Hæstiréttur íslands
Mál nr. 119/2001
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Búfé
|
|
Fimmtudaginn 11. október 2001. |
|
Nr. 119/2001. |
Ólöf Helga Halldórsdóttir(Ingólfur Hjartarson hrl.) gegn Halldóri Steingrímssyni Steingrími Óskarssyni og Eysteini Steingrímssyni (Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Búfé.
Ó ók að kvöldlagi upp blindhæð á þjóðvegi. Handan hæðarbrúnarinnar blöstu við henni hross og varð folald, í eigu E, fyrir bifreiðinni, en S og E höfðu rekið hrossin eftir þjóðveginum umrætt kvöld. Í máli sem var höfðað á hendur H, S og E til greiðslu á tjóni, sem varð á bifreiðinni, héldu þeir því fram að hrossin hefðu verið í lausagöngu, en þau hefðu sjálf farið af stað úr haga þar sem þau hefðu verið skilin eftir meðan hlé var gert á rekstrinum. Hæstiréttur taldi að H, S og E bæru sönnunarbyrðina fyrir þessari staðhæfingu sinni og að þeirri sönnunarbyrði hefði ekki verið fullnægt. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hefði heimild til að reka hrossin eftir þjóðveginum verið háð því að nægilega margir gæslumenn fylgdu rekstrinum og að einn gæslumaður færi fyrir, enda hefði mátt vænta umferðar ökutækja um veginn. Að hvorugu þessu hefði verið gætt við rekstur hrossanna. Samkvæmt því yrði að fella bótaábyrgð vegna tjóns á bifreiðinni sameiginlega á H, S og E. Ó var ekki talin hafa sýnt gáleysi í umrætt sinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess að stefndu verði dæmdir í sameiningu til að greiða sér 187.843 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júní 1999 til greiðsludags. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að 20. ágúst 1998 ók Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, dóttir áfrýjanda, jeppabifreið þeirrar síðarnefndu KR 067, af gerðinni Daihatsu Ferosa, að kvöldlagi um kl. 23 austur eftir þjóðvegi nr. 767 í átt til Hóla í Hjaltadal. Skömmu áður en hún kom að býlinu Garðakoti kvaðst hún hafi ekið upp blindhæð. Rétt handan hæðarbrúnar hafi blasað við henni hross á veginum. Ók hún á folald, sem drapst þegar í stað. Á vettvangi átti hún tal við stefnda Steingrím Óskarsson, sem hafði ekið á eftir hrossunum. Tjáði hann henni að folaldið hafi tilheyrt stefnda Halldóri Steingrímssyni. Lögreglan var ekki kvödd á vettvang og ók Guðbjörg bifreiðinni eftir þetta til Hóla. Lögreglunni mun hins vegar hafa verið tilkynnt símleiðis um þetta atvik daginn eftir.
Bifreið áfrýjanda var í ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Var félaginu greint frá þessu atviki 2. september 1998 með tilkynningu, sem dóttir áfrýjanda undirritaði ein, en tilkynningunni fylgdi einnig skrifleg greinargerð hennar og vegakort, sem vettvangur var merktur inn á. Í þessum gögnum kom fram að folaldið, sem ekið var á, hafi verið með merum og folöldum, sem verið var að reka eftir þjóðveginum. Bifreiðinni hafi verið ekið á 70 til 80 km hraða, en myrkur hafi verið, rigning og lélegt skyggni. Bifreiðin hafi verið í fullkomnu lagi fyrir þetta atvik, en við það hafi hún skemmst verulega, einkum á frambretti og hurð hægra megin og á grjótgrind og ljósi að framanverðu.
Vátryggingafélag Íslands hf. fór þess á leit við lögregluna á Sauðárkróki 9. september 1998 að rannsökuð yrðu tildrög þessa atviks. Af því tilefni tók lögreglan skýrslur síðar í þeim mánuði af stefndu Steingrími og Eysteini Steingrímssyni, sem kváðust þar hafa rekið hross í eigu stefnda Halldórs í umrætt sinn. Var jafnframt tekin skýrsla af manni, sem dóttir áfrýjanda hafði nafngreint í greinargerð sinni með tjónstilkynningu sem vitni að rekstri hrossanna.
