Hæstiréttur íslands
Mál nr. 570/2010
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 7. apríl 2011. |
|
Nr. 570/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur vararíkissaksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) (Ingvar Þóroddsson hdl.) (Árni Pálsson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa á tilteknu árabili haft í frammi kynferðislega háttsemi gagnvart A, bróðurdóttur sinni, og B, bróðursyni sínum, og um leið notfært sér að þau gátu ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka. Með vísan til þess að frásagnir A og B þóttu ekki alveg eindregnar eða nákvæmar um að X hefði tvívegis haft samræði við A á tilteknu tímabili og þar sem kvenskoðun læknis eftir þann tíma gaf til kynna að A hefði fram að því ekki haft samfarir var X sýknaður í héraðsdómi af þessum ákærulið. Aftur á móti þótti sannað að X hefði haft samræði og munnmök við A, látið B vera viðstaddan á meðan brotunum stóð og í kjölfar þeirra þvingað A og B til að hafa samræði og munnmök. Vísað var til frásagna A og B um brotin en talið var að þau hefðu átt sér stað eftir framangreinda kvenskoðun. Loks var X sakfelldur fyrir vörslur á barnaklámefni. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu X vegna einstakra ákæruliða var staðfest með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms. Matsgerð dómkvaddra kvensjúkdómalækna sem skoðuðu A eftir að héraðsdómur féll, og lagðar voru fyrir Hæstarétt, þóttu ekki geta hnekkt áliti þess læknis sem áður hafði skoðað A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt 2. til 5. lið ákæru og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim en að því frágengnu verði þær lækkaðar.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. B krefst þess að ákvæði hins áfrýjaði dóms um einkaréttarkröfu hans verði staðfest.
I
Ákærða eru í máli þessu gefin að sök kynferðisbrot gegn bróðurdóttur sinni, A fæddri [...], og bróðursyni sínum, B fæddum [...], með því að hafa haft í frammi nánar tilgreinda háttsemi og um leið notfært sér að þau hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna andlegra annmarka. Í ákæru er nánar gerð grein fyrir háttseminni í 1. til 5. lið. Ákærði var í héraði sýknaður af sakargiftum í 1. og 2. lið ákærunnar. Ákæruvaldið unir þeirri niðurstöðu varðandi 1. lið og kemur hann því ekki frekar til skoðunar fyrir Hæstarétti.
Í 2. lið ákæru var ákærði sakaður um að hafa brotið gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, sbr. áður 196. gr. laganna, með því að hafa á árinu [...] tvívegis haft samræði við A í nánar tilgreindri húsbifreið, sem þá hafi verið staðsett [...]. Í 3. lið ákæru var honum gefin að sök háttsemi sem lýst var í þremur stafliðum, með því að hafa á árunum [...] til [...] að [...] í fyrsta lagi haft samræði við A, í öðru lagi látið B vera viðstaddan þegar það gerðist og loks í kjölfarið þvingað B og A til að hafa samræði. Þá var ákærði í 4. lið sakaður um að hafa á sama tímabili og stað og um getur í 3. lið sýnt af sér háttsemi sem lýst var í þremur stafliðum með því að hafa í fyrsta lagi haft munnmök við A, í öðru lagi látið B vera viðstaddan þegar hann gerði þetta og loks í kjölfarið þvingað B til að hafa munnmök við hana. Var háttsemi ákærða í fyrsta og þriðja staflið 3. og 4. liðar talin varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og jafnframt 1. mgr. 202. gr. sömu laga að því er B varðar, en í öðrum staflið beggja liða við 209. gr. laganna. Loks var ákærði í 5. lið sakaður um vörslur á barnaklámi eins og nánar er lýst í héraðsdómi og taldist það brot hans varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.
II
Í vottorði O kvensjúkdómalæknis, sem rakið er í héraðsdómi og hún staðfesti fyrir dómi, kom meðal annars fram að hún hafi skoðað A í [...] en þá hafi meyjarhaft hennar verið órofið og hún verið „þar að auki með streng sem liggur aðeins til vinstri við miðlínu frá fram og yfir að afturveggnum.“ Í [...] hafi hún skoðað stúlkuna og þá komið fram að meyjarhaftið væri enn órofið en gæfi ágætlega eftir þegar sett væri upp „lítið speculum“. Er þetta í samræmi við gögn um sjúkrasögu stúlkunnar. Fyrir dómi sagði læknirinn að umræddur strengur hafi verið horfinn við síðarnefnda skoðun, en hún hafi talið við skoðunina í [...] að stúlkan hafi verið óspjölluð. Strengurinn hafi að hennar mati rofnað, mjög líklega við samfarir, eftir þá skoðun og fram til skoðunarinnar ári síðar, en dæmi séu um að meyjarhaft rofni ekki við ítrekaðar samfarir sé það mjótt og eftirgefanlegt, eins og hafi verið í tilviki A.
Eftir uppkvaðningu héraðsdóms fékk ríkissaksóknari 17. desember 2010 dómkvadda tvo kvensjúkdómalækna til að meta í fyrsta lagi hvort A gæti hafa haft samræði um leggöng á tímabilinu [...] til [...]„þrátt fyrir að hafa við skoðun á árinu 2010 reynst vera með órofið meyjarhaft og að hafa við skoðun á árinu [...] verið með streng yfir meyjarhafti sem talinn er vera eftirstöðvar af himnu“. Í annan stað var leitað mats á því hvort unnt hafi verið að hafa samræði við stúlkuna á meðan hún var með strenginn á meyjarhaftinu án þess að hann slitnaði og í þriðja lagi hvort „sú himna sem strengurinn stafar frá kunni að hafa horfið smátt og smátt á tímabilinu frá fæðingu A til ársins [...] og hvort himnan kunni að hafa endurnýjað sig.“ Í matsgerð hinna dómkvöddu manna 29. desember 2010 sagði eftirfarandi um fyrsta matsatriðið: „Skoðendur hafa enga forsendu til að geta sér til um hvenær eða hversu lengi A hafi haft samræði um leggöng eins og beðið er um í fyrsta úrlausnarefni. Því er ekki hægt að segja til um upphaf samræðis.“ Um annað atriðið sagði í matsgerðinni: „Ofangreindur strengur hefur ekki og er ekki nein fyrirstaða samræðis þar sem hann liggur til hliðar og er það teygjanlegur að A upplifir engan sársauka frá honum.“ Um þriðja atriðið sagði þar loks: „Strengur þessi er ennþá til staðar og líklegast að hann hafi verið þar frá fæðingu og er hann hluti af meyjarhafti hennar.“
III
Ákærði hefur neitað sakargiftum í 2. lið ákæru. Héraðsdómur reisti niðurstöðu sína um sýknu í þessum lið meðal annars á framburði A og B. Eðli máls samkvæmt er sú niðurstaða reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar þeirra þótt það segi ekki berum orðum, en samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður sú niðurstaða ekki endurmetin til sakfellingar ákærða fyrir Hæstarétti. Sýkna héraðsdóms af þessum lið er einnig reist á því áliti O að mjög ólíklegt væri að stúlkan hafi haft samræði áður en skoðun var gerð á henni í [...], en ætluð brot ákærða samkvæmt þessum lið voru sem fyrr segir talin framin á [...]. Sami læknir skoðaði stúlkuna bæði í [...] og réttu ári síðar. Í matsgerð hinna dómkvöddu manna var sem áður segir komist að þeirri niðurstöðu að strengur, sem O kvaðst hafa séð yfir meyjarhafti stúlkunnar við skoðun í [...], hafi enn verið til staðar í desember 2010, gagnstætt því sem fyrrnefndi læknirinn hafi talið við skoðun í [...]. Þetta getur þó ekki eitt og sér hnekkt því áliti læknisins, sem eftir framburði hennar fyrir dómi var ekki reist á þessu atriði einu, að mjög líklegt væri að stúlkan hefði ekki haft samfarir áður en skoðunin í [...] fór fram. Eru því heldur engin efni til að neyta heimildar 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm að þessu leyti.
Að gættu því sem að framan segir um að álit O standi óhaggað, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakargiftir á hendur ákærða í 3. og 4. lið ákæru, en auk þess verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um 5. lið hennar. Brot ákærða samkvæmt þessum liðum eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
IV
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir mjög gróf kynferðisbrot gegn fötluðum bróðurbörnum sínum, sem báru traust til hans og honum hafði verið trúað fyrir. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til þyngingar henni. Auk þessara brota hefur ákærði nú verið sakfelldur fyrir vörslur á miklum fjölda af grófum barnaklámmyndum. Hann á sér engar málsbætur. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er refsing hans ákveðin fangelsi í 3 ár.
Af vottorðum ýmissa sérfræðinga í málinu er ljóst að A hefur búið við erfiðar félagslegar aðstæður og borið að hún hafi á undanförnum árum orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu annarra en ákærða. Verður ekki framhjá því litið þegar gögn um andlega líðan hennar eru virt, en ljóst er að brot ákærða eru ein og sér til þess fallin að hafa slæm áhrif á geðheilsu hennar. Að þessu virtu eru bætur til hennar ákveðnar 1.000.000 krónur. Bætur til B eru ákveðnar 500.000 krónur. Um vexti af kröfunum fer eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest. Kostnaður vegna matsgerðar dómkvaddra manna skal greiddur úr ríkissjóði ásamt þriðjungi af öðrum áfrýjunarkostnaði málsins. Ákærða verður gert að greiða ⅔ hluta annars áfrýjunarkostnaðar, þar á meðal af málsvarnarlaunum verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði A 1.000.000 krónur og B 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2008 til 19. nóvember 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Kostnaður vegna matsgerðar dómkvaddra manna, 280.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Af öðrum áfrýjunarkostnaði málsins, 793.991 krónu, þar með töldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónum, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónum, greiði ákærði ⅔ hluta, en ⅓ hluti skal greiddur úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. ágúst 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 25. júní 2010, er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara, útgefnu 23. mars sl., á hendur X, kt. [...], [...], [...];
„fyrir eftirtalin kynferðisbrot:
I.
Með því að hafa, á [...], brotið gegn bróðurdóttur sinni, A, fæddri [...] og bróðursyni sínum, B, fæddum [...], eins og hér að neðan greinir, en við það notfærði ákærði sér einnig að þau gátu ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka.
1. Á árunum [...], að þáverandi heimili ákærða að [...], tvisvar til þrisvar sinnum haft samræði við A sem þá var 12 til 13 ára.
Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 61/2007 og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. áður 196. gr. laga nr. 1940.
2. Á árinu [...], í [...]bifreið ákærða, [...], sem þá var staðsett í útjaðri [...], tvisvar sinnum haft samræði við A.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. áður 196. gr. laga nr. 19/1940.
3. Á árunum [...], að [...], í eitt skipti:
a) Haft samræði við A.
b) Látið B vera viðstaddan þegar ákærði hafði samræði við A, eins og lýst er í a-lið.
c) Hafa, í kjölfar þeirra atvika sem lýst er í a- og b-lið, þvingað B og
A til að hafa samræði.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt a-lið og c-lið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og einnig 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar brot gegn B sem lýst er í c-lið, en brot ákærða samkvæmt b-lið telst varða við 209. gr. almennra hegningarlaga.
4. Á árunum [...], að [...], í eitt skipti:
a) Haft munnmök við A.
b) Látið B vera viðstaddan þegar ákærði hafði munnmök við A, eins og lýst er í a-lið.
c) Hafa, í kjölfar þeirra atvika sem lýst er í a- og b-lið, þvingað B til að hafa munnmök við A.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt a-lið og c-lið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og einnig 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar brot gegn B sem lýst er í c-lið, en brot ákærða samkvæmt b-lið telst varða við 209. gr. almennra hegningarlaga.
II.
5. Með því að hafa, á heimili sínu að [...], [...], haft í vörslum sínum á tveimur hörðum diskum í grárri AMD turntölvu og á hörðum diski í Dell fartölvu, samtals 1499 ljósmyndir og 93 hreyfimyndir, heildarafspilunartími er 3 klukkustundir, 51 mínúta og 33 sekúndur, og sýna allar myndirnar börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Myndefnisins aflaði ákærði sér af netinu og vistaði í tölvubúnaði sínum á árunum 2006-2008 og fann lögregla efnið eftir að tölvubúnaðurinn var haldlagður á heimili ákærða þann 19. maí 2009.
Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2002, 2. gr. laga nr. 14/2002 og 2. gr. laga nr. 74/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Jafnframt er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á grárri turntölvu af gerðinni AMD með tveimur hörðum diskum, öðrum 160 GB og hinum 120 GB og fartölvu af gerðinni Dell með 40 GB hörðum disk.“
Einkaréttarkröfur, endanleg kröfugerð fyrir dómi:
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2002 til 19. desember 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu C, kennitala [...], vegna B, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til 19. desember 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Skipaður réttargæslumaður brotaþola, Arnbjörg Sigurðardóttir héraðsdómslögmaður, krefst hæfilegrar þóknunar vegna réttargæslustarfa.
Dómkröfur skipaðs verjanda ákærða, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, eru aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, þ.e. af refsikröfu og kröfu um upptöku á tilgreindum tölvutækjum. Til vara er þess krafist að ákærði hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa. Þá er þess krafist að einkaréttarkröfum A og B verði vísað frá dómi, en til vara að kröfurnar sæti lækkun höfuðstóls, að sýknað verði af vaxtakröfu samkvæmt 8. gr. vaxtalaga og að upphafsdagur dráttarvaxta verði 19. desember 2009. Loks er þess krafist að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða við aðalmeðferð og á rannsóknarstigi.
I.
1. Málsmeðferð.
Samkvæmt rannsóknargögnum barst [...] kærubréf frá forstöðumanni [...], D, dagsett 19. maí 2009, um að brotið hefði verið kynferðislega gegn stúlkunni A, fæddri [...]. Í bréfinu segir frá því að stúlkan hefði ásamt bræðrum sínum B, fæddum [...], og E, fæddum [...], farið nefndan dag, að fyrirlagi Barnaverndar [...], í könnunarviðtöl hjá starfsmönnum Barnahúss. Er til þess vísað að skömmu áður hefðu vaknað grunsemdir um [...]. Í bréfinu, en einnig skýrslum lögreglu, segir frá því að í könnunarviðtölum systkinanna hefðu þau öll tjáð sig um málefnið og m.a. sagt frá því að þau hefðu [...], en einnig að þau hefðu orðið fyrir kynferðislegri háttsemi fullorðinna ættmenna sinna. Í því sambandi hefðu þau nefnt föðurbróður sinn, þ.e. ákærða, en einnig föður sinn og afa.
Í nefndum frumgögnum er ætluðum brotum gagnvart systkinunum nánar lýst. Segir m.a. frá því að A hafi skýrt frá því að ákærði hefði haft við hana kynferðismök, en einnig að faðir hennar hefði á árinu [...] haft við hana mök ásamt því að leita á hana kynferðislega á annan hátt og loks að afi hennar í föðurætt hefði sýnt henni kynferðislega áreitni. Þá segir frá því í gögnunum að bróðir stúlkunnar, nefndur B, hafi skýrt frá því að hann hefði orðið vitni að kynferðislegri háttsemi ákærða gegn systur hans, en einnig að ákærði hefði þvingað hann til kynmaka við systur sína. Í gögnunum segir að ekkert hafi komið fram sem bent hafi til að yngsti bróðirinn, E, hefði mátt þola kynferðislega háttsemi af hálfu nefndra aðila.
Samkvæmt gögnum hóf lögregla rannsókn á ætluðum brotum ákærða og annarra þeirra aðila sem systkinin höfðu nefnt sem gerendur.
Var ákærði handtekinn á heimili sínu þann 19. maí 2009, kl. 17:15, en í framhaldi af því, kl. 17:30, gerði lögregla leit í húsakynnum hans. Samkvæmt gögnum lagði lögreglan hald á tvær tölvur ákærða, annars vegar AMD-turntölvu og hins vegar Dell-fartölvu. Ákærði var færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa kl. 18:10, en jafnframt var honum tilnefndur lögmaður, sem síðar var skipaður verjandi hans í málinu. Meðferðis hafði ákærði lyf sín, og samkvæmt vistunarskýrslu tók hann þau inn á meðan á fangavist hans stóð. Ákærði var yfirheyrður af lögreglu um ákæruefnið þann 20. maí 2009, frá kl. 17:15 til 17:59, en viðstaddur skýrslutökuna var verjandi hans. Skýrsla hans var hljóðrituð.
Samkvæmt gögnum samþykkti ákærði leitarheimildir lögreglu með nafnritun sinni. Var annars vegar um að ræða heimild sem dagsett er 19. maí 2009, kl. 17:20, og hins vegar heimild sem dagsett er 20. maí s.á., kl. 17:01. Ákærði var leystur úr haldi lögreglu þann 20. maí 2009, eftir fyrrnefnda yfirheyrslu, kl. 18:02.
