Hæstiréttur íslands

Mál nr. 320/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Skiptastjóri


Mánudaginn 30. maí 2011.

Nr. 320/2011.

Snorri Hjaltason og

Brynhildur Sigursteinsdóttir

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

gegn

þrotabúi Nýsis hf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Skiptastjórn.

S og B kærðu úrskurð héraðsdóms, þar sem leyst var úr ágreiningi sem risið hafði við gjaldþrotaskipti á N um ráðstöfun hagsmuna hans. Kröfðust þau þess aðallega að atkvæðagreiðsla, sem fram fór á skiptafundi N 5. mars 2010, yrði ógilt með dómi en til vara viðurkennt að hún væri ólögmæt. Talið var að af ákvæðum XIX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. væri ljóst að í máli, sem rekið væri samkvæmt XXIII. og XXIV. kafla laganna um ákvörðun skiptastjóra um ráðstöfun hagsmuna þrotabús, yrði hvorki ógilt með dómsúrlausn atkvæðagreiðsla á skiptafundi né viðurkennt að hún væri ólögmæt, enda lyti slíkt dómsmál að ákvörðun skiptastjóra en ekki atkvæðagreiðslu á skiptafundi að baki henni. Þegar af þessum sökum varð sjálfkrafa að vísa þessum hluta dómkrafna S og B frá héraðsdómi. Þá kröfðust S og B þess að felld yrði úr gildi ákvörðun skiptastjóra N um að ljúka samningi við A á grundvelli samkomulags, svo sem samþykkt hafði verið með atkvæðagreiðslu á skiptafundinum 5. mars 2010. Talið var að gæta yrði að því að skiptafundurinn hefði verið ályktunarfær og hefði tillaga skiptastjóra verið samþykkt með atkvæði, sem greidd hefðu verið í skjóli 78,5% almennra krafna eftir fjárhæðum þeirra. Samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 21/1991 hefði skiptastjórum N verið rétt að fylgja þessari ályktun meiri hlutans nema þeir hefðu talið ákvörðun á grundvelli hennar andstæða lögum, óheiðarlega, óframkvæmanlega eða bersýnilega fara í bága við hagsmuni fjarstaddra lánardrottna eða að valdi meiri hluta hefði á skiptafundinum verið beitt minni hlutanum til tjóns. S og B hefðu ekki lagt fram í málinu gögn til stuðnings því að söluverð eignanna hefði verið óhæfilegt. Þá hefðu þau heldur ekki fært fram í málinu nokkur haldbær rök fyrir því að eitthvert framangreindra skilyrða 127. gr. laga nr. 21/1991 hefði átt að leiða til þess að skiptastjórum N hefði borið að ganga gegn ályktun skiptafundarins. Var síðari hluta dómkrafna S og B því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. maí 2011, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi, sem risið hafði við gjaldþrotaskipti á varnaraðila um ráðstöfun hagsmuna hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess annars vegar aðallega að „atkvæðagreiðsla sem fram fór á skiptafundi í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um tillögu skiptastjóra „að þeim verði falið að ganga frá samningi við Austurhöfn á fyrirliggjandi grundvelli sem felur í sér greiðslu á u.þ.b. 500 milljónum til búsins að meðtöldu uppgjöri vegna vaxta“ verði ógilt með dómi“, en til vara að „viðurkennt verði með dómi“ að atkvæðagreiðsla þessi „sé ólögmæt.“ Hins vegar krefjast sóknaraðilar þess aðallega að „ákvörðun skiptastjóra um að framfylgja ákvörðun skiptafundar í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um að ganga frá samkomulagi við Austurhöfn TR ehf. um viðskipti með 50% hlut í Situsi og byggingareit 6 á lóðinni Austurbakka 2, Reykjavík verði ógilt með dómi“, en til vara að „viðurkennt verði með dómi“ að þessi ákvörðun „sé ólögmæt.“ Sóknaraðilar krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins átti Nýsir hf. meðal annars helmingshlut á móti Landsbankanum Fasteignafélagi ehf. í Situsi ehf., svo og réttindi yfir byggingarreit nr. 6 á lóð að Austurbakka 2 í Reykjavík, svokölluðum viðskiptamiðstöðvarreit. Eignir þessar munu hafa tengst samningum, sem Eignarhaldsfélagið Portus ehf. gerði á árinu 2006 við Austurhöfn-TR ehf. um byggingu og rekstur tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar á hafnarsvæðinu í miðborg Reykjavíkur. Austurhöfn-TR ehf. gerði samning 31. mars 2009 við NBI hf., Landsbanka Íslands hf. og Landsbankann Fasteignafélag ehf. meðal annars um kaup á öllu hlutafé í Eignarhaldsfélaginu Portusi ehf. og helmingshlut í Situsi ehf., en með þessu mun Austurhöfn-TR ehf. hafa tekið við eignum og framkvæmdum, sem vörðuðu fyrrnefnt tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð. Ekki kemur fram í gögnum málsins hvert hafi verið kaupverð hlutafjárins í Eignarhaldsfélaginu Portusi ehf., en fyrir helmingshlut í Situsi ehf. var greidd 1 króna. Í framhaldi af þessu gerði Austurhöfn-TR ehf. samning við Nýsi hf. 14. apríl 2009 um kaup á helmingshlut þess félags í Situsi ehf. ásamt réttindum þess yfir áðurnefndum byggingarreit að Austurbakka 2 fyrir samtals 450.000.000 krónur, sem greiða átti „með reiðufé við undirskrift kaupsamningsins“, en samningurinn var samþykktur á fundi stjórnar Nýsis hf. sama dag. Greiðsla þessi mun ekki hafa verið innt af hendi eins og kveðið var á um í samningnum að því er virðist sökum þess að kaupandinn hafi ætlað með samþykki seljandans að afla lánsfjár í þessu skyni gegn veði í byggingarreitnum, en það hafi ekki tekist með því að sóknaraðilar hafi 29. maí 2009 fengið gerð fjárnám í þeirri eign fyrir kröfum á hendur Nýsi hf. Að kröfu stjórnar Nýsis hf. var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta 13. október 2009 og hafði söluverð þessara eigna þá ekki enn verið greitt. Samkvæmt skrá, sem skiptastjórar varnaraðila gerðu 17. febrúar 2010 um lýstar kröfur á hendur honum, námu þær samtals 25.378.790.414 krónum, en meðal þeirra voru kröfur, sem sóknaraðilar höfðu gert hvort fyrir sitt leyti um greiðslu á 120.940.129 krónum. Samkvæmt kröfuskránni höfðu sóknaraðilar krafist þess að kröfur þeirra nytu stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, en skiptastjórar tekið þá afstöðu að viðurkenna þær sem almennar kröfur eftir 113. gr. sömu laga með þeim fjárhæðum, sem lýst var. Ekki liggur annað fyrir en að þessar hafi orðið endanlegar lyktir um viðurkenningu krafna sóknaraðila, en af því, sem fram er komið í málinu, verður ráðið að með úrskurði héraðsdóms hafi endanlega verið slegið föstu að fjárnám, sem þau virðast hafa fengið fyrir þessum kröfum samkvæmt áðursögðu, hafi fallið niður vegna gjaldþrotaskipta varnaraðila.