Síðla í september 1998 var bifreiðin skoðuð á vegum tjónaskoðunarstöðvar Vátryggingafélags Íslands hf. Í skoðunarskýrslu hennar var kostnaður af viðgerð bifreiðarinnar áætlaður samtals 309.437 krónur, en þar af væru 92.000 krónur vegna vinnu í 40 klukkustundir, 146.738 krónur vegna varahluta, en 70.699 krónur vegna málningar. Fyrir liggur að í framhaldi af þessu hafi eiginmaður áfrýjanda í samráði við vátryggingafélagið sjálfur annast viðgerð á bifreiðinni. Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fram í málinu, voru fengnir varahlutir í bifreiðina og annað efni fyrir samtals 48.843 krónur, en unnið var að viðgerð í 130 klukkustundir. Telur áfrýjandi hæfilegt endurgjald fyrir hverja klukkustund nema 1.000 krónum. Þessu til viðbótar hafi tjónaskoðunarstöð vátryggingafélagsins áætlað að bifreiðin yrði að vera á verkstæði í 10 daga vegna viðgerða, en félagið miði við að 900 krónur séu hæfilegt gjald á sólarhring fyrir afnotamissi bifreiðar. Að viðbættum 9.000 krónum af þessum sökum telur áfrýjandi tjón sitt nema alls 187.843 krónum, sem hún krefur stefndu um í málinu.
Fyrir liggur í málinu að Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi 24. nóvember 1998 stefnda Halldóri 100.000 krónur í bætur „vegna tjóns á folaldi af völdum KR 067 þann 20.08.1998“, svo sem sagði í kvittun fyrir greiðslunni.
II.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi greinir aðilana á um það hvort verið var að reka áðurnefnd hross eftir þjóðvegi nr. 767 þegar dóttir áfrýjanda ók á eitt þeirra eða hvort þau hafi verið þar í lausagöngu. Heldur áfrýjandi hinu fyrrnefnda fram, en af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefndu hafi fyrst haldið hinu síðarnefnda fram í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi.
Í skýrslu, sem lögreglan á Sauðárkróki tók af stefnda Steingrími 28. september 1998, greindi hann meðal annars svo frá að hann og stefndi Eysteinn hafi í umrætt sinn verið að „ná í 3 merar og folald með hverri, við fórum með hrossin frá Hólum að Brimnesi. Halldór Steingrímsson á Brimnesi átti þessi hross og var ekki með í rekstrinum. Við vorum bara tveir í bifreið og skiptumst á að fara út til að reka hrossin að Nautabúi, þar fórum við að ná í einn hest og Eysteinn var þá rekandi á hrossi. Við vorum með öll stefnumerki blikkandi í einu á bifreiðinni ... Við skildum hrossin eftir við Nautabú á meðan Eysteinn fór þangað til að ná í hross til að ríða á. Ég var á eftir þeim á bifreiðinni og hrossin hlupu áfram og þvert yfir veginn hjá Garðakoti þegar þessi bifreið kom og var ekið á folaldið.“
Í skýrslu, sem stefndi Eysteinn gaf hjá lögreglunni 29. september 1998, lýsti hann meðal annars að hann hafi ásamt stefnda Steingrími farið til Hóla að sækja þrjár hryssur með folöldum, en þeir hafi staðið að þessum rekstri. Þeir hafi rekið hrossin þar til þeir skildu við þau „á grasbala meðfram veginum við Nautabú, Steingrímur skutlaði mér upp að Nautabúi svo að ég gæti náð þar í hest, sem ég átti þar. Hann fór til baka mjög fljótlega, það liðu innan við tíu mínútur sem þetta tók að skutla mér. Ég náði hópnum við Dalsmynni aftur og þá var þessi árekstur afstaðinn.“
