Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-38

Anna Kolbrún Árnadóttir (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Lowell Danmark A/S (Ólafur Rúnar Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lagaskil
  • Túlkun samnings
  • Framsal kröfu
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 24. mars 2022 leitar Anna Kolbrún Árnadóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. febrúar sama ár í máli nr. 495/2020: Lowell Danmark A/S gegn Önnu Kolbrúnu Árnadóttur og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili höfðaði mál þetta á hendur leyfisbeiðanda til greiðslu 623.280,74 danskra króna ásamt vöxtum og að frádregnum tilgreindum innborgunum. Málið varðar samkomulag sem leyfisbeiðandi og Fionia Bank A/S gerðu með sér 7. mars 2006 um uppgjör á skuld hennar við bankann. Fyrir Landsrétti greindi aðila á um túlkun samkomulagsins og hvort framsal kröfunnar til gagnaðila í júní 2014 hafi tekið til umræddrar kröfufjárhæðar, sem óumdeilt var að Fionia Bank A/S átti á hendur henni 1. mars 2006, eða kröfu að fjárhæð 120.000 danskra króna á grundvelli fyrrnefnds samkomulags.

4. Með dómi héraðsdóms var talið ósannað að í framsalinu hafi falist annað og meira en aðilaskipti á eftirstöðvum síðastnefndu kröfunnar. Í dómi Landsréttar var hins vegar talið að í fyrrgreindu samkomulagi hefði falist skilyrt eftirgjöf á hluta kröfunnar. Vegna vanefnda leyfisbeiðanda hefði samkomulagið fallið niður í samræmi við skilmála þess. Af þeim gögnum sem lægju fyrir um framsal kröfunnar yrði með engu móti ráðið að það hefði verið bundið takmörkunum með tilliti til samkomulagsins. Þá var ekki fallist á að krafan væri fyrnd eða fallin niður fyrir tómlæti. Fjárkrafan var því tekin til greina að fullu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að efni til og að verulegir ágallar hafi verið á málsmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Í dóminum hafi ekki verið tekin rökstudd afstaða til allra málsástæðna hennar meðal annars um hvenær umrædd krafa hafi verið gjaldfelld, auk þess sem ekkert hafi verið fjallað um þá tillitsskyldu sem hafi hvílt á gagnaðila. Ljóst megi vera að forveri gagnaðila hafi verið búinn að afskrifa stærstan hluta kröfunnar áður en hún var framseld honum. Þá hafi Landsréttur ranglega túlkað gögn málsins einkum tölvupóstsamskipti. Leyfisbeiðandi bendir jafnframt á að þær greiðslur sem hún innti af hendi hafi ekki getað rofið fyrningu heildarkröfunnar heldur einungis eftirstöðvar samkvæmt samkomulaginu. Loks byggir hún á að úrslit málsins varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.