Umræddar tölvur voru sendar til tölvu- og rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar. Samkvæmt upplýsingaskýrslu, sem dagsett er 13. júlí 2009, fundust við rannsóknina þær ljósmyndir og hreyfimyndir í tölvubúnaði ákærða, sem lýst er í II. kafla ákæru. Ákærði var yfirheyrður af lögreglu, m.a. um nefnd sakarefni II. kafla, en einnig sakarefni I. kafla ákæru, þann 24. september 2009, frá kl. 09:05 til 09:50, að viðstöddum verjanda, og var skýrslan hljóðrituð.
Að beiðni lögreglustjóra voru teknar dómskýrslur af nefndum systkinum þann 9. júní 2009 samkvæmt heimildarákvæði 102. gr., sbr. 59. gr., laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. Við áframhaldandi lögreglurannsókn og meðferð ríkissaksóknara fyrir útgáfu ákæru var aflað nokkurra sérfræðigagna um þroska og heilsufar systkinanna.
Við þingfestingu máls þessa var því beint til ákæruvalds, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 210. gr. laga nr. 88, 2008, að afla frekari gagna um hagi ákærða og nefndra systkina, m.a. frá félagsmálayfirvöldum, en einnig um heilsufarsástand ákærða. Gekk það eftir, en í kjölfarið voru lögð fram læknisfræðileg gögn, m.a. frá [...] um A, enda lá þá fyrir að hún hafði frá árinu [...] endurtekið farið í kvenskoðanir. Einnig voru lögð fram gögn um heilsufar ákærða, m.a. frá geðlækni. Á síðari stigum, m.a. við aðalmeðferð málsins þann 24. og 25. júní sl., lagði fulltrúi ákæruvalds fram enn frekari gögn, en þ. á m. voru sjúkradagbækur, sálfræðivottorð og vottorð meðferðaraðila systkinanna hjá Barnahúsi.
Samkvæmt bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 11. júní 2010, höfðaði hann samhliða því sakamáli sem hér er til meðferðar tvö önnur sakamál á hendur karlkyns ættingjum A vegna ætlaðra kynferðisbrota þeirra gegn henni á árunum [...].
2. Málsatvik.
A. Samkvæmt gögnum lauk hjónabandi foreldra nefndra systkina árið [...] með skilnaði. Hefur forsjáin verið hjá móður þeirra, vitninu C, en hún hefur líkt og faðirinn, F, verið búsett [...]. Hefur C haldið heimili í [...], en fyrir liggur að hún hefur um árabil notið víðtæks stuðnings heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda, m.a. vegna barnanna, sem eins og áður sagði hafa verið greind með þroskaskerðingu.
Samkvæmt gögnum bjó faðir systkinanna, F, en hann er bróðir ákærða, í [...] herbergja íbúð í [...]húsi í [...], en fluttist fyrri hluta árs [...] í [...]hús í [...]. Bjó hann á [...] og [...]hæð, en á þeirri síðarnefndu voru [...] svefnherbergi. Hafa systkinin farið á heimili föður síns í umgengni um árabil, en A bjó auk þess á heimili hans um þriggja ára skeið, þ.e. frá [...], en [...] fluttist hún á ný á heimili móður sinnar og bræðra, í [...]hverfi.
Samkvæmt gögnum bjó ákærði, X, á árunum [...] til [...] ásamt þáverandi eiginkonu sinni, vitninu G, í íbúð í [...]húsi í [...], að [...]. Þau fluttust [...]í [...]íbúðina í húseigninni að [...]. Fyrir liggur að eiginkona ákærða var oft að heiman vegna alvarlegra veikinda, en skilnaður varð með þeim [...]. Ákærði fluttist úr [...]húseigninni í byrjun [...], en þá um vorið hafði bróðir hans og faðir systkinanna flust úr eigninni, en hann hafði þá hafið búskap með núverandi sambýliskonu sinni.
Óumdeilt er að ákærði var á árinu [...] skráður eigandi tveggja bifreiða, annars vegar [...]bifreiðar, [...], sem var [...] að lit, árgerð [...], með skráningarnúmerið [...]. Bifreiðina hafði hann keypt í [...] en hann seldi hana um miðjan [...] það ár. Þá var ákærði eigandi [...]bifreiðarinnar [...], árgerð [...], með skráningarnúmerið [...]. Var bifreiðin síðast skráð í umferð [...], en hún var tekin úr umferð [...] sama ár.
B. Við lögreglurannsókn og meðferð ákæruvalds var aflað nokkurra sérfræðigagna um hagi og heilsufar systkinanna A, B og E, en einnig um ákærða. Á meðal þessara gagna er skýrsla Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá 17. október 2000, læknisvottorð H, heimilislæknis frá 3. desember 2009 og sálfræðiathugun dr. I frá 24. febrúar 2010, en öll varða þau stúlkuna A. Enn fremur liggja fyrir sálfræðiskýrslur um bræðurna B og E, sem ritaðar eru af J, K og L. Voru þær gerðar á árunum 2005 til 2010. Þá var gerð sálfræðiathugun á ákærða, með samþykki hans, sbr. framlögð skýrsla M, sem dagsett er 9. nóvember 2009, og er hún á meðal gagna málsins. Við meðferð málsins fyrir dómi var auk þess lagt fram vottorð N, forstöðulæknis geðdeildar Sjúkrahússins á [...], um ákærða, en auk þess voru þá lögð fram bréf Fjölskyldudeildar [...], dagsett 3. febrúar 2003, 27. júní 2006, 30. apríl 2009 og 8. og 14. júní 2010, vottorð O kvensjúkdómalæknis, dagsett 15. júní 2010, og læknabréf kvennadeildar Sjúkrahússins á [...] á tímabilinu frá 31. mars 2005 til 18. mars 2009, vottorð P sálfræðings, en hún hafði verið með systkinin A og B í sálfræðimeðferð eftir að mál þeirra hafði verið kært til lögreglu vorið 2009.
Nefnd sérfræðigögn um systkinin A og B greina frá því að þau hafa frá barnsaldri átt við verulega atferlis- og félagserfiðleika að stríða. Er svo einnig farið með yngsta drenginn, E.
Í skýrslu sérfræðinga Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá 17. október 2000 er aðstæðum og ástandi A að nokkru lýst. Fram kemur m.a. að heildargreindarvísitala stúlkunnar hafi verið [...], en í niðurstöðukafla skýrslunnar segir:
„Prófun nú bendir til vægrar þroskahömlunar með mynstri félags- og tilfinningalegra námsörðugleika. Nám og aðlögunarfærni er í samræmi við þetta. Við endurteknar mælingar hafa greindarvísitölur farið [...]. Orsök þess er óljós. Lýst er alvarlegum atferlis- og aðlögunarerfiðleikum, [...]. Þetta er ekki nýr vandi og hefur A hlotið lyfjameðferð vegna þessa. Ljóst er að A þarfnast sérhæfðs úrræðis í skóla. Fjölskyldan tekst á við erfiða hluti og því er áframhaldandi stuðningur við hana afar mikilvægur.“ Í skýrslunni kemur fram eftirfarandi greining á A: „[...].“
I, sálfræðingur og sérfræðingur á sviði fatlana, gerði að ósk rannsakara greiningu á A í byrjun árs 2010. Segir í skýrslu hans að stúlkan hafi á grundvelli greindar- og minnisprófa verið greind ofarlega á stigi vægrar þroskahömlunar.
Í vottorði H heimilislæknis frá 3. desember 2009 er lýst högum A, en þar er m.a. vísað til færslna í sjúkradagbók allt frá árinu 2002. Segir þar m.a. að í ársbyrjun [...] hafi [...] veitt liðsinni á heimili móður vegna stúlkunnar, þ. á m. varðandi [...] svo og varðandi skammtímavistun eftir skóla, en að jafnframt hafi verið til umræðu [...]. Þá segir frá því að mjög snemma á skólagöngu stúlkunnar eða allt frá árinu [...] hafi borið á árásarhneigð hennar í garð samnemenda og kennara. Er þessu ástandi A m.a. lýst í færslu læknisins frá 27. september 2002, en vottorðsgjafinn skráir síðan að hann hafi vegna þessa lagt til að kallað yrði til teymi þeirra aðila sem hefðu haft afskipti af stúlkunni. Nefnir hann þar til barnalækni, barna- og unglingageðlækni, skólastjóra, umsjónarkennara og sérfræðinga félagsþjónustu. Fram kemur að í októbermánuði þetta ár hafi verið haldinn fundur þessara aðila og hafi þá [...] og barnaverndarnefnd verið falin lausn á málefnum stúlkunnar. Í vottorðinu segir að lyktir hafi að lokum orðið þær að í byrjun árs [...] hafi A farið í sérskóla. Hafi skólaganga hennar gengið misvel, m.a. vegna lýstra skapgerðargalla, en einnig hafi hún haft miklar fjarvistir í skóla vegna ýmiss konar veikinda, ekki síst á vorönn [...], en hún hefði þá um haustið hafið skólagöngu í [...].
Í vottorði heimilislæknisins er sjúkrasaga A að nokkru rakin. Segir m.a. frá því að vegna fyrrnefndrar árásarhneigðar hafi hún mjög ung verið innlögð á geðdeild í þeim tilgangi að finna rétta lyfjameðferð, en í framhaldi af því hafi hún notið stuðnings barna- og unglingageðlæknis. Greint er frá sjúkrahúslegum stúlkunnar á [...], á [...] árið [...], á [...] árið [...] og loks á geðdeild [...], m.a. árið [...]. Tekur læknirinn það fram í vottorði sínu að hann hafi í [...] lagt það til, í samráði við geðlækni, að A fengi [...] eða [...].
Í vottorði heimilislæknisins er einnig frá því greint að A hafi oft kvartað um verki í kviði og að hún hafi af þeim sökum farið í rannsókn á árinu [...]. Þá er sagt frá því að A hafi notað getnaðarvörn, en í [...] eftir ráðgjöf farið sjálfviljug í ófrjósemisaðgerð, en um þessa ráðstöfun er m.a. vísað til fyrrnefnds bréfs [...] frá [...]. Í niðurlagi vottorðsins segir læknirinn að honum hafi fyrst [...] verið kunnugt um að grunsemdir hefðu verið um að A hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni.
Í gögnum [...] er aðstæðum og högum A og fjölskyldu hennar að nokkru lýst. Í vottorði félagsráðgjafa frá [...] segir m.a.: „Systkinin eru öll með viðvarandi þroska- og hegðunarvanda og hafa þau af þeim sökum fengið stuðningsúrræði, [...]. Sú þjónusta sem sett var upp á heimilinu var fyrst og fremst skipulögð út frá elsta barninu, A . Undanfarna mánuði hefur hegðun A heima fyrir farið versnandi. Lýsir hegðunarvandinn sér einkum í því að A fer ekki eftir reglum sem á heimilinu gilda og hún fær mjög bráð skapofsaköst. Hún lendir í útistöðum við móður sína og bræður, þó sérstaklega þann yngri. Kemur oftast til handalögmála og þá bíta, klóra og lemja systkinin hvort annað. A ræðst einnig á dauða hluti sem á vegi hennar verða er hún reiðist. Mikið álag er á heimilinu og á köflum er ástandið algjörlega óviðunandi og A óviðráðanleg.“ Í niðurlagi vottorðsins er lagt til að skammtímavistun á sérhæfðu heimili fyrir stúlkuna verði framlengd þangað til varanlegt búsetuform finnist fyrir hana.
Í gögnum [...], þ. á m. skýrslum dagsettum 30. apríl 2009 og 8. og 14. júní 2010, segir að takmarkaðar upplýsingar séu um afskipti félagsmálayfirvalda af B fyrr en á grunnskólaaldri, en þá hafi m.a. verið uppi áhyggjur af erfiðleikum á heimili hans svo og vegna hegðunarerfiðleika allra systkinanna. Því er lýst að á fyrstu árum B í grunnskóla hafi komið fram nokkuð víðtækir námserfiðleikar en einnig veik staða í félagshópi svo og kvíði og kvartanir um líkamlega vanlíðan. Þá hafi ástundun verið stopul og fjarvistir vegna veikinda verið til staðar af óskýrðum ástæðum. Segir frá því að drengurinn hafi á köflum sýnt mótþróafulla og truflandi hegðun í skóla, en við þessu hafi verið reynt að bregðast með geðlæknismeðferð, kvíðastillandi lyfjum, mikilli sérkennslu og ýmsum ráðstöfunum. Enn fremur segir að þegar B var 12 ára hafi Q, sálfræðingur barna- og unglingageðdeildar [...], gert á honum þroskamat og hafi þá komið fram verulegur misstyrkur í greindarstarfi. Á WISC-III greindarprófi hafi hann mælst með [...] á yrtum prófhluta en [...] á óyrtum þáttum. Mat sálfræðingsins hafi verið að B ætti í erfiðleikum með vinnsluhraða og einbeitingu en styrkleiki hans sé í orðskilningi í félagslegum skilningi.
Í gögnum segir frá því að í febrúar og mars 2009 hafi J, sálfræðingur á [...], gert athugun á B. Hafi þá verið lagt fyrir hann sams konar greindarpróf og áður, en einnig VABS-mat á aðlögunarfærni. Í skýrslu sálfræðings, sem liggur fyrir í málinu, segir að heildartala greindar hafi mælst á bilinu [...], sem hafi raðað drengnum a.m.k. [...] staðalfrávikum fyrir [...] miðgildi. Þá segir í skýrslunni að mat á aðlögunarfærni hafi verið metið með viðtali við móður og hafi það sýnt færni í lágu meðallagi.
Við lögreglurannsókn málsins var eins og áður sagði aflað nokkurra gagna um ákærða. Liggur þannig fyrir í málinu fyrrnefnd skýrsla M sálfræðings, dagsett 9. nóvember 2009. Í skýrslunni er lýst vitsmunaþroska en einnig persónuþáttum og annarri líðan ákærða. Segir að við rannsóknina hafi verið byggt á greindarprófi Wechslers fyrir fullorðna en einnig greindarviðtali og persónuleikaprófi sem lagt var fyrir hann þann 19. október 2009. Í inngangsorðum skýrslunnar segir að ákærði hafi nýlega skilið við eiginkonu sína eftir [...] ára hjónaband og að hann búi [...], en hann sé öryrki vegna [...]. Segir að áhugamál hans séu m.a. [...]og [...], að skólaganga hans hafi gengið vel námslega en erfiðlega félagslega, en hann hafi verið lagður í einelti alla tíð sökum þess að [...]. Hann hafi lokið skólagöngu í [...]. Þá segir að ákærði eigi langa sögu um andlega vanlíðan, bæði kvíða og depurð. Um niðurstöður Wechslers-greindarprófsins segir eftirfarandi í samantekt:
„Greindarmat leiddi í ljós að X er með almenna greind í háu meðallagi og kemur ekki fram marktækur munur á milli mállegrar og verklegrar greindar. Reyndar má þó reikna með að undirprófin Orðskilningur og Þekking séu frekar ofmetin við íslenskar aðstæður og af því mætti draga þá ályktun að hugsanlega sé um smá misræmi að ræða sem þá hallar á mállega hlutann. Ef undirprófin eru skoðuð nánar kemur í ljós að helstu veikleikar X virðast tengjast hraða en hann fór sér hægt við úrvinnslu flestra verkefna. Í nokkuð mörg skipti kom X með rétt svör en náði ekki að uppfylla tímamörk. Með meiri hraða hefði hann því ef til vill skorað hærra þar sem ákveðinn tími skiptir máli upp á skorun. Minni, athygli og einbeiting virðast vera hans styrkleikar en þau undirpróf sem reyndu á þá eiginleika komu hvað best út.
Þegar persónusaga og vitsmunamat er skoðað, virðist X ekki standa jafnöldrum sínum að baki hvað varðar vitsmunaþroska. Hann er hins vegar [...] og hefur verið það í gegnum tíðina sem getur skýrt að einhverju leyti hvernig hann kemur öðrum fyrir sjónir. Það er því mat undirritaðrar að slök félagsfærni sé meira að há honum en lág greind.
Hvað varðar andlega líðan X gefa svör hans til kynna mjög ýkta svörun, þ.e. svörun sem fyrirfinnst ekki einu sinni í klínísku þýði. Margir af klínísku kvörðunum eru því vel yfir viðmiðunarmörkum og svörun hans bendir til þess að hugsunarháttur hans og hegðun sé mjög furðuleg. Hugsanlegt er að hann sé að reyna að ýkja vanda sinn þar sem hann á yfir höfði sér ákæru. Ekki er þó hægt að útiloka að vanlíðan hans sé mjög mikil og að þetta hafi verið kall á hjálp fremur en tilraun til að láta vandann líta út fyrir að vera meiri en hann í raun er til að komast hjá sakhæfi.
