Hæstiréttur íslands
Mál nr. 416/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
- Forgangskrafa
- Gjöf
- Laun
|
Þriðjudaginn 24. ágúst 2010. |
|
|
Nr. 416/2010. |
Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. (Lilja Jónasdóttir hrl.) gegn Stephen Andrew Jack (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Fjámálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Forgangskrafa. Gjöf. Laun.
S hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu SA um að krafa hans vegna kaupauka yrði viðurkennd sem forgangskrafa við slit S hf. Talið var að ekki væri unnt að líta svo á að kaupaukinn teldist laun eða annað endurgjald fyrir vinnu hans. Krafan gæti því ekki notið forgangsréttar við slit S hf. samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Ekki væri heldur unnt að líta á kaupaukann sem gjafaloforð og var því ekki fallist á að krafa SA nyti stöðu samkvæmt 3. tölulið 114. gr. laganna. Var krafa SA því viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna við slit S hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2010, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 179.292 sterlingspund var viðurkennd sem forgangskrafa við slit sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að hafnað verði að viðurkenna kröfu varnaraðila sem forgangskröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var varnaraðili ráðinn til starfa hjá sóknaraðila með samningi 19. október 2007, en samningurinn hefur verið lagður fram í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda. Varnaraðili hóf störf 5. nóvember sama ár og starfsheiti hans var fjármálastjóri. Starfsstöð hans var á skrifstofu sóknaraðila í London. Í 4. gr. ráðningarsamningsins, sem ber yfirskriftina launakjör, sagði meðal annars: ,,4.1 Grunnlaun þín verða £ 225.000 á ári ..., sem eru greidd mánaðarlega á fyrsta virka degi hvers mánaðar. 4.2 Þú færð eingreiðslu kaupauka við undirskrift að upphæð £ 150.000 ... sem verður greiddur þér fyrir 28. febrúar 2008. Þessi upphæð ... er gjaldkræf eftir kröfu og verður litið á hana sem skuld við félagið ef þú hættir störfum af sjálfsdáðum eða segir upp ... eða þér er sagt upp ... fyrir 5. nóvember 2008. 4.3 Þú átt kost á að taka þátt í kaupaukakerfi að eigin ákvörðun þar sem þú öðlast rétt á árlegum kaupauka að eigin ákvörðun. 4.4 Allar greiðslur sem þú móttekur samkvæmt liðum 4.2 og 4.3 ... eru með fyrirvara um staðgreiðslufrádrátt og eru óháðar lífeyri. Hér með firrir þú félagið ... öllum skuldbindingum varðandi greiðslu á tekjuskatti og tryggingargjöldum hver sem þau eru og hvar sem þau kunna að koma til. 4.5 Vegna liðar 4.2 hér að ofan, hefur forstjóri félagsins ákvörðunarvald um hvort einhverjar aðgerðir teljist alvarlegt misferli eða alvarlegt brot á ráðningarsamningi ... 4.6 Þú öðlast rétt til að taka þátt í kauprétti á hlutum sem félagið kemur á.“
Í grein 16A í ráðningarsamningi voru ákvæði um stöðu varnaraðila ef breyting yrði á eignarhaldi sóknaraðila eða ef starfsskyldum varnaraðila yrði breytt einhliða af sóknaraðila. Við þær aðstæður skyldi varnaraðila ,,heimilt innan 30 daga ... að rifta þessum samningi með skriflegri uppsögn til félagsins með mánaðar fyrirvara. Ef þú innan þessa tiltekna tíma, nýtir þér rétt til að rifta þessum samningi ... mun félagið innan þessa þrjátíu (30) daga tímabils ... greiða þér í reiðufé EUR 2.000.000.“
Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði var varnaraðila tilkynnt af hálfu forstjóra sóknaraðila 16. febrúar 2009 að kaupauki samkvæmt grein 4.3 í ráðningarsamningi vegna ársins 2008 yrði 200.000 evrur, en að greiðslu hans yrði frestað til 31. desember 2009 en þá greidd í sterlingspundum miðað við gengi þess gjaldmiðils 13. febrúar 2009. Frá myndi dragast skattur og tryggingargjald.
Í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á valdi hluthafafundar í sóknaraðila 9. mars 2009 sagði varnaraðili upp starfi sínu hjá sóknaraðila 23. sama mánaðar. Í uppsagnarbréfi minnti hann á að samkvæmt ráðingarsamningi ætti hann, eins og atvikum væri háttað, rétt til greiðslu á 2.000.000 evra innan 30 daga frá uppsögn.
Samkomulag tókst 30. apríl 2009 með aðilum málsins, sem aðstoðarmaður sóknaraðila í greiðslustöðvun, sem félaginu hafði verið veitt heimild til, samþykkti. Samkvæmt því skyldi varnaraðili starfa áfram hjá sóknaraðila til 31. maí 2009 en eftir þann tíma tæki við átta mánaða uppsagnarfrestur. Í samkomulaginu var einnig tekið fram að réttur varnaraðila til kaupaukagreiðslunnar að fjárhæð 200.000 evrur skyldi vera hinn sami og hann hefði haldið áfram störfum hjá sóknaraðila. Fyrirvari var gerður um afstöðu sóknaraðila að þessu leyti ef til gjaldþrotaskipta á búi hans kæmi eða endurskipulagningar hans sem leitt gæti til lækkunar kröfu með nauðasamningi. Samkvæmt 4. grein samkomulagsins féll varnaraðili frá kröfu sinni um greiðslu á 2.000.000 evra með því skilyrði að samkomulagið yrði virt ,,að fullu og að hann fái kaupaukagreiðsluna“.
