Hæstiréttur íslands

Mál nr. 269/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skuldabréf
  • Traustfang
  • Viðskiptabréf


                                     

Mánudaginn 20. apríl 2015.

Nr. 269/2015.

Dragon eignarhaldsfélag ehf.

(Björn Jóhannesson hrl.)

gegn

Bryndísi Guðmundsdóttur

(Guðbjarni Eggertsson hrl.)

Kærumál. Fjárnám. Skuldabréf. Traustfang. Viðskiptabréf.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu D ehf. um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að stöðva framkvæmd fjárnáms hjá B. Var fjárnámsbeiðnin studd við skuldabréf sem B hafði gefið út til G, en bréfið var síðar framselt til D ehf. Deildu aðilar um hvort B og G hefðu samið um að gera skuld samkvæmt bréfinu endanlega upp með tiltekinni greiðslu en bréfið var ekki áritað um hana. Hélt D ehf. því fram að enginn slíkur samningur hefði verið gerður og B stæði því enn í skuld vegna bréfsins. Talið var að fyrirliggjandi tölvupóstsamskipti milli G og B gæfu til kynna að þau hefðu litið svo á að skuldabréfið hefði með umræddri greiðslu verið að fullu greitt. Þá var talið að þar sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður D ehf. væri maki G, yrði að ganga út frá því að D ehf. hefði einnig verið grandsamt um atvik sem G var kunnugt um og yrði það því að sæta mótbáru B.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. ágúst 2014 um að stöðva framkvæmd fjárnáms, sem sóknaraðili krafðist að gert yrði hjá varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að halda gerðinni áfram. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til þess að sóknaraðili krafðist með beiðni, sem barst sýslumanni 2. júní 2014, að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila fyrir skuld að fjárhæð samtals 1.865.166 krónur. Beiðnin var studd við skuldabréf, sem varnaraðili gaf út til Gunnars Árnasonar 30. júní 2007 og var upphaflega að fjárhæð 7.300.000 krónur bundið vísitölu neysluverðs, en greiða átti þá fjárhæð í einu lagi ásamt 5% ársvöxtum á gjalddaga 1. júlí 2012. Í skuldabréfinu var jafnframt mælt fyrir um heimild kröfuhafa til að leita fjárnáms fyrir kröfu samkvæmt því án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Óumdeilt er að samkomulag tókst í maí 2008 milli varnaraðila og Gunnars um að lækka fjárhæð kröfu samkvæmt skuldabréfinu í 2.500.000 krónur, sem varnaraðili myndi greiða í tvennu lagi, annars vegar 1.500.000 krónur 4. júní 2008 og hins vegar 1.000.000 krónur 31. desember sama ár. Þá er óumdeilt að varnaraðili innti af hendi fyrri greiðsluna, en ágreiningur er um hvernig farið hafi um þá síðari. Varnaraðili heldur því fram að hún hafi í september 2008 samið við Gunnar um að gera skuldina endanlega upp með greiðslu á 700.000 krónum, sem hún hafi svo gert 15. sama mánaðar. Sóknaraðili ber því á hinn bóginn við að enginn slíkur samningur hafi verið gerður og standi varnaraðili þannig enn í skuld vegna skuldabréfsins sem þessu nemi, en sóknaraðili kveðst hafa fengið skuldabréfið framselt úr hendi Gunnars 1. september 2013.

Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá um sóknaraðila er Hlédís Sveinsdóttir allt í senn stjórnarmaður í félaginu, framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Í málatilbúnaði varnaraðila er vísað til þess að Hlédís sé maki áðurnefnds Gunnars Árnasonar og er ekki að sjá að ágreiningur standi um það. Við úrlausn málsins verður að ganga út frá því að Hlédís og sóknaraðili þar með einnig sé vegna þessara tengsla grandsamur um atvik, sem upphaflegum eiganda skuldabréfsins var kunnugt um. Getur sóknaraðili því ekki unnið rétt gagnvart varnaraðila á grundvelli meginreglna fjármunaréttar um viðskiptabréf. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðili hafi fært slík rök að því að Gunnar hafi sem eigandi skuldabréfsins tekið við fullnaðargreiðslu á því í september 2008 að varhugavert verði talið að láta fjárnám ná fram að ganga á grundvelli þess. Samkvæmt framansögðu verður sóknaraðili að sæta mótbáru varnaraðila á þessum grunni þótt skuldabréfið beri ekki með sér tilefni hennar. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Dragon eignarhaldsfélag ehf., greiði varnaraðila, Bryndísi Guðmundsdóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2015.