Í málinu hefur verið lagt fram óundirritað skjal, sem dagsett var 22. febrúar 2010 og lýsti samkomulagi skiptastjóra varnaraðila við Austurhöfn-TR ehf. vegna áðurnefnds kaupsamnings félagsins við Nýsi hf. frá 14. apríl 2009. Í samkomulaginu var þess getið að varnaraðili hafi aflað sér mats fyrirtækjasviðs KPMG hf. á verðmæti þeirra eigna, sem kaupsamningurinn tók til, og teldi hann á grundvelli þess að ekki væri tilefni til að gera athugasemdir um kaupverð, sem þar var samið um. Ágreiningur hafi á hinn bóginn staðið um vexti, sem Austurhöfn-TR ehf. bæri að greiða af kaupverðinu, en óumdeilt væri að við gerð kaupsamningsins 14. apríl 2009 hafi verið ráðgert að félagið hefði „nokkrar vikur“ til að afla fjár fyrir kaupverðinu, sem síðan hafi ekki tekist vegna fyrrnefndra fjárnámsgerða sóknaraðila. Með tilliti til þessa hafi orðið að samkomulagi að Austurhöfn-TR ehf. greiddi varnaraðila samtals 500.000.000 krónur til uppgjörs á kaupverðinu að meðtöldum vöxtum. Frá þessu skyldi endanlega gengið 26. febrúar 2010 að fengnu samþykki skiptafundar í þrotabúi Nýsis hf.

Í samræmi við framangreint skjal var á skiptafundi 26. febrúar 2010, sem haldinn var samkvæmt 120. gr. laga nr. 21/1991 til að fjalla um lýstar kröfur á hendur varnaraðila, gerð grein „fyrir stöðu mála að því er varðar sölu 50% hlutar í Situs og lóð merktri nr. 6 við Austurhöfn í Reykjavík“, svo sem komist var að orði í fundargerð. Kom þar fram að skiptastjórar hafi greint frá því að þeir hafi „náð efnislegu samkomulagi við Austurhöfn um uppgjör krafna vegna sölunnar“, en frá samningi hafi þó ekki enn verið gengið, einkum vegna athugasemda, sem sóknaraðilar hefðu hreyft, og áskilnaðar þeirra um að leita riftunar á sölunni. Samkvæmt fundargerðinni urðu ítarlegar umræður um þetta málefni og var ákveðið að fresta ákvörðun um það til annars fundar 5. mars 2010. Þann dag var á ný haldinn skiptafundur í þrotabúinu til að fjalla frekar um þetta. Samkvæmt fundargerð var þar meðal annars lýst þeirri skoðun sóknaraðila að eignirnar, sem samningurinn frá 14. apríl 2009 tók til, hafi verið verulega vanmetnar af fyrirtækjaráðgjöf KPMG hf., en að loknum miklum umræðum var gengið til atkvæða „um þá tillögu skiptastjóra að þeim verði falið að ganga frá samningi við Austurhöfn um uppgjör á fyrirliggjandi grundvelli sem felur í sér greiðslu á u.þ.b. 500 milljónum til búsins að meðtöldu uppgjöri vegna vaxta.“ Sagði í fundargerðinni að atkvæði hafi verið greidd í skjóli 97,5% af samþykktum almennum kröfum og hafi 78,5% samþykkt tillögu skiptastjóra, 2,1% lagst gegn henni og 16,9% setið hjá. Hafi skiptastjórar þá lýst yfir að þeir myndu ljúka uppgjöri við Austurhöfn-TR ehf. á þessum grunni, en sóknaraðilar hafi óskað bókað að þau teldu þessa ákvörðun ólögmæta og myndu bera ágreining um hana undir héraðsdóm. Þessu til samræmis beindu skiptastjórar þessu ágreiningsefni til Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2010, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 21/1991, en af því tilefni var mál þetta þingfest 8. apríl sama ár.

