Hæstiréttur íslands

Mál nr. 384/2011


Lykilorð

  • Bifhjól
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Sakarskipting


                                     

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012.

Nr. 384/2011.

Vörður tryggingar hf.

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Frosta Þórðarsyni

(Kristján B. Thorlacius hrl.)

og gagnsök

Bifhjól. Líkamstjón. Skaðabætur. Stórkostlegt gáleysi. Sakarskipting.

F varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi er hann, á flótta undan lögreglu, keyrði aftan á bifreið og féll við það af bifhjóli sem hann ók. Deildu aðilar um það hvort F hefði með akstri sínum umrætt sinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og þannig fyrirgert rétti sínum til bóta úr slysatryggingu ökumanns sem V hf. hafði veitt vegna bifhjóls hans, sbr. 92. gr. umferðarlaga. Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að F hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, sem leitt hefði til líkamstjóns hans og því skyldi hann sjálfur bera líkamstjón sitt að hálfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2011. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 3. ágúst 2011. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 13.247.665 krónur með 4,5% ársvöxtum af 12.367.624 krónum frá 11. júní 2007 til 3. október 2008, en af 13.247.665 krónum frá þeim degi til 23. mars 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Aðaláfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti fallið frá þeirri málsástæðu, sem haldið var fram í héraði, að fella beri niður kröfu gagnáfrýjanda eða lækka hana á grundvelli 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem gagnáfrýjandi eigi rétt á skaðabótum úr ábyrgðartryggingu bifhjóls ferðafélaga síns Ásmundar Jespersen.

Gagnáfrýjandi krefst bóta úr slysatryggingu ökumanns sem aðaláfrýjandi hafði veitt vegna vélhjóls gagnáfrýjanda VE 086, sbr. 92. gr. umferðarlaga. Í skilmálum vátryggingarinnar segir að um hana gildi ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í 2. mgr. 27. gr. þeirra laga er kveðið á um að hafi  vátryggður valdið vátryggingaratburði með háttsemi sem telja verður stórkostlegt gáleysi losni félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta. Við mat á ábyrgð félagsins skuli líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkninefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.

Fallist er á með héraðsdómi að sú háttsemi gagnáfrýjanda að ætla að aka framúr bifreiðinni PT 345 þar sem framúrakstur var bannaður og á hraða sem sannað er að hafi verið meiri en leyfður hámarkshraði á veginum, þar sem slysið varð, hafi verið honum saknæm. Að teknu tilliti til þess hvernig slysið bar að og atvika að öðru leyti, sem skilmerkilega eru rakin í hinum áfrýjaða dómi, verður fallist á að gagnáfrýjandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, sem leitt hafi til líkamstjóns hans. Með vísan til framangreinds, þess að gagnáfrýjandi bar engin merki um undanfarandi áfengis- eða fíkniefnaneyslu og forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður fallist á þá niðurstöðu hans, að aðaláfrýjandi skuli bæta líkamstjón gagnáfrýjanda að hálfu.

Gagnáfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti lækkað kröfu sína vegna leiðréttingar á útreikningi hennar. Krafan sætir ekki tölulegum andmælum aðaláfrýjanda.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað og málskostnað verða staðfest.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í segir dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði gagnáfrýjanda, Frosta Þórðarsyni 6.623.833 krónur með 4,5% ársvöxtum af 6.183.812 krónum frá 11. júní 2007 til 3. október 2008, af 6.623.833 krónum frá þeim degi til 23. mars 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Aðaláfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð, 600.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2011.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 30. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Frosta Þórðarsyni, Sléttuvegi 3, Reykjavík, með stefnu birtri 4. október 2010, á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík. 

Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefnda verði gert að greiða honum 14.664.765 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 11. júní 2007 til 23. mars 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Til vara krefst stefndi þess að dómkrafa stefnanda verði lækkuð, dráttarvextir dæmdir frá dómsuppsögudegi og málskostnaður látinn niður falla.

