Hæstiréttur íslands
Mál nr. 654/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Kröfugerð
|
|
Miðvikudaginn 14. desember 2011. |
|
Nr. 654/2011. |
Eskja hf. (Guðbjarni Eggertsson hdl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Halldór H. Backman hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Skjöl. Kröfugerð.
E hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að L hf. yrði gert að leggja fram nánar tilgreind gögn í dómsmáli sem rekið var um kröfu E hf. við slit L hf. Fyrir Hæstarétti krafðist E hf. þess að lagt yrði fyrir héraðsdóm að kveðja fulltrúa L hf., LV hf. og LB. hf. fyrir dóm til að „tjá sig“ um kröfu E hf. í málinu. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að skori aðili einkamáls á gagnaðila að leggja fram skjal, sem sá hefði undir höndum, bæri gagnaðilanum samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að verða við þeirri áskorun ef aðilinn ætti rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins væri slíkt að gagnaðilanum væri skylt að bera vitni um það ætti hann ekki aðild að málinu. Ef öðru hvoru þessara skilyrða væri fullnægt og gagnaðilinn yrði ekki við áskorun um að leggja fram skjal, sem hann hefði í vörslum sínum, gæti dómari skýrt það svo að hann samþykkti frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Úrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali í vörslum gagnaðila væru tæmandi talin á þennan hátt. Gæti því aldrei komið til þess að hann yrði skyldaður að viðlögðum dagsektum til að leggja fram skjal í máli. Krafa E hf. væri því andstæð lögum að því leyti, sem hún beindist að því að fá skyldu lagða á L hf. til að afhenda gögnin, sem um ræddi í málinu. Þá sagði að E hf. hefði jafnframt beint kröfu um afhendingu umræddra gagna að LB hf. og LV hf. Hvorugt þeirra félaga ætti aðild að málinu og tækju því ákvæði 3. og 4. mgr. 67. gr. og 2. og 3. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 til kröfu E hf. að því er þau varðaði. Í beiðni E hf. hefði þess hvorki verið getið að E hf. teldi að skjölin, sem hún sneri að, væru í vörslum LB hf. né að hann hefði áður krafist þess að félagið léti þau af hendi. Í beiðninni væri í engu leitast við að lýsa efni þessara skjala og ekkert væri heldur sagt um hvað leiða ætti í ljós með þeim. Þegar af þessum ástæðum væri málatilbúnaður E hf. í því horfi að ófært væri að taka afstöðu til dómkröfu hans. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila „og/eða Landsvaka hf.“ yrði gert að leggja fram nánar tiltekin gögn í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að „lagt verði fyrir héraðsdóm að kveðja fulltrúa varnaraðila, Landsvaka hf. og Landsbankans hf. fyrir dóm til að tjá sig um framangreinda kröfu sóknaraðila.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til ágreinings um viðurkenningu kröfu, sem sóknaraðili lýsti 29. október 2009 við slit varnaraðila. Krafa þessi er um skaðabætur vegna tjóns, sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna rýrnunar á verðgildi hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóði með heitinu Peningabréf Landsbankans ISK, sem Landsvaki hf. hafi starfrækt en varnaraðili haft á nánar tiltekinn hátt umsjón með. Fjárhæð kröfunnar var samtals 92.280.322 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði og krafðist sóknaraðili þess aðallega að hún nyti stöðu í réttindaröð við slitin samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara 113. gr. sömu laga. Slitastjórn hafnaði kröfunni með öllu, en með því að ekki tókst að jafna ágreining um viðurkenningu hennar var honum vísað til héraðsdóms 12. maí 2010, þar sem mál þetta var þingfest 22. september sama ár. Í þinghaldi 2. nóvember 2011 lagði sóknaraðili fram skjal með yfirskriftinni: „Beiðni um að varnaraðila, Landsbankanum hf. og/eða Landsvaka hf. verði gert að leggja fram nánar tekin gögn ... sbr. 67. og 68. gr. laga nr. 91/1991.“ Í beiðninni var skírskotað til þess að sóknaraðili hafi á dómþingi 13. október sama ár beint áskorun til varnaraðila um að leggja fram tiltekin gögn, auk þess sem sóknaraðili hafi sent sams konar áskorun til Landsvaka hf., sem nú sé dótturfélag Landsbankans hf. en áður varnaraðila. Með vísan til 67. gr. og 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri krafist „að Landsbanka Íslands hf. (varnaraðila), Landsbankanum hf. og Landsvaka hf. verði gert að afhenda“ þessi gögn, sem tilgreind voru í sex liðum og nánar er getið í hinum kærða úrskurði. Í beiðninni var tekið fram að varnaraðili hafi „ekki sett sig upp á móti því“ að þessi gögn yrðu lögð fram. Þá hafi Landsvaki hf. ekki neitað því að þau væru til og í vörslum félagsins. Ljóst væri að gögnin hefðu „verulega þýðingu“ í málinu og væri þess krafist að dagsektum yrði beitt til að knýja á um afhendingu þeirra. Í hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila sem fyrr segir hafnað.
