Hæstiréttur íslands

Mál nr. 712/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning
  • Dómsuppkvaðning
  • Ómerking


                               

Miðvikudaginn 21. október 2015.

Nr. 712/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

Kærumál. Kyrrsetning. Dómsuppkvaðning. Ómerking.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var þeirri kröfu X að fella úr gildi kyrrsetningar á nánar tilgreindum eignum hans. Í dómi Hæstaréttar kom fram að liðið hefðu meira en fjórar vikur frá því að málið var tekið til úrskurðar og þar til hann var kveðinn upp. Samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hefði borið að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Málið hefði ekki verið flutt að nýju og mætti ekki ráða að aðilum hefði verið gefinn kostur á því né að þeir hefðu lýst yfir að þess gerðist ekki þörf og dómari væri því sammála. Var hinn kærði úrskurður því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fella úr gildi kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík 8. nóvember 2013 og 28. maí 2014 á nánar tilgreindum eignum hans. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreindar kyrrsetningar verði felldar úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í 2. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að úrskurð skuli kveða upp þegar í stað í þinghaldi ef unnt er, en að öðrum kosti svo fljótt sem verða má. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur fór fram munnlegur málflutningur um fyrrgreinda kröfu varnaraðila 9. september 2015 og málið tekið til úrskurðar. Hinn kærði úrskurður var sem áður segir kveðinn upp 12. október sama ár. Eins og að framan er rakið leið lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var tekið til úrskurðar þar til hann var kveðinn upp. Samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Málið var ekki flutt að nýju og verður hvorki ráðið að aðilum hafi verið gefinn kostur á því né að þeir hafi lýst yfir að þess gerðist ekki þörf og dómari væri því sammála. Samkvæmt framangreindu verður sjálfkrafa að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar að nýju.

Það athugast að úr úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar hafa fallið orð sem nauðsynleg voru til að fullnægt væri því ákvæði 3. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008 að niðurstaða máls skuli dregin fram í úrskurðarorðum.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3.mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar á ný.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2015.

I.

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. september sl., var af hálfu varnaraðila borið undir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 14. ágúst með kröfu um úrskurð um að nánar tilgreindar ákvarðanir sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 8. nóvember 2013 og 28. maí 2014, um kyrrsetningu á eignum hans að kröfu sóknaraðila, yrðu felldar úr gildi. Lýtur krafan að eftirfarandi fjórum kyrrsetningargerðum:

         1. K-[...]/2014 þar sem kyrrsettar voru fasteignirnar að [...] í Hafnarfirði, fnr. [...], [...] og [...].

         2.   K-[...]/2013 þar sem kyrrsett voru ökutækin [...], [...], skotbómulyftari með númerinu [...], fasteignin að [...] í Reykjavík, fnr. [...], hlutir í [...] ehf., kt. [...], og hlutir í [...] ehf., kt. [...].

         3.   K-[...]/2013 þar sem kyrrsett voru ökutækin [...], [...], [...], [...], [...], [...], [...] ([...]), [...] ([...]), [...] og báturinn [...].

         4.   K-[...]/2013 þar sem kyrrsett voru ökutækin [...], [...], [...], [...], [...], [...], [...] og [...].

         Þá krefst varnaraðli þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

         Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kröfum varnaraðila verði hafnað.

         Mál þetta er rekið á grundvelli heimildar í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II.

         Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að í október 2013 hafi hafist rannsókn sóknaraðili vegna ætlaðrar sölu og milligöngu vændis af hálfu forsvarsmanna og starfsmanna veitingastaðar í [...] í Reykjavík sem rekinn var undir heitinu [...]. Varnaraðili sé skráður handhafi veitingaleyfis staðarins en rekstur hans er í höndum einkahlutafélags sem ber heitið [...] ehf., en varnaraðili er skráður stjórnarformaður félagsins og fer einn með prókúru þess. Á fyrstu stigum hafi rannsóknin aðallega beinst að ætluðum brotum gegn 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en við nánari skoðun á fjármálum varnaraðila og félögum honum tengdum hafi vaknað grunur um stórfelld skattalagabrot sem gætu varðað við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaga og jafnframt grunur um brot gegn 264. gr. sömu laga um peningaþvætti. Gögn málsins séu talin benda til gríðarlegs ávinnings af ætluðum brotum. Af þeim sökum hafi sóknaraðili krafist kyrrsetningar á eignum varnaraðila sem nú er krafist afléttingar á.

