu móður. Samkvæmt tilkynningu föðurafans hafði stefnda verið á drykkjutúr frá mánaðamótum ágúst/september það ár. Þá barst yfirvöldum í sama mánuði tilkynning frá Landspítala þar sem greint var frá sjálfsvígstilraun móður. Ekki náðist í stefndu fyrr en um miðjan október þar sem hún hafði yfirgefið heimilið. Í viðtali hjá barnaverndaryfirvöldum í [...] kom þá fram að vandi hennar hefði vaxið mikið. Í kjölfarið lauk stefnda tíu daga meðferð á Vogi. Eftir meðferð mat stefnda það sjálf svo að inniliggjandi meðferð hentaði henni ekki.

                Í janúar 2013 kom G í viðtal hjá barnaverndaryfirvöldum. Greindi hann frá því að stefnda hefði horfið af heimilinu og væri hún búin að vera í neyslu frá því milli jóla og nýárs. Væri G fluttur með B heim til foreldra sinna. Skömmu fyrir þetta viðtal hafði stefnda sjálf lýst erfiðleikum í samskiptum sínum og G og kvað hann vera í neyslu. Í lok mánaðarins komu þau bæði í viðtal hjá Barnavernd [...]. Hafði stefnda þá skömmu áður haft samband við G og óskað eftir aðstoð hans við að komast heim, en að sögn hennar hafði H, nýr kærasti hennar, meinað henni að fara heim og hefði hann haldið henni sem gísl. Í viðtalinu játaði stefnda að vera langt leidd í neyslu. Þá kom fram að stefnda og G ætluðu að taka saman að nýju.

                Í byrjun febrúar 2013 fór G í afeitrun á Vogi. Á meðan G dvaldi þar hafði lögregla afskipti af heimili stefndu vegna ofbeldismála sem framangreindur H var viðriðinn og B varð vitni að. Þá hvarf stefnda af heimilinu með barnið og fannst eftir nokkra leit barnaverndaryfirvalda á [...] í félagi við H. Þar sem stefnda var ekki tilbúin til að afhenda B ákváðu barnaverndaryfirvöld að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga og taka B úr umsjón stefndu. Var meðal annars byggt á því að B stæði hætta af þeim aðstæðum og félagsskap sem stefnda var í. Málefni B voru lögð fyrir fund barnaverndarnefndar [...] 8. febrúar 2013 og staðfesti nefndin neyðarráðstöfunina. Þá var jafnframt gengið frá vistun B á heimili föðurforeldra og var hún vistuð hjá föðurfólki sínu þar til í júní 2013.

                Á þessum tíma voru gerðar tvær meðferðaráætlanir í samvinnu við G þar sem unnið var að því að tryggja stöðugleika B. G leitaði sér meðferðar og tók á móti uppeldisúrræðinu Áttunni með ágætum árangri. Á sama tíma var stefnda í nær engum samskiptum við Barnavernd í [...] og féll langt niður í neyslu, m.a. sprautuneyslu. Var hún í engum samskiptum við börnin sín.

                Faðir B tók við umsjá hennar sumarið 2013 og naut stuðnings foreldra sinna með hana. Bjó stelpan hjá honum fram í september 2013, en þá fór hún á ný til föðurforeldra sinna þegar faðir hennar fór á sjóinn. Bjó hún þar fram í nóvember 2013.

                Málefni B voru aftur tekin fyrir í desember 2013, en þá voru uppi áhyggjur af því að stefnda myndi sækja hana í leikskólann. Lá þá fyrir að stefnda væri í neyslu. Eftir að stefnda hafði verið lögð inn á geðdeild var ákveðið að aðhafast ekki frekar.

                Foreldrar B hófu sambúð á ný í febrúar 2014 og bjó hún því á ný með báðum foreldrum sínum. Í sama mánuði barst Barnavernd tilkynning þar sem áhyggjum var lýst yfir vegna neyslu foreldra. Af því tilefni mætti stefnda ásamt G í viðtal hjá Barnavernd og viðurkenndu foreldrar að tilkynningin ætti við rök að styðjast. Óskaði G eftir aðstoð við meðferð. Stefnda var á þessum tímapunkti langt gengin með fimmta barn sitt, F.

                B var á leikskólanum [...] frá því í lok október 2012 fram til júlí 2014. Samkvæmt framlögðum bréfum frá leikskólanum var almenn líðan hennar góð og ekki var annað að sjá en að henni liði vel í leikskólanum.