II

Samkvæmt 124. gr. laga nr. 21/1991 tekur skiptastjóri ákvarðanir um hvernig ráðstafað verði eignum og réttindum þrotabús, þar á meðal hvernig og hverjum þær verði seldar og gegn hverju verði, en honum ber þó að taka þessi málefni á dagskrá skiptafundar, sem haldinn er eftir 120. gr. laganna, og er það heimilt endranær til að leita tillagna eða ályktana um ráðstafanir, sem enn eru ógerðar. Samkvæmt niðurlagsorðum 2. mgr. 124. gr. sömu laga eru slíkar ályktanir skiptafundar bindandi fyrir skiptastjóra eftir ákvæðum 127. gr. laganna. Í 3. mgr. þeirrar lagagreinar er mælt fyrir um þá meginreglu að skiptastjóra sé rétt að fylgja ályktun meiri hluta á ályktunarfærum skiptafundi, en frá því geti hann þó vikið og annaðhvort lagt málefnið fyrir skiptafund á ný eða ráðið því sjálfur til lykta. Eftir 1. mgr. 128. gr. laganna skal skiptastjóri kynna ákvarðanir sínar um málefni sem þessi jafnharðan á skiptafundi nema hann fresti ákvörðun til nýs fundar, en lánardrottni, sem á atkvæði um málefni þrotabúsins og telur ákvörðun skiptastjóra ólögmæta, getur mótmælt henni á skiptafundinum, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Takist ekki að jafna ágreining um ákvörðunina ber skiptastjóra að beina honum til héraðsdóms.

Eins og áður greinir hafa sóknaraðilar í fyrri hluta dómkrafna sinna krafist þess aðallega að „atkvæðagreiðsla sem fram fór á skiptafundi Nýsis hf. þann 5. mars 2010 ... verði ógilt með dómi“, en til vara viðurkennt að hún „sé ólögmæt“. Af þeim ákvæðum XIX. kafla laga nr. 21/1991, sem hér voru rakin, er ljóst að í máli, sem rekið er samkvæmt XXIII. og XXIV. kafla laganna um ákvörðun skiptastjóra um ráðstöfun hagsmuna þrotabús, verður hvorki ógilt með dómsúrlausn atkvæðagreiðsla á skiptafundi né viðurkennt að hún sé ólögmæt, enda lýtur slíkt dómsmál að ákvörðun skiptastjóra en ekki atkvæðagreiðslu á skiptafundi að baki henni. Þegar af þessum sökum verður sjálfkrafa að vísa þessum hluta dómkrafna sóknaraðila frá héraðsdómi, en að því verður og að gæta að í raun eru þessar kröfur sama efnis og síðari hluti dómkrafnanna.

Skilja verður orðalag síðari hluta dómkrafna sóknaraðila svo að þau leiti þar eftir því að felld verði úr gildi ákvörðun skiptastjóra varnaraðila, sem þeir kynntu á skiptafundi 5. mars 2010, um að ljúka samningi við Austurhöfn-TR ehf. á grundvelli samkomulags frá 22. febrúar sama ár, svo sem samþykkt var með atkvæðagreiðslu á fundinum. Um þessa kröfu verður að gæta að því að skiptafundurinn, þar sem atkvæðagreiðslan fór fram, var ályktunarfær samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laga nr. 21/1991 og var tillaga skiptastjóra samþykkt með atkvæði, sem greidd voru í skjóli 78,5% almennra krafna eftir fjárhæðum þeirra, sbr. 1. mgr. 126. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 127. gr. sömu laga var skiptastjórum varnaraðila rétt að fylgja þessari ályktun meiri hlutans nema þeir teldu ákvörðun á grundvelli hennar andstæða lögum, óheiðarlega, óframkvæmanlega eða bersýnilega fara í bága við hagsmuni fjarstaddra lánardrottna eða að valdi meiri hluta hafi á skiptafundinum verið beitt minni hlutanum til tjóns. Sóknaraðilar hafa ekki lagt fram í málinu gögn til stuðnings því að söluverð eigna, sem Nýsir hf. samdi um við Austurhöfn-TR ehf. 14. apríl 2009, hafi verið óhæfilegt. Þau hafa heldur ekki fært fram í málinu nokkur haldbær rök fyrir því að eitthvert framangreindra skilyrða 127. gr. laga nr. 21/1991 hefði átt að leiða til þess að skiptastjórum varnaraðila bæri að ganga gegn ályktun skiptafundarins 5. mars 2010 við töku ákvörðunar um að ljúka samningi við Austurhöfn-TR ehf. Síðari hluta dómkrafna sóknaraðila verður samkvæmt þessu hafnað.

Rétt er að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað standi óraskað, en sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að aðfinnsluverður dráttur varð á rekstri þessa máls fyrir héraðsdómi, auk þess sem samningu hins kærða úrskurðar er í verulegum atriðum áfátt.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfum sóknaraðila, Snorra Hjaltasonar og Brynhildar Sigursteinsdóttur, aðallega um að atkvæðagreiðsla á skiptafundi í varnaraðila, þrotabúi Nýsis hf., 5. mars 2010 verði ógilt með dómi og til vara að viðurkennt verði að hún hafi verið ólögmæt.

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun skiptastjóra varnaraðila um að ljúka nánar tilgreindum samningi við Austurhöfn-TR ehf. á grundvelli ályktunar skiptafundar 5. mars 2010.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðilar greiði í sameiningu varnaraðila 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. maí 2011.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjaness með tilkynningu skiptastjóra þrotabús Nýsis hf. þann 12. mars 2010. Að lokinni aðalmeðferð þann 25. mars sl. var málið tekið til úrskurðar.

Dómkröfur sóknaraðila eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi: Að atkvæðagreiðsla sem fram fór á skiptafundi í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um tillögu skiptastjóra „að þeim verði falið að ganga frá samningi við Austurhöfn á fyrirliggjandi grundvelli sem felur í sér greiðslu á u.þ.b. 500 milljónum til búsins að meðtöldu uppgjöri vegna vaxta” verði ógilt með dómi.

Til vara í þessum þætti málsins:

Að viðurkennt verði með dómi að atkvæðagreiðsla sem fram fór á skiptafundi í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um tillögu skiptastjóra „að þeim verði falið að ganga frá samningi við Austurhöfn á fyrirliggjandi grundvelli sem felur í sér greiðslu á u.þ.b. 500 milljónum til búsins að meðtöldu uppgjöri vegna vaxta” sé ólögmæt.