II

Málavextir

Hinn 11. júní 2007, skömmu eftir miðnætti, ók stefnandi bifhjóli sínu, skráningarnúmer VE-086, vestur Suðurlandsveg ásamt Ásmundi Jespersen. Bifhjól stefnanda var þungt bifhjól tryggt hjá stefnda. Bifhjól Ásmundar var einnig þungt bifhjól með skráningarnúmerinu YJ-959, tryggt hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Upplýst er í málinu að stefnandi og Ásmundur óku bifhjólunum á ofsahraða upp Kambana og í átt til Reykjavíkur og reyndi lögregla ítrekað að stöðva för þeirra. Er þeir voru komnir inn fyrir borgarmörk Reykjavíkur beygðu þeir af hringtorgi við Rauðavatn inn Breiðholtsbraut. Stefnandi ók eftir Breiðholtsbraut og var hann á undan Ásmundi sem fylgdi honum eftir á bifhjóli sínu. Fljótlega eftir að stefnandi ók yfir gatnamót Breiðholtsbrautar og Selásbrautar ók hann aftan á fólksbifreiðina PT-345 með þeim afleiðingum að hann féll af hjóli sínu. Kom Ásmundur þá á eftir honum og virðist bifhjól hans hafa farið á eða utan í stefnanda. Í skýrslum lögreglu kemur fram að aðdragandinn að slysinu hafi verið sá að ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi talið að lögreglubifreið, sem kom úr gagnstæðri átt, væri að gefa sér merki um að stöðva bifreiðina og hafi hann því dregið úr ferðinni og beygt út í hægri kant. Í framhaldinu hafi stefnandi ekið bifhjóli sínu á bifreiðina.

Er lögregla og sjúkralið kom á vettvang var stefnandi meðvitundarlaus, andaði illa og talsvert blæddi úr vitum hans. Á slysadeild voru teknar af stefnanda röntgenmyndir sem sýndu brot á öðrum hálslið og hliðrun á 2. og 3. hálslið og var sterkur grunur um áverka á mænu. Gerð var aðgerð á vinstri upphandlegg stefnanda og daginn eftir var hálsbrot hans spengt. Í kjölfarið var stefnandi lagður inn á gjörgæsludeild LSH. Fljótlega kom í ljós að um alvarlegan mænuáverka var að ræða með lömun í öllum útlimum og bol, skertu skyni, blöðrulömun og skertri öndun. Stefnandi var einnig háður öndunarvél. Stefnandi útskrifaðist af gjörgæsludeild 1. ágúst 2007 og lá í kjölfarið á lungnadeild LSH í tvær vikur, en var síðan lagður inn á endurhæfingardeild LSH að Grensási þar sem hann var skráður inniliggjandi til 31. október 2008.

Í málinu liggja fyrir tvær greinargerðir sem Magnús Þór Jónsson, prófessor, vann vegna rannsóknar lögreglu á hraðakstri stefnanda og Ásmundar og slysinu. Í annarri greinargerðinni kemur fram að ætlaður meðalhraði bifhjólanna frá radarmælingum efst í Kömbunum að Breiðholtsbraut hafi verið 187 kílómetrar á klukkustund. Í hinni greinargerðinni kemur fram að ætlaður hraði bifhjóls stefnanda er það ók á bifreiðina PT-345 á Breiðholtsbraut hafi verið 95 kílómetrar á klukkustund, lágmarkshraði 78 kílómetrar á klukkustund en hámarkshraði 106 kílómetrar á klukkustund.

