Hæstiréttur íslands

Mál nr. 628/2008


Lykilorð

  • Hilming
  • Skilorð


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. september 2009.

Nr. 628/2008.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Dagbjarti Eiði Ólasyni

Erlu Ingu Hilmarsdóttur og

Þorfinni Hilmarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Hilming. Skilorð.

D, E og Þ voru sakfelld fyrir hylmingu með því að hafa veitt fé viðtöku sem svikið hafði verið út úr sjóðum Tryggingastofnunar ríkisins. Var refsing D hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði en þar sem D þótti hafa tekist á við fíkniefnavanda sinn var fullnustu þriggja mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið. Þá var E jafnframt dæmd í sex mánaða fangelsi, en með hliðsjón af sakaferli hennar og nýrra upplýsinga um aðstæður hennar þótti rétt að skilorðsbinda refsingu hennar að fullu. Þá var Þ dæmdur í tólf mánaða fangelsi en fullnustu níu mánaða refsingarinnar var frestað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. september 2008 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu en að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu en til vara að refsing þeirra verði milduð og skilorðsbundin.

Fallist er á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að sannast hafi ásetningur allra ákærðu til brots gegn 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð ný gögn um persónulega hagi ákærðu. Með hliðsjón af sakarferli ákærðu Erlu Ingu og þeirra gagna sem hana varða, og sýna að hún stundar nú nám við framhaldsskóla og hefur tekið á vanda sínum vegna fíkniefnaneyslu, þykir með vísan til 57. gr. almennra hegningarlaga rétt að fallast á kröfu um að binda refsingu hennar skilorði svo sem í dómsorði greinir.

Með vísan til gagna um ákærða Dagbjart Eið sem sýna að hann hefur tekist á við fíkniefnavanda sinn þykir mega skilorðsbinda refsingu hans að hluta eins og í dómsorði greinir.

Að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur að því er ákærðu varðar staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærðu verða dæmd til að greiða óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda þeirra fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að því er snertir ákærðu, Dagbjart Eið Ólason, Erlu Ingu Hilmarsdóttur og Þorfinn Hilmarsson, að öðru leyti en því að fresta skal fullnustu allrar fangelsisrefsingar ákærðu Erlu Ingu Hilmarsdóttur en þriggja mánaða af fangelsisrefsingu ákærða Dagbjarts Eiðs Ólasonar og skal hin skilorðsbundna refsing falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 449.955 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

 

DÓMUR:

        Ár 2008, fimmtudaginn 12. júní, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dóm­­­húsinu við Lækjartorg af Jónasi Jóhannssyni, Ásgeiri Magnússyni og Gretu Baldurs­­dóttur héraðsdómurum og dómur kveðinn upp í máli nr. S-252/2008: Ákæru­valdið gegn Rannveigu Rafnsdóttur, X, Önnu Dóru Ólafs­­­­dóttur, Ágústi Jóni Óskarssyni, Ásgeiri Heiðari Stefánssyni, Bryndísi Bjarna­dóttur, Dagbjarti Eiði Ólasyni, Erlu Ingu Hilmarsdóttur, Heiðari Andra Heiðars­syni, Hrafn­­hildi Ýri Þrastar­­­dóttur, Konráði Þór Lárussyni, Y, Svavari Kristjáni Sigurðs­­syni, Tinnu Jensdóttur og Þorfinni Hilmarssyni, sem dóm­­tekið var 14. maí.

        Ríkislögreglustjórinn höfðaði málið með ákæru útgefinni 22. febrúar 2008 á hendur Rann­veigu Rafnsdóttur, kt. 221262-2479, Jórufelli 4, Reykjavík, X [fæddum 1987], Önnu Dóru Ólafs­­­­dóttur, kt. 050383-5719, Baughúsum 8, Reykjavík, Ágústi Jóni Óskarssyni, kt. 200782-5699, Furu­­­grund 42, Kópavogi, Ásgeiri Heiðari Stefánssyni, kt. 281282-5819, Veghúsum 31, Reykjavík, Ásgrími Ragnars, kt. 121077-4509, Hólabergi 4, Reykjavík, Bryndísi Bjarna­dóttur, kt. 210683-5699, Austur­bergi 36, Reykjavík, Dagbjarti Eiði Ólasyni, kt. 241079-4499, Æsufelli 4, Reykjavík, Erlu Ingu Hilmarsdóttur, kt. 281283-3169, Æsu­­­felli 4, Reykja­vík, Heiðari Andra Heiðars­syni, kt. 030579-3489, Yrsu­felli 13, Reykja­vík, Hilmari Sæbergi Ásgeirs­syni, kt. 250853-5809, Írabakka 6, Reykjavík, Hrafn­­hildi Ýri Þrastar­dóttur, kt. 200783-5739, Engja­völlum 3, Hafnarfirði, Idu Harðar­­­dóttur, kt. 181162-7249, Klepps­­vegi 68, Reykjavík, Konráði Þór Lárussyni, kt. 030683-4049, Þórðarsveig 11, Reykjavík, Y [fæddum 1985], Sigríði Bergdísi Magnús­dóttur, kt. 180655-4769, Jóru­felli 2, Reykjavík, Sigrúnu Elsu Sigurðardóttur, kt. 200755-2949, Fannborg 1, Kópa­vogi, Svavari Kristjáni Sigurðs­­syni, kt. 170884-4269, Engja­­­­völlum 3, Hafnar­firði, Tinnu Jens­dóttur, kt. 020980-3709, Yrsufelli 13, Reykja­vík og Þorfinni Hilmarssyni, kt. 141284-2589, Funa­­fold 58, Reykjavík, til refsingar fyrir eftirgreind brot á almennum hegningar­­­­lögum nr. 19/1940:

1.

        Gegn ákærðu Rannveigu, fyrir fjársvik í opinberu starfi samkvæmt 248. gr., sbr. 138. almennra hegningar­laga, sbr. 6. gr. laga nr. 54/2003, með því að hafa á tíma­bilinu frá 2. janúar 2002 til 9. júní 2006, sem þjónustu­fulltrúi hjá Trygginga­stofnun ríkisins, útbúið 781 tilhæfulausa kvittun fyrir útborgun og blekkt gjald­kera Tryggingastofnunar til að greiða að til­efnis­­lausu úr sjóðum stofnunarinnar á grundvelli þeirra, með jafn­­mörgum greiðslum, sam­­tals krónur 75.750.444, sem hér segir:

A.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 4. september 2002 til 13. júní 2003, útbúið 17 kvittanir og látið greiða samtals krónur 808.432, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning A [fæddrar 1955], nr. [...].

B.

        Með því að hafa útbúið 2 kvittanir, 26. ágúst 2005 og 23. maí 2006, og látið greiða samtals krónur 359.077, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning með­ákærða X, nr. [...].

C.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 29. maí 2002 til 9. júní 2006, útbúið 135 kvittanir og látið greiða samtals krónur 10.901.267, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikninga meðákærðu Önnu Dóru, nr. 537-26-855519 og 115-26-86971.

D.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 6. maí 2002 til 6. janúar 2003, útbúið 18 kvittanir og látið greiða samtals krónur 556.774, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærða Ágústs Jóns, nr. 319-13-33.

E.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 2. janúar 2002 til 12. október 2004, útbúið 33 kvittanir og látið greiða samtals krónur 1.168.241, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærða Ásgeirs Heiðars, nr. 1152-05-404006.

F.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 16. maí 2002 til 7. júní 2006, útbúið 91 kvittun og látið greiða samtals krónur 9.076.632, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikninga meðákærða Ásgríms, nr. 1135-05-403077, 1157-05-400467 og 1157-05-400548.

G.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 21. október 2003 til 6. júní 2006, útbúið 75 kvittanir og látið greiða samtals krónur 7.710.443, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikninga B [fæddrar 1983], nr. [...] og [...].

H.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 5. júní 2002 til 1. júlí 2003, útbúið 10 kvittanir og látið greiða samtals krónur 480.811, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærðu Bryndísar, nr. 537-26-855473.

I.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 5. desember 2002 til 6. júní 2006, útbúið 36 kvittanir og látið greiða samtals krónur 3.816.079, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs, kostnaðar inn á reikning meðákærða Dagbjarts Eiðs, nr. 1135-05-405106.

J.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 12. desember 2002 til 1. júní 2006, útbúið 53 kvittanir og látið greiða samtals krónur 6.650.233, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikninga meðákærðu Erlu Ingu, nr. 319-26-80483 og 1151-05-403593, auk þess sem 74.328 krónur voru greiddar með tékka 12. desember 2002.

K.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 8. desember 2005 til 8. júní 2006, útbúið 17 kvittanir og látið greiða samtals krónur 2.838.266, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærða Heiðars Andra, nr. 303-26-13489.

L.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 25. febrúar 2002 til 8. desember 2003, útbúið 36 kvittanir og látið greiða samtals krónur 1.328.479, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærða Hilmars Sæbergs, nr. 515-26-1262, auk þess sem hann sótti 1.561 króna greiðslu til Tryggingastofnunar 23. september 2002.

M.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 12. júní 2002 til 6. júní 2006, útbúið 53 kvittanir og látið greiða samtals krónur 5.509.777, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikninga meðákærðu Hrafnhildar Ýrar, nr. 319-26-6185 og 115-26-12611, auk þess sem 155.042 krónur voru greiddar með tékka 24. maí 2005.

N.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 8. janúar 2002 til 14. febrúar 2006, útbúið 43 kvittanir og látið greiða samtals krónur 3.326.075, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærðu Idu, nr. 527-05-26544.

O.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 11. apríl til 19. maí 2006, útbúið 5 kvittanir og látið greiða samtals krónur 891.696, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærða Konráðs Þórs, nr. 324-26-3683.

P.

        Með því að hafa útbúið 2 kvittanir, 1. og 7. júní 2006, og látið greiða samtals krónur 373.791, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning C [fædds 1986], nr. [...].

Q.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 5. janúar til 9. júní 2006, útbúið 6 kvittanir og látið greiða samtals krónur 914.466, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærða Y, nr. [...].

R.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 14. september 2005 til 9. júní 2006, útbúið 31 kvittun og látið greiða samtals krónur 4.687.104, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærðu Sigríðar Bergdísar, nr. 537-26-170655.

S.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 22. október 2003 til 8. mars 2006, útbúið 69 kvittanir og látið greiða samtals krónur 6.988.043, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærðu Sigrúnar Elsu, nr. 537-14-605570.

T.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 23. mars 2005 til 7. júní 2006, útbúið 36 kvittanir og látið greiða samtals krónur 5.222.737, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærða Svavars Kristjáns, nr. 115-26-12610.

U.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 24. maí til 9. júní 2006, útbúið 3 kvittanir og látið greiða samtals krónur 589.021, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærðu Tinnu, nr. 117-26-1456.

V.

        Með því að hafa, á tímabilinu frá 28. september 2005 til 5. janúar 2006, útbúið 10 kvittanir og látið greiða samtals krónur 1.322.069, í formi endurgreiðslna vegna útlagðs kostnaðar, inn á reikning meðákærða Þorfinns, nr. 1175-26-10556.

2.

        Gegn ákærða X, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­­laga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í tvö skipti, 26. ágúst 2005 og 23. maí 2006, veitt viðtöku á banka­reikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum meðákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 359.077, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rann­veigar, sem lýst er í B-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

3.

        Gegn ákærðu Önnu Dóru, annars vegar fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga og hins vegar fyrir hlutdeild í fjársvikum samkvæmt 248. gr., sbr. 138. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga, í eftir­greindum tilvikum:

A.

        Fyrir hylmingu, með því að hafa í 135 skipti, á tímabilinu frá 29. maí 2002 til 9. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrir­mælum með­ákærðu Ásgeirs Heiðars og Rann­veigar, samtals krónum 10.901.267, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rann­veigar, sem lýst er í C-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

B.

        Fyrir hlutdeild í fjársvikum meðákærðu Rannveigar, sem lýst er í M-lið 1. kafla ákæru, með því að hafa fengið samþykki meðákærðu Hrafnhildar Ýrar til að þar til greindar greiðslur, sem sviknar voru út hjá Tryggingastofnun, yrðu lagðar inn á banka­reikning hennar.

4.

        Gegn ákærða Ágústi Jóni, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 18 skipti, á tímabilinu frá 6. maí 2002 til 6. janúar 2003, veitt við­töku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum meðákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 556.774, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rannveigar, sem lýst er í D-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

5.

        Gegn ákærða Ásgeiri Heiðari, annars vegar fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga og hins vegar fyrir hlutdeild í fjársvikum samkvæmt 248. gr., sbr. 138. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga, í eftirgreindum tilvikum:

A.

        Fyrir hylmingu, með því að hafa í 33 skipti, á tímabilinu frá 2. janúar 2002 til 12. október 2004, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið, flutt og ráðstafað samtals krónum 1.168.241, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rannveigar, sem lýst er í E-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

B.

        Fyrir hlutdeild í fjársvikum meðákærðu Rannveigar, sem lýst er í B-, C-, D-, F-, H-, I-, J-, K-, O-, P-, Q-, T- og V-liðum 1. kafla ákæru, með því að hafa fengið samþykki X, Önnu Dóru, Ágústs Jóns, Ásgríms, Bryndísar, Dagbjarts Eiðs, Erlu Ingu, Heiðars Andra, Konráðs Þórs, C, Y, Svavars Kristjáns og Þor­finns til að þar til greindar greiðslur, sem sviknar voru út hjá Trygginga­­­­stofnun, yrðu lagðar inn á banka­reikninga þeirra og haft milligöngu um að fá hluta þeirra fjár­muna sem inn á reikningana bárust í sín umráð og meðákærðu Rann­­­veigar.

6.

        Gegn ákærða Ásgrími, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­­laga, með því að hafa í 91 skipti, á tímabilinu frá 16. maí 2002 til 7. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum með­ákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 9.076.632, sem voru ávinningur af brotum með­­ákærðu Rannveigar, sem lýst er í F-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

7.

        Gegn ákærðu Bryndísi, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­­laga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 10 skipti, á tímabilinu frá 5. júní 2002 til 1. júlí 2003, veitt viðtöku á banka­reikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum meðákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 480.811, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rann­veigar, sem lýst er í H-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

8.

        Gegn ákærða Dagbjarti Eiði, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 36 skipti, á tímabilinu frá 5. desember 2002 til 6. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum með­ákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 3.816.079, sem voru ávinningur af brotum með­ákærðu Rann­­veigar, sem lýst er í I-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

9.

        Gegn ákærðu Erlu Ingu, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 53 skipti, á tímabilinu frá 12. desember 2002 til 1. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn og í formi tékka, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrir­­­­­mælum meðákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 6.724.561, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rannveigar, sem lýst er í J-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

10.

        Gegn ákærða Heiðari Andra, annars vegar fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. laganna og hins vegar fyrir hlutdeild í fjársvikum samkvæmt 248. gr., sbr. 138. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga, í eftirgreindum tilvikum:

A.

        Fyrir hylmingu, en til vara peningaþvætti, með því að hafa í 17 skipti, á tíma­bilinu frá 8. desember 2005 til 8. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráð­stafað, samkvæmt fyrirmælum meðákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 2.838.266, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rannveigar, sem lýst er í K-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

B.

        Fyrir hlutdeild í fjársvikum meðákærðu Rannveigar, sem lýst er í U-lið 1. kafla ákæru, með því að hafa fengið samþykki meðákærðu Tinnu til að þar til greindar greiðslur, sem sviknar voru út hjá Tryggingastofnun, yrðu lagðar inn á banka­reikning hennar.

11.

        Gegn ákærða Hilmari Sæbergi, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 36 skipti, á tímabilinu frá 25. febrúar 2002 til 8. desember 2003, veitt viðtöku á bankareikning sinn og sótt til Tryggingastofnunar, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum meðákærðu Rannveigar, samtals krónum 1.330.040, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu, sem lýst er í L-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

12.

        Gegn ákærðu Hrafnhildi Ýri, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 53 skipti, á tímabilinu frá 12. júní 2002 til 6. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn og í formi tékka, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum með­ákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 5.664.819, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rannveigar, sem lýst er í M-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

13.

        Gegn ákærðu Idu fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­laga, í eftirgreindum tilvikum:

A.

        Með því að hafa í 43 skipti, á tímabilinu frá 8. janúar 2002 til 14. febrúar 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum með­ákærðu Rannveigar, samtals krónum 3.326.075, sem voru ávinningur af brotum með­ákærðu, sem lýst er í N-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

B.

        Með því að hafa í 75 skipti, á tímabilinu frá 21. október 2003 til 6. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning B, haldið og ráð­stafað, samkvæmt fyrirmælum með-ákærðu Rannveigar, samtals krónum 7.710.443, sem voru ávinningur af brotum með­ákærðu, sem lýst er í G-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

14.

        Gegn ákærða Konráði Þór, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 5 skipti, á tímabilinu frá 11. apríl til 19. maí 2006, veitt viðtöku á banka­reikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum meðákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 891.696, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rann­veigar, sem lýst er í O-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

15.

        Gegn ákærða Y, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 6 skipti, á tímabilinu frá 5. janúar til 9. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum meðákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 914.466, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu Rann­veigar, sem lýst er í Q-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

16.

        Gegn ákærðu Sigríði Bergdísi, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 31 skipti, á tímabilinu frá 14. september 2005 til 9. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum með­­ákærðu Rannveigar, samtals krónum 4.687.104, sem voru ávinningur af brotum með­­ákærðu, sem lýst er í R-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

17.

        Gegn ákærðu Sigrúnu Elsu, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa í 69 skipti, á tímabilinu frá 22. október 2003 til 8. mars 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrir­mælum með­ákærðu Rannveigar, samtals krónum 6.988.043, sem voru ávinningur af brotum meðákærðu, sem lýst er í S-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

18.

        Gegn ákærða Svavari Kristjáni, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 36 skipti, á tímabilinu frá 23. mars 2005 til 7. júní 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum með­ákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 5.222.737, sem voru ávinningur af brotum með­­ákærðu Rannveigar, sem lýst er í T-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

19.

        Gegn ákærðu Tinnu, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­laga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í þrjú skipti, á tímabilinu frá 24. maí til 9. júní 2006, veitt viðtöku á banka­reikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum meðákærðu Ásgeirs Heiðars og Heiðars Andra, samtals krónum 589.021, sem voru ávinningur af brotum með­­ákærðu Rannveigar, sem lýst er í U-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærðu hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

20.

        Gegn ákærða Þorfinni, fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, en til vara peningaþvætti samkvæmt 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. sömu laga, með því að hafa í 10 skipti, á tímabilinu frá 28. september 2005 til 5. janúar 2006, veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað, samkvæmt fyrirmælum með­ákærða Ásgeirs Heiðars, samtals krónum 1.322.069, sem voru ávinningur af brotum með­­ákærðu Rannveigar, sem lýst er í V-lið 1. kafla ákæru, þrátt fyrir að ákærða hafi ekki getað dulist að ekki var um löglega fengið fé að ræða.

Skaðabótakrafa.

        Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík, krefst þess að ákærða Rann­veig verði dæmd til greiðslu 75.750.444 króna skaðabóta, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2006 til 14. apríl 2008, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags.

Sakarefni skilið sundur.

        Þáttur ákærðu Ásgríms, Hilmars Sæbergs, Idu, Sigríðar Bergdísar og Sigrúnar Elsu, sem lýst er í 6., 11., 13., 16. og 17. kafla ákæru, hefur verið skilinn frá málinu, dæmdur sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um með­ferð opinberra mála (mál nr. S-350/2008, S-495/2008, S-351/2008, S-352/2008 og S-353/2008) og ákærðu sakfelld fyrir hylmingu, með því að hafa veitt við­­­­töku, haldið og ráðstafað þeim fjár­munum, sem um er getið í nefndum ákæruköflum og voru ávinningur af fjár­svikum með­ákærðu Rannveigar, sem lýst er í F-, G-, L-, N-, R- og S-liðum 1. kafla.

Afstaða annarra til sakarefnis.

        Ákærða Rannveig játar sök samkvæmt 1. kafla ákæru og krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Hún mótmælir framlagðri skaðabótakröfu og krefst þess að henni verði vísað frá dómi sökum vanreifunar.

        Ákærða Anna Dóra játar sök samkvæmt A-lið 3. kafla ákæru og krefst að því leyti vægustu refsingar sem lög leyfa. Hún neitar hins vegar sök samkvæmt B-lið 3. kafla og krefst sýknu í þeim þætti málsins.

        Ákærði Ásgeir Heiðar játar sök samkvæmt 5. kafla ákæru og krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

        Ákærðu X, Ágúst Jón, Dagbjartur Eiður, Erla Inga og Þorfinnur neita sök og krefjast sýknu, en að því frágengnu verði þeim ekki gerð refsing.

        Ákærða Bryndís neitar sök og krefst sýknu, til vara að refsing verði felld niður, en að því frágengnu verði hún dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa.

        Ákærðu Heiðar Andri, Hrafn­hildur Ýr, Konráð Þór, Y, Svavar Kristján og Tinna neita sök og krefjast sýknu, en ellegar vægustu refsingar sem lög leyfa.

I.

        Fyrst verður fjallað um þátt ákærðu Rannveigar og meðákærðu Önnu Dóru og Ásgeirs Heiðars, sbr. 1., 3. og 5. kafli ákæru, helstu málsatvikum lýst og niðurstöður dregnar saman í lok umfjöllunar hverju sinni. Í framhaldi verður fjallað stuttlega um aðkomu annarra meðákærðu (II), sjónarmið refsiréttarins um hugtökin ásetning og gáleysi og sönnunarbyrði ákæruvaldsins í því sambandi (III), því næst vikið nánar að þætti með­­ákærðu hvers og eins (IV), þá fjallað um ákvörðun refsinga (V) og meðferð skaða­bótakröfu (VI) og loks vikið að sakarkostnaði í málinu (VII). 

Um 1. kafla ákæru.

        Ákærða Rannveig vann hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) í um 20 ár, en lét af störfum að eigin ósk í byrjun júní 2006. Á ákærutímabilinu var hún fulltrúi í þjónustu­miðstöð TR og hafði með höndum endur­greiðslur á útlögðum kostnaði vegna læknis­þjónustu, lyfjakaupa og sjúkra­­þjálfunar, en í því fólst að taka við greiðslukvittunum frá viðkomandi sjúklingum, meta hverju sinni hvort heimild væri til endurgreiðslu hluta kostnaðar, í þeim tilvikum skrá beiðni þar að lútandi í tölvu­kerfi TR, með tilgreindu númeri banka­reiknings og fjárhæð endur­greiðslu, prenta út ­endurgreiðslu­kvittanir því til sam­ræmis og afhenda gjald­kera, sem síðan lagði við­komandi fjárhæð inn á reikning hlut­að­eigandi sjúklings. Er óumdeilt að í þeirri sýslan var ákærða opinber starfs­maður í skilningi 138. gr., sbr. 141. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 54/2003. Hún hefur viður­kennt að hafa misnotað stöðu sína og játað fjár­­svik sam­kvæmt 248. hegningarlaganna, með því að hafa, á tíma­bilinu frá 2. janúar 2002 til 9. júní 2006, útbúið 781 endurgreiðslukvittun, þótt enginn útlagður kostnaður vegna læknisþjónustu, lyfja­­kaupa, sjúkra­þjálfunar eða annars stæði að baki og án þess að fyrir lægju greiðslukvittanir fyrir slíkum kostnaði, afhent hinar tilhæfulausu endur­greiðslu­kvittanir til gjaldkera og þannig blekkt þá til að greiða að til­efnis­­lausu úr sjóðum TR, samtals krónur 75.750.444, nær ávallt inn á banka­reikninga, sem ákærða tilgreindi hverju sinni, allt svo sem nánar er lýst í 1. kafla ákæru. Ákærða bjó svo um hnútana að afrit falskra kvittana voru ekki send við­takendum greiðslna. Upp komst um svikin í kjölfar starfsloka ákærðu og var málið kært til lögreglu 23. júní 2006.