Í öðru lagi: Að ákvörðun skiptastjóra um að framfylgja ákvörðun skiptafundar í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um að ganga frá samkomulagi við Austurhöfn TR ehf. um viðskipti með 50% hlut í Situsi og byggingareit 6 á lóðinni Austurbakka 2, Reykjavík verði ógilt með dómi.

Til vara í þessum þætti málsins:

Að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun skiptastjóra um að framfylgja ákvörðun skiptafundar í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um að ganga frá samkomulagi við Austurhöfn TR ehf. um viðskipti með 50% hlut í Situsi og byggingareit 6 á lóðinni Austurbakka 2, Reykjavík sé, ólögmæt. Einnig gera sóknaraðilar kröfu um að þeim verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðilar verði óskipt úrskurðaðir til greiðslu málskostnaðar.

Málsástæður lagarök og önnur atvik:

Málavextir eru þeir að sóknaraðilar áttu kröfur á hendur Nýsi hf. hvort um sig að fjárhæð 124.940.129 krónur þegar félagið fór í gjaldþrot að kröfu stjórnar félagsins þann 13. október 2009.  Skiptastjórar þrotabúsins voru skipaðir Ástráður Haraldsson hrl. og Þorsteinn Einarsson hrl.  Kröfulýsingarfrestur rann út 20. desember 2009 og lýstu sóknaraðilar kröfum sínum í þrotabúið.

Sóknaraðilar höfðu fyrir gjaldþrot Nýsis hf. ítrekað reynt að innheimta kröfur sínar en án árangurs. Með kaupsamningi, dags. 14. apríl 2009, seldi Nýsir hf. 50% hlut í Situsi ehf. og byggingarreit 6 við Austurbakka í Reykjavík til Austurhafnar TR ehf.  fyrir 450.000.000 milljónir króna og samkvæmt samningnum skyldi kaupverðið staðgreitt við undirritun samningsins. Í ljós kom að kaupverðið var ógreitt og var upplýst að ástæða þess væri sú að ekki hefði tekist að fjármagna kaupin með veðsetningu eignarinnar, eins og um hafi verið samið, sökum þess að sóknaraðilar hefðu áður látið gera fjárnám í byggingarreit 6 vegna krafna þeirra á hendur Nýsi hf. Að kröfu varnaraðila voru fjárnám sóknaraðila afmáð af fasteign þrotabúsins þrátt fyrir mótmæli sóknaraðila og var um þann ágreining rekið mál fyrir héraðsdómi sem staðfesti ákvörðun um afléttingu fjárnámsins. Sóknaraðilar kærðu ekki þann úrskurð.

Skiptastjórar tóku þegar ákvörðun um að láta meta verðmæti 50% hlutar í Situsi ehf. og byggingarreits 6 við Austurbakka. Var markmið skiptastjóranna með matinu að leiða í ljós hvort í afsali eignanna gæti hafa falist gjafagerningur að hluta sem riftanlegur væri samkvæmt reglum gjaldþrotaskiptalaga. Skiptastjórarnir fólu fyrirtækjasviði KPMG að leggja mat á markaðsvirði eignanna. Skilaði KPMG niðurstöðu sinni í ítarlegri 25 blaðsíðna skýrslu í lok janúar 2010 og var niðurstaðan sú að verðmæti fyrrgreindra eigna hafi að markaðsverði verið á bilinu neikvætt um 150 milljónir króna til virðis 287 milljóna króna. Niðurstöðu KPMG telur varnaraðili afdráttarlausa um að eignirnar hafi ekki verið seldar á lægra verði en markaðsverði.

Skiptafundur til að fjalla um skrá um lýstar kröfur var haldinn þann 8. janúar 2010 og kynntu skiptastjórar fyrir kröfuhöfum á þeim fundi að þeir hefðu óskað eftir mati KMPG á verðmæti eigna er seldar voru Austurhöfn TR ehf. Bráðabirgðaskýrsla KPMG lá þá fyrir og upplýstu skiptastjórar kröfuhafa um niðurstöðu þess mats. Þá upplýstu skiptastjórar að þeir myndu gera nákvæma grein fyrir niðurstöðu KPMG á næstunni og boðuðu til skiptafundar þann 22. janúar 2010 til að fjalla um það mál og til að taka ákvörðun í málinu.

Á skiptafundi þann 22. janúar 2010 var matsskýrsla KPMG kynnt fyrir kröfuhöfum og mættu á fundinn fulltrúar KPMG og kynntu niðurstöðu sína og svöruðu fyrirspurnum fundarmanna. Skiptastjórar urðu við beiðni sóknaraðila um frest og var boðað til skiptafundar þann 26. febrúar 2010. Efni þess fundar var að fjalla um skrá um lýstar kröfur og jafnframt að fjalla um fyrrgreindra ráðstöfun eigna til Austurhafnar TR ehf. Á fundinum voru lögð fram mótmæli sóknaraðila við afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar krafna þeirra í búið og var bókað um áskilnað sóknaraðila um að láta reyna á riftanleika ráðstafana eigna til Austurhafnar TR ehf. Var á fundinum boðað til skiptafundar þann 5. mars 2010 til að fjalla frekar um það mál og freista þess að ráða því til lykta.