Þegar litið er á heildarmyndina, burtséð frá andlegri vanlíðan þá er það mat undirritaðrar að vitsmunaþroski X sé yfir meðallagi sem gefur til kynna að hann átti sig á muninum á réttu og röngu og eigi að geta greint þar á milli.“
Niðurstöður sálfræðiprófsins eru þessar:
„Á Wechsler greindarprófi mældist X með heildarhlutfallstöluna [...] sem sýnir háa meðalgreind (high average). Meðalframmistaða á þessu prófi er 100 (staðalfrávik = 15) og það er gert ráð fyrir ákveðnum skekkjumörkum þannig að heildargreindarvísitala X liggur á bilinu [...]-[...].“
Í vottorði R heilsugæslulæknis, sem dagsett er 19. maí 2010, segir að aðalheilsufarsvandamál ákærða séu krónískir [...]verkir, aðallega í [...] og [...] [...] [...], en vegna þessa taki hann inn verkjalyf. Annað heilsufarsvandamál ákærða sé þunglyndi og kvíði og hafi hann af þeim sökum tekið inn ýmis þunglyndislyf. Er þar um vísað til meðferðar og vottorðs N geðlæknis, en einnig segir að ákærði taki [...]og [...] vegna [...], sem talið er líklegt að megi rekja til [...].
Í læknisvottorði N, forstöðulæknis geðdeildar [...], sem dagsett er 5. júní 2010, segir að ákærði hafi síðustu [...] árin verið illa haldinn af krónískum [...]verkjum og geðlægðarsjúkdómi og hafi hann verið metinn til fullrar örorku vegna þessa. Í vottorðinu segir að ákærði hafi verið í tímabundnum viðtölum á geðdeild frá árinu [...] vegna geðlægðar og hafi af þeim sökum tekið inn viðeigandi lyf. Einnig segir að ákærði hafi vegna geðlægðar verið í meðferð í [...]til [...] í kjölfar [...], en þá hafi honum liðið mjög illa og að hann hafi enn fremur þurft á stuðningsviðtölum að halda hjá geðlækni eftir að ákæra í máli þessu var birt honum.
C. Samkvæmt skýrslu S, rannsóknarlögreglumanns hjá tölvurannsóknar- og rafeindadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem dagsett er 13. júlí 2009, skoðaði hann að beiðni lögreglunnar á [...] innihald þeirra tölva sem hald var lagt á, á heimili ákærða þann 20. maí 2009. Segir í skýrslunni að samkvæmt beiðni hafi verið kannað hvort í gagnageymslum væri að finna barnaklám, en einnig hvort samskipti með barnaklám hefðu átt sér stað í gegnum póstforrit. Vegna þessa hefðu eftirfarandi munir verið skoðaðir: a) Grá turntölva AMD með tveimur hörðum diskum D1=160 gb og D2=120gb, merkt 295938. b) Dell fartölva með 40 gb hörðum disk, merkt 295940. c) Grá turntölva með 160 gb hörðum disk, merkt 295941. Í samantekt lögreglumannsins segir:
Munur 295938, diskur 1: Við leitina fundust 1.467 ljósmyndir sem sýna kynferðislegt ofbeldi á börnum. Um er að ræða myndir af mjög ungum börnum upp í börn á táningsaldri. Stærstur hluti myndanna er af nöktum börnum. Stór hluti myndanna sýnir gróft ofbeldi á börnum. Þá fundust 93 myndskeið sem sýna kynferðislegt ofbeldi á börnum. Í öllum tilvikum var um að ræða gróft ofbeldi á börnum. Samanlagður afspilunartími myndskeiðanna var 3 klukkustundir 51 mínúta og 33 sekúndur.
Munur 295938, diskur 2: Við leitina fannst 1 ljósmynd sem sýnir kynferðislegt ofbeldi á barni.
Munur 295940: Á gagnageymslunni fannst 31 ljósmynd er sýna kynferðislegt ofbeldi á börnum. Um er að ræða myndir af mjög ungum börnum upp í börn á táningsaldri. Stærstur hlut myndanna er af nöktum börnum. Stór hluti myndanna sýnir gróft ofbeldi á börnum.
Munur 295941: Ekki fundust nein gögn sem talin eru tengjast rannsókn málsins á gagnageymslu tölvunnar.
Í nefndri rannsóknarskýrslu segir að ekki hafi verið unnt að sannreyna hvort samskipti með barnaklám hefðu átt sér stað í gegnum póstforrit tölvanna. Segir að stórum hluta tölvupóstanna hafi verið eytt og því hafi ekki verið hægt að skoða innihaldið í öllum tilvikum.
Á meðal rannsóknargagna eru ljósmyndamöppur lögreglunnar á [...], sem sagðar eru innihalda sýnishorn af ofangreindu rannsóknarefni sem fannst í tölvum ákærða.
Vegna andláts nefnds lögreglumanns var að fyrirlagi ríkissaksóknara lagt fyrir T, sérfræðing hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að fara yfir umrædd málsgögn sem til umfjöllunar höfðu verið hjá embættinu. Í skýrslu þar um, sem dagsett er 22. júní sl., segir eftirfarandi: „Undirritaður hefur ekkert við fyrri skýrslu að bæta. Ljóst er að barnaklám var vistað á tveimur af þremur munum sem rannsakaðir voru. Tímasetningar skráa má sjá í skýrslum þeim sem eru á geisladiski þeim er fylgdi upphaflegri skýrslu í málinu. Ekkert liggur fyrir hvernig barnaklám þetta komst inn í tölvunar, hvort það var í gegnum internetið eða á annan hátt.“
D. Ákærði var eins og áður sagði yfirheyrður við lögreglurannsókn málsins í tvígang, þann 20. maí og 24. september 2009.
Við yfirheyrslu þann 20. maí 2009 var ákærði aðallega yfirheyrður um sakarefni I. kafla ákæruskjals. Að því er varðaði það sakarefni sem varðaði bróðurson hans, B, neitaði ákærði sök alfarið.
Að því er varðaði það sakarefni sem varðaði bróðurdóttur hans, A, sagði ákærði, við upphaf skýrslutökunnar: „Ég veit að mér er gefið að sök að hafa diggað við hana. Og já það skeði Þetta eru nú einhver ár síðan. Ég bara hreinlega veit ekki hvað gerðist, þetta bara gerðist, að hafa samræði, svona eitthvað kelerí og samræði sko.“
Nánar aðspurður um nefnt ákæruefni sagði ákærði að með samræði ætti hann við samfarir við A og bar að það athæfi hefði hann viðhaft í þrjú eða fjögur skipti. Hann lýsti athæfi sínu nánar þannig: „Það hefur aldrei verið nema með hennar samþykki, fullkomlega, eða þá að hennar undirlagi. Eftir að þetta skeði í fyrsta skipti svona einhvers konar samræði þá bað hún oft um það. Og hún varð bara vitlaus ef maður neitaði henni sko. Það hefur aldrei verið öðru vísi en með hennar fullu samþykki. Aldrei neitt ofbeldi eða hótanir eða neitt frá mínu, ég hefði aldrei getað það því mér þykir svo vænt um þessa stelpu og hefur alltaf þótt vænt um hana frá því hún fæddist.“ Nánar um háttsemina vísaði ákærði ítrekað til minnisleysis um gjörðir sínar, en einnig til veikinda og sagði: „Og ég tel að ég hafi nú reyndar ekkert verið alveg ábyrgur gerða minna þarna á sínum tíma. Þetta eru nú einhver ár síðan.“ Ákærði sagði að er hann hefði viðhaft nefnda háttsemi gagnvart A hefði hún verið 15 og 16 ára, en treysti sér ekki til að rifja upp hvenær hann hefði fyrst átt samræði við hana eða um fjölda tilvika: „Ég bara eins og ég segi, ég man þetta hreinlega ekki. Ja í fullri alvöru. Ég get ekki munað það hvort þetta var fimm eða sex eða tíu eða hvað. Kannski ekki alla leið, þú veist, ekki samfarir alla leið, en svona þú veist eitthvað svona kel.“ Ákærði bar að við aðfarirnar hefði hann viljað nota smokk en hún verið því andvíg. Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið sáðlát, en sagði jafnframt að um „rofnar samfarir“ hefði verið að ræða. Þá lét hann að því liggja að hann hefði ekki sett lim sinn að fullu inn í leggöng stúlkunnar: „Já, já, bara svona eitthvað, smá pot. Ekki eitthvað stórt og mikið.“
Ákærði skýrði frá því við lögregluyfirheyrsluna að er greind háttsemi gerðist hefði hann verið búsettur í [...]íbúðinni í [...], en A búið á [...] hæð hússins hjá föður sínum. Hann kvað háttsemina hafa átt sér stað í herbergi A á efstu hæðinni, en einnig í herbergi föður hennar, og vísaði til þess að stúlkan hefði iðulega sofið þar. Ákærði bar að mikill samgangur hefði verið á milli íbúðanna og vísaði til þess að vegna [...] föður stúlkunnar hefði hann oft verið fjarverandi. Um önnur tilvik og hvort hann hefði viðhaft slíka háttsemi gagnvart A á öðrum stöðum en á heimili þeirra í [...] bar ákærði að hann minntist þess að í eitt skipti hefði hann verið einn með A í bíldruslu sem hann hefði átt. Lýsti hann því atviki við yfirheyrsluna: „Vorum bara í göngutúr þarna, lögðum bílnum einhvers staðar og fórum í göngutúr eitthvað út í móa. Já ég meina maður fékk sér að reykja og þá var hún nú yfirleitt í keleríisstuði á eftir. Ja bara svona kossaflens og svona og svo bara bað hún hreinlega um það. Hreint út sagt, koma að kela eða gera eitthvað svoleiðis. Hún bara hreinlega bað um það og ég í minni einfeldni lét eftir. Sem ég vildi að hefði aldrei gerst. Ég man ekki hvort það fór í samfarir eða hvort það fór bara í kelerí sko.“ Ákærði taldi nær öruggt að síðastnefnda tilvikið hefði gerst að sumri eða hausti til. Um önnur atvik og samskipti af þessum toga kannaðist ákærði ekki við. Þá neitaði hann því alfarið að hafa tekið klámmyndir af A.
Ákærði áréttaði að hann hefði aldrei brotið kynferðislega gegn bróðursyni sínum B og þá ekki gegn E. Á hinn bóginn kvaðst hann hafa séð [...] Aðspurður minntist ákærði þess ekki að hafa sagt neitt við bróðurbörn sín er þetta gerist.
Við lögregluyfirheyrsluna 20. maí 2009 var ákærða kynnt að nefnd bróðurbörn hans hefðu í könnunarviðtali í Barnahúsi sagt frá því að hann hefði haft mök við A en í framhaldi af því látið B gera það sama við hana. Ákærði svaraði: „Ég minnist þessa ekki. Man hreinlega alls ekki eftir því.“ Ákærði áréttaði í lok yfirheyrslunnar að hann hefði haft samfarir við A þremur eða fjórum árum fyrr, en aðspurður hvort þau hefðu haft munnmök svaraði hann: „Örugglega ekki hún við mig alla vega, ekki svo ég muni. Ég man ekki eftir því. Ég get ekki fullyrt það.“ Ákærði lét þess getið að hann minntist þess ekki að hafa heyrt A segja frá því að hún væri farin að lifa kynlífi með kærasta sínum, en bar að hún hefði sagt að hún vildi eignast barn.
Við upphaf lögregluyfirheyrslunnar þann 24. september 2009 sagði ákærði að við fyrri skýrslugjöf hans hjá lögreglu hefði hann ekki verið í neinu ástandi til að gefa skýrslu. Nánar aðspurður um ákæruefnið að því er varðaði ætluð kynferðisbrot hans gagnvart A sagði hann: „Ég held það hafi verið ósköp saklaust svona að megninu til. Og það er örugglega ekki lengra síðan en, ef eitthvað hefur skeð, þá eru það ekki nema kannski tvö, þrjú ár síðan. Hún vildi bara alltaf kúra hjá manni eitthvað. Hún var svona mikil kelirófa. Og stundum vildi hún meira en maður vildi sjálfur. Bara svona kossaflens og svona. “ Aðspurður um samfarir við stúlkuna og hvort háttsemin hefði gengið eins langt og hann hefði áður skýrt frá við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 20. maí 2009 svaraði ákærði: „Já ég held það hljóti að vera, þó ég muni ekki í einhverjum smáatriðum.“ Ítrekað aðspurður við yfirheyrsluna sagði ákærði að hann hefði í hinum kynferðislegu samskiptum við A stundum notað smokk, en stundum hefði hann viðhaft rofnar samfarir. Hann sagði jafnframt að ekki hefði verið um mörg skipti að ræða og vísaði til þess að á árunum [...] og [...] hefði hann átt við andleg veikindi að stríða, en í því sambandi nefndi hann [...] og [...], en vegna þess hefði hann leitað aðstoðar hjá geðlækni. Ákærði sagði að umrædd háttsemi hans gagnvart A hefði alfarið gerst á heimili þeirra að [...]. Hann dró að því leyti til baka frásögn við fyrri yfirheyrslu um að hann hefði viðhaft kynferðislegt athæfi gagnvart A í ökuferð þeirra. Sagði hann að þar hefði verið um endurminningu að ræða af allt öðrum toga og í raun ranghugmynd. Ákærði bar við nefnda yfirheyrslu að hann hefði hugleitt athæfi sitt gagnvart A um nokkurt skeið og bar að þær hugleiðingar hefðu kvalið hann. Hann kvaðst þannig hafa fundið fyrir skömmustutilfinningu og haft vilja til að þess að atvik hefðu aldrei gerst. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa haft tækifæri til að skýra nokkrum aðila frá gjörðum sínum og þ. á m. ekki fyrrverandi eiginkonu sinni eða geðlækni.
Við fyrrnefnda yfirheyrslu hjá lögreglu þann 20. maí 2009 var ákærði inntur eftir afstöðu til sakarefnis II. kafla ákæru. Ákærði sagði að í þeim tölvubúnaði sem lögreglan hefði þá skömmu áður lagt hald á á heimili hans væri eitthvað af klámi, og sagði um það nánar: „Ég veit að þið funduð eitthvað sem var svona barnaklám.“ Ákærði sagði að tilvist efnisins mætti rekja til þess að veturinn 2008/2009 hefði hann farið að forvitnast um slíkt efni á disklingum sem látinn vinur hans, nafngreindur, hefði látið honum í té. Bar hann að disklingana hefði vinur hans fundið, m.a. í (rusla-) gámum. Kvaðst ákærði hafa farið að gæta að innihaldi disklinganna og hlaðið efni þeirra inn í eigin tölvur, en í framhaldi af því hent disklingunum. Að auki kvaðst hann að einhverju leyti hafa hlaðið slíku efni inn á tölvurnar eftir að hann fékk ADSL-tengingu, en sagði síðan almennt um efnissöfnunina: „Ég skil ekki af hverju ég var ekki búinn að henda þessu. Ég er náttúrulega haldinn svolítilli þráhyggju, ef ég byrja á því að gera eitthvað svona, þá er ég í svo miklum erfiðleikum með að slíta mig frá því.“ Ákærði kvaðst hafa vistað nefnt efni í umræddum tölvum á heimilinu: „Undir stærðfræði sennilega. Það var nú til þess að gera þetta óaðlaðandi, ef einhver annar kæmi í tölvuna sko. “ Í lok yfirheyrslunnar var ákærði ítrekað spurður hvort hann hafi haft vitneskju um að um barnaklámefni var að ræða svaraði hann: „Já mér var ljóst hvað þetta var eftir að ég var búinn að taka þetta af diskunum og hlaða þessu inn.“ Ákærði sagði að hann hefði aldrei dreift slíku efni til annarra aðila.
Við síðari yfirheyrslu lögreglu þann 24. september 2009 var ákærða m.a. kynnt áðurrakin rannsóknarskýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sbr. II. kafli ákæru. Ákærði áréttaði fyrri frásögn, þ. á m. að hann hefði fært nefnt myndefni af fyrrnefndum disklingum, sem hann hefði fengið hjá hinum látna vini sínum, í tilteknar möppur í tölvubúnaðinum, en hann kvaðst síðar hafa ætlað að vinsa úr efninu og hirða nýtilegt en eyða klámefninu. Ákærði bar að honum hefði strax verið ljóst hvers kyns efni um var að ræða, en af þeim sökum hefði hann farið að flokka efnið og hirða m.a. músík. Ákærði kvaðst fyrst hafa fengið slíkt myndefni í hendur þegar hann bjó í [...]hverfi, en hann hefði haldið áfram að safna því þegar hann fluttist í [...]. Ákærði áréttaði að hann hefði aldrei dreift klámefni til annarra. Ákærði áréttaði að hann hefði hlaðið niður í tölvubúnað sinn efni af internetinu, en staðhæfði að þar hefði aðeins verið um japanskar teiknimyndir að ræða, en ekki barnaklám og leiðrétti hann að því leyti efni fyrri skýrslunnar hjá lögreglu. Nánar aðspurður kvaðst ákærði í fyrstu hafa hlaðið umræddu barnaklámsefni á Dell-tölvuna, en síðar, þegar hún varð ónothæf, í turntölvuna. Ákærði kvaðst ekki hafa haft vitneskju um að fjöldi mynda hefði verið slíkur sem lýst væri í rannsóknarskýrslu lögreglu, um 1500 myndir, og bar að hann hefði ekki skoðað allt það efni sem hann hefði hlaðið inn á tölvur sínar með framangreindu hætti.