Áðurgreind dómkrafa sóknaraðila fyrir Hæstarétti er orðuð á annan hátt en krafan, sem hann gerði í héraði og afstaða var tekin til í hinum kærða úrskurði. Krafan með þessu breytta orðalagi kemst þó að fyrir Hæstarétti, sbr. dóm réttarins 27. janúar 2011 í máli nr. 699/2010.
Skori aðili einkamáls á gagnaðila að leggja fram skjal, sem sá hefur undir höndum, ber gagnaðilanum samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 að verða við þeirri áskorun ef aðilinn á rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að gagnaðilanum væri skylt að bera vitni um það ætti hann ekki aðild að málinu. Sé öðru hvoru þessara síðastnefndu skilyrða fullnægt og gagnaðilinn verður ekki við áskorun um að leggja fram skjal, sem hann hefur í vörslum sínum, getur dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Úrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali í vörslum gagnaðila eru tæmandi talin á þennan hátt, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 24. mars 1995 í máli nr. 99/1995 og 21. janúar 2002 í máli nr. 14/2002, sem birtir eru í dómasafni 1995 bls. 888 og 2002 bls. 84, og getur því aldrei komið til þess að hann verði skyldaður að viðlögðum dagsektum til að leggja fram skjal í máli. Krafa sóknaraðila er því andstæð lögum að því leyti, sem hún beinist að því að fá skyldu lagða á varnaraðila til að afhenda gögnin, sem um ræðir í málinu.
Sóknaraðili hefur jafnframt beint kröfu um afhendingu sömu gagna að Landsbankanum hf. og Landsvaka hf. Hvorugt þeirra félaga á aðild að málinu og taka því ákvæði 3. og 4. mgr. 67. gr. og 2. og 3. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 til kröfu sóknaraðila að því er þau varðar. Ef vörslumaður skjals hefur ekki orðið við kröfu aðila um að láta það af hendi til afnota í máli verður aðilinn samkvæmt þessum lagaákvæðum að leggja fyrir dómara skriflega beiðni um að vörslumaðurinn verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið ásamt því að leggja fram eftirrit af skjalinu sé þess kostur, en lýsa ella efni þess eftir föngum. Jafnframt ber aðila að greina frá því hvað leiða eigi í ljós með skjalinu. Samkvæmt fyrirsögn beiðni sóknaraðila, sem lögð var fram á dómþingi 2. nóvember 2011, var henni beint auk varnaraðila að „Landsbankanum hf. og/eða Landsvaka hf.“ Í henni var þess þó hvorki getið að sóknaraðili teldi að skjölin, sem hún sneri að, væru í vörslum Landsbankans hf. né að hann hefði áður krafist þess að félagið léti þau af hendi. Í beiðninni var í engu leitast við að lýsa efni þessara skjala og ekkert var heldur sagt um hvað leiða ætti í ljós með þeim. Þegar af þessum ástæðum er málatilbúnaður sóknaraðila í því horfi að ófært er að taka afstöðu til dómkröfu hans.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Eskja hf., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2011.
I
Mál þetta er rekið samkvæmt XXIII. og XXIV. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og lýtur að ágreiningi um kröfu sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni alfarið. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining aðila var málinu vísað til úrlausnar héraðsdóms, og var það þingfest 22. september 2010.
Fyrir dómi krefst sóknaraðili þess aðallega að krafa hans í þrotabú varnaraðila að fjárhæð 92.280.322 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Til vara krefst hann þess að „varnaraðili verði dæmdur til að greiða sóknaraðila“ sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, 81.079.501 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 3. október 2008 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að fjárhæðin verði viðurkennd sem almenn krafa. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins.