        Ákærða rekur upphaf málsins til þess að hún hafi verið í fjárþröng, djúpt sokkin í fíkni­­efnaneyslu og því leiðst út í umrædd fjársvik, fyrst í smáum stíl, en síðan hafi umfang þeirra aukist. Þannig hafi hún í janúar 2002 byrjað að láta leggja tilhæfulausar greiðslur inn á reikning sonar síns, með­­­ákærða Ásgeirs Heiðars, sbr. E-liður 1. kafla og inn á reikning vinkonu sinnar, dómfelldu Idu, sbr. N-liður, í febrúar 2002 inn á reikning barnsföður síns og fyrrum sam­­býlismanns, dóm­fellda Hilmars Sæbergs, sbr. L-liður, í maí 2002 inn á reikninga þáverandi unnustu sonarins, með­ákærðu Önnu Dóru, sbr. C-liður og í september 2002 inn á reikning A, sbr. A-liður, en ákærða sá um fjármál A og hafði því prókúru á reikninginn. Ákærða hafi síðan í október 2003 byrjað að láta leggja falskar greiðslur inn á reikninga B, sbr. G-liður og reikning vinkonu sinnar, dóm­felldu Sigrúnar Elsu, sbr. S-liður og í september 2005 byrjað að láta greiða inn á reikning kunningja- og nágranna­konu sinnar, dómfelldu Sigríðar Berg­dísar, sbr. R-liður.

        Í málinu er óumdeilt að með áðurgreindu atferli hafði ákærða samtals 36.919.645 krónur af TR, í formi tilhæfulausra endurgreiðslna á útlögðum kostnaði, á grund­velli 439 falskra kvittana fyrir útborgun úr sjóðum TR, þar af krónur 2.562.983 á árinu 2002. Þá liggur fyrir að af síðast­greindri fjárhæð hafi 1.205.611 krónur verið milli­­færðar aftur á reikninga ákærðu og samtals 12.570.685 á ákærutímabilinu öllu, en að auki tók hún 777.500 krónur út af reikningi A og fékk samkvæmt fram­­burði dóm­felldu Sigríðar Bergdísar afhentar 4.150.207 krónur í reiðufé af þeim 4.687.104, sem ákærða lét leggja inn á reikning hennar. Ákærða hefur á hinn bóginn stað­­hæft að dóm­fellda hafi þegið um helming fjárins í sinn hlut, líkt og í tilvikum dóm­­felldu Idu og Sigrúnar Elsu, svo sem ágreiningslaust er í málinu. Hvað sem því líður stendur sá fram­burður ákærðu óhaggaður fyrir dómi að hún hafi fyrst og fremst þegið til baka fé frá téðum vin­konum og kunningja­konu, fyrrum sambýlis­manni, Önnu Dóru og Ásgeiri Heiðari, en af þeirri 1.168.241 krónu sem lagðar voru inn á reikning hans fóru 933.398 krónur aftur inn á reikninga ákærðu. Auk þessa liggur fyrir að ákærða móttók um árabil fíkniefni, sem keypt voru fyrir ávinning af fjársvika­starf­seminni, en hún, nefnd með­ákærðu og dóm­felldu Ida, Sigríður Bergdís og Sigrún Elsa voru að eigin sögn í mikilli óreglu á ákæru­­tíma­bilinu.

        Álit dómsins.

        Þegar allt framangreint er virt og sér í lagi skýlaus játning ákærðu Rannveigar hjá lögreglu og fyrir dómi, sem samrýmist öðrum málsgögnum, er sannað að hún hafi gerst sek um fjár­svik í opin­beru starfi, svo sem henni er gefið að sök í 1. kafla ákæru og þar er lýst í 22 staf­liðum, merktum frá A-V. Er hátt­semin rétt færð til refsiákvæða í ákæru, en staða ákærðu sem þjónustu­fulltrúi hjá TR fellur undir lýsingu 141. gr. a. almennra hegningar­­laga á opin­berum starfsmanni í skilningi 138. gr. laganna.

Um A-lið 5. kafla ákæru.

        Ákærða Rannveig hefur borið fyrir dómi að meðákærði Ásgeir Heiðar hafi í fyrstu ekki vitað að hún væri að láta leggja svikna fjármuni inn á reikning hans, en hann hafi þó fljótlega komist að því. Er þetta í samræmi við ­fram­burð Ásgeirs Heiðars, en hann játar að hafa vitað um uppruna greiðslnanna og eðli fjár­svikastarf­semi móður sinnar eigi síðar en 6. maí 2002, en fyrir tilstuðlan hans voru þá lagðar 17.503 krónur inn á bankareikning vinar hans, með­ákærða Ágústs Jóns, svo sem nánar verður vikið að síðar. Fær þetta samrýmst þeirri staðreynd að Ásgeir Heiðar var í gæslu­­varðhaldi frá 23. janúar til 6. mars 2002 og sat í fangelsi frá þeim degi til 1. maí 2002, þaðan sem hann kveðst þó hafa millifært greiðslur til sín frá TR yfir á reikning ákærðu. Þarf annars ekki að fjölyrða um þátt Ásgeirs Heiðars að þessu leyti, enda hefur hann játað afdráttar­laust fyrir dómi að hafa veitt viðtöku á reikning sinn samtals 1.168.241 krónu með þeim hætti, sem lýst er í E-lið 1. kafla ákæru og haldið, flutt og ráðstafað sömu fjár­munum, svo sem honum er gefið að sök í A-lið 5. kafla.

        Álit dómsins.

        Með hliðsjón af skýlausri játningu Ásgeirs Heiðars fyrir dómi, sem sam­rýmist fram­­­burði ákærðu Rannveigar í öllum meginatriðum, er ofangreind háttsemi sönnuð og ber því að sak­fella Ásgeir Heiðar fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. almennra hegningar­­­laga.

Um A-lið 3. kafla ákæru.

        Ákærða Rannveig hefur einatt haldið því fram að hún hafi verið í beinu og milli­liða­lausu sam­bandi við meðákærðu Önnu Dóru um að láta leggja tilhæfulausar greiðslur úr sjóðum TR inn á reikninga hennar, samtals krónur 10.901.267, Anna Dóra þannig vitað um fjársvikin frá upp­hafi og samþykkt að hylma yfir brotin, en fyrsta af samtals 135 greiðslum barst inn á reikning hennar 29. maí 2002. Anna Dóra bar með líkum hætti við yfirheyrslu hjá lögreglu 26. júní 2006, en við yfirheyrslu 30. sama mánaðar bendlaði hún einnig með­­ákærða Ásgeir Heiðar við greiðslurnar og hefur fyrir dómi staðhæft að hann hafi verið fyrri til að biðja hana um að ljá ákærðu afnot af reikningunum, en Anna Dóra og Ásgeir Heiðar hafi tekið upp sambúð í apríl 2002 og hann skömmu síðar farið þessa á leit við hana. Að sögn Önnu Dóru hafi hún ekki vitað um upp­runa fjárins í fyrstu, en hún sagði jafnframt að ef til vill hefði hún ekki viljað vita það, enda gert sér grein fyrir að fjármunirnir gætu tengst afbrotum. Samrýmist þetta dóms­­fram­burði Ásgeirs Heiðars, sem hefur játað hlutdeild í fjársvikum móður sinnar, með því að hafa fengið samþykki Önnu Dóru fyrir afnotum ­reikninganna, svo sem honum er gefið að sök í B-lið 5. kafla ákæru. Verður við það miðað í málinu.

        Anna Dóra hefur lýst því fyrir dómi að hún og Ásgeir Heiðar hafi haft sameigin­legan fjárhag og að þeim fjármunum, sem runnu inn á reikninga hennar frá TR, fyrir tilstuðlan hans, hafi verið varið til samneyslu þeirra, meðal annars til að fjár­magna utan­landsferðir og fíkni­efna­neyslu. Á því hafi ekki orðið breyting meðan á samvistum stóð, en þau hafi slitið sam­búð í apríl 2005. Samrýmist þetta dóms­fram­burði Ásgeir Heiðars. Þó kveðst Anna Dóra hafa tekið upp bein samskipti við ákærðu varðandi greiðslur inn á reikningana á meðan Ásgeir Heiðar var í fangelsi, en fyrir liggur að hann sætti afplánun frá 6. janúar 2003 til 12. maí 2004.

        Í málinu er óumdeilt að á tímabilinu frá 29. maí 2002 til aprílloka 2005 voru rang­lega milli­færðar 5.906.570 krónur úr sjóðum TR inn á reikninga Önnur Dóru. Standa þá eftir krónur 2.887.414, sem henni voru greiddar á árinu 2005, eftir nefnd sambúðar­­slit, og 2.107.283 krónur, sem ákærða lét greiða inn á reikningana árið 2006, eða samtals krónur 4.994.697. Af þeirri fjárhæð er ljóst að 1.880.000 krónur voru milli­færðar aftur á reikninga ákærðu, en mis­muninum ráð­stafaði Anna Dóra með öðrum hætti.

        Álit dómsins.

        Með hliðsjón af framansögðu og sér í lagi játningu Önnu Dóru fyrir dómi, sem samrýmist dómsframburði ákærðu Rannveigar og meðákærða Ásgeirs Heiðars í öllum megin­atriðum, sem og rannsóknargögnum málsins, er sannað að Anna Dóra hafi gerst sek um hylmingu með þeim hætti, sem henni er gefið að sök í A-lið 3. kafla ákæru og þykir háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða.

Um B-lið 3. kafla ákæru.

        Hér er meðákærðu Önnu Dóru gefin að sök hlutdeild í fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem lýst er í M-lið 1. kafla, með því að hafa fengið sam­þykki með­ákærðu Hrafn­hildar Ýrar fyrir því að 53 tilhæfulausar greiðslur úr sjóðum TR væru lagðar inn á bankareikninga hennar á tíma­bilinu frá 12. júní 2002 til 6. júní 2006, sam­tals að fjárhæð krónur 5.509.777. Er fjöldi greiðslna og samtala þeirra óumdeild, sem og að ákærða og Hrafnhildur Ýr vissu lítil eða engin deili hvor á annarri og höfðu ekki bein samskipti sín á milli um greiðslurnar. Að þessu gættu er einsætt að ekki er öðrum til að dreifa en Önnur Dóru eða meðákærða Ásgeiri Heiðari, sem hlut­deildar­manni í umræddum fjársvikum. Verður nú vikið nánar að þessu sakarefni.

        Við yfirheyrslu hjá lögreglu 30. júní 2006 var Anna Dóra innt eftir því hvort hún hefði átt samskipti við aðra en ákærðu og Ásgeir Heiðar í tengslum við fjársvikamálið. Hún nafngreindi vinkonu sína, Hrafn­­hildi Ýri, og sagðist hafa beðið hana um „að fá að nota reikning hennar, gagngert til að láta leggja fjármuni inn á og taka út aftur“. Nánar aðspurð kvað hún Hrafnhildi Ýri ekki hafa vitað um uppruna fjárins.

        Anna Dóra staðfesti ofangreindan framburð við yfirheyrslu 4. júlí 2006, sagðist reyndar ekki muna eftir að hafa beðið Hrafnhildi Ýri um að ljá afnot af reikningum sínum, en bætti því við að hún hljóti að hafa gert það.

        Anna Dóra breytti áðurgreindum framburði við yfirheyrslu 4. október 2007, kvað ekki rétt eftir sér haft í fyrri skýrslum að hún hefði aflað sam­þykkis Hrafn­hildar Ýrar og sagði Ásgeir Heiðar hafa beðið hana um umrætt leyfi.    

        Ásgeir Heiðar tjáði sig fyrst um greint atriði við yfirheyrslu hjá lög­reglu 4. júlí 2006, sagði að Hrafnhildur Ýr væri vinkona sín, að hann hefði fengið leyfi hennar til að láta leggja fjármuni inn á reikningana og að hún hefði ekki vitað um uppruna fjárins, enda hefði hann gefið þá skýringu að um laun væri að ræða, sem hann væri að koma undan skuldheimtumönnum. Var honum hvorki þá né síðar á rann­sóknar­stigi kynntur andstæður framburður Önnu Dóru.

        Hrafnhildur Ýr greindi lögreglu frá því 27. júní 2006 að sér hefði verið kunnugt um millifærslur á reikninga hennar úr sjóðum TR og staðið í þeirri trú að um væri að ræða slysabætur til Ásgeirs Heiðars, sem hún hefði kynnst gegnum vinskap við Önnu Dóru. Hefði Anna Dóra „í upphafi beðið um að fá að nota reikninginn til þess að leggja inn fjárhæðir á Ásgeir“ og síðar gefið þá skýringu að hann væri gjaldþrota og því yrði að halda greiðslunum leyndum.

        Hrafnhildur Ýr staðfesti ofangreindan framburð við yfirheyrslu 13. apríl 2007 og áréttaði að sér hefði aldrei fundist neitt grun­­samlegt við téðar inn­lagnir á reikningana.

        Fyrir dómi neitaði Anna Dóra sök í þessum þætti málsins, þrætti fyrir að hafa aflað samþykkis Hrafnhildar Ýrar og sagðist halda að Ásgeir Heiðar hefði átt þar hlut að máli. Hún kvað tilvitnaða bókun í lögregluskýrslu 30. júní 2006 vera ranga, en þó rétt eftir sér hafða og gaf þá skýringu á téðum framburði að hún hefði haldið að þannig gæti hún losnað úr gæslu­varðhaldi. Hún kvaðst ekki vita af hverju Hrafnhildur Ýr bar með sama hætti og hún hjá lögreglu um öflun sam­þykkis í upphafi.

        Fyrir dómi kvaðst Hrafnhildi Ýri minna að Ásgeir Heiðar hefði beðið hana um leyfið til að nota reikningana og gaf þá skýringu á andstæðum fram­­­burði hjá lögreglu að kunningjar Ásgeirs Heiðars væru margir hverjir ruglaðir og því hefði hún ekki þorað að bendla hann við málið. Hún sagði annars langt um liðið, bar fyrir sig minnis­leysi og benti á að hún hefði verið í óreglu í upphafi ákæru­tíma­bilsins. Hún kvaðst ekki vita af hverju Anna Dóra bar í upphafi á sama veg og hún um ætluð sam­skipti þeirra.  

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar ekki muna lengur hvort hann eða Anna Dóra hefði aflað samþykkis Hrafnhildar Ýrar fyrir afnotum banka­reikninga hennar.

        Álit dómsins.

        Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laga um meðferð opinberra mála skulu röksemdir dómara lúta að því hvað teljist sannað og með hverjum hætti. Um sönnun fer annars eftir reglum 45.-48. gr. laganna. Í því sam­bandi ber að meta skynsamlegan vafa til hags­bóta fyrir sakborning, bæði um atriði er varða sekt hans og önnur, sem telja má honum í óhag. Sönnunarbyrði hvílir á ákæruvaldinu, en sönnunar­­mat dómara er frjálst, þó þannig að dómur skal fyrst og fremst reistur á sönnunar­­­gögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr.

        Niðurstaða í þessum þætti málsins veltur á því hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að það hafi verið meðákærða Anna Dóra, sem aflaði samþykkis Hrafnhildar Ýrar fyrir því að hinar 53 tilhæfulausu greiðslur úr sjóðum TR yrðu lagðar inn á reikninga hennar, en sem fyrr segir var fyrsta greiðslan innt af hendi 12. júní 2002, eða rúmum fjórum árum áður en rannsókn málsins hófst. Hefur sú staðreynd óhjákvæmilega áhrif á sönnunarstöðu ákæru­valdsins og gerir hana mun torveldari en ella. Það sem einkum styður sak­fellingu Önnu Dóru er samhljóða framburður hennar og Hrafn­­hildar Ýrar hjá lögreglu, í fyrstu frásögn um öflun hins umþrætta samþykkis, sem og að hvorug þeirra þykir hafa gefið trúverðuga skýringu fyrir dómi á breyttum fram­burði. Á móti kemur að Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því að hann hefði aflað umrædds samþykkis, sem og að við aðra skýrslugjöf sína hjá lög­reglu dró Anna Dóra úr ætlaðri játningu, þegar hún kvaðst ekki muna eftir að hafa aflað greinds samþykkis og neitaði því síðan við þriðju yfir­heyrslu.

        Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt og gætt er dóms­fram­burðar Ásgeirs Heiðars og Hrafnhildar Ýrar, sem og eindreginnar sakar­neitunar Önnu Dóru fyrir dómi, er það mat dómenda að ekki sé fram komin lögfull sönnun fyrir sekt hennar, í skilningi 45.-46. gr. og 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála. Ber því að sýkna hana af hlutdeild í fjársvikum ákærðu Rannveigar samkvæmt B-lið 3. kafla ákæru.

Um B-lið 5. kafla ákæru.

        Hér er meðákærða Ásgeiri Heiðari gefin að sök hlutdeild í fjár­svikum ákærðu Rannveigar, með því að hafa fengið samþykki meðákærðu X, Önnu Dóru, Ágústs Jóns, Bryn­dísar, Dagbjarts Eiðs, Erlu Ingu, Heiðars Andra, Konráðs Þórs, Y, Svavars Kristjáns og Þor­finns, sem og dómfellda Ásgríms og C, til að greiðslur, sem lýst er í B-, C-, D-, F-, H-, I-, J-, K-, O-, P-, Q-, T- og V-liðum 1. kafla ákæru og sviknar voru út hjá TR, yrðu lagðar inn á banka­reikninga þeirra og haft milli­göngu um að fá hluta fjárins aftur í umráð sín og ákærðu.

        Ásgeir Heiðar hefur játað ofangreinda háttsemi fyrir dómi, með þeim eina fyrir­vara að seinni greiðslan af tveimur inn á reikning meðákærða X, að fjár­hæð krónur 208.663, hafi verið lögð inn fyrir mistök og án sérstaks sam­þykkis. Samrýmist þetta fram­burði X, svo sem nánar verður vikið að síðar. Óháð því er einsætt að fyrir tilstuðlan Ásgeirs Heiðars voru þannig milli­færðar sam­tals 43.403.898 krónur úr sjóðum TR, á grund­velli 421 tilhæfu­lausrar endur­­greiðslu­kvittunar. Að frátöldum þætti meðákærðu Önnu Dóru eru ákærða og Ásgeir Heiðar sammála um að hann hafi útvegað reikningsnúmer nefndra einstaklinga og fengið samþykki þeirra fyrir afnotum reikninganna, að ákærða hafi í fram­­­haldi útbúið falskar endurgreiðslukvittanir og látið hann vita hverju sinni þegar búið var að greiða inn á reikningana, að hann hafi síðan tilkynnt hlutað­eigandi um inn­borganir og viðkomandi í kjölfarið ýmist tekið út reiðufé og afhent honum eða milli­fært fjár­­muni á aðra bankareikninga samkvæmt fyrirmælum hans. Á þetta þó ekki við um nefndan C, svo sem skýrt verður í II. kafla. Þannig hafi ákærða engin sam­skipti átt við téða einstaklinga, aðra en Önnu Dóru, og ekki haft beinan ávinning af greindum fjársvikum, framar því sem áður segir um greiðslur inn og út af reikningum Önnu Dóru. Lýsti Ásgeir Heiðar þessu þannig fyrir dómi, að hann hefði útvegað umrædd reikningsnúmer, spurt móður sína hvort hún gæti ekki látið leggja inn á reikningana, sem hún ávallt gerði, og hann síðan ráðstafað meira og minna öllum þeim fjármunum, sem fóru inn á reikningana.

        Álit dómsins.

        Með hliðsjón af játningu Ásgeirs Heiðars fyrir dómi, sem samrýmist dómsfram­burði ákærðu Rannveigar og rannsóknargögnum málsins, er sannað að hann hafi gerst sekur um hlutdeild í fjársvikum ákærðu með þeim hætti, sem honum er gefið að sök í B-lið 5. kafla ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

II.

        Fjársvikastarfsemi ákærðu Rannveigar má greina í tvo hluta með tilliti til þess hverjir voru viðtakendur þeirra greiðslna, sem ákærða hafði ranglega af TR. Er annars vegar um að ræða átta einstaklinga, sem tengdust henni persónulega með einum eða öðrum hætti, sbr. A-, C-, E-, G-, L-, N-, R- og S-liðir 1. kafla ákæru og hins vegar fjórtán einstaklinga, sem tengdust með­ákærða Ásgeiri Heiðari, þ.e. með­ákærðu X, Ágúst Jón, Bryn­dís, Dagbjartur Eiður, Erla Inga, Heiðar Andri, Hrafnhildur Ýr, Konráð Þór, Y, Svavar Kristján, Tinna og Þor­finnur, sbr. B-, D-, H-, I-, J-, K-, M-, O-, Q-, T-, U- og V-liðir 1. kafla, dómfelldi Ásgrímur, sbr. F-liður og C, sbr. P-liður. Er óumdeilt að auk áðurnefndra 43.403.898 króna fjár­svika, sem Ásgeir Heiðar er sannur að hlut­deild í, hafi með­ákærða Hrafnhildur Ýr, fyrir til­stuðlan hans, móttekið 5.509.777 krónur á ­reikninga sína, auk 155.042 króna tékka­­­­­greiðslu, og meðákærða Tinna fengið greiddar 589.021 krónu á sinn reikning.

        Fyrir dómi skýrði Ásgeir Heiðar frá tengslum sínum við ofangreinda einstaklinga og bar að C, dómfelldi Ásgrímur og meðákærðu Ágúst Jón, Bryndís, Dag­bjartur Eiður og Heiðar Andri væru vinir hans, meðákærðu Erla Inga, Hrafnhildur Ýr, Y, Svavar Kristján og Tinna kunningjar og meðákærði X „neyslu­félagi“, en hann þekkti minna til meðákærða Þorfinns og vissi vart deili á meðákærða Konráði Þór. Nefndur C sætir ekki ákæru, en fyrir liggur sam­­hljóða framburður hans og Ásgeirs Heiðars hjá lögreglu um að C hafi staðið í þeirri trú að 373.791 krónu greiðsla á reikning hans hafi verið gjald fyrir húsaleigu Ásgeirs Heiðars og að féð hafi þannig runnið óskipt til C.

III.

        Meðákærðu X, Ágúst Jón, Bryn­dís, Dagbjartur Eiður, Erla Inga, Heiðar Andri, Hrafnhildur Ýr, Konráð Þór, Y, Svavar Kristján, Tinna og Þor­finnur eiga sammerkt að sæta ákæru fyrir hylmingu, en til vara peningaþvætti af gáleysi, með því að hafa veitt viðtöku á bankareikninga sína, haldið og ráðstafað sam­kvæmt fyrir­mælum Ásgeirs Heiðars, og Heiðars Andra í tilviki Tinnu, tilteknum fjárhæðum, sem voru ávinningur af fjár­­svikum ákærðu Rann­veigar, „þrátt fyrir að [meðákærðu] hafi ekki getað dulist að ekki var um lög­lega fengið fé að ræða“, eins og segir í ákæru.