                Málefni B voru flutt frá Barnavernd í [...] til Barnaverndar Reykjavíkur í apríl 2014 eftir að lögheimili stefndu fluttist að [...] í [...]. Í maí 2014 fóru starfsmenn Barnaverndar á heimili foreldra og fóru þeir yfir stöðu mála með foreldrum og þau áhyggjuefni sem voru til staðar. Fram kom hjá stefndu að hún væri búin að vera edrú undanfarna mánuði og hefði hún átt gott tímabil. G hefði reykt kannabis fyrir nokkru en verið edrú síðan. Taldi G neysluna ekki vera vanda hjá sér. Foreldrarnir greindu frá miklum samskiptaerfiðleikum og óskuðu eftir aðstoð hvað þá varðaði.

                Samkvæmt framlögðum gögnum mætti stefnda ekki til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur í byrjun júní 2014. Þá svaraði hún ekki þegar farið var í vitjun til hennar og mætti ekki til fundar á þjónustumiðstöð. Þá mætti stefnda ekki til sálfræðings og G nýtti sér ekki stuðning eftir að hann lauk meðferð á Teigi.

                Í júlí 2014 var lögregla kölluð að heimili stefndu. Hafði stefnda þá ógnað G með hnífi en hann hafi náð að yfirbuga hana. Greindi G lögreglu frá því að hann hefði komið á heimilið eftir að B hefði hringt í sig og sagt að hún gæti ekki vakið stefndu. Þegar hann hefði vakið máls á drykkju stefndu hefði hún reiðst og ráðist á hann með hnífi. Að sögn lögreglu var stefnda sjáanlega mjög ölvuð. Starfsmaður bakvaktar Barnaverndar kom á staðinn og var ákveðið að G skyldi fara með börnin á heimili systur sinnar í [...]. Í kjölfar þessa óskaði Barnavernd Reykjavíkur eftir því að stefnda kæmi í viðtal og samþykkti óboðað eftirlit en stefnda hafnaði hvoru tveggja. 

                Hinn 12. ágúst 2014 þurfti Barnavernd Reykjavíkur aftur að hafa afskipti af stefndu vegna mikillar neyslu. Var þá tekin ákvörðun um að faðir B myndi dvelja um tíma með henni og bróður hennar á Visaheimili barna.

                Bókað var um mál B á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 14. ágúst 2014. Mat fundarins var að stefnda hefði skapað telpunni verulega mikla hættu með hegðun sinni og ljóst sé að grípa þurfi hið fyrsta inn í aðstæður stelpunnar og tryggja þær. Lagt er til að leitast verði eftir samþykki foreldra um vistun telpunnar utan heimilis fram að fundi barnaverndarnefndar 2. september 2014. Þá töldu starfsmenn Barnaverndar mikilvægt að stefnda myndi leita sér inniliggjandi meðferðar til þess að freista þess að takast á við vímuefnavanda sinn. Daginn eftir, 15. ágúst, undirrituðu foreldrar samþykki fyrir vistun B á vegum Barnaverndar til 2. september 2014. Á sama tíma kom fram hjá stefndu að hún væri hætt að drekka og væri í góðu sambandi við ráðgjafa á Landspítalanum. Ef það nægði ekki taldi stefnda sig þurfa að fara í inniliggjandi meðferð. Stefnda óskaði eftir því að fá að hitta börnin og vera með þeim á Vistheimili barna fram að fundi nefndarinnar. Stefnda hitti B 17. ágúst og að sögn starfsmanna Barnaverndar gekk umgengnin vel. Síðar þann sama dag var þó árangurslaust reynt að hafa upp á stefndu þar sem hún hafði haft uppi sjálfsvígshótanir í smáskilaboðum til föður B.

                Hinn 20. ágúst 2014 hafði stefnda samband við starfsmann Barnaverndar og greindi frá mikilli vanlíðan og kvíða. Sagðist stefnda vera í miklu uppnámi ein heima hjá sér. Fram kom í símtalinu að stefnda hefði fengið pláss á deild 33a á Landspítalanum sem hún vildi þiggja, en þó ekki ef hún fengi að fara og dvelja með börnum sínum á Vistheimili barna. Lagt var að stefndu að leggjast inn á spítalann og upplýst um að faðir barnsins myndi dvelja á vistheimilinu.