         Með kyrrsetningargerðum Sýslumannsins í Reykjavík sem fóru fram 8. nóvember 2013 var fallist á kyrrsetningar þær sem taldar eru upp í lið 2 – 4 í kröfu varnaraðila, nr. K-[...]/2013, K-[...]/2013 og K-[...]/2013 og þann 28. maí 2014 var fallist á kyrrsetningu eigna sem getið er í lið 1, kyrrsetningargerð nr. K-[...]/2014. Í öllum tilvikum var krafist kyrrsetningar til tryggingar á greiðslu sakarkostnaðar, sekta og krafna ákæruvaldsins á grundvelli 69. gr. almennra hegningarlaga sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, um upptöku jafnvirðis ágóða af meintum brotum gegn 206., 1. mgr. 262 og 1. mgr. 264 gr. almennra hegningarlaga.

         Í máli nr. R-[...]/2015 var tekin til úrlausnar krafa varnaraðila um að ofangreindum kyrrsetningum yrði aflétt. Var þeirri kröfu hafnað af héraðsdómara með úrskurði kveðnum upp 1. júní 2015 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 385/2015 þann 22. júní sl. Vísast nánar til þess sem rakið er í framangreindum dómi um þau atvik sem til rannsóknar eru.

         Eins og fram kemur í framangreindum héraðsdómi vísaði sóknaraðili þeim hluta málsins sem lýtur að ætluðu skattalagabroti til skattrannsóknarstjóra þann 12. maí sl. Þann 30. júlí sl. tilkynnti skattrannsóknarstjóri varnaraðila um að hann hefði hafið rannsókn á tekjum og skattskilum hans vegna tekjuáranna 2010 til og með 2013. Þá tilkynnti skattrannsóknarstjóri [...] ehf. sama dag að rannsókn væri hafin á bókhaldi og skattskilum fyrirtækisins vegna rekstrartímabilsins janúar 2010 til og með desember 2013, auk þess sem óskað var eftir að fyrirtækið afhenti bókhald og fylgiskjöl og öll önnur gögn sem vörðuðu reksturinn á umræddu tímabili. Í bréfi skattrannsóknarstjóra til sóknaraðila, dagsettu 27. ágúst sl., kemur fram að skattrannsóknarstjóra gruni að skattaundanskot varnaraðila og [...] ehf. nemi verulegum fjárhæðum. Jafnframt kemur fram að rannsókn standi yfir, að boðað verði til skýrslutöku í september og að rannsókn verði hraðað svo sem kostur sé og áætlað sé að henni ljúki snemma árs 2016. Að því loknu verði málinu vísað að nýju til lögreglu.

         Í bréfi ríkissaksóknara til varnaraðila þann 18. júní 2015 er upplýst að rannsókn á á ætluðum brotum varnaraðila gegn 3. og 6. mgr. 206. gr. sé lokið og ríkissaksóknari hafi ákveðið að fella þann hluta rannsóknar á hendur honum niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þar sem það sem fram hafi komið hafi ekki verið nægilegt eða líklegt til sakfellingar. Í bréfinu er tekið fram að ákvörðunin taki ekki til ætlaðra brota gegn 262. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með bréfi dagsettu 25. júní sl., óskaði lögmaður varnaraðila nánari upplýsinga um það hvaða háttsemi sem varði við 264. gr. almennra hegningarlaga sé enn til rannsóknar. Ríkissaksóknari svaraði bréflega þann 8. júlí s.á. Í svarinu kemur fram að ætluð brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga séu grundvöllur sakargifta gegn 264. gr. sömu laga.

III.