Með ákæru lögreglustjórans á Selfossi voru stefnandi og Ásmundur ákærðir fyrir umferðarlagabrot og brot gegn lögreglulögum með því að hafa ekið bifhjólum sínum of hratt, ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu og ekið gegnum vegartálma. Þá var Ásmundi gefið að sök hegningarlagabrot með því að hafa ekið yfir stefnanda á Breiðholtsbraut og valdið honum líkamsmeiðingum af gáleysi. Voru stefnandi og Ásmundur sakfelldir í Héraðsdómi Suðurlands fyrir brotin. Ásmundur áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar sem, með dómi upp kveðnum hinn 19. febrúar 2009 í málinu nr. 452/2008, staðfesti héraðsdóminn að öðru leyti en því að hann var sýknaður af því að hafa orðið valdur að líkamsmeiðingum stefnanda.

Tjón stefnanda var metið með matsgerð Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal, lækna, dags. 16. janúar 2009. Varð það niðurstaða matsmanna að tímabundið atvinnutjón stefnanda hefði verið frá 11. júní 2007 til 3. október 2008. Stöðugleikatímapunktur (batahvörf) var talinn vera 31. október 2008. Stefnandi var talinn hafa verið veikur og rúmfastur frá 11. júní 2007 til 31. október 2008. Þá var varanlegur miski stefnanda talinn vera 100%. Matsmenn voru hins vegar ósammála um umfang varanlegrar örorku en Leifur N. Dungal mat varanlega örorku 60% en Atli Þór Ólason 100%.

Stefnandi krafði Tryggingamiðstöðina um viðurkenningu bótaábyrgðar úr ábyrgðartryggingu bifhjólsins YJ-959, en tryggingafélagið hafnaði bótaskyldu með bréfi, dags. 28. ágúst 2008. Sú höfnun var m.a. byggð á því að Tryggingamiðstöðin taldi ekki sannað að bifhjólið hefði farið í eða yfir stefnanda og þannig valdið tjóni hans.

Stefnandi krafði stefnda um viðurkenningu á bótaskyldu úr eiganda- og ökumannstryggingu bifhjóls stefnanda með bréfi, dags. 23. febrúar 2010, á þeim grundvelli að tjón stefnanda hefði orðið er hann ók aftan á bifreiðina PT-345 og féll í götuna. Stefndi hafnaði bótaskyldu með bréfi, dags. 29. júní 2010 og höfðaði því stefandi mál þetta.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann man eftir að hafa verið heima hjá Ásmundi umrætt kvöld en man ekki eftir ferð þeirra austur fyrir fjall eða slysinu.

Við upphaf aðalmeðferðar var bókað eftir aðilum að rannsóknargögnum lögreglunnar væri ekki mótmælt sem óstaðfestum af hálfu aðila og þeir töldu því ekki þörf á að kalla skýrslugjafa og lögreglumenn fyrir dóminn sem vitni. 

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda á grundvelli slysatryggingar ökumanns sem stefnandi keypti hjá stefnda fyrir bifhjól sitt, VE-086, skv. 1. og 2. mgr. 92. gr. umferðalaga nr. 50/1987. Stefnandi hafi slasast við notkun á bifhjólinu er hann hafi ekið því eftir Breiðholtsbraut og aftan á bifreiðina PT-345 og féll af hjólinu með þeim afleiðingum að hann hálsbrotnaði og hlaut varanlegan mænuskaða, auk annarra áverka. Ótvírætt sé því að stefnandi hafi slasast við notkun bifhjólsins í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Hann hafi sömuleiðis verið eigandi og ökumaður bifhjólsins og falli tjón hans því undir 2. og 3. mgr. 92. gr. laganna. Fall hans í götuna sé meginorsök áverka þeirra sem hann hafi fengið við slysið og liggi því fyrir sönnun um orsakatengsl.

