Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/2003
Lykilorð
- Líkamsárás
- Fjársvik
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 2. október 2003. |
|
Nr. 137/2003. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Haraldi Sigurðssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Fjársvik. Reynslulausn. Skilorðsrof.
H, sem í héraði var sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir, rauf með því skilorð reynslulausnar samkvæmt eldri dómum. Héraðsdómari hafði hins vegar ekki dæmt eftirstöðvar refsingar samkvæmt ofangreindum dómum og gert H að sæta fangelsi í 7 mánuði. Fyrir Hæstarétti krafðist ákæruvaldið þyngingar á refsingu H með vísan til 42. og 60. gr. laga nr. 19/1940. Þegar litið var til brota H þótti ekki koma til álita að láta reynslulausn haldast, eins og hann hafði gert kröfu um. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 20 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Málinu var áfrýjað af ákæruvaldsins hálfu 3. apríl 2003 einvörðungu til ákvörðunar viðurlaga. Er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði er sakaður um fjórar líkamsárásir og eitt fjársvikabrot samkvæmt tveimur ákærum 31. júlí 2002 og 24. september 2002 eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Í I. kafla fyrrnefndu ákærunnar var honum gefin að sök líkamsárás 1. nóvember 2000 og í II. kafla líkamsárás 9. febrúar 2002. Við aðalmeðferð málsins í héraði 10. febrúar 2003 kom fram sú leiðrétting að síðastnefnd líkamsárás hafi verið framin 10. febrúar 2001. Í I. kafla síðarnefndu ákærunnar er ákærði sakaður um líkamsárás 7. apríl 2002 en í II. kafla hennar um fjársvik og líkamsárás 1. maí sama árs.
Samkvæmt sakavottorði ákærða, sem er fæddur 1980, var hann fyrst dæmdur 23. janúar 1997 í 60 daga varðhald, skilorðsbundið í 2 ár, auk sektar og sviptingar ökuréttar, fyrir nytjastuld og ölvun- og réttindaleysi við akstur. Hann hlaut tvo aðra skilorðsbundna dóma árið 1997, þann fyrri 4. júlí, fangelsi í 6 mánuði fyrir eignaspjöll, skjalafals, þjófnað, þjófnaðartilraun og brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þann síðari 21. október fangelsi í 7 mánuði fyrir þjófnað og brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 29. desember 1998 var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og tiltekin brot gegn lögreglusamþykkt nr. 625/1987 og var refsing dómsins frá 21. október 1997 dæmd með. Næst var hann dæmdur 7. júní 1999 í fangelsi í 2 mánuði fyrir þjófnað og þjófnaðartilraun og loks 9. júní 2000 fyrir fíkniefnalagabrot, en ekki dæmd sérstök refsing. Ákærði hlaut reynslulausn 31. desember 1999 skilorðsbundið í 2 ár á samtals 300 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómunum frá 29. desember 1998 og 7. júní 1999. Fram er komið að hann hefur ekki afplánað þær eftirstöðvar. Með líkamsárásunum 1. nóvember 2000 og 10. febrúar 2001 rauf ákærði skilorð reynslulausnarinnar.
Til stuðnings kröfu sinni um þyngingu refsingar hefur ákæruvaldið bent á að héraðsdómari hafi ekki dæmt eftirstöðvar refsingar samkvæmt ofangreindum tveimur dómum með þeim brotum, sem ákærurnar fjalla um, eins og rétt hefði verið eftir 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum. Ákærði krefst þess hins vegar að reynslulausnin verði látin haldast. Eftir 2. málslið 60. gr., sbr. 42. gr. almennra hegningarlaga, kemur einkum til álita að láta reynslulausn sem rofin hefur verið haldast þegar nýtt brot hefur ekki verið framið af ásettu ráði eða varðar aðeins sektum. Þegar litið er til brota ákærða kemur ekki til álita að láta reynslulausn haldast.
Refsing ákærða verður ákveðin fyrir brot hans sem hann var sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi og óafplánaða refsingu hans samkvæmt fyrrnefndum tveimur dómum í einu lagi eftir 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann framdi brotið í II. kafla ákæru 31. júlí 2002 að nokkru leyti í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá ber einnig til þess að líta að brot hans samkvæmt I. kafla sömu ákæru verður með hliðsjón af 4. málslið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til alls þessa og að öðru leyti til forsendna hins áfrýjaða dóms verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 20 mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Haraldur Sigurðsson, sæti fangelsi í 20 mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.