         Varnaraðili byggir kröfu sína á því að þau mál sem hafi verið grundvöllur kyrrsetningar hafi verið felld niður og að hvorki sóknaraðili né ríkissaksóknari hafi nú með höndum neina rannsókn á hendur honum. Vísar varnaraðili til bréfs ríkissaksóknara dags. 18. júní sl. þar sem fram kemur að rannsókn á meintum brotum varnaraðila gegn 3. og 6. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hafi verið felld niður. Varnaraðili veki athygli á því að ákvörðun ríkissaksóknara hafi legið fyrir áður en dómur Hæstaréttar frá 22. júní sl., í máli nr. 385/2015, var kveðinn upp en hvorki varnaraðila né réttinum hafi verið tilkynnt um það. Bréf ríkissaksóknara hafi ekki borist varnaraðila fyrr en 23. júní eða degi eftir að dómur Hæstaréttar var kveðinn upp.

         Þá byggir varnaraðili á því að möguleg rannsókn skattrannsóknarstjóra á ætluðum skattalagabrotum hans geti ekki verið grundvöllur þess að kyrrsetning að kröfu sóknaraðila standi óhögguð. Vísar varnaraðili til þess að samkvæmt 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli skattrannsóknarstjóri hafa frumkvæði að kröfu um kyrrsetningu eigna vegna eigin rannsókna, sbr. 6. málsgr. greinarinnar og að tollstjóri skuli setja fram þá kröfu fyrir hans hönd skv. 7. málsgr. sömu greinar.

         Loks hafi óhæfilegur dráttur orðið á málinu í meðförum skattrannsóknarstjóra sem að mati varnaraðila eigi eitt og sér að leiða til þess að fallast eigi á kröfu hans. Í niðurstöðu héraðsdómara í máli nr. R-[...]/2015, sem staðfest hafi verið með ofangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 385/2015, sé byggt á því að ætla verði að skattrannsóknarstjóri muni hraða rannsókn á sínum þætti málsins. Það hafi ekki orðið raunin. Málið hafi verið sent skattrannsóknarstjóra í maí á þessu ári en hann hafi ekki tekið ákvörðun um um hefja rannsókn málsins fyrr en þremur mánuðum síðar og enn hafi varnaraðili ekki verið boðaður til skýrslutöku hjá því embætti.

         Varnaraðili kveður aðgerðir sóknaraðila hafi valdið sér miklu fjártjóni og mannorðshnekki og kyrrsetning eigna hans hafi staðið óhóflega lengi eða frá því júní 2013. Ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar áskilji borgurunum rétt til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Sambærilegt ákvæði sé einnig að finna í 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þeim sem rannsaki mál, beri að hraða rannsókninni skv. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og tryggja þannig rétt sakbornings til málsmeðferðar án óhæfilegs dráttar. Sérstök þörf sé á að hraða málsmeðferð þegar sakborningur sæti þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem takmarki frelsi hans eða forræði yfir eignum sínum. Þá skuli þess gætt að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt sé sbr. 3. mgr. sömu greinar.

         Í 3. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 séu ákvæði um það hvenær kyrrsetning samkvæmt greininni falli niður. Varnaraðili bendir á að þótt dráttur á rannsókn máls sé ekki meðal þess sem þar er kveðið á um, hafi Hæstiréttur kveðið upp úr með það að sakborningur geti átt réttmæta kröfu á að kyrrsetningu sé aflétt hafi rannsókn dregist úr hófi. Vísar varnaraðili til dóma réttarins í málum nr. 648/2011 og 96/2015 í þessu sambandi.

IV.

         Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að sakamál það á hendur varnaraðila, sem sé grundvöllur kyrrsetningarkröfunnar, sé ekki lokið og því ljúki ekki nema með ákvörðun ákæranda um niðurfellingu málsins eða með dómi, komi til útgáfu ákæru. Sóknaraðili andmælir staðhæfingum varnaraðila um að málin sem séu grundvöllur kyrrsetningarinnar hafi verið felld niður og að hvorki sóknaraðili né ríkissaksóknari hafi nú með höndum rannsókn á hendur honum. Rannsókn mála varnaraðila séu í biðstöðu hjá sóknaraðila á meðan beðið er niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra. Mál varnaraðila hafi þó hvorki verið fellt niður né liggi það fyrir að rannsóknin muni ekki leiða til saksóknar sbr. 3. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008. Miðað við þau gögn sem liggi fyrir í málinu sé þvert á móti sterkur grunur um skattaundanskot sem nemi háum fjárhæðum og varði við 262. gr. almennra hegningarlaga. Einungis sá hluti málsins sem laut að ætlaðri vændisstarfsemi hafi verið felldur niður með ákvörðun ríkissaksóknara þann 18. júní sl.