Stefnandi hafnar því alfarið að hann hafi sýnt af sér nokkurs konar eigin sök eða stórkostlegt gáleysi sem réttlæti að bætur hans verið lækkaðar eða felldar niður. Stefnandi vísar til þess að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir fullyrðingum sínum um að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Við mat á meintu stórkostlegu gáleysi hans verði eingöngu tekið mið af þeim aðstæðum sem hafi verið rétt áður en slysið átti sér stað og atvikum slyssins sjálfs en ekki þeim atburðum sem gerst höfðu í aðdraganda þess. Hafi aðstæður á slysstað verið góðar. Hámarkshraði á slysstaðnum hafi verið 70 km á klukkustund. Samkvæmt matsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar hafi áætlaður hraði hafi verið 95 km á klukkustund en mögulegur lágmarkshraði 78 kílómetrar á klukkustund er stefnandi féll af bifhjóli sínu á Breiðholtsbraut. Stefnandi hafnar því sömuleiðis að hann hafi sýnt af sér áhættutöku og vísar í því sambandi til framangreindrar umfjöllunar um meint stórkostlegt gáleysi.

Stefnukrafa stefnanda byggir hvað varðar tímabundið tekjutap, þjáningatímabil og miska á mati Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal, dags. 16. janúar 2009, en hvað varðar bætur fyrir varanlega örorku eingöngu á mati Atla Þórs Ólasonar í sömu matsgerð. Þá byggir stefnandi kröfur sínar á ákvæðum 1.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sundurliðar stefnandi kröfu sína með eftirfarandi hætti:

Bætur fyrir tímabundið tekjutap                    kr.    3.667.074

Þjáningabætur                                                   kr.    1.356.150

Bætur fyrir varanlegan miska                         kr.    8.761.500

Bætur fyrir varanlega örorku                          kr.       880.041

                               Samtals:                                                               kr. 14.664.765    

Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 88., 91. gr. og 92. gr. Um grundvöll og útreikninga bóta vegna líkamstjóns stefnanda vísast til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 einkum 1.-7. gr. Kröfu um vexti og dráttarvexti byggir stefnandi á ákvæðum III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að mótorhjólin, VE-086, sem stefnandi hafi ekið og YJ-959, sem Ásmundur Jespersen hafi ekið, séu skráningarskyld ökutæki í skilningi umferðarlaga og hafi bæði verið tryggð til samræmis við lagaskyldu samkvæmt 91. gr. laganna, hjól stefnanda hjá stefnda og hjól Ásmundar hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Stefndi sé krafinn um bætur í máli þessu með vísan til 92. gr. umferðarlaga um slysatryggingu ökumanns þar sem kveðið er á um að hver ökumaður sem ökutækinu stjórni skuli tryggður sérstakri slysatryggingu en um ábyrgð Tryggingamiðstöðvarinnar hf. færi, ef á myndi reyna, eftir 88. gr. laganna. Um mat á bótaskyldu vegna hvors hjóls um sig fari síðan samkvæmt 89. gr. þeirra, þ.e. að skipta beri tjóninu að tiltölu við sök þeirra sem hlut eigi að máli og með hliðsjón af atvikum öllum. Verði því að taka afstöðu til þess hvort öll bótaábyrgð vegna slyssins verði lögð á vátryggingu VE-089 eða YJ-959 eða hvort skipta beri bótaábyrgðinni milli vátrygginganna, ef á myndi reyna. Þótt ekki verði ábyrgð felld beinlínis á Ásmund eða Tryggingamiðstöðina hf. sem vátryggjanda YJ-959 megi leysa úr í máli þessu um það hvort hugsanleg ábyrgð annarra, þar með stefnanda, standi dómkröfu hans á hendur stefnda fyrir þrifum.