        Meðákærðu verða ekki sakfelld fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nema sannað sé að þau hafi, af ásetningi og í auðgunarskyni, a) haldið ólöglega fyrir eiganda fjár­munum, sem aflað hafði verið með þjófnaði, grip­­deild, fjár­drætti, fjársvikum, umboðssvikum, skilasvikum, fjárkúgun eða ráni, b) tekið þátt í ávinningi af slíku broti, c) aðstoðað annan mann við að halda slíkum ávinningi, eða d) stuðlað að því á annan hátt að halda við ólöglegum afleiðingum brotsins. Er hylming þannig í eðli sínu eftirfarandi hlut­deild í auðgunar­broti annars manns og er skil­­yrði refsi­ábyrgðar að viðkomandi, hér meðákærðu, hafi vitað eða mátt vita hvernig umræddir fjár­munir voru tilkomnir, þ.e. að innlagt fé á reikninga þeirra og útgefnir tékkar hafi verið afrakstur einhvers framangreindra auðgunarbrota, eða að þau hafi í það minnsta grunað að féð væri þannig tilkomið og fremur viljað taka þátt í að dylja afleiðingar af brotinu en að láta það ógert, t.d. með því að spyrja einskis og fá því ekki að vita vissu sína. Hins vegar skiptir engu máli hvort þeim hafi verið eða mátt vera ljóst hver stóð að baki frumbrotinu og því síður að umræddir fjármunir væru eign TR. Við mat á refsi­ábyrgð hvílir áhersla á aðstæðum og afstöðu með­ákærðu á verknaðar­stundu, þ.e. þegar þau samþykktu og veittu fjármununum viðtöku, og hvort þau gátu aðhafst eitthvað eftir á. Leiki skynsamlegur vafi um þá huglægu afstöðu, sem bjó að baki hátt­semi með­ákærðu, eins eða fleiri, leiðir það til sýknu af hylmingu. Kæmi þá fyrst til kasta dómenda að meta hvort hlutaðeigandi hafi gerst sekur um peningaþvætti af gáleysi, í skilningi 4. mgr., sbr. 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997, en þar er sú hátt­semi lýst refsiverð, a) að taka við eða afla sér eða öðrum „ávinnings af broti samkvæmt lögum þessum“, b) að geyma eða flytja slíkan ávinning, c) að aðstoða við afhendingu hans, eða d) að stuðla á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Í þeirri stöðu nægir ákæruvaldinu að sýna fram á að meðákærðu hafi haft hug­boð um refsinæma þætti eigin hegðunar eða hefðu átt að gera sér grein fyrir þeim ef þau hefðu sýnt þá aðgæslu, sem af þeim mátti krefjast sem góðum og skyn­sömum einstaklingum. Er ekki áskilið stórfellt gáleysi í þessu sambandi.

        Áður en fjallað er um þátt meðákærðu með hliðsjón af framan­greindum atriðum þykir rétt að víkja orðum að refsiréttarlegum sjónar­­miðum að baki 264. gr. almennra hegningarlaga, svo sem henni var breytt með lögum nr. 10/1997. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til síðarnefndra laga er vísað til samnings Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upp­töku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990, sem nái jafnt til ávinnings af öllum afbrotum og geri aðildarríkjum skylt að gera peninga­þvætti skýr­lega refsivert brot í lands­löggjöf. Í framhaldi er lýst því markmiði löggjafans að gera refsivert þvætti ávinnings af öllum brotum á hegningarlögum og sé því lagt til „að þvætti ávinnings af brotum á almennum hegningarlögum verði gert sjálfstætt refsivert brot, án tillits til þess um hvers konar brot er að ræða“. Þannig verði unnt að refsa fyrir viðtöku og aðstoð við að umbreyta slíkum ávinningi í því skyni að fela ólöglegan upp­runa hans, t.d. með misnotkun fjármálastofnana og tilheyrandi millifærslum á banka­reikninga. Í ljósi greindra athugasemda, ótvíræðs orðalags 1. mgr. 264. gr. almennra hegningar­laga, svo breyttra, sem vísar til brota „samkvæmt lögum þessum“, og hæsta­­réttardóms 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001, verða meðákærðu ekki sak­felld fyrir peningaþvætti af gáleysi samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar, nema sannað sé að þau hafi haft hug­boð um eða mátt gera sér grein fyrir því að um væri að tefla ávinning af einhverju broti á almennum hegningarlögum.

IV.

        Verður nú fjallað um þátt meðákærðu, með sambærilegum hætti og gert var í I. kafla dómsins.

Um 2. kafla ákæru.

        Meðákærða X er gefið að sök að hafa veitt viðtöku á reikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 359.077 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, annars vegar með viðtöku á 150.414 krónum 26. ágúst 2005 og hins vegar með viðtöku á 208.663 krónum 23. maí 2006. Er þetta hlutrænt séð óumdeilt, sem og að X tók samdægurs út af reikningnum 150.000 krónur í reiðufé vegna fyrri greiðslunnar og 200.000 krónur viku eftir seinni greiðsluna og afhenti Ásgeiri Heiðari.

        X var yfirheyrður hjá lögreglu 28. júní 2006. Hann kvaðst hvorki hafa vitað um fjársvik ákærðu né að umræddar greiðslur væru að berast inn á reikninginn frá TR og gaf þá skýringu á fyrri greiðslunni að Ásgeir Heiðar, sem hann hefði kynnst um mitt ár 2005, hefði spurt hvort „vinur hans“ mætti leggja 150.000 krónur inn á reikninginn, en Ásgeir Heiðar hefði sagst vera skuldugur og gæti því ekki látið leggja inn á sig. Í framhaldi hefði X tekið út sömu fjárhæð. Hann kvaðst ekki hafa gefið sérstakt leyfi til að nota reikninginn í fleiri skipti. Það hefði þó gerst, en í því tilviki hefði Ásgeir Heiðar ætlað að aðstoða hann við eigendaskipti á bifreið og því fengið miða með nafni, heimilis­fangi og kennitölu hans. Til þessa hefði ekki komið, en þeir félagar hist einhverju síðar og hefði Ásgeir Heiðar þá sagt að hann hefði ruglast á miðum og lagt 200.000 krónur inn á reikninginn fyrir mis­tök. Í fram­haldi hefði X tekið sömu fjár­hæð út af reikningnum. Hann kvaðst ekki hafa þegið þóknun fyrir umstangið, játti þó að hafa hag­nýtt sér ríflega 8.000 króna mismun á innlögðu og útteknu fé, en sagðist hafa talið sig eiga þá peninga á reikningnum.

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að X hefði heimilað í eitt skipti að lagt væri fé inn á reikning hans, líklega um 150.000 krónur og hefði honum verið gefin sú skýring að um laun væri að ræða, sem Ásgeir Heiðar vildi leyna fyrir skuldheimtumönnum. Hann kvað X hafa þegið 25.000 króna þóknun.

        Ásgeir Heiðar staðfesti ofangreindan framburð við yfirheyrslu 12. júlí 2006, áréttaði að X hefði fengið 25.000 króna þóknun vegna fyrri greiðslunnar, en sagði hana nú hafa gengið upp í fíkniefnaskuld. Hann mótmælti öllu tali um rugling á miðum og mistök í sambandi við seinni greiðsluna.

        X hélt fast við eigin framburð við yfirheyrslur 12. júlí 2006 og 28. febrúar 2007 og ítrekaði að Ásgeir Heiðar hefði átt von á einni greiðslu frá vini sínum og fengið afnot af reikningnum í því skyni. Að sögn X hefði hann aldrei velt því fyrir sér hvort um illa fengið fé væri að ræða.

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 dró Ásgeir Heiðar til baka fram­burð sinn um greiðslu þóknunar til X.    

        X neitaði sök fyrir dómi. Hann þrætti þó ekki fyrir að umræddar greiðslur hefðu borist inn á reikninginn fyrir til­stuðlan Ásgeirs Heiðars og bar að hann hefði tekið út og afhent Ásgeiri Heiðari samtals 350.000 krónur samkvæmt fyrirmælum hans, en í ógáti haldið eftir 9.077 króna mis­mun, í þeirri trú að hann ætti þá peninga. Aðspurður um fyrri greiðsluna sagði X að Ásgeir Heiðar hefði beðið hann um að fá að nota reikninginn og láta leggja inn á hann. Hann kvaðst ekki muna hvað þeim hefði farið á milli í þessu sambandi, en sagði „hann vantaði bara að fá peninginn inn á reikninginn minn og ég sagði bara já“, enda hefðu þeir verið „fínir félagar“ á þessum tíma og saman í fíkniefnaneyslu. Nánar aðspurður kvað hann Ásgeir Heiðar líklega hafa sagt að um laun væri að ræða, sem mættu ekki fara inn á reikning hans vegna skulda. X kvað aldrei hafa verið rætt um fleiri innlagnir og hélt fast við þá skýringu á seinni greiðslunni að Ásgeir Heiðar hefði ruglast á miðum og þannig lagt hana óvart inn á reikninginn, án þess að sam­þykki væri fyrir hendi. Hann þrætti fyrir að hafa vitað um sakaferil Ásgeirs Heiðars, sagðist aldrei hafa hugleitt hvaðan peningarnir kæmu eða hvort þeir væru löglega fengnir og ekki hafa spáð í það öðruvísi en svo að um greiða­semi væri að ræða. Í lok skýrslugjafar var X krafinn skýringa á því af hverju hann hefði í upphafi tengt fyrri greiðsluna við „vin“ Ásgeirs Heiðars og svaraði: „Hvað veit ég um það hvort þessi vinur hans hafi kannski verið vinnuveitandi hans. Ég veit ekkert um það.“

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar hafa spurt X í upphafi hvort leggja mætti peninga inn á reikning hans, hann samþykkt það umorðalaust og í fram­haldi tekið út og afhent sömu fjármuni. Ásgeir Heiðar kvaðst ekki muna hvaða skýringu hann hefði gefið á fyrri greiðslunni, en sagði að hann gæti hafa minnst á laun í þessu sambandi. Þá mótmælti hann ekki framburði X um að seinni greiðslan gæti hafa verið lögð inn fyrir mistök og að X hefði aðeins sam­þykkt eina innlögn, jafnframt því sem hann áréttaði að X hefði aldrei fengið greidda þóknun.

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins er vafalaust að X veitti viðtöku á banka­­reikning sinn, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, þeim greiðslum, sem lýst er í 2. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. B-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli aðstoðaði X þannig Ásgeir Heiðar við að halda greindum ávinningi ólög­lega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á reikninginn og úttekt í reiðufé. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að X hafi vitað deili á ákærðu eða að honum hafi mátt vera ljós fjársvik úr sjóðum TR, þótt reikningsyfir­lit frá við­skipta­­banka hans beri með sér að þaðan hafi greiðslurnar runnið, en hafa ber í huga að þær voru aðeins tvær, að nærri níu mánuðir liðu á milli þeirra og að honum voru ekki send afrit endur­­greiðslu­kvittana.

        Eftir stendur hvort X hafi af öðrum ástæðum vitað, mátt vita eða gruna að peningarnir væru afrakstur auðgunarbrots eða annars hegningar­­laga­brots. Við mat á því ber að líta til þess að hann og Ásgeir Heiðar þekktust lítt og höfðu einkum sam­band í tengslum við fíkni­efna­neyslu. Ennfremur, að svo virðist sem Ásgeir Heiðar hafi gefið þá skýringu á fyrri greiðslunni að um laun væri að ræða, sem hann vildi ekki að kæmu fram á eigin banka­reikningi, og að ekki var um veru­lega fjár­hæð að ræða í því sam­bandi. Þá hefur X ávallt staðhæft að seinni greiðslan hafi verið lögð inn á reikninginn án heimildar og fyrir mistök og hefur Ásgeir Heiðar ekki andmælt því fyrir dómi. Ber því að leggja þann framburð X til grund­vallar, enda þykir hann ekki ótrú­verðugur, eins og hér stendur á. Er því tæk sú máls­vörn X að hann hafi mátt ætla að seinni greiðslan ætti sér sömu eða hlið­stæða skýringu og sú fyrri. Frá sjónar­hóli X virðist því sem við­taka og ráð­stöfun fjárins hafi verið liður í því að aðstoða Ásgeir Heiðar, af greiða­semi, við að leyna skattskyldum tekjum, fremur en ávinningi af auðgunar­broti eða öðru hegningar­laga­broti. Fær slík ályktun stoð í því að X þáði ekki þóknun fyrir gerðir sínar, en dómendur taka trúan­lega þá skýringu að hann hafi verið í góðri trú þegar hann hag­nýtti sér ríflega 9.000 króna ávinning af þvætti peninganna.

        Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt þykir ekki verða slegið föstu að X hafi haft svo skýra mynd af því sem fram fór, að í gerðum hans og meðferð nefndra fjármuna hafi falist ásetningur til að hylma yfir auðgunarbroti í skilningi 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­laga. Hann þykir engu síður hafa sýnt af sér gáleysi með því að veita fénu viðtöku og ráðstafa því til Ásgeirs Heiðars, án þess að spyrja nánar um uppruna þess. Þegar þess er hins vegar gætt, að X var aðeins 18-19 ára þegar þvættið fór fram, að greiðslurnar voru aðeins tvær, að þær virðast hafa verið skýrðar sem svört laun og voru ekki óeðlilegar sem slíkar, þykir skyn­samlegur vafi leika á því að hann hafi mátt gruna að um ólög­lega fengið fé var að ræða og því síður afrakstur af hegningarlaga­broti. Ber af þeirri ástæðu að sýkna X af þeirri hátt­semi, sem honum er gefin að sök í 2. kafla ákæru.

Um 4. kafla ákæru.

        Meðákærða Ágústi Jóni er gefið að sök að hafa veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 556.774 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem hún lét leggja inn á reikninginn með 18 tilhæfulausum greiðslum, á átta mánaða tímabili, frá 6. maí 2002 til 6. janúar 2003. Er þetta hlutrænt séð óumdeilt, sem og að Ágúst Jón tók svipaðar fjárhæðir út af reikningnum, yfirleitt samdægurs en ella nokkrum dögum síðar og afhenti Ásgeiri Heiðari, allt þannig að í lok tímabilsins nam mismunur á inn­lögðu og útteknu fé 1.711 krónum, sem féllu í hlut Ágústs Jóns.

        Ágúst Jón var yfirheyrður hjá lögreglu 29. júní 2006. Hann kvaðst hvorki hafa vitað um fjársvik ákærðu né að umræddar greiðslur væru að berast inn á reikninginn frá TR og gaf þá skýringu á greiðslunum að æskuvinur hans, Ásgeir Heiðar, hefði fengið leyfi til að millifæra á reikninginn, en hann hefði verið skuldugur í bönkum og því ekki getað notað eigin reikning. Ásgeir Heiðar hefði síðan látið vita af innlögnum hverju sinni, Ágúst Jón í framhaldi tekið út og afhent honum sömu fjárhæð í reiðu­fé, án þess að þiggja þóknun fyrir, enda hefði hann litið á þetta sem greiða­­semi.

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að hann hefði fengið leyfi hjá æskuvini sínum Ágústi Jóni til að leggja inn á reikninginn ætlaðar launa­greiðslur, sem ekki mættu fara inn á hans reikning vegna yfirdráttar og yrðu teknar upp í skuld. Hann kvað Ágúst Jón hafa þegið þóknun fyrir afnot reikningsins.

        Ágúst Jón hélt fast við eigin framburð við yfirheyrslur 8. júlí 2006 og 27. febrúar 2007, kvað rangt að hann hefði þegið þóknun fyrir afnot reikningsins og sagði það stríða gegn prinsippum sínum að rukka vini sína fyrir slíka notkun. Hann kvað aldrei hafa hvarflað að sér að um illa fengið fé væri að ræða.

        Ásgeir Heiðar staðfesti fyrri framburð við yfirheyrslu 12. júlí 2006 og sagði Ágúst Jón að öllum líkindum hafa fengið þóknun fyrir greiðslur á reikninginn, senni­lega 25-30.000 krónur í hvert sinn. Ásgeir Heiðar dró þann framburð síðan til baka við yfirheyrslu 26. október 2007.    

        Ágúst Jón neitaði sök fyrir dómi. Hann þrætti þó ekki fyrir að umræddar greiðslur hefðu borist inn á reikninginn fyrir til­stuðlan Ásgeirs Heiðars, en sagðist hvorki hafa vitað um uppruna fjárins né heldur búist við því að um ólöglegt atferli væri að ræða. Á hinn bóginn hefði hann vitað að Ásgeir Heiðar væri skuldugur í bönkum, gæti því ekki notað eigin reikning og því hefði hann heimilað vini sínum afnot reikningsins. Ágúst Jón kvaðst ekki vita til þess að Ásgeir Heiðar hefði verið í launaðri vinnu á ákæru­tíma­bilinu og nefndi að þeir hefðu einhvern tíma verið saman í neyslu og afbrotum.

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar muna lítið eftir samskiptum við Ágúst Jón í tengslum við greiðslur inn á reikning hans. Þó myndi hann eftir að hafa fengið leyfi til að nota reikninginn, sagðist ekki hafa greint Ágústi Jóni frá því hvaðan peningarnir kæmu og hann einskis hafa spurt í því sambandi. Hann kvað Ágúst Jón ekki hafa þegið þóknun fyrir afnotin.

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins er vafalaust að Ágúst Jón veitti viðtöku á banka­­reikning sinn, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, þeim greiðslum, sem lýst er í 4. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. D-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli aðstoðaði Ágúst Jón þannig Ásgeir Heiðar við að halda greindum ávinningi ólöglega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á reikninginn og úttekt í reiðufé. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að Ágúst Jón hafi vitað náin deili á ákærðu eða að honum hafi mátt vera ljós fjársvik úr sjóðum TR, þótt reikningsyfirlit frá við­skipta­­banka beri með sér að þaðan hafi greiðslurnar runnið, en óhrakinn er sá framburður Ágústs Jóns hjá lögreglu, að hann hafi á sama tíma þegið endur­­­greiðslur frá TR vegna mikils lyfja­kostnaðar, auk þess sem honum voru ekki send afrit endur­­greiðslu­kvittana. Óháð því er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn og út af reikningnum voru, sem hér segir:

 

6. maí 2002: Inn 17.503 kr.                             13. maí: Út 14.000 kr.

10. maí 2002: Inn 32.934 kr.                           Samdægurs: Út 33.800 kr.

13. maí 2002: Inn (3 greiðslur) 49.372 kr.      Samdægurs: Út 49.500 kr.      

7. október 2002: Inn 42.560 kr.                       Samdægurs: Út 42.500 kr.

9. október 2002: Inn 47.562 kr.                       10. október: Út 47.000 kr.

10. október 2002: Inn 19.563 kr.                     10. október: Út 19.500 kr.

16. október 2002: Inn 43.569 kr.              

17. október 2002: Inn 27.695 kr.                     17. október: Út 70.500 kr.

22. október 2002: Inn 41.569 kr.                     Samdægurs: Út 40.000 kr.

25. október 2002: Inn 43.562 kr.                     Samdægurs: Út 42.000 kr.

30. október 2002: Inn 36.596 kr.                     Samdægurs: Út 35.000 kr.

1. nóvember 2002: Inn 36.263 kr.                   Samdægurs: Út 36.263 kr.

6. nóvember 2002: Inn 17.265 kr.                   Samdægurs: Út 17.500 kr.

8. nóvember 2002: Inn 25.927 kr.                   Samdægurs: Út 25.500 kr.

20. nóvember 2002: Inn 31.569 kr.                 21. nóvember: Út 32.000 kr.

6. janúar 2003: Inn 43.265 kr.                         Samdægurs: Út 50.000 kr.

 

        Í málinu liggur fyrir framburður Ágústs Jóns um að hann hafi á greindum tíma ekki haft vitund um að Ásgeir Heiðar væri í launaðri vinnu, en þeir eru æskuvinir. Í ljósi þessa mátti Ágúst Jón vita að umræddar greiðslur voru hvorki laun né aðrar tekjur. Þegar þetta er virt og litið er til fjölda, tíðni og fjárhæðar einstakra greiðslna inn á reikninginn, sem Ágúst Jón tók jafnharðan út og afhenti vini sínum í reiðufé, verður ekki dregin önnur, skynsamleg ályktun en að honum hafi hlotið að vera ljóst, eða í það minnsta ekki getað dulist, að ekki var um löglega fengið fé að ræða. Að því gættu mátti Ágúst Jón einnig vita eða gruna að með viðtöku og ráðstöfun fjárins væri hann sjálfur að taka þátt í refsiverðri háttsemi. Með því að gera þetta engu að síður, undir framangreindum kringumstæðum og án þess að spyrjast nokkru sinni fyrir um upp­­runa fjárins, telja dómendur hafið yfir skynsamlegan vafa að Ágúst Jón hafi gerst sekur um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, enda lang­lík­legast að téðir fjármunir væru afrakstur af auðgunarbroti Ásgeirs Heiðars eða annarra. Ber að sak­fella Ágúst Jón því til samræmis.   

Um 7. kafla ákæru.

        Meðákærðu Bryndísi er gefið að sök að hafa veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 480.811 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem hún lét leggja inn á reikninginn með 10 tilhæfulausum greiðslum, á tæplega þrettán mánaða tímabili, frá 5. júní 2002 til 1. júlí 2003. Er þetta hlutrænt séð óumdeilt, sem og að Bryndís tók svipaðar fjárhæðir út af reikningnum, yfirleitt samdægurs en ella fáeinum dögum síðar og afhenti, eftir því sem næst verður komist, ýmist Ásgeiri Heiðari eða með­­ákærðu Önnu Dóru, þannig að í lok tímabilsins nam mismunur á inn­lögðu og útteknu fé 43.811 krónum, sem féllu í hlut Bryndísar.

        Bryndís var yfirheyrð hjá lögreglu 29. júní 2006. Hún kvaðst hvorki hafa vitað um fjársvik ákærðu né að umræddar greiðslur væru að berast inn á reikninginn frá TR og gaf þá skýringu á greiðslunum að vinur hennar, Ásgeir Heiðar, hefði beðið hana um leyfi til að millifæra fé inn á reikninginn, hann ekki gefið upp neina ástæðu fyrir því og hún einskis spurt. Hana sagðist minna að um tvær greiðslur hefði verið að ræða, að í bæði skiptin hefði Ásgeir Heiðar látið hana vita af innlögnum, hún þá farið í banka, tekið út sömu fjárhæð og afhent honum, að frádregnum 5-6.000 krónum í hvort skipti, sem hún hefði fengið í þóknun. Bryndísi var kynnt að grunur léki á um að greiðslurnar hefðu verið tíu en ekki tvær. Hún kvað þetta koma sér á óvart, en gat þess að hún hefði lent í bílslysi í júní 2002, skaddast á höfði og því væri þessi tími fremur þoku­kenndur. 

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að Bryndís væri æskuvinkona sín og að hún hefði veitt honum leyfi til að leggja inn á reikninginn ætlaðar launa­greiðslur, sem ekki hefðu mátt fara inn á hans reikning vegna skulda. Hann kvað Bryndísi hafa þegið 25-30.000 króna þóknun fyrir hverja innlögn.

        Bryndís hélt fast við framburð sinn við yfirheyrslu 8. júlí 2006, ítrekaði að hún hefði skert minni í kjölfar bílslyssins og myndi því ekki eftir greiðslum á reikninginn eftir slysdag, 10. júní 2002. Hún afhenti lögreglu matsgerð til stað­festingar á slysinu og afleiðingum þess. Þá áréttaði Bryndís að í þau tvö skipti, sem hún myndi eftir að hafa tekið við greiðslum á reikninginn, hefði hún aðeins þegið um 5.000 krónur í þóknun. Hún kvaðst muna eftir að hafa heimsótt Ásgeir Heiðar á Kvíabryggju meðan hann var í afplánun, ekki muna hverjum hún hefði afhent úttekið fé á sama tímabili, en nefndi þó Önnu Dóru í því sambandi. Að sögn Bryndísar hefði hana hvorki grunað hvaðan fjármunirnir væru komnir né heldur að um illa fengið fé væri að ræða.