I

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 17. febrúar sl. Sóknaraðili er Dragon eignarhaldsfélag ehf., Naustabryggju 36, Reykjavík, en varnaraðili er Bryndís Guðmundsdóttir, Mávahlíð 41, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 13. ágúst 2013 um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2014-07445 og að lagt verði fyrir sýslumann að gerðinni verði fram haldið. Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað.      

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað en til vara að krafa sóknaraðila, sem beðið er um að fullnægt verði með aðfarargerð, verði lækkuð. Þá gerir varnaraðili kröfu um málskostnað.

II

Málavextir

Hinn 30. júní 2007 gaf varnaraðili út skuldabréf að fjárhæð 7.300.000 krónur til fyrrum sambýlismanns síns, Gunnars Árnasonar, í tengslum við sambúðarslit þeirra. Skuldina átti að greiða í einu lagi þann 1. júlí 2012. Þann 28. maí 2008 sömdu varnaraðili og Gunnar hins vegar um að skuldin lækkaði niður í 2.500.000 krónur sem skyldu greiðast með tveimur afborgunum, 1.500.000 krónur 4. júní 2008 og 1.000.000 króna 31. desember sama ár. Fyrri afborgunin var innt af hendi á umsömdum gjalddaga og er frumrit skuldabréfsins áritað um þá greiðslu. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að Gunnar hafi haft símasamband við hana í september 2008 og boðið henni að greiða 700.000 krónur strax sem lokagreiðslu skuldabréfsins í stað þeirrar greiðslu sem samið hefði verið um að innt yrði af hendi í lok desember sama ár. Hún hafi samþykkt það og lagt þá fjárhæð inn á bankareikning Gunnars hinn 15. september 2008. Sé skuldin því að fullu greidd. Sóknaraðili segir Gunnar ekki kannast við að hafa gert umrætt samkomulag í september 2008 og kveður að greiðslan í september hafi ekki verið vegna skuldabréfsins heldur annarra viðskipta hans og varnaraðila.

Í byrjun árs 2013 sendi Gunnar sýslumanninum í Reykjavík aðfararbeiðni vegna skuldabréfsins. Sýslumaður tók ákvörðun um að stöðva aðfarargerðina með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 þar sem óvíst væri að Gunnar ætti þau réttindi sem hann krafðist að yrði fullnægt samkvæmt beiðninni en varnaraðili bar því við að skuldabréfið væri að fullu greitt. Gunnar bar ákvörðun sýslumanns undir héraðsdóm en ekki var tekin efnisleg afstaða til hennar þar sem Gunnar lagði ekki fram tryggingu fyrir málskostnaði og því var ágreiningsmálinu vísað frá dómi 16. ágúst 2013. Gunnar framseldi skuldabréfið til sóknaraðila 1. september sama ár. Hinn 26. maí 2014 sendi sóknaraðili sýslumanninum í Reykjavík, beiðni um aðför hjá varnaraðila á grundvelli skuldabréfsins en sýslumaðurinn tók ákvörðun 13. ágúst sama ár um að stöðva þá gerð á sama grunni og fyrri aðfarargerð. Lögmaður sóknaraðila mótmælti ákvörðun fulltrúa sýslumanns og lýsti því jafnframt yfir að ákvörðunin yrði borin undir héraðsdóm með vísan til 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga. 