Stefndi telur að áður en litið verði til hugsanlegrar ábyrgðar stefnda eða annarra aðila á afleiðingum slyss stefnanda verði að líta til þess hvort fella eigi niður eða lækka bætur til stefnanda þar sem hann hafi verið valdur að tjóni sínu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Í greinargerð stefnda var, hvað varðar lagarök þessari málsástæðu til stuðnings, vísað til 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga en í munnlegum málflutningi vísaði hann til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Telur stefndi að framganga stefnanda hafi í það minnsta í síðustu tíu mínúturnar fyrir slys verið markaðar af stórfelldu gáleysi og raunar algerlega látið skeika að sköpuðu af hans hálfu hvernig til tækist. Stefnandi hafi ekið á nærri 200 km hraða ríflega 20 km leið og 160 km hraða síðustu sex kílómetrana. Á þessum mínútum hafi dómgreind stefnanda brostið ítrekað og löghlýðni er hann hafi ekið fram úr bifreiðum án þess að hirða hið minnsta um hvort slíkur framúrakstur væri heimill eða ekki auk þess sem hann sinnti ítrekuðum stöðvunarmerkjum lögreglunnar í engu og sneiddi af hertum ásetningi fram hjá farartálmum lögreglunnar. Þó heldur hafi dregið úr ofsaakstrinum er inn á Breiðholtsbraut hafi komið og slysið átti sér stað verði ekki fram hjá því litið að akstursaðstæður á Breiðholtsbrautinni séu enn takmarkaðri til hraðakstur en á Suðurlandsvegi, bæði sé vegurinn og nánasta umhverfi hans þrengra en einnig séu miklu meiri líkur á að önnur umferð sé á veginum, sem hafi verið raunin er slysið hafi átt sér stað. Í þeirri andrá hafi stefnandi og Ásmundur verið að mæta lögreglunni sem komið hafi úr gagnstæðri átt og nánast strax í kjölfarið hafi þeir dregið bifreiðina PT-345 uppi og svo knappt hafi það staðið að stefnanda hafi ekki tekist að víkja sér til hliðar heldur hafi hann rekist á bifreiðina. Sú staðreynd tali afdráttarlaust því máli að stefnandi hafi af stórfelldu gáleysi ekið alltof hratt. Þá hafi stefnandi verið í miklu tilfinningalegu uppnámi enda búinn að standa að ofsaakstri í nærri 10 mínútur með lögregluna ýmist á hælunum eða að freista þess að sitja fyrir þeim félögum.

Stefndi telur að jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti einhvern bótarétt blasi við að sú greiðsluskylda verði ekki lögð á stefnda. Sé til lokamálsgreinar 92. gr. umferðarlaga að líta. Þar sé úr því leyst að lækka ber bætur úr slysatryggingu ökumanns um fjárhæð þeirra skaðabóta. Stefndi telur að skaðabótaskylda verði leidd fram með saknæmri framgöngu ökumanns YJ-959, Ásmundar, sem hafi ekið af gáleysi miklu alltof hratt og án þess að gæta að nægjanlegu bili milli bifhjólanna VE-086 og YJ-959. Afleiðing þess hafi verið sú að hann hafi ekki getað brugðist við og komist hjá árekstri er stefnandi hafði fallið af hjóli sínu. Breytir í þeim efnum að mati stefnda engu hvort líta beri svo á að árekstur bifhjólsins YJ-959 við stefnanda hafi verið hluti af sömu atburðarásinni eða hvort um sjálfstæðan atburð hafi verið að ræða. Að því marki sem einhverri ábyrgð annarra en stefnanda sjálfs sé til að dreifa telur stefndi ábyrgð tryggjanda YJ-959, nærtækari en stefnda, sbr. 89. gr. umferðarlaga. Teljist árekstur YJ-959 við stefnanda vera hluti af sömu atburðarásinni sé orsakasambandið augljóst að mati stefnda. Gögn málsins sýni að hjólið YJ-959 hafi rekist harkalega utan í höfuð stefnanda sem hafi langlíklegast haft hálsbrot hans í för með sér.       