II
Sóknaraðili andmælir því ekki að yfirlýsing hans um kaupauka 16. febrúar 2009 hafi verið skuldbindandi fyrir hann. Fyrir Hæstarétti er eingöngu um það deilt hver staða kröfu varnaraðila í kröfuröð skuli vera við slit sóknaraðila. Er ekki um það deilt að fjárhæð kröfunnar sé rétt miðað við þær forsendur um gengi á sterlingspundi 13. febrúar 2009, sem yfirlýsing sóknaraðila kvað á um. Telur sóknaraðili að krafa varnaraðila sé krafa samkvæmt gjafaloforði er fólst í yfirlýsingu sóknaraðila um kaupauka og sé hún því eftirstæð krafa, sbr. 3. töluliður 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Af málatilbúnaði beggja aðila verður ráðið að skýra beri grein 4.3 í ráðningarsamningnum á þann veg að við ráðningu varnaraðila í starf fjármálastjóra hafi hann orðið hlutgengur til þátttöku í valkvæðu kaupaukakerfi, sem veitt gæti honum rétt til kaupauka árlega, sem ákveðinn væri einhliða af sóknaraðila. Er þetta í samræmi við orðalag greinarinnar á frummálinu í ráðingarsamningnum, sem hljóðar svo: ,,You will be eligible to participate in a discretionary bonus scheme in which you may be entitled to receive a discretionary bonus award annually.“ Varnaraðili á því ekki rétt til kaupauka fyrir vinnuframlag sitt, en sóknaraðili ákvarðaði honum 200.000 evrur í slíkan kaupauka fyrir árið 2008. Af gögnum málsins verður ráðið að við ákvörðun um kaupaukann og fjárhæð hans hafi einkum verið litið til frammistöðu varnaraðila í starfi, mikilvægis hans sem starfsmanns fyrir sóknaraðila og afkomu sóknaraðila á árinu 2008. Ekki skyldi greiða iðgjald til lífeyrissjóðs vegna kaupaukans og sóknaraðili skuldbatt sig til þess að tryggja að varnaraðili þyrfti ekki að greiða tekjuskatt eða tryggingargjald vegna kaupaukans. Af þessum ástæðum er ekki unnt að líta svo á að kaupaukinn, að fjárhæð 200.000 evrur, teljist laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 378/2010 sem kveðinn var upp 13. ágúst 2010. Krafan getur því ekki notið forgangsréttar við slit sóknaraðila samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði. Eins og áður greinir andmælir sóknaraðili því ekki að yfirlýsing hans 16. febrúar 2009 um kaupaukann hafi verið skuldbindandi. Kaupaukinn er hluti af hvatakerfi sóknaraðila, sem ætlað er að umbuna tilteknum starfsmönnum, eftir ákvörðun sóknaraðila, meðal annars fyrir frammistöðu í starfi. Ekki er því unnt að líta á yfirlýsingu sóknaraðila um kaupaukann sem gjafaloforð. Verður því ekki fallist á með sóknaraðila að krafa varnaraðila njóti stöðu samkvæmt 3. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt framansögðu verður krafa varnaraðila viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga við slit sóknaraðila.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Krafa varnaraðila, Stephen Andrew Jack, að fjárhæð 179.292 sterlingspund, er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila, Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2010.
I
Mál þetta var þingfest 21. september 2009 og tekið til úrskurðar 17. maí 2010. Sóknaraðili er Stephen Andrew Jack, búsettur í London, en varnaraðili er Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf., Borgartúni 25, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að krafa hans til slitastjórnar varnaraðila 7. júlí 2009 að fjárhæð GBP 179.292 verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til vara er þess krafist að ofangreind krafa verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.
II
Samkvæmt gögnum málsins var William Fall, fyrrverandi forstjóri alþjóðasviðs Bank of America, ráðinn forstjóri varnaraðila í maí 2007. Kveður sóknaraðili að reynsla William af störfum við fjárfestingabanka hafi verið mikil og hafi hann komið með nýja sýn inn í rekstur varnaraðila. Eitt af því sem William hafi lagt áherslu á að hafa í föstum skorðum hafi verið að skilgreina feril vegna greiðslu kaupauka og úthlutun kaupréttar á hlutabréfum til starfsmanna varnaraðila. Eftir að William kom til starfa hjá varnaraðila hafi verið ákveðið að greiðsla kaupauka færi fram í febrúar/mars ár hvert og hafi William lagt áherslu á að vinna yrði sem vönduðust og niðurstaða sem sanngjörnust þannig að ferill úthlutunar og ákvörðunar um kaupauka til starfsmanna hæfist nokkrum mánuðum áður en greiðsla færi fram. Þannig hafi vinna við ákvörðun fjárhæðar og úthlutunar kaupauka vegna áranna 2007 og 2008 hafist í nóvember árið áður en greiðsla skyldi fara fram.