                Bókað var um málefni telpunnar á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar 21. ágúst 2014, þar sem lagt var til að gerður yrði umsjársamningur við föður til sex mánaða á meðan þess yrði freistað að stefnda tæki á vímuefnavanda sínum. Jafnframt var lagt til að foreldrar undirgengjust forsjárhæfnimat og fylgst yrði með líðan telpunnar á tímabilinu. Á ný var bókað um málefni telpunnar á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar 28. ágúst 2014, og lagt til að stefnda fengi að hitta barnið daglega á meðan hún væri í meðferð enda undirgengist hún áfengis- og vímuefnapróf á tímabilinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum mun stefnda hafa hætt meðferð þar og hafið neyslu á ný um miðjan ágúst. Málefnum stefndu var fylgt eftir af starfsmönnum spítalans næstu daga og þáði hún að lokum innlögn á 33a á tímabilinu 20. til 26. ágúst 2014. Í byrjun september mætti stefnda ekki í boðað viðtal á Landspítalanum og heyrðist ekkert frá henni. Að mati starfsmanna Landspítala þarfnaðist stefnda verulegs félagslegs og fjárhagslegs stuðning til að halda börnum sínum. Hún heimsótti börn sín á vistheimilið 29. ágúst en mætti ekki dagana 30. ágúst til 1. september 2014.

                Mál B var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 2. september 2014. Var þar úrskurðað að hún skyldi vistuð utan heimilis í tvo mánuði. Daginn eftir viðurkenndi stefnda í viðtali hjá Barnavernd að vera í neyslu.

                Mál B var enn tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar 4. september 2014. Í bókun fundarins kemur meðal annars fram að stefnda sé enn í neyslu og að mál telpunnar verði lagt að nýju fyrir fund barnaverndarnefndar með tillögu um að ákveðinn verði framtíðardvalarstaður stelpunnar. Lagt er til að leitað verði eftir samþykki stefndu fyrir því að hún afsali sér forsjá telpunnar, að öðrum kosti verði gerð krafa fyrir héraðsdómi um að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar.

                Dagana 8. og 9. september 2014 kom stefnda í viðtal á skrifstofu Barnaverndar í tengslum við umgengni við yngsta barn sitt. Stefnda undirgekkst jafnframt vímuefnapróf og blés í áfengismæli. Ekkert áfengi mældist í stefndu og önnur vímuefni fundust ekki í mælanlegu magni. Hinn 10. september 2014 var stefnda innrituð til meðferðar á Sjúkrahúsið Vog. Yfirgaf hún meðferðina án samráðs við starfmenn 19. s. m. Af gögnum málsins má sjá að stefnda hélt neyslu áfram og var í slæmu andlegu ástandi, m.a. í sjálfsvígshugleiðingum og átti ekki fastan samastað. Þá var hún flutt á sjúkrahús þann 9. október, illa farin eftir líkamlegt ofbeldi.

                Mál B var á ný lagt fyrir fund barnaverndarnefndar 16. september 2014. Þar var meðal annars bókað að óskað yrði aðstoðar lögmanns við að afla samþykkis stefndu fyrir breytingu á lögheimili telpunnar þannig að hún hefði fasta búsetu hjá föður sínum og hann yrði aðalumönnunaraðili hennar. Afstaða stefndu lá ekki fyrir á fundinum. Sama dag gekkst faðir undir vímuefnapróf og var hann hreinn fyrir öllum mældum efnum. Jafnframt undirritaði faðir samning um að hann tæki við umsjá stelpunnar og að gerð yrði stuðningsáætlun.

                Hinn 14. október 2014 var ákveðið að fela borgarlögmanni að gera kröfu um að stefnda yrði svipt forsjá B.

                Frá því mál þetta var höfðað hefur B verið í umsjá föður síns. Hinn 2. desember var I sálfræðingur dómkvödd til að leggja mat á forsjárhæfni stefndu, persónugerð hennar og tengsl hennar við börn sín eftir því sem tök væru á. Matsmaður skilaði matsgerð þann 26. janúar sl. og er efni hennar rakið í næsta kafla.