        Ásgeir Heiðar staðfesti framburð sinn við yfirheyrslu 12. júlí 2006, sagðist þó ekki muna hve háa þóknun Bryndís hefði fengið, en taldi að um 25-30.000 krónur hefði verið að ræða í hvert skipti. Hann kvaðst lítið geta tjáð sig um ætlað minnisleysi Bryndísar, en tók fram að þegar hann hefði leitað til hennar í tengslum við afnot reikningsins hefði andlegt og líkamlegt ástand hennar verið gott.

        Bryndís staðfesti fyrri framburð við yfirheyrslu 9. október 2007, sagðist telja að hún hefði ekki fengið að halda eftir 32.691 króna mismun á innlögðu og útteknu fé árið 2002, en hins vegar hefði hún haldið eftir 11.120 króna mismun á árinu 2003. Hún kvaðst aðeins muna eftir að hafa afhent Ásgeiri Heiðari peninga í tvö skipti og ekki minnast þess að hafa afhent öðrum fé í tengslum við afnot reikningsins.

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 dró Ásgeir Heiðar til baka fram­burð sinn um greiðslu þóknunar til Bryndísar, en bætti því við að hún gæti hafa haldið eftir 43.811 króna mismun á innborguðu og útteknu fé. 

        Bryndís neitaði sök fyrir dómi. Hún þrætti þó ekki fyrir að umræddar greiðslur hefðu borist inn á reikninginn fyrir til­stuðlan Ásgeirs Heiðars, en kvaðst aðeins muna eftir 2-3 greiðslum og bar fyrir sig minnis­skerðingu sökum bílslyssins 10. júní 2002. Hún kvaðst ekki minnast þess að Ásgeir Heiðar hefði rætt um launagreiðslur í þessu samhengi, taldi að aldrei hefði borist í tal hvaðan fjármunirnir kæmu og sagðist einskis hafa spurt, en hana hefði þó aldrei grunað að um illa fengið fé væri að ræða og hún litið á þetta sem greiðasemi við æskuvin sinn, Ásgeir Heiðar. Hún kvaðst hafa vitað að hann væri í fíkniefnaneyslu á greindum tíma og að hann hefði verið í afbrotum og játti að hafa heimsótt hann í fangelsi, bæði á Kvía­bryggju og Litla Hraun. Bryndís viður­kenndi að hafa þegið um 5.000 króna þóknun í 2-3 skipti. Hún kannaðist og við að hafa hagnýtt sér samtals 43.811 króna mismun á innlögðu og útteknu fé.

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar hafa fengið leyfi Bryndísar æsku­vin­konu sinnar til að leggja umræddar greiðslur inn á reikninginn, sagði hana einskis hafa spurt í því sambandi og fullyrti að hún hefði vitað bæði um fíkniefnaneyslu hans og afbrota­feril.

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins er vafalaust að Bryndís veitti viðtöku á banka­­reikning sinn, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, þeim greiðslum, sem lýst er í 7. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. H-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli veitti Bryndís þannig Ásgeiri Heiðari aðstoð við að halda greindum ávinningi ólöglega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á reikninginn og úttekt í reiðufé. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að Bryndís hafi vitað eða mátt vita um fjársvik úr sjóðum TR, þótt reikningsyfirlit beri með sér að þaðan hafi greiðslurnar runnið, en hafa ber í huga að greiðslurnar voru ekki ýkja­margar og að henni voru ekki send afrit endur­­greiðslu­kvittana. Óháð því er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn og út af reikningnum voru, sem hér segir:

 

5. júní 2002: Inn 89.469 kr.                             Samdægurs: Út 89.000 kr.

6. júní 2002: Inn 19.934 kr.                             6. og 7. júní: Út 19.000 kr.

12. júní 2002: Inn 18.256 kr.                                      

13. júní 2002: Inn 32.938 kr.                          

18. júní 2002: Inn 27.211 kr.                           Samdægurs: Út 65.000 kr.

23. ágúst 2002: Inn 47.569 kr.                         Samdægurs: Út 45.000 kr.

15. nóvember 2002: Inn 60.049 kr.                 Samdægurs: Út 55.000 kr.

19. desember 2002: Inn 65.265 kr.                  20. desember: Út 55.000 kr.

6. janúar 2003: Inn 47.569 kr.                         Samdægurs: Út 42.000 kr.

1. júlí 2003: Inn 72.551 kr.                             Samdægurs: Út 67.000 kr.

 

        Af framburði Bryndísar hjá lögreglu og fyrir dómi er ljóst að hún heimilaði Ásgeiri Heiðari að millifæra peninga á reikning hennar, að hann gaf enga skýringu á þeim afnotum og að hún spurði einskis í því sambandi. Sam­rýmist þetta framburði Ásgeirs Heiðars fyrir dómi. Þá liggur fyrir að Bryndís þáði þóknun fyrir afnot reikningsins, annars vegar í formi reiðu­fjár og hins vegar með því að halda eftir fjár­munum á reikningnum, en þannig féllu í það minnsta 43.811 krónur í hennar hlut og sennilega ríflega 50.000 krónur. Af rökrænum ástæðum fær slík viðtaka þóknunar ekki sam­rýmst þeirri viðbáru Bryndísar að um greiðasemi hafi verið að ræða.

        Þá hefur Bryndís borið fyrir sig minnisskerðingu eftir bílslys 10. júní 2002. Sú við­bára er einnig haldlaus, enda lýtur sakarmat öðrum þræði að aðstæðum þegar hún veitti samþykki fyrir afnotum á reikningnum og huglægri afstöðu hennar á þeirri stundu. Er ljóst að slíkt samþykki lá fyrir 5. og 6. júní þegar samtals 109.403 krónur voru lagðar inn á reikninginn, 108.000 krónur teknar út og hún þáði um 10.000 króna þóknun fyrir, að eigin sögn. Þá bera úttektar­nótur nafn­ritun Bryndísar og þykir því einsætt að ástand hennar hafi ekki verið verra en svo í kjölfar slyssins, að hún gat hlýtt kalli Ásgeirs Heiðars þegar hann tilkynnti um innlagt fé, farið í banka, yfirleitt sam­dægurs, tekið út reiðufé, afhent Ásgeiri Heiðari eða öðrum samkvæmt fyrirmælum hans og haldið eftir þóknun sér til handa. Þegar af þessum ástæðum stoðar það Bryndísi ekki að bera fyrir sig minnis­skerðingu eftir nefnt bílslys.

        Bryndís og Ásgeir Heiðar eru æskuvinir. Hún vissi að hann var í fíkniefnaneyslu á greindum tíma og að hann hefði verið í afbrotum. Þrátt fyrir minnisskerðingu man Bryndís eftir að hafa heim­sótt Ásgeir Heiðar tvívegis í fangelsi. Liggur fyrir að hann var í afplánun frá 6. mars til 1. maí 2002 og aftur frá 6. janúar 2003 til 12. maí 2004. Þótt ekki liggi fyrir hvenær umræddar heimsóknir áttu sér stað er ljóst að hann sat í fangelsi 1. júlí 2003, þá er 72.551 króna var lögð inn á reikning Bryndísar, en sama dag tók hún út 67.000 krónur í reiðufé og afhenti Ásgeiri Heiðari eða öðrum. Liggur í hlutarins eðli að Bryndís vissi þá um dvalarstað hans.

        Þegar allt framangreint er virt, og sér í lagi að Bryndís þáði frá upphafi þóknun fyrir afnot reikningsins, er það álit dómenda að hún hafi ekki getað velkst í vafa um að ólögmætt atferli byggi að baki greiðslunum og að téðir fjár­munir væru að öllum líkindum afrakstur af auðgunar­broti meðákærða eða annarra. Viðtaka fjárins og fyrr­greind ráðstöfun, án þess að spyrjast nokkru sinni fyrir um upp­runa fjárins, bendir eindregið til þess að Bryndís hafi ekki viljað vita vissu sína í þeim efnum. Þykir því hafið yfir skyn­sam­legan vafa að Bryndís hafi með gerðum sínum gerst sek um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga og ber að sak­fella hana því til samræmis.

Um 8. kafla ákæru.

        Meðákærða Dagbjarti Eiði er gefið að sök að hafa veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 3.816.079 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem hún lét leggja inn á reikninginn með 36 tilhæfulausum greiðslum, á tímabilinu frá 5. desember 2002 til 6. júní 2006, þar af 29 greiðslur á tímabilinu frá 18. október 2004 til 28. september 2005, samtals krónur 3.240.307. Eru síðarnefndar greiðslur, og tvær greiðslur á árinu 2006, hlut­rænt séð óumdeildar, sem og að Dagbjartur Eiður tók svipaðar fjárhæðir út af reikningnum, yfir­leitt samdægurs en ella fáeinum dögum síðar.

        Dagbjartur Eiður var yfirheyrður hjá lögreglu 27. júní 2006. Hann kvaðst hvorki hafa vitað um fjársvik ákærðu né að ólöglegar greiðslur væru að berast inn á reikning hans frá TR og gaf þá skýringu á greiðslunum að kunningi hans, meðákærði Ásgeir Heiðar, hefði fengið leyfi til að millifæra á reikninginn „greiðslur sem hann hafi átt von á frá útlöndum“, en Ásgeir Heiðar hefði sagst vera skuldugur og að allir fjár­munir sem færu inn á reikning hans yrðu teknir upp í skuldir. Dag­bjartur Eiður kvaðst hafa tekið þessar skýringar góðar og gildar og nefndi að Ásgeir Heiðar hefði gert svipað samkomulag við barnsmóður hans, meðákærðu Erlu Ingu. Hún hefði síðan séð á reiknings­­­­yfirlitum að greiðslurnar bárust frá TR, krafið Ásgeir Heiðar skýringa og hann sagt að um væri að ræða bætur eftir bílslys. Að sögn Dagbjarts Eiðs hefði hann svo tekið eftir því að eins var háttað með greiðslur inn á reikninginn hans. Hann kvað Ásgeir Heiðar ávallt hafa hringt þegar búið var að leggja inn á reikninginn, beðið Dagbjart Eið að sækja reiðufé í banka og afhenda honum. Kvaðst Dagbjartur Eiður ekki hafa þegið þóknun fyrir, en Ásgeir Heiðar hefði stundum gefið honum fíkniefni og í einhver skipti lánað honum fé, sem hann væri þó búinn að endurgreiða. 

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að hann hefði fengið leyfi hjá vini sínum Dagbjarti Eiði til að leggja inn á reikninginn ætlaðar launa­greiðslur, sem ekki mættu fara inn á hans eigin reikning vegna skulda. Hann kvað Dagbjart Eið hafa þegið þóknun fyrir afnot reikningsins, um 25-30.000 krónur í reiðu­fé hvert sinn, en mis­muninum hefði hann skilað af sér í reiðufé.

        Ásgeir Heiðar staðfesti ofangreindan framburð við yfirheyrslu 12. júlí 2006, sagði rangt að hann hefði minnst á greiðslur frá útlöndum við Dagbjart Eið og slysa­bætur við Erlu Ingu, áréttaði að Dagbjartur Eiður hefði þegið 25-30.000 króna þóknun fyrir hverja greiðslu og þrætti fyrir að hafa látið honum í té fíkniefni eða lánað honum fé.

        Dagbjartur Eiður hélt fast við eigin framburð við yfirheyrslu 4. apríl 2007 og fullyrti að Ásgeir Heiðar hefði fengið í hendur alla fjármuni, sem hann hefði lagt inn á reikninginn. Dagbjarti Eiði voru sýnd yfirlit um grunsamlegar færslur árin 2002-2006 og bar aðeins brigður á 30.628 króna greiðslu 3. janúar 2003, sem hann taldi lögmæta endur­greiðslu til sín frá TR vegna endur­hæfingar og tannlæknakostnaðar.  

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 breytti Ásgeir Heiðar fyrri fram­burði og fullyrti að Dagbjartur Eiður hefði ekki aðeins þegið fyrrnefnda þóknun heldur hefði hann haldið eftir nær öllu innlögðu fé á reikninginn, sem greiðslu fyrir fíkniefni. Nánar aðspurður kvaðst hann síðan ekki viss um fjár­hæð þóknana á árunum 2002-2003. 

        Dagbjartur Eiður neitaði sök fyrir dómi. Hann þrætti þó ekki fyrir að umræddar 36 greiðslur hefðu borist inn á reikninginn fyrir til­stuðlan Ásgeirs Heiðars, sem hefði sagt að um slysabætur væri að ræða og að þær yrðu teknar upp í skuld ef þær færu inn á hans eigin reikning. Að sögn Dagbjarts Eiðs hefði hann litið á þetta sem greiðasemi við Ásgeir Heiðar og einskis spurt í því sambandi. Borin var undir Dagbjart Eið sú frásögn hans hjá lögreglu 27. júní 2006 að Ásgeir Heiðar hefði sagt greiðslurnar berast frá útlöndum. Hann kvaðst ekkert skilja í þeim framburði og tók fram að hann hefði verið í mikilli óreglu þegar skýrslan var gefin. Hann kvaðst aldrei hafa hugleitt af hverju Ásgeir Heiðar hefði þurft að nota bæði reikning hans og Erlu Ingu á sama tíma­bili og lagt inn á þá ríflega 10.000.000 króna, bar fyrir sig hugsunarleysi í þeim efnum, sem og um tíðni innlagna á eigin reikning. Hann kvaðst þó aldrei hafa grunað neitt misjafnt og sagði rangt að greiðslurnar hefðu tengst fíkniefnaviðskiptum hans og Ásgeirs Heiðars. Hann kvaðst hins vegar hafa verið í neyslu á ákærutímabilinu og hafa vitað að eins væri ástatt um Ásgeir Heiðar. Sem fyrr þrætti Dagbjartur Eiður fyrir að hafa þegið þóknun frá Ásgeiri Heiðari og kvaðst hafa afhent honum hverja krónu. Aðspurður um kynni sín af Ásgeiri Heiðari sagði Dagbjartur Eiður að þeir hefðu í raun kynnst árið 2004, en í kjölfar þess hefði Ásgeir Heiðar fært í tal að fá afnot af reikningnum. Sökum þessa mót­­mælti Dagbjartur Eiður því að innlagnir á reikninginn árin 2002-2003, alls fimm greiðslur að fjárhæð 246.171 króna, væru sakar­efninu við­komandi og sagði þær lög­legar endurgreiðslur frá TR. Fram kom í máli Dagbjarts Eiðs að hann og Erla Inga hefðu verið sundur og saman á árunum 2004-2006.  

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar hafa kynnst Dagbjarti Eiði í kringum 15 ára aldur og þeir verið miklir vinir á ákærutímabilinu og saman í fíkniefnaneyslu. Hann sagðist hafa skýrt Dagbjarti Eiði frá uppruna fjárins, sem fór inn á reikninginn og sagði fyrri framburð sinn rangan um að hann hefði minnst á launa­greiðslur í því sam­bandi. Ásgeir Heiðar þrætti fyrir að hafa nokkru sinni rætt um slysa­bætur við Erlu Ingu, ítrekaði að Dagbjartur Eiður hefði haldið nær öllum peningunum, sem fóru inn á reikninginn og áréttaði að þannig hefði hann greitt Dagbjarti Eiði fyrir fíkniefni.

        Álit dómsins.  

        Í þessum þætti málsins hefur Dagbjartur Eiður staðhæft fyrir dómi að 5 af 36 greiðslum inn á bankareikning hans eigi sér eðlilegar skýringar sem endur­greiðslur frá TR. Samtals nema þær 246.171 krónu og voru lagðar inn á reikninginn á innan við eins mánaðar tímabili, frá 5. desember 2002 til 3. janúar 2003. Leið síðan ríflega 21 mánuður þar til næsta greiðsla barst frá TR, nánar tiltekið 18. október 2004. Getur þetta samrýmst þeim framburði Dagbjarts Eiðs að hann hafi kynnst Ásgeiri Heiðari fyrir alvöru á árinu 2004 og hann þá fyrst beðið Dagbjart Eið um leyfi til að millifæra peninga á reikninginn. Er ekkert fram komið í málinu, sem hrekur þann framburð eða veikir svo nokkru nemi. Að þessu gættu er ekki unnt að fullyrða að með viðtöku og ráð­stöfun umræddra greiðslna 2002-2003 hafi Dagbjartur Eiður sýnt af sér ásetning í skilningi 1. mgr. 254 gr. eða gáleysi í skilningi 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. almennra hegningar­laga, óháð því hver var raunveruleg skýring að baki sömu greiðslum. Ber honum að njóta vafans í þessu sambandi, sbr. 45.-46. gr. laga um með­ferð opin­berra mála og skal hann að því marki sýkn sakar.

        Stendur þá eftir 31 greiðsla, samtals að fjárhæð krónur 3.569.908, sem vafalaust er að Dagbjartur Eiður veitti viðtöku á reikninginn, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrir­mælum Ásgeirs Heiðars, svo sem lýst er í 8. kafla ákæru og að þeirra fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rannveigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. I-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli aðstoðaði Dagbjartur Eiður þannig Ásgeir Heiðar við að halda téðum ávinningi ólöglega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með færslum inn á reikninginn og úttekt þeirra í reiðufé, að frátalinni 17.732 króna greiðslu, sem Dagbjartur Eiður lét milli­færa til þriðja aðila 23. mars 2005. Er óumdeilt að þannig hafi 985.881 króna verið lögð inn á reikninginn í formi 10 greiðslna á tíma­bilinu frá 18. október til 29. desember 2004, krónur 2.254.426 í formi 19 greiðslna á tímabilinu frá 4. janúar til 28. september 2005, og loks 329.601 króna í formi tveggja greiðslna í janúar og júní 2006. Eru fjárhæðir mismunandi hverju sinni, sú lægsta 59.616 krónur og sú hæsta 165.556, en af 31 greiðslu eru 25, sem nema hærri fjárhæð en 100.000 krónum.

        Í málinu liggur fyrir framburður Dagbjarts Eiðs hjá lögreglu 27. júní 2006 um að hann hafi samþykkt að Ásgeir Heiðar legði inn á reikning hans væntanlegar greiðslur frá útlöndum. Jafnframt kannaðist hann við að hafa orðið þess áskynja að greiðslurnar bárust í raun frá TR. Að sögn Dag­bjarts Eiðs tók hann fyrri skýringuna góða og gilda í upphafi og ekki verður ráðið af nefndri skýrslu að hann hafi krafið Ásgeir Heiðar frekari upplýsinga eftir að í ljós kom hvaðan greiðslurnar bárust, heldur látið sér nægja þá skýringu að um slysabætur væri að ræða, svo sem Ásgeir Heiðar á að hafa sagt við Erlu Ingu.

        Við yfirheyrslu 4. apríl 2007 las Dagbjartur Eiður ofangreinda framburðarskýrslu, í viður­vist verjanda, og stað­festi réttmæti hennar. Þegar Dagbjartur Eiður kom síðan fyrir dóm kvaðst hann ekki skilja af hverju hann hefði bendlað greiðslurnar við útlönd og bar fyrir sig að hafa verið í mikilli óreglu meðan á rannsókn málsins stóð.

        Óháð því hvort óregla leiði til þess að sakborningur skýri tvívegis rangt frá sömu stað­reynd, með 9 mánaða millibili, þykir meira um vert að Dagbjartur Eiður greindi strax í upphafi frá því að hann hefði áttað sig á að greiðslurnar bárust frá TR. Hefur hann haldið sig við þann framburð fyrir dómi, sagt að Ásgeir Heiðar hafi borið því við að slysabæturnar yrðu teknar upp í skuld ef þær færu inn á hans eigin reikning og Dagbjartur Eiður því fallist á afnot reikningsins, af greiðasemi við Ásgeir Heiðar og án þess að spyrja nokkurs í því sambandi.

        Ef marka má ofangreindan framburð Dagbjarts Eiðs stóð hann þannig í trú um að Ásgeir Heiðar væri að þiggja slysabætur frá TR, sem á ríflega 11 mánaða tímabili, frá 18. október 2004 til 28. september 2005, voru inntar af hendi með ójöfnum greiðslum, samtals að fjárhæð 3.240.307 krónur. Ennfremur stóð hann þá í trú um að ekki væri óeðlilegt að TR greiddi slíkar bætur með óreglu­legu millibili, stundum á nokkurra daga fresti, svo sem fyrir liggur í málinu, til dæmis 18. og 21. október 2004 (sam­tals 220.544 krónur), 27. og 29. desember 2004 og 4. janúar 2005 (samtals 254.337 krónur), og 9. og 11. febrúar 2005 (samtals 220.638 krónur), en í öllum greindum tilvikum nema einu fór Dagbjartur Eiður sam­dægurs í banka og afhenti að eigin sögn Ásgeiri Heiðari úttekið reiðufé.

        Það er mat dómenda að á framangreindu sé slíkur ólíkindablær og því sé sá fram­burður Dagbjarts Eiðs að engu hafandi, að hann hafi verið eða mátt vera í góðri trú um löglegan uppruna fjárins. Þegar við þetta bætist sú stað­reynd, að hann vissi um sam­svarandi samkomulag Ásgeirs Heiðars við Erlu Ingu, þykir engum vafa undirorpið að Dagbjartur Eiður hafi vitað eða mátt vita að hann væri sjálfur að taka þátt í refsi­verðu atferli. Með viðtöku fjárins undir greindum kringumstæðum og ráðstöfun þess til Ásgeirs Heiðars, sem Dagbjartur Eiður þekkti og vissi að var í fíkniefnaneyslu, án þess að draga nokkru sinni í efa þá fráleitu skýringu að um slysabætur væri að ræða, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að Dagbjartur Eiður hafi gerst sekur um hylmingu sam­kvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, enda langlíklegast að téðir fjár­munir væru afrakstur af auðgunarbroti Ásgeirs Heiðars eða annarra. Ber að sak­fella Dagbjart Eið því til samræmis. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt Dagbjartur Eiður hafi ekki þegið þóknun fyrir, en í ljósi eindreginnar ­neitunar, þess að nær allt féð var tekið út af reikningi hans og síðast en ekki síst reikuls framburðar Ásgeirs Heiðars um skiptingu fjárins, þykir ósannað að Dagbjartur Eiður hafi haft ávinning af broti sínu.

Um 9. kafla ákæru.

        Meðákærðu Erlu Ingu er gefið að sök að hafa veitt viðtöku, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 6.724.561 krónu ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rannveigar, í formi 53 tilhæfulausra endurgreiðslna úr sjóðum TR, á tímabilinu frá 12. desember 2002 til 1. júní 2006, en af nefndri fjárhæð voru 6.650.233 krónur millifærðar á tvo bankareikninga Erlu Ingu, auk 74.328 króna, sem greiddar voru með tékka. Gögn málsins bera með sér að 51 greiðsla fór fram á tímabilinu frá 26. október 2004 til 1. júní 2006, ávallt inn á reikning hennar hjá SPRON, en áður hafði tékkinn verið útgefinn 12. desember 2002 og 74.347 króna greiðsla lögð inn á reikning hennar hjá KB banka 6. janúar 2003. Að frá­töldum síðarnefndum tveimur greiðslum er hlutrænt séð óumdeilt að greiðslur inn á SPRON reikninginn eiga rót sína að rekja til fjársvika ákærðu, sem og að Erla Inga tók yfirleitt sömu eða svipaðar fjár­hæðir út af reikningnum, samdægurs eða fáeinum dögum eftir innlögn.