Stefndi telur að við sakarmat megi líta til Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281, 13. kapítula um váðaverk i.f. þar sem segi: „Nú gengr maðr til leiks, fangs eða skinndráttar at vilja sínum, þá ábyrgist hann sik sjálfr at öllu, þó at hann fái mein eða skaða af …“ Óhjákvæmilegt sé að vekja athygli á því að í máli þessu gangi stefnandi og félagi hans, harðfullorðnir menn, til þess nánast af leik, án nokkurrar þvingunar eða þarfar annarrar en sér til dægrastyttingar, að freista þess að hrista af sér eftirför lögreglunnar sem stendur þá að lögbroti, ofsaakstri. Þeim mátti vera það ljóst að þetta athæfi væri fyrirsjáanlega hættulegt ef eitthvað brygði út af.             

Málsástæður varakröfu er þær sömu sem að framan eru raktar að breyttu breytanda en lækkun kröfu stefnanda byggir á eigin sök hans á háskalegri framgöngu hans sjálfs.

Af hálfu stefnda eru ekki gerðar athugasemdir vegna afleiðinga slyss stefnanda né við útreikning á kröfu hans sem slíkan.

Um lagarök vísar stefnandi til áðurgreindra lagaraka er varðar sýknukröfu. Kröfu um málskostnað styður hann við 130. gr. laga um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um bætur stefnanda til handa vegna umferðarslyss 11. júní 2007 en hann var skráður eigandi bifhjólsins VE-086 sem tryggt var hjá stefnda. Greinir aðila á um hvort líkamstjón stefnanda megi rekja til þess að hann féll í götuna í kjölfar áreksturs hans við bifreiðina PT-345 á Breiðholtsbraut hinn 11. júní 2007 eða til þess að bifhjóli samferðamanns hans, Ásmundar Jespersen, YJ-086, var ekið á eða yfir stefnanda þar sem hann lá í götunni. Þá telur stefndi að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt gáleysi við aksturinn að það eigi að leiða til þess að fella eigi niður bætur til hans.

Um orsakatengsl

Fyrir liggur að stefnandi kastaðist tugi metra af bifhjóli sínu er það lenti aftan á bifreiðinni PT-345. Við rannsókn lögreglu í málinu komu fram vísbendingar um að Ásmundur hefði ekið hjóli sínu yfir stefnanda þar sem hann lá í götunni. Var hann ákærður fyrir að hafa ekið bifhjóli sínu suður Breiðholtsbraut í Reykjavík, án nægilegrar aðgæslu og varúðar á flótta undan lögreglu, of hratt miðað við aðstæður og án þess að hafa nægilegt bil á milli sín og bifhjóls stefnanda, þannig að hann gat ekki brugðist við er stefnandi féll af bifhjóli sínu eftir að hafa ekið aftan á bifreiðina PT-345 við Víðidal, heldur hafi hann ekið yfir stefnanda og þannig valdið honum líkamsmeiðingum af gáleysi. Jafnframt var hann ákærður yfir hraðakstur o.fl. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 452/2008 var Ásmundur sýknaður af þessari háttsemi. Segir svo í dóminum um þennan ákærulið: „Ákærði sagði fyrir dómi að þeir félagar hafi ekið bifhjólum sínum suður Breiðholtsbraut skömmu áður en slysið varð á 60 til 80 km hraða á klukkustund. Eftir að Frosti hafi ekið aftan á bifreið hafi ákærði lagt hjól sitt í götuna til að reyna að koma í veg fyrir að rekast á Frosta og verið gæti að „dekkið hafi farið í hjálminn“, sem Frosti var með. Hann hafi ekki náð að forðast hjól Frosta þar sem það hafi komið þvert í veg fyrir akstursstefnu hans og hafi hann þurft að sveigja „tiltölulega harkalega til hægri ... í áttina að miðlínu vegarins til að sleppa við hjólið“. Kvaðst hann ekki vita hvernig hjólið lenti nákvæmlega á Frosta, en hann væri alveg viss um að hann hefði „lent á honum“. Þegar til þessa framburðar ákærða er litið og forsendna héraðsdóms er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gefin í þessum lið að öðru leyti en því að ekki er nægilega í ljós leitt að hann hafi ekið yfir Frosta. Fram er komið að Frosti féll af bifhjóli sínu í götuna eftir að hafa ekið aftan á bifreiðina PT-345. Að því virtu og þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu er ekki fram komin sönnun þess að líkamstjón Frosta af völdum slyssins megi rekja til þess að ákærði ók á hann. Verður ákærði því sýknaður af sakargiftum um brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga…“

Samkvæmt 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hefur dómur Hæstaréttar fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað.