                Gögn málsins benda til að stefnda hafi verið í neyslu með litlum hléum frá málshöfðun. Hún lagðist inn á geðdeild LSH í byrjun mars sl. og var ekki í ástandi til að gefa aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins sem fyrirhuguð var 13. mars sl. Var aðalmeðferð málsins frestað af þeim sökum til 31. mars. Stefnda fór af geðdeild yfir á Vog en yfirgaf staðinn án samráðs við lækna 28. eða 29. mars sl. Þegar aðalmeðferð málsins fór fram var ekki vitað hvar stefnda héldi sig og hún mætti ekki fyrir dóm til skýrslugjafar.

                I matsmaður gaf skýrslu fyrir dómi auk félagsráðgjafanna J og K, starfsmanna stefnanda.

II.

                Í matsgerð I sálfræðings, sem dagsett er 26. janúar sl., er bakgrunnur stefndu rakinn. Kemur þar meðal annars fram sú frásögn stefndu að móðir hennar hafi verið alkóhólisti og hafi mikið verið drukkið á æskuheimili stefndu. Hafi stefnda aldrei haft stuðning frá móður sinni en samband hennar við föður sinn hafi verið náið og gott. Stefnda byrjaði að neyta áfengis 14 ára gömul og notaði hún síðan áfengi til að geta tjáð tilfinningar sínar og skoðanir. Hafi hún byrjað að neyta ólöglegra vímuefna, svo sem hass og amfetamíns, þegar hún kynntist G, sambýlismanni sínum og barnsföður. Neysla hennar hafi orðið enn harðari þegar hún kynntist H, föður yngsta barns stefndu. Þá segir í matsgerðinni að stefnda hafi notið stuðnings frá föður sínum og föðurforeldrum. Loks kemur fram það álit stefndu að hún hafi sinnt þörfum barna sinna mjög vel og sé ástrík móðir.

                Í matsgerðinni er greint frá niðurstöðum fjögurra sálfræðilegra prófa: PAI-persónuleikaprófs, DIP-Q-skimunar á persónuleikaröskun, DASS-spurningalista um líðan og Raven-greindarprófi. Niðurstaða þessara rannsókna sýnir að stefnda mælist í efri mörkum meðalgreindar en að hún glími við mikinn vímuefnavanda sem sett hafi mark sitt á líf hennar og persónuleika. Samandregin niðurstaða PAI-persónuleikaprófsins er á þá leið að stefnda gangist við mikilvægum vandamálum sem herji á hana og jafnframt að hún átti sig á að hún þurfi á faglegri ráðgjöf og meðferð að halda til að takast á við vandann. Þá kemur fram á DIP-Q prófinu að stefnda sýnir einkenni persónuleikaröskunar sem einkennist af erfiðleikum í geðtengslum og miklum kvíða í nánum samskiptum. Segir í matsgerðinni að einstaklingar með slíka röskun séu oft hræddir við nánd, þeir treysti ekki öðrum og séu oft vinalausir fyrir utan nánustu fjölskyldu. Þessi röskun sé talin eiga sér rætur í stöðnuðum geðtengslum á frumstigi.

                Þá er í matsgerðinni greint frá niðurstöðum DASS-spurningalista um líðan. Segir að svör stefndu bendi ekki til þess að hún glími við marktæk einkenni kvíða, þunglyndis eða streitu þar sem einkennin hafi í öllum tilfellum verið innan eðlilegra marka. Fyrir dómi sagði matsmaður þó að hún teldi stefndu bæði kvíðna og þunglynda og að þessi kvarði um líðan væri ekki nægilega marktækur.                 Í matsgerðinni er sagt frá hálftíma umgengni stefndu við B í janúar 2015 sem matsmaður fylgdist með. Segir að vel hafi farið á með þeim mæðgum og hafi samband þeirra virst innilegt og hlýtt. Í niðurstöðu matsgerðar segir að margt bendi til að þau tímabil þar sem stefnda hefur ekki verið í óreglu hafi hún verið umhyggjusöm móðir. Í tali hennar gæti sársauka þegar hún ræðir um börn sín. Þá hafi stefnda heilbrigð viðhorf til uppeldis og reyni ekki að réttlæta áhrif neyslu sinnar á börnin.