        Erla Inga var yfirheyrð hjá lögreglu 27. júní 2006. Hún kvaðst hvorki hafa vitað um fjársvik ákærðu né að ólöglegar greiðslur væru að berast inn á reikninga hennar frá TR. Hún hefði engu að síður móttekið greiðslur frá TR og gaf þá skýringu á tilurð þeirra að Ásgeir Heiðar, vinur meðákærða Dagbjarts Eiðs, hefði komið að máli við hana einhvern tíma árs 2005, sagst eiga von á slíkum greiðslum, hann ekki geta stofnað reikning sjálfur vegna skulda í bankakerfinu og því beðið um leyfi til að nota reikning hennar til móttöku fjárins. Hún kvaðst hafa spurt hvernig greiðslurnar væru til komnar, Ásgeir Heiðar þá sagt að þetta væru bætur og hún látið sér það gott heita. Í kjölfarið hefðu greiðslur byrjað að berast inn á SPRON reikninginn frá TR. Erla Inga kvaðst aldrei hafa þegið þóknun fyrir, en sagði Ásgeir Heiðar stundum hafa „aðstoðað hana fjárhags­lega“, bæði fyrir og eftir veitt samþykki, og því hefði hún viljað gera honum þennan greiða á móti. Að sögn Erlu Ingu hefðu ýmist hún eða Dag­bjartur Eiður síðan endur­greitt veittan fjárstuðning, þó ekki í öllum tilvikum. Erla Inga dró ekki dul á að hún hefði á sama tíma vitað að Ásgeir Heiðar væri jafnframt að nota banka­reikning Dagbjarts Eiðs og sagði það hafa verið undir sömu formerkjum. Erlu Ingu var kynnt að rannsóknargögn bæru með sér að hún hefði móttekið 148.675 krónur í tvennu lagi (74.328 + 74.347) í desember 2002 og janúar 2003. Hún sagðist fullviss að þær greiðslur tengdust ekki Ásgeiri Heiðari og að hún hefði sjálf átt rétt til þeirra.   

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að hann hefði fengið leyfi hjá Erlu Ingu til að leggja inn á reikning hennar ætlaðar launa­greiðslur, sem ekki mættu fara inn á hans eigin reikning, því þá yrðu þær teknar upp í skuldir. Hann kvað Erlu Ingu hafa þegið þóknun fyrir afnot reikningsins, um 25-30.000 krónur í hvert sinn.

        Erla Inga hélt fast við sinn framburð við yfirheyrslur 10. júlí 2006 og 17. apríl 2007, þrætti fyrir að Ásgeir Heiðar hefði rætt um laun í tengslum við innlagnir á reikning hennar og áréttaði að hún hefði aldrei fengið þóknun fyrir, aðeins „rúnnað af“ hverri greiðslu „við næsta þúsund fyrir neðan“ og afhent honum þá fjárhæð í reiðufé. Hún kvaðst hafa vitað að Ásgeir Heiðar hefði ekki verið í fastri vinnu, en haft verk­stæðis­aðstöðu og verið að gera við eigin bifreiðar. Þá ítrekaði Erla Inga að hún hefði átt rétt til greiðslnanna tveggja árin 2002 og 2003 og óskaði eftir að lögregla aflaði gagna því til stað­festingar. Hana kvaðst aldrei hafa grunað að aðrar greiðslur gætu verið ólöglega til komnar.

        Ásgeir Heiðar staðfesti eigin framburð við yfirheyrslu 12. júlí 2006, sagði rangt að hann hefði rætt um bætur við Erlu Ingu, sem og að hann hefði nokkru sinni lánað henni fé eða aðstoðað hana fjárhagslega með öðru móti.

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 dró Ásgeir Heiðar til baka fram­burð sinn um greiðslu þóknunar til Erlu Ingu, en staðfesti þó þann skilning lögreglu að Erla Inga hefði haldið eftir einhverjum mismun á innborguðu og útteknu fé.

        Erla Inga neitaði sök fyrir dómi. Hún þrætti þó ekki fyrir að umrædd 51 greiðsla hefði borist inn á SPRON reikninginn fyrir til­stuðlan Ásgeirs Heiðars, sem hefði sagt að um slysabætur væri að ræða og að þær yrðu teknar upp í skuld ef þær færu inn á hans eigin reikning. Hún kvaðst hafa vitað um samskonar greiðslur, á sama tímabili og með áþekkum fjárhæðum, inn á reikning Dag­bjarts Eiðs, en aldrei hafa velt því fyrir sér af hverju Ásgeir Heiðar þyrfti fleiri reikninga til að leyna slysabótunum og aldrei hafa grunað að um ólöglegt athæfi væri að ræða. Að auki hefði hún vitað um greiðslur inn á reikning bróður síns, meðákærða Þorfinns. Erla Inga dró á hinn bóginn í efa að greiðslurnar frá 2002 og 2003 væru sakarefninu viðkomandi, enda hefði hún ekki þekkt Ásgeir Heiðar á þeim tíma, en síðar kynnst honum lítillega gegnum Dagbjart Eið, jafnvel um svipað leyti og þau hefðu eignast barn saman, í júlí 2004. Hún kvaðst á greindum tíma hafa vitað að Ásgeir Heiðar væri óreglumaður, atvinnulaus og í fíkni­efna­neyslu, og að hann hefði setið í fangelsi. Henni hefði þó ekki fundist neitt skrýtið við að láta honum reikninginn í té og tók fram að hún hefði sjálf verið í mikilli óreglu á sama tíma. Sem fyrr kvaðst hún aldrei hafa þegið þóknun fyrir afnot reikningsins árin 2004-2006 og hún afhent Ásgeiri Heiðari hverja krónu, sem hún hefði tekið út af reikningum. Í lok skýrslu­gjafar var Erlu Ingu kynnt að Ásgeir Heiðar þrætti fyrir að hafa nokkru sinni stutt hana fjárhagslega, svo sem hún hefði borið hjá lögreglu. Í framhaldi kvaðst hún örugglega hafa verið að meina að hann hefði stundum látið henni í té fíkniefni, en þau hefðu verið „neyslufélagar“ á þessum tíma. Hins vegar hefði aldrei verið um beina fjárhags­aðstoð að ræða.

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar hafa kynnst Erlu Ingu gegnum Dagbjart Eið og þannig fengið leyfi hennar til að nota reikninginn. Hann kvað Erlu Ingu ljúga því að hann hefði tengt greiðslurnar við ætlaðar slysabætur og sagðist aldrei hafa átt slíkan bótarétt vegna slyss. Þá hefði hann ekki sagt „þessu fólki“ að um laun væri að ræða og aldrei látið uppi hvaðan greiðslurnar bærust nema hann væri spurður, en í þeim til­vikum hefði hann sagt sannleikann. Í tilviki Erlu Ingu hefði hann hreinlega vantað peninga fyrir fíkni­efnum, því beðið hana um afnot reikningsins og ekki greitt henni þóknun fyrir.

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins hefur Erla Inga staðhæft að tvær af 53 greiðslum til hennar frá TR eigi sér eðlilegar skýringar, annars vegar tékkagreiðslan frá 12. desember 2002 og hins vegar greiðslan á KB bankareikning hennar 6. janúar 2003, en samtals nema þær 148.675 krónum. Fyrir liggur að Erla Inga bjó á greindum tíma að Esju­grund 14a og bera viðkomandi endurgreiðslukvittanir sama heimilis­fang. Þá er ljóst að í kjölfar seinni greiðslunnar liðu tæplega 22 mánuðir þar til greiðslur fóru að berast frá TR inn á SPRON reikning hennar, nánar tiltekið 26. október 2004. Endur­greiðslukvittanir frá þeim tíma til 17. maí 2005 bera póstfangið Flyðrugrandi 16, en seinni greiðslur Reyrengi 10, sem samrýmist heimilisfangi Erlu Ingu árin 2004-2006 samkvæmt úttektarnótum í bönkum. Óháð því hvar hún bjó á þessum tíma geta téðar upplýsingar samrýmst þeim framburði Erlu Ingu að hún hafi kynnst Ásgeiri Heiðari árið 2004 og að þá fyrst hafi hann fengið leyfi hennar til að millifæra greiðslur frá TR inn á umræddan reikning. Fær þetta og stoð í áðurnefndum framburði Dagbjarts Eiðs um kynni sín af Ásgeiri Heiðari. Í það minnsta er ekkert fram komið í málinu, sem hrekur framburð Erlu Ingu um fyrstu tvær greiðslurnar eða veikir svo nokkru nemi. Að þessu gættu er ekki unnt að fullyrða að með viðtöku og ráðstöfun umræddra greiðslna 2002 og 2003 hafi Erla Inga sýnt af sér ásetning í skilningi 1. mgr. 254 gr. eða gáleysi í skilningi 4., sbr. 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, óháð því hver var raunveruleg skýring að baki sömu greiðslum. Ber henni að njóta vafans í þessu sam­bandi, sbr. 45.-46. gr. laga um með­ferð opin­berra mála og skal hún að því marki sýkn sakar.

        Stendur þá eftir 51 greiðsla, samtals að fjárhæð krónur 6.575.886, sem vafalaust er að Erla Inga veitti viðtöku á SPRON reikninginn, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrir­­mælum Ásgeirs Heiðars, svo sem lýst er í 9. kafla ákæru og að þeirra fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rannveigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. J-liður 1. kafla. Frá hlut­rænum sjónarhóli aðstoðaði Erla Inga þannig Ásgeir Heiðar við að halda téðum ávinningi ólöglega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með færslum inn á reikninginn og úttekt þeirra í reiðufé, þó þannig að 3.775 króna mis­munur varð eftir á reikningnum árið 2004, árið eftir nam sá mismunur 143.530 krónum, en árið 2006 var hann neikvæður sem svarar 311 krónum. Óháð því hvort líta beri á greindan mismun sem þóknun til Erlu Ingu er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn á reikninginn námu 996.753 krónum í formi 10 greiðslna á tíma­bilinu frá 26. október til 29. desember 2004, krónum 4.761.892 í formi 36 greiðslna á tímabilinu frá 4. janúar til 29. nóvember 2005, og loks 817.241 krónu í formi 5 greiðslna á tímabilinu frá 15. febrúar til 1. júní 2006. Eru fjárhæðir mismunandi hverju sinni, sú lægsta 66.389 krónur og sú hæsta 184.317, en af 51 greiðslu eru 43, sem nema hærri fjárhæð en 100.000 krónum.

        Í málinu liggur fyrir framburður Erlu Ingu hjá lögreglu 27. júní 2006 um að hún hafi veitt samþykki fyrir því að Ásgeir Heiðar legði inn á reikning hennar væntan­legar bætur frá TR, hann gefið þá skýringu að hann væri skuldugur í banka­kerfinu, gæti því ekki móttekið greiðslurnar á eigin reikning og hún tekið það gott og gilt. Að auki hafi Erlu Ingu fundist hún skuldbundin Ásgeiri Heiðari vegna fjár­hags­aðstoðar og því fundist rétt að gera honum þennan greiða. Hún tók hins vegar fram að ýmist hún eða þáverandi kærasti hennar, Dagbjartur Eiður, hefðu oftar en ekki endur­greitt veittan fjár­stuðning. Erla Inga var yfirheyrð að nýju 10. júlí 2006 og 17. apríl 2007, að við­stöddum verjanda, og staðfesti réttmæti fyrstu frásagnar. Þegar Erla Inga kom síðan fyrir dóm og var krafin skýringa á umræddri fjárhagsaðstoð, játti hún að aldrei hefði verið um slíka aðstoð að ræða og sagðist hafa meint að hún hefði þegið fíkniefni hjá Ásgeiri Heiðari. Er hér ólíku saman að jafna að mati dómsins og Erla Inga þannig mis­saga um skýringar fyrir sam­þykki á afnotum reikningsins. Þykir sú staðreynd til þess fallin að rýra áreiðanleika framburðar hennar. En fleira kemur til.  

        Ef marka má framburð Erlu Ingu fyrir dómi stóð hún í þeirri trú að Ásgeir Heiðar væri að þiggja slysabætur frá TR, sem á tæplega 19 mánaða tímabili, frá 26. október 2004 til 1. júní 2006, voru inntar af hendi með ójöfnum greiðslum, samtals að fjárhæð 6.575.886 krónur. Ennfremur stóð hún þá í trú um að ekki væri óeðlilegt að TR greiddi slíkar bætur með óreglu­legu millibili, stundum á nokkurra daga fresti, svo sem fyrir liggur í málinu, til dæmis 26. og 28. október 2004 (sam­tals 289.148 krónur), og 26. og 29. ágúst og 2. september 2005 (samtals 445.480 krónur), en í greindum tilvikum, sem öðrum, fór Erla Inga samdægurs eða fáeinum dögum síðar í banka, tók út svipaðar fjárhæðir í reiðufé og afhenti Ásgeiri Heiðari.

        Það er mat dómenda að á framangreindu sé slíkur ólíkindablær og því sé sá fram­burður Erlu Ingu að engu hafandi, að hún hafi verið eða mátt vera í góðri trú um lög­legan upp­runa fjárins. Þegar við þetta bætist sú stað­reynd, að hún vissi ekki aðeins um svipað sam­komulag Ásgeirs Heiðars við Dagbjart Eið, heldur einnig við Þorfinn bróður hennar, þykir engum vafa undirorpið að Erla Inga hafi vitað eða mátt vita að hún væri sjálf að taka þátt í refsi­verðu athæfi. Með viðtöku fjárins undir greindum kringum­stæðum og ráðstöfun þess til Ásgeirs Heiðars, sem Erla Inga vissi að væri í mikilli óreglu og hefði setið í fangelsi, án þess að draga nokkru sinni í efa þá fráleitu skýringu að um slysabætur væri að ræða, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að Erla Inga hafi gerst sek um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, enda lang­­­lík­legast að téðir fjár­munir væru afrakstur af auðgunarbroti Ásgeirs Heiðars eða annarra. Ber að sak­fella Erlu Ingu því til samræmis.

Um 10. kafla ákæru.

        Í A-lið 10. kafla er meðákærða Heiðari Andra gefið að sök að hafa veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 2.838.266 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem hún lét leggja inn á reikninginn með 17 tilhæfulausum greiðslum á tímabilinu frá 8. desember 2005 til 8. júní 2006, þar af krónur 2.705.852 á tæplega fjögurra mánaða tímabili, frá 10. febrúar til 8. júní 2006. Er þetta hlutrænt séð óumdeilt, sem og að Heiðar Andri tók yfir­leitt svipaðar fjárhæðir út af reikningnum, samdægurs eða fáeinum dögum síðar, og afhenti Ásgeiri Heiðari, þó þannig að í lok ákærutímabilsins nam mismunur á inn­lögðu og útteknu fé 376.266 krónum.

        Í B-lið 10. kafla er Heiðari Andra gefin að sök hlutdeild í fjár­svikum ákærðu, með því að hafa fengið samþykki meðákærðu Tinnu fyrir því að greiðslur, sem lýst er í U-lið 1. kafla ákæru og sviknar voru út hjá TR á tímabilinu frá 24. maí til 9. júní 2006, yrðu lagðar inn á banka­reikning hennar.

        Skal nú vikið í einu lagi að fram­burði Heiðars Andra, Ásgeirs Heiðars og Tinnu um nefnd sakarefni, en þau síðan tekin til sjálf­stæðrar úrlausnar í niðurstöðukafla.

        Heiðar Andri var yfirheyrður hjá lögreglu 30. júní 2006. Hann kvaðst hvorki hafa vitað um fjársvik ákærðu né að umræddir fjármunir væru að berast á reikninginn frá TR og gaf þá skýringu á greiðslunum að kunningi hans, Ásgeir Heiðar, hefði fengið leyfi til að millifæra á reikninginn peninga, sem hann ætti von á. Ásgeir Heiðar hefði ekki skýrt þetta frekar, Heiðar Andri einskis spurt og því hefði aldrei verið rætt um nánari ástæður að baki afnotunum. Að sögn Heiðars Andra hefði hann því hvorki vitað né grunað að greiðslurnar bárust frá TR og tiltók í því sambandi að hann hefði verið í mikilli óreglu á ákærutímabilinu og ekki fylgst með reiknings­yfir­litum. Hann greindi frá fyrir­komulagi greiðslna á þann veg að Ásgeir Heiðar hefði látið hann vita af hverri inn­lögn, Heiðar Andri farið í banka og tekið út tilgreinda fjár­hæð, en skilið eftir 25-30.000 króna mismun samkvæmt fyrir­mælum Ásgeirs Heiðars, sem Heiðar Andri hefði síðan bætt honum með peningum úr eigin vasa og í staðinn hagnýtt sér sömu eftir­­stöðvar á reikningnum. Þannig hefði hann aldrei þegið þóknun fyrir. Hann kvaðst ekki hafa vitað af hverju Ásgeir Heiðar hefði mælt fyrir um nefnt fyrir­komu­lag og sagðist einskis hafa spurt í því sambandi. Fram kom í máli Heiðars Andra að Ásgeir Heiðar hefði „viljað fá fleiri reikninga til að láta leggja inn á greiðslur“, hann ekki gefið upp ástæðu þessa og Heiðar Andri einskis spurt, en í fram­haldi tekið við tveimur greiðslum inn á reikning Tinnu úr hendi hennar og afhent Ásgeiri Heiðar, en þriðju greiðsluna hefði Tinna afhent sjálf. Að sögn Heiðars Andra hefði Tinna einatt haldið eftir 25.000 krónum á sínum reikningi, í samræmi við áður­nefnt fyrir­komu­­lag, og Heiðar Andri með sama hætti bætt Ásgeiri Heiðari mismuninn með reiðu­fé. Hann kvað Ásgeir Heiðar hafa beitt hann þrýstingi og hótunum í því skyni að fá afnotin af reikningum hans og Tinnu, sagðist hafa skuldað Ásgeiri Heiðari peninga og því fundist hann vera skuld­bundinn til að leyfa umrædd afnot. 

        Tinna hafði áður verið yfirheyrð 29. júní 2006. Hún kvað barnsföður sinn Heiðar Andra hafa spurt hana að því í maí 2006 hvort leggja mætti peninga inn á reikning hennar, hún samþykkt það umorðalaust og látið honum í té reikningsnúmer sitt. Tinna lýsti samtali þeirra nánar, en ekki er ástæða til að rekja það hér. Í framhaldi hefðu þrjár greiðslur borist á reikninginn, hún tekið út reiðufé, í tvö skipti afhent Heiðari Andra, en í eitt skipti Ásgeiri Heiðari og beðið hann að koma peningunum til Heiðars Andra.   

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að hann hefði fengið leyfi hjá félaga sínum Heiðari Andra til að leggja inn á reikning hans ætlaðar launa­greiðslur, sem ekki mættu fara inn á sinn eigin reikning án þess að verða teknar upp í skuld. Hann sagði Heiðar Andra hafa þegið 25-30.000 króna þóknun fyrir hverja greiðslu og haldið henni eftir við skil á útteknu reiðufé. Ásgeir Heiðar kvaðst hafa gert nákvæm­lega eins samkomulag við Tinnu, kærustu Heiðars Andra, en þó ekki rætt við hana um einstakar greiðslur heldur komið skilaboðum til hennar gegnum Heiðar Andra um að búið væri að leggja inn á reikning hennar.  

        Heiðar Andri hélt fast við fyrri framburð við yfirheyrslu 12. júlí 2006 og sagðist engu hafa við hann að bæta. Þá mótmælti hann framburði Ásgeirs Heiðars um greiðslu þóknunar og sagði rangt að rætt hefði verið um laun í tengslum við téðar innlagnir. Hann kvaðst ekki vita til þess að Ásgeir Heiðar hefði verið í launaðri vinnu á ákæru­tíma­­bilinu, en sagði hann hafa verið með bílaverk­stæði í Hafnarfirði og ekki vita betur en að hann hefði staðið í viðgerðum fyrir sjálfan sig og aðra. Heiðar Andri kvaðst hafa skuldað Ásgeiri Heiðari peninga á greindu tímabili, en ekki muna til þess að hafa fengið hjá honum fíkniefni án greiðslu.

        Ásgeir Heiðar staðfesti eigin framburð við yfirheyrslu 12. júlí 2006, sagði fram­burð Heiðars Andra um fyrirkomulag greiðslna fráleitan og áréttaði að 25-30.000 krónur hefðu einatt runnið til Heiðars Andra í formi þóknunar. Ásgeir Heiðar kvaðst ekki muna betur en að hann hefði sjálfur aflað samþykkis Tinnu fyrir afnotum af reikningi hennar, en í framhaldi hefði Heiðar Andri miðlað innlögðum fjárhæðum til hans, að frádreginni þóknun til Tinnu. Þá mótmælti hann harðlega að hafa beitt Heiðar Andra þrýstingi eða hótunum í tengslum við innlagnir á reikning hans.

        Heiðar Andri staðfesti fyrri framburð við yfirheyrslu 27. mars 2007, þó þannig að hann kvaðst hafa fengið fíkniefni hjá Ásgeiri Heiðari, án greiðslu, „og það hafi verið ástæðan fyrir þessu öllu saman“, þ.e. að sökum uppsafnaðra fíkniefnaskulda „þá hafi hann samþykkt að gera honum þennan greiða“. Heiðar Andri kvaðst ekki kannast við að Ásgeir Heiðar hefði aflað samþykkis Tinnu fyrir innlögnum á reikning hennar og sagði að Ásgeir Heiðar hefði rætt við hann og Heiðar Andri í framhaldi fengið slíkt leyfi. Sem fyrr bar Heiðar Andri að gerðir hans hefðu stjórnast af þrýstingi og hótunum af hálfu Ásgeirs Heiðars. Heiðar Andri gat ekki gert grein fyrir einstökum greiðslum inn á reikning sinn og ráðstöfun fjármuna til Ásgeirs Heiðars og bar „að hann gæti ekki sagt með vissu hversu mikið hefði orðið eftir á bankareikningi hans og því orðið eftir í hans eigin þágu“. Í framhaldi hélt hann fast við þann fram­burð að hafa greitt Ásgeiri Heiðari með reiðufé 376.266 króna mismun á innlögðu og útteknu fé, en gat ekki svarað því hvaðan hann hefði haft þá peninga.

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 dró Ásgeir Heiðar til baka fram­burð sinn um greiðslu þóknunar til Heiðars Andra og sagði hann hafa bætt sér umræddan mismun í reiðufé.

        Heiðar Andri neitaði sök fyrir dómi. Hann þrætti þó ekki fyrir að hafa veitt umræddum greiðslum viðtöku á reikning sinn fyrir til­stuðlan Ásgeirs Heiðars, en sagðist hvorki hafa vitað um uppruna fjárins né heldur hafa grunað að um illa fengið fé væri að ræða, sem væri ávinningur af einhverjum brotum. Heiðar Andri gaf þá skýringu á téðum innlögnum að hann og Ásgeir Heiðar hefðu unnið saman á bílskúrs­verk­­stæði í Hafnarfirði, Ásgeir Heiðar spurt hvort hann mætti leggja greiðslur vegna bílaviðgerða og sölu á uppgerðum bílum inn á reikninginn og gefið þá skýringu að hann væri gjaldþrota og því mætti hann ekki fá greiðslurnar inn á eigin reikning. Kvaðst Heiðar Andri hafa skilið stöðu félaga síns og tók fram að hann hefði aldrei þegið þóknun fyrir afnot reikningsins. Hann sagði Ásgeir Heiðar hvorki hafa beitt hann þrýstingi né hótunum í þessu sambandi og gaf þá skýringu á fyrri fram­burði, þar að lútandi, að hann hefði ef til vill upplifað beiðni Ásgeirs Heiðars þannig á greindum tíma og talið sig verða að taka við peningunum. Hið rétta væri að honum hefði bara fundist hann skulda Ásgeiri Heiðari þennan greiða. Heiðar Andri staðfesti í framhaldi fyrri frásögn hjá lögreglu um að hann hefði skuldað Ásgeiri Heiðari peninga vegna fíkniefna „og að það hafi verið ástæðan fyrir þessu öllu“. Þegar borin var undir Heiðar Andra sú frásögn hans hjá lögreglu, að Ásgeir Heiðar hefði aldrei minnst á hvaðan peningarnir kæmu, sagði Heiðar Andri að um væri að ræða rangan framburð af sinni hálfu. Heiðar Andri dró ekki dul á að hann hefði sjálfur aflað samþykkis Tinnu fyrir inn­lögnum á reikning hennar í maí og júní 2006 og gaf þá skýringu að hann hefði verið í mikilli óreglu, með bullandi yfirdrátt á eigin reikningi, og óttast að peningar frá Ásgeiri Heiðari yrðu teknir upp í þá skuld ef þeir færu inn á þann reikning. Í framhaldi staðfesti Heiðar Andri þann framburð sinn hjá lögreglu, að Ásgeir Heiðar hefði þurft afnot fleiri reikninga og að sjálfur hefði hann ekki spurt um ástæðu þessa. Heiðar Andri kvaðst hafa séð um öll samskipti við Ásgeir Heiðar vegna inn­lagna á reikning Tinnu, látið hana vita þegar búið var að leggja inn á hana og hún því ekki vitað um tengslin við Ásgeir Heiðar. Fram kom í máli Heiðars Andra að hann hefði þekkt Ásgeir Heiðar vel, vitað um óreglu hans og fíkniefnaneyslu á ákærutíma­bilinu, sem og að hann hefði setið í fangelsi.      

