Hæstiréttur íslands
Mál nr. 156/2009
Lykilorð
- Líkamsmeiðing af gáleysi
- Umferðarlagabrot
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 19. nóvember 2009. |
|
Nr. 156/2009. |
Ákæruvaldið(Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari) gegn Guðnýju Sæbjörgu Ásgeirsdóttur (Sveinn Guðmundsson hrl.) |
Líkamsmeiðing af gáleysi. Umferðalagabrot. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
G var gefið að sök að hafa ekið bifreið með hrímaða framrúðu svo að útsýn var skert. Við akstur eftir Breiðholtsbrautinni til austurs hafi hún sprautað rúðuvökva á rúðuna og misst við það sjónar á veginum og ekið yfir á akrein fyrir umferð á móti með þeim afleiðingum að árekstur varð við aðra bifreið, sem ekið var eftir Breiðholtsbraut til vesturs. Ökumaður þeirrar bifreiðar varð fyrir meiðslum, en G slasaðist einnig við áreksturinn. G bar á annan veg um málsatvik fyrir dómi en við skýrslutöku hjá lögreglu og hvarf hún frá fyrri játningu sinni um að hafa ekið bifreið sinni af stað með hrímaða framrúðu. Taldi hún fyrir dómi ekki rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu. Niðurstaða héraðsdóms var sú að G var sýknuð af kröfum ákæruvalds. Í Hæstarétti var hins vegar talið að ekki yrði litið framhjá því að ljósmyndir væru meðal málsgagna, sem sýndu glöggt vettvang slyssins og hvernig yfirborð götunnar hefði verið í umrætt sinn og þar með hvort þar hefði verið „skítur og slabb“ eins og G hefði borið fyrir dómi að slest hefði á framrúðu bifreiðar hennar og byrgt henni sýn. Ekkert væri vikið að þessu í forsendum dómsins né heldur veðuraðstæðum sem þá ríktu eða rannsókn lögreglumanns á framrúðum bifreiðanna á vettvangi slyssins. Var talið að slíkir annmarkar væru á hinum áfrýjaða dómi að ekki yrði hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu til héraðsdóms til meðferðar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars 2009 og krefst þess að ákærða verði sakfelld samkvæmt ákæru og henni ákvörðuð refsing.
Ákærða krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að refsing verði skilorðsbundin.
I
Í málinu er ákærðu gefið að sök að hafa 7. febrúar 2007 ekið bifreiðinni KT-013 frá Kóngsbakka 9 í Reykjavík með hrímaða framrúðu svo að útsýn var skert. Við akstur eftir Breiðholtsbraut til austurs hafi hún skömmu síðar sprautað rúðuvökva á rúðuna og misst við það sjónar á veginum og ekið yfir á akrein fyrir umferð á móti með þeim afleiðingum að árekstur varð við bifreiðina JF-173, sem ekið var eftir Breiðholtsbraut til vesturs. Ökumaður þeirrar bifreiðar varð fyrir meiðslum, sem nánar er lýst í ákæru, en ákærða slasaðist einnig við áreksturinn.
Ákærða gaf skýrslu hjá lögreglu 27. febrúar 2007. Þar skýrði hún svo frá að hún hafi verið á leið í skóla umræddan morgun og ekki skafið hrím af framrúðu bifreiðar sinnar þar sem hún hafi verið að flýta sér. Þegar komið var inn á Breiðholtsbraut hafi hún „sett þá rúðupissið á rúðuna“, en það hafi frosið og útsýn versnað til muna. Hún hafi ætlað að stöðva bifreiðina úti í kanti til að skafa rúðuna og ekki gert sér grein fyrir að hún var komin á rangan vegarhelming þegar áreksturinn varð. Móðir ákærðu var viðstödd skýrslutökuna.