                Enn fremur kemst matsmaður að þeirri niðurstöðu að vandamál stefndu tengist miklum áfengisvanda og neyslu ólöglegra vímugjafa sem hafi verið nokkuð viðvarandi á undanförnum árum. Það sé sá vandi sem hafi gert stefndu vanhæfa til að fara með forsjá barna sinna. Vandinn hafi ógnað lífi og velferð barna hennar þannig að forsjárhæfni hennar hafi verið verulega skert á undanförnum árum. Hins vegar telur matsmaður að stefnda búi yfir ágætri greind, tengslahæfni og persónugerð sem geri hana hæfa til að fara með forsjá barna sinna. Matsmaður telur það vita á gott að stefnda horfist í augu við vanda sinn sem sé forsenda þess að hún geti nýtt sér stuðning til að ná tökum á lífi sínu en það sé ekki fyrr en hún hafi náð tökum á vanda sínum að hægt verði að segja að stefnda hafi fullnægjandi forsjárhæfni. Loks segir matsmaður að við mat á forsjárhæfni einstaklinga sem hafi verið í langvarandi ofneyslu vímugjafa sé gjarnan miðað við að ástand viðkomandi sé orðið nokkuð stöðugt hafi hann haldið sig frá öllum vímugjöfum í eitt ár eða lengur. Stefnda hafi að eigin sögn verið edrú frá því í október síðastliðnum þannig að hún eigi enn talsvert langt í land svo unnt sé að leggja mat á stöðugleika hennar. Matsmaður álítur að stefnda þurfi þéttan stuðning fagaðila eins og sálfræðinga og félagsráðgjafa til að eiga möguleika á varanlegum bata.

III.

                Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um forsjársviptingu á því að skilyrði ákvæða a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, séu uppfyllt í máli þessu. Það sé mat stefnanda, með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu, að fullvíst sé að daglegri ummönnun telpunnar sé hætta búin fari stefnda með forsjá hennar. Stefnandi telur að stuðningsaðgerðir á grundvelli laganna dugi ekki til að tryggja öryggi telpunnar og fullnægjandi uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefndu.

                Með hagsmuni B að leiðarljósi og með tilliti til ungs aldurs hennar telur stefnandi brýnt að hún fái sem fyrst stöðugar uppeldisaðstæður eftir áfallasama frumbernsku. Telur stefnandi mikilvægt að aðstæður hennar verði tryggðar héðan í frá og til frambúðar og að hún fái öruggar og viðunandi uppeldisaðstæður þar sem hún nýtur verndar og velfarnaðar hennar sé gætt í hvívetna. B búi nú með föður sínum og föðurafa á heimili þess síðarnefnda í [...] og byrjaði á leikskóla í nágrenni við heimilið nú í byrjun október. Er vel hlúð að telpunni jafnt heimafyrir sem á leikskólanum og er réttur hennar til viðunandi uppeldis og umönnunar tryggður.

                Að mati stefnanda hefur verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefndu um málið og aðstæður hafi leyft. Stefnandi telur stuðningsaðgerðir fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefndu. Stefnda á langa sögu um neyslu vímuefna og erfiðleika og hefur henni ekki tekist að halda vímuefnabindindi þrátt fyrir mikinn stuðning. Stefnandi telur það ekki þjóna hagsmunum B að búa við frekari óstöðugleika í búsetu í takt við framgang meðferðar hjá stefndu hverju sinni. Það sé mat stefnanda að stefnda eigi enn langt í land með að ná tökum á vímuefnavanda sínum, sem sé alvarlegur og langvarandi, og að hagsmunir mæðgnanna fari ekki saman í þeirri vegferð. Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tæk nú, en brýna nauðsyn ber til að skapa B til frambúðar það öryggi og umönnun sem hún á rétt á að búa við lögum samkvæmt. Geti þau stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða ekki megnað að skapa telpunni þau uppeldisskilyrði sem hún á skýlausan rétt til hjá stefndu. Að mati stefnanda hefur vægustu ráðstöfunum ávallt verið beitt til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og er krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.

                Stefnandi segir það frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Það sé almenn skylda foreldra, sem lögfest sé í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga, að sýna börnum virðingu og umhyggju, auk þess sem óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.

IV.

                Stefnda lítur svo á að kröfur stefnanda um forsjársviptingu gangi gegn hagsmunum stúlkunnar. Kröfur stefnanda séu of íþyngjandi fyrir stúlkuna sem þarfnist umönnunar stefndu. Megi sjá þess fjölda dæma í gögnum málsins að stúlkan sakni stefndu þegar hún er í vistun utan heimilis. Vísar stefnandi til dæmis í skýrslu L, félagsráðgjafa hjá Barnaverndarstofu, dagsetta 30. júní 2013, þar sem segir að stúlkan sakni stefndu og tali mikið um hana. Einnig er haft orð á því í vottorði frá Leikskólanum [...], sem dagsett er 3. júní 2013, að fjarvera frá stefndu kunni að valda vanlíðan hjá stúlkunni, að hún væli þá meira, sækist frekar eftir athygli og hlýði ekki eins vel. Þá ræði hún mikið um stefndu. Sýni stúlkan þessa hegðun þegar hún hafi verið í langri fjarveru frá stefndu. Telur stefnda að krafa stefnanda gangi þannig gegn meginreglu barnalaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 76/2003, og meginreglu barnaverndarlaga sbr. 1. mgr. 4. gr. l. nr. 80/2002 um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um mál þess.