Hinn 19. október 2007 var sóknaraðili ráðinn til starfa hjá varnaraðila sem fjármálastjóri og undirrituðu aðilar ráðningarsamning þess efnis sama dag. Í 4. gr. ráðningarsamningsins var kveðið á um launakjör, í grein 4.1 var kveðið á um grunnlaun, í grein 4.2 var kveðið á um eingreiðslu kaupauka við undirritun samningsins og í grein 4.3 var kveðið á um mögulega greiðslu árlegs kaupauka. Þá segir í grein 16A í ráðningarsamningi að verði um að ræða breytt eignarhald eða breytingu á hlutverki félagsins innan tveggja ára frá upphafi ráðningar geti sóknaraðili innan 30 daga rift samningnum og eigi hann þá rétt á greiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000.
Framkvæmdastjóri varnaraðili og yfirmaður mannauðssviðs félagsins, Davíð Freyr Oddsson sendi forstjóra varnaraðila tölvupóst 23. nóvember 2008 varðandi greiðslu kaupauka og úthlutun kaupréttar til starfsmanna varnaraðila. Kveður sóknaraðili að þetta hafi verið upphaf þess ferils er varnaraðili hefði komið sér upp og megi af gögnum málsins sjá að það hafi tekið um þrjá mánuði að ákvarða kaupauka til starfsmanna varnaraðila. Hafi svo verið unnið að málinu og ákvörðun tekin af forstjóra varnaraðila, mannauðssviði félagsins, öllum framkvæmdastjórum þess, stjórn þess og starfskjaranefnd.
Þá kemur fram hjá sóknaraðila að þar sem rekstur varnaraðila hafi ekki gengið sem skyldi árið 2008 hafi hugmyndafræðin að baki greiðslu kaupauka og úthlutun kaupréttar aðallega verið sú að uppfylla skyldur bankans samkvæmt ráðningarsamningi við starfsmenn og að halda í þá starfsmenn sem væru mikilvægastir fyrir rekstur varnaraðila. Hafi með því ekki verið að verðlauna starfsmenn sérstaklega fyrir rekstur ársins 2008. Sé ljóst af gögnum málsins að ekki hafi verið sátt innan bankans um fjárhæð kaupauka, enda hafi fjárhæð hans verið skorin verulega niður miðað við árið áður. Hafi stjórn bankans þó talið nauðsynlegt, að teknu tilliti til eðlis starfsemi fjárfestingabanka og þess háttar er hafður hefði verið á varðandi endurgjald fyrir vinnu starfsmanna, að greiða kaupauka til ákveðinna mikilvægra starfsmanna og þeirra sem höfðu samið í ráðningarsamningi um skuldbindingu varnaraðila til slíkrar greiðslu.
Hinn 16. febrúar 2009 tilkynnti forstjóri varnaraðila sóknaraðila að kaupauki hans samkvæmt grein 4.3 í ráðningarsamningi yrði að fjárhæð EUR 200.000 og að hann yrði greiddur í enskum pundum miðað við gengi 13. febrúar 2009. Þar sem sóknaraðili væri í stjórnendateymi varnaraðila yrði kaupaukagreiðslunni frestað til 31. desember 2009. Yrði kaupaukagreiðslan greidd að frádregnum skatti og tryggingargjaldi með desemberlaunum 2009.
Fjármálaeftirlitið ákvað 9. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 19. mars 2009, sem standa átti til 11. júní sama ár, en áður en sá tími var á enda var honum skipuð slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaði 18. maí 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 18. júlí 2009.
Hinn 23. mars 2009 sagði sóknaraðili upp störfum hjá varnaraðila en með samkomulagi 30. apríl 2009, sem aðstoðarmaður varnaraðila í greiðslustöðvun samþykkti, tók sóknaraðili að sér að starfa áfram sem fjármálastjóri hjá varnaraðila allt til 31. maí 2009. Eftir þann tíma tæki við átta mánaða uppsagnarfrestur. Í 3. gr. samkomulagsins er fjallað um kaupaukagreiðslu þá sem um er deilt í máli þessu. Sömdu aðilar um að réttur starfsmanns til greiðslu kaupauka samkvæmt grein 4.3 í ráðningarsamningi skyldi ekki minnka vegna uppsagnar starfsmanns eða starfsloka hans eins og kveðið sé á í samningnum. Réttur starfsmanns til greiðslu kaupauka skyldi vera sá sami og hann hefði verið ef starfsmaður hefði áfram verið ráðinn á grundvelli ráðningarsamningsins en aðrir þættir skyldu vera óbreyttir. Þá segir að samningur þessi innihaldi ekki formlega afstöðu vinnuveitanda (skilanefndar eða aðstoðarmanns skuldara við fjárhagslega endurskipulagningu) hvað varði mat á kaupaukagreiðslunni ef vinnuveitandi verði gjaldþrota eða endurskipulagning vinnuveitanda hafi í för með sér lækkun á kröfum með nauðasamningi.
Í 4. gr. samkomulagsins segir að starfsmaður falli frá kröfu um eingreiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000 samkvæmt grein 16A í ráðningarsamningi með því skilyrði að þessi samningur sé virtur að fullu og öllu og að starfsmaður fái kaupaukagreiðslu þá sem kveðið sé á um í 3. gr. samkomulagsins.