Vitnið C, fædd [...], bar við skýrslugjöf hjá lögreglu þann 10. júlí 2009 að hún hefði fyrst heyrt um ætluð brot ákærða, X, frá börnum sínum, einkum A. Jafnframt kvaðst vitnið hafa heyrt að faðir þeirra og afi hefðu viðhaft viðlíka háttsemi gegn þeim. Hún kvað frásögn dóttur sinnar um athæfi ákærða hafa verið á þá leið að hann hefði reynt að hafa samfarir við hana, en að auki verið mjög klámfenginn í tali og þuklað hana. Þá hefði hann sýnt henni og bróður hennar B klámmyndir þegar hann bjó í [...] og átti að líta til með þeim. Jafnframt kvaðst hún hafa heyrt frásögn barna sinna um að ákærði hefði farið með A og B í ökuferð á [...]bíl og að hann hefði þá haft samfarir við stúlkuna, en jafnframt hvatt B til að hafa samfarir við systur sína. Að auki hefði ákærði fengið börnin til þess að reykja. Hún staðhæfði að hún hefði fundið breytingar í fari A fljótlega eftir að hún fluttist til föður síns í [...] sumarið [...]. Vísaði hún til þess að A hefði sóst mikið eftir því að flytja aftur á heimili hennar. Hún kvað þessar óskir A hafa ágerst þegar hún var 17 ára. Kvað hún A um síðir hafa farið að skýra frá því athæfi sem hún hefði mátt þola, og bar að endingu hefði hún brotnað niður andlega og lagst inn á sjúkrahús, en þá verið 17 ára. Hún staðhæfði að A hefði verið stöðug í lýsingum sínum um kynferðislegt athæfi ákærða, en einnig um sambærilegt athæfi föður og afa. Hún kvað þá feðga vera mikla skapmenn og bar að A hefði verið mjög kvíðin og óörugg í allri framgöngu gagnvart þeim.
Við lögreglurannsókn málsins var eins og áður var rakið tekin dómskýrsla af A, B og E. Áheyrendur að skýrslutökunum voru, auk fulltrúa rannsakara, skipaður verjandi, skipaður réttargæslumaður og fulltrúi barnaverndarnefndar. Þar fyrir utan voru ekki teknar skýrslur á lögreglustigi aðrar en þær sem hér að framan voru raktar.
II.
Skýrslur fyrir dómi.
A. Ákærði neitaði alfarið sök við þingfestingu líkt og við aðalmeðferð málsins fyrir dómi.
Fyrir dómi lýsti ákærði högum sínum eins og hér að framan hefur verið rakið. Hann kvaðst þannig á árunum [...]til [...] hafa verið búsettur ásamt þáverandi konu sinni í [...], að [...], en [...] hefðu þau flust í [...] að [...], eftir lagfæringar á eigninni þá um sumarið. Ákærði skýrði frá því að hann hefði verið í miklum samskiptum við bróður sinn, F, en hann hefði búið á [...] hæðum húseignarinnar, en þá jafnframt verið í samskiptum við börn bróður síns, ekki síst A, sem búið hefði hjá honum um nokkurra ára skeið. Samskiptum sínum við A lýsti ákærði m.a. á þá leið að hann hefði stundum farið í [...]hæðina í húsinu í þeim tilgangi að vekja hana á morgnana í skólann. Auk þess kvaðst ákærði stundum hafa veitt stúlkunni aðstoð sína með ökuferðum, en hann hefði ekki verið í fastri vinnu um árabil. Ákærði kvaðst einnig hafa verið í samskiptum við yngri bræður A og bar m.a. að hinn eldri, B, hefði verið honum hjálplegur við endurgerð [...]íbúðarinnar í [...], þ. á m. við efnisflutninga, en til þeirra hefði hann m.a. notað eigin [...]bifreið, [...]. Kvaðst ákærði á móti hafa hjálpað piltinum með ýmislegt, m.a. leiðbeint honum við tölvur. Ákærði kvað þau hjónin hafa skilið haustið [...], en bar að kona hans hefði á árunum þar á undan oft verið fjarverandi af heimili þeirra vegna [...].
Að því er varðar sakarefni í I. kafla ákæruskjals um ætluð kynferðisbrot gagnvart A og B áréttaði ákærði við aðalmeðferð málsins neitun sína á sakargiftum og staðhæfði að auki að skýrsla hans hjá lögreglu þann 20. maí væri ekki sannleikanum samkvæm. Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir að A var misþroska og bar jafnframt að hún hefði alla tíð verið mjög erfið í umgengni, m.a. vegna mikilla skapsveiflna. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að líkt var á komið með bróður hennar B, en bar að hann hefði haft vitneskju um að pilturinn hefði verið í sérdeild í skóla.
Nánar aðspurður um sakarefni 1. tl. I. kafla ákærunnar bar ákærði að A hefði komið á þáverandi heimili hans í [...] á árunum [...] til [...] Hann neitaði því hins vegar alfarið að hún hefði komið þangað einsömul og bar að hún hefði í heimsóknum sínum verið í fylgd föður síns. Að öðru leyti neitaði hann sakarefninu og andmælti lýsingum stúlkunnar alfarið.
Að því er varðaði sakarefni 2. tl. I. kafla ákæru bar ákærði að A, líkt og bróðir hennar B, hefði oft komið í bifreið hans [...]. Vísaði ákærði til þess að nefnt ökutæki hefði aðeins verið í ökufæru ástandi í stuttan tíma á árinu [...] og þá við áðurgreinda efnisflutninga við endurgerð [...] íbúðarinnar. Hann kvaðst aldrei hafa notað bifreiðina til skemmtiferða og neitaði alfarið sakarefninu og þá einnig að [...]bifreið hans [...] hefði komið við sögu.
Að því er varðaði sakarefni 3. og 4. tl. I. kafla ákæru neitaði ákærði sök. Ákærði áréttaði að hann hefði verið í miklum samskiptum við A og B, en þó sérstaklega við stúlkuna af áðurgreindum ástæðum. Ákærði áréttaði fyrri lýsingar um samskipti þeirra, en bar jafnframt að A hefði á stundum rætt kynferðismál við hann, en þá á þeim nótum að hún vildi eignast kærasta og barn. Að öðru leyti kvaðst ákærði enga vitneskju hafa haft um kynferðismál hennar eða B fyrir utan það tilvik sem hann hefði greint frá í yfirheyrsluskýrslu hjá lögreglu, en hann kvaðst þá fyrir tilviljun og í eitt skipti hafa séð [...].
Ítrekað aðspurður fyrir dómi neitaði ákærði öllum sakargiftum samkvæmt ákæru og um ásakanir systkinanna staðhæfði hann að þar væri einfaldlega um lygar að ræða. Ákærði kvaðst ekki gera sér grein fyrir tilefni þessara lyga og ásakana, að öðru leyti en því að hann kvað systkinin hafa tíðkað það í gegnum tíðina að ljúga til um hluti, ekki síst þegar þau þurftu að skammast sín fyrir eigin gjörðir.
Fyrir dómi dró ákærði áðurrakta frásögn og játningu við skýrslugjöf hjá lögreglu þann 20. maí 2009 til baka að öllu verulegu. Ákærði sagði að játning hans á samræði við A í lögregluskýrslu væri einfaldlega út í hött og að efni skýrslunnar væri markleysa. Ákærði rökstuddi afturköllunina og vísaði m.a. til allra aðstæðna við hina fyrirvaralausu handtöku og eigin veikinda þann 19. maí 2009, en einnig til aðdraganda lögregluyfirheyrslunnar. Þá kvaðst hann hafa verið andlega miður sín við skýrslutökuna vegna innilokunarkenndar. Nánar lýsti ákærði aðstæðum sínum og atvikum þannig að hann, er hann var handtekinn, hefði aldrei komið við sögu lögreglu, en þennan dag hefðu fimm eða sex lögreglumenn komið á heimili hans, gert þar húsleit, handtekið hann og síðan fært hann í fangahús lögreglustöðvarinnar. Hann kvaðst ekki hafa fengið að hringja eftir að hann kom í fangaklefann, og áréttaði að þar hefði hann fundið fyrir mikilli innilokunarkennd. Ákærði staðhæfði að daginn eftir handtökuna hefði fulltrúi lögreglustjóra, U, komið einn til hans í fangaklefann og farið fram á að hann ritaði undir húsleitarheimild, með þeim orðum að einungis væri um formsatriði að ræða. Ákærði vísaði til þess að hann væri þunglyndis- og kvíðasjúklingur og hefði hann er þarna var komið sögu verið í mjög slæmu andlegu ástandi. Bar ákærði að nefndur fulltrúi hefði haft á orði að ef hann yrði ekki þægur og játaði sakir myndi hann fara fram á gæsluvarðhald og það myndi hann fá. Ákærði kvaðst hafa tekið þessi orð fulltrúans sem hótun. Vegna þessa og lýsts ástands kvaðst hann hafa verið í hálfgerðu taugaáfalli og af þeim sökum fallist á hvað sem var til að sleppa úr fangaklefanum. Hann hefði því afráðið að ljúga einhverri sök upp á sjálfan sig og það gengið eftir að hann hefði gefið umrædda skýrslu. Ákærði kannaðist við að viðstaddur yfirheyrsluna hefði verið tilnefndur verjandi hans, en hann kvaðst ekki hafa rætt hótanir lögreglufulltrúans við hann fyrir skýrslutökuna. Reyndar kvaðst hann ekki minnast þess hvað þeim fór á milli. Ákærði áréttaði að efni lögregluskýrslunnar væri því rangt og uppspuni að öllu verulegu, þar á meðal að hann hefði haft samræði við A. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa verið haldinn skömmustutilfinningu vegna samskipta sinna við stúlkuna. Ákærði kannaðist aftur á móti við að við yfirheyrsluna hefði hann neitað því að hafa brotið gegn bróðursonum sínum. Sérstaklega aðspurður um það orðalag sem hann hefði viðhaft við lögregluyfirheyrsluna um að hann hefði m.a. „diggað við“ A og jafnframt að hann hefði séð [...] bar hann að það orðalag notaði hann sjaldan og hafði ekki eiginlegar skýringar á því. Bar hann í fyrstu að með því væri ekki átt við kynferðislegt athæfi heldur væri þetta lýsing á skemmtun. Eftir að hafa hlýtt á hljóðupptöku af lögregluyfirheyrslunni bar ákærði að orðasambandið þýddi það að fólk væri að draga sig saman, en vísaði að öðru leyti til minnisleysis.
Varðandi sakarefni II. kafla ákærunnar bar ákærði með líkum hætti og hann hafði gert hjá lögreglu. Hann neitaði sök.
Vitnið A skýrði frá því við upphaf dómskýrslu sinnar hinn 9. júní 2009 að vilji hennar stæði til að skýra frá kynferðislegu athæfi frænda síns, ákærða í máli þessu, en einnig frá athæfi föður síns og afa af sama toga. Verður frásögn hennar við skýrslugjöfina, en einnig við aðalmeðferð málsins þann 24. júní sl., rakin hér á eftir og þá sérstaklega að því er varðar ákærða X, sem hún nefndi einnig x.
A gerði í skýrslum sínum fyrir dómi grein fyrir búsetu sinni á liðnum árum. Kvaðst hún fyrst eftir skilnað foreldra sinna hafa búið hjá móður sinni, en síðan flust á heimili föður síns og þá m.a. búið um tíma í [...], en síðan flutt aftur á heimili móður sinnar. Um búsetu ákærða minntist hún þess að hann hefði fyrst búið í [...]húsi í [...] en að síðar hefði hann flust í [...]íbúð í húseign föður hennar að [...]. Hún staðhæfði að það hefði komið fyrir þegar ákærði bjó í [...] að hann hefði gætt hennar á meðan faðir hennar var að vinna. Bar hún að gæslustörf ákærða hefðu haldið áfram eftir að hún fluttist til föður síns, ekki síst er þau bjuggu bæði að [...].
A bar að ákærði, líkt og fyrrgreindir nánir ættingjar hennar, hefði haft kynferðisleg afskipti af henni. Hún sagði að ákærði og faðir hennar hefðu þannig báðir haft samfarir við sig, þ.e. farið upp á hana, en faðir hennar þó gert mest af öllum: „Já og mest x og pabbi og þeir aðallega þeir þrír, það er enginn annar sko, það eru bara þeir í fjölskyldunni.“
A lýsti athæfi ákærða þannig að hún hefði verið 12 eða 13 ára þegar hann hefði haft við hana samræði í íbúð hans í [...], en að auki sýnt henni klámefni á vídeóspólum. Bar hún að samræðið hefði ákærði viðhaft í svefnherbergi sínu, en hann hefði girt þar niður um sig og síðan hana og í framhaldi af því sett tippið í kynfæri hennar, (í budduna). Minntist hún þess að ákærði hefði af þessu tilefni sagt að háttsemi hans væri eðlileg. Hún bar að ákærði hefði haft samræði við hana í nefndri íbúð tvisvar eða þrisvar sinnum og sagði að hann hefði verið sá fyrsti, sem „farið hefði upp á hana“. Þá sagði hún að er hún fluttist með föður sínum í [...] hefði ákærði tekið vídeómyndir af henni nakinni í íbúð föður hennar í [...]. Hún kvaðst hafa verið ein með ákærða er það gerðist, en hún kvaðst ekki hafa brugðist við athæfinu vegna hræðslu við skapofsa ákærða.
A skýrði frá því að hún hefði stundum farið í ökuferðir með ákærða í [...] [...]bíl. Lýsti hún bifreiðinni nánar og bar m.a. að í henni hefðu verið tvö sæti en dýna aftur í. Er þetta gerðist kvaðst hún hafa verið búsett á heimili föður síns í [...]. Staðhæfði hún að ákærði hefði í tvígang í ökuferðunum haft samræði við sig. Lýsti hún atvikum og aðstæðum nánar þannig að ákærði hefði stöðvað akstur bifreiðarinnar á afviknum stöðum í [...]. Bar hún að í öðru tilvikinu hefði bróðir hennar B verið með. Sagði hún að þegar ákærði hafði lokið sér af hefði hann sagt bróður hennar að viðhafa sama athæfi gegn henni. Hún kvað athæfið hafa gerst aftur í bifreiðinni og bar að bróðir hennar hefði ekki þorað annað en að hlýða ákærða. Hún kvað ákærða hafa sett tippið í kynfæri hennar og hafi hann fengið sáðlát: „Ég fann það.“ Í síðara tilvikinu kvað hún ákærða hafa gert það sama en að auki sleikt kynfæri hennar, en hún kvaðst þá hafa verið ein í bifreiðinni með ákærða. Í ökuferðunum kvað hún ákærða hafa gefið þeim systkinunum að reykja sígarettur.
A sagði að ákærði hefði síðast brotið gegn henni kynferðislega er hún var 16 ára, að hún ætlaði. Hún hefði þá átt heima hjá föður sínum í [...]. Bar hún að atvikið hefði gerst þar á heimilinu, nánar tiltekið á [...]hæðinni, í herbergi föður hennar. Viðstaddir hefðu verið bræður hennar, B og E. Hún lýsti háttseminni nánar og bar m.a. að hún hefði legið á dýnu á gólfinu og verið þar nakin líkt og ákærði. Hún kvað ákærða hafa sett tippið í pjölluna hennar og að hann hefði fengið sáðlát. Að því loknu hefði hann sagt B og E að gera það sama og hann hefði gert. Bar hún að bræður hennar hefðu hlýtt ákærða. Jafnframt þessu athæfi kvað hún ákærða hafa sleikt á henni kynfærin og sagði að B hefði einnig gert það. Hún áréttaði að greind háttsemi hefði öll farið fram í sama skiptið, þ.e. í nefndu [...]herbergi á heimili hennar í [...].
A skýrði frá því að á liðnum árum hefði hún átt nokkra kærasta. Kvaðst hún hafa átt kynlíf með einum þeirra. Þá kvaðst hún í nokkur skipti hafa verið í [...].
A kvaðst hafa reynt að forðast samskipti við ákærða á meðan hún bjó í sama húsi og hann, að [...]. Þrátt fyrir það kvaðst hún nokkrum sinnum hafa farið á heimili hans, en þá aðallega í þeim tilgangi að hitta eiginkonu hans, vitnið G. Hún kvaðst hafa haft gaman af köttunum sem þar voru á heimilinu, en að auki hefði hún stundum fengið lánaðar myndbandsspólur. Hún bar að eiginkona ákærða hefði sýnt henni hlýlegt viðmót og sagði: „Hún var eiginlega mín stoð og stytta.“
A kvaðst í fyrstu ekki hafa sagt frá hinu kynferðislega athæfi ákærða, en um síðir skýrt móður sinni frá því, en hún hefði þá verið 17 ára: „Ég gat ekki haldið þessu lengur inni. Var búin að halda þessu svo lengi í mörg ár.“ Hún sagði að vegna athæfis ákærða og annarra áðurnefndra aðila hefði líðan hennar verið hörmuleg. Og vegna þessa kvaðst hún hafa fundið til þunglyndis og verið kvíðin. Bar hún að þessi líðan hennar auk hræðslu við ákærða og föður hefði markað líf hennar um árabil.
