Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-16
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Neytendakaup
- Galli
- Riftun
- Úrbætur
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr., sbr. 2. mgr. 17. gr., laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómarar.
2. Með beiðni 16. febrúar 2022 leitar Bílabúð Benna ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. janúar sama ár í máli nr. 510/2020: Bílabúð Benna ehf. gegn Ólöfu Finnsdóttur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að staðfest verði riftun 9. október 2018 á kaupum hennar á bifreið af leyfisbeiðanda tveimur árum áður vegna galla sem hún taldi vera á bifreiðinni. Þá krafðist hún endurgreiðslu á kaupverði bifreiðarinnar vegna riftunarinnar frá kaupdegi auk nánar tilgreindra vaxta. Loks krafðist hún endurgreiðslu gjalda tengdum bifreiðinni eftir riftunardag.
4. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi hefði í aðdraganda riftunarinnar og strax í kjölfar hennar ekki vefengt að bifreiðin væri gölluð. Hann hefði sjálfur ákveðið að líta svo á að bifreiðin hefði ekki þá eiginleika til að bera sem gagnaðili hefði með réttu mátt vænta við kaupin að því er varðar endingu og annað, sbr. b-lið 2. mgr. 15. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Með vísan til þess og forsendna héraðsdóms var talið að bifreiðin hefði verið gölluð, sbr. a-lið 1. mgr. 16. gr. sömu laga. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að leyfisbeiðandi hefði fengið fleiri en tvö tækifæri til þess að bæta úr gallanum á grundvelli 2. mgr. 30. gr. laga nr. 48/2003 og að ekki væru forsendur til að líta svo á að sérstakar aðstæður hefðu verið fyrir hendi sem hefðu réttlætt frekari tilraunir til úrbóta. Niðurstaða héraðsdóms um heimild gagnaðila til að rifta fyrrgreindum kaupsamningi var því staðfest og voru fjárkröfur hennar teknar til greina að frádregnu endurgjaldi fyrir afnot bifreiðinnar þann tíma er hún hafði hana til ráðstöfunar og að teknu tilliti til affalla hennar miðað við riftunardag.
5. Leyfisbeiðandi reisir umsókn sína í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því efni vísar hann meðal annars til þess að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi ekki áður reynt á skilyrði riftunar samkvæmt lögum nr. 48/2003. Í öðru lagi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að úrslit málsins hafi verulega fjárhagslega þýðingu auk þess sem mikilvægt sé að fá fordæmisgefandi niðurstöðu Hæstaréttar um sakarefni málsins. Loks reisir hann umsóknina á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Þannig sé dómurinn að mörgu leyti ekki í samræmi við viðtekin sjónarmið í kröfurétti auk þess sem farið hafi verið út fyrir málatilbúnað málsaðila. Jafnframt sé bersýnilega röng sú niðurstaða Landsréttar að telja ýmsa annmarka hafa verið á yfirmatsgerð í málinu.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá er þess að gæta að bæði í dómi héraðsdóms og Landsréttar var komist að þeirri niðurstöðu að galli bifreiðarinnar gæti ekki talist óverulegur í skilningi 32. gr. laga nr. 48/2003, en í báðum tilvikum sat einn sérfróður meðdómandi í dómi. Að framangreindu virtu eru ekki efni til að beita heimild 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. á grundvelli þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðninni er því hafnað.