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt ljósrit af ódagsettu kröfubréfi stefnda Halldórs til Vátryggingafélags Íslands hf., sem ber með sér að hafa verið sent frá umboði félagsins á Sauðárkróki með símbréfi 11. nóvember 1998. Þar sagði stefndi meðal annars eftirfarandi: „Að kvöldi 20. ágúst síðastliðinn varð það óhapp við hrossarekstur við bæinn Dalsmynni (á vegi 767 Hólavegi) að folald sem ég undirritaður átti varð fyrir bifreið og drapst samstundis (bifreið nr. KR 067). Þarna fór fram rekstur á þremur folaldshryssum þar af einni í minni eigu (Blíðu frá Brimnesi sem fylgdi rauðblesótt merfolald). Á þessari stundu voru hryssurnar reknar af einum manni á bíl með blikkandi aðvörunarljósum. Ökumaður Steingrímur Óskarsson sem síðan bar mér undirrituðum þessar fregnir að morgni næsta dags og að stúlka að nafni Guðbjörg sem ekið hafi jeppabifreið hafi lent á folaldinu og væri bíllinn óskemmdur.“ Fór stefndi þess á leit í niðurlagi bréfsins að sér yrðu greiddar bætur að fjárhæð 200.000 krónur vegna folaldsins.
Stefndu Steingrímur og Eysteinn staðfestu báðir fyrrgreindar lögregluskýrslur sínar þegar þeir komu fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð málsins. Í lögregluskýrslunum var þess í engu getið að hrossin hefðu sjálf farið af stað frá haga við Nautabú, þar sem skilið hafi verið við þau í um tíu mínútur á meðan hestur var sóttur þar á bænum, svo sem stefndu halda nú fram. Þá var heldur ekki vikið þar sérstaklega að því að hrossin hefðu á þeim tíma farið ein síns liðs frá Nautabúi og sem leið lá að þeim stað í 2,5 til 3 km fjarlægð, þar sem dóttir áfrýjanda ók á eitt þeirra. Í framangreindu bréfi stefnda Halldórs til Vátryggingafélags Íslands hf. var ítrekað vikið að því að óhappið, sem um ræðir í málinu, hafi orðið við hrossarekstur og jafnframt tekið fram sem fyrr segir að þegar óhappið varð hafi hrossin verið rekin áfram af einum manni í bifreið, sem ljós hafi verið látin blikka á. Þessi gögn með frásögn stefndu stafa öll frá því á fyrstu stigum eftir að atvik málsins gerðust. Á þeirri frásögn annars vegar og hins vegar þeirri mynd, sem þeir draga nú upp af málsatvikum, er slíkur munur að þau atriði, sem síðar hafa komið fram, verða ekki talin aðeins til fyllingar á ófullkominni frásögn. Verður ekki séð hvaða ástæða gæti hafa verið fyrir því að frásögn stefndu af atvikum hafi ekki verið sú sama frá öndverðu. Að þessu gættu verður að fella á stefndu sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu þeirra að hrossin hafi verið í lausagöngu þegar dóttir áfrýjanda ók á eitt þeirra. Þeirri sönnunarbyrði hafa stefndu ekki fullnægt.
Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stefndi Steingrímur hafi rekið hrossin úr bifreið eftir fyrrnefndum þjóðvegi þegar dóttir áfrýjanda kom á móti þeim í bifreið yfir blindhæð og ók á eitt hrossanna. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 var heimild stefndu til að reka hrossin eftir þjóðvegi háð því að nægilega margir gæslumenn fylgdu rekstrinum og að einn gæslumaður færi fyrir, enda mátti vænta umferðar ökutækja um veginn. Að hvorugu þessu var gætt við rekstur hrossanna. Verður því að fella bótaábyrgð vegna tjóns á bifreið áfrýjanda sameiginlega á stefndu, en enginn þeirra hefur skorast undan bótaskyldu á grundvelli aðildarskorts.