Vitnið B, fæddur [...], kvaðst fyrir dómi, m.a. við aðalmeðferðina, hafa farið reglulega í umgengni á heimili föður síns að [...]. Hann kvað föður sinn hafa búið á [...] og [...] hæð eignarinnar, en að ákærði hefði búið í [...]íbúðinni ásamt þáverandi eiginkonu sinni, vitninu G. Hann kvað ákærða hafa sýnt sér klámefni í tölvu sem faðir hans hefði átt. Bar hann að um hefði verið að ræða myndir af nöktum konum á aldrinum 18 til 23 ára. Síðar kvaðst hann hafa leitað að slíku efni og fundið það á internetinu.
Aðspurður um eigin kynlífsreynslu kvaðst B [...] og vísaði til tilviks þar sem hann hefði ásamt systur sinni, A, verið „gabbaður“ í ökuferð með ákærða. Nánar bar hann að um hefði verið að ræða [...]bíl af gerðinni [...]. Hann sagði að ökutækið hefði verið gamalt og ryðbætt og sagði að upphaflegur litur þess hefði verið [...]. Hann kvað ákærða hafa ekið bifreiðinni út fyrir bæinn, en síðan lagt henni við trjálund. Kvaðst hann þar hafa fylgst með því er ákærði hafði mök við systur hans í bifreiðinni. Hann gat þess að ákærði hefði í greint sinn fengið þau systkinin til þess að reykja sígarettur. Aðspurður um hvenær atburður þessi hefði gerst sagðist hann ætla að eiginkona ákærða hefði enn verið búsett í [...] þegar atvikið gerðist.
B kvaðst í eitt skipti eftir lýstan atburð hafa fylgst með samræði ákærða við A. Sagði hann það tilvik hafa átt sér stað í svefnherbergi föður hans að [...] og ætlaði að hann hefði þá verið 14 eða 15 ára og í 9. bekk grunnskóla. Lýsti hann atburðinum á þá leið, að hann hefði verið kallaður inn í herbergið, en þar hefði honum verið sagt að setjast á stól. Í framhaldi af því hefði hann verið látinn fylgjast með því er ákærði hafði samræði við systur hans A. Hann kvað A hafa legið á bakinu á dýnu á gólfinu, en ákærði kropið fyrir framan hana. Kvaðst hann hafa séð ákærða setja lim sinn í leggöng systur sinnar og sagði; „mér fannst hann fara langt inn“. Hann staðhæfði að ákærði hefði sagt að hann ætti einnig að hafa samfarir við A; „Ég ætlaði aldrei að gera neitt, en þá var mér sagt að gera það, ég mátti ekkert fara neitt. Og ég átti bara að sitja þar þangað til kom röðin að mér að gera það með A.“ Bar hann að ákærði hefði haft á orði að hann væri aumingi að þora ekki að gera þetta; „Ég var niðurlægður. Hann lét mig gera þetta.“ Hann sagði að herbergishurðin hefði verið læst en lýsti atvikum nánar þannig: „Á endanum gerði ég það sem mér var sagt að gera. Ég fór á fætur og setti tippið inn þangað til það var búið, þá fékk ég að hætta þessu, ég var ekki vanur að gera svona.“ Hann sagði að ákærði hefði verið með leiðbeiningar meðan á samræði hans við systur sína stóð og bar að hann hefði m.a. sagt að hann ætti að hreyfa sig hægt og mjúklega. Hann kvaðst ekki hafa heyrt A mótmæla háttseminni og þá ekki er ákærði sleikti kynfæri hennar og setti fingur inn í þau; „ég horfði upp á þetta“. Hann kvaðst sjálfur hafa sleikt kynfærin á A. Ítrekað aðspurður kvaðst hann ætla að viðstaddur í umrætt sinn hefði einnig verið yngri bróðir hans, E. Nánar aðspurður bar B að lýst háttsemi hefði öll gerst á sama tíma, þ.e. sama daginn, og bar að hann hefði t.d. ekki sleikt kynfæri systur sinnar í annan tíma. [...]. Þá kvaðst hann hafa heyrt frásögn A um að ákærði hefði haldið áfram kynferðislegu sambandi við hana, en hætt því eftir að núverandi sambýliskona föður þeirra fór að venja komur sínar á heimilið. Hann kvaðst auk nefndra tilvika hafa orðið vitni að kynferðissambandi A og nafngreinds kærasta hennar, en einnig séð kynferðislegt áreiti afa þeirra gegn henni.
B sagði fyrir dómi að vegna lýstrar háttsemi hefði honum liðið illa og hefði það verið líkt því þegar hann varð fyrir háttsemi af svipuðum toga af hálfu óskylds ungmennis, en hann hefði þá verið 6 eða 7 ára. Hann kvaðst hafa þegið aðstoð hjá sérfróðum aðilum síðustu misserin og ætlaði að hann hefði haft þörf fyrir það.
Vitnið E, fæddur [...], lýsti því við upphaf dómsyfirheyrslu þann 9. júní 2009 að hann hefði vilja til að skýra frá kynlífsathöfnum ákærða, en einnig föður síns og föðurafa við systur hans A.
Nánar um háttsemi ákærða sagðist hann hafa fylgst með kynlífsathöfnum ákærða við A á heimili föður í [...] og ætlaði að hann hefði þá verið 12 ára. Hann kvað þá bræður báða hafa fylgst með, en háttsemin hefði farið fram í svefnherbergi föður þeirra og lýsti hann henni nánar þannig: „Þá vorum við öll saman þar. Og þá gerðust hlutir þar sem áttu ekki að gerast. Ég man alla vega að ég var smeykur, en við skiptumst á að stunda samfarir með A. Mér fannst þetta mjög óþægilegt.“ Hann sagði að bróðir hans B hefði ætlað að fara út úr herberginu, en að ákærði hefði bannað honum það eða læsti hurðinni; „ég man það ekki, þetta var bara hræðilegt.“ Nánar um nefnt athæfi sagði hann að ákærði hefði byrjað að stunda kynlíf með A, þ.e. „samfarir í leggöng“, en næst á eftir hefði B haft samfarir við hana og loks hann sjálfur; „það var eins og verið væri að skipa okkur fyrir.“ Hann kvað A hafa legið í rúminu, en að samræðið hefði einnig farið fram á dýnu þar við hliðina. Var það og ætlan hans að í greint sinn hefðu þeir einnig sleikt kynfæri A; en ítrekað aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess hvort hann hefði sjálfur gert það; „Ég man alls ekki eftir því.“ [...] Ítrekað aðspurður kvaðst hann helst minnast þess að ákærði hefði sleikt kynfæri systur hans; „en ég er ekki hundrað prósent viss“.
E sagði að eftir ofangreint tilvik hefðu þau systkinin oft rætt saman um háttsemi ákærða, en þá jafnframt heyrt frásögn af því að hann hefði haft samfarir við A í [...]bíl og að bróðir hans, B, hefði þá verið viðstaddur. Hann kvaðst hafa séð klámefni í tölvu ákærða á heimili hans í [...], en bar að ekki hefði verið um barnaklám að ræða. Hann kvaðst síðar hafa skoðað fullorðinsklámefni í tölvu á eigin heimili.
E sagði að [...] Auk þess kvaðst hann hafa séð A eiga samfarir við nafngreindan kærasta sinn.
Vitnið C, fædd [...], bar fyrir dómi að börn hennar, A, B og E, hefðu frá unga aldri átt við erfiðleika að stríða vegna þroskaskerðingar, og þá ekki síst dóttirin sem einnig hefði átt við geðræn vandamál að glíma. Vitnið sagði að vandkvæði dóttur hennar hefðu farið vaxandi á unglingsárum, en einnig hefðu verið miklir samskiptaerfiðleikar með henni og bræðrunum á heimili þeirra. Vegna þessa ástands alls hefði verið afráðið árið [...] að stúlkan flyttist á heimili föður síns. Vitnið bar að faðirinn hefði búið í íbúð í [...]húsi er þetta gerðist, en kvaðst aldrei hafa verið sátt við ráðstöfunina. Vitnið kvaðst hafa haft vitneskju um að faðirinn fluttist á árinu [...] ásamt A í húseignina við [...] og bar að dóttirin hefði dvalið þar fram á [...], en þá flust á ný á heimili vitnisins. Vitnið kvað yngri bræðurna hafa farið á heimili föður síns í reglulega umgengni á þessum árum.
Vitnið C áréttaði fyrri frásögn, sem það hafði áður sagt frá í lögregluskýrslu, að á árunum [...] og [...], þegar A var sextán og sautján ára, hefði hún ítrekað lýst yfir vilja til að flytjast að nýju á heimili vitnisins, en að jafnframt hefði hún kvartað um vanlíðan og þ. á m. um magaverki. Vegna þess síðarnefnda kvaðst vitnið hafa leitað til heimilislæknisins, H, en að auki farið ítrekað með stúlkuna í rannsóknir til barnalækna og kvensjúkdómalækna á [...]. Vitnið bar að um líkt leyti og þetta gerðist hefði A farið að greina frá kynferðislegu ofbeldi ákærða og föður síns og sagði að tvívegis hefði hún haldið því fram að hún væri ófrísk eftir þá, en að auki nefnt útlendan karlmann sem hún hefði hitt [...]. Vitnið kvaðst ekki hafa lagt trúnað á þessa síðustu frásögn, og lýsti hugrenningum sínum þannig: „... þá datt mér þetta helst í hug að hún væri ólétt eftir föður sinn, en hún gaf mér það svar ekki, ekki fyrr en löngu seinna sko“. Vitnið kvaðst hafa rætt þessar grunsemdir sínar við starfsmann [...], vitnið V félagsráðgjafa, er hafi verið stuðningsfulltrúi fjölskyldunnar á þessum árum. Að auki kvaðst hún hafa rætt málefnið við O kvensjúkdómalækni. Vitnið kvaðst hafa haft efasemdir um ásakanir dóttur sinnar eftir að hún hafði farið í kvenskoðun og meyjarhaft hennar reyndist órofið. Vitnið kvaðst því ekki hafa rætt málefnið við fyrrnefndan heimilislækni fjölskyldunnar.
Vitnið C bar að ásakanir A um ætlað athæfi ákærða og föður hennar hefðu lotið að því að þeir hefðu haft samfarir við hana. Vitnið minntist sérstaklega tilviks þegar nefnt málefni var til umræðu, en vitnið kvaðst þá hafa verið í ökuferð með börnum sínum. Hún hafði heyrt frásögn A um að ákærði hefði „ farið upp á hana“ í [...], en einnig í [...]bíl og jafnframt að hann hefði látið börn hennar stunda kynlíf saman. Þá kvaðst vitnið hafa heyrt frásögn um að börn hennar hefðu fengið að horfa á klámmyndir hjá ákærða. Vitnið treysti sér ekki til að segja til um hvenær þessir atburðir áttu að hafa gerst, en helst skilist að þeir hefðu ekki gerst eftir að dóttir hennar fluttist aftur á heimili hennar [...]. Vitnið bar að það hefði haft grunsemdir um að A hefði mátt þola kynferðislegt ofbeldi allt frá tólf ára aldri og vísaði þar um til breytinga sem orðið hefðu á hegðan hennar á því aldursskeiði. Að auki kvaðst vitnið hafa heyrt frásögn fyrrverandi eiginkonu ákærða, vitnisins G, um að A hefði forðast samskipti við ákærða þegar hún var fjarverandi frá heimili þeirra.
Vitnið C kvað A hafa farið í ófrjósemisaðgerð [...], sjálfviljuga og eftir ráðgjöf. Vitnið kvaðst hafa verið hlynnt þeirri ráðstöfun sökum þess að það hefði talið að hún væri ekki fær um að ala upp ungt barn. Vitnið bar að líðan A hefði sífellt farið versnandi með árunum. Hún hefði verið kvíðin og þunglynd, verið hrædd við karlmenn og þá sérstaklega við ákærða og föður sinn. Vitnið kvað A þjást af miklu öryggisleysi og hefði það komið í veg fyrir sjálfstæða búsetu hennar, sem ráðgerð hefði verið [...], en hún hefði á því ári ítrekað sýnt sjálfsskaðandi hegðun.
Vitnin W, fædd [...], og Þ, fæddur [...], móðurforeldrar systkinanna, kváðust hafa heyrt um ætluð brot föður þeirra gagnvart A árið [...]. Stúlkan hefði af því tilefni farið í kvenskoðun, en að málið hefði verið látið niður falla er í ljós hefði komið að meyjarhaftið var órofið. Vitnin kváðust fyrst hafa heyrt um ætluð brot ákærða árið 2009, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð vitnanna frekar.
Vitnið F, faðir nefndra ungmenna, lýsti fyrir dómi aðstæðum og högum fjölskyldu sinnar. Bar hann m.a. að við skilnað hans og C hefðu börn þeirra haldið áfram búsetu á heimili móðurinnar, en þau hefðu öll komið reglulega í umgengni á heimili hans, fyrst í íbúð í [...]húsi í [...]hverfi, en frá árinu [...] í húsakynni hans í [...]. Vitnið sagði að öll börn hans hefðu verið greind greindarskert en bar að dóttirin A hefði að auki verið sérstaklega erfið í öllum samskiptum. Vegna þessa og þar sem hún hefði í raun verið hömlulaus á heimili móður sinnar hefði verið ákveðið í samráði við [...] að hún flyttist á heimili hans á árinu [...]. Vegna þess hefði A og flust með honum í nefnt [...]hús í [...]. Vitnið lýsti húseigninni og bar að á [...]hæð hefðu verið [...] svefnherbergi. Hefði hann haft það stærsta til umráða, en næst við hliðina hefði verið herbergi A en bræðurnir, B og E, haft sérherbergi saman. Vitnið bar að þar sem börn hans hefðu á stundum fengið leyfi til að sofa í herbergi hans hefði dýna verið þar á gólfinu.
Vitnið áréttaði að það hefði flutt í umrætt [...] hús [...] en sagði að bróðir sinn X, ákærði, hefði flust þangað ásamt þáverandi eiginkonu sinni, G, nánar tiltekið í [...]íbúð þá um sumarið. Vitnið bar að um það leyti hefði ákærði átt [...]bifreið af gerðinni [...], [...] að lit, en ætlaði að hún hefði ekki verið á skrá [...]. Vitnið bar að þeir bræður hefðu enn fremur átt saman [...] [...] [...]bifreið og sagði að ákærði hefði notað ökutækið við flutning á efni þegar hann endurgerði [...]íbúðina. Vitnið kvaðst ætíð hafa haft náið samband við ákærða, og bar að hann hefði oft hlaupið undir bagga með gæslu á dótturinni, A, ekki síst þegar hann hefði þurft að fara til starfa á morgnana en hún að vakna í skólann. Vitnið bar að ákærði hefði enn fremur sinnt stúlkunni þegar hann var fjarverandi vegna vaktavinnu svo og að einhverju leyti bræðrum hennar þegar þeir komu í helgarumgengni á heimili hans. Vitnið bar að vegna þessa hefði ákærði sinnt börnum hans þó nokkuð mikið og nefndi að hann hefði einstaka sinnum farið með A í búðir og hesthús. Kvaðst vitnið aldrei hafa orðið vart við neikvæð viðhorf barna sinna gagnvart ákærða og því ætlað að samskipti þeirra hefðu verið með eðlilegum hætti. Vitnið sagði að ákærði hefði stundum skammað börn hans þegar það átti við og hefði það því ekki verið óeðlilegt. Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt af því að ákærði hefði rætt um kynferðislega hluti við börn hans eða heyrt ávæning af kynferðislegri hegðan hans gagnvart þeim. Vitnið kvaðst heldur ekki hafa heyrt af því þegar dóttir hans, A, fór í kvenskoðun vegna grunsemda um að hún hefði orðið ófrísk eftir ákærða og þá ekki að grunsemdir hefðu verið um kynferðislegt samband barna hans innbyrðis.
Vitnið sagði börn sín, en þó sérstaklega bræðurna, hafa tamið sér fremur gróft klámfengið orðbragð og hefði það verið vandamál áður um áraraðir. Lét vitnið það álit í ljós að þeir hefðu hindrunarlaust komist í tölvu á heimili móður þeirra en einnig hjá vinum og þá m.a. séð þar klámefni. Vitnið kvaðst hafa reynt að stöðva þennan talsmáta og bar að það hefði einnig gert núverandi sambýliskona hans. Vitnið kvaðst fyrst hafa heyrt af ákæruefninu gagnvart ákærða eftir að vitnið sjálft hafði verið handtekið þann 20. maí 2009 grunað um sams konar athæfi.
Vitnið sagði að ásakanir A í sinn garð, en einnig ásakanir hennar og B og yngsta sonar gagnvart ákærða, væru að hans álit ósannar. Vitnið sagði að börn sín væru þekkt fyrir uppspuna, en að því leyti vísaði vitnið m.a. til framlagðs bréfs Æ, uppeldisráðgjafa hjá [...], frá 30. apríl 2009. Vitnið kvaðst ekki geta nefnt önnur dæmi og þá ekki um ósannsögli sona sinna.