Sóknaraðili lét af störfum sem fjármálastjóri varnaraðila 31. maí 2009 í samræmi við framangreint samkomulag. Sóknaraðili kveður að þar sem varnaraðili hafi samþykkt að hann fengi greiddan kaupauka líkt og aðrir starfsmenn hafi hann tekið þá ákvörðun að gefa eftir kröfu um greiðslu EUR 2.000.000. Hafi hann gefið kröfuna eftir með því skilyrði að hann fengi umsamda kaupaukagreiðslu.
Hinn 7. júlí 2009 lýsti sóknaraðili kröfu til slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð GBP 336.215, sem samanstóð af launum í uppsagnarfresti að fjárhæð GBP 18.750 á mánuði og kaupaukagreiðslu að fjárhæð GBP 179.292 sem er samsvarandi EUR 200.000. Krafðist hann þess að krafan væri viðurkennd sem forgangskrafa með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með bréfi 30. júlí 2009 tilkynnti slitastjórn varnaraðila lögmanni sóknaraðila að kröfu sóknaraðila, sem var nr. 73 á kröfuskrá, væri hafnað í heild sinni. Ekki var leyst úr ágreiningi aðilanna um þetta á kröfuhafafundum, sem slitastjórnin hélt 6., 18. og 25. ágúst og 2. september 2009, og vísaði slitastjórn varnaraðila ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 2. september 2009. Í málinu liggja frammi tvær kröfuskrár, annars vegar dagsett í júlí 2009 og hins vegar 2. september 2009. Samkvæmt þeirri síðari hefur varnaraðili viðurkennt kröfu sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti að fjárhæð GBP 156.923 sem forgangskröfu. Í samræmi við það hefur sóknaraðili hefur nú lækkað upphaflega kröfu sína og stendur nú aðeins eftir ágreiningur um kröfu sóknaraðila um greiðslu kaupauka samkvæmt grein 4.3 í ráðningarsamningi, sbr. grein 3 í samningi aðila frá 30. apríl 2009.
III
Sóknaraðili telur engin rök standa til annars en að taka kröfu hans að fullu til greina. Sé alls óvíst á hvaða lagagrundvelli varnaraðili hafni kröfu sóknaraðila en þrátt fyrir að sóknaraðili hafi óskað eftir rökstuðningi frá slitastjórn fyrir höfnun kröfunnar hafi því verið svarað að ekki væri ástæða til frekari rökstuðnings að svo stöddu.
Í beiðni varnaraðila um dómsmeðferð vegna ágreinings um lýsta kröfu, dagsettri 2. september 2009, segi að ástæða fyrir höfnun varnaraðila á greiðslu kaupauka til sóknaraðila sé byggð á því að matskennd ákvörðun um greiðslu kaupauka svo skömmu fyrir greiðsluþrot bankans sé ekki skuldbindandi. Þá sé því enn fremur hafnað að slík krafa, teldist hún á annað borð skuldbindandi, geti talist forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Þessum rýra rökstuðningi varnaraðila hafnar sóknaraðili.
Sé ljóst af framangreindu að varnaraðili telji annars vegar að sóknaraðili eigi ekki kröfu á hendur varnaraðila vegna kaupaukans og hins vegar, sé hún til staðar, falli hún ekki undir 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili sé engu nær á hverju höfnun varnaraðila byggist. Það sé ómögulegt fyrir sóknaraðila að gera sér grein fyrir því hvort höfnunin sé byggð á ógildingarreglum samningalaga, kröfuréttarlegum sjónarmiðum eða sjónarmiðum XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun. Þrátt fyrir þennan óskýrleika hafi varnaraðili hafnað frekari rökstuðningi.
Sé krafa sóknaraðila byggð á samningum sem gerðir hafi verið af þar til bærum aðilum, sbr. ráðningarsamningur 19. október 2007, og samningur aðila 30. apríl 2009. Sé hluti launa sóknaraðila byggður á kaupauka, sbr. lið 4.3 í ráðningarsamningnum. Fjárhæð þeirrar kaupaukagreiðslu sé alfarið ákveðin af varnaraðila sem hluti af launakjörum sóknaraðila. Ákvörðun um kaupauka hafi verið tekin af forstjóra, stjórn, starfskjaranefnd, mannauðsstjóra o.fl. og hafi markmið hennar verið skýrt afmarkað í samskiptum þeirra á milli og í fundargerð stjórnar og starfskjaranefndar. Slík ákvörðun sé skuldbindandi og krafa sóknaraðila því gild.
Þá hafi ákvörðun um greiðslu kaupauka verið áréttuð í samningi aðila, dagsettum 30. apríl 2009. Sé samningurinn meðal annars undirritaður af þáverandi aðstoðarmanni í greiðslustöðvun varnaraðila og núverandi stjórnarmanni í slitastjórn varnaraðila, þ.e. sömu slitastjórn og nú telji samninginn óskuldbindandi. Sé slík afstaða óskiljanleg og ósanngjörn, enda hafi sóknaraðili afsalað sér kröfu að fjárhæð EUR 2.000.000, sem samsvari miðað við núverandi gengi 365.000.000 króna, þegar sá samningur hafi verið gerður. Líkt og fram komi í framangreindum samningi sé það afsal háð því að sóknaraðili fái greiddan kaupauka, sbr. grein 4 í samningnum.