Til fundarins þann 5. mars 2010 var að auki boðað með tölvuskeytum til fulltrúa allra kröfuhafa. Á fundinn mætti fulltrúi KPMG og gerði hann grein fyrir því mati KPMG að eiginfjárvirði verðmæta er ráðstafað var til Austurhafnar TR ehf. væri nokkru minna en sem nam söluverði eignanna í apríl 2009. Á fundinum gerði lögmaður sóknaraðila grein fyrir athugasemdum þeirra og að sóknaraðilar teldu skýrslu KPMG lýsa miklu vanmati á verðmati þeirra eigna sem ráðstafað var til Austurhafnar TR ehf.  Ítarlegar umræður fóru fram um málið og gerðu skiptastjórar grein fyrir þeirri afstöðu sinni að þeir teldu rétt að ganga eftir efndum samnings við Austurhöfn TR ehf. og að ekki væru skilyrði til að rifta þeim viðskiptum. Á fundinum fór fram atkvæðagreiðsla um þá tillögu skiptastjóra að þeim yrði falið að ganga frá samningi við Austurhöfn TR ehf. um uppgjör kaupsamnings sem fæli í sér greiðslu til þrotabúsins á um það bil 500 milljónum króna að meðtöldum vöxtum. Voru atkvæði greidd á fundinum um fyrrgreinda tillögu skiptastjóra. Áður var bókað eftir lögmanni sóknaraðila áskorun umbj. hans um að þeir sem kynnu að hafa sérstaka hagsmuni af fyrrgreindum viðskiptum greiddu ekki atkvæði um tillögu skiptastjóra, sbr. 3. mgr. 126. gr. laga nr. 21/1991. Atkvæði voru greidd fyrir þá sem fóru með 97,5% samþykktra almennra krafna og greiddu atkvæði með tillögu skiptastjóra 78,5%, 2,1% greiddu atkvæði gegn tillögu skiptastjóra og 16,9% sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar lýstu skiptastjórar því yfir að þeir myndu ganga frá samkomulagi um uppgjör við Austurhöfn TR ehf. Lögmaður sóknaraðila lýsti því þá yfir að þeir teldu ákvörðunina ólögmæta og að þeir bæru ágreining um hana undir héraðsdóm. Ekki reyndist unnt að jafna þann ágreining sem uppi var.

Sóknaraðilar byggja á því að allir þeir aðilar sem áttu fulltrúa í ráðgjafaráði óveðtryggðra kröfuhafa hafi átt slíkra sértækra hagsmuna að gæta að atkvæði þeirra hafi átt að falla niður sbr. 3 mgr. 126 gr. l. nr. 21/1991.  Um sé að ræða kröfuhafa nr. 2 og 4-8, nr. 28-30, 32-33A,  35, 44, 46-65, 71, 72, 74 og 76.  Vegna þessa er niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ólögmæt og er á því byggt að meirihlutavaldi hafi verið beitt minnihlutanum til tjóns sbr. 3. mgr. 127 gr. l. nr. 21/1991.

Sóknaraðilar vísa til þess að fram komi á (d. 16) að hinir umþrættu gerningar séu hluti af málamiðlun milli þessara aðila, sem sóknaraðilar áttu engan kost á að koma að.  Þannig hafi verið ákveðið að selja 50% hlutdeild Nýsis í Situs ehf. og lóð Nýsis, nefndan WTC reit á um 450.000.000 krónur. Fulltrúar allra banka (nýrra og gamalla), SPRON og lífeyrissjóða tóku þessa ákvörðun áður en stjórn Nýsis hf. „ákvað” söluna á fundi 14. apríl 2009. Sá sem undirritaði söluna f.h. stjórnar hafi verið fulltrúi Íslandsbanka hf. í ráðgjafaráðinu. Þessir kröfuhafar (aðilar að ráðgjafaráðinu) hafi vegna þessa allir haft sértækra hagsmuna að gæta, enda fylgdu þeir ákvörðun sinni eftir á skiptafundinum.  Ef þeir hefðu ekki gert það hefðu þeir bakað sér bótaskyldu gagnvart viðsemjanda sínum Austurhöfn TR ehf. Þetta kemur sérstaklega skýrt fram í bréfi Austurhafnar TR ehf. dags. 5. maí 2010 (d. 26) til fjármálaráðherra þar sem fjallað er  um yfirlýsingar þriggja kröfuhafa á (d. 10, 11 og 12) þar sem segir: „Ástæðan fyrir umræddum yfirlýsingum varðar skuldbindingargildi samningsins fyrir umrædda kröfuhafa í því tilfelli að fyrirtækið þ.e. Nýsir ehf. yrði úrskurðað gjaldþrota og skerðir ekki rétt annarra kröfuhafa á einn eða annan hátt til að beita réttindum sínum sem kröfuhafa við gjaldþrotameðferð fyrirtækisins.”  Þarna er staðfest að þessir aðilar sem gáfu yfirlýsingarnar eru skuldbundnir samkvæmt samningi við Austurhöfn TR ehf. um umsamið verð.  Það sé því fráleitt að réttmætt sé að þeir greiði atkvæði um gildi sölu eigna Nýsis ehf. sem þeir stóðu sjálfir að skömmu fyrir gjaldþrot.