Vitnið G kvaðst hafa verið gift ákærða í [...] ár. Hún kvað þau m.a. hafa búið í [...]eigninni að [...] á árunum [...] til [...], en þá hefðu þau skilið og hún flutt af heimilinu. Vitnið kvaðst á þessum árum og síðar hafa verið í miklu vinfengi við A og bar að hún hefði oft komið í íbúð hennar í [...]. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt er árin liðu, ekki síst frá árinu [...], að A forðaðist að koma í [...] þegar hún var ekki heima við. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa haft grunsemdir um óeðlilega hegðan ákærða gagnvart stúlkunni. Kvaðst hún hafa skýrt starfsmönnum félagsmálayfirvalda frá grunsemdum sínum. Í byrjun árs [...] kvaðst vitnið fyrst hafa heyrt frásögn A um að ákærði hafði sýnt henni klámefni í tölvu og enn fremur að hann hefði leitað á hana kynferðislega. Vitnið bar að A hefði ekki verið vön því að búa til sögur, en bræður hennar hins vegar átt það til að vera svolítið skreytnir.
B Sérfræðigögn og vitnisburðir.
Samkvæmt vottorðum P, sálfræðings Barnahúss, sem dagsett eru 8. og 15. júní 2010, hefur A farið í ellefu meðferðarviðtöl frá 20. ágúst 2009 vegna ætlaðra kynferðisbrota ákærða, en B frá sama tíma farið í tólf meðferðarviðtöl.
Í niðurstöðukafla vottorðs um A segir nefndur sérfræðingur að hún uppfylli greiningarmerki þunglyndis og kvíða, að sjálfsmat hennar sé lágt og að skapsveiflur og tilhneiging til einangrunar valdi henni erfiðleikum í félagslegum samskiptum. Einnig segir að stúlkan sé orkulaus, að fátt veiti henni ánægju, að hún virki oft leið og sýni sterka forðunarhegðun þegar ætlað kynferðisbrot sé rætt og afleiðingar þess. Þá segir að stúlkan forðist ákveðna staði, sé hrædd við karlmenn og að skortur á líkamsvitund sé áberandi. Einnig segir frá því í vottorðinu að þegar stúlkunni hafi liðið sem verst hafi hún [...]. Þá segir frá því að stúlkan beri neikvæðar tilfinningar í garð ákærða. Lætur vottorðsgjafinn það álit í ljós að afleiðingar ætlaðs athæfis séu mjög alvarlegar og renni niðurstöður sjálfsmatskvarða og viðtala stoðum undir að svo sé. Séu líkur á að meðferð verði langvinn, en einnig séu líkur á að stúlkan muni eiga erfitt með að nýta sér meðferðina að fullu og vegna þroskaskerðingar sé líklegt að erfitt muni reynast að vinna á ákveðnum afleiðingum ætlaðs brot í hefðbundinni sálfræðimeðferð.
Í niðurstöðukafla vottorðsins um B segir nefndur sérfræðingur m.a. að hann uppfylli greiningarmerki þunglyndis og kvíða, að sjálfsmat hans sé lágt, að hann sé haldinn mikilli sektarkennd, sé oft leiður og óttasleginn og hafi íhugað sjálfsvíg. Þá segir frá því að pilturinn óttist frænda sinn, ákærða, en einnig framtíðina og hvaða þýðingu ætlað kynferðisbrot hafi á persónuþroska hans. Í vottorðinu er það álit látið í ljós að vegna þroskahömlunar piltsins séu ætluð brot gegn honum mjög alvarleg. Segir að niðurstöður sjálfsmatskvarða og viðtala renni stoðum undir að svo sé. Vegna þroskaskerðingar sé líklegt að pilturinn eigi erfitt með að vinna á ákveðnum afleiðingum hins ætlaða brots í hefðbundinni sálfræðimeðferð.
Vitnið P staðfesti efni vottorðanna fyrir dómi. Bar vitnið að auk orða A um ætluð brot ákærða hefði hún nefnt fleiri aðila sem brotið hefðu gegn henni, þ. á m. föður sinn og afa. Vitnið bar að A og B hefðu í frásögnum sínum af ætluðum brotum ákærða aldrei orðið tvísaga og bar að þau hefðu að auki verið einlæg.
Vitnið I sálfræðingur staðfesti niðurstöður áðurrakins vottorðs um að þroski A væri ofarlega á stigi vægrar þroskahömlunar. Auk nefnds álitaefnis er í vottorðinu lagt mat á það hvort álykta megi út frá þroskastigi stúlkunnar að hún hefði getu til að greina frá tímasetningum og fjölda þeirra atvika sem hún hafi upplifað í tengslum við ætluð kynferðisbrot. Sagt er frá því í vottorðinu, að stúlkan hefði lýst mikilli vanlíðan þegar hún ræddi ætluð brot og er dregin sú ályktun að það skjóti stoðum undir frásögn hennar. Vísað er til þess að niðurstöður prófana hafi sýnt að viðmiðunargeta hennar sé á bilinu [...] til [...], og að niðurstöður í matslista leiði í ljós alvarleg einkenni um depurð, kvíða og félagsfælni. Segir að vegna þroskaskerðingarinnar megi búast við því að stúlkan geti ekki með nákvæmni tímasett atburði, en slíkt geti reyndar verið eðlilegt þegar um alvarleg brot sé að ræða sem séu ítrekuð. Í vottorðinu segir að þrátt fyrir að nefndir veikleikar séu fyrir hendi hjá stúlkunni komi það ekki í veg fyrir að hún geti skýrt rétt frá atvikum, en að því leyti er vísað til ólíkra staðsetninga ætlaðra brota ákærða og annarra náskyldra aðila. Þá segir að það styrki einnig þessa niðurstöðu að A hefði ekki verið viljug til að ræða atburðina, vegna sektarkenndar og mikillar vanlíðunar, en að því leyti sé hún trúverðug.
Vitnið greindi frá því fyrir dómi að A hefði skýrt frá því að hún hefði fyrst orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 10 til 11 ára.
Vitnið J sálfræðingur staðfesti efni áðurnefndrar greiningar á B frá árinu 2009, og bar að samkvæmt greindarmati væri pilturinn á mörkum tornæmis og vægrar þroskahömlunar.
Vitnið Ö sálfræðingur ritaði skýrslu að beiðni ríkissaksóknara, um andlegt ástand B, um afleiðingar ætlaðs brots gegn honum og meðferðarþörf hans í framtíðinni. Í skýrslu hans, sem dagsett er 21. júní 2010, segir m.a. að pilturinn hafi sýnt óviðeigandi kynhegðun og eigi erfitt með að breyta henni svo og hugsun sinni, en þar um ráði þroskahömlun hans mestu. Er það álit látið í ljós að vegna greindarskerðingar hafi pilturinn ekki gert sér grein fyrir hversu röng hegðan hans var og hafi hann ekki náð að vinna sig frá þeim hugmyndum sem að baki búa. Vegna þessa hafi hann þörf fyrir að læra viðeigandi hegðan í þessum efnum, en til þess þurfi nær daglegt eftirlit og sálfræðistuðning næstu árin.
Vitnið staðfesti efni skýrslunnar fyrir dómi, en sagði m.a. að pilturinn væri enn haldinn óvenjulegum hugrenningum, hann væri [...].
Í áðurnefndu bréfi Æ, uppeldisráðgjafa hjá [...] og starfsmanni [...], til Barnahúss, sem dagsett er 30. apríl 2009, er vikið að því að grunsemdir hefðu verið uppi á árum áður um að A hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni, en að nýlegar upplýsingar hafi vakið grunsemdir um [...]. Er af þeim sökum farið fram á að A og bræður hennar fari í könnunarviðtal hjá sérfróðum aðilum Barnahúss. Í bréfinu er vikið að aðstæðum stúlkunnar og forsögu málsins. Segir m.a. að móðir stúlkunnar sé öryrki vegna [...], [...] og [...], en að hún fari ein með forræði systkinanna. Í bréfinu er vikið að ákæruefni málsins, en um það segir m.a.: „A hefur í gegnum tíðina verið að greina frá kynferðislegri áreitni sem hún á að hafa orðið fyrir. Frásagnir hennar hafa verið mjög ótrúverulegar en einnig hefur borið á miklu ósamræmi í frásögnum hennar. Þess ber einnig að geta að A er mjög ósannsögul og með ríkt ímyndunarafl. Í viðtali sem undirrituð átti við C, móður A, í [...], átti A að hafa greint móður sinni frá því að pabbi hennar hefði gert það með henni í þrjú eða fjögur skipti. Í eitt skiptið þá var hún að fara að sofa, var búin að taka lyfin sín, sagðist hafa verið mjög þreytt og ekki getað ýtt honum af sér. Þegar A sagði móður sinni frá atvikinu þá var hún ásamt börnunum sínum þremur í bíl og voru drengirnir að sögn C að tala um klám og kynlíf. C átti erfitt með að tímasetja hvenær A greindi frá ofanrituðu en heldur að það hafi verið [...] og A hafi verið 15 ára. Í framhaldi af ofanrituðu fór C með A til kvensjúkdómalæknis, sú skoðun leiddi í ljós að meyjarhaftið var órofið. A fór einnig í skoðun til kvensjúkdómalæknis í [...] eftir að A sagðist vera barnshafandi eftir að hafa haft mök við útlending sem hún hitti í sjoppu á [...] og farið með honum heim. Sú skoðun leiddi einnig í ljós að meyjarhaftið var órofið. Einnig hefur A verið að tala um að hún hafi séð klám hjá föðurafa og föðurbróður sínum.“
Í niðurlagi nefnds bréfs segir að starfsmenn barnaverndar hafi verið með málefni fjölskyldu A á sinni könnu allt frá árinu [...] og þeir hafi m.a. haft áhyggjur af kynferðislegu tali barnanna svo og vegna orða þeirra um að þau væru að horfa á klámfengið efni. Um tilefni ritunar bréfsins segir að forstöðumaður barnaverndar hafi haft viðtöl við systkinin vegna upplýsinga frá tilsjónarmanni, sem upphaflega hafi komið frá móður þeirra vorið 2009, um að [...]. Segir að þrátt fyrir að þessar viðræður hefðu ekki varpað ljósi „[...] eða hvort þau hafi orðið þolendur kynferðislegs áreitis“ hafi það verið metið svo að nauðsynlegt væri að börnin færu í umbeðið könnunarviðtal, m.a. til að varpa betur ljósi á stöðu málsins.
Í fyrrnefndum bréfum D, forstöðumanns Barnaverndar [...], sem dagsett eru 8. og. 14. júní 2010, segir m.a. að síðla árs [...] og í upphafi ársins [...] hefðu komið fram upplýsingar um að B væri farinn að sækja í klámefni og nota dónalegt og klámfengið tal. Vegna þessa hafi móður hans verið leiðbeint og B verið útveguð sálfræðiviðtöl. Í nefndum bréfum er vísað til áðurnefndra erindisbréfa félagsmálayfirvalda og að vegna tilkynninga hefði farið fram viðtalsathugun hjá nefndum pilti en einnig systkinum hans, þeim A og E. Auk þess hefðu verið grunsemdir um að A og B hefðu mátt þola kynferðislega hegðan af hálfu náinna karlmanna í ætt þeirra, og jafnframt að B hefði fengið að horfa á klámefni hjá ákærða. Segir frá því að við athugun á þessu hefðu ásakanirnar ekki verið taldar á rökum reistar. Einnig hefðu verið uppi grunsemdir um að faðir föður þeirra hefði beitt B líkamlegu og andlegu harðræði. Þá hefðu komið fram tilkynningar um að ákærði hefði sýnt A klámefni og leitað á hana kynferðislega. Í gögnum forstöðumannsins segir að þessar síðastnefndu tilkynningar hefðu ekki verið kannaðar sérstaklega þar sem talið hafi verið að um væri að ræða sömu upplýsingar og áður hefðu verið kannaðar, en þær hefðu ekki leitt til aðgerða umfram leiðbeiningar til móður og barnanna. Á það er bent að víðtækum stuðningsaðgerðum félagsmálayfirvalda við systkinin hefði verið fram haldið, og eftir að A hefði komist af grunnskólaaldri hefði m.a. stuðningur við hana í auknum mæli verið veittur með úrræðum fötlunarþjónustu fremur en barnaverndar. Í nefndum bréfum segir að í [...] hefði tilsjónarmaður á heimili B og A tilkynnt um grun um kynferðislegt samneyti þeirra og hefði málinu verið vísað í Barnahús til könnunar. Þar hefðu hins vegar komið fram upplýsingar frá ungmennunum sem leitt hefðu til þess að óskað hafi verið eftir lögreglurannsókn í bréfi til lögreglu hinn 19. maí 2009.
Vitnin D og Æ, starfsmenn [...] og [...], staðfestu efnislega framanrakin erindisbréf og vottorð, dagsett 30. apríl og 19. maí 2009 og 8. og 14. júní 2010. Vitnin báru að í lok árs [...] hefði B m.a. greint frá því í viðtali að ákærði hefði [...] og jafnframt að hann hefði verið neyddur til slíkra athafna, en þau systkinin að auki verið þvinguð til að reykja. Vitnin báru að í kjölfar tilkynningar móður A fyrri hluta árs [...] um ætlað kynferðislegt ofbeldi ákærða og annarra aðila hefði sérstök athugun farið fram á A, þar á meðal kvenskoðun. Málið hefði verið látið niður falla þegar sérfræðiskoðun leiddi í ljós að meyjarhaft hennar reyndist órofið. Vegna þessa hefðu orð B verið talin óstaðfest og nýjar upplýsingar, m.a. frá vitninu G, hefðu ekki bætt neinu sérstöku við eða það stöðuga eftirlit sem hefði verið á heimili systkinanna. Vitnin báru að frásögn systkinanna um harðræði á heimili föður hefði eftir athugun frekast verið talið falla í flokk með eðlilegu uppeldi, m.a. um þrif, svefntíma og þess háttar.
Vitnið Æ bar að áðurrakin orð um ósannsögli A hefðu ekki síst komið til þegar niðurstöður endurtekinna kvenskoðana lágu fyrir, en vitnið bar að systkinin væru í raun einlæg.
Vitnin og félagsráðgjafarnir Ú og V staðfestu fyrir dómi efni framlagðra gagna frá [...], þ. á m. áðurrakið vottorð þeirra frá [...], um systkinin A og B og fjölskyldu þeirra.
Vitnið Ú kvaðst hafa verið stuðningsfulltrúi systkinanna og tilsjónarmaður með heimili þeirra á árunum [...] til [...], en aldrei heyrt ávæning af ætluðum brotum gegn þeim. Vitnið minntist þess að B hefði verið með klámfengið tal á árinu [...].
Vitnið V kvaðst hafa verið ráðgjafi nefndrar fjölskyldu á árunum [...] til loka árs [...]. Vitnið kvaðst á því tímabili hafa heyrt áhyggjur C um að föðurbróðir stúlkunnar hefði sýnt henni klámfengnar myndir, en vegna þessa kvaðst það hafa vísað móðurinni á sérfræðingateymi sem hefði tekið málið til athugunar. Vitnið bar að viðvarandi vandamál hefðu verið til staðar hjá stúlkunni vegna þroskaröskunar og geðvandkvæða og hefðu stuðningsaðgerðir miðast við það. Vitnið kannaðist ekki við að neinar sérstakar breytingar hefðu orðið í fari stúlkunnar á umræddu tímabili, [...] til [...].
Vitnið H heimilislæknir staðfesti fyrir dómi áðurrakið vottorð, frá því í desember 2009. Vitnið áréttaði að þrátt fyrir miklar rannsóknir hefði aldrei fundist viðhlítandi skýring á kvörtunum A á umræddum kviðverkjum. Vitnið bar að erfiðleikar stúlkunnar hefðu verið viðvarandi um árabil, m.a. vegna skapgerðarbresta hennar, árásarhneigðar og almennrar vanlíðunar, og hún m.a. vegna þessa þurft á geðlæknismeðferð að halda. Vitnið staðhæfði að vegna alls þessa og mikils álags á heimili móður hefði stúlkan haft vistaskipti á árinu [...] og búið á heimili föður síns um tíma. Vitnið staðfesti að stúlkan hefði farið í ófrjósemisaðgerð í [...]og bar að þar hefði verið um að ræða fyrirbyggjandi ráðstöfun, en engin vitneskja hefði þá legið fyrir um að stúlkan væri farin að lifa kynlífi. Vitnið áréttaði að það hefði aldrei heyrt frásögn stúlkunnar eða aðstandenda hennar um að hún hefði orðið barnshafandi og fyrst heyrt af ætluðum kynferðisbrotum gegn henni [...]. Vitnið bar að það hefði ekki tekið saman álitsgerð um bræðurna B og E, en staðhæfði að þeir hefðu átt við krónísk vandkvæði að stríða alla sína ævi, en þeir væru líkt og A þroskaheftir. Vitnið kvaðst ekki hafa staðið bræðurna að ósannsögli.