Fyrir dómi 22. janúar 2009 bar ákærða á annan veg um málsatvik. Eftir að hún hafi ekið inn á Breiðholtsbraut umræddan morgun „þá fer að koma svona allskonar skítur og slabb frá veginum.“ Eftir að hafa ekið aðeins lengra „set ég rúðupissið á“, en hún muni mjög lítið hvað gerðist eftir það. Kvað hún ekki hafa verið þörf á að skafa framrúðuna þegar hún ók af stað frá Kóngsbakka og rúðan hafi ekki verið hrímuð þegar hún ók austur Breiðholtsbraut. Hún sagðist hvorki muna eftir skýrslutökunni 27. febrúar 2007 né að hafa ritað undir skýrsluna. Henni hafi liðið „rosalega illa og vildi helst bara ljúka þessari skýrslutöku af“. Þar væri ekki rétt eftir sér haft, en lögreglumaðurinn sem tók skýrsluna „beinlínis hjálpaði mér með að setja skýrsluna saman.“ Skýrslan hafi ekki að geyma beina frásögu ákærðu. Móðir hennar bar á sama veg fyrir dómi og að lögreglumaðurinn „svona færði hlutina í stílinn“. Þá sagði hún að „við kunnum kannski ekkert endilega að orða hlutina ... okkur fannst ekkert óeðlilegt við það að hann aðstoðaði í því svona kannski að koma hlutunum í orð.“
Leifur Halldórsson lögreglumaður tók áðurnefnda skýrslu af ákærðu 27. febrúar 2007. Fyrir dómi kvað hann þessa skýrslutöku hafa farið fram með hefðbundnum hætti, en mönnum væri gefinn kostur á að tjá sig sjálfstætt um atvik og frásögn þeirra skráð þannig. Þó gæti gerst að hjálpa þyrfti einhverjum af stað við skýrslugjöf. Hann vísaði algerlega á bug að hafa „eiginlega búið þetta til“ fyrir ákærðu og látið hana síðan skrifa undir það. Slík vinnubrögð væru óhugsandi af hans hálfu.
Niðurstaðan samkvæmt hinum áfrýjaða dómi var sú að ákærða var sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.
II
Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála endurmetur Hæstiréttur ekki niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi. Fyrir héraðsdómi hvarf ákærða frá fyrri játningu sinni hjá lögreglu um að hafa ekið bifreið sinni af stað með hrímaða framrúðu og verður að líta svo á að niðurstaða héraðsdómara kunni að einhverju leyti að hafa ráðist af mati, sem um ræðir í framangreindu lagaákvæði. Hins vegar verður ekki litið framhjá því að ljósmyndir eru meðal málsgagna, sem sýna glöggt vettvang slyssins og hvernig yfirborð götunnar var í umrætt sinn og þar með hvort þar hafi verið „skítur og slabb“ eins og ákærða bar fyrir dómi að hefði slest á framrúðu bifreiðar hennar og byrgt sér sýn. Ekkert er vikið að þessu í forsendum dómsins né heldur veðuraðstæðum sem þá ríktu, sem gögn málsins bera einnig um hverjar voru. Guðmundur Stefán Sigmundsson lögreglumaður rannsakaði vettvanginn á Breiðholtsbraut skömmu eftir slysið og gerði um það skýrslu þar sem meðal annars kom fram að hann hafi kannað ástand framrúða beggja bifreiðanna að því leyti sem hér reynir á. Þessa skýrslu staðfesti hann fyrir dómi, en ekki er heldur vikið að þessu í niðurstöðu héraðsdóms.
Samkvæmt öllu framanröktu eru slíkir annmarkar á hinum áfrýjaða dómi að ekki verður komist hjá því að ómerkja hann og vísa málinu til héraðsdóms til meðferðar að nýju, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Ákvörðun málskostnaðar í héraði býður nýs efnisdóms í málinu. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda ákærðu sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til meðferðar að nýju.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins, 278.172 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 5. febrúar sl. að lokinni aðalmeðferð, er höfðað með ákæru útgefinni 14. október 2008 af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærðu Guðnýju Sæbjörgu Ásgeirsdóttur, kt. 130789-2349, Kóngsbakka 9, Reykjavík, fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 7. febrúar 2007, ekið bifreiðinni KT-013 frá Kóngsbakka 9 í Reykjavík með hrímaða framrúðu svo að útsýn var skert og að hafa þá á leið austur Breiðholtsbraut, skammt austan við Jaðarsel í Reykjavík, þegar ákærða hafði sprautað rúðuvökva á rúðuna og misst við það sjónar á veginum, ekið bifreiðinni yfir á akrein fyrir umferð á móti með þeim afleiðingum að árekstur varð við bifreiðina JF-173, sem ekið var vestur sama veg, og ökumaður hennar, Alma Dröfn Geirdal Ægisdóttir, fædd 6. september 1979, hlaut stórt tætt sár á vinstra hné með opnu hnéskeljarbroti, brjóstholsáverka með loftbrjósti og vökvasöfnun og yfirborðsáverka víða svo sem mar á enni og hruflsár á hægra hné.
Er þetta talið varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr. og 59. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 12. gr. laga nr. 44/1993.
Af hálfu ákærðu er krafist sýknu af kröfum ákæruvalds og að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði.
Málavextir
Miðvikudaginn 7. febrúar 2007, kl. 9.54, barst lögreglu tilkynning um mjög harðan árekstur tveggja bifreiða á Breiðholtsbraut við Vatnsendahvarf. Er þess getið í skýrslu lögreglu að ökumenn hafi báðir verið fastir í ökutækjum sínum á miðri Breiðholtsbraut, miðja vegu milli Vatnsendahvarfs og Jaðarsels/Suðurfells. Jafnframt segir að loka hafi þurft akreinum á Breiðholtsbraut. Klukkan 10.28 hafi slökkviliðsmenn verið búnir að ná báðum ökumönnunum út úr bifreiðum sínum og hafi þeir báðir verið fluttir í kjölfarið með sjúkrabifreiðum á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Kemur fram að ummerki á vettvangi hafi sýnt að ökutækin hefðu rekist á norðan við miðlínu, á akrein til vesturs. Hafi annarri bifreiðinni verið ekið í austur eftir Breiðholtsbraut en hinni í vestur. Um aðstæður á vettvangi er þess getið að bjart veður hafi verið og hálfskýjað. Yfirborð akbrautarinnar hafi verið rakt og snjóföl eftir miðlínu akbrautarinnar en ísing hafi ekki virst vera fyrir hendi.
Á vettvangi hafi verið rætt við ákærðu sem hafi greint frá því að hún hafi ekið austur veginn. Hafi hún ekki hreinsað framrúðuna áður en hún ók af stað að heiman og því séð illa út vegna hríms á rúðunni. Hafi hún brugðið á það ráð að sprauta rúðuvökva á framrúðuna en líklegast farið yfir á rangan vegarhelming við það. Tekið er fram að sjáanlegt hafi verið að framrúða bifreiðar ákærðu hafi verið hrímuð og blaut eftir rúðuvökva.
Á meðal gagna málsins er skýrsla tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en í henni eru ljósmyndir af vettvangi sem og af bifreiðunum tveimur. Á myndunum má sjá brak úr framendum beggja bifreiða á akbrautinni og bera ljósmyndirnar með sér að bifreiðirnar voru báðar mjög mikið skemmdar.
Ákærða var yfirheyrð vegna málsins hjá lögreglu hinn 27. febrúar 2007. Kvaðst hún þá hafa verið á leið í skólann umræddan morgun. Hefði hún ekki skafið hrím af framrúðu bifreiðarinnar sökum flýtis. Þegar hún ók Breiðholtsbrautina hefði hún sprautað rúðuvökva á framrúðuna en hann þá frosið og útsýni versnað til muna við það. Hefði hún verið í þann mund að aka út í kant til að skafa framrúðuna er hún sá ljós koma og fann högg þegar bifreiðarnar skullu saman. Hefði hún ekki gert sér grein fyrir því að hún hefði ekið yfir á rangan vegarhelming. Kvaðst hún ekki vita hversu hratt hún hefði ekið en sagðist hafa verið með bílbelti. Gat hún þess að hún hefði farið úr vinstri mjaðmarlið við áreksturinn, en einnig hefði vinstri handleggur hennar brotnað. Þá hefði hægri úlnliðurinn brákast og hún hlotið mar á baki og aðra smærri áverka víðar um líkamann. Hefði hún ekki getað stundað nám eftir áreksturinn.
Á meðal gagna málsins er áverkavottorð vegna Ölmu Geirdal Ægisdóttur, ökumanns bifreiðarinnar JF-173. Þar er því lýst að við skoðun á bráðamóttöku Landspítalans hinn 7. febrúar 2007 hafi hún verið með stórt mar á enni, stórt tætt sár framanvert á vinstra hné þar sem sá inn í brotna hnéskel auk hruflsára framanvert á hægra hné. Hefði hún verið tekin til aðgerðar samdægurs þar sem hnéskeljabrot var rétt opið og fest með tveimur skrúfum, auk þess sem svokallað hlutarof í lærvöðvasin var saumað. Í samantekt segir að Alma hafi hlotið opið hnéskeljabrot vinstra megin og lítinn brjóstholsáverka með smávægilegu loftbrjósti hægra megin og vökvasöfnun, sem og yfirborðsáverka víða, til að mynda á enni og yfir hægra hné. Hafi hún legið á sjúkrahúsi í fimm daga, gips verið fjarlægt eftir 6 vikur og að þeim tíma liðnum hafi hún notað hnéspelku í 6 vikur til viðbótar. Töluverð hreyfiskerðing hafi verið til staðar hinn 27. desember 2007, tæpu ári eftir umferðarslysið. Hafi frekari sjúkraþjálfun þá verið ráðgerð.
Skýrslur fyrir dómi
Ákærða kvaðst hafa ekið á bifreið sinni frá heimili sínu að Kóngsbakka 9 umræddan morgun. Hefði hún ekið Breiðholtsbrautina á leið til skóla. Á Breiðholtsbrautinni hefði ,,skítur og slabb“ frá veginum komið á bifreiðina. Hefði hún þá sett rúðuvökva á framrúðuna og myndi hún lítið eftir það. Kvaðst hún nánar aðspurð ekki muna eftir bifreiðinni sem hún ók á. Spurð sagði hún rúðu bifreiðarinnar ekki hafa verið hrímaða er hún ók af stað og hefði henni ekki fundist þörf á því að skafa hana. Spurð hverju það sætti að hún hefði sagt þannig frá hjá lögreglu að hún hefði ekki skafið rúðuna vegna þess að hún hefði verið að flýta sér, sagði ákærða að sér hefði liðið illa í skýrslutökunni og hefði hún viljað ljúka henni af sem fyrst. Hefði lögreglumaður hjálpað henni við skýrslugerðina og neitaði hún því að hún hefði sagt þar frá í beinni frásögn. Kvaðst ákærða hafa brotnað á báðum höndum við slysið auk þess að togna í baki, öxlum og hnjám og fara úr mjaðmalið. Hefði bati hennar verið hægur og hefði hún oft þurft að leita sér læknisaðstoðar. Kvaðst hún hafa misst mikið úr skóla sökum þessa.
Alma Dröfn Geirdal Ægisdóttir, ökumaður bifreiðarinnar JF-173, kvaðst hafa ekið upp Breiðholtsbrautina. Hefði hún litið í baksýnisspegilinn og skyndilega orðið vör við bifreið sem komin hefði verið yfir á hennar vegarhelming. Hefði bifreiðin síðan skollið framan á bifreið hennar. Kvaðst hún ekki hafa séð er bifreiðinni var ekið yfir á hennar vegarhelming. Vitnið gerði grein fyrir meiðslum sínum sem lýst er í fyrrgreindu áverkavottorði.
Vitnið Sigrún Sigurðardóttir kvaðst hafa ekið Breiðholtsbrautina umræddan morgun. Skyndilega hefði hún séð að bifreið sem á móti kom var ekið þvert yfir veginn og í áttina til hennar. Hefði hún þá gefið í og náð að afstýra árekstri með því að aka út af veginum.
Karlotta Jóna Finnsdóttir, móðir ákærðu, gerði grein fyrir skýrslutöku ákærðu hjá lögreglu. Kvað hún lögreglumann hafa leiðbeint henni við skýrslugjöfina og hefði ekki verið um að ræða beina frásögn ákærðu. Hefðu ákærða og móðir hennar báðar verið í þeirri trú eftir skýrslutökuna að málinu væri með því lokið enda um slys að ræða. Hefði lögreglumaðurinn aðstoðað ákærðu við að ,,koma hlutunum í orð“ og ,,fært hlutina í stílinn“. Hefði ákærðu verið boðið að fá verjanda en þeim mæðgunum hefði ekki þótt ástæða til þess þar sem þær hefðu litið svo á að um slys væri að ræða.
Lögreglumaðurinn Guðmundur Stefán Sigmarsson kvaðst hafa komið á vettvang sem slysarannsóknarlögreglumaður. Þá hefði vettvangur verið lokaður og ökumenn beggja bifreiða fastir í bifreiðunum. Kvaðst hann hafa ritað skýrslu vegna málsins en kannaðist ekki við að hafa rætt við ákærðu á vettvangi. Vitnið sagði hélu hafa verið á bifreiðinni sem ekið var í austurátt og að greinilegt hefði verið á lyktinni að rúðuvökvi hefði verið notaður. Ekki væri hins vegar verið unnt að segja til um það hvenær hún hefði myndast. Þá kvaðst hann ekki heldur geta lagt mat á það hvort útsýni úr bifreiðinni hefði verið skert vegna þessarar hélu.
Ragnar Jónsson, lögreglumaður í tæknideild, kvaðst hafa tekið svokallaðar afstöðumyndir af vettvangi. Kvaðst hann muna eftir því að miklar ákomur hefðu verið á bifreiðunum og hefði greinilega orðið mikið högg við áreksturinn. Um orsök árekstursins sagði hann að framhlutar bifreiðanna hefðu verið á sömu akbrautinni og af því mætti ráða að önnur bifreiðin hefði farið yfir á öfugan vegarhelming. Kvaðst vitnið ekki muna hvort hrím hafi verið á bifreiðunum.
Birgir S. Jóhannsson lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang en muna að öðru leyti muna lítið eftir atvikum. Um orsakir árekstursins sagði hann að ,,komið hefði til tals“ að rúðuvökvi hefði frosið á rúðu og byrgt ökumanni sýn. Staðfesti hann skýrslu sem hann gerði vegna málsins.
Lögreglumaðurinn Leifur Halldórsson kvaðst ekki hafa komið að málinu fyrr en á síðari stigum málsins. Gerði hann grein fyrir því að skýrslutaka af ákærðu hefði farið fram með hefðbundnum hætti, en mundi þó ekki eftir skýrslutökunni sérstaklega. Kvað hann skýrslutökur fara fram með þeim hætti að viðkomandi gæfist kostur á að tjá sig sjálfstætt um málið og atvik væru í kjölfarið skráð eftir honum. Eftir atvikum væru svo lagðar spurningar fyrir menn en að því búnu fengju þeir að lesa skýrsluna yfir og gera athugasemdir ef einhverjar væru. Menn samþykktu svo skýrslu með undirritun. Ekki kvaðst hann ,,muna betur“ en að skýrslutaka í þessu máli hefði verið með hefðbundnum hætti. Kannaðist lögreglumaðurinn ekki við að hafa aðstoðað ákærðu í skýrslutökunni með því að leggja henni orð í munn. Sagðist hann aldrei láta menn ,,gera eitt eða neitt“ í skýrslutökum.
Lögreglumaðurinn Guðrún Árnadóttir kvaðst hafa sinnt ákærðu á vettvangi. en hún hefði verið. Hefði hún verið mikið slösuð og í mikilli geðshræringu. Hefði hún talað um að hún hefði ekki skafið framrúðuna og því ekki séð neitt. Hefði hún þá sprautað rúðuvökva á rúðuna til að sjá en að það hefði gert illt verra.
Niðurstaða
Ákærðu er gefið að sök að hafa valdið árekstri bifreiðar ákærðu og bifreiðarinnar JF-173 með því að hafa ekið frá Kóngsbakka 9 með hrímaða framrúðu svo að útsýni var skert og að hafa á leiðinni austur Breiðholtsbraut sprautað rúðuvökva á rúðuna, misst við það sjónar á veginum og ekið bifreiðinni yfir á akrein fyrir umferð á móti. Hafi hún með þessu brotið gegn tilgreindum ákvæðum umferðarlaga og ákvæði 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Fram er komið með vætti ökumanns bifreiðarinnar JF-173, Ölmu Drafnar Geirdal Ægisdóttur, að bifreið ákærðu hafi skyndilega birst á öfugum vegarhelmingi fyrir framan bifreið hennar og skollið þar framan á hana. Þá er það og staðfest með framburði Sigrúnar Sigurðardóttur, sem ók Breiðholtsbrautina umræddan morgun, að bifreið ákærðu hafi skyndilega beygt í veg fyrir umferð á móti og yfir á hina akreinina. Niðurstöður vettvangsrannsóknar lögreglu og vitnisburður þeirra lögreglumanna sem gáfu skýrslu fyrir dóminum staðfesta og að áreksturinn hafi orðið á þeim vegarhelmingi, og þá öfugum vegarhelmingi miðað við akstursstefnu bifreiðar ákærðu.
Ákærða hefur lýst því fyrir dóminum að hún hafi ekið af stað frá heimili sínu í greint sinn án þess að skafa framrúðu bifreiðarinnar. Hafi engin þörf verið á því þar sem ekkert hrím hefði verið á rúðunni. Hafi hún ekið sem leið lá austur Breiðholtsbraut og myndi hún síðast eftir sér fyrir slysið er hún hafi sprautað rúðuvökva á framrúðuna. Áður hafði ákærða lýst aðdragandanum á þann veg hjá lögreglu að hún hefði ekki skafið bílrúðuna og séð illa til við aksturinn vegna hríms á rúðunni.
Af fyrirliggjandi skýrslum lögreglu verður ekki séð að fram hafi farið sérstök rannsókn á því á vettvangi hvort hrím væri á framrúðu bifreiðar ákærðu og þá hvort ætla mætti að það hefði verið til staðar á rúðunni við upphaf aksturs eða hvort það hefði myndast síðar. Ekki verður heldur ráðið um þetta af ljósmyndum af bifreiðinni sem teknar voru eftir slysið. Lögreglumaðurinn Guðmundur Stefán Sigmarsson sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að héla hefði verið á annarri bifreiðinni og að greinilegt hefði verið að rúðuvökvi hefði verið notaður. Ekkert væri hins vegar hægt að segja til um hvenær hélan hefði myndast né gæti hann lagt mat á það hvort útsýni ökumanns hefði verið skert vegna þessa. Þá kom það og fram hjá Ragnari Jónssyni, lögreglumanni í tæknideild, að hann myndi ekki hvort hrím hefði verið á bifreiðinni.
Fyrir liggur að framburður ákærðu var nokkuð annar hjá lögreglu en fyrir dómi varðandi það hvort hrím hefði verið á rúðu bifreiðarinnar er hún lagði af stað og hvort hrím hefði haft einhver áhrif á útsýni hennar við aksturinn rétt fyrir slysið. Með hliðsjón af 111. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 verður sakfelling ákærðu ekki reist á framburði hennar hjá lögreglu nema önnur atriði styðji þann framburð í verulegum atriðum. Þar sem ekki liggja fyrir skýr gögn sem styðja það að ákærða hafi vanrækt að skafa hrím af framrúðunni í greint sinn eða að hrím hafi byrgt henni sýn við aksturinn þykir verða að byggja á framburði hennar fyrir dómi hvað þetta varðar. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talin komin fram sönnun um að orsök þess að bifreið ákærðu var skyndilega ekið í veg fyrir bifreiðina JF-173 megi rekja til vanrækslu ákærðu við að hreinsa hrím af framrúðu bifreiðarinnar eða til skerts útsýnis vegna hríms að öðru leyti eins og byggt er á í ákæru.
Verður ákærða því sýknuð af broti gegn 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr. og 59. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 12. gr. laga nr. 44/1993.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 236.550 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærða, Guðný Sæbjörg Ásgeirsdóttir, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Guðmundssonar hrl. 236.550 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.