Sóknaraðili hafi 25 ára reynslu í fjármálageiranum. Á því tímabili hafi greiðsla kaupauka verið fastur liður í endurgjaldi hans fyrir vinnu í þágu vinnuveitenda sinna. Krafa hans í bú varnaraðila sé sanngjörn. Hann hafi eingöngu óskað eftir greiðslu í samræmi við það sem um hafi verið samið varðandi endurgjald hans fyrir vinnu, enda hafi greiðsla kaupauka verið hluti af væntingum sóknaraðila þegar komið hafi verið að endurgjaldi hans fyrir störf í þágu varnaraðila.
Hefði sóknaraðili vitað af því að varnaraðili ætlaði sér að hafna kröfu hans um kaupauka sem annars vegar skuldbindandi og hins vegar sem forgangskröfu hefði hann getað gert kröfu í búið um sem nemi umræddri greiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000. Hefði sú krafa fallið undir 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, enda ljóst að þar sé um bætur vegna slita á vinnusamningi að ræða. Varnaraðili hafi þó ekki séð ástæðu til þess að upplýsa sóknaraðila um þetta fyrr en eftir lok kröfulýsingarfrests. Hafi því verið of seint fyrir sóknaraðila að lýsa kröfu sinni að fjárhæð EUR 2.000.000. Sé það því í hæsta máta ósanngjarnt ef krafa varnaraðila verði tekin til greina, enda hafi sóknaraðili sýnt varnaraðila mikinn skilning með afsali réttmætrar og umsaminnar kröfu sinnar tífalt hærri fjárhæðar en kaupaukakrafan.
Þá megi minnast á að í 1. mgr. 3. gr. umrædds samnings segi að réttindi sóknaraðila til greiðslu kaupauka eigi að vera þau sömu og ef hann hefði haldið áfram sem starfsmaður varnaraðila. Með vísan til þess sé óskiljanlegt hvers vegna varnaraðili hafni kröfu sóknaraðila, enda hafi sóknaraðili fengið þær upplýsingar að þeir starfsmenn sem enn starfi fyrir varnaraðila og hafi verið lofað kaupauka fái þær greiðslur á gjalddaga þeirra. Krafa sóknaraðila sé samningskrafa og ekkert í málinu gefi tilefni til annars en að þeir samningar sem sóknaraðili byggi kröfu sína á séu enn í fullu gildi.
Ekki sé að mati sóknaraðila rökstutt hvers vegna varnaraðili telji að krafa sóknaraðila um kaupauka sé ekki forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 komist héraðsdómur að því að krafan sé á annað borð skuldbindandi. Krafa um kaupaukagreiðslu byggist á ráðningarsamningi aðila og samningi dagsettum 30. apríl 2009. Ljóst sé að gjalddagi þeirrar greiðslu hafi átt að vera í febrúar 2009, það er fyrir frestdag, en ákvörðun hafi verið tekin þess efnis að stjórnendur varnaraðila fengju ekki greiðslu fyrr en 31. desember 2009.
Í ráðningarsamningi komi endurgjald starfsmanns fyrir vinnu í þágu vinnuveitanda fram í 4. grein samningsins en í íslenskri þýðingu hafi sú grein fyrirsögnina, launakjör. Ætti því að vera óumdeilt að allt sem fram kemur í 4. grein samningsins sé laun eða endurgjald fyrir vinnu starfmanns í þágu vinnuveitanda.
Það sé meginregla í vinnurétti að við uppsögn skuli greiða starfsmanni eða heimila honum afnot af því sem honum beri og hann eigi rétt á út uppsagnarfrest, hvort sem það eru laun í uppsagnarfresti, uppsafnað orlof, áfallinn kaupauki, notkun farsíma, notkun bifreiðar o.s.frv. Hér sé um að ræða bætur vegna slita á vinnusamningi. Í bréfi varnaraðila 16. febrúar 2009 segi að sóknaraðili eigi ekki rétt á umræddum kaupauka ef hann segi upp störfum fyrir 31. desember 2009. Þá hefði hann aftur á móti átt rétt á greiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000. Varnaraðili hafi tekið þá ákvörðun að falla frá því að sóknaraðili ætti ekki rétt á kaupauka, varnaraðila sjálfum til hagsbóta, enda hafi sóknaraðili við sama tækifæri afsalað sér á móti kröfu að fjárhæð EUR 2.000.000.
Sé því til staðar skýr skuldbinding um að sóknaraðili eigi rétt á greiðslu að fjárhæð EUR 200.000 eða GBP 179.292 eftir slit á ráðningarsamningi hans. Falli sú krafa undir það að vera krafa um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafi átt sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tl.1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eða eftir frestdag, sbr. 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna. Sé krafan því forgangskrafa sem falli undir 112. gr. laganna.
Við þetta megi bæta að um ráðningarsamning sóknaraðila gildi ensk lög. Samkvæmt reglum ensks vinnuréttar sé hluti endurgjalds fyrir vinnu það sem tíðkist í viðkomandi geira og starfsmaður hafi réttmætar væntingar til að fá. Það sé nákvæmlega það sem eigi við í tilfelli sóknaraðila, enda hafi hluti endurgjalds hans fyrir vinnu í þágu vinnuveitenda sinna í 23 ár verið greiðsla kaupauka sem hluti launakjara. Þar sem hluti endurgjalds fyrir vinnu samkvæmt enskum vinnurétti séu kaupaukagreiðslur þá beri að túlka samninga sóknaraðila í samræmi við það.