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar hafa spurt Heiðar Andra hvort leggja mætti peninga inn á reikning hans, Heiðar Andri samþykkt það umorðalaust og þeir ekki rætt þetta frekar. Hann kvað rétt að þeir félagar hefðu verið að vinna saman á bíl­skúrs­verkstæði, tók ekki undir að hafa bendlað umræddar greiðslur við bílavið­gerðir, en sagðist þannig hafa kynnst Tinnu, kærustu Heiðars Andra. Aðspurður kvaðst Ásgeir Heiðar ekki muna hvort hann eða Heiðar Andri hefði aflað samþykkis Tinnu.

        Fyrir dómi staðhæfði Tinna að Heiðar Andri hefði fengið samþykki hennar til að nota bankareikning hennar og hann gefið þá skýringu að hann gæti ekki notað eigin reikning vegna einhverra vanskila. 

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins er vafalaust að Heiðar Andri veitti viðtöku á banka­­reikning sinn, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, þeim greiðslum, sem lýst er í A-lið 10. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. K-liður 1. kafla. Frá hlut­rænum sjónarhóli aðstoðaði Heiðar Andri þannig Ásgeir Heiðar við að halda greindum ávinningi ólöglega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á reikninginn og úttekt í reiðufé. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að Heiðar Andri hafi vitað deili á ákærðu eða að honum hafi mátt vera ljós fjársvik úr sjóðum TR, þótt reikningsyfirlit frá við­skipta­­banka hans beri með sér að þaðan hafi greiðslurnar runnið, en hafa ber í huga framburð Heiðars Andra um að hann hafi verið í mikilli óreglu á ákærutímabilinu og því ekki kynnt sér slík yfirlit, auk þess sem honum voru ekki send afrit endur­­greiðslu­kvittana. Óháð því er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn og út af reikningnum voru, sem hér segir:

 

8. desember 2005: Inn 132.414 kr.                  Út: 0 kr.

10. febrúar 2006: Inn 141.509 kr.                   13. febrúar (2 úttektir): 55.000 kr.

14. maí 2006: Inn 151.984 kr.                         Samdægurs (3 úttektir): 156.000 kr.   

22. febrúar 2006: Inn 146.864 kr.                   23.-24. febrúar (2 úttektir): 122.000 kr.

2. mars 2006: Inn 166.196 kr.                         Samdægurs (2 úttektir): 150.000 kr.

8. mars 2006: Inn 188.796 kr.                         9. mars (2 úttektir): 200.000 kr.

16. mars 2006: Inn 177.559 kr.                       16.-17. mars (3 úttektir): 192.000 kr.

20. mars 2006: Inn 176.381 kr.                       Samdægurs (2 úttektir): 170.000 kr.

30. mars 2006: Inn 185.130 kr.                       Samdægurs: Út 151.000 kr.

4. apríl 2006: Inn 186.297 kr.                         Samdægurs (2 úttektir): 180.000 kr.

7. apríl 2006: Inn 145.527 kr.                         Samdægurs: Út 130.000 kr.

12. apríl 2006: Inn 163.215 kr.                       Samdægurs: Út 130.000 kr.

18. apríl 2006: Inn 156.520 kr.                       19. apríl: Út 146.000 kr.

27. apríl 2006: Inn 160.250 kr.                       Samdægurs: Út 150.000 kr.

19. maí 2006: Inn 216.090 kr.                         Samdægurs: Út 200.000 kr.

30. maí 2006: Inn 178.501 kr.                         6. júní: Út 165.000 kr.

8. júní 2006: Inn 165.033 kr.                           8.-12. júní (3 úttektir): 165.000 kr.

 

        Þegar dæma skal um hvort Heiðar Andri hafi gerst sekur um hylmingu, eða eftir atvikum peningaþvætti af gáleysi, skiptir máli að leggja mat á trú­verðugleika fram­burðar hans fyrir dómi. Ber í því sambandi að líta til þess hvort frásögn hans um sakar­­efni teljist stöðug og hvort hún sé studd framburði meðákærðu eða öðrum gögnum. Með greind sjónarmið í huga leiðir skoðun á frá­sögn Heiðars Andra eftir­farandi í ljós.

        Í fyrsta lagi, að við yfirheyrslu hjá lögreglu 30. júní 2006 játti Heiðar Andri að hafa veitt sam­þykki sitt fyrir afnotum af umræddum bankareikningi, án þess að Ásgeir Heiðar byði fram skýringu og án þess að Heiðar Andri bæði um hana. Heiðar Andri hélt sig við þann framburð við yfirheyrslur hjá lögreglu 12. júlí 2006 og 27. mars 2007, sem fyrr að viðstöddum verjanda, gat þó um vinnu Ásgeirs Heiðars á bílaverk­stæði, en tengdi þá vinnu ekki við umræddar greiðslur. Fyrir dómi kúventi Heiðar Andri frásögn sinni, kvaðst hafa borið ranglega hjá lögreglu, sagði greiðslurnar hafa staðið í sam­bandi við bílaviðgerðir og sölu uppgerðra bíla, og tengdi reikningsafnotin við ætlað gjaldþrot Ásgeirs Heiðars. Fær sá framburður enga stoð í dóms­fram­burði Ásgeirs Heiðars. Að því gættu, og í ljósi þess að Heiðar Andri er uppvís að ósannsögli og tvísaga um aðdraganda að veittu samþykki, þykja síðari skýringar hans haldlausar.

        Í öðru lagi, að Heiðar Andri hefur ávallt borið að Ásgeir Heiðar hafi gefið honum þau fyrirmæli að skilja eftir 25.-30.000 króna mismun á innlögðu og útteknu fé, að þannig hafi hann haldið téðri fjárhæð eftir á reikningnum og bætt Ásgeiri Heiðari mis­muninn með reiðufé úr eigin vasa. Fær þetta ekki samrýmst ofangreindu yfir­liti um milli­færslur á reikninginn, sem sýnir, svo ekki verður um villst, að í engu hinna 17 til­vika, sem ákært er fyrir, hélt Heiðar Andri eftir fjár­hæðum á greindu bili, og aðeins í þremur tilvikum er um svipaða fjárhæð að tefla. Þegar við þetta bætist sá framburður Heiðars Andra, að Tinna hafi viðhaft sama verklag, sem samrýmist engan veginn yfir­liti um millifærslur á hennar reikning, þykir þessi framburður einnig haldlaus og að engu hafandi við úrlausn málsins.

        Í þriðja lagi, að Heiðar Andri bar við þrjár yfirheyrslur hjá lögreglu, að hann hefði verið beittur þrýstingi eða hótunum af hálfu Ásgeirs Heiðars til að samþykkja greiðslur á reikninginn, en fyrir dómi breytti hann þeim framburði og gaf ekki aðeins óljósar skýringar á fyrri framburði, heldur tengdi hann samþykki sitt við fíkni­efna­skuld gagnvart Ásgeiri Heiðari. Þykir Heiðar Andri þannig uppvís að verulegu mis­ræmi í eigin frásögn.

        Þegar allt framangreint er virt og haft er í huga, að Heiðar Andri vissi að Ásgeir Heiðar væri í mikilli óreglu á ákæru­­tíma­bilinu, að hann þekkti Ásgeir Heiðar vel og vissi að hann hefði setið í fangelsi, að um veru­lega háar greiðslur var að ræða á skömmu tímabili, og að ef um duldar tekjur var að ræða af bíla­viðgerðum, telst fráleitt að ætla að þær færu inn á bankareikning, þykir dómendum ekki aðeins hafið yfir allan skynsamlegan vafa að Heiðar Andri hafi vitað eða mátt vita að ekki var um löglega fengið fé að ræða, heldur einnig að honum hafi hlotið að vera ljóst að um væri að ræða afrakstur af auðgunarbroti Ásgeirs Heiðars eða einhverra honum tengdum. Er Heiðar Andri þannig sannur að sök um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­laga og ber að sakfella hann því til samræmis fyrir þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í A-lið 10. kafla ákæru.

        Heiðari Andra og Ásgeiri Heiðari hefur seint borið saman um hvort Heiðar Andri hafi þegið þóknun fyrir afnot reikningsins. Þegar litið er til misvísandi framburðar þeirra beggja um þetta atriði, þess að reikningsyfirlit styðja með engu móti framburð Heiðars Andra um fyrirkomulag innlagna og úttekta og þess, að hann var að eigin sögn í mikilli óreglu á ákærutímabilinu og skuldaði Ásgeiri Heiðari peninga vegna fíkni­efna, þykir framburður Heiðars Andra um að hann hafi bætt Ásgeiri Heiðari mis­mun á innlögðu og útteknu fé með peningum úr eigin vasa svo fráleitur að á honum verður ekki byggt. Að gættum öllum þessum atriðum þykir eigi óvarlegt að leggja umrædd reiknings­yfirlit til grundvallar, en samkvæmt þeim bar Heiðar Andri sam­tals 376.266 krónur úr býtum með hinu refsiverða athæfi.

        Samkvæmt B-lið 10. kafla ákæru er Heiðari Andra gefin að sök hlutdeild í fjár-svikum ákærðu Rannveigar, með því að hafa aflað samþykkis með­ákærðu Tinnu fyrir því að 589.021 króna, sem svikin var út úr sjóðum TR, væri lögð inn á bankareikning hennar. Er lýst háttsemi talin varða við 248. gr., sbr. 138. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

        Álit dómsins.

        Hlutdeild af ásetningi samkvæmt 1. mgr. 22. gr. hegningarlaganna er fólgin í þátt­töku í afbroti, sem lýst er refsivert á öðrum stað í lögunum. Refsiábyrgð byggist annars vegar á tengslum hlutdeildarmanns við aðalmann og hins vegar á því hvort hlut­­deildarmaður hafi ásetning til að frumbrotið verði framið. Þannig er skilyrði fyrir refsi­ábyrgð að hann viti hvað til stendur.

        Í máli þessu er ekkert fram komið, sem bendir til þess að Heiðar Andri hafi vitað deili á ákærðu Rannveigu eða haft hugmynd um að móðir Ásgeirs Heiðars ynni hjá TR og stæði að baki fjársvikum. Er því ljóst að Heiðar Andri hafði engin tengsl við fremjanda aðalbrotsins, ákærðu, vissi ekki um fjársvik af hennar hálfu, og gat því eðli máls samkvæmt ekki haft ásetning til að hún fremdi slíkt brot. Í þeirri stöðu skiptir hvorki máli þótt Heiðar Andri hafi aflað samþykkis Tinnu fyrir inn­lögnum á reikning hennar, svo sem þeim ber saman um, né heldur að honum hafi hlotið að vera ljóst að til stæði að fremja fjársvik eða annarskonar auðgunarbrot og hann sjálfur áður gerst sekur um hylmingu. Fyrrgreind samskipti Heiðars Andra við Tinnu og Ásgeir Heiðar geta engu um þetta breytt, þegar af þeirri ástæðu að þeim ber öllum saman um að Ásgeir Heiðar hafi aldrei rætt um fjársvik móður sinnar. Heiðar Andra skorti því ásetning til þátttöku í broti ákærðu og ber af þeirri ástæðu að sýkna hann af sakarefni samkvæmt B-lið 10. kafla.

Um 19. kafla ákæru.

        Meðákærðu Tinnu er gefið að sök að hafa veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars og Heiðars Andra, sam­tals 589.021 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem hún lét leggja inn á reikninginn með þremur tilhæfulausum greiðslum, 24. maí, 6. júní og 9. júní 2006. Er þetta hlutrænt séð óumdeilt, sem og að Tinna tók samdægurs út svipaðar fjárhæðir í reiðu­fé, setti peningana í umslag, lét Heiðar Andra hafa í tvö fyrstu skiptin, en síðustu úttektina afhenti hún Ásgeiri Heiðari, allt þannig að í lokin stóðu eftir á reikningnum 26.462 krónur, sem féllu í hlut Tinnu.

        Því er áður lýst að Tinna skýrði lögreglu frá því 29. júní 2006 að Heiðar Andri hefði komið að máli við hana í maí 2006, spurt hvort leggja mætti peninga inn á reikning hennar, hún samþykkt það og gefið honum upp reikningsnúmer. Að sögn Tinnu hefði Heiðar Andri sagt að hún yrði að heimila afnotin og þegar lagt yrði inn á reikninginn skyldi hún taka út peninginn og afhenda Heiðari Andra, sem síðan myndi „láta einhvern annan fá peninginn“. Hún kvaðst einskis hafa spurt í þessu sam­bandi, en „hana hafi grunað að þessir peningar væru illa fengnir og því hafi hún ekki viljað vita neitt meira um það og ekki viljað spyrja neinna spurninga“. Hún hefði þó vitað að Heiðar Andri væri í vondum málum, að hann skuldaði fé og hefði verið hótað í tengslum við það. Hún hefði því óttast um velferð dóttur þeirra og verið tilbúin að gera nær hvað sem er. Í framhaldi hefðu umræddar greiðslur borist á reikninginn, hún komið fyrri greiðslunum í hendur Heiðars Andra og beðið Ásgeir Heiðar að koma þeirri síðustu til hans, en Ásgeir Heiðar hefði hún hitt á fyrrnefndu bíla­verkstæði, í tengslum við lagfæringu á bifreið hennar. Hann hefði tekið vel í beiðnina og haft á orði að peningarnir myndu hvort eð er enda hjá honum. Hún kvaðst ekki hafa spurt hann út í þau ummæli, enda ekki viljað vita meira. Tinna kvaðst hvorki hafa vitað deili á ákærðu né að Ásgeir Heiðar væri að afla afnota af fleiri reikningum. Hins vegar hefði hún tekið eftir því að Heiðar Andri væri að fá greiðslur inn á sinn reikning og að hann hefði verið að fara í banka, taka út peninga og setja í umslög. Hún hefði ekki viljað vita hverju þetta tengdist og því einskis spurt í því sambandi.

        Tinna staðfesti ofangreindan framburð við yfirheyrslu 16. apríl 2007 og bar með líkum hætti um aðkomu sína að málinu.

        Því er áður lýst að Heiðar Andri gekkst við því hjá lögreglu að hafa aflað sam­þykkis Tinnu fyrir innlögnum á reikning hennar og að þetta hefði hann gert að beiðni Ásgeirs Heiðars, sem hefði vantað fleiri reikninga til að leggja inn á. Heiðar Andri hefði síðan tvívegis tekið við reiðufé frá Tinnu og afhent Ásgeiri Heiðari, en þriðju greiðsluna hefði hún afhent sjálf. Eins og áður segir hélt Heiðar Andri því fram að sams­konar fyrirkomulag hefði gilt um greiðslurnar og í sambandi við greiðslur inn á hans eigin reikning, þ.e. að Tinna hefði verið látin skilja eftir 25-30.000 krónur inni á reikningnum og hann bætt Ásgeiri Heiðari mismuninn úr eigin vasa.

        Tinna neitaði sök fyrir dómi. Hún þrætti þó ekki fyrir að hafa veitt umræddum greiðslum viðtöku á reikninginn, bar fyrir sig að Heiðar Andri, sem búið hefði heima hjá henni á greindum tíma, hefði beðið hana um afnot reikningsins og gefið þá skýringu að hann gæti ekki notað eigin reikning vegna van­­skila. Henni hefði ekki fundist neitt undarlegt við þá beiðni. Í framhaldi var borin undir Tinnu frá­sögn hennar í lögregluskýrslu 29. júní 2006 um að hana hefði grunað að peningarnir væru illa fengnir og því hefði hún einskis spurt og ekki viljað vita meira. Hún kvað rétt eftir sér haft í skýrslunni og gaf þá skýringu á framburðinum að Heiðar Andri hefði verið að vinna á verkstæði með Ásgeiri Heiðari og hún haldið að „þetta væri bara komið frá því“ og að hið illa fengna fé væru peningar úr „bílabraski“. Hún kvaðst þó ekki hafa vitað um tengsl Ásgeirs Heiðars við peningana fyrr en eftir að málið komst í fréttir. Í fram­haldi voru borin undir Tinnu þau ummæli að Ásgeir Heiðar hefði sagt að þriðja peninga­úttektin myndi enda hjá honum. Hún staðfesti þetta og játti, að á þeirri stundu hefði hún fattað að greinileg tengsl væru milli hans, peninganna og Heiðars Andra. Hún hefði þó hvorugan spurt út í þetta, enda ekki viljað vita hvaðan peningarnir kæmu og ekki viljað vera bendluð við neitt misjafnt. Loks var borin undir Tinnu sú frásögn hennar að Heiðar Andri hefði í upphafi sagst myndu afhenda peningana þriðja manni. Hún kvað þetta rétt eftir sér haft og gaf þá skýringu að hún hefði ávallt vitað að Heiðar Andri myndi ekki halda þessum peningum fyrir sjálfan sig og hefði hún haldið að hann væri að „borga niður skuldir bara“. Tinna kvaðst ekki hafa þegið krónu fyrir í þóknun fyrir afnot reikningsins, en staðfesti þó að hún hefði hagnýtt sér 26.462 króna eftirstöðvar á reikningnum og notað þá til heimilishalds.

        Áður er rakið að Heiðar Andri staðhæfði fyrir dómi að hann hefði aflað sam­þykkis Tinnu fyrir innlögnum á reikning hennar, verið milliliður í samskiptum vegna úttekta og afhendingu fjárins til Ásgeirs Heiðars og Tinna því ekki vitað um tengslin við hann. Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar ekki muna hvort hann eða Heiðar Andri hefði aflað samþykkis Tinnu.

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins er vafalaust að Tinna veitti viðtöku á banka­­reikning sinn, hélt og ráðstafaði samkvæmt beinum fyrirmælum Heiðars Andra, þeim greiðslum, sem lýst er í 19. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. U-liður 1. kafla. Þá liggur fyrir að Ásgeir Heiðar var potturinn og pannan að baki greindum afnotum og vissi um uppruna fjárins. Frá hlutrænum sjónarhóli aðstoðaði Tinna þannig Ásgeir Heiðar við að halda umræddum ávinningi ólög­lega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á reikninginn og úttekt í reiðufé. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að Tinna hafi vitað deili á ákærðu eða að henni hafi mátt vera ljós fjársvik úr sjóðum TR, þótt reikningsyfir­lit frá við­skipta­­banka Tinnu beri með sér að þaðan hafi greiðslurnar runnið, en hafa ber í huga að þær voru aðeins þrjár og að Tinnu voru ekki send afrit endur­­greiðslu­kvittana.

        Eftir stendur hvort Tinna hafi af öðrum ástæðum vitað, mátt vita eða gruna að peningarnir væru afrakstur auðgunarbrots eða annars hegningar­­laga­brots. Við mat á því ber að líta til þess að framburður Tinnu þykir afar reikull og á köflum þver­sagna­kenndur. Þannig hefur hún fyrir dómi ýmist borið að umræddar greiðslur hafi átt að vera afrakstur af bílabraski Heiðars Andra, sem hann hafi ekki viljað leggja inn á eigin reikning sökum vanskila, eða að peningarnir hafi verið eign ótilgreinds þriðja manns og að með innlögnum á reikninginn hafi Heiðar Andri verið að greiða niður skuldir. Er þessi framburður með öllu ósamrýmanlegur og sýnilega fráleitur í ljósi framburðar Tinnu um að Heiðar Andri hafi, bæði áður og um svipað leyti, verið að taka við greiðslum inn á eigin bankareikning, fara í banka, taka út peninga og setja í umslög. Þá hefur Tinna borið að hún hafi ekki vitað um tengsl Ásgeirs Heiðars við málið fyrr en hún hefði frétt af því í fjöl­miðlum, en einnig að hún hafi gert sér fulla grein fyrir aðild hans þegar hún afhenti honum síðustu greiðsluna 9. júní 2006.

        Að gættum framangreindum atriðum er það álit dómenda að ekki standi steinn yfir steini í framburði Tinnu og skýringum hennar á nefndum greiðslum. Þegar við þetta bætist að Tinna hefur játað fyrir dómi, að hafa ávallt vitað að peningarnir væru ekki eign Heiðars Andra, að hana hafi frá upphafi grunað að þeir væru illa fengnir, að hún hafi ákveðið að spyrja einskis og ekki viljað vita meira um upp­runa þeirra, þykir engum vafa undirorpið að Tinnu gat ekki dulist að um refsivert athæfi væri að ræða og að með viðtöku fjárins á reikning sinn og ráðstöfun þess til Heiðars Andra og Ásgeirs Heiðars væri hún sjálf að taka þátt í brotastarfsemi. Með því að láta sér í léttu rúmi liggja hvaðan peningarnir væru komnir og taka meðvitaða ákvörðun um að spyrjast einskis, þrátt fyrir grunsemdir, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að Tinna hafi gerst sek um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, enda lang­­­lík­legast að téðir fjár­munir væru afrakstur af auðgunarbroti Heiðars Andra, Ásgeirs Heiðars eða annarra. Ber að sak­fella Tinnu því til samræmis.

Um 12. og 18. kafla ákæru.

        Meðákærðu Hrafnhildur Ýr og Svavar Kristján eru hjón og tengjast Ásgeiri Heiðari gegnum vinskap Hrafnhildar Ýrar og Önnu Dóru, svo sem vikið er að í umfjöllun um B-lið 3. kafla ákæru. Þykir horfa til hagræðis að fjalla í einu lagi um fram­­burð Hrafnhildar Ýrar og Svavars Kristjáns, og bera saman við framburð Ásgeirs Heiðars, en úrlausn um sök hjónanna er að finna í sjálfstæðum niðurstöðuköflum.

        Í 12. kafla ákærunnar er Hrafnhildi Ýri gefið að sök að hafa veitt viðtöku á tvo banka­reikninga og í formi 155.042 króna tékka, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrir­mælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 5.664.819 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­­veigar, sem hún lét borga Hrafnhildi Ýri með 53 tilhæfulausum greiðslum, á nærri fjögurra ára tímabili, frá 12. júní 2002 til 6. júní 2006. Er þetta hlutrænt séð óumdeilt, sem og að Hrafnhildur Ýr tók ýmist peninga út af reikningunum og afhenti Ásgeiri Heiðari og Önnu Dóru eða millifærði á reikning hans, og í eitt skipti reikning hennar, yfirleitt samdægurs en ella nokkrum dögum síðar, allt þannig að í lok tíma­bilsins nam mis­munur á inn­lögðu og útteknu fé 1.068.136 krónum, en af þeirri fjárhæð kveðst Hrafnhildur Ýr þó aðeins hafa fengið 898.484 krónur í sinn hlut.