II
Í stuttu máli eru atvik þau að sóknaraðili veitti Landsbanka Íslands hf. á árinu 2007 umboð til vöktunar tiltekins reiknings í eigu sóknaraðila. Í því fólst að öllu fé sóknaraðila á þeim reikningi, umfram umsamið lágmark eða „gólf“, skyldi ráðstafað til kaupa á hlutdeildarskírteinum í fjárfestingarsjóði sem bar heitið „Peningabréf Landsbankans ISK“. Sjóður þessi var starfræktur af Landsvaka hf., þáverandi dótturfélagi Landsbanka Íslands hf. Rúmum fjórum árum áður hafði Landsvaki hf., samkvæmt heimild í 18. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, gert samning við Landsbanka Íslands hf. um „útvistun“ tiltekinna verkefna Landsvaka hf. Meðal þeirra verkefna sem Landsbanki Íslands hf. hafði þannig tekið að sér voru reikningshald, uppgjör og skýrslugerð vegna sjóða í rekstri Landsvaka hf., mat á verðmæti verðbréfa og annarra eigna sjóða í rekstri Landsvaka hf., útreikningur innlausnarvirðis, markaðssetning, þjónusta við viðskiptavini, innra eftirlit, regluvarsla og frágangur viðskipta. Rekstur sjóðsins og fjárfestingarákvarðanir voru þó áfram á hendi Landsvaka hf., enda óheimilt að fela öðrum þau verkefni, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2003. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að feli rekstrarfélag öðru fyrirtæki hluta af verkefnum sínum samkvæmt 17. gr. sömu laga, hafi það engin áhrif á ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina.
Með heimild í 20. gr. laga nr. 30/2003 hafði Landsvaki hf. einnig gert samning við Landsbanka Íslands hf. um að bankinn annaðist umsjá og varðveislu fjármálagerninga í eigu sjóða í rekstri félagsins. Eign sóknaraðila í sjóðnum, í formi hlutdeildarskírteina, var þannig varðveitt á vörslureikningi sóknaraðila hjá Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. tilvitnaðra laga ber vörslufyrirtæki ábyrgð gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina, vegna tjóns sem þeir kunna að verða fyrir og rekja má til ásetnings eða gáleysis starfsmanna vörslufyrirtækis við framkvæmd verkefna þess samkvæmt 20. gr. sömu laga.
Samkvæmt ákvörðun stjórnar Landsvaka hf. að morgni 6. október 2008 var lokað fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í öllum peningamarkaðssjóðum félagsins. Ástæða þessa var óvissa á markaði, svo og að ekki var unnt að birta gengi og eiga viðskipti, þar sem Fjármálaeftirlitið hefði þá farið fram á lokun fyrir viðskipti með fjármálagerninga fjármálafyrirtækja í Kauphöllinni. Jafnframt var tekið fram í fundargerð stjórnar að ákvörðun þessi væri tekin með hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi og til að tryggja jafnræði þeirra. Fram kemur í greinargerð varnaraðila að engar innlausnir hlutdeildarskírteina í peningabréfum hafi átt sér stað eftir lokun viðskipta 3. október 2008. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila, sem stutt er öðrum gögnum málsins, voru 150.000.000 króna færðar af reikningi sóknaraðila 3. október 2008 til kaupa á hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK. Var það gert á grundvelli fyrrnefnds umboðs um vöktun reikningsins.
Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, ákvað Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 að taka yfir stjórn Landsbanka Íslands hf. og skipa honum skilanefnd. Tveimur dögum síðar, 9. október, var hluta af eignum, réttindum og skyldum bankans, þar með talið eignarhlut hans í Landsvaka hf., ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. Í kjölfar tilmæla Fjármálaeftirlitsins frá 17. október sama ár tilkynnti stjórn Landsvaka hf. sjóðfélögum í Peningabréfum Landsbankans að ákveðið hefði verið að selja allar eignir sjóðanna, greiða sjóðfélögum eignarhlut þeirra og slíta sjóðunum að því loknu. Útgreiðsluhlutfall til sjóðfélaga í Peningabréfum Landsbankans ISK var 68,8%, og var sóknaraðila greiddur sá hundraðshluti 28. október 2008 með 178.389.745 krónum. Var sjóðfélögum tilkynnt að um fullnaðaruppgjör væri að ræða.