Varnaraðili byggir á því að ákvörðun skiptafundar þann 5. mars 2010 um að fela skiptastjórum að ganga frá samningi við Austurhöfn TR ehf. á grundvelli kaupsamnings dags. 14. apríl 2009 hafi verið lögmæt og að engin efni standi til að fallast á kröfur sóknaraðila í málinu. Varnaraðili leggur áherslu á að skiptastjórar leituðu eftir mati sérfróðra aðila á verðmæti þeirra eigna er seldar voru í apríl 2009 og var niðurstaða þess mats að eignir hafi verið seldar á hærra verði en sem nam markaðsverði. Skiptastjórar kynntu þá niðurstöðu með ítarlegum hætti fyrir kröfuhöfum á skiptafundum og lögðu fyrir kröfuhafa að taka ákvörðun um afgreiðslu málsins og hvort gengið yrði til samninga við kaupanda eignanna um uppgjör á grundvelli kaupsamnings. Eins og fyrr greinir greiddu nær allir kröfuhafar atkvæði með því að ganga frá uppgjöri viðskiptanna samkvæmt fyrrgreindum kaupsamningi og að ekki væri efni til að rifta þeim viðskiptum. Varnaraðili leggur áherslu á að samkvæmt 127. gr. laga nr. 21/1991 fer ályktunarfær skiptafundur með æðsta vald í þrotabúi og bar skiptastjórum samkvæmt 3. mgr. 127. gr. laga nr. 21/1991 að fylgja ályktun meirihlutans um afgreiðslu málsins, enda hafi engin efni staðið til að víkja frá þeirri ályktun með vísan til þeirra atvika sem greinir í 2. mgr. 127. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi ekki verið ástæða til að ætla að meirihlutavaldi hafi á fundinum verið misbeitt minnihlutanum til tjóns. Þar kom fram að NBI hf., Landsbanki Íslands hf., Nýi Glitnir banki hf., Nýi Kaupþing banki hf., Spron, og Byr Sparisjóður ásamt fleirum hefðu tekið yfir allt hlutafé Nýsis hf. Í kjölfar þessa sagði stjórn félagsins af sér, en fyrst um sinn voru engir nýir stjórnarmenn skráðir.  Með stjórn félagsins fór svokallað ráðgjafaráð sem var skipað fulltrúum eftirfarandi:  Nýja og Gamla Kaupþings, Gamla og Nýja Landsbanka, Íslandsbanka, Gamla Glitnis, Lífeyrissjóðanna auk Spron og tengdra félaga.  Fyrir skiptafundi lá ítarleg matsgerð um verðmæti hinna seldu eigna og voru ekki efni til af hálfu skiptastjóra að rengja það verðmat. Þá gerðu sóknaraðilar ekki sennilegt né rökstuddu að mat KMPG um verðmæti eignanna væri rangt. Varnaraðilar leggja áherslu á að sóknaraðilar létu ekki verðmeta hinar seldu eignir og er með öllu órökstutt af þeirra hálfu að eignir hafi verið seldar Austurhöfn TR ehf. fyrir lægra verð en raunverð. Varnaraðili telur að sóknaraðilar hafi ekki hagsmuni af kröfum sínum í málinu enda sé frestur til að höfða dómsmál til að koma fram riftun viðskipta um eignirnar þegar liðinn, sbr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili telur að hafna beri kröfum sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu.

Á því er byggt af sóknaraðila að fyrirmæli 3. mgr. 126 gr. séu skýr og afdráttarlaus. Ákvæðið var nýmæli í íslenskum gjaldþrotarétti, en í athugasemdum segi að vart þyki orka tvímælis að regla þess efnis eigi rétt á sér.  Sóknaraðilar telja að aðstandendur ráðgjafaráðsins hafi beitt sér gegn riftun kaupsamningsins á (d. 17) og þannig hafi meirihlutinn farið gegn hagsmunum minnihlutans í krafti eiginhagsmuna, umfram hagsmuni þrotabúsins.  Sóknaraðilar telja að skiptastjórum hafi borið að gæta að þessu sérstaklega með vísan til 3. mgr. 127 gr. l. nr. 21/1991.  Á því er aðallega byggt að ákvörðun skiptafundar sé ógildanleg vegna þeirra annmarka sem voru á atkvæðagreiðslunni og til vara er þess krafist að ákvörðunin verði dæmd ólögmæt sbr. 3. mgr. 126. gr. l. nr. 21/1991.  Þá er á því byggt að ákvörðun sem skiptastjórar byggja á ólögmætri ákvörðun skiptafundar sé ólögmæt sbr. 126., sbr. 127. sbr. 128 gr. l. nr. 21/1991. 

Aðalkrafa um ógildingu ákvörðunar skiptastjóra byggir á því að sóknaraðilar hafi sem kröfuhafar þrotabúsins lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um ógildi ákvörðunarinnar, hafi skiptastjórar ekki virt ákvæði 3. mgr. 128 gr. l. nr. 21/1991 in fine. 

Sérstaklega er á því byggt að fyrir atkvæðagreiðsluna hafi sóknaraðilar skorað á alla viðstadda að greiða ekki atkvæði ef ákvæði 3. mgr. 126 gr. l. nr. 21/1991 ætti við um þá.  Sóknaraðilar telja að aðstandendur ráðgjafaráðsins hafi átt að gera grein fyrir sérstökum hagsmunum sínum, þannig að fjalla hafi mátt um gildi atkvæða þeirra á fundinum. 

Tilvísun til helstu lagaákvæða:

Sóknaraðilar vísa til l. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, aðallega 126, 127 og 128 gr., en einnig 1. mgr. 82. gr. og 171 gr. Varnaraðili vísar kröfum sínum til stuðnings til ákvæða laga nr. 21/1991. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. ákvæði laga nr. 21/1991.

Verða nú raktir framburðir vitna eftir því sem þurfa þykir.

Stefán Hermannsson, fyrirsvarsmaður Austurhafnar TR ehf. sagði aðdragandann að kaupum Austurhafnar TR ehf. á eignum Nýsis hf. hafi verið sá að eftir efnahagshrunið 2008 þá lýstu eigendur Portusar ehf. og Sítusar ehf. því yfir að þeir gætu ekki haldið áfram verkefninu að byggja tónlistarhúsið sem nú hefur fengið nafnið Harpa og var þá tekið til athugunar hvernig hægt væri að halda því verkefni áfram og varð niðurstaðan sú að Austurhöfn TR ehf. keypti þessi félög og allar þeirra eignir sem tengdust verkefninu og lóðinni. Eigendur Portusar ehf. og Sítusar ehf. voru Landsbankinn og Nýsir hf. og tók Austurhöfn TR ehf. fyrirtækin yfir í samráði við lánadrottna þeirra í apríl 2009. Þeir sem undirrituðu samningana höfðu til þess fullt umboð frá stjórn Nýsis hf. að sögn vitnisins. Sagði vitnið að kaupsamningar um þessi viðskipti séu trúnaðarmál. Sagði vitnið að umrædd lóð væri nú veðsett en hún hafi verið óveðsett þegar Situs ehf. var yfirtekin en tilraunir til að selja lóðina hafi ekki borið neinn árangur.