Eins og málið liggur fyrir hefur ekki verið gert sennilegt að dóttir áfrýjanda hafi ekið hraðar en um 70 til 80 km á klukkustund, svo sem hún hefur haldið fram. Þjóðvegurinn var með bundnu slitlagi og hámarkshraði þar því meiri en þessu nam, sbr. 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga. Í vottorði Veðurstofu Íslands 29. mars 2000 var veðri í Dalsmynni, skammt frá slysstað, lýst svo að kl. 21 að kvöldi 20. ágúst 1998 hafi vindhraði verið 1 m á sekúndu úr vestri, skýjað hafi verið og þokumóða, en skyggni 20 til 50 km. Var hiti 9,2 gráður. Við þessar aðstæður allar verður dóttur áfrýjanda ekki metið til gáleysis að hafa ekið á þeim hraða, sem að framan greinir, og fær það því ekki breytt að hún hafi í umrætt sinn ekið um blindhæð.
Samkvæmt framansögðu verður felld á stefndu óskert bótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.
III.
Fallist verður á með héraðsdómara að áfrýjandi hafi nægilega leitt í ljós, meðal annars með vætti dóttur hennar, sem fær stoð í framburði tveggja vitna, að skemmdirnar á bifreiðinni, sem bótakrafa áfrýjanda tekur til, hafi hlotist af því atviki, sem um ræðir í málinu.
Svo sem áður greinir áætlaði tjónaskoðunarstöð vátryggingafélagsins, sem bifreið áfrýjanda var vátryggð hjá, að kostnaður af viðgerð hennar myndi nema 309.437 krónum. Áfrýjandi leitaði sem fyrr segir ekki til verkstæðis um viðgerðina, heldur annaðist eiginmaður áfrýjanda hana og fékk til þess liðsinni annarra. Kröfu áfrýjanda um bætur vegna kostnaðar af þessu, samtals 178.843 krónur, er í samanburði við áætlun tjónaskoðunarstöðvarinnar mjög í hóf stillt. Þá hefur kröfu áfrýjanda um 9.000 krónur í bætur vegna afnotamissis af bifreiðinni ekki sætt sérstökum athugasemdum. Að þessu virtu verður því krafa hennar tekin í heild til greina.
Áfrýjandi krafði stefndu Steingrím og Eystein um greiðslu bóta með bréfum 14. maí 1999, en hafði áður beint kröfu sama efnis að stefnda Halldóri. Samkvæmt 15. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 verður því fallist á með áfrýjanda að krafa hennar beri dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá áðurgreindum degi, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Stefndu verða í sameiningu dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, Halldór Steingrímsson, Steingrímur Óskarsson og Eysteinn Steingrímsson, greiði í sameiningu áfrýjanda, Ólöfu Helgu Halldórsdóttur, 187.843 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. júní 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði í sameiningu áfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 22. desember 2000.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 13. þessa mánaðar er höfðað af Ólöfu Helgu Halldórsdóttur, kt. 061148-3379, Laufási 2, Hellissandi á hendur Halldóri S. Steingrímssyni kt. 010355-5599, Brimnesi, Skagafirði, Steingrími Óskarssyni kt. 120272-4709, Skagfirðingabraut 41, Sauðárkróki og Eysteini Steingrímssyni, kt. 110865-3929, Raftahlíð 51, Sauðárkróki, með stefnu þingfestri 14. mars sl.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess, að stefndu verði gert að greiða honum bætur að fjárhæð 187.847 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 14. júní 1999 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að stefndu verði sameiginlega dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað skv. gjaldskrá Lögfræðiþjónustunnar ehf. að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefndu.
Allir stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda. Til var að bótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega eða felld niður. Þá krefjast þeir málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnanda.
Við aðalmeðferð málsins féll stefnandi frá þeirri kröfu sinni að málinu yrði vísað frá dómi.
II.