Um lagarök vísar sóknaraðili einkum til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þá sérstaklega til þeirra ákvæða sem rakin séu að framan. Þá vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvað varðar málskostnað og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
IV
Varnaraðili kveðst ekki mótmæla því að yfirlýsing um kaupauka hafi verið skuldbindandi. Líkt og varnaraðili hafi vísað til í erindi sínu til héraðsdóms 2. september 2009, snúist ágreiningur aðila um meintan rétt sóknaraðila til greiðslu kaupauka, líkt og um laun væri að ræða. Í því felist að varnaraðili hafni því að krafa sóknaraðila sé forgangskrafa, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991, og á grundvelli sömu sjónarmiða hafni varnaraðili því jafnframt að krafa sóknaraðila sé almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila ekki vera forgangskröfu heldur sé þar um að ræða eftirstæða kröfu, sbr. 3. tl. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991 þar sem yfirlýsing varnaraðila um greiðslu kaupauka hafi falið í sér gjafaloforð. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi veitt varnaraðila heimild til greiðslustöðvunar hinn 19. mars 2009 og hafi ákvörðun um greiðslu kaupauka því verið tekin um einum mánuði áður en óskað var greiðslustöðvunar. Varnaraðili telur að matskennd ákvörðun um greiðslu kaupauka svo skömmu fyrir greiðsluþrot varnaraðila geti ekki fallið undir hugtakið laun, sbr. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóti kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með ákvæði þessu, sem skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, sé vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Verði ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiði af orðanna hljóðan. Þegar þannig sé rætt um laun samkvæmt ákvæðinu sé ótvírætt sett sú regla að réttur til launa, sem þar geti átt undir, þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu.
Varnaraðili telur að í loforði um greiðslu kaupauka, hafi ekki falist loforð um greiðslu launa heldur hafi verið um gjöf að ræða, sbr. 3. tl. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991, eða gjafaloforð. Með gjafaloforði í fjármunarétti sé almennt átt við loforð um að afhenda loforðsmóttakanda til eignar verðmæti í eigu loforðsgjafa, án þess að fyrir komi endurgjald, enda byggi afhending þessi á vilja loforðsgjafans til að gefa og hafi í för með sér rýrnun á eignum hans, sem verðmæti gjafarinnar nemi, en samsvarandi aukningu á eignum loforðsmóttakanda. Gjafahugtakið samkvæmt lögum nr. 21/1991 sé jafnframt skilgreint rúmt og sé um hlutlægt mat að ræða.
Í þessu samhengi sé mikilvægt að geta þess að ekki hafi verið krafist sérstaks vinnuframlags sóknaraðila vegna greiðslu kaupaukans. Um hafi verið að ræða vilyrði um greiðslu sem ekki hafi tengst endurgjaldi til sóknaraðila fyrir vinnu. Sú eina krafa hafi verið gerð að sóknaraðili væri enn starfsmaður varnaraðila á gjalddaga kaupaukans. Hér hafi ekki verið um að ræða kröfu um sérstakt vinnuframlag, heldur almennt skilyrði sem gefanda sé sannanlega heimilt að setja fyrir gjöf sinni. Þá hafi samningsbundin skylda til að greiða umþrættan kaupauka ekki hvílt á varnaraðila. Þessu til stuðnings megi meðal annars vísa til orðalags greinar 4.3 í ráðningarsamningi aðila þar sem kveðið hafi verið á um að sóknaraðili geti átt rétt á árlegum bónusgreiðslum, en í því hafi ekki falist skylda af hálfu varnaraðila til að inna af hendi slíka greiðslu. Hvað sem þessu líði hafi það hins vegar ekki ráðandi áhrif, varðandi skilgreiningu á gjafaloforði, hvort um samningsbundna skyldu hafi verið að ræða eða ekki.
Auðsýnt sé að ef greiðsla kaupauka væri endurgjald fyrir vinnu sóknaraðila, hefði sóknaraðili væntanlega átt umsaminn og skilyrðislausan rétt til greiðslunnar, auk þess sem fjárhæð greiðslunnar hefði verði samningsatriði á milli aðila eða hún lægi í það minnsta fyrir. Ákvörðun um að inna umþrætta greiðslu af hendi hafi hins vegar einhliða og alfarið verið í höndum varnaraðila og hafi fjárhæð greiðslunnar verið háð mati varnaraðila. Greiðsla kaupauka hafi því verið einhliða og matskennd ákvörðun varnaraðila. Þegar af þessum sökum megi ljóst vera að ekki hafi verið um launagreiðslu að ræða, heldur gjöf. Beri því að skipa kröfu varnaraðila í réttindaröð samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé einnig rétt að geta þess að sóknaraðili hafi fengið greitt fyrir vinnuframlag sitt í hverjum mánuði. Við þær greiðslur hafi varnaraðili staðið að fullu og hafi krafa sóknaraðila til greiðslu launa í uppsagnarfresti verið viðurkennd sem forgangskrafa.