Vitnið Brynjar Pétursson kvaðst hafa verið fenginn af kröfuhöfum Nýsis hf. eða kröfuhafaráði félagsins sem samanstóð af stærstu kröfuhöfum og var markmið að ná út úr dæminu sem mestum eignum og af kröfuhöfum hafi Landsbankinn staðið best að vígi vegna veðsetninga en svokallaður reitur 6 hafi ekki verið veðsettur á þessum tíma. Taldi vitnið að umræddar eignir hafi í raun verið verðlausar nema svokallaður WTR reitur sem engar kvaðir voru á eins og hinum reitunum. Sagðist vitnið vera með BS próf frá H.Í. í hagfræði og MA próf frá Bandaríkjunum og hafa unnið nær eingöngu við mat á verðmæti fyrirtækja, eigna þeirra og þess háttar undanfarin ár. Sagði vitnið að engar upplýsingar hafi verið að fá hjá Landsbankanum eða Nýsi hf. um skuldir Sítusar ehf.

Vitnið Ríkharður Ottó Ríkharðsson sagði að hann hafi setið í svokölluðu kröfuhafaráði f.h. Íslandsbanka sem samanstóð af kröfuhöfum sem ekki áttu veð. Stjórnendur Nýsis hf. hafi ekki getað tekið neinar stórar ákvarðanir nema með samþykki ráðsins sem hann stjórnaði í framhaldinu sem í raun stjórnaði félaginu og eignum þess. Hélt ráðið utan um 95% af eignum en í upphafi var talið að verðmætið væri ekkert og var því mjög ásátt við að fá  450.000.000 krónur í sinn hlut.

Vitnið Ólafur Örn Ólafsson staðfesti matsgerð á dómskjali nr. 5 og að hún hafi verið unnin eftir viðmiðum KPMG og þrír starfsmenn hafi unnið matið.

Vitnið Sigfús Oddsson kvaðst hafa setið f.h. skilanefndar Landsbankans í hóp sem velti fyrir sér máefnum Nýsis ehf. áður en félagið fór á hausinn og tók þátt í ákvörðun um sölu á eignum félagsins en hann viti ekki hvernig verð voru fundin. Sagði vitnið að á þessum tíma hafi félagið verið talið verðlaust eins og Situs ehf. Sagði vitið að enginn hagnaður hafi fallið til síðustu tvö árin og verðmæti sennilega fari minnkandi og engin eftirspurn eftir lóðum þarna svo hann viti til.

Niðurstaða

Sóknaraðilar byggja aðallega á því að ákvörðun skiptafundar sé ógildanleg vegna þeirra annmarka sem voru á atkvæðagreiðslunni þann 5. mars 2010 og til vara er þess krafist að ákvörðunin verði dæmd ólögmæt sbr. 3. mgr. 126. gr. l. nr. 21/1991.  Þá er á því byggt að ákvörðun sem skiptastjórar byggja á ólögmætri ákvörðun skiptafundar sé ólögmæt sbr. 126., sbr. 127. sbr. 128 gr. l. nr. 21/1991. 

Aðalkrafa um ógildingu ákvörðunar skiptastjóra byggir á því að sóknaraðilar hafi sem kröfuhafar þrotabúsins lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um ógildi ákvörðunarinnar, hafi skiptastjórar ekki virt ákvæði 3. mgr. 128 gr. l. nr. 21/1991 in fine.

Varnaraðili leggur áherslu á að samkvæmt 127. gr. laga nr. 21/1991 fari ályktunarfær skiptafundur með æðsta vald í þrotabúi og hafi skiptastjórum borið samkvæmt 3. mgr. 127. gr. laga nr. 21/1991 að fylgja ályktun meirihlutans um afgreiðslu málsins, enda hafi engin efni staðið til að víkja frá þeirri ályktun með vísan til þeirra atvika sem greinir í 2. mgr. 127. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi ekki verið ástæða til að ætla að meirihlutavaldi hafi á fundinum verið misbeitt minni hlutanum til tjóns. Varnaraðili telur rangt og a.m.k. ósannað að tilgreindir kröfuhafar hafi haft sérstaka hagsmuni af ákvörðun um að una viðskiptum um hluti í Situsi ehf. og byggingarreit 6 við Austurhöfn TR ehf. og af þeim sökum hafi atkvæði þeirra við atkvæðagreiðslu á skiptafundi átt að falla niður, sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991.  Sóknaraðilar rökstyðji ekki hverjir þeir sérstöku hagsmunir kröfuhafanna séu er valdið hafa vanhæfi þeirra til að greiða atkvæði um málefnið á skiptafundi og leggur varnaraðili áherslu á að sóknaraðilar hafa engin gögn lagt fram er styðja að söluverð eignanna hafi verið lægra en sem nam markaðsverði.