III

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að hann byggi kröfu sína á aðfararheimild skv. skuldabréfi. Bréfið beri með sér að varnaraðili skuldi sóknaraðila þá fjármuni sem krafa sé gerð um í aðfararbeiðninni. Samkomulag hafi verið gert í maí 2008 um lækkun á skuldabréfinu auk þess sem breytingar hafi verið gerðar á skilmálum þess, sbr. áritun á frumrit bréfsins þar um. Skilyrðum 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, um fjárnám án undangengins dóms eða dómsáttar til tryggingar kröfu samkvæmt skuldabréfi að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sé fullnægt í því máli sem hér um ræði. Sóknaraðili bendir á að frumrit skuldabréfsins beri það með sér að hluti skuldarinnar sé ógreiddur, þ.e. 1.000.000 króna auk vaxta. Fullyrðingar varnaraðila um að hún hafi greitt skuldina fá ekki stoð í efni skuldabréfsins. Varnaraðili verði að bera hallann af því að hafa ekki gengið frá málum með þeim hætti sem hún telur að hafi verið.

Sóknaraðili bendir á að í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 komi fram sú meginregla að mótmæli gerðarþola við fjárnám eigi alla jafnan ekki að stöðva framgang gerðarinnar. Þá verði einnig að hafa í huga að framgangur gerðarinnar sé ætíð á ábyrgð gerðarbeiðanda og því nærtækt að ætla að hann tefli ekki eigin hagsmunum í tvísýnu með því að hafa uppi kröfu sem almennt má telja hæpna. Því til viðbótar sé meginreglan sú að ágreiningi um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda eigi fyrst að ráða til lykta fyrir dómi eftir að gerðinni er lokið. Mikilvægt sé einnig að hafa í huga í þessu sambandi að skuldabréf sé viðskiptabréf og um slík bréf gildi sérstakar reglur s.s. skilríkisreglan og reglur um traustfang.

                Um lagarök vísar sóknaraðili til laga um aðför nr. 90/1989, einkum til 1.-3., 17., 26.-27., 85.-91. gr. laganna. Þá vísar varnaraðili til þeirra meginreglna sem gilda um viðskiptabréf. Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á ákvæðum 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1989.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því að sóknaraðili eigi ekki þá peningakröfu á hendur sér sem hann krefjist fjárnáms fyrir. Að beiðni fyrri eiganda skuldabréfsins, Gunnars Árnasonar, hafi varnaraðili greitt 700.000 krónur sem fullnaðargreiðslu bréfsins í september 2008. Í fyrirliggjandi kvittun, fyrir innborgun hennar inn á bankareikning Gunnars, sé að finna skýringuna „uppgjör íbúð“. Varnaraðili hafi greitt í góðri trú enda samskipti aðila á þessum tíma ágæt. Til frekari staðfestingar á málsatvikum þessum vísar varnaraðili í tölvupóstsamskipti aðila frá október 2008 þar sem varnaraðili óski eftir því að Gunnar staðfesti að lokagreiðsla hafi farið fram. Þar gefi Gunnar ótvírætt til kynna að verið sé að tala um lokuppgjör þessa umrædda skuldabréfs. 

Varnaraðili vísar til þess að framsal Gunnars á skuldabréfinu til sóknaraðila sé eingöngu til málamynda í þeim tilgangi að valda varnaraðila tjóni og óþægindum. Sóknaraðili sé grandsamur um tilurð skuldabréfsins, greiðslur skv. því og samkomulag um greiðslur og fullnaðaruppgjör. Varnaraðili geti haft uppi allar þær mótbárur sem hún hefði getað haft uppi á hendur framseljanda. Gunnar sé viðskiptafræðingur að mennt og hafi samið og útbúið öll skjöl aðila en varnaraðili hafi enga sérfræðiþekkingu eða menntun á sviði fjármálagerninga og viðskiptabréfa. Öll rök bendi til þess að bréfið sé að fullu greitt og séu sóknaraðili og forsvarsmenn félagsins grandsamir um það. Varnir varnaraðila sæti ekki takmörkunum 118. gr. laga nr. 91/1991 þar sem fjárnámsgerð sóknaraðila byggir á 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að skuldabréfið standi eitt og sér og staða þess sé eingöngu í samræmi við efni þess. Reglur um traustfang og skilríkjareglan geti aldrei átt við í tilfellum sem þessum þar sem aðilar framselji sjálfir til félaga í sinni eigu eða nákominna en fyrir liggi að núverandi maki Gunnar sé fyrirsvarsmaður sóknaraðila.