Samkvæmt greinargerð sóknaraðila er krafa hans um greiðslu skaðabóta „vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir sem eigandi hlutdeildarskírteinis í peningamarkaðssjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK, fjárfestingarsjóði starfræktum af Landsvaka hf., dótturfélagi Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf.“ Er krafa hans einkum á því reist að varnaraðili og Landsvaki hf. hafi valdið honum tjóni vegna rýrnunar á eignarhluta hans í sjóðnum, og megi rekja tjónið að öllu leyti til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi þeirra. Fjárhæð tjónsins er mismunur á þeirri fjárhæð sem sóknaraðili átti við lokun sjóðsins 6. október 2008, samtals 259.469.247 krónur, og þeirri fjárhæð sem hann fékk greidda við slit hans 28. október sama ár, 178.389.745 krónur, eða 81.079.502 krónur. Fjárhæð aðalkröfunnar felur einnig í sér dráttarvexti frá 3. október 2008 til 22. apríl 2009, auk kostnaðar við kröfulýsingu.
III
Í þinghaldi í málinu 2. nóvember sl. lagði sóknaraðili fram beiðni um að varnaraðila og/eða Landsvaka hf. yrði gert að leggja fram tiltekin gögn, sem orðrétt eru þannig upp talin:
„1. Skýrslur og gögn innri endurskoðenda bankans sem höfðu eftirlit með Peningamarkaðssj. Hvernig því eftirliti var háttað og athugasemdir ef einhverjar voru.
2. Mat KPMG sem gert var við sölu eigna sjóðsins fyrir slit hans skv. bréfi Elínar Sigfúsdóttur dags. 10.12.2008, sbr. dskj. nr. 20.
3. Fá afrit af gögnum og mati PricewaterhouseCoopers um gengisútreikning og slit sjóðsins sem vísað er til í bréfi Elínar Sigfúsdóttur dags. 10.12.2008, sbr. dskj. nr. 20.
4. Ítarlegar upplýsingar um skiptingu eignarsafns Peningamarkaðssj. vikuna 29. September 3. okt. ásamt upplýsingum um innlausnir þá vikuna en tilkynnt hefur verið að Peningabréf hafi minnkað um 57 ma. kr. þá vikuna.
5. Upplýsingar um verðmat á einstaka eignum sjóðsins 3. Okt. og eins á þeim tíma sem verðmat fór fram sem stuðst var við við útborgun úr honum.
6. Fá afrit af þeim upplýsingum sem varpað geta ljósi á það hvernig gengi sjóðsins var reiknað vikuna 29. Sept. 3. Okt. og þá einkum 3. Okt. þ.e.a.s. hvernig innlausnarvirði var metið.“
Beiðninni til stuðnings er vísað til X. kafla laga nr. 91/1991, nánar tiltekið 67. og 68. gr. þeirra, og tekið fram að hvorki varnaraðili né Landsvaki hf. hafi orðið við fyrri áskorun sóknaraðila um afhendingu gagnanna. Jafnframt segir þar: „Með vísan til málatilbúnaðs varnaraðila er ljóst að gögn þessi hafa verulega þýðingu og þess krafist að dagsektum að mati dómsins verði beitt sem renna til sóknaraðila verði gögnin ekki afhent í kjölfar úrskurðar dómara þar um.“
Í sama þinghaldi lagði varnaraðili fram bókun, þar sem hann ítrekar þá afstöðu sína að hann telji sér hvorki unnt né skylt að verða við áskorun sóknaraðila um framlagningu ofantalinna gagna. Einnig segir þar svo: „Þann 12. september sl. sendi varnaraðili tölvupóst til sóknaraðila, sbr. dskj. nr. 23, þar sem fram kemur að liðir 1, 4, 5 og 6 í upplýsingabeiðninni snúi að verkefnum sem Landsvaki hf. útvistaði til Landsbanka Íslands hf., samkvæmt samningi um útvistun verkefna, dags. 23. október 2003, sbr. dskj. nr. 10. Telji slitastjórn því að beina þurfi ósk um afhendingu þessara gagna til Landsvaka hf. Í sama tölvupósti kemur fram, að þau gögn sem vísað er til í liðum 2 og 3 í upplýsingabeiðninni eru ekki á forræði slitastjórnar.“
Í tilefni af fram kominni beiðni sóknaraðila ákvað dómari að fresta málinu til 10. nóvember sl. og gefa aðilum þá kost á að tjá sig frekar um hana. Í þinghaldi þann dag áréttuðu báðir aðilar fyrri afstöðu sína, en að því búnu var krafan tekin til úrskurðar.
