Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-2
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kæruheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 30. desember 2020 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 18. sama mánaðar í málinu nr. 624/2020: B gegn A og til réttargæslu C. Um kæruheimild er vísað til a-liðar 1. töluliðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 3. málsliðar 2. mgr. sama lagaákvæðis. Einnig er vísað til 5. mgr. 174. gr., sbr. 1. mgr. 176. gr. sömu laga. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um hvort leyfisbeiðanda verði veittur frestur til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir í máli sem gagnaðili hefur höfðað á hendur henni og C til réttargæslu fyrir héraðsdómi Reykjaness. Stefna í málinu var þingfest á reglulegu dómþingi héraðsdóms 27. maí 2020. Af hálfu leyfisbeiðanda og réttargæslustefndu var við þingfestingu málsins gerð krafa um að gagnaðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Með úrskurði héraðsdóms 18. júní sama ár var þeirri kröfu hafnað. Málið var tekið fyrir að nýju á reglulegu dómþingi 24. sama mánaðar og var leyfisbeiðanda og réttargæslustefndu veittur frestur til að leggja fram greinargerð til 2. september sama ár. Í sameiginlegri greinargerð leyfisbeiðanda og réttargæslustefndu sem var lögð fram þann dag var einungis gerð krafa um frávísun málsins. Þeirri kröfu hafnaði dómari með úrskurði 12. október 2020. Óskuðu leyfisbeiðandi og réttargæslustefnda þá eftir fresti til að leggja fram greinargerð um efnishlið málsins en af hálfu gagnaðila var því mótmælt að slík greinargerð kæmist að og jafnframt að veittur yrði frestur í þeim tilgangi með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991. Úr þeim ágreiningi var leyst með úrskurði 29. október sama ár þar sem leyfisbeiðanda og réttargæslustefndu var veittur frestur til framlagningar greinargerðar um efnisvarnir. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar. Í úrskurði Landsréttar, sem hér er til úrlausnar, var vísað til þeirrar meginreglu sem fram kæmi í 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 að stefndi leggi fram eina greinargerð undir rekstri einkamáls þar sem komi kröfur hans og málsástæður sem lúti bæði að efnisvörnum og formhlið máls. Heimild til að víkja frá þessu í 6. málslið 2. mgr. 99. gr. laganna væri skýr um það við hvaða tímamark bæri að miða upphaf þess fjögurra vikna frests, sem stefndi hefði til að skila greinargerð um frávísunarkröfu eingöngu, og að ekki sé þar gert ráð fyrir neinni undanþágu frá fjögurra vikna tímamarkinu. Úrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi. Leyfisbeiðandi leitar kæruleyfis til að fá niðurstöðu Landsréttar hnekkt.
Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar í kærumálum þegar svo er mælt fyrir í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum mælt fyrir um að unnt sé að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um það efni sem hér um ræðir. Þá getur framangreindur úrskurður Landsréttar ekki sætt kæru til Hæstaréttar án leyfis samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni verður því hafnað.