Stefndi telur að þrátt fyrir að Ásmundur hafi verið sýknaður í Hæstarétti í refsimálinu sýni gögn málsins að bifhjól hans hafi rekist harkalega utan í höfuð stefnanda sem hafi langlíklegast haft hálsbrot hans í för með sér. Vísar stefndi í því samhengi til rannsóknar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem unnin var að beiðni lögreglu í málinu, þar sem fram kemur að svört rák á hjálmi stefnanda hafi haft að geyma sömu efni og voru í hjólbarða bifhjóls Ásmundar. Jafnframt hafi rannsókn Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á bláum lit á afturdekki mótorhjóls Ásmundar, leitt í ljós að þar færi efni úr hjálmi stefnanda.

Stefnandi hefur lagt fram vottorð Jóns Örvars Kristinssonar sérfræðilæknis er hann ritaði að beiðni lögreglu hinn 2. ágúst 2007. Skjalið ber með sér að hafa, líkt og framangreind rannsókn Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, legið fyrir í máli ákæruvaldsins gegn Ásmundi. Í vottorðinu er þess í upphafi getið að í beiðninni sé þess óskað að fram komi hvort áverkar stefnanda beri vott um að stefnandi hafi fengið yfir sig bifhjól er hann lá á akbraut. Í niðurstöðu læknisins kemur fram að af áverkum að dæma sé ekki með nokkru móti hægt að geta sér til um nákvæm tildrög slyssins en um háorkuáverka hafi verið að ræða.

Að mati dómsins getur rannsókn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, eða annað sem fram hefur komið í málinu, ekki hnekkt þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að ósannað sé að líkamstjón stefnanda af völdum slyssins megi rekja til þess að Ásmundur ók bifhjóli sínu yfir hann, enda var umædd rannsókn á meðal þeirra gagna sem ákæruvaldið lagði fram í málinu. Þá styður framangreint læknisvottorð að áverka stefnanda megi alveg eins rekja til þess að hann féll af hjólinu. Enn fremur ber að líta til þess að þótt fallist yrði á það með stefnda að hjóli Ásmundar hafi verið ekið á eða yfir stefnanda er samt ekki útlokað að stefnandi hafi hálsbrotnað við fallið í götuna. Er því fallist á það með stefnanda að ótvírætt sé að hann hafi slasast við notkun bifhjólsins VE-086 í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga og að fall hans í götuna sé meginorsök áverka þeirra sem hann hafi fengið við slysið og liggi því fyrir sönnun um orsakatengsl. Stefnandi var eigandi og ökumaður bifhjólsins og fellur því tjón hans undir 2. og 3. mgr. 92. gr. umferðarlaga.