Að ósk embættis ríkissaksóknara ritaði O kvensjúkdómalæknir vottorð um kvenskoðanir sem A hafði gengist undir á liðnum árum. Tilefni erindisins voru upplýsingar um að A hefði endurtekið farið í slíkar skoðanir, m.a. vegna ætlaðra kynferðisbrota gegn henni. Í vottorðinu, sem dagsett er 14. júní 2010, svarar sérfræðingurinn tilteknum spurningum um álitaefnið, en því til viðbótar lagði hún fram við aðalmeðferð málsins, að fyrirlagi sakflytjenda, undirstöðugögn er vörðuðu málefni stúlkunnar. Í þessum síðastnefndu gögnum er m.a. sagt frá því að A hafi farið í ófrjósemisaðgerð [...] og enn fremur að hún hafi haft viðvarandi kviðverki, sbr. áðurrakið vottorð H heimilislæknis. Um síðastnefnda atriðið segir í sjúkradagbók frá [...]: ,,... álít verki stúlkunnar vera tengda kviðveggnum og reyndar virðist hún öll hálf aum og ómöguleg og kann ég ekki skýringu á því en spurning er hvort þetta er eitthvað tengt hennar andlega ástandi.“ Nefndur sérfræðingur greindi frá því fyrir dómi að Ó kvensjúkdómalæknir hefði skoðað A þann [...]og leiðrétti vitnið vottorðið að því leyti, en efni þess er sem hér segir:
„A kom fyrst til mín á stofu í [...], en þá skoðaði ég hana ekki að neðan þar sem kvartað var um kviðverki og það var engin ástæða til að gera neðanskoðun. Í [...] gerði ég neðanskoðun og segi þá: „Meyjarhaftið er órofið og þar að auki með streng sem liggur aðeins til vinstri við miðlínu frá fram og yfir að afturveggnum.“ Í skoðun [...]segi ég: „Ytri kynfæri líta eðlilega út. Meyjarhaftið er órofið og fæ að setja inn fingur varlega, það er ekkert óeðlilegt að finna.“ Næsta skoðun er gerð [...]. Skoðunin er gerð í svæfingu að beiðni Í barnalæknis og skoðaði hún A ásamt mér. Í niðurstöðu segir: „Á ytri kynfærum er ekkert óeðlilegt að sjá, hymen hringurinn er órofinn en gefur ágætlega eftir þegar sett er upp lítið speculum.“ Næsta skoðun er [...]og þar segir: „VVP eðlilegt að sjá.“ Skammstöfunin VVP þýðir vulva, vagina og portio eða ytri kynfæri, leggöng og legháls lítur eðlilega út. Í þeirri skoðun geri ég leggangaómun og þarf þá að setja upp staut sem er ca. 2 cm í þvermál og gekk það greiðlega.“ Lokaorð vottorðsins eru þessi: „Samkvæmt ofannefndri beiðni frá saksóknara fæ ég A til mín til skoðunar þann [...] og er skoðunin framkvæmd í viðurvist É ljósmóður og hefst kl. 13:10 og lýkur kl. 13:15. Ytri kynfæri A líta eðlilega út og er meyjarhaftshringurinn órofinn en framan til við hliðina á þvagrásinni vinstra megin er örlítil ójafna sem væntanlega er eftirstöðvar að strengnum sem ég lýsi í skoðuninni [...]en hann er að öðru leyti ekki til staðar. Neðsti hluti legganga lítur eðlilega út og er eðlilegur þegar ég þreifa. Leggangaopið og meyjarhaftshringurinn gefa mjög vel eftir og er það engin fyrirstaða. Frekari skoðun ekki gerð.
Svör mín við ofangreindum spurningum eru eftirfarandi:
1. Hvort meyjarhaft hennar sé nú rofið? Nei ekki sést rof í meyjarhafti.
2. Hvort staðsetning meyjarhaftsins sé að einhverju leyti óeðlilegt? Nei meyjarhaftið er á réttum stað og lítur eðlilega út.
3. Hvort einhverjar þær ástæður séu fyrir hendi sem leiði til þess að það rofni ekki eins greiðlega og almennt gerist? Leggangaop og meyjarhaftshringur konunnar er mjög mjúkt og teygjanlegt. Meyjarhaftið rofnar ekki hjá öllum konum við fyrstu samfarir og rofnar þá oftast ekki heldur fyrr en við fæðingu barns. Ekki þarf frekari skýringar við.“
Vitnið O kvensjúkdómalæknir staðfesti efni ofanrakins vottorðs, en einnig færslur í sjúkradagbók og undirstöðugögn varðandi stúlkuna A. Vitnið útskýrði efni nefndra gagna og áréttaði að tilefni skoðana á stúlkunni í [...]líkt og í [...]hefði verið kvartanir hennar um kviðverki og þá hvort að skýringa væri að leita til innri kvenlíffæra. Vitnið bar að ástæða nefndra skoðana hefði einnig verið vangaveltur móður stúlkunnar um að hún hefði mátt þola kynferðislega áreitni og minntist þess að nafn ákærða hefði í því sambandi verið nefnt. Um niðurstöður kvenskoðunarinnar vísaði vitnið til efnis vottorðsins, þ.e. að meyjarhaftið hefði verið órofið, en þar um vísaði það einnig til tilvistar tilgreinds strengs. Nánar um niðurstöðuna bar vitnið að eftir skoðunina [...] hefði það talið ólíklegt að samfarir hefðu verið hafðar við stúlkuna, þ.e. að limur hefði farið í leggöng hennar, þó svo að ekki væri unnt að útiloka slíkt með öllu, a.m.k. ekki 100%. Vitnið rökstuddi niðurstöðuna frekar og vísaði til þess að á fósturstigi sé himna fyrir leggangaopi er opnist með eðlilegum hætti, en eftir geti verið mismunandi leifar af himnunni. Nefndur strengur sé úr sama efni og meyjarhaftið og geti því verið teygjanlegur en einnig horfið af sjálfu sér. Vitnið áréttaði að strengurinn hefði verið til staðar við skoðun þess í [...]og því hefði verið talið afskaplega ólíklegt að A hefði haft samfarir og þá ekki endurteknar samfarir. Vitnið bar að við skoðun þess ári síðar, í [...], hefðu einnig verið uppi grunsemdir um ósæmilegt athæfi gagnvart stúlkunni. Vitnið bar að í þeirri skoðun hefði fyrrnefndur strengur klárlega verið farinn, en af þeim sökum hefði vitnið ályktað að samræði hefði verið haft við stúlkuna eftir að það skoðaði hana [...]. Að því leyti áréttaði vitnið fyrrgreindan fyrirvara, en vísaði einnig til þess að við síðustu kvenskoðunina þann [...] hefði A enn verið með órofið meyjarhaft.
Vitnið Ó kvensjúkdómalæknir staðfesti efni vottorðs fyrrnefnds kvensjúkdómalæknis að því leyti að það kvaðst hafa skoðað A þann [...]. Vitnið bar að tilefni skoðunar þess hefði verið tilvísun frá barnalækni vegna svima og annarra einkenna en einnig vegna blæðinga og útferðar. Vitnið bar að ekkert óeðlilegt hefði komið fram við skoðunina. Meyjarhaftið hefði m.a. verið órofið. Við skoðunina kvaðst vitnið ekki hafa haft vitneskju um að grunsemdir hefðu verið um kynferðislegt ofbeldi gagnvart stúlkunni, en það kvaðst hafa spurt stúlkuna um hvort hún hefði lifað kynlífi og bar að hún hefði svarað því neitandi. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort slímhúðarstrengur hefði verið til staðar við skoðunina, en það kvaðst hins vegar ekki hafa dregið orð stúlkunnar í efa. Vitnið lét það álit í ljós að langlíklegast væri að sá strengur sem hér um ræðir hefði rofnað við samfarir, líkt og meyjarhaftið sjálft, þrátt fyrir að það sé ekki algilt, sérstaklega ef haftið er mjög teygjanlegt.
Vitnið M sálfræðingur staðfesti vottorð sitt fyrir dómi frá 9. nóvember 2009 um ákærða. Vitnið áréttaði það mat sitt að minni ákærða væri harla gott og lét það álit í ljós að ekki væru merki um að það væri skert vegna lyfjanotkunar hans. Vitnið lét einnig það álit í ljós að ákærði gerði sér grein fyrir gjörðum sínum.
Vitnið N staðfesti áðurrakið vottorð um ákærða. Vitnið sagði að vafalaust væri að ákærði væri ábyrgur gjörða sinna og hefði verið það þrátt fyrir áralangan geðlægðarsjúkdóm. Vitnið sagði að ákærði tæki inn lyf vegna þessa en bar að þau hefðu ekki áhrif á minni hans. Vitnið sagði að ákærði hefði rætt um innilokunarkennd í kjölfar tímabundinnar fangelsisvistar á lögreglustöð við upphaf rannsóknar máls þessa. Vitnið bar að slík kennd væri einstaklingsbundin. Í verstu tilfellum væri um sjúklegt ástand að ræða, en það ætti þá ekki að leynast leikmönnum.
Vitnið R heilsugæslulæknir gaf skýrslu fyrir dómi en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans.
Vitnið U, löglærður fulltrúi lögreglustjóra, kvaðst hafa komið að rannsókn málsins á frumstigi. Hann lýsti rannsókninni að nokkru og bar m.a. að rannsóknaraðilar hefðu talið nauðsynlegt að framkvæma húsleit í húsakynnum ákærða. Hann kvaðst hafa þekkt til ákærða á yngri árum og hafi hann ákveðið að fara með húsleitareyðublað til hans í fangaklefa. Það kvaðst hann hafa gert daginn eftir handtöku ákærða, að hann ætlaði um miðjan dag. Vitnið bar að ákærði hefði legið fyrir þegar hann kom í klefann og strax farið að ræða um ákæruefnið, en með óljósum orðum. Að auki hefði ákærði rætt um vanlíðan sína í kjölfar skilnaðar á [...], en auk þess hefði hann kvartað um innilokunarkennd. Hann kvaðst hafa borið upp erindið og bar að ákærði hefði strax ritað undir húsleitarheimildina. Hann kvaðst ekkert hafa rætt við ákærða um ákæruefnið, einungis ráðlagt honum að segja sannleikann. Hann hafi því aldrei hótað ákærða gæsluvarðhaldi.
Fyrir dómi leiðrétti vitnið ritvillu á nefndu eyðublaði, en þar hefði dagsetningin átt að vera [...]en ekki [...].
Á rannsóknarlögreglumaður staðfesti framlögð rannsóknargögn lögreglu fyrir dómi. Vitnið bar að ákærði hefði komið eðlilega fyrir við skýrslutökur, m.a. þann 20. maí 2009. Hann hafi þannig gefið skýrslu í viðurvist verjanda síns, líkt og við síðari skýrslugjöf, og bar að hann hefði fyllilega virst vera áttaður á stund og stað, en um þetta vísaði vitnið m.a. til framlagðs hljóðdisks af skýrslutökunum.
Vitnið Z, sérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti fyrir dómi rannsóknargögn, m.a. upplýsingaskýrslu um innihald haldlagðra muna á heimili ákærða þann 19. maí 2009 og lýsti hann auk þess rannsókninni að nokkru.
III.
Af hálfu ákæruvalds er ákæra í máli þessu einkum reist á frásögn systkinanna A og B um að ákærði hafi gerst sekur um þá refsiverðu háttsemi sem þar er lýst í I. kafla. Einnig er ákæran reist á sérfræðivottorðum og framburði vitna.
Af hálfu skipaðs verjanda ákærða er í greinargerð um sýknukröfu einkum vísað til sönnunarskorts, sem ákæruvaldið verði að bera hallann af, samkvæmt grunnreglum opinbers réttarfars, sbr. ákvæði XVI. kafla laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. Er m.a. á það bent að ákærði hafi staðfastlega neitað sök og verið sjálfum sér samkvæmur í framburði sínum. Frásögn A og B hafi aftur á móti enga eða takmarkaða stoð í framburði annarra vitna eða öðrum gögnum, en auk þess séu skýrslur þeirra um margt reikular og óskýrar. Þá sé til þess að líta við mat á sönnunargildi framburðar þeirra að þau hafi m.a. átt við greindarskerðingu að stríða og hafi svo verið löngu áður en hin ætluðu brot eigi að hafa gerst.
IV.
Fyrir dómi hefur ákærði alfarið neitað þeim ásökunum sem á hann eru bornar í ákæru. Að því leyti er framburður ákærða í verulegri mótsögn við lögregluskýrslu sem hann gaf daginn eftir handtöku þann 20. maí 2009, en einnig lögregluskýrslu sem hann gaf þann 24. september sama ár.
Ákærði hefur við meðferð málsins greint frá búsetu sinni á því tímabili sem ákæran tekur til. Hann var á árunum [...] til [...] búsettur, ásamt þáverandi eiginkonu sinni, að [...], en fluttist [...] í [...] húsið að [...]. Þar bjó hann á árunum [...] til [...] í sambýli við bróður sinn, vitnið F, föður systkinanna A og B.
Ágreiningslaust er að ákærði var á árinu [...] skráður eigandi [...] bifreiðarinnar [...], en einnig [...] bifreiðarinnar [...].
Fyrir liggur að ákærði var í miklum samskiptum við nefnd systkinabörn sín, en þó sérstaklega A, þegar hún var búsett að [...], frá [...] til [...]. Þess utan var stúlkan líkt og bræður hennar í reglulegri umgengni á heimili föður þeirra.
Framlögð gögn um systkinin A og B greina m.a. frá því að þau hafa frá barnsaldri átt við verulega atferlis- og félagserfiðleika að stríða. Er svo einnig farið með yngsta drenginn, E. Samkvæmt sérfræðigögnum var A greind með væga þroskaskerðingu, með heildargreindarvísitölu [...], en samkvæmt vottorði I samsvaraði vitsmunaleg staða hennar í ársbyrjun 2010 aldursskeiði á bilinu [...] til [...] ára. Samkvæmt skýrslu J sálfræðings frá árinu 2009 mældist greind B á bilinu [...]-[...].
Við meðferð málsins hefur ákærði borið að hann hafi haft vitneskju um þroskahömlun A, en einnig að B var í [...].
Það er mat dómsins eftir að hafa heyrt og séð systkinin bera vitni að ákærða hafi ekki getað dulist að þau ættu við andlega annmarka að stríða.
Af gögnum og vætti vitna, þar á meðal Æ og D, starfsmanna [...], og C, móður nefndra systkina, verður helst ráðið að þau hafi fyrst skýrt frá ætluðum brotum ákærða og annarra náinna ættmenna sinna í byrjun árs [...]. Liggur fyrir að málefnið kom fyrst til kasta starfsmanna barnaverndar í mars það ár og var A í framhaldi af því færð í kvenskoðun á kvennadeild [...], þann [...]. Samkvæmt læknisvottorði O kvensjúkdómalæknis og vitnisburði hennar fyrir dómi var meyjarhaft stúlkunnar órofið við skoðunina, en að auki voru í leggangaopinu slitrur af fósturhimnu, svonefndur strengur. Samkvæmt vætti nefnds læknis var tilefni skoðunarinnar m.a. orð móður stúlkunnar um að hún hefði mátt þola kynferðislega háttsemi. Vitnið kvaðst hafa ályktað, eftir kvenskoðunina, að afskaplega ólíklegt hefði verið að samfarir hefðu verið hafðar við A, en þar um vísaði vitnið ekki hvað síst til tilvistar nefnds strengs. Vitnið bar að þó væri ekki hægt að útiloka það algerlega vegna teygjanleika strengsins og meyjarhaftsins.
Samkvæmt gögnum fór A í ófrjósemisaðgerð í lok [...], en hún hafði þá haft orð á því að hún væri barnshafandi. Er þetta reyndist ekki á rökum reist og eftir að niðurstaða nefndrar kvenskoðunar lá fyrir vorið [...] var mál hennar af hálfu barnaverndarnefndar látið niður falla um hríð, en viðvarandi stuðningur og tilsjón höfð með heimili hennar. Þá liggur fyrir að á næstu misserum fór A í endurteknar kvenskoðanir. Var hún í [...] skoðuð af Ó kvensjúkdómalækni, en í apríl 2008 og júní 2010 var hún á ný skoðuð af O. Í öllum þessum læknisskoðunum reyndist meyjarhaftið órofið. Samkvæmt vætti Ó svaraði A spurningu vitnisins neitandi um að hún væri farin að lifa kynlífi. Vitnið O kvaðst hafa ályktað, eftir skoðunina [...], að haft hefði verið samræði við A, enda hefði fyrrnefndur strengur þá ekki verið til staðar. Þar um vísaði vitnið þó til fyrri orða og fyrirvara um teygjanleika meyjarhaftsins.
Samkvæmt gögnum og framburði D, forstöðumanns [...], skýrði B frá því, í samtali þeirra í lok [...], að hann hefði orðið vitni að því að ákærði hefði í eitt skipti haft samræði við systur hans, en einnig að hann hefði verið neyddur til slíkra athafna.
Samkvæmt frásögn barnaverndarstarfsmanna var tilefni þess að A og yngri bræður hennar fóru í könnunarviðtal í Barnahús [...] grunsemdir [...]. Liggur fyrir að systkinin greindu frá því í viðtölum sínum að þau hefðu mátt þola kynferðislega hegðan af hálfu ákærða, en einnig annarra náinna ættmenna sinna. Vegna þessara orða hófst lögreglurannsókn málsins.