IV
Samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber gagnaðila að verða við áskorun aðila um að leggja fram skjal, sem hann hefur í vörslum sínum, ef aðilinn á rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að gagnaðila væri skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu. Verði aðili ekki við slíkri áskorun, og sannað þykir að hann hafi umkrafið skjal undir höndum, getur dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni þess, sbr. 1. mgr. 67. gr. sömu laga.
Varnaraðili hefur ekki neitað tilvist þeirra gagna sem sóknaraðili krefst að lögð verði fram í máli þessu. Afstaða hans til kröfu sóknaraðila byggir hins vegar á því að honum sé hvorki unnt né skylt að verða við kröfunni, annars vegar af þeirri ástæðu að hluti gagnanna sé ekki á forræði varnaraðila, en hins vegar vegna þess að gögnin lúti að verkefnum sem Landsvaki hf. hafi með samningi falið Landsbanka Íslands hf. að annast.
Eins og fram er komið gerðu Landsvaki hf. og Landsbanki Íslands hf. með sér samning á árinu 2003, þar sem bankinn tók að sér að annast nánar tilgreind verkefni fyrir Landsvaka hf. Samningur þessi var gerður með heimild í 18. gr. laga nr. 30/2003. Ljóst þykir að áskorun sóknaraðila um framlagningu gagna, sem talin eru upp í töluliðum 1, 4, 5 og 6 í beiðni sóknaraðila, beinist að gögnum sem varnaraðili kann að hafa undir höndum á grundvelli þessa samnings við Landsvaka hf. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að varnaraðili er hvorki eigandi gagnanna, né hefur sóknaraðili sýnt fram á að uppfyllt séu önnur skilyrði 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 til þess að verða við kröfu hans. Hinu sama gegnir um þau gögn sem talin eru upp í töluliðum 2 og 3, en ljóst er að þau gögn eru ekki á forræði varnaraðila þar sem þau voru unnin eftir að eignarhlutur varnaraðila í Landsvaka hf. var fluttur til Nýja Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt því verður ekki séð að varnaðaraðila beri skylda til að leggja fram umkrafin gögn.
Í 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að aðili geti krafist þess að fá afhent skjal sem er í vörslum manns, sem ekki er aðili að máli, til framlagningar í máli. Heimildin er þó bundin því skilyrði að vörslumanni skjalsins sé skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða að efni skjalsins sé slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu. Verði vörslumaður ekki við kröfu aðila um láta skjal af hendi, getur aðili lagt fyrir dómara skriflega beiðni um að vörslumaðurinn verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Fram er komið að Landsvaki hf. hefur hafnað beiðni sóknaraðila um að leggja fram áðurnefnd gögn, en sóknaraðili telur þau hafa þýðingu fyrir málið, og bendir í því sambandi á málatilbúnað varnaraðila, án frekari skýringa.
Krafa sóknaraðila í máli þessu er einkum á því reist að varnaraðili og Landsvaki hf. hafi valdið honum tjóni vegna rýrnunar á eignarhluta hans í fjárfestingarsjóðnum „Peningabréf Landsbankans ISK“, og megi að öllu leyti rekja tjónið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi þeirra. Landsvaki hf. er ekki aðili að málinu og verður því ekki hér fjallað um ábyrgð þess félags á meintu tjóni sóknaraðila. Sóknaraðili hefur heldur ekki sýnt fram á að Landsvaka hf. sé skylt að afhenda umbeðin gögn, eða að þau hafi slíka þýðingu fyrir málið að honum sé nauðsynlegt að leggja þau fram. Þegar af þeirri ástæðu verður einnig hafnað kröfu sóknaraðila um að Landsvaki hf. verði skyldaður til að leggja fram umbeðin gögn.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Eskju hf., þess efnis að varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. í slitameðferð, og/eða Landsvaka hf., verði gert að leggja fram gögn, sem talin eru upp í 6 töluliðum í framlagðri beiðni sóknaraðila.