Málavextir
Um klukkan 23:00 kvöldi fimmtudagsins 20. ágúst 1998, ók Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir bifreið móður sinnar, stefnanda í máli þessu, austur þjóðveg nr. 767, Hólaveg. Þegar bifreiðin var á móts við bæinn Garðakot í Hjaltadal varð fyrir henni folald sem við áreksturinn drapst samstundis. Folaldið var í eigu stefnda Halldórs Steingrímssonar. Að sögn stefnanda var verið að reka þrjár merar með folöldum frá Hólum í Hjaltadal og að Brimnesi í Viðvíkursveit.
Ekki var gerð tjónaskýrsla á vettvangi og þá var heldur ekki kallað eftir aðstoð lögreglu. Tjónstilkynning til Vátryggingafélags Íslands hf., tryggingafélags stefnanda, var móttekin af félaginu 2. september 1998.
Að sögn stefnanda skemmdist bifreiðin talsvert við áreksturinn og hafi tryggingafélag hennar talið tjónið nema meiru en helmingi af andvirði bifreiðarinnar. Eiginmaður stefnanda gerði við bifreiðina og er fjárhæð reikninga fyrir vinnu hans, efnis og varahluta stefnufjárhæð máls þessa. Af hálfu stefndu er því hins vegar haldið fram að ekki hafi orðið neitt tjón á bifreiðinni við áreksturinn.
Framburður fyrir dómi.
Stefnandi bar að tryggingafélag bifreiðarinnar hafi lýst því að til stæði að greiða bifreiðina út og þess vegna hafi hún ekki verið tjónaskoðuð fyrr en raun bar.
Stefndi Steingrímur Óskarsson, staðfesti skýrslu sem hann gaf vegna málsins hjá lögreglunni á Sauðárkróki. Hann segir að hrossin hafi verið í lausagöngu þegar slysið varð en hann og meðstefndi Eysteinn hafi skilið þau eftir á grasbala meðan þeir fóru heim að bænum Nautabúi þar sem stefndi Eysteinn sótti hest sem hann átti. Hann sjálfur hafi verið að koma til baka að hrossunum þegar slysið átti sér stað. Hann kveðst ekki hafa séð þegar ekið var á folaldið en hann hafi verið á eftir hrossunum og við það að ná þeim þegar áreksturinn varð. Hann kveðst hafa stöðvað fyrir framan bifreiðina og hann og ökumaður hennar hafi verið sammála um að bifreiðin væri ekki skemmd. Mætti ber að hann og ökumaður hafi verið sammála um að ekki hafi verið ástæða til að gefa lögregluskýrslu vegna málsins.
Stefndi ber að veður hafi verið ágætt en nokkuð hafi verið farið að rökkva á þessum tíma.
Stefndi Eysteinn Steingrímsson, staðfesti lögregluskýrslu sem hann gaf vegna málsins. Mætti bar að hann og meðstefndi Steingrímur hafi farið að Hólum til að sækja merar með folöldum. Merarnar hafi verið teymdar frá Hólum að Laufskálum en sleppt þar og reknar þar til rekstri var hætt á grasbala rétt við Nautabú en þangað hafi hann farið að sækja hest sem hann ætlaði að nota við reksturinn. Mætti bar að hann hafi ekki orðið vitni að slysinu.
Vitnið Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, dóttir stefnanda var ökumaður bifreiðarinnar KR-067 í umrætt sinn. Vitnið segir að á þeim tíma sem slysið átti sér stað hafi verið myrkur, rigning og slæmt skyggni. Hún lýsti slysinu þannig að þegar hún hafi kom upp á eina afa mögrum blindhæðum á veginum heim að Hólum hafi skyndilega birst fyrir framan hana stóð af hestum. Hún hafi reynt að bremsa til að forðast árekstur en það hafi ekki tekist. Hún kveðst hafa lagt bifreiðinni og í sömu mund hafi borðið að bifreið sem fylgdi hrossunum. Hún kveðst hafa gengið afturfyrir bílinn og séð að þar lá folald. Maðurinn sem kom á hinni bifreiðinni hafi þekkt folaldið og sagt við hana að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu. Hún segir manninn hafa farið fljótt af vettvangi og eftir að hann var farinn hafi hún gengið fram fyrir bílinn og séð skemmdirnar. Þá lýsti vitnið skemmdum bifreiðarinnar þannig að hægra framhorn hafi verið ónýtt og allt sem þar var svo og húdd dyrnar farþegamegin. Vitnið segir bifreiðina hafa verið góðu lagi fyrir áreksturinn en hún að hafi ekið henni til Reykjavíkur nokkrum dögum eftir slysið en frá slysinu og fram til þess tíma að hún fór á bifreiðinni til Reykjavíkur hafi ekkert komið fyrir hana.