Varnaraðili telur jafnframt, andstætt því sem sóknaraðili haldi fram, að fyrirsagnir í ákvæðum ráðningarsamnings hafi enga sérstaka þýðingu við ákvörðun um hvað skuli skilgreint sem laun. Líta beri til þess skilnings sem lagður sé í hugtökin gjafir og laun samkvæmt lögum nr. 21/1991 og markmiða slíkra gerninga. Fyrirsagnir í ráðningarsamningi séu einfaldlega ekki ráðandi þættir við slíka lögskýringu.
Þá telji varnaraðili fráleitt að reglur ensks vinnuréttar hafi einhverja þýðingu við mat á því hvar krafa sóknaraðila stendur í réttindaröð samkvæmt lögum nr. 21/1991. Sé slíkri röksemdafærslu sóknaraðila alfarið hafnað.
Þá telur varnaraðili jafnframt auðsýnt að ef til greiðslu kaupaukans kæmi, væri þar um riftanlega ráðstöfun að ræða, sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991, þar sem um gjafagerning væri að ræða. Með hliðsjón af því að á slitastjórn varnaraðila hvíli að gæta jafnræðis meðal kröfuhafa og að takmarka mögulegt tjón þeirra, sé varnaraðila ekki stætt á því að framkvæma hina riftanlegu ráðstöfun.
Varnaraðili mótmælir því sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila að varnaraðili telji samkomulag það sem undirritað hafi verið 30. apríl 2009 vera óskuldbindandi. Svo sé ekki en hins vegar sé skýrlega tekið fram í fyrrgreindu samkomulagi að efni samkomulagsins beri á engan hátt að skilja sem formlega afstöðu varnaraðila, skilanefndar, aðstoðarmanna í greiðslustöðvun eða annarra aðila sem komi að endurskipulagningu varnaraðila til stöðu kröfu sóknaraðila í réttindaröð.
Sóknaraðili hafi, með því að segja upp sjálfur, fyrirgert rétti til kaupauka sem og umsamins uppsagnarfrests. Að samkomulagi hafi orðið milli sóknaraðila og forstjóra varnaraðila að starfslok sóknaraðila yrðu meðhöndluð líkt og hann hefði ekki sagt upp sjálfur. Samið hafi verið um uppsagnarfrest og að réttur sóknaraðila til kaupaukans héldist óbreyttur eins og sóknaraðili hefði ekki sagt upp störfum sjálfur. Að kröfu umsjónarmanns í greiðslustöðvun hafi með skýrum hætti verið tekið fram að með samkomulaginu væri engin afstaða tekin til þess hvar umrædd kaupaukagreiðsla stæði í réttindaröð eða hvernig með hana yrði farið við endurskipulagningu rekstrar varnaraðila, svo sem við nauðasamninga.
Í samræmi við þetta hafi verið tekið fram að færi svo að greiðsla kaupaukans yrði ekki efnd, gæti sóknaraðili að nýju gert kröfu um eingreiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000. Hafi þá sérstaklega verið horft til þess að svo gæti farið að kaupaukinn yrði ekki viðurkenndur sem launakrafa.
Þá sé því mótmælt að varnaraðili hafi á einhvern hátt firrt sóknaraðila rétti til að krefjast greiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000. Í 4. gr. samkomulagsins frá 30. apríl 2009 hafi raunar verið tekið fram skýrum orðum að ef ekki kæmi til greiðslu kaupauka, þá áskildi sóknaraðili sér rétt til að gera kröfu um greiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki lýst slíkri kröfu innan kröfulýsingarfrests og verði hann sjálfur að bera hallann af slíku athafnaleysi. Öll sjónarmið um meinta ósanngirni varnaraðila í þessum efnum eigi því ekki við rök að styðjast.
Með vísan til framangreinds telur varnaraðili að hafna beri kröfu sóknaraðila um að kröfu hans verði skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til sömu sjónarmiða beri dóminum einnig að hafna varakröfu sóknaraðila um að kröfu hans verði skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé varakrafa sóknaraðila með öllu órökstudd og því ekki tæk til efnislegrar meðferðar dómsins.
Um lagarök sé meðal annars vísað til meginreglna samningaréttarins, ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Kröfu sína um málskostnað styður varnaraðili við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kveður hann að í kröfunni felist einnig krafa um greiðslu virðisaukaskatts.