         Varðandi aðild sóknaraðila að ákvörðun um áframhaldandi kyrrsetningu bendir sóknaraðili á að vegna upphafs málsins hafi sóknaraðili haft með höndum rannsókn þess og farið fram á nauðsynlegar rannsóknaraðgerðir þótt rannsókn og ákæruvald í málum sem varða brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga heyri almennt undir embætti sérstaks saksóknara. Í ljósi þess að ríkissaksóknari hafi fellt niður þann hluta málsins sem laut að ætlaðri vændisstarfsemi muni því sem eftir stendur í málinu verða vísað til sérstaks saksóknara þegar niðurstaða skattrannsóknarstjóra liggi fyrir. Sé sú meðferð rannsóknar í samræmi við 2. málslið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 135/2008. Eins og málið sé statt núna og í samræmi við ummæli í bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 18. júní 2015, telji sóknaraðili sig enn hafa forræði á rannsókn þess. Breyti engu í því sambandi þótt rannsókn liggi tímabundið hjá skattrannsóknarstjóra eða að málinu verði síðar vísað til sérstaks saksóknara. Teljist málið vera á forræði annars embættis en sóknaraðila bæri að bera kröfu um afléttingu kyrrsetningar að því embætti.

         Sóknaraðili byggir á því að kyrrsetningargerðir, sem gerðar eru í þágu rannsóknar máls haldi á meðan sakamál það sem þær byggi á sé enn til rannsóknar, óháð því hver hafi forræði málsins hverju sinni. Þannig hafi kyrrsetningargerðir almennt haldist þótt mál færist milli embætta, svo sem frá lögreglu til ríkissaksóknara eða frá skattrannsóknarstjóra til sérstaks saksóknara.

         Þá hafnar sóknaraðili því að óhæfilegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins. Vísar hann til bréfs skattrannsóknarstjóra frá 27. ágúst sl. þar sem fram komi að rannsókn málsins sé þegar hafin og að henni verði hraðað svo sem kostur er og áætlað sé að henni ljúki í byrjun næsta árs. Sé ljóst, með hliðsjón af umfangi málsins, að skattrannsóknarstjóri ætli sér ekki óeðlilegan langan tím til rannsóknar þess.

         Loks vísar sóknaraðili til þess að ætluð brot skattalagabrot varnaraðila, sem enn eru til rannsóknar, séu fullnægjandi grundvöllur kyrrsetningar. Telji sóknaraðili mikilvægt að kyrrsetning í málinu haldi enda ljóst að verði varnaraðili sakfelldur fyrir þau brot sem hann er grunaður um muni fjármunir þessir vera gerðir upptækir. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi til 69. gr. og 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum til víðtækrar jafnvirðisupptökuheimildar.

IV.

         Kyrrsetningargerðir þær sem krafist er niðurfellingar á eru reistar á 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008. Í 3. mgr. þeirrar greinar er fjallað um það hvenær kyrrsetning fellur niður. Segir þar m.a. að kyrrsetning falli niður ef saksókn hafi verið felld niður eða rannsókn leiði ekki til saksóknar.

         Svo sem rakið er í atvikalýsingu hefur ríkissaksóknari ákveðið að fella niður þann hluta málsins á hendur varnaraðila sem lýtur að ætluðum brotum gegn 3. og 6. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvörðun ríkissaksóknara tekur ekki til ætlaðra brota gegn 262. og 264. gr. hegningarlaganna og svo sem lýst hefur verið er sá hluti málsins nú til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra. Samkvæmt þessu er ekki tilefni til að taka til greina kröfu varnaraðila um að fella niður kyrrsetningarnar á þeirri forsendu að málin sem liggja til grundvallar þeim hafi verið felld niður.