        Í 18. kafla er Svavari Kristjáni gefið að sök að hafa veitt viðtöku á banka­reikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 5.222.737 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu, sem hún lét leggja inn á reikninginn með 36 tilhæfu­lausum greiðslum, á tímabilinu frá 23. mars 2005 til 7. júní 2006. Er þetta hlut­rænt séð óumdeilt, sem og að Svavar Kristján tók ýmist peninga út af reikningnum og afhenti Ásgeiri Heiðari eða millifærði á reikning hans, stundum samdægurs en annars nokkrum dögum síðar, allt þannig að í lok tímabilsins nam mis­­munur á inn­lögðu og útteknu fé 1.140.926 krónum, sem féllu í hlut Svavars Kristjáns.

        Hrafnhildur Ýr var yfirheyrð hjá lögreglu 27. júní 2006. Hún kvaðst kunna lítil deili á ákærðu Rannveigu og hvorki hafa vitað um fjársvik ákærðu né heldur að ólög­legar greiðslur væru að berast inn á reikninga hennar frá TR og gaf þá skýringu á greiðslunum að Ásgeir Heiðar, þáverandi unnusti Önnu Dóru, hefði fengið leyfi til að millifæra á KB bankareikning hennar „tímabundnar greiðslur vegna slysabóta“ frá TR, sem Anna Dóra hefði sagt að væru vegna umferðarslyss. Greiðslur þessar hefðu verið tiltölu­lega fáar. Á árinu 2005 hefði Hrafnhildur Ýr síðan heimilað afnot af Lands­banka­reikningi sínum og hún fengið þær skýringar frá Önnu Dóru að Ásgeir Heiðar væri gjaldþrota og því mættu fyrrnefndar greiðslur ekki fara inn á reikning hans. Að sögn Hrafnhildar Ýrar hefði hún tekið þá skýringu góða og gilda og í framhaldi milli­fært innborganir á eigin reikning og reikning Svavars Kristjáns yfir á reikning Ásgeirs Heiðars, þó að frádreginni 25-30.000 króna þóknun hverju sinni. Hún kvaðst enga yfir­sýn hafa haft um fjárhæð og fjölda greiðslna eða þóknunar og sagði öll samskipti við Ásgeir Heiðar hafa farið fram gegnum Svavar Kristján, sem síðan hefði komið boðum til hennar um millifærslur. Hrafnhildi Ýri var kynnt að alls hefðu 955.509 krónur frá TR verið lagðar inn á KB reikninginn á árunum 2002-2004 og 4.554.268 krónur á Lands­bankareikninginn árin 2005-2006. Hún sagði þetta talsvert hærri fjár­hæð en hún hefði gert sér grein fyrir. Viðbrögð hennar voru hin sömu þegar henni var kynnt að árin 2005-2006 hefðu 5.222.737 krónur frá TR verið lagðar inn á reikning Svavars Kristjáns.

        Svavar Kristján var einnig yfirheyrður 27. júní 2006. Hann kvaðst ekki kannast við ákærðu Rannveigu, ekki vita um hvað málið snerist og ekki kannast við að hafa móttekið greiðslur frá TR árin 2005-2006, að frátöldu feðraorlofi vegna yngra barns síns, fædds 2005, líkt og hann hefði fengið eftir fæðingu eldra barnsins 2003. Hann kannaðist hins vegar við að eiga Landsbankareikning nr. 12610, sem væri launa­­reikningur og hann notaði frá degi til dags, en auk hans hefði Hrafnhildur Ýr aðgang að reikningnum. Svavari Kristjáni var í framhaldi kynnt að gögn málsins bæru með sér að hann hefði móttekið á reikninginn 5.222.737 krónur frá TR, sem rekja mætti til fjár­­svika ákærðu. Hann kvaðst ekki kannast við að greiðslurnar hefðu runnið frá TR. Á hinn bóginn hefði hann árin 2005-2006 móttekið greiðslur frá Ásgeiri Heiðari, sem hann þekkti ekki mikið, en sá hefði beðið hann um afnot af reikningnum til að móttaka „svartar“ greiðslur „vegna vinnulauna“ og gefið þá skýringu að hann væri gjald­þrota, gæti því ekki átt neitt og vildi ekki gefa tekjur þessar upp til skatts. Í framhaldi hefðu peningar borist inn á reikninginn, nokkuð reglulega, en þó hefði Svavar Kristján ekki haft yfirsýn yfir fjárhæð greiðslna eða veltu á reikningnum. Hann kvað Ásgeir Heiðar hafa boðið sér þóknun fyrir afnotin, Svavar Kristján í fyrstu talið slíkt óþarft, en þegar á leið hefði hann tekið 20-30.000 krónur fyrir hverja inn­lögn. Hrafnhildur Ýr hefði á sama tímabili einnig móttekið svartar launagreiðslur á Landsbankareikning sinn og þegið sams­konar þóknun fyrir. Þau samskipti hefðu þó einatt farið fram milli hans og Ásgeirs Heiðars, sem hefði ýmist hringt eða sent SMS skilaboð til að láta vita af hverri innlögn á reikningana. Svavar Kristján sagðist ekki kannast við greiðslur inn á KB reikning Hrafnhildar Ýrar og tók fram að þau hefðu kynnst í desember 2002.

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að hann hefði fengið leyfi hjá Hrafnhildi Ýri vinkonu sinni og Svavari Kristjáni unnusta hennar til að leggja inn á reikninga þeirra ætlaðar launa­greiðslur, sem ekki mættu fara inn á hans eigin reikning vegna skulda og þau þegið 25-30.000 krónur í þóknun hverju sinni.

        Hrafnhildur Ýr staðfesti fyrri framburð við yfirheyrslu 13. apríl 2007, áréttaði að sér hefði aldrei fundist neitt grun­­samlegt við téðar inn­lagnir á reikningana og gat þess að þau hjónin hefðu selt Ásgeiri Heiðari vélsleða á 2-300.000 krónur á árinu 2005 og hann líklegast greitt fyrir sleðann með tveimur greiðslum frá TR. Hún kvað rangt að Ásgeir Heiðar hefði rætt um launagreiðslur í tengslum við afnot reikninganna. Bornar voru undir Hrafnhildi Ýri greiðslur á reikningana árin 2002-2006 og mun hún aðeins hafa gengist við því að hafa hagnýtt sér 898.484 krónur af greiðslunum frá TR. Sérstaklega aðspurð um greiðslur inn og út af KB reikningnum 17. og 21. maí 2004 sagðist hún hafa varið 72.587 krónum til gjaldeyriskaupa í Danmörku, en hún hefði verið þar í fríi með Svavari Kristjáni, Önnu Dóru og Ásgeiri Heiðari.

        Svavar Kristján staðfesti einnig fyrri framburð 13. apríl 2007 og bar með sama hætti og Hrafnhildur Ýr um kaup og sölu á umræddum vélsleða. Honum kvaðst ekki hafa orðið ljóst að greiðslurnar væru annað en launagreiðslur vegna „svartrar vinnu“ Ásgeirs Heiðars fyrr en lögregla hefði kynnt honum tilurð fjárins í júní 2006. Þá kom fram í máli Svavars Kristjáns að þegar um millifærslur hefði verið að ræða yfir á reikning Ásgeirs Heiðars hefði Hrafnhildur Ýr annast um þær í 99% tilvika.   

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 staðfesti Ásgeir Heiðar að Hrafnhildur Ýr hefði afhent 4.766.335 krónur af greiddu fé til hennar og þannig haldið eftir fyrir sjálfa sig samtals 898.484 krónum. Þá staðfesti hann að Svavar Kristján hefði fengið 1.140.926 krónur í sinn hlut.

        Hrafnhildur Ýr neitaði sök fyrir dómi. Hún þrætti þó ekki fyrir að hafa veitt umræddum 53 greiðslum viðtöku fyrir tilstuðlan kunningja síns Ásgeirs Heiðars, að því er hana minnti. Hún kvaðst reyndar muna lítið eftir þessu og gat þess að hún hefði sjálf verið í óreglu uns hún hefði orðið þunguð. Hrafnhildur Ýr kvaðst ekki vilja tjá sig meira um þetta, sagðist ekki hafa haft hugmynd um hvaðan peningarnir kæmu, en bætti því við að hún hefði haldið að þetta væru sjúkrapeningar eða slysabætur, ekkert spáð meira í það og samþykkt að leyfa Ásgeiri Heiðari afnot reikninganna. Hún kvaðst hafa vitað að Ásgeir Heiðar og félagar hans væru í afbrotum, sagði hann svo hafa farið í fangelsi og hún hafa haldið að hann hefði komið heill til baka úr afplánun. Fram kom í máli Hrafnhildar Ýrar að hún hefði haldið að Ásgeir Heiðar væri gjaldþrota. Í ljósi þessa var hún spurð af hverju hún hefði þá byrjað að millifæra greiðslur yfir á reikning hans árið 2005. Hún kvaðst ekki skilja þetta, en sagði Ásgeir Heiðar hafa mælt fyrir um þessa tilhögun og gert það í gegnum Svavar Kristján. Einnig hefðu þau hjónin flutt til Húsavíkur sama ár og gæti það skýrt millifærslurnar, en hún hefði annast þær, bæði af eigin reikningi og reikningi Svavars Kristjáns. Henni var kynnt að árin 2005-2006 hefðu tæpar 10.000.000 króna verið millifærðar af reikningum þeirra yfir á reikning Ásgeirs Heiðars og sagðist aðspurð ekki hafa haft neina yfirsýn yfir umfang greiðslna, aldrei hafa grunað neitt misjafnt í þessu sambandi, ekki hafa fundist neitt skrýtið við að slysabætur væru greiddar út á svo löngum tíma og með svo óreglu­legu millibili, sem raun ber vitni, og ekki hafa vitað hvað væri í gangi fyrr en rannsókn málsins hófst. Hrafnhildur Ýr kvað töku þóknunar ekki hafa verið skipulagða, en hún hefði haldið eftir 25-30.000 krónum af hverri innlögn.  

        Svavar Kristján neitaði sök fyrir dómi. Hann þrætti þó ekki fyrir að hafa veitt umræddum 36 greiðslum viðtöku fyrir tilstuðlan Ásgeirs Heiðars, sem hann sagði að hefði ekki mátt eiga neitt í bönkum og því fengið að leggja „svarta peninga“ vegna „svartrar vinnu“ inn á reikning Svavars Kristjáns. Hann kvaðst ekki hafa spurt Ásgeir Heiðar frekar út í þetta og heimilað afnotin. Hann rámaði í að Hrafnhildur Ýr hefði einnig tekið við greiðslum, en sagðist ekki vita um tilurð þeirra. Í ljósi framburðarins um svartar tekjur og skuldastöðu Ásgeirs Heiðars var Svavar Kristján spurður af hverju hann hefði millifært peningana yfir á reikning Ásgeirs Heiðars. Hann kvaðst ekkert hafa verið að pæla í þessu, hann bara verið að aðstoða félaga sinn og talið að Ásgeir Heiðar gæti móttekið féð á eigin reikning, en Hrafn­hildur Ýr hefði annast um allar millifærslur. Svavar Kristján kvaðst aldrei hafa velt því frekar fyrir sér hvaðan peningarnir kæmu, tók fram að hann hefði sjálfur verið á kafi í vinnu allt ákæru­tíma­bilið og ekki fundist neitt óeðlilegt við fjárhæð greiðslnanna. Hann kvaðst hafa þegið 25-30.000 króna þóknun fyrir hverja innlögn og fundist það stórfurðulegt í fyrstu, en haldið að þetta væri allt tilkomið út af svartri vinnu Ásgeirs Heiðars.

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar hafa átt töluverð samskipti við Hrafnhildi Ýri og Svavar Kristján, sem hann hefði kynnst gegnum Önnu Dóru, sagði þau hafa vitað um óreglu hans og sjálf verið í einhverri neyslu. Hann kvaðst aldrei hafa sagt þeim að um laun væri að ræða og bar að þau hefðu bæði vitað um uppruna fjárins, enda hefði hann sagt Svavari Kristjáni frá því og hann eða Anna Dóra upplýst Hrafnhildi Ýri um hið sama.

        Álit dómsins.

        Í þætti Hrafnhildar Ýrar er vafalaust að hún veitti viðtöku, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, þeim greiðslum, sem lýst er í 12. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. M-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli veitti Hrafnhildur Ýr þannig Ásgeiri Heiðari aðstoð við að halda greindum ávinningi ólöglega fyrir TR og stuðlaði jafn­framt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra, eitt sinn í formi tékka en annars inn á tvo bankareikninga, og úttektum í reiðu­­­fé eða millifærslum á aðra reikninga.

        Í málinu er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn á KB bankareikning Hrafnhildar Ýrar árið 2002 fóru fram í formi 14 innlagna á tímabilinu frá 12. júní til 18. desember, samtals krónur 582.729, en af þeirri fjárhæð tók Hrafnhildur Ýr 571.621 krónur út í reiðufé. Nam hæsta greiðslan 93.362 krónum og sú lægsta 23.563. Árið 2003 voru greiðslurnar fjórar, á bilinu 32.695 til 52.481 krónur og samtals 168.014 krónur, inntar af hendi 3., 10. og 23. janúar og 14. febrúar, en þá peninga tók Hrafnhildur Ýr út af reikningnum. Árið 2004 voru inn­lagnir tvær, 17. og 21. maí, samtals 204.766 krónur, en af þeirri fjárhæð keypti Hrafn­hildur Ýr gjaldeyri í Danmörku fyrir 72.587 krónur og 25. maí millifærði hún 60.000 krónur á reikning Önnu Dóru.

        Frá því er áður greint að Ásgeir Heiðar sat í fangelsi frá 6. janúar 2003 til 12. maí 2004. Samkvæmt framansögðu runnu á meðan þrjár greiðslur inn og út af reikningi Hrafnhildar Ýrar. Þá er ljóst, að fimm dögum eftir að Ásgeir Heiðar lauk afplánun var hann staddur í Dan­mörku, í fríi með Önnu Dóru, Hrafnhildi Ýri og Svavari Kristjáni.

        Í málinu er einnig óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn á Landsbankareikning Hrafn­­hildar Ýrar árið 2005 fóru fram í formi 21 innlagnar, auk einnar tékkagreiðslu, á rúmlega níu mánaða tímabili, frá 22. mars til 27. desember, samtals krónur 3.006.524. Af þeirri fjárhæð millifærði hún 1.938.500 krónur á reikning Ásgeirs Heiðars og tók 404.095 krónur út í reiðufé. Gögn málsins bera með sér að 19 af 20 millifærslum til Ásgeirs Heiðars voru fram­kvæmdar frá og með apríl 2005, en þá mun Hrafnhildur Ýr hafa verið flutt til Húsavíkur. Á greindu tímabili nam hæsta greiðslan inn á reikning hennar 165.393 krónum og sú lægsta 88.332, en það var eina greiðslan undir 111.000 krónum. Árið 2006 voru ólöglegar greiðslur til Hrafnhildar Ýrar í formi 11 innlagna, á tæp­lega fimm mánaða tímabili, frá 9. janúar til 6. júní, samtals að fjárhæð krónur 1.702.786. Af þeirri fjár­hæð millifærði hún 1.131.000 krónur á reikning Ásgeirs Heiðars, með 10 færslum, og tók 243.000 krónur út í reiðufé. Hæsta greiðslan á reikning hennar nam 179.780 krónum og sú lægsta 132.176.

        Við samanburð á framangreindum innlögnum, úttektum og millifærslum er ein­sætt að veruleg breyting varð á greiðslum til Hrafnhildar Ýrar úr sjóðum TR árin 2005-2006, bæði með tilliti til tíðni og einstakra fjárhæða. Þannig móttók hún á greindu tímabili 4.554.268 krónur á reikning sinn, í formi 32 innlagna. Á sama tíma­bili fóru og 5.222.737 krónur inn á reikning Svavars Kristjáns eiginmanns hennar, í formi 36 innlagna og millifærði Hrafnhildur Ýr, samkvæmt eigin framburði og eigin­mannsins, nær allar þær 65 millifærslur er áttu sér stað yfir á reikning Ásgeirs Heiðars, samtals að fjárhæð krónur 6.431.311. Með þessar staðreyndir í huga skal nú rýnt í framburð Hrafnhildar Ýrar og skýringar á greiðslunum.

        Hrafnhildur Ýr teflir því fram að hún hafi staðið í trú um að umræddar greiðslur til hennar væru tímabundnir sjúkrapeningar eða slysabætur, sem Ásgeir Heiðar hefði átt rétt til. Ennfremur, að á árinu 2005 hafi hún haldið að hann væri gjaldþrota og því mættu greiðslurnar ekki berast frá TR yfir á reikning hans. Þykir fyrri skýringin harla ótrú­verðug þegar í ljósi þess að greiðslurnar voru inntar af hendi á nærri fjögurra ára tímabili, með afar ójöfnum greiðslum og með óreglu­legu millibili, auk þess sem fyrir liggur samkvæmt framburði Ásgeirs Heiðars og móður hans fyrir dómi, sem óþarft er að efast um, að hann hafi aldrei orðið fyrir bótaskyldu líkamstjóni. Er með hreinum ólíkindum ef Hrafnhildi Ýri var þetta ekki ljóst, miðað við náinn vinskap hennar við Önnu Dóru og kunningsskap við Ásgeir Heiðar. Seinni skýring Hrafnhildar Ýrar þykir frá­leit þegar af þeirri ástæðu að ef Ásgeir Heiðar var gjaldþrota hefði engu breytt um þá stöðu hver var uppruni fjárins, sem Hrafnhildur Ýr millifærði jöfnum höndum á reikning hans. Gat Hrafnhildur Ýr ekki velkst í vafa um þessa staðreynd og þykir fram­­ferði hennar því benda eindregið til þess að hún hafi verið meðvituð um þátttöku í umfangmiklu peninga­þvætti.

        Hrafnhildur Ýr ber einnig fyrir sig að hún hafi hvorki haft yfirsýn yfir fjár­hæðir og fjölda greiðslna, sem bárust inn á reikninga hennar og reikning Svavars Kristjáns né heldur yfir millifærslurnar á reikning Ásgeirs Heiðars. Engu að síður verður að ganga út frá því að hún hafi fengið send yfirlit nefndra reikninga og/eða getað fylgst með stöðu þeirra í heimabanka, sér í lagi Landsbankareikninganna tveggja, sem hún notaði reglu­lega á árunum 2005-2006 til að sýsla með fjármuni TR. Ber hér að hafa í huga að um verulegar fjárhæðir var að tefla, greiðslur fjölmargar og að Hrafnhildur Ýr tók sinn skerf í þóknun. Þegar við þetta bætist, að hún vissi um sam­svarandi greiðslur til Svavars Kristjáns, annaðist um millifærslur af reikningi hans yfir á reikning Ásgeirs Heiðars og dró manni sínum hæfilega þóknun fyrir, þykir útilokað að Hrafn­hildur Ýr hafi ekki gert sér grein fyrir því að umræddar greiðslur væru allar ólöglegar og að hún væri sjálf að taka þátt í refsi­verðu athæfi.

        Þegar allt framangreint er virt, og sér í lagi að Hrafnhildur Ýr þáði þóknun fyrir afnot reikninga sinna, samtals 898.484 krónur að eigin sögn, sem og að hún vissi að Ásgeir Heiðar hafði setið í fangelsi árin 2003-2004, og fór með honum í skemmtiferð til Danmerkur nokkrum dögum eftir að hann losnaði úr þeirri prísund, þykir engum skynsamlegum vafa undirorpið að hún hafi vitað eða mátt vita að greiðslur frá TR inn á reikningana, auk tékka­greiðslunnar, væru afrakstur af auðgunar­broti Ásgeirs Heiðars eða annarra. Með við­töku fjárins undir greindum kringumstæðum og framangreindri ráð­stöfun þess gerðist Hrafn­hildur Ýr sek um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­laga og ber að refsa henni því til samræmis.

        Álit dómsins.

        Í þætti Svavars Kristjáns er vafalaust að hann veitti viðtöku, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, þeim greiðslum, sem lýst er í 18. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. T-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli veitti Svavar Kristján þannig Ásgeiri Heiðari aðstoð við að halda greindum ávinningi ólöglega fyrir TR og stuðlaði jafn­framt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á bankareikning sinn og úttektum í reiðu­­­fé eða millifærslum á aðra reikninga.

        Í málinu er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn á reikning Svavars Kristjáns árið 2005 fóru fram í formi 20 innlagna á tímabilinu frá 23. mars til 27. desember, samtals krónur 2.757.469. Af þeirri fjárhæð lét hann millifæra 1.523.500 krónur á reikning Ásgeirs Heiðars, tók út krónur 486.000 krónur í reiðufé og hélt í sinn hlut að lágmarki 747.969 krónum. Á greindu tímabili nam hæsta greiðslan inn á reikning Svavars Kristjáns 163.397 krónum og sú lægsta 104.686. Árið 2006 voru ólöglegar greiðslur til Svavars Kristjáns í formi 16 innlagna, á tæp­lega fimm mánaða tímabili, frá 12. janúar til 7. júní, samtals að fjárhæð krónur 2.465.268. Af þeirri fjár­hæð lét hann milli­færa 1.838.311 krónur á reikning Ásgeirs Heiðars, tók 234.000 krónur út í reiðufé og hélt í sinn hlut að lágmarki 392.957 krónum. Hæsta greiðslan á reikning Svavars Kristjáns nam 178.111 krónum og sú lægsta 114.739, en það var eina greiðslan undir 130.000 krónum.

        Eins og áður segir sat Ásgeir Heiðar í fangelsi frá 6. janúar 2003 til 12. maí 2004. Er óumdeilt að fimm dögum eftir að afplánun lauk var hann staddur í Dan­mörku, í fríi með Svavari Kristjáni, Önnu Dóru og Hrafnhildi Ýri. Með þessa staðreynd í huga og aðrar, sem að framan getur, skal nú rýnt í framburð Svavars Kristjáns og skýringar á greiðslum inn og út af reikningi hans.

        Svavar Kristján teflir því fram að hann hafi haldið að umræddar greiðslur á reikning sinn væru svört laun til Ásgeirs Heiðars, sem hann hefði ekki mátt fá inn á eigin bankareikning vegna gjaldþrots og ekki viljað gefa upp til skatts. Þykir þetta fráleit skýring þegar í ljósi þess að Svavar Kristján lét millifæra samdægurs eða nokkrum dögum síðar stærstan hluta hverrar greiðslu yfir á reikning Ásgeirs Heiðars. Fyrir dómi virðist Svavar Kristján hafa áttað sig á þessari þversögn og gaf þá skýringu að hann hefði verið á kafi í vinnu og því ekki velt þessu atriði fyrir sér. Er sú skýring einnig haldlaus að mati dómenda. Þá þykir sá dómsframburður Svavars Kristjáns með eindæmum ótrúverðugur að hann hafi ekki vitað að eiginkona hans þæði á sama tímabili verulegar fjárhæðir frá TR, sem og að hann hafi ekki haft yfirsýn yfir stöðu á eigin reikningi, sem hann segir þó hafa verið launareikning og hann notast við dag­lega. Verður hér að ganga út frá því að Svavar Kristján hafi haft öll tök á því að fylgjast með hreyfingum á reikningnum, sem voru verulegar með tilliti til fjölda inn­lagna og einstakra fjárhæða, sem bárust inn á hann fyrir tilstuðlan Ásgeirs Heiðars, og Svavar Kristján fól síðan eiginkonu sinni að sýsla með og draga af peningunum sam­tals  1.140.926 krónur í þóknun. 