                Stefnda telur að meðalhófs hafi ekki verið gætt í meðferð á máli stefndu og barna hennar. Kveðst hún hafa farið út af heimilinu þegar hún féll á vímuefnabindindinu í ágúst svo koma mætti börnum hennar og þáverandi sambýlismanni stefndu til aðstoðar á heimilinu á meðan stefnda leitaði sér aðstoðar fíkniteymis á LSH. Hins vegar hafi þáverandi sambýlismaður stefndu haldið til á Vistheimili barna með aðstoð Barnaverndar og oft og tíðum hafi umgengni stefndu við börnin verið skert. Þá telur stefnda það einnig brot á meðalhófi hvernig faðir stúlkunnar virðist hafa stjórnað umgengni stefndu við stúlkuna að undanförnu þar sem honum gangi það eitt til að mati stefndu að hefna sín á stefndu. Það fái hann að gera með aðstoð og aðkomu barnaverndar sem stefnda telur afar óeðlilegt.

                Loks telur stefnda að stefnandi hafi brotið gegn jafnræðisreglu þeirri sem fram kemur í 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þegar hann beitti foreldra stúlkunnar mjög svo ólíkum þvingunum þrátt fyrir að bæði ættu við vímuefnavanda að stríða. Þannig hafi faðir, þrátt fyrir að vera bæði í neyslu og hafa beitt ofbeldi, fengið stefnanda á sitt band á sama tíma og stefnandi hafi ýtt undir aðskilnað stefndu og dóttur hennar. Það telur stefnda skýrt brot á jafnræðisreglu þeirri sem birtist í barnaverndarlögum sem og í stjórnarskrá.

                Telur stefnda sig vera mun betur í stakk búna til að annast dóttur sína en barnsföður sinn. Mál hennar hafi verið í vinnslu hjá geðsviði Landspítala og þar fái hún mikinn stuðning. Hún hafi sjálfviljug farið í innlögn og frá fyrsta degi verið í góðri samvinnu við teymið sem þar starfar. Segir hún ástæðu þess að hún féll vera þá að vegna stöðugrar neyslu föður stúlkunnar reynist sér erfitt að vera edrú á heimili hans. Segir stefnda hann vera í neyslu örvandi efna og kannabis og sú neysla hafi vond áhrif á sig. Nú ætli hún hins vegar að standa á eigin fótum enda sé það mun gæfuríkara fyrir sig og börn sín. Vísar stefnda m.a. í skýrslu M félagsráðgjafa frá 23. apríl 2014, þar sem fram komi að faðir stúlkunnar leiti í kannabisreykingar undir álagi og að hann þurfi að leita sér aðstoðar vegna tilfinningavanda síns. Þar segi einnig að merki séu um andlegt ofbeldi hans í garð stefndu. Segir stefnda að ítrekað hafi þurft að hafa afskipti af heimili hennar þegar þau faðir stúlkunnar hafi búið saman. Eina langa tímabilið sem stefnda hafi verið edrú, og máli hennar og barna hennar hjá Barnavernd verið lokað, hafi verið þegar stefnda bjó ein hér á landi með börnum sínum en faðir stúlkunnar úti í [...]. Stefnda heldur því fram að í þeim tilvikum sem stúlkan hafi búið hjá föður sínum samkvæmt ákvörðun Barnaverndar hafi hún í raun verið í umsjá föðurforeldra. Sé því ekki rétt að hún hafi verið í hans umsjá frá júní til september 2013 heldur hafi föðurforeldrar meira eða minna annast stúlkuna.

V.

                Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, B, sem nú er tæplega sex ára gömul. Við úrlausn þess hvort fallist verði á þá kröfu verður að líta til ákvæða barnaverndarlaga nr. 80/2002 og sjónarmiða sem sú löggjöf er byggð á. Er hér einkum átt við þá grunnreglu að börn eigi rétt á vernd og umönnun sem hæfir aldri þeirra og þroska, sbr. 1. gr. laganna, og skyldu barnaverndaryfirvalda til að stuðla að því að þau njóti þess réttar og að ákvarðanir þeirra séu teknar með hagmuni barnsins að leiðarljósi. Jafnframt verður að gæta sjónarmiða um meðalhóf, sem hefur þá þýðingu í þessu máli að ekki verður fallist á kröfu stefnanda nema dómurinn telji að önnur og vægari úrræði hafi verið fullreynd án viðunandi árangurs, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna.

                Svo sem ítarlega er rakið í atvikalýsingu dómsins hófust afskipti barnaverndaryfirvalda af B þegar þegar stefnda gekk með hana og hafa þau síðan haft regluleg afskipti af umönnun hennar. Af gögnum málsins verður ráðið að barnaverndaryfirvöld hafi á þessu tímabili einu sinni lokið máli tengdum börnum stefndu en það var í maí 2012. Í október sama ár hófust afskipti á ný með því að tilkynning barst barnaverndaryfirvöldum um neyslu hennar. Gripið var til neyðarráðstafana samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga í febrúar 2013 og var barnið þá fært úr umsjá stefndu um tíma. Þá samþykkti hún og barnsfaðir hennar að barnið yrði vistað utan heimilis í ágúst 2014 en frá þeim tíma hefur barnið verið í umsjá föður síns og föðurforeldra.

                Stefnda á við alvarlegan fíkniefnavanda að etja og hefur svo verið með stuttum hléum um árabil. Stefnda hefur, m.a. í viðtölum við starfmenn stefnanda og við matsmann, gengist við þessum vanda. Af gögnum málsins, og ekki síst nýjustu gögnum um stöðu stefndu á meðan mál þetta hefur verið rekið fyrir dómi, er ljóst að hún hefur ekki náð tökum á þeim vanda. Í matsgerð dómkvadds matsmanns er haft eftir stefndu á fundi með matsmanni í janúar sl. að hún hafi verið edrú frá því í október á síðasta ári. Sú staðhæfing kemur ekki heim og saman við önnur gögn málsins, m.a. upplýsingar frá lögreglu og Landspítalanum. Þessi gögn benda til þess að lítið hlé hafi orðið á neyslu stefndu á þessum tíma. Þá var aðalmeðferð máls þessa, sem hafði verið ákveðið að fram færi þann 13. mars 2015, frestað þar sem stefnda hafði þá verið lögð inn á geðdeild LHS, vegna vandamála sem tengdust neyslu. Í framhaldi af meðferð þar mun hún hafa lagst inn á afeitrunardeild SÁÁ á Vogi þar sem hún dvaldi til 28. eða 29. mars þegar hún yfirgaf meðferð án samráðs við lækna. Þá mætti stefnda ekki fyrir dóm til að gefa aðilaskýrslu svo sem til stóð og hefur ekki gefið skýringar á fjarveru sinni enda hefur ekki til hennar náðst. Með hliðsjón af framangreindu má slá því föstu að frásögn hennar hjá matsmanni, um að hún hafi hætt neyslu fíkniefna í október, sé ekki rétt.

                Bæði í matsgerð dómkvadds matsmanns og í gögnum frá stefnanda kemur fram að náin tengsl eru milli stefnanda og dóttur hennar, B. Samskipti þeirra mæðgna er lýst af báðum þessum aðilum sem kærleiksríkum. Þá er í gögnum stefnanda haft eftir föður B, að hún sakni mömmu sinnar og vilji gjarnan hitta hana. Að mati dómsins bera þessi gögn með sér að samband þeirra mæðgna, þegar stefnda er allsgáð, séu stelpunni mikilvæg. Á hinn bóginn liggur fyrir að stefnda hefur ítrekað, og stundum á löngum tímabilum, ekki verið í ástandi til að fara með forsjá dóttur sinnar og ekki alltaf hirt um að sinna umgengni við hana þegar hún hefur verið í umsjá annarra á þeim tímabilum þegar neysla stefndu hefur verið mikil. Í niðurstöðum matsgerðar dómskvadds matsmanns kemur fram að vandamál móður, sem birtast í miklum áfengisvanda og neyslu ólöglegra vímugjafa, hafi verið viðvarandi á undanförnum árum og að þau hafi ógnað lífi og velferð barna hennar og gert hana vanhæfa til að fara með forsjá þeirra.