V
Eins og fram er komið stendur einungis eftir í máli þessu ágreiningur um kröfu sóknaraðila um greiðslu kaupauka að fjárhæð GBP 179.292. Í erindi slitastjórnar varnaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2009, þar sem óskað er dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu sóknaraðila, kemur fram að ágreiningur aðila snúist um ætlaðan rétt sóknaraðila til greiðslu kaupauka en að slitastjórn varnaraðila telji að matsgerð ákvörðun um greiðslu kaupauka svo skömmu fyrir greiðsluþrot varnaraðila sé óskuldbindandi. Þá sé því jafnframt hafnað að slík krafa, teldist hún á annað borð skuldbindandi, geti talist forgangskrafa. Þrátt fyrir þetta kemur fram í greinargerð varnaraðila að varnaraðili mótmæli því ekki að yfirlýsingin um kaupauka sé skuldbindandi heldur sé því mótmælt að krafan sé forgangskrafa eða almenn krafa. Telur varnaraðili að skipa eigi kröfu sóknaraðila í flokk eftirstæðra krafna. Samkvæmt því er ekki ágreiningur milli aðila um tilvist kröfunnar heldur aðeins hvar skipa skuli henni í skuldaröð við slitameðferð varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að um ráðningarsamning hans gildi ensk lög og samkvæmt reglum ensks vinnuréttar sé hluti endurgjalds fyrir vinnu það sem tíðkist í viðkomandi starfsumhverfi og starfsmaður hafi réttmætar væntingar til að fá. Hafi hluti endurgjalds sóknaraðila fyrir vinnu í þágu vinnuveitenda hans í 23 ár verið greiðsla kaupauka sem hluti launakjara. Í máli þessu snýst ágreiningur aðila um það hvar skipa skuli kröfu sóknaraðila í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og verður ekki séð hvaða þýðingu ensk lög hafa varðandi þann ágreining eða þá hvort og í hverju þau eru frábrugðin íslenskum lögum. Þykir því ekki sýnt fram á annað en að um kröfur sóknaraðila skuli fara samkvæmt íslenskum lögum.
Samkvæmt grein 4.3 í ráðningarsamningi aðila átti sóknaraðili kost á að taka þátt í kaupaukakerfi. Með bréfi 16. febrúar 2009 staðfesti forstjóri varnaraðila að kaupauki samkvæmt tilgreindu ákvæði ráðningarsamningsins vegna ársins 2008 væri að fjárhæð EUR 200.000, sem ágreiningslaust er að samsvari GBP 179.292. Kemur fram í bréfinu að kaupaukinn sé vegna starfsársins 2008 og kaupaukagreiðslan verði greidd með launum í desember 2009 að frádregnum skatti og tryggingargjaldi. Þá segir að ef sóknaraðili hættir störfum fyrir félagið eða ef hann fái tilkynningu um riftun starfssamnings fyrir 31. desember 2009 vegna fækkunar starfsmanna verði honum tafarlaust greidd upphæðin í reiðufé. Ef hins vegar sóknaraðili segi sjálfur upp starfi sínu fyrir þennan tíma eigi hann ekki rétt á hinum frestaða kaupauka.
Sóknaraðili sagði upp störfum hjá varnaraðila 23. mars 2009 og vísaði til þess ákvæðis í ráðningarsamningi aðila um heimild hans til uppsagnar vegna breytts eignarhalds hjá varnaraðila í kjölfar skipunar skilanefndar. Þá vísaði sóknaraðili enn fremur til ákvæðis ráðningarsamnings um skyldu varnaraðila til greiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000 innan 30 daga. Í kjölfar þessarar uppsagnar gerðu aðilar svo með sér samkomulag 30. apríl 2009 sem aðstoðarmaður varnaraðila í greiðslustöðvun samþykkti. Þar sömdu aðilar um að sóknaraðili héldi áfram störfum hjá varnaraðila til 31. maí 2009 og að réttur hans til kaupaukagreiðslu samkvæmt grein 4.3 í ráðningarsamningi stæði óhögguð en samhliða féll sóknaraðili frá kröfu um eingreiðslu að fjárhæð EUR 2.000.000 með því skilyrði að samningurinn yrði virtur og að umdeild kaupaukagreiðsla yrði innt af hendi.
Sóknaraðili byggir á því að framangreind krafa hans eigi að njóta forgangs við slitameðferð varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga, einkum 2. tl. þess ákvæðis. Samkvæmt 1. tl. ákvæðisins njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag, forgangs. Samkvæmt 2. tl. njóta kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafa átt sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tl. eða eftir frestdag einnig forgangs. Frestdagur við slitameðferð varnaraðila er 9. mars 2009, þ.e. sá dagur þegar fjármálaeftirlitið ákvað að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd.
Umrædd kaupaukagreiðsla var samkvæmt ákvörðun forstjóra varnaraðila á gjalddaga í desember 2009. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að ákvörðun um kaupaukagreiðslu hafi verið byggð á frammistöðu sóknaraðila í þágu varnaraðila á árinu 2008. Enda þótt ákvörðun um greiðsluna væri tekin einhliða af yfirstjórn varnaraðila var hún hluti af ráðningarkjörum sóknaraðila samkvæmt ráðningarsamningi og endurgjald vegna vinnuframlags hans í þágu varnaraðila. Varnaraðili hafði þannig samþykkt og tilkynnt sóknaraðila um fjárhæð kaupaukagreiðslunnar sem greiðast átti eftir frestdag og á sóknaraðili því kröfu um bætur vegna slita á vinnusamningi í kjölfar slitameðferðar varnaraðila. Þykir því ljóst að krafan nýtur forgangs samkvæmt 2. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Með því að hér er um að ræða endurgjald til sóknaraðila vegna vinnuframlags hans í þágu varnaraðila er ekki um að ræða gjöf eða gjafaloforð af hálfu varnaraðila. Þegar af þeirri ástæðu er ekki um að ræða riftanlega ákvörðun á þeim forsendum að um gjöf hafi verið að ræða.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður aðalkrafa sóknaraðila tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur þar með talinn virðisaukaskattur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ólafur Eiríksson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Krafa sóknaraðila, Stephen Andrew Jack, að fjárhæð GBP 179.292 er viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila, Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað.