Hæstiréttur íslands
Mál nr. 392/2008
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Umboð
- Umsýsluviðskipti
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2009. |
|
Nr. 392/2008. |
Þórsberg ehf. (Björn L. Bergsson hrl.) gegn Skarfakletti ehf. (Jónas Haraldsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Umboð. Umsýsluviðskipti. Aðild.
K ehf. gerði skriflegt tilboð, fyrir hönd umbjóðanda, til Þ ehf. um sölu tiltekinna veiðiheimilda. Þ ehf. samþykkti tilboðið samdægurs. Greiddi það fyrir hluta veiðiheimildanna, en S ehf., eigandi þeirra, stefndi því til greiðslu á því sem eftir stóð. Ekki var talið unnt að líta svo á að tilboðið hafi borið svo ótvírætt með sér að K ehf. kæmi þar fram í skjóli umboðs að Þ ehf. gæti talist hafa með samþykki þess orðið bundinn af samningi við annan en K ehf., sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ekki var deilt um það í málinu að K ehf. hafði milligöngu fyrir S ehf. Var K ehf. því í stöðu umsýslumanns í þessum viðskiptum. Eftir óskráðum reglum fjármunaréttar um umsýsluviðskipti bakaði Þ ehf. sér skuldbindingu við umsýslumanninn með samþykki tilboðsins, en ekki gagnvart S ehf. sem umsýsluveitanda. Var talið að S ehf. gæti ekki á þessum grunni einum sótt greiðslu úr hendi Þ ehf. og var Þ ehf. því sýknað, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2008 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda. Til vara krefst áfrýjandi að krafan verði lækkuð og beri fyrst dráttarvexti frá uppsögu dóms í málinu, auk þess sem dæmt verði að stefnda „beri að afhenda 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju gegn greiðslu samkvæmt dómsorði“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gerði Kvóta- og skipasalan ehf. skriflegt tilboð 5. mars 2007, sem beint var til áfrýjanda. Í upphafi þess kom fram að sá fyrrnefndi væri tilboðsgjafi „f.h. umbjóðanda“, en þessa umbjóðanda var ekki getið þar að öðru leyti. Í framhaldi af þessu sagði eftirfarandi: „Tilboðsgjafi gefur sölutilboð á eftirfarandi aflahlutdeild og aflamarki sem tilboðsgjafi er eigandi af“. Þessar veiðiheimildir voru nánar tiltekin aflahlutdeild í þorski og skötusel ásamt tilgreindu óveiddu aflamarki í þorski, en að auki 25% aflahlutdeild í svonefndri Skagafjarðarrækju. Án þess að frekari skýringar væru færðar fyrir því í tilboðinu var síðastgreindri aflahlutdeild lýst með því að í henni fælist tiltekið aflamark í fjórum fisktegundum og væri um að ræða „bætur“. Fyrir liggur í málinu að þetta hafi stafað af því að engar innfjarðarrækjuveiðar munu hafa verið stundaðar á fiskveiðiárinu 2005 til 2006, meðal annars á Skagafirði, og hafi þess í stað verið úthlutað á næsta fiskveiðiári tilteknu aflamarki til báta, sem höfðu hlutdeild í innfjarðarrækju þar. Samkvæmt tilboðinu gafst áfrýjanda kostur á að kaupa þessar veiðiheimildir fyrir 215.976.576 krónur, sem greiðast ættu á tiltekinn bankareikning Kvóta- og skipasölunnar ehf. Áfrýjandi samþykkti þetta tilboð samdægurs.
Óumdeilt er í málinu að stefndi var eigandi þeirra veiðiheimilda, sem framangreint tilboð tók til, en jafnframt að áfrýjanda hafi ekki verið um það kunnugt þegar hann samþykkti tilboðið. Með yfirlýsingu dagsettri 5. mars 2007 veitti stefndi Kvóta- og skipasölunni ehf. „fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita og samþykkja“ tilboð til áfrýjanda um sölu á aflahlutdeild og aflamarki fyrir samtals 215.976.576 krónur, allt eins og fram kæmi í tölvupóstsendingu stefnda sama dag. Fram hefur verið lögð mynd af hluta skjals, þar sem fram kemur dagsetningin 13. mars 2007, en að öðru leyti er þar að sjá sömu tilgreiningu á aflahlutdeild og aflamarki og getið var í tilboðinu til áfrýjanda 5. sama mánaðar, svo og sundurliðun áðurnefndrar fjárhæðar á hvern þátt veiðiheimildanna, meðal annars samtals 84.884.940 krónur vegna þeirra sem tengdust Skagafjarðarrækju. Ekki verður annað séð en að óumdeilt sé að þessar upplýsingar stafi frá stefnda og hafi búið að baki tilboðinu frá 5. mars 2007, þar á meðal um sundurliðun á verðmæti einstakra veiðiheimilda. Samkvæmt skýrslu fyrirsvarsmanns áfrýjanda fyrir héraðsdómi fékk hann þetta gagn í hendur frá Kvóta- og skipasölunni ehf. tveimur eða þremur dögum eftir samþykki tilboðsins.
Áfrýjandi kveðst eftir samþykki tilboðsins hafa leitað lánafyrirgreiðslu vegna kaupanna hjá viðskiptabanka, en þar hafi verið hafnað erindi hans að því leyti, sem það varðaði kaupverð veiðiheimilda í tengslum við Skagafjarðarrækju. Í framhaldi af því virðist áfrýjandi hafa greitt til Kvóta- og skipasölunnar ehf. 19. og 23. mars 2007 kaupverð annarra veiðiheimilda en þeirra, sem tengdust Skagafjarðarrækju, en það nam 84.884.940 krónum. Aðrar veiðiheimildir, sem tilboðið frá 5. mars 2007 tók til, hafa verið framseldar áfrýjanda og eru kaupin á þeim ekki til umfjöllunar í málinu. Stefndi leitar á hinn bóginn dóms um skyldu áfrýjanda til að inna af hendi kaupverð veiðiheimilda, sem tengjast Skagafjarðarrækju, en að teknu tilliti til afsláttar, sem stefndi bauð fram af því verði undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi, krefst hann greiðslu á 73.442.470 krónum ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.
II
Í tilboði Kvóta- og skipasölunnar ehf. til áfrýjanda 5. mars 2007 um sölu á veiðiheimildum var þess getið eins og áður greinir að sá fyrrnefndi væri „tilboðsgjafi ... f.h. umbjóðanda“. Í framhaldi af því var á hinn bóginn tekið fram að „tilboðsgjafi er eigandi“ veiðiheimildanna, sem boðnar voru til sölu. Um „umbjóðanda“ Kvóta- og skipasölunnar ehf. var hvergi rætt að öðru leyti í tilboðinu og var ætlast til að áfrýjandi innti af hendi kaupverð með greiðslu inn á tiltekinn bankareikning félagsins. Að þessu virtu er ekki unnt að líta þannig á að tilboðið hafi borið svo ótvírætt með sér að Kvóta- og skipasalan ehf. kæmi þar fram í skjóli umboðs að áfrýjandi geti talist hafa með samþykki þess orðið bundinn af samningi við annan en félagið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um það er á hinn bóginn ekki deilt í málinu að Kvóta- og skipasalan ehf. hafði í þessum efnum milligöngu fyrir stefnda, sem í raun var eigandi veiðiheimildanna. Af þessu leiðir að félagið verður að teljast hafa verið í stöðu umsýslumanns í þessum viðskiptum. Eftir óskráðum reglum fjármunaréttar um umsýsluviðskipti bakaði áfrýjandi sér skuldbindingu við umsýslumanninn með samþykki tilboðsins 5. mars 2007, en ekki gagnvart stefnda sem umsýsluveitanda. Sökum þessa getur stefndi ekki á þessum grunni einum sótt greiðslu úr hendi áfrýjanda til efnda á samningnum, sem komst á með framangreindum hætti. Verður því að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Þórsberg ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Skarfakletts ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2008.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 21. apríl sl., var þingfest 28. júní 2007.
Stefnandi er Skarfaklettur ehf., Tungulandi 1, Tálknafirði.
Stefndi er Þórsberg ehf., Strandgötu 25, Tálknafirði.
Í þinghaldi 21. apríl 2008, var gerð breyting á dómkröfum stefnanda sem er í samræmi við framangreinda bókun eftirfarandi:
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 73.442.470 krónur, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. maí 2007 til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda.
Í aðalkröfu er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, samanber 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991.
Til vara krefst stefndi þess að dómari gæti að því, samanber 1. tölulið 111. gr. laga nr. 91/1991, að dómkrafa stefnanda er í raun þess efnis að stefnandi og stefndi efni sölutilboð, samkvæmt efni sölutilboðsins. Samkvæmt sölutilboði verður stefndi ekki dæmdur til þess að greiða stefnanda peninga, nema gegn afhendingu (færslu) stefnanda á 25% Skagafjarðarrækju, inn á bát er stefndi tilgreinir.
Þá er gerð krafa til þess í varakröfu að vextir reiknist ekki á dómkröfu stefnanda fyrr en frá dómsuppsögu, með vísan til 2. ml. 7. gr. laga nr. 38/2001.
Í varakröfu er þess krafist að hvor málsaðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu samanber 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsatvik.
Mál þetta snýst um sölutilboð sem undirritað er af Árna Guðmundssyni vegna ,,Kvóta-og skipasölunnar ehf., f.h. umbjóðanda“ og fyrirsvarsmanni stefnda, Guðjóni Indriðasyni. Tilboðið er dagsett 5. mars 2007 og samkvæmt því lagði stefnandi fram blöndu af aflaheimildum af bátum sínum. Nánar tiltekið var um að ræða aflahlutdeild í þorski 0.0150367%, úthlutað magn 23.256 og óveitt aflamark 129.696, skötusel 0.9740321%, úthlutað magn 26.322, Skagafjarðarrækju 25% hlutdeild í úthlutun, þorski (bætur), úthlutað magn 35.252, ýsu (bætur) úthlutað magn 19.265, ufsa (bætur), úthlutað magn 15.869, steinbít (bætur), úthlutað magn 2.565. Kaupverðið var 215.975.576 krónur sem greiðast skyldi inn á reikning Kvóta- og skipasölunnar ehf., þegar tilflutningur aflaheimildanna hjá Fiskistofu hefði farið fram. Stefnandi kveður að aflaheimildir hafi síðan verið fluttar af bátum sínum, m.s. Arney HU-36 (2102) og ein aflahlutdeild af m.s. Silla SU-152, yfir á bát stefnda, m.s. Kóp BA-175 (1063).
Stefndi greiddi Kvóta- og skipasölunni ehf. 10.000.000 krónur 19. mars 2007 og síðan aftur 23. mars 2007, 117.058.273 krónur, eða alls 127.058.273 krónur af kaupverði. Voru þá ógreiddar af kaupverði 88.613.306 krónur, en af þeim áttu 4.033.363 krónur að renna til Kvóta- og skipasölunnar ehf. í söluþóknun. Átti Kvóta- og skipasalan ehf. að sjá um að koma greiðslu til stefnda um leið og aflaheimildir hefðu verið færðar á milli báta.
Viðskiptabanki stefnanda, Landsbanki Íslands, sendi tölvuskeyti til Kvóta- og skipasölunnar 13. apríl 2007 og ítrekaði að enn væru ógreiddar 88.613.306 krónur af kaupverðinu. Fiskistofa staðfesti flutning 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju 16. apríl 2007, en flutning á öðrum aflahlutdeildum hafði Fiskistofa staðfest áður. Stefndi sendi bréf til Fiskistofu 18. apríl 2007, þar sem hann tilkynnti að flutningur aflaheimilda vegna Skagafjarðarrækju hefði farið fram án vitneskju fyrirsvarsmanns stefnda. Var í bréfinu farið fram á af hálfu stefnda að aflahlutdeildarfærslan yrði bakfærð án tafar. Með bréfi Fiskistofu 22. maí 2007 var stefnanda tilkynnt um kröfu stefnda um bakfærslu á aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju og gefinn frestur til 1. júní 2007 til að gera athugasemdir við það. Mótmælti lögmaður stefnda ofangreindri bakfærslu, eins og fram kemur í ódagsettu, framlögðu bréfi lögmanns hans. Fiskistofa tók ákvörðun um að afturkalla tilflutning af framangreindri Skagafjarðarrækju frá Arney HU-36 til Kóps BA-175 og var aflahlutdeildin færð að nýju á Arney HU-36. Bakfærslan fór fram 1. júní 2007.
Ágreiningur málsins snýst um efndir á samningi þeim sem aðilar gerðu, hvort stefnandi sé réttur aðili að málinu, og hvort skilyrði séu til að víkja samningnum til hliðar í heild eða að hluta með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur Theódór Erlingsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, Guðjón Indriðason, fyrirsvarsmaður stefnda, Árni S. Guðmundsson, Anna Sigurðardóttir og Theódór Siemsen Sigurbergsson.
Kvaðst Theódór vera útgerðarmaður og hafi hann falið Kvóta- og skipasölunni ehf. að selja fyrir sig aflamark og aflaheimildir í þorski, skötusel og Skagafjarðarrækju. Hann kvaðst ekki hafa hitt kaupandann, fyrirsvarsmann stefnda, en frétt daginn eftir að sölutilboð var undirritað hver hann væri. Hann kvaðst aldrei hafa fengið upplýsingar um að kaupandi vildi hætta við kaupin. Hann kvað eiganda aflaheimilda Skagafjarðarrækju hafa verið Skarfaklett ehf. á þeim tíma er tilboð var undirritað.
Fyrirsvarsmaður stefnda, Guðjón Indriðason útgerðarmaður, kvaðst oft hafa átt viðskipti við Kvóta- og skipasöluna ehf., áður en til viðskipta þeirra var stofnað sem mál þetta er sprottið af. Hafi hann fyrst og fremst verið að horfa til aflamarks í þorski, er hann skrifaði undir sölutilboð og hafi viðskiptabanki hans samþykkt að lána fyrir kaupverðinu að frátöldum aflaheimildum í Skagafjarðarrækju. Hann hafi því farið til Árna Guðmundssonar hjá Kvóta- og skipasölunni ehf. og boðist til að hætta við kaupin, þar sem hann fengi ekki fyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka sínum. Hann kvaðst hafa treyst Árna fyrir þessu máli og hafi hann skrifað í ,,fávitaskap og blindni“ undir sölutilboð. Hann kvaðst ekki hafa vitað fyrr en 2-3 vikum eftir undirritun sölutilboðsins hver seljandi aflaheimildanna væri.
Árni S. Guðmundsson kvað fyrirsvarsmann stefnanda, Theódór, hafa beðið sig að selja fyrir sig kvóta í þorski, skötusel og rækju. Hann hafi látið fyrirsvarsmann stefnda, Guðjón, vita að hann væri að fá inn, m.a. þorskkvóta og hafi Guðjón komið til hans á skrifstofuna og samþykkt að kaupa. Við undirritun sölutilboðs hafi fyrirsvarsmaður stefnda ekki vitað hver var seljandi kvótans. Það hafi hins vegar verið sama dag eða daginn eftir sem fyrirsvarsmaður stefnda hafi fengið það upplýst. Hann kvað Guðjón margoft hafa átt viðskipti við Kvóta- og skipasöluna ehf. áður en þessi kaup áttu sér stað. Vitnið kvað að eitthvað hafi verið rætt um verðlagningu á rækjunni áður en sölutilboðið var undirritað. Vitnið kvað það ekki hafa komið fram af hálfu Guðjóns að hann vildi rifta þessum kaupum. Vitnið kvaðst hafa verið með umboð frá Skarfakletti ehf. til að annast þessa sölu og að söluumboð frá fyrirsvarsmanni stefnanda til Kvóta- og skipasölunnar ehf. hafi legið fyrir þegar sölutilboð var undirritað. Hann hafi skýrt fyrirsvarsmanni Skarfakletts ehf. frá því að erfiðleikar væru við að efna sölutilboðið af hálfu stefnda. Vitnið kvað engar blekkingar hafa verið hafðar í frammi við kaupin.
Ekki þykir þörf á að rekja vitnaframburð annarra vitna fyrir dóminum.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa selt stefnda aflaheimildir af bátum sínum, m.s. Arney HU-36 (2102) og m.b. Silla SU152 (7023), þ.m.t 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju, sem Fiskistofa hafi síðan yfirfært á skip stefnda, m.s. Kóp BA-175 (1063). Salan hafi farið gegnum Kvóta- og skipasöluna ehf. og í nafni hennar sem milliliðs, þannig að hún gæti tekið greiðslu sölulaunanna af greiðslum stefnda til stefnanda, áður en mismuninum væri skilað inn á reikning stefnanda, sem seljanda aflaheimildanna. Eigandi allra aflaheimildanna hafi verið stefnandi og hafi Skagafjarðarrækjan komið af bát stefnanda, m.s Arney HU36 (2102).
Stefnandi kveður að kominn hafi verið á samningur um kaup á aflaheimildum, þ.m.t. 25% í Skagafjarðarrækju, þ.e samþykkt sölutilboð, sem forvígismaður stefnda, Guðjón Indriðason, hafi skrifað undir fyrir hönd stefnda án nokkurs fyrirvara eða skilyrða. Þá liggi fyrir að andvirði aflaheimildanna hafi verið greitt, nema andvirði Skagafjarðarrækjunnar. Við þann hluta kaupanna vilji stefndi ekki standa, þar sem hann taldi sig hafa keypt þann hluta ,,pakkans“ of dýru verði. Hafi fyrirsvarsmaður stefnda komið því til leiðar að Fiskistofa hafi bakfært millifærsluna á Skagafjarðarrækjunni á þeim forsendum að yfirfærsla þessara aflaheimilda hafi gerst gegn vitund og vilja stefnda, þótt fyrir liggi að forvígismaður stefnda hafi sjálfur skrifað undir samning um kaup á aflaheimildunum. Ekki hafi fengist skýring á því hvers vegna samningurinn varðandi kaup á öðrum aflaheimildum en Skagafjarðarrækjunni væri þá ekki einnig gerður gegn vitund og vilja stefnda. Megi ætla, að stefnda hafi fundist það verð ásættanlegt og því hafi sá hluti kaupanna að hans mati verið gerður með vitund og vilja stefnda, en ekki hinn.
Þrátt fyrir að stefnandi hafi bent Fiskistofu á þessi ósannindi stefnda og lagt áherslu á að einhliða yfirlýsing annars aðilans í viðskiptum rifti ekki tvíhliða löggerningi um kaup, hafi Fiskistofa í engu sinnt því og bakfært aflahlutadeild í Skagafjarðarrækjunni
Leggi stefnandi sérstaka áherslu á að 25% aflahlutdeildin í Skagafjarðarrækjunni standi stefnda til boða, láti hann af andstöðu sinni við að taka við þessum aflaheimildum, enda hafi hann keypt þessar aflaheimildir.
Stefnandi byggir má1 sitt á þeirri meginreglu samningaréttar, að samninga skuli halda, ,,pacta sunt servanda.“ Einnig byggir stefnandi á þeirri reglu, sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. kaupalaga nr. 50/2000 þess efnis, að seljandi geti haldið fast við kaup og krafið kaupandann um greiðslu alls kaupverðsins, sem stefnandi og geri.
Þá bendir stefnandi á að stefndi geti ekki rift lögmætum kaupum, þótt hann telji að hluti þeirra hafi verið of dýru verði keyptur og seljandi hlutarins vilji ekki gefa honum afslátt af kaupverði. Fái slíkur skilningur ekki staðist, þ.e að samninga þurfi ekki að halda.
Af hálfu stefnda hafi kaupin á aflaheimildunum ekki verið bundin neinum fyrirvara eða skilyrðum. Þá hafi forvígismaður stefnda verið þrautreyndur útgerðarmaður og hafði oft áður átt í viðskiptum með aflaheimildir. Hafi því verið jafnræði með aðilum. Við gerð kaupsamnings um aflaheimildir hafi báðir aðilar tekið áhættu vegna þeirrar þróunar mála, sem verða kynni varðandi verðlagningu aflaheimilda. Eftir að kaupin hafi átt sér stað hafi verð á aflaheimildum hækkað á öðrum tegundum en á Skagafjarðarrækjunni. Hafi stefndi notið góðs af heim hækkunum. Almennt sanngirnismat dugi ekki til riftunar hluta kaupa stefnda á aflaheimildunum. Telji stefndi sig hafa keypt aflahlutdeildina í Skagafjarðarrækjunni of háu verði, verði kaupunum ekki rift af þeim ástæðum, frekar en í öllum þeim tilvikum öðrum, þegar slíkt kunni að eiga sér stað.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða kaupalaga nr. 50/2000, einkum 1. mgr. 52. gr., samningalaga nr. 7/1936 og þeirrar grundvallarreglu samningaréttar, að samninga skuli halda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveðst, líkt og margir íslenskir útgerðarmenn, hafa til margra ára átt viðskipti við Kvóta- og skipasöluna ehf. við kaup, sölu og leigu á veiðiheimildum.
Hafi forsvarsmaður Kvóta- og skipasölunnar ehf. þekkt til þess að stefndi vildi leigja aflamark í þorski fyrir skip sín.
Sölumaður Kvóta- og skipasölunnar ehf. hafi tilkynnt forsvarsmanni stefnda, fyrstu daga marsmánaðar 2007, að stefndi gæti leigt aflamark í þorski, í svipuðu magni og stefndi hafði óskað eftir, en því aflamarki fylgdi aflahlutdeild í skötusel svo og 25% aflahlutdeild i Skagafjarðarrækju. Ekki hafi verið getið um hver væri eigandi þessara veiðiréttinda, en Kvóta- og skipasalan ehf. hafi annast sölu og verðmat þeirra veiðiréttindi sem voru til sölu.
Stefndi hafi þekkt til verðlagningar aflahlutdeilda í þorski og skötusel, svo og til verðlagningar á aflamarki á þorski. Varðandi verð aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju hafi framkvæmdastjóri stefnda treyst verðmati Árna Guðmundssonar, eiganda Kvóta- og skipasölunnar ehf., sem verið hafi umsýsluaðili sölunnar.
Varðandi kröfu um sýknu vegna aðildarskorts stefnanda vísar stefndi til þess að hann hafi átti viðskipti við Kvóta- og skipasöluna ehf. 5. mars 2007, sem gert hafi stefnda sölutilboð á veiðiheimildum, eins og fram komi í dómskjali 3. Við undirritun stefnda undir sölutilboð, sem tilboðshafi, hafi hann ekki vitað hver umbjóðandi Kvóta- og skipasölunnar ehf. var.
Stefndi þekki ekki þá samninga, sem í gildi hafi verið milli stefnanda og eða Silla ehf. og Kvóta- og skipasölunnar ehf. Veiðiheimildir, (þorskur, skötuselur og Skagafjarðarrækja), hafi verið afhentar stefnda, án þess að kauptilboð, kaupsamningur og eða afsal hafi verið undirrituð milli stefnanda og stefnda.
Enginn samningur sé milli stefnanda og stefnda. Hann hafi verið óþarfur, þar sem stefnandi og fyrirtækið Silli ehf. annars vegar og hins vegar umsýsluaðilinn, Kvóta- og skipasalan ehf. hafi gert með sér munnlegan eða skriflegan samning, um umsýslusölu Kvóta- og skipasölunnar ehf. á veiðiheimildum. Algengt sé að gera slíka samninga við sölu lausafjár, þar sem Kvóta- og skipasalan ehf., sem umsýsluaðili, skuldbindi sig til þess að annast sölu veiðiheimilda, í eigu stefnanda og Silla ehf.
Þá megi sjá að aflahlutdeild í þorski, sem stefnda hafi verið afhent hafi verið flutt af bátnum Silla SU-152, en sá bátur hafi við afhendingu aflahlutdeildar verið í eigu Silla ehf. Þá hafi aflahlutdeild verið flutt af bátnum Arney HU-36, skipaskrárnúmer 2102, en eigandi þess báts sé stefnandi. Stefndi viti ekki hvort stefnandi, eða Silli ehf., hafi átt í viðskiptum við Kvóta- og skipasöluna ehf., enda breyti sú vitneskja engu fyrir hann, þar sem hann átti í viðskiptum við Kvóta- og skipasöluna ehf., sem er umsýsluaðili viðskipta.
Þá gerir stefndi þá kröfu að þeim hluta samþykkts sölutilboðs sem varði sölu og afhendingu á aflahlutdeild á Skagafjarðarrækju, gegn greiðslu stefnda á 84.884.940 krónur verði vikið til hliðar. Samkvæmt dómskjali númer 26 hafi stefnandi keypt alla hluti/hlutabréf í einkahlutafélaginu Mánarnir ehf. 23. febrúar 2007. Samkvæmt 2. grein þess samnings hafi einu eignir félagsins verið Skagafjarðarrækja og aflamark í þorski 35.114 kg. Engar skuldir hafi fylgt félaginu.
Söluverð allra hluta smærri einkahlutafélaga eins og félagsins Mánanna ehf., sem hafi yfir að ráða veiðiréttindum og engum öðrum eignum eða réttindum, reiknist út frá verðmati veiðiheimilda félagsins. Í stað þess að selja veiðiheimildirnar sjálfar hafi allir hlutir einkahlutafélagsins verið seldir. Það hafi verið gert vegna skattalegs hagæðis seljanda, en breyti kaupanda engu.
Kaupverð stefnanda 23. febrúar 2007 hafi verið 62.000.000 króna. Þar af hafi verðmæti aflamarks í þorski verið um 5.774.848 krónur. Engin óvissa hafi verið um söluverð þorskaflamarks, þar sem viðskipti með þorskaflamark séu í verulegu magni hvern virkan dag ársins. Samkvæmt því sé kaupverð stefnanda á Skagafjarðarrækju 23. febrúar 2007, 56.225.152 krónur (62.000.000 krónur að frádregnum 5.774.848 krónum). Samkvæmt dómskjali númer 28, séu veiðiheimildir sem stefnda hafi verið boðnar til sölu af Kvóta- og skipasölunni ehf., með sölutilboði dagsettu 5. mars 2007, metnar á 215.976.576 krónur, þar af hafi Skagafjarðarrækja verið metin á 84.884.940 krónur. Umsýsluaðili og eða stefnandi hafi hækkað verð á Skagafjarðarrækju úr 56.225.152 krónum í 84.884.940 krónur. Hækkun hafi numið 28.659.788 krónum, eða sem nemi rúmlega 50% hækkun, á tímabilinu frá 23. febrúar 2007 til 5. mars 2007.
Stefnandi og/eða Kvóta- og skipasalan ehf. hafi þekkt til kaupa stefnanda frá 23. febrúar 2007 auk þess sem Kvóta- og skipasölunni ehf. hafi verið ljóst að stefndi leitaði eftir leigu á aflamarki í þorski. Kvóta- og skipasalan ehf. hafi komið fram fyrir hönd stefnanda, en það fyrirtæki hafði aflað sér trausts forsvarmanns stefnda, með fyrri viðskiptum.
Söluverð aflahlutdeilda í algengum fisktegundum og leiguverð aflamarks, algengra kvótabundinna fisktegunda, sé verð sem mótist á markaði, vegna umtalsverðra viðskipta. Fyrirtæki, sem annist þessi viðskipti, haldi skrá um markaðsverð, auk þess sem Fiskistofa fylgist með og birti á heimasíðu Fiskistofu, leiguverð fisktegunda. Bætur vegna skerðingar á leyfilegum heildarafla innfjarðarrækju í Skagafirði, séu framseljanleg réttindi. Þar sem réttindin séu framseljanleg séu þau metin til peninga við eigendaskipti. Hins vegar séu viðskipti með Skagafjarðarrækju ekki skráð á kvótamarkaði og framsal réttinda fátíð. Í viðskiptum við löggilta fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, eins og Kvóta- og skipasöluna ehf., geri stefndi kröfu til þess að umsýsluaðili liðsinni kaupanda jafnt og seljanda, og gæti þess að veita kaupanda þær upplýsingar, sem kaupandi hafi ekki vitneskju um og geti ekki aflað sér vitneskju um, og varði söluna.
Um lagarök vísar stefndi til III. kafla laga nr. 7/1936, aðallega 36. gr.
Þá vísar stefndi til laga nr. 99/2004, einkum leiðbeinandi ákvæða 14. og 15. gr. laganna, samanber einnig 8. gr. reglugerðar nr. 939/2004. Þá vísar stefndi til 248. gr. laga nr. 19/1940.
Stefndi bendir á til stuðnings varakröfu sinni að dómari verði að gæta að því, sbr. 1. tölulið 111. gr. laga 91/1991, að dómkrafa stefnanda sé í raun þess efnis að stefnandi og stefndi efni sölutilboð samkvæmt efni sölutilboðsins. Samkvæmt sölutilboði verði stefndi ekki dæmdur til þess að greiða stefnanda peninga, nema gegn afhendingu (færslu) stefnanda á 25% Skagafjarðarækju, inn á bát er stefndi tilgreini.
Fallist dómurinn ekki á aðalkröfu stefnda um sýknu, er gerð krafa til þess að samhliða greiðslu stefnda fari fram afhending stefnanda á 25% Skagafjarðarækju, en afhending aflahlutdeilda, eins og 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju, sé háð skilyrðum, sem tengist þeim sem framselji aflahlutdeild.
Niðurstaða.
Meginágreiningur málsins lýtur að tvennu. Annars vegar að því hvort stefnandi sé réttur aðili að málinu og hins vegar að því hvort samningur milli stefnda og stefnanda um kaup á aflahlutdeild og aflamarki sé svo ósanngjarn að víkja megi honum til hliðar á grundvelli 36. gr samningalaga nr. 7/1936.
Við úrlausn um það hvort telja verði að umrædd sala á aflamarki og aflahlutdeildum falli undir umsýslusölu eða umboðssölu verður að líta til þess að sölutilboð það sem liggur fyrir í málinu er gert í nafni Kvóta- og skipasölunnar ehf. fyrir hönd umbjóðanda og jafnframt liggur frammi í málinu umboð frá fyrirsvarsmanni stefnanda, Theódór K. Erlingssyni til Kvóta- og skipasölunnar ehf., til þess að undirrita og samþykkja sölutilboð til stefnda, Þórsbergs ehf. Þá bar fyrirsvarsmaður Kvóta- og skipasölunnar ehf., Árni S. Guðmundsson, fyrir dómi að fyrirsvarsmanni stefnda, Guðjóni Indriðasyni, hefði verið um það kunnugt sama dag eða daginn eftir undirritun sölutilboðs, hver var umbjóðandi Kvóta- og skipasölunnar ehf. og seljandi aflaheimildanna sem stefndi keypti umrætt sinn. Kvóta- og skipasalan ehf. kom því einungis fram í máli þessu sem umboðsmaður stefnanda og undirritaði sölutilboð fyrir hans hönd, en varð ekki bundin við sölutilboðið. Samkvæmt framangreindu er ekki um aðildarskort að ræða sem leitt geti til sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991.
Til stuðnings kröfu sinni um að samningi aðila verði vikið til hliðar hefur stefndi bent á að stefnandi hafi keypt Skagafjarðarrækju þá sem hann seldi stefnda, aðeins nokkrum dögum fyrr, á mun lægra verði en nam söluverði til stefnda.
Við mat á því hvort samningi verði vikið til hliðar á grundvelli þess að ósanngjarnt væri að bera hann fyrir sig, er horft til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar koma til, en almennt mat á því hvort samningur teljist ósanngjarn nægir ekki.
Fyrir liggur í málinu að fyrirsvarsmenn stefnanda og stefnda eru báðir útgerðarmenn. Fyrirsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi að hann hefði margoft átt viðskipti við Kvóta- og skipasöluna ehf., um kaup á aflaheimildum. Þá er fram komið í málinu að stefndi þarfnaðist aflamarks, m.a. í þorski, á þeim tíma er sölutilboð var undirritað, en samkvæmt framburði vitnisins Árna S. Guðmundssonar var svo ástatt um mjög marga útgerðarmenn á þeim tíma. Stefndi keypti blandaðar aflaheimildir og hefur verið á það bent af hálfu stefnanda að verð á aflaheimildum í öðrum tegundum en Skagafjarðarrækju hafi hækkað eftir að kaup gerðust og stefndi notið góðs af því. Hefur stefndi ekki hnekkt þeirri staðhæfingu.
Þegar framangreint er virt, er ekkert sem bendir til annars en að fullt jafnræði hafi verið með aðilum við samningsgerð. Þegar samningurinn er virtur í heild sinni hefur heldur ekki verið sýnt fram á að sérstök atvik hafi verið samningsgerðina, eða síðar til komin atvik, sem réttlætt geti ógildingu hluta samningsins, eða að efni samningsins hafi verið óvenjulegt. Eru því ekki lagaskilyrði til að ógilda þann hluta samnings aðila sem varðar sölu og afhendingu á aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju og verður stefndi því til dæmdur til þess að fullnægja skyldum sínum samkvæmt samningi aðila og til greiðslu stefnufjárhæðar.
Stefndi hefur krafist þess, verði hann dæmdur til greiðslu stefnufjárhæðar, að samhliða greiðslu stefnda fari fram afhending stefnanda á 25% Skagafjarðarrækju. Stefnandi lýsir því yfir í stefnu að 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju standi stefnanda til boða, enda hafi hann keypt þær aflaheimildir.
Stefndi verður samkvæmt framangreindu dæmdur til að greiða stefnanda 73.442.470 krónur, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. maí 2007 til greiðsludags, gegn afhendingu stefnanda á 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefndi stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Þórsberg ehf., greiði stefnanda, Skarfakletti ehf., 73.442.470 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. maí 2007 til greiðsludags, gegn afhendingu stefnanda á 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur málskostnað.