Vitnið Bjarni Kristófer Kristófersson, sá bifreiðina að Hólum daginn eftir slysið. Vitnið lýsti því að framendi bifreiðarinnar hægra megin hafi verið illa farinn, hægra frambretti illa farið svo og stuðari, dyrnar hægra megin, húddið beyglað og sennilega hafi framljósið einnig verið brotið.
Vitnið Broddi Reyr Hansen, sá eins og vitnið Bjarni Kristófer bifreiðina að Hólum daginn eftir slysið og sagði greinilegt að bifreiðin hafi lent í árekstri. Vitnið lýsti skemmdum bifreiðarinnar á svipaðan hátt og vitnið Bjarni Kristófer en þó ekki eins nákvæmlega.
Vitnið Ólafur Jens Sigurðsson, eiginmaður stefnanda bar að hann hafi gert við bifreiðina og að reikningar sem liggi frammi í málinu séu vegna viðgerðarinnar.
III.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að hún hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni sem rekja megi til þess að ekki hafi verið gætt nægilegra varúðarráðstafana við rekstur hrossanna þegar óhappið varð sbr. 2. og 3. mgr. 78. gr. umferðarlaga. Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið fylgt ákvæðum umferðarlaga um fjölda gæslumanna við rekstur hrossanna en einungis einn gæslumaður hafi verið við reksturinn þegar folaldið hljóp fyrir bifreiðina. Gæslumaður hafi ekki farið á undan hópnum eins og umferðarlög gera ráð fyrir og hrossunum hafi ekki verið vikið úr vegi fyrir bifreiðinni fljótt og greiðlega. Þá hafi ekkert hrossanna verið með glitmerki. Með þessari háttsemi sinni hafi stefndu Steingrímur og Eysteinn sýnt af sér vítavert gáleysi við reksturinn.
Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefndu Steingrími og Eysteini á grunni almennu skaðabótareglunnar en á hendur stefnda Halldóri, eiganda hrossanna, á því að hann hafi falið meðstefndu að annast reksturinn og því beri hann skaðabótaábyrgð á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar.
Stefnandi heldur því fram að óhappið verði ekki rakið til sakar eða aðgæsluleysis ökumans bifreiðarinnar enda hafi bifreiðinni verið ekið undir löglegum hámarkshraða og ökumaðurinn hafi ekki getað séð folaldið þar sem hrossin voru rekin yfir blindhæð.
Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína þannig: Vinna við réttinga, rif og samsetning bifreiðarinnar 130.000 krónur. Efni 48.843 krónur og afnotamissir 9.000 krónur. Vinnan hafi verið unnin af eiginmanni stefnanda ásamt fleirum og á því byggt að 100 klukkustundir hafi tekið að lagfæra bifreiðina og hver stund reiknuð á 1.000 krónur. Krafa um bætur vegna efniskaupa byggist á reikningum. Krafa um afnotamissi byggist á upplýsingum frá tryggingafélagi stefnanda en samkvæmt tjónaskoðunarskýrslu var áætlað að bifreiðin yrði 10 daga á verkstæði vegna tjónsins en fyrir hvern dag greiði tryggingafélagið 900 krónur. Stefnufjárhæðin sé umtalsvert lægri en mat Tjónaskoðunarstöðvar tryggingafélagsins sem metið hafi tjónið á 309.437 krónur en það sé meira en helmingur af andvirði bifreiðarinnar.