                Með hliðsjón af því sem að framan er rakið um langvarandi fíkniefnavanda stefnu, sem hún hefur ekki náð tökum á, er það niðurstaða dómsins að hún sé ófær um að fara með forsjá dóttur sinnar. Styðst þessi niðurstaða jafnframt við álit dómkvadds matsmanns, sem telur stefndu með verulega skerta forsjárhæfni nema henni takist til lengri tíma að halda sig frá fíkniefnum. Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda brjóti í bága við meginreglu um meðalhóf stjórnsýsluréttar, sbr. ákvæði 2. mgr. 29. gr. barnaverndaralaga og telur að önnur og vægari úrræði en forsjársvipting hafi ekki verið fullreynd, svo sem tímabundin vistun til 12 mánaða.

                Við mat á því hvort gætt hafi verið meðalhófs í meðferð málsins hjá stefnanda og öðrum barnaverndaryfirvöldum verður að hafa í huga að markmið ráðstafana þeirra er að tryggja að þörf B fyrir öruggt umhverfi og viðunandi uppeldisskilyrði verði mætt. Óhætt er að fullyrða að aðbúnaður hennar hafi verið óviðunandi stóran hluta ævi hennar og farið versnandi síðasta árið áður en hún var vistuð utan heimilis stefndu. Því er að mati dómsins brýnt að sem allra fyrst verði leitast við að tryggja varanlegar úrbætur henni til handa.

                Svo sem fram kemur í síðari málslið 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga á stefnanda í þessu skyni að leitast við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og gæta meðalhófs við ákvarðanatöku, sbr. 2. mgr. 29. gr. sömu laga. Er það mat dómsins að stefnandi og önnur barnaverndaryfirvöld hafi í starfi sínu farið að framangreindum ákvæðum. Af gögnum málsins er ljóst að um langt skeið hafa verið reynd margvísleg úrræði til að koma stefndu til aðstoðar. Þannig hefur verið haft eftirlit með heimili stefndu, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga, hún hefur notið stuðnings til að fara í meðferð og í því skyni m.a. verið gerðar meðferðaráætlanir, sbr. 2. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga, börn stefndu hafa verið tímabundið vistuð utan heimilis, sbr. 27. gr. barnaverndarlaga, og loks hefur verið gripið til neyðarráðstafana í skilningi 31. gr. barnaverndarlaga. Þessi úrræði hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Þá verður ekki séð, með hliðsjón af gögnum um núverandi ástand stefndu, að hún hafi náð tökum á vanda sínum og verður að telja ólíklegt að henni muni takast það á næstu misserum. Jafnvel þótt stefndu auðnaðist að hætta neyslu nú og hefja meðferð liggur fyrir að langur tími mun líða þar til hún verður á ný hæf til að fara með forsjá dóttur sinnar. Því er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi fullreynt önnur og vægari úrræði áður en til málshöfðunar þessarar kom og jafnframt er það mat dómsins, með hliðsjón af stöðu stefndu nú, að það samræmist ekki hagsmunum B að grípa til tímabundinnar vistunar eða annarra úrræða sem væru minna íþyngjandi fyrir stefndu.

                Þá byggir stefnda á því að stefnandi hafi ekki gætt jafnræðis milli hennar og barnsföður hennar við meðferð málsins. Að mati dómsins hefur þessi málsástæða ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins, auk þess sem ekki verður annað séð en stuðningur stefnanda gagnvart barnsföður stefndu hafi haft það að markmiði að bæta uppeldisskilyrði B og í reynd skilað nokkrum árangri í því efni.

                Með hliðsjón af öllu framanröktu verður krafa stefnanda tekin til greina.

                Stefnandi krefst ekki málskostnaðar. Stefnda nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi, dags. 10. apríl 2015. Greiðist því allur málskostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadóttur hdl., sem eru hæfilega ákveðin 400.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Við ákvörðun um málskostnað er tekið mið af því að mál þetta er rekið samhliða máli nr. E-4434/2014 milli sömu aðila.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari, sem jafnframt er dómsformaður, og sálfræðingarnir Álfheiður Steinþórsdóttir og Gunnar Hrafn Birgisson kveða upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Stefnda, A, er svipt forsjá dóttur sinnar, B. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 400.000 krónur.