Sakarmat í máli þessu ræðst fyrst og fremst af mati á sönnunargildi framburðar ákærða og vitna fyrir dómi, auk fyrrnefndra sérfræðivottorða. Eru ákæruliðir málsins reistir á frásögn A og B fyrir dómi þann 9. júní 2009 og við aðalmeðferð málsins, en einnig á öðrum vitnaframburði og sérfræðivottorðum.
Af vitnisburði A og B, en einnig yngri bróður þeirra, E, voru kynferðismál þeim almennt nokkuð hugleikin um tíma og var það áhyggjuefni ættingja þeirra og barnaverndarstarfsmanna. Verður að áliti dómsins til þessa að líta við mat á framburði þeirra, en einnig til þeirra sérfræðiskýrslna, sem greina frá þroskaskerðingu, og almennrar vansældar þeirra um áraraðir. Við úrlausn málsins ber og sérstaklega að horfa til þeirra læknisfræðilegu gagna sem aflað var undir rekstri málsins og áður er lýst, ekki síst skýrslna um hinar endurteknu kvenskoðanir og lýsinga á tilvist strengs og órofins meyjarhafts A, þ. á m. í [...].
Að áliti dómsins verður samkvæmt ofangreindu að líta til fötlunar systkinanna A og B við mat á frásögn þeirra við meðferð málsins fyrir dómi. Er til þess að líta að þau svöruðu á köflum fyrst eftir að leiðandi spurningum hafði verið beint til þeirra um ætlað athæfi ákærða og ákæruefni málsins. Frásögn systkinanna var aftur á móti einlæg og á köflum skilmerkileg. Einnig er verulegur samhljómur með þeim og að hluta er frásögn þeirra í samræmi við framburð yngri bróður þeirra, E. Frásögn systkinanna hefur auk þess nokkurn stuðning af skýrslum og vætti þeirra sérfræðinga og álitsgjafa er komu að málum þeirra, þar á meðal eftir að kært var til lögreglu.
Þykir að ofangreindu virtu ekkert fram komið sem gefur tilefni til að efast um trúverðugleika framburðar A og B. Verða einstakir liðir metnir með hliðsjón af þessu.
Líkt og hér að framan var rakið neitaði ákærði við þingfestingu og síðar við aðalmeðferð þeim sökum sem á hann eru bornar og tilgreindar eru í ákæru. Fyrir dómi hefur ákærði staðhæft að hann hafi við fyrri yfirheyrslu sína hjá lögreglu, þann 20. maí 2009, ranglega játað á sig kynferðislega hegðan gagnvart A. Hefur ákærði gefið þá skýringu á framburði sínum að hann hafi verið miður sín vegna innilokunarkenndar eftir um sólarhrings fangavist, en einnig hafi spilað þar inn í andleg veikindi hans og samskipti við lögreglufulltrúa fyrir yfirheyrsluna og hótun um frekari vist í fangaklefa á grundvelli gæsluvarðhalds. Nefnd yfirheyrsla var hljóðrituð og var hún að hluta leikin við aðalmeðferð málsins. Viðstaddur lögregluyfirheyrsluna var verjandi ákærða. Ákærði gaf síðari skýrslu sína hjá lögreglu þann 24. september 2009. Aðspurður af rannsakara við þá yfirheyrslu játaði ákærði að hafa sýnt A kynferðislega hegðan og nefndi í því sambandi m.a. kelerí og rofnar samfarir. Yfirheyrslan var mynduð og hljóðrituð, en viðstaddur var sem fyrr verjandi ákærða.
Að virtum vistunargögnum frá [...] og skýrslum rannsóknaraðila fyrir dómi, en einnig sérfræðiskýrslum og vitnisburðum þeirra aðila sem tjáðu sig um geðhagi ákærða, liggur að áliti dómsins ekkert fyrir um að ákærði hafi verið beittur ólögmætum þrýstingi við yfirheyrsluna þann 20. maí 2009. Er í því viðfangi athyglisvert að horfa til þess að við upphaf yfirheyrslunnar greinir hann frá kynferðislegri hegðan sinni gagnvart A og endurtekur það undir lok hennar. Hann neitar aftur á móti alfarið kynferðislegri hegðan gagnvart B. Að áliti dómsins eru skýringar ákærða á afturhvarfi frá framburði hjá lögreglu í ljósi ofangreinds ótrúverðugar.
Verður samkvæmt því við sakarmat um sönnun höfð hliðsjón af skýrslum ákærða hjá lögreglu.
V.
Verður nú vikið að einstökum ákæruliðum.
Ákæruliður 1. A hefur fyrir dómi skýrt frá ætluðu athæfi ákærða gagnvart sér er hún var á aldrinum 12 eða 13 ára í íbúð hans í [...] í samræmi við það sem lýst er í ákæru. Ákærði hefur neitað þessum ásökunum alfarið og m.a. staðhæft að stúlkan hafi á þessum árum aldrei komið á heimili hans og þáverandi eiginkonu án þess að vera í fylgd föður síns.
Um sakaratriði þessa ákæruliðar er í raun ekki við önnur gögn að styðjast en framburð A sjálfrar, en gögn sérfræðinga, þar á meðal þeirra sem komu að málum eftir að kært var til lögreglu, eru þó framburði hennar til styrktar.
Í ljósi ofangreinds, þar á meðal þeirra læknisfræðilegu gagna sem áður voru rakin, sérstaklega þess að strengur í meyjarhafti var ekki rofinn fyrr en síðar, ályktunar sem O kvensjúkdómalæknir dró af því, svo og þegar sakargögn eru virt heildstætt, þykir gegn eindreginni neitun ákærða ákæruvaldinu ekki hafa tekist að færa fram nægjanlega sönnun um sök hans samkvæmt þessum ákærulið sem ekki verður véfengd með skynsamlegum rökum, sbr. 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. Er því skylt að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
Ákæruliður 2. A hefur fyrir dómi skýrt frá ætluðu athæfi ákærða gagnvart sér í ökutæki hans í samræmi við það sem lýst er í ákæru. Hafi hún er atvik gerðust verið búsett á heimili föður síns að [...]. Frásögn bróður stúlkunnar, B, fyrir dómi er í verulegum atriðum í samræmi við lýsingu hennar, en hann bar að við sögu hefði komið [...]bifreið ákærða, [...]. Nefndi hann sérstaklega að ákærði hefði fengið þau systkinin til að reykja og sagði að ákærði hefði þvingað þau systkinin til þess athæfis. Var greinilegt að pilturinn leit þann verknað ákærða mjög alvarlegum augum og lagði það jafnvel að jöfnu við hið lýsta athæfi í ákæru. Þá kvaðst hann hafa heyrt frásögn systur sinnar um að ákærði hefði endurtekið hina kynferðislegu háttsemi við A og kvaðst hann hafa lagt trúnað á orð hennar.
Í skýrslu sinni hjá lögreglu 20. maí 2009 kvaðst ákærði minnast þess að hafa farið með A í ökuferð og sagði að þá hefðu þau einnig farið í gönguferð á víðavangi. Hefði þetta gerst að sumarlagi og minntist hann þess að þau hefðu í þessari ferð fengið sér að reykja, en í framhaldi af því kvaðst hann hafa kysst stúlkuna. Um nánari atvik vísaði ákærði til minnisleysis og þá um það hvort að hann hefði haft við stúlkuna samræði.
Fyrir dómi neitaði ákærði sakarefninu alfarið. Hann kvað A, líkt og bróður hennar B, á [...] stundum hafa fengið að koma í ökutæki hans [...]. Bar hann að þá hefðu þau verið að aðstoða hann við efnisflutning vegna viðgerða á [...] húseigninni í [...]. Sagði ákærði að hann hefði ekki notað ökutækið til annars og vísaði til framlagðrar ökutækjaskrár um að bifreiðin hefði ekki verið á skrá nema skamman tíma [...]. Ákærði staðhæfði að frásögn hans hjá lögreglu væri misminni að öllu leyti, en þar hefði komið til upprifjun hans um alls óskylda hluti.
Eins og áður hefur verið rakið var [...]bifreiðin [...] aðeins í eigu ákærða á vormánuðum [...] samkvæmt ökutækjaskrá.
Samkvæmt áðurröktu vottorði kvensjúkdómalækna hefur A á liðnum árum endurtekið farið í kvenskoðanir. Við síðustu skoðun sem gerð var á stúlkunni þann 12. júní sl. var meyjarhaft hennar órofið. Segir frá því í vottorðinu að við kvenskoðun í [...]hafi auk meyjarhafts stúlkunnar verið til staðar stengur. Fyrir dómi lét O kvensjúkdómalæknir það álit í ljós að vegna þessa strengs væri mjög ólíklegt að haft hefði verið samræði við A og þá ekki endurteknar samfarir.
Að virtum nefndum gögnum, ekki síst hinum læknisfræðilegu, og þar sem frásögn A og B er að áliti dómsins ekki alveg eindregin eða nákvæm, þykir varhugavert að áliti dómsins að telja sannað gegn neitun ákærða að hann hafi viðhaft það athæfi sem hann er sakaður um í þessum ákærulið. Ber því að sýkna hann af sakarefninu.
Ákæruliðir 3 og 4. Í yfirheyrslum hjá lögreglu þann 20. maí og 24. september 2009 skýrði ákærði frá því að hann hefði haft samræði við A á [...]hæðinni í íbúð föður hennar að [...] á árunum [...] og [...]. Nefndi ákærði í því sambandi að hann hefði m.a. viðhaft rofnar samfarir. Nánar um háttsemina og um aðra kynferðislega hegðan gagnvart stúlkunni bar ákærði við minnisleysi, þar á meðal hvort að hann hefði viðhaft munnmök við hana. Þá kannaðist hann ekki við annað það athæfi sem lýst er í b- og c-lið 4. og 5. töluliðar ákærunnar.
Fyrir dómi hafa A og B lýst tilviki þar sem þau voru með ákærða í [...] í nefndri húseign. Frásögn þeirra beggja er ýtarleg um athæfi ákærða gegn þeim, en einnig um eigin líðan. Lýsing þeirra er í samræmi við sakarefni 4. og 5. ákæruliðs. Að áliti dómsins er frásögn þeirra um þessi samskipti við ákærða trúverðug. Er atvik gerðust ætlaði A að hún hefði verið 16 eða 17 ára, en B taldi að hann hefði verið 14 eða 15 ára. Vitnisburður E er í samræmi við frásögn systkina hans að öllu verulegu.
Samkvæmt áðurnefndu vottorði kvensjúkdómalækna var meyjarhaft A órofið við síðustu skoðun sem gerð var þann 12. júní sl. Í vottorðinu er greint frá því að við kvenskoðun stúlkunnar í [...]hefði verið til staðar auk meyjarhaftsins umræddur stengur, en að hann hafi verið horfinn þegar skoðun var endurtekin í [...]. Fyrir dómi lét O kvensjúkdómalæknir það álit í ljós að hafðar hefðu verið samfarir við stúlkuna eftir að vitnið skoðaði hana [...].
Vitnisburður, þar á meðal sérfróðra aðila, dregur ekki úr trúverðugleika systkinanna um að alvarlegir atburðir af því tagi sem þau lýsa hafi gerst í lífi þeirra og að þau hafi af þeim sökum orðið fyrir andlegu áfalli. Þessi gögn ber þó að meta í því ljósi að fyrir liggur að fleiri en ákærði hafa verið bornir sökum um brot gegn A.
Það er álit dómsins þegar framangreint er virt í heild að ekki sé varhugavert að leggja framburð systkinanna A og B til grundvallar um að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi, sem lýst er í þessum ákæruliðum og þannig brotið gegn þeim. Í ákæru er miðað við að brot ákærða hafi gerst á árabilinu [...] til [...]. Ljóst er að vegna fötlunar systkinanna er tímaskyn þeirra ekki glöggt. Að virtum gögnum er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi viðhaft greinda háttsemi á tímabili sem markast af læknisskoðunum á stúlkunni annars vegar [...], hins vegar [...].
Sú háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt ofangreindu er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæruskjali.
Ákæruliður 5. Við rannsókn lögreglu á sakarefni II. kafla ákæru var við húsleit á heimili ákærða lagt hald á þær tölvur og tölvubúnað sem lýst er í þessum lið. Við nánari rannsókn á búnaðinum kom í ljós að þar var að finna m.a. klámmyndir af börnum og unglingum, en einnig myndaseríur sem sýna m.a. samfarir við börn og unglinga.
Við meðferð málsins hefur ákærði neitað sök, en kannast við að hafa tekið við disklingum, m.a. frá látnum félaga sínum. Kvaðst hann hafa gert sér grein fyrir að á meðal efnis á disklingunum var barnaklám. Kvaðst hann hafa hlaðið efni þeirra inn á tölvur sínar í sérstakar möppur með það í huga að vinsa síðar úr því nýtilegt efni, en ætlan hans hafi verið að henda öllu klámefni síðar.
Fyrir dómi hefur T tölvusérfræðingur lýst rannsókn lögreglu á tölvubúnaði ákærða og staðfesti hann m.a. þann fjölda myndefnis sem lýst er í þessum lið ákæru.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir sannað að ákærði hafi haft í sinni vörslu það barnaklámefni sem hér um ræðir og fannst við húsleit hjá honum. Verður ákærði því, þrátt fyrir neitun hans, fundinn sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir í þessum lið, að því frátöldu að ekki þykir sannað að hann hafi aflað sér myndefnisins af internetinu.
Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæruskjali.
VI.
Ákærði, sem er [...] ára, hefur hreinan sakaferil. Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot. Með háttsemi sinni braut ákærði gegn fötluðum bræðrabörnum sínum, sem hann hafði mikil samskipti við á heimili þeirra og hafði auk þess verið trúað fyrir. Þá hefur hann verið sakfelldur fyrir vörslur á miklu magni af barnaklámmyndum.
Brotin sem ákærði er sakfelldur fyrir eru alvarlegs eðlis. Ber að tiltaka refsingu samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun hennar ber að líta til 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og virða til refsiþyngingar að ákærða var ljóst að ungmennin áttu við erfiðleika að stríða. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma ákærða til þess að þola upptöku á grárri turntölvu af gerðinni AMD með tveimur hörðum diskum, öðrum 160 GB og hinum 120 GB, og fartölvu af gerðinni Dell með 40 GB hörðum diski.
Í málinu eru hafðar uppi bótakröfur, sem getið er í ákæru og voru reifaðar og rökstuddar við munnlegan málflutning. Er í báðum tilvikum krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Ákærði hefur bakað sér bótaskyldu samkvæmt þessu ákvæði gagnvart nefndum ungmennum, A og B. Við ákvörðun bóta verður litið til þess að fyrir liggur vottorð sálfræðinga og fleiri gögn sem benda til þess að þau hafi orðið fyrir verulegri tilfinningaröskun og andlegum þjáningum sem verði a.m.k. að einhverju leyti raktar til brota ákærða. Var verknaður ákærða til þess fallinn að auka enn á vanda þeirra í lífinu. Ákveðast miskabætur að þessu virtu til A 1.500.000 krónur, en B 1.000.000 krónur, líkt og krafist er, í báðum tilvikum með vöxtum eins og þeir nánar eru greindir í dómsorði. Upphafstími dráttarvaxta er ákveðinn samkvæmt reglu 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Ákærða voru birtar bótakröfurnar þann 19. nóvember 2009.
Ákæruvaldið hefur í málinu gert kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar málsins, sem samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti nemur 336.800 krónum. Að auki er um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sbr. ákvæði 218. gr. laga nr. 88, 2008. Verður við ákvörðun launanna m.a. litið til umfangs málsins og starfa hinna skipuðu lögmanna við alla meðferð þess, sbr. og sundurliðaðra skýrslna þar um, en einnig ber að líta til þeirra sjónarmiða sem fram koma t.d. í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 290/2000 um hlutverk réttargæslumanna.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærða til að greiða helming sakarkostnaðar, þ.m.t. helming réttargæslu- og málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, sem í heild ákvarðast 843.750 krónur, og helming málflutningsþóknunar réttargæslumanns, Arnbjargar Sigurðardóttur héraðsdómslögmanns, sem í heild ákvarðast 337.500 krónur. Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.
Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ólafur Ólafsson sem dómsformaður, Erlingur Sigtryggsson og Þorsteinn Davíðsson.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár.
Ákærði sæti upptöku á grárri turntölvu af gerðinni AMD með tveimur hörðum diskum, öðrum 160 GB og hinum 120 GB, og fartölvu af gerðinni Dell með 40 GB hörðum diski.
Ákærði greiði A, kennitala [...], 1.500.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. maí 2008 til 19. desember 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B, kennitala [...], 1.000.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. maí 2008 til 19. desember 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði helming sakarkostnaðar, þ.m.t. helming réttargæslu- og málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, sem í heild ákvarðast 843.750 krónur, og helming málflutningsþóknunar réttargæslumanns, Arnbjargar Sigurðardóttur héraðsdómslögmanns, sem í heild ákvarðast 337.500 krónur. Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.