         Þá byggir varnaraðili á því að fella beri niður kyrrsetningarnar þar sem rannsókn málsins hafi dregist óhæfilega.

         Þótt tafir á rannsókn mála séu ekki meðal þeirra atriða sem talin eru upp í 88. gr. laga nr. 88/2008, leiðir af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að óhæfilegur dráttur á rannsókn mála getur leitt til þess að slík krafa verði tekin til greina, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 684/2011.

         Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 385/2015, var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki væri tilefni til að fella umdeildar kyrrsetningar úr gildi, þrátt fyrir nokkrar tafir hefðu orðið á rannsókn málsins. Í úrskurði héraðsdómara kveðnum upp 1. júní sl., sem staðfestur var með nefndum dómi Hæstaréttar, kemur m.a. fram að dregist hafi án eðlilegra skýringa að senda mál varnaraðila til skattrannsóknarstjóra um nokkurra mánaða skeið. Segir í niðurstöðu héraðsdóms að þær tafir séu aðfinnsluverðar með hliðsjón af 1. gr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Á hinn bóginn var niðurstaða málsins sú að ekki væri tilefni til að fella kyrrsetningarnar niður af þeim sökum .

         Fyrir liggur að mál varnaraðila, að því er varðar grun um skattalagabrot og peningaþvætti, voru send skattrannsóknarstjóra til rannsóknar í maí á þessu ári, sbr. bréf sóknaraðila til skattrannsóknarstjóra dags. 12. maí 2015. Skattrannsóknarstjóri tilkynnti varnaraðila, með tveimur bréfum, dagsettum 30. júlí sl., að rannsókn málsins væri hafin og óskaði eftir bókhaldsgögnum [...] ehf. Þá upplýsti skattrannsóknarstjóri í lok ágúst að áætlað væri að rannsókn málsins lyki í byrjun næsta árs.

         Í áðurnefndum úrskurði héraðsdóms frá 1. júní sl., kemur fram að brot þau sem sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra séu umfangsmikil og eru undanskot talin geta numið tugum milljóna. Þá kemur fram í bréfi skattrannsóknarstjóra til varnaraðila, að rannsókn málsins varði bæði tekjuskattskil hans sjálfs og rannsókn á bókhaldi og skattskilum [...] ehf., vegna áranna 2010 til 2013. Er fallist á það með sóknaraðila að sá tími sem skattrannsóknarstjóri áætlar að rannsókn málsins taki sé ekki óeðlilegur miðað við umfang málsins. Þá er ekki fallist á að málið hafi nú þegar dregist úr hófi í meðförum skattrannsóknarstjóra. Er því ekki fallist á að tilefni sé nú til að verða við kröfu varnaraðila um niðurfellingu kyrrsetninganna á grundvelli óhæfilegs dráttar á rannsókn málsins.

         Loks er því hafnað að fella beri niður kyrrsetningarnar á þeirri forsendu að sóknaraðili fari ekki lengur með forræði á rannsókn málsins þar sem það hafi verið sent ríkisskattstjóra til rannsóknar. Að mati dómsins getur það ekki leitt til þess að fella beri kyrrsetningu niður þótt rannsókn mála færist að hluta eða í heild á milli embætta, sem lögum samkvæmt er falin rannsókn mála, enda hefur málið hvorki verið fellt niður né því lokið með dómi sbr. 3. mgr. 88. gr. laga nr. 80/2008. Skiptir í þessu sambandi engu máli þótt staðið hefði verið öðruvísi að kröfu um kyrrsetningu ef rannsókn málsins hefði hafist hjá skattrannsóknarstjóra sbr. 113. gr. laga nr. 90/2003.

         Með framangreindum rökstuðningi er kröfu varnaraðila hafnað. Í ljósi þessarar niðurstöðu verður varnaraðila ekki úrskurðaður málskostnaður.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfu varnaraðila, X, um að kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík þann 8. nóvember 2013 og 28. maí 2014 er hafnað.

Málskostnaður verður ekki úrskurðaður.