Varakröfu sína byggir varnaraðili á því að fallist héraðsdómur á það með sóknaraðila að hann eigi peningakröfu á hendur varnaraðila eigi að taka tillit til greiðslu á 700.000 krónum við uppgjör aðila og sé því eingöngu um að ræða eftirstöðvar að fjárhæð 300.000 krónur. Þá sé til þrautavara lýst yfir skuldajöfnuði vegna dæmds málskostnaðar, í fyrra dómsmáli vegna skuldabréfsins, sem leiði til þess að sóknaraðili eigi enga kröfu á hendur varnaraðila.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 90/1989 og almennra reglna samninga- og kröfuréttar auk meginreglna um viðskiptabréf. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Niðurstaða

Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfu um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 13. ágúst 2013 um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2014-07445 og að lagt verði fyrir sýslumann að gerðinni verði fram haldið. 

Samkvæmt 7. tl. 1. mgr. laga nr. 90/1989 um aðför má gera aðför til fullnustu kröfum samkvæmt skuldabréfum fyrir ákveðinni peningaupphæð, hvort sem veðréttindi hafa verið veitt fyrir skuldinni eða ekki, þar sem undirskrift skuldara er vottuð af lögbókanda, hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni, löggiltum fasteignasala eða tveimur vitundarvottum, ef berum orðum er tekið fram í ákvæðum skuldabréfsins að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar. Í 2. mgr. 27. gr. sömu laga er kveðið á um að að jafnaði skuli mótmæli gerðarþola ekki stöðva gerðina, nema þau varði atriði, sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum, eða ef sýslumaður telur mótmælin af öðrum sökum valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem hann krefst fullnægt eða að hann eigi rétt á að gerðin fari fram með þeim hætti, sem hann krefst. Með heimild í þessu ákvæði stöðvaði sýslumaður hina umdeildu aðfarargerð. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum kemur m.a. fram að frá þeirri meginreglu að mótmæli gerðarþola gegn framgangi gerðar eigi að jafnaði ekki að stöðva hana séu tilteknar tvær undantekningar. Annars vegar kann gerðarþoli að bera fyrir sig atriði, sem sýslumaður hefði átt að gæta af sjálfsdáðum og hefur látið hjá líða. Hins vegar getur það leitt til ákvörðunar sýslumanns um stöðvun gerðar, ef gerðarþoli ber fram mótmæli, sem valda því að mati sýslumanns að óvíst sé að krafa gerðarbeiðanda sé rétt eða að gerðin megi fara þannig fram, sem gerðarbeiðandi vill. Örðugt að setja fram almenn viðhorf um það, hvenær þessar aðstæður geti talist fyrir hendi, enda verði að gera ráð fyrir að meta þurfi atvik hverju sinni. Sýslumaður verði að nálgast ákvörðun um mótmæli gerðarþola með því hugarfari, að með því að löggjöf kveði á um heimild til aðfarar fyrir kröfu af þeirri gerð, sem gerðarbeiðandi krefst fullnustu á, verði að fyrra bragði að telja kröfuna rétta. Gerðarþoli verði því ekki aðeins að geta dregið í efa að krafa gerðarbeiðanda sé rétt, heldur verður hann að færa rök fyrir því að líklegra sé að hún sé röng en ekki.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu byggist aðfararbeiðni sóknaraðila á skuldabréfi sem varnaraðili gaf út 30. júní 2007 til fyrrum sambýlismanns síns Gunnars Árnasonar í tengslum við skilnað þeirra. Skuldabréfið framseldi Gunnar til sóknaraðila í september 2013. Upphaflega átti skuldin skv. bréfinu að greiðast í einu lagi árið 2012. Aðilar eru á einu máli um að Gunnar og varnaraðili hafi vorið 2008 samið um að greiðslum skv. bréfinu yrði flýtt og skuldin lækkuð niður í 2.500.000 krónur. Átti sú fjárhæð að greiðast með tveimur afborgunum, 1.500.000 krónum 4. júní 2008 og 1.000.000 króna 31. desember sama ár. Fyrri afborgunin var innt af hendi á umsömdum gjalddaga og er frumrit skuldabréfsins áritað um þá greiðslu. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að haustið 2008 hafi hún og Gunnar samið munnlega um að hún skyldi greiða 700.000 krónur sem lokagreiðslu skuldabréfsins. Sóknaraðili segir Gunnar ekki kannast við að hafa gert umrætt samkomulag og kveður að þessi greiðsla hafi ekki verið vegna skuldabréfsins heldur annarra viðskipta hans og varnaraðila.