Stefnandi krefur stefndu um dráttarvexti frá 14. júní 1999 en þann dag voru reikningar sendir stefnda Halldóri. Áður höfðu reikningar verið sendir hinum stefndu.
Hvað lagarök fyrir kröfum sínum varðar vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og 2. og 3. mgr. 78. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Krafa um dráttarvexti er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sannað eða leitt líkur að því, að skemmdir hafi orðið á bifreiðinni þegar henni var ekið á folaldið. Stefnandi hafi ekki leitt fram vitni sem beri um slíkt. Stefnandi láti hjá líða í 35 daga að tjónaskoða bifreiðina og veldur slík háttsemi tómlætisáhrifum og auki sönnunarbyrði stefnaanda. Af þessum sökum mótmæla stefndu því að nokkrar skemmdir hafi orðið á bifreiðinni þegar henni var ekið á folaldið enda hafi ökumaður bifreiðarinnar og stefndi Steingrímur ekki séð ástæðu til að fylla út tjónaskýrslu eða kalla eftir aðstoð lögreglu.
Stefndu byggja á því að full aðgæsla hafi verið sýnd við rekstur hrossanna meðan hann fór fram. Hrossunum hafi hins verið sleppt og þau í lausagöngu þegar ekið var á folaldið. Stefndu benda á í þessu sambandi að Vátryggingafélag Íslands, tryggingafélag stefnanda og stefnda Halldórs, hafi bætt stefnda Halldóri folaldið að fullu og þar með tekið afstöðu með stefndu í máli þessu.
Stefndu benda á að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að ökumaður bifreiðarinnar, Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, hafi sýnt nægilega aðgæslu við akstur bifreiðarinnar, vegna lausagöngu hrossa, né hafi hún verið á löglegum hraða. Þvert á móti lýsi ökumaður aðstæðum þannig í ódagsettu bréfi sem liggur frammi í málinu: ,,aðstæður sem þarna voru, myrkur, rigningu og skyggni afar lélegt. Önnur viðbrögð af minni hálfu en að reyna að stöðva bifreiðina (ökuhraði 70-80 km. á klst.)" Í l. lið 36. gr. umferðarlaga segi að sérstök skylda hvíli á ökumanni að aka nægilega hægt miðað við aðstæður þegar ökutæki nálgast búfé á eða við veg. Á umræddum vegi sé lausaganga búfjár almenn enda um sveitaveg að ræða og því verði að krefja ökumenn um enn frekari varkárni en ella. Leiða megi líkur, miðað við orð ökumannsins, að því að hún hafi ekið af vítaverðu gáleysi miðað við aðstæður. Því sé ósannað að ökumaður hafi sýnt nægilega aðgæslu.
Hvað varðar vararkröfu um lækkun eða niðurfellingu bótakrafna benda stefndu á að mesti hluti kröfunnar sé vegna vinnulauna maka stefnanda. Reikningi þessum sé mótmælt sem allt of háum m.a. vegna þess að ekki eru um fagmenntaðan mann að ræða. Því megi ætla að meiri tími hafi farið í viðgerð bifreiðarinnar en ella. Þannig megi benda á að í tjónaskoðunarskýrslu sé gert ráð fyrir að 40 klst. þurfi til að vinna verkið. Þá benda stefndu á að samningstaxtar bifvélavirkja eru miklu lægri en tímakaup það sem eiginmaður stefnanda ætlar sér. Ennfremur benda stefndu á að viðgerðin hafi farið fram án þeirra samþykkis. Loks benda stefndu á að á reikningi eiginmanns stefnanda vegna viðgerðarinnar sé ritað að viðgerðin hafi farið fram heima hjá honum með samþykki VÍS. Þar með sé gefið í skyn að Vátryggingafélag Íslands hafi samþykkt og greitt bótakröfu stefnanda á hendur félaginu. Hafi svo verið eigi stefnandi ekki bótakröfu á hendur stefndu. Að þessu öllu virtu telja stefndu að bótakröfu stefnanda beri að lækka verulega eða fella niður.