Sönnunarbyrðin fyrir því að ákvörðun skiptafundar sé ógildanleg vegna þeirra annmarka sem þeir byggja á að hafi verið á atkvæðagreiðslunni þann 5. mars 2010 hlýtur að hvíla á sóknaraðilum. Þykir dómara ljóst að sóknaraðilar verði að færa sönnur á að skiptastjórar þb. Nýsis hf. hafi ekki virt 3. mgr. 128 gr. l. nr. 21/1991 in fine eigi krafa hans um ógildi ákvörðunar skiptastjóra að ná fram að ganga. Verður ekki annað séð að vitnisburður Sigfúsar Oddssonar bendi fremur til þess skiptastjórar hafi staðið rétt að málum en í vitnisburði hans kom fram að enginn hagnaður hafi fallið til síðustu tvö árin og vermæti fari sennilega minnkandi og engin eftirspurn sé eftir lóðum þarna svo hann viti til. Að minnsta kosti hafa sóknaraðilar engin haldbær rök fært fram fyrir hinu gagnstæða og þykir verðmat löggilts fasteignasala frá 16. nóvember 2009 fremur staðfesta þá niðurstöðu en hitt þegar það er borið saman við mat það sem skiptastjórar fengu KPMG til þess að vinna og að lokum þess verðs sem búið fékk. Verða sóknaraðilar að bera hallann af því að hafa ekki aflað sér mats dómkvadds matsmanns eða matsmanna til þess að renna stoðum undir málatilbúnað sinn. Sóknaraðilar telja að mátt hafi fá meiri verðmæti en 450.000.000 króna fyrir lóð Nýsis hf. svokallaðan WTC reit og hlut í Sítusi ehf. Þeir hafa ekki lagt fram neinar fullnægjandi sannanir fyrir því að gengið hafi verið á lögvarða hagsmuni þeirra að þessu leyti með því að sýna fram á að söluverð til Austurhafnar TR ehf. hafi verið lægra en markaðsverð. Þá verður ekki framhjá því litið að sóknaraðilar ákváðu ekki með vísan til 130. gr. laga nr. 21/1991 að halda uppi ætluðum hagsmunum af því að fá viðskiptum við Austurhöfn TR ehf. rift líkt og þeim stóð sem lánardrottnum varnaraðila til boða samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði þrátt fyrir að hafa látið bóka á skiptafundi áskilnað um að láta reyna á riftanleika ráðstafana eigna til Austurhafnar TR ehf.

Er því hafnað að umrædd ákvörðun skiptafundar sé ógildanleg eins og sóknaraðilar hafa krafist.

Sóknaraðilar krefjast þess til vara að ákvörðunin verði dæmd ólögmæt sbr. 3. mgr. 126. gr. l. nr. 21/1991. Ekki hefur að mati dómara verið sýnt fram á að atkvæði hafi verið greidd um málefni sem varða sérstaka hagsmuni einstaks lánadrottins og verður þessari dómkröfu sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu hafnað. Þá er á því byggt að ákvörðun sem skiptastjórar byggja á ólögmætri ákvörðun skiptafundar sé ólögmæt sbr. 126., sbr. 127. sbr. 128. gr. l. nr. 21/1991.  Ekki er um það deilt að atkvæði voru greidd fyrir þá sem fóru með 97,5% samþykktra almennra krafna og greiddu atkvæði með tillögu skiptastjóra 78,5%, 2,1% greiddu atkvæði gegn tillögu skiptastjóra og 16,9% sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar lýstu skiptastjórar því yfir að þeir myndu ganga frá samkomulagi um uppgjör við Austurhöfn TR ehf. Að þessu sögðu og með vísan til þess sem áður er rakið um 128. gr. laga 21/1991 telur dómari að skiptastjórar í öllum greinum farið að réttum reglum.

Aðalkröfu sóknaraðila, í fyrsta lagi, um að atkvæðagreiðslan sem fram fór á skiptafundi þann 5. mars 2010 um tillögu skiptastjóra „að þeim verði falið að ganga frá samningi við Austurhöfn á fyrirliggjandi grundvelli sem felur í sér greiðslur á u.þ.b. 500.000 milljónum til búsins að meðtöldu uppgjöri vegna vaxta“ er hafnað enda hefur ekki verið sýnt fram á að atkvæðagreiðslan hafi ekki farið fram með réttum hætti og verður hún því ekki ógilt. Sama er að segja um varakröfu þeirra í þessum þætti málsins sem er að viðurkennt verði með dómi að atkvæðagreiðsla, sem fram fór á skiptafundi í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um tillögu skiptastjóra „að þeim verði falið að ganga frá samningi við Austurhöfn á fyrirliggjandi grundvelli sem felur í sér greiðslu á u.þ.b. 500 milljónum til búsins að meðtöldu uppgjöri vegna vaxta” sé ólögmæt, er einnig hafnað.

Aðalkröfu sóknaraðila, í öðru lagi, um að ákvörðun skiptastjóra um að framfylgja ákvörðun skiptafundar í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um að ganga frá samkomulagi við Austurhöfn TR ehf. um viðskipti með 50% hlut í Situsi ehf. og byggingareit 6 á lóðinni Austurbakka 2, Reykjavík verði ógilt með dómi, er einnig hafnað.

Varakröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun skiptastjóra um að framfylgja ákvörðun skiptafundar í þb. Nýsis hf. þann 5. mars 2010 um að ganga frá samkomulagi við Austurhöfn TR ehf. um viðskipti með 50% hlut í Situsi ehf. og byggingareit 6 á lóðinni Austurbakka 2, Reykjavík sé ólögmæt, er hafnað, enda skiptastjórum að öðru jöfnu rétt að fylgja ályktum óumdeilds meirihluta á ályktunarhæfum fundum sbr. 127. gr. 3. mgr. nema verið sé að traðka á rétti minni hluta sem engar fullnægjandi vísbendingar eru um að hafi verið gert.

Eins og nú hefur verið rakið er öllum dómkröfum sóknaraðila hafnað og verður hann dæmdur til  þess að greiða varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Vegna páskaleyfis og óvenju mikilla anna dómarans hefur orðið lítilsháttar dráttur á uppkvaðningu úrskurðarins.

Ú r s k u r ð r o r ð:

Öllum dómkröfum sóknaraðila, Snorra Hjaltasonar og Brynhildar Sigursteinsdóttur, er hafnað.

Sóknaraðilar greiði varnaraðila, þb. Nýsis hf., óskipt 250.0000 krónur í málskostnað.