Í málinu liggur fyrir staðfesting á greiðslu varnaraðila, að fjárhæð 700.000 krónur, inn á reikning Gunnars Árnasonar, þann 15. september 2008. Í reit er ber heitið „mín skýring“ kemur fram „Uppgjör íbúð“. Kemur fram að kvittun vegna innborgunarinnar hafi verið send Gunnari sama dag í tölvupósti.

Í málinu liggja jafnframt fyrir tölvuskeytasamskipti varnaraðila og Gunnars frá 17. október 2008. Þar kemur fram að varnaraðili óskar eftir að fá „staðfestingu á uppgjörinu á lokagreiðslunni“. Í svar Gunnars til hennar kemur m.a. fram að tafir hafi orðið á þessu vegna anna hans „en ég kvitta á afrit af skbr og láti hann hafa núna um helgina-ég hafði áður látið þig hafa öll frumgögn áður, ekki satt?“. Svarar varnaraðili því til að hún minnist þess ekki en það geti vel verið. Í framhaldi af því svari segir Gunnar „ég kanna til öryggis hjá  mér, en mig minnir að frumritið hafi farið til þín um daginn, og ég gaf þér leiðbeiningar um leið að ekki væri nauðsynlegt að aflýsa TRBR“. Gunnar svarar aftur sama þræði í framangreindum tölvuskeytasamskiptum, með skeyti frá 23. október 2008, þar sem fram kemur m.a.: „varstu ekki örugglega búin að fá frumskjölin frá mér? mig minnir það, þegar þú greiddir 1,5 milljón króna greiðsluna-varstu búin að athuga það? ég er búinn að kvitta fyrir lokagreiðslunni og krakkarnir taka það með sér um helgina.“ Að mati dómsins gefa fyrrgreind samskipti ótvírætt til kynna að varnaraðili og Gunnar hafi litið svo á að skuldabréf það sem varnaraðili gaf út til Gunnars í júní 2007 hafi í október 2008 verið greitt að fullu. Styður það staðhæfingar varnaraðila að 700.000 króna greiðsla hennar til Gunnars, í september sama ár, hafi verið lokagreiðsla á skuldabréfinu. Ekki verður séð að aðilar séu að ræða um annað skuldabréf en það sem aðfarabeiðni sóknaraðila byggir á, enda vísar Gunnar til greiðslu varnaraðila að fjárhæð 1.500.000 krónur sem fram fór í júní 2008 í skeyti sínu frá 23. október 2008 til varnaraðila. Hefur sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á að greiðslan í september 2008 hafi verið vegna annarra viðskipta Gunnars og varnaraðila. Í munnlegum málflutningi var af hans hálfu vísað til þess að greiðslan hafi verið vegna skuldabréfs sem varnaraðili hafi gefið út vegna kaupa hennar á helmingi af sameiginlegu innbúi hennar og Gunnars við skilnað þeirra. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu sóknaraðila til stuðnings þeirri síðbúnu skýringu.

Með vísan til framangreinds telur dómurinn að slíkur vafi sé um réttmæti kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu frá 30. júní 2008 að ekki sé fært að gera á grundvelli þess fjárnám án undangengins dóms eða sáttar. Er því kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík hafnað.

Með hliðsjón af framangreindu ber að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Björn Jóhannesson hrl.

Af hálfu varnaraðila flutti málið Guðbjarni Eggertsson hrl.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómara kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, Dragon eignarhaldsfélags ehf., um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 13. ágúst 2014 um að stöðva aðfarargerð nr. 011-2014-07445 og að lagt verði fyrir sýslumann að gerðinni verði fram haldið.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, Bryndísi Guðmundsdóttir, 500.000 krónur í málskostnað.