Hvað lagarök varðar vísa stefndu til almennu skaðabótareglunnar, reglna umferðarlaga um ökuhraða og almennra reglna um tómlæti hvað varðar tilkynningu um tjón og rétt stefndu til að skoða ætlaðar skemmdir og sannreyna hvort þær stafi frá umræddum atburði.
IV.
Niðurstaða.
Þegar horft er til þess að folaldið drapst samstundis við áreksturinn verður að telja líklegt að nokkrar skemmdir hafi orðið á bifreiðinni enda ljóst að henni var ekið með a.m.k. 70 til 80 kílómetra hraða miðað við klukkustund upp hæð þar sem áreksturinn varð. Ekki þykir óvarlegt að leggja til grundvallar að skemmdirnar hafi í meginatriðum orðið þær sem getur í tjónaskýrslu Vátryggingafélags Íslands enda verður ekki annað séð en að þær skemmdir séu í samræmi við lýsingu vitnanna Bjarna Kristófers og Brodda Reyrs á ástandi bifreiðarinnar eftir slysið.
Fallast má á með stefnanda að hann hafi takmarkað tjónið með því að eiginmaður hennar ásamt fleirum lagfærði bifreiðina fyrir þá fjárhæð sem nemur stefnufjárhæð máls þessa en sú tala er mikið lægri en áætlaður viðgerðarkostnaður samkvæmt tjónaskoðunarskýrslu Vátryggingafélags Íslands. Þykir stefnufjárhæðin því ekki óeðlilega há.
Við munnlegan flutning málsins studdi stefnandi kröfu sína þeim rökum að með vísan til 56. gr. vegalaga nr. 45/1994 væri lausaganga búfjár bönnuð á því svæði sem slysið varð enda sé Hólavegur tengivegur í skilningi vegalaga. Stefndu mótmæltu þessari málsástæðu. Þar sem þessa málsástæðu er ekki að finna í stefnu, og stefndu gafst þar af leiðandi ekki kostur á að verjast henni t.d. með því að láta fara fram skoðun á því hvort girðingar hafi verið meðfram veginum á þeim tíma sem slysið varð og þá einnig hvort þær hafi verið búfjárheldar, verður þessi málsástæða því ekki tekin til umfjöllunar hér. Telst því ósannað að lausaganga búfjár hafi verið bönnuð á þessum stað þegar slysið átti sér stað.
Kemur því til úrlausnar hvort stefndu beri ábyrgð á slysinu með aðgæsluleysi við rekstur. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en að leggja verði til grundvallar framburð stefndu á þá leið að þeir hafi skilið hrossin eftir, þrátt fyrir að það hafi verið óvarlegt, á grasbala nálægt heimreiðinni að bænum Nautabúi þar sem stefndi Eysteinn sótti hest til að nota við reksturinn. Samkvæmt þessu voru hrossin í lausagöngu meðan stefndu fóru heim að Nautabúi en ekki í rekstri. Þá verður og að byggja á framburði stefnda Steingríms þess efnis að hann hafi verið við það að ná hrossunum þegar ekið var á folaldið en hrossin höfðu þá farið nokkurn spöl frá þeim stað sem þeim var sleppt og var rekstur því ekki byrjaður að nýju á þessum tíma.
Samkvæmt þessu hefur stefnanda ekki tekist að sanna að stefndu beri með vísan til 2. og 3. mgr. 78. gr. umferðarlaga, ábyrgð á slysinu og verða þeir því sýknaðri af kröfum hennar í máli þessu.
Að þessari niðurstöðu fenginni verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu sameiginlega málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur. Stefndu hafa ekki gert grein fyrir því hvort þeir eru virðisaukaskattskyldir eða ekki og verður krafa þeirra um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun því ekki tekin til greina.
Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndu, Halldór S. Steingrímsson, Steingrímur Óskarsson og Eysteinn Steingrímsson eru sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, Ólafar Helgu Halldórsdóttur í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu sameiginlega 100.000 krónur í málskostnað.