Um stórfellt gáleysi stefnanda

Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi hafi sýnt af sér slíkt gáleysi við aksturinn að það firri hann bótaábyrgð eða leiði til lækkunar bóta honum til handa. Fyrir liggur að stefnandi og félagi hans, Ásmundur, óku bifhjólum sínum á ofsahraða frá Kambabrún í átt til Reykjavíkur um Suðurlandsveg. Þannig taldi Magnús Þór Jónsson prófessor, sem vann hraðaútreikninga fyrir lögreglu, að ætlaður meðalhraði bifhjólanna frá radarmælingum frá Kambabrún að Breiðholtsbraut hafi verið 187 kílómetrar á klukkustund. Á stærstum hluta leiðarinnar, þ.e. frá Kambabrún að Hólmsá hafi meðalhraðinn verið 196 kílómetrar á klukkustund. Á akstri sínum höfðu stefnandi og Ásmundur ítrekað hunsað stöðvunarmerki og vegartálma lögreglu. Er slysið átti sér stað höfðu þeir dregið verulega úr hraða bifhjólanna en prófessorinn taldi að ætlaður hraði bifhjóls stefnanda er það ók á bifreiðina PT-345 á Breiðholtsbraut hafi verið 95 kílómetrar á klukkustund, lágmarkshraði 78 kílómetrar á klukkustund en hámarkshraði 106 kílómetrar á klukkustund. Í skýrslu prófessorsins fyrir dómi í máli ákæruvaldsins gegn þeim kom fram að allar líkur væru fyrir því að stefnandi hafi verið á milli ætlaðs hraða og hámarkshraða. Ef allt væri tekið til til lækkunar á hraðanum, gæti hjólið hafa verið á lágmarkshraða en útilokað væri að hjólið hafi verið á minni hraða. Í framburði Ásmundar fyrir dómi kom fram að hann taldi að þeir hefðu verið á 60 til 80 kílómetra hraða á klukkustund þegar stefnandi ók á bifreiðina, eða á sama hraða og bifreiðin. Við mat á framburði Ásmundar er til þess að líta að hann naut réttarstöðu sakaðs manns. Leyfður hámarkshraði á umræddum vegarkafla er 70 kílómetrar á klukkustund.

Þótt leggja megi til grundvallar að stefnandi hafi verið á undir 100 kílómetra hraða á klukkustund er slysið varð, jafnvel á 78 kílómetra hraða á klukkustund, er óhjákvæmilegt til þess að líta að honum mátti vera kunnugt um að lögreglan veitti honum og félaga hans bæði eftirför og fyrirsát. Skapaðist þannig enn frekari slysahætta af akstri þeirra, fyrir þá sjálfa og aðra vegfarendur, sérstaklega er þeir voru komnir inn fyrir borgarmörkin, þar sem meiri umferð er og möguleikar á framúrakstri takmarkaðri. Þar sem slysið átt sér stað var ein akrein í hvora akstursátt og framúrakstur bannaður. Þá er vegurinn með handriðum beggja vegna. Fór svo að lokum að stefnanda tókst ekki að forðast árekstur er bílstjóri PT-345 hægði á för bifreiðarinnar og ók út í kant þar sem hann taldi að lögreglubifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt, væri að gefa honum merki um að stöðva bifreið sína, en forgangsljós lögreglubifreiðarinnar voru tendruð er lögregla varð bifhjólanna vör. Enn fremur verður að telja að stefnandi hafi verið í andlegu uppnámi, eftir að hafa skömmu áður ekið hátt í 30 km leið á flótta undan lögreglu, þar af yfir 20 km á ofsahraða, og því síður í ástandi til að bregðast við óvæntum atvikum. Með hliðsjón af framangreindu er fallist á það að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í aðdraganda slyssins og því orðið meðvaldur að tjóni sínu. Með vísan til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 20/2004 um vátryggingarsamninga verða því bætur til hans lækkaðar og honum gert að bera sjálfur helming af tjóni sínu.

Af hálfu stefnda eru ekki gerðar tölulegar athugasemdir við fjárhæð kröfu stefnanda og verður stefndi þannig dæmdur til að greiða áfrýjanda helminginn af 14.664.765 krónum eða 7.332.383 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 11. júní 2007 til 23. mars 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda 777.740 krónur málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, greiðist úr ríkissjóði, 777.750 krónur, sem er þóknun lögmanns stefnanda, Kristjáns Thorlacius hrl. 715.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 62.750 krónur.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, Frosta Þórðarsyni, 7.332.383 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 11. júní 2007 til 23. mars 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

 Gjafsóknarkostnaður stefnanda samtals 777.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Kristjáns Thorlacius hrl., 715.000 krónur.

Stefndi greiði 777.750 krónur í málskostnað í ríkissjóð.