        Þegar allt framangreint er virt, og sér í lagi að Svavar Kristján þáði myndarlega þóknun fyrir afnot reikningsins, vissi að Ásgeir Heiðar losnaði úr fangelsi í maí 2004 og fór skömmu síðar með honum í skemmtiferð til Danmerkur, er það álit dómenda að Svavar Kristján hafi ekki getað velkst í vafa um að ólögmætt atferli byggi að baki öllum greiðslum inn á reikning hans og að téðir fjár­munir væru að öllum líkindum afrakstur af auðgunar­broti Ásgeirs Heiðars eða annarra. Með viðtöku fjárins og fyrr­greind ráðstöfun þess, undir greindum kringumstæðum, þykir hafið yfir skyn­sam­legan vafa að Svavar Kristján hafi með gerðum sínum gerst sekur um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga og ber að refsa honum því til sam­ræmis.

Um 14. kafla ákæru.

        Meðákærða Konráði Þór er gefið að sök að hafa veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 891.696 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem hún lét leggja inn á reikninginn með 5 tilhæfulausum greiðslum, á ríflega eins mánaðar tímabili, frá 11. apríl til 19. maí 2006. Er þetta hlutrænt séð óumdeilt, sem og að Konráð Þór tók nær sömu fjárhæðir út af reikningnum, ýmist samdægurs eða degi síðar, allt þannig að í lok tímabilsins nam mismunur á inn­lögðu og útteknu fé 2.696 krónum, sem féllu til Konráðs Þórs og hann endurgreiddi TR 19. febrúar 2007.

        Konráð Þór var yfirheyrður hjá lögreglu 28. júní 2006. Hann kvaðst ekki vita deili á ákærðu og hvorki hafa vitað um fjársvik hennar né að umræddar greiðslur væru að berast á reikninginn frá TR. Hann gaf þá skýringu á greiðslunum að maður, sem hann kannist við og hafi fengið að nýta bílskúrsaðstöðu hjá, Ásgeir Heiðar, hefði fengið leyfi til að millifæra laun sín á reikninginn og sagt að ef hann notaði eigin reikning yrðu launagreiðslurnar teknar af honum. Kvaðst Konráð Þór ekki hafa spurst frekar um þetta, enda talið sér óviðkomandi, en verið reiðubúinn að gera Ásgeiri Heiðari þennan greiða sem endurgjald fyrir aðstoð við bílaviðgerð, og ekki talið neitt ólög­­­legt við það. Að sögn Konráðs Þórs hefði hann svo fylgst með inn­lögnum í heima­­banka, séð þegar þær bárust, farið í banka, tekið út reiðufé og afhent Ásgeiri Heiðari. Hann gat þess að umræddar greiðslur hefðu ekki borið með sér að vera frá TR, aðeins merktar númeri eða kennitölu á tölvuskjánum, og sagðist ekkert hafa borið úr býtum, nema ef vera skyldu þær fáu krónur sem hann hefði sniðið af hverri innlögn og réttlætt sem bensínkostnað fyrir snúningana.

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. og 12. júlí 2006 að hann þekkti ekki Konráð Þór og kannaðist ekki við að hafa fengið afnot af bankareikningi hans.

        Konráð Þór staðfesti framburð sinn við yfirheyrslur 10. júlí 2006 og 22. febrúar 2007, gat þess í fyrri skýrslunni að Ásgeir Heiðar hefði verið með bílaverkstæði uppi á Höfða þegar Konráð hefði hitt hann fyrst og Ásgeir gert við bílinn hans, á árinu 2006, og í þeirri seinni að hann væri búinn að endurgreiða TR mismuninn á innlögðu og útteknu fé, 2.696 krónur. 

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 brá svo við að Ásgeir Heiðar sagði Konráð Þór ekki hafa afhent honum neitt af þeim 889.000 krónum frá TR, sem teknar höfðu verið út af reikningnum og sagðist telja að peningarnir hefðu allir runnið til meðákærðu Dag­bjarts Eiðs og Y. Hann kvaðst í framhaldi muna nú eftir Konráði Þór, áréttaði að hafa ekki tekið við umræddu fé, sagði því hafa verið varið til fíkniefna­kaupa og gaf þá skýringu á notkun viðkomandi reiknings að Konráð Þór hefði skuldað Dagbjarti Eiði peninga.    

        Konráð Þór neitaði sök fyrir dómi. Hann þrætti þó ekki fyrir að hafa móttekið umræddar greiðslur á reikninginn og gaf þá skýringu að Ásgeir Heiðar hefði komið til hans og spurt hvort hann mætti nota reikninginn, því hann gæti ekki notað eigin reikning. Kvaðst Konráð Þór hafa þekkt Ásgeir Heiðar lítið á þeim tíma, sagðist þó áður hafa verið búinn að nota aðstöðu hans á bílaverkstæðinu, ekki hafa fundist neitt skrýtið við beiðnina og ekki grunað að um illa fengið fé væri að ræða. Bar Konráð Þór í þessu samhengi að ekki hefði verið á Ásgeiri Heiðari að sjá að hann væri í óreglu og ekki hefði Konráð Þór vitað um hagi hans að öðru leyti. Aðspurður hvort hann hefði ekki spurt Ásgeir Heiðar neins í sambandi við innlagnir á reikninginn svaraði Konráð Þór: „Ég fékk að nota aðstöðuna hans ... og bjóst ekki við að þetta yrði svona mikið, en fannst ekkert grunsamlegt. Ég vissi ekkert hvaðan þessir peningar komu. ... Ég gat ekkert vitað hvaðan þessir peningar komu. ... Hann sagði mér það aldrei.“ Þráspurður hvort honum fyndist ekki merkilegt að maður, sem hann þekkti lítið sem ekkert, þyrfti að nota hans reikning, svaraði Konráð Þór: „Jú, ... það er einkennilegt, en mér fannst það ekkert grunsamlegt.“ og bætti því við að hann hefði ekkert velt þessu atriði fyrir sér. Hann kvaðst ekki hafa þegið neina þóknun fyrir afnotin og sagðist fyrst hafa áttað sig á því hvaðan peningarnir væru þegar það hefði komið í fréttum að Ásgeir Heiðar væri tengdur málinu. Konráð Þór kvaðst ekki þekkja Dagbjart Eið, en gat þess að bróðir sinn Róbert Páll hefði þekkt til Ásgeirs Heiðars og einnig fengið aðstöðu hjá honum til bílaviðgerða. Þeir bræður hefðu þó ekki rætt sín á milli um téðar greiðslur fyrr en eftir að málið reis. Í lok skýrslugjafar staðfesti Konráð Þór framburð sinn hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa þekkt greiðslur frá Ásgeiri Heiðari í heimabankanum með því að hann hefði sjálfur ekki átt von á þeim. Hann sagðist ekki hafa séð hvaðan þær bárust og ekki hafa skoðað það. Borin var undir Konráð Þór fyrri dómsframburður um að hann hefði ekki vitað hvaðan peningarnir bærust og Ásgeir Heiðar aldrei minnst á það og sagði í framhaldi að um hefði verið að ræða laun, sem Ásgeir Heiðar hefði verið að fá útborguð og yrðu tekin af honum ef þau færu inn á hans eigin reikning. Loks kvað Konráð Þór rangt að útteknir peningar hefðu ekki skilað sér í hendur Ásgeirs Heiðars.

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar vart þekkja Konráð Þór, þrætti fyrir að hafa fengið leyfi fyrir afnotum af reikningi hans og sagði Y hljóta að hafa aflað slíks samþykkis. Hann kvaðst í framhaldi aðeins hafa hitt Konráð Þór tvisvar, játti að sá hefði í eitt skipti fengið að gera við bíl á verkstæði hans og bar að umræddar greiðslur inn á reikninginn hefðu allar runnið til Y eða Dagbjarts Eiðs í tengslum við fíkniefna­við-skipti.

        Fyrir dómi þrætti Y fyrir ofangreindan framburð, sagðist ekki hafa vitað um fjárhagsleg tengsl milli Konráðs Þórs og Ásgeirs Heiðars og lítið þekkja til Dag­bjarts Eiðs.

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins er vafalaust að Konráð Þór veitti viðtöku á banka­­reikning sinn, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, þeim greiðslum, sem lýst er í 14. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. O-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli aðstoðaði Konráð Þór þannig Ásgeir Heiðar við að halda greindum ávinningi ólög­lega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á reikninginn og úttekt í reiðufé. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að Konráð Þór hafi vitað deili á ákærðu eða að honum hafi mátt vera ljós fjársvik úr sjóðum TR, en hafa ber í huga að framlögð reikningsyfirlit frá viðskiptabanka hans bera ekki með sér heiti TR heldur kennitölu og ekki voru honum send afrit endur­­greiðslu­kvittana. Óháð þessu er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn og út af reikningnum voru, sem hér segir:

 

11. apríl 2006: Inn 177.963 kr.                       12. apríl: Út 177.000 kr.

2. maí 2006: Inn 178.415 kr.                           3. maí: Út 178.000 kr.

5. maí 2006: Inn 168.748 kr.                           Samdægurs: Út 168.000 kr.    

15. maí 2006: Inn 168.360 kr.                         16. maí: Út 168.000 kr.

19. maí 2006: Inn 198.210 kr.                         Samdægurs: Út 198.000 kr.

 

        Við mat á því hvort Konráð Þór hafi af öðrum ástæðum vitað, mátt vita eða gruna að peningarnir væru afrakstur auðgunarbrots eða annars hegningar­­laga­brots, er til margs að líta. Það sem einkum styður sýknu er staðföst neitun Konráðs Þórs á því að hug­læg afstaða hans hafi staðið til þess að fremja afbrot af nokkru tagi og sú stað­festa að hann hafi aðeins verið að endurgjalda Ásgeiri Heiðari þá greiðasemi að hjálpa honum með viðgerð á bíl. Að auki þykir framburður Ásgeirs Heiðars um samskipti þeirra í senn reikull og misvísandi á köflum og verður því sakfelling ekki á honum reist. Loks skal nefnt að ekkert er fram komið, sem bendir til þess að Konráð Þór hafi þegið þóknun fyrir afnot reikningsins og að háttsemi hans verði af þeirri ástæðu metin tortryggileg.

        Á hinn bóginn þykir dómendum einkennilegt að Konráð Þór skuli hafa sam­þykkt að móttaka umræddar greiðslur á reikninginn, enda þekkti hann Ásgeir Heiðar vart og vissi nær engin deili á honum. Breytir engu um þetta mat þótt Ásgeir Heiðar hafi áður verið búinn að rétta Konráði Þór hjálparhönd í tengslum við viðgerð á bíl. Í ljósi þessa þykir sá framburður Konráðs Þórs einkar tortryggilegur, að hann hafi veitt svo háum greiðslum viðtöku, á svo skömmum tíma, án þess að velta því fyrir sér að um óeðli­legar og jafnvel ólöglegrar greiðslur væri að ræða. Loks ber að líta til þess að Konráð Þór greindi lögreglu frá því að hann hefði heimilað Ásgeiri Heiðari að leggja ætluð laun inn á reikninginn og að hann hefði einskis spurt í því sambandi. Fyrir dómi svaraði Konráð Þór því hins vegar, þráspurður, að hann hefði ekki vitað hvaðan peningarnir komu og að Ásgeir Heiðar hefði aldrei sagt honum það. Þegar Konráði Þór var síðan kynntur fyrri framburður var hann fljótur til að segja frá því að um útborguð laun hefði verið að ræða, sem Ásgeir Heiðar hefði sagt að yrðu tekin af honum ef þau færu inn á hans eigin reikning. Þykir þetta misræmi draga úr áreiðan­leika fram­burðar Konráðs Þórs í heild og gera skýringu hans á tilurð greiðslnanna veru­lega ótrú­verðuga.  

        Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt, og sér í lagi að Konráð Þór veitti viðtöku á reikninginn 891.696 krónum á ríflega einum mánuði, frá nær ókunnugum manni, er það álit dómenda að hann hafi ekki getað velkst í vafa um að ólögmætt athæfi byggi að baki greiðslunum og að með viðtöku fjárins og fyrrgreindri ráðstöfun þess væri hann að taka þátt í refsiverðum verknaði. Með því að gera þetta engu að síður, án þess að draga í efa uppruna fjárins, þykir Konráð Þór hafa auðsýnt slíkt sinnu­leysi að ekki verður dregin önnur, skynsamleg ályktun en að hann hafi frá upp­hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvaðan peningarnir væru komnir og fremur verið reiðu­búinn að taka þátt í verknaðinum en að láta það ógert. Að öllu þessu gættu þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að Konráð Þór hafi með gerðum sínum og aðgerðarleysi gerst sekur um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, enda hefði honum, eins og hér var í pottinn búið, mátt vera ljóst að umræddir fjármunir væru að öllum líkindum afrakstur af auðgunar­broti Ásgeirs Heiðars eða annarra. Ber að sakfella Konráð Þór þessu til samræmis.

Um 15. kafla ákæru.

        Meðákærða Y er gefið að sök að hafa veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 914.466 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem hún lét leggja inn á reikninginn með 6 tilhæfulausum greiðslum, á ríflega fimm mánaða tímabili, frá 5. janúar til 9. júní 2006. Er móttaka og hald fjárins hlutrænt séð óumdeilt, sem og að Y tók svipaðar fjárhæðir út af reikningnum, allt þannig að í lok tíma­bilsins nam mismunur á inn­lögðu og útteknu fé 41.479 krónum, en þeirri fjárhæð segist hann einnig hafa skilað til Ásgeirs Heiðars.

        Y var yfirheyrður hjá lögreglu 28. júní 2006. Hann kvaðst ekki vita deili á ákærðu og hvorki hafa vitað um fjársvik hennar né að umræddar greiðslur væru frá TR, enda hefði hann ekki skoðað eigin reikningsyfirlit. Hann gaf þá skýringu á greiðslunum að Ásgeir Heiðar, sem hann hefði kynnst í tengslum við bílaviðgerðir og þekkti lítillega, hefði fengið leyfi til að millifæra laun á reikninginn og sagt að hann væri á „svörtum lista“ og gæti ekki notað eigin reikning vegna skulda. Að sögn Y hefði honum ekki þótt beiðnin torkennileg og því einskis spurst í þessu sambandi. Ásgeir Heiðar hefði síðan látið vita um innlagnir hverju sinni, Y farið í banka, tekið út þá fjárhæð, sem Ásgeir Heiðar hefði mælt fyrir um og afhent honum, þó þannig að sökum misskilnings hefði 187.914 króna innlögn 9. júní 2006 ekki skilað sér í hendur mannsins. Y skýrði þá greiðslu á þann veg að hann hefði verið í útlöndum þegar hún barst og talið um launagreiðslu til sín að ræða. Sökum þessa hefði hann millifært sömu fjárhæð til greiðslu á skuld samkvæmt VISA korti sínu. Gagnvart Ásgeiri Heiðari væri sú greiðsla þannig óuppgerð.  

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að hann þekkti Y lítillega og hefði kynnst honum gegnum meðákærða Dagbjart Eið. Hann játti að hafa fengið leyfi fyrir afnotum af reikningi Y, sagðist hafa gefið þá skýringu að um laun væri að ræða og að hann mætti ekki við því að launin færu inn á reikning sinn, því þá yrðu þau tekin upp í skuld. Hann fullyrti að Y hefði þegið 25.-30.000 króna þóknun fyrir hverja innlögn.

        Y staðfesti framburð sinn við yfirheyrslur 10. júlí 2006 og 23. febrúar 2007, gat þess í fyrri skýrslunni að Ásgeir Heiðar lygi til um ætlaða þóknun, sagði að um greiðasemi hefði verið að ræða og hann aldrei grunað að umræddir fjármunir væru illa fengnir, og í þeirri seinni að hann hefði ekki hagnýtt sér neitt af innlögðu fé, nema fyrrgreinda greiðslu 9. júní 2006 og þá fyrir sakir misskilnings.

        Ásgeir Heiðar staðfesti eigin framburð við yfirheyrslu 12. júlí 2006, sagði fram­burð Y réttan í öllum meginatriðum, sagðist ekki muna af hverju greiðslan 9. júní hefði ekki skilað sér til hans og staðhæfði sem fyrr að Y hefði fengið greidda 25-30.000 króna þóknun fyrir hverja innlögn.

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 breytti Ásgeir Heiðar fyrri fram­burði og fullyrti að Y hefði ekki aðeins þegið fyrrnefnda þóknun heldur hefði hann haldið eftir öllu innlögðu fé á reikninginn og peningarnir farið til kaupa á fíkniefnum úr hendi hans og Dagbjarts Eiðs. 

        Y neitaði sök fyrir dómi. Hann þrætti þó ekki fyrir að hafa móttekið umræddar greiðslur á reikninginn og gaf þá skýringu að Ásgeir Heiðar hefði fengið leyfi til að leggja laun sín þangað, sagt að hann væri á svörtum lista og gæti því ekki tekið við launum á eigin reikning. Að sögn Y hefði honum ekki fundist þetta óeðlilegt og því ekki spurt hvaðan launin kæmu. Hann kvaðst á greindum tíma ekki hafa vitað um aðra launaða vinnu Ásgeirs Heiðars en á bíla­verk­stæði, en þangað hefði Y leitað nokkrum sinnum vegna við­gerðar á bifreið sinni og Ásgeir Heiðar þá borið fram beiðni sína. Y kvaðst annars þekkja lítið til Ásgeirs Heiðars, sem og til meðákærða Dagbjarts Eiðs, sem hann hefði aðeins hitt í örfá skipti á verkstæðinu. Þá hefði hann ekki vitað um sambærilegar innlagnir á reikning Konráðs Þórs, sagði Ásgeir Heiðar hafa blekkt þá báða og þannig fengið Y til að taka út og afhenda honum innlagða peninga á umræddu verkstæði. Hann kvaðst aldrei hafa þegið þóknun fyrir, gaf sömu skýringu og áður á greiðslunni 9. júní 2006, sem fyrir misskilning hefði ekki skilað sér aftur til Ásgeirs Heiðars og sagðist aldrei hafa grunað neitt misjafnt fyrr en hann hefði heyrt af málinu í fréttum. Þá skýrði Y kaup á gjaldeyri 4. maí 2006 á þann veg að Ásgeir Heiðar hefði beðið hann um kaupin. Ennfremur, að 33.553 króna mismun á innlögðu og útteknu fé í byrjun janúar hefði hann bætti Ásgeiri Heiðari með peningum úr eigin vasa.   

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar hafa kynnst Y gegnum Dagbjart Eið og sagðist halda að Y hefði vitað hvaðan peningarnir væru komnir, enda náinn vinur Dagbjarts. Hann þrætti fyrir að hafa minnst á ætluð laun í þessu sambandi, full­yrti að hann hefði ekki fengið krónu til baka af innlögðu fé á reikning Y og sagði hann og Dagbjart Eið hafa tekið við peningunum sem greiðslu fyrir fíkniefni.

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins er vafalaust að Y veitti viðtöku á banka­­reikning sinn og hélt samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars þeim greiðslum, sem lýst er í 15. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opin­beru starfi hjá TR, sbr. Q-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli aðstoðaði Y þannig Ásgeir Heiðar við að halda greindum ávinningi ólög­lega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á reikninginn og úttekt í reiðufé. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að Y hafi vitað deili á ákærðu eða að honum hafi mátt vera ljós fjársvik úr sjóðum TR, en hafa ber í huga að honum voru ekki send afrit endur­­greiðslu­kvittana. Óháð því er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn og út af reikningnum voru, sem hér segir:

 

5. janúar 2006: Inn 133.553 kr.                       11. janúar: Út 100.000 kr.

11. janúar 2006: Inn 121.206 kr.                    

17. janúar 2006: Inn 112.178 kr.                     19. janúar: Út 225.000 kr.      

2. maí 2006: Inn 150.914 kr.                           4. maí: Út 134.429 kr.

18. maí 2006: Inn 208.701 kr.                         19. maí: Út 226.458 kr.

9. júní 2006: Inn 187.914 kr.                           12. júní: Út 187.100 kr.

 

        Eftir stendur hvort Y hafi af öðrum ástæðum vitað, mátt vita eða gruna að peningarnir væru afrakstur auðgunarbrots eða annars hegningar­­laga­brots. Við mat á því ber að líta til þess að hann hefur frá upphafi haldið því statt og stöðugt fram að Ásgeir Heiðar hafi talið honum trú um að umræddir fjármunir væru laun, sem Ásgeir Heiðar mætti ekki við að færu inn á eigin reikning, án þess að verða tekin upp í skuld. Ásgeir Heiðar bar á sama eða svipaðan veg við þrjár yfirheyrslur hjá lög­reglu, áður en hann kúventi framburði sínum fyrir dómi og þrætti fyrir að hafa rætt um laun í þessu sam­bandi. Er hann þannig tvísaga um mikilvægt sönnunaratriði í málinu og þykir því ekkert hald í frásögn hans um greind samskipti.

        Þá hefur ekki verið hrakinn sá stöðugi fram­burður Y, að hann hafi bætt Ásgeiri Heiðari mismun á innlögðu og útteknu fé, varið hluta fjárins til gjaldeyriskaupa sam­kvæmt fyrir­­mælum Ásgeirs Heiðars og fyrir misskilning hagnýtt sér síðustu inn­lögnina til greiðslu á eigin VISA skuld. Þótt slíkt kunni að þykja einkennilegt nægir það eitt ekki til sönnunar um að huglæg afstaða Y hafi staðið til þess að taka þátt í auðgunarbroti. Að gættum þessum atriðum og gegn eindreginni neitun Y er ósannað að hann hafi þegið þóknun úr hendi Ásgeirs Heiðars fyrir afnot reikningsins.

        Samkvæmt framansögðu þykir verða að leggja til grundvallar að Ásgeir Heiðar hafi gefið þá skýringu á umræddum greiðslum að um laun væri að ræða, sem hann vildi ekki fá greidd á sinn reikning. Getur þetta samrýmst fjárhæð einstakra greiðslna og tíðni, en á greindum tíma rak Ásgeir Heiðar einhverskonar bíla­verk­stæði og var Y um það kunnugt. Liggur í hlutarins eðli að Ásgeir Heiðar hafði einhverjar tekjur af bílaviðgerðum, auk þess sem óhrakinn er sá framburður hans hjá lögreglu 26. júní 2006, að hann hafi keypt tjónabifreiðar, gert þær upp og selt. Í ljósi þessa þykir réttmætur vafi leika á því að Y hafi haft svo skýra mynd af tilurð fjárins þegar hann samþykkti að veita því viðtöku, að unnt sé að slá því föstu að með gerðum sínum hafi hann mátt gruna að hann væri að hylma yfir auðgunar­­­brot Ásgeirs Heiðars eða annarra. Verður Y því ekki sakfelldur fyrir hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningar­laga. Frá sjónar­­hóli Y virðist viðtaka og ráð­stöfun fjárins benda til þess að hann hafi viljað aðstoða Ásgeir Heiðar við að leyna skatt­skyldum tekjum af bílabraski. Ber í því sam­bandi að hafa í huga, að ósannað er að Y hafi átt að hagnast af viðtöku fjárins. Háttsemi hans þykir engu að síður sérlega ámæliverð og í andstöðu við þá hegðun, sem almennt má búast við af góðum og gegnum manni. Þegar þess er hins vegar gætt, að greiðslurnar virðast hafa verið skýrðar sem svartar tekjur og voru ekki óeðlilegar sem slíkar, þykir skyn­samlegur vafi leika á því að Y hafi mátt gruna að um ólög­lega fengið fé var að ræða og því síður afrakstur af hegningarlaga­broti. Ber af þeirri ástæðu og gegn eindreginni sakar­neitun Y að sýkna hann af hátt­seminni, sem honum er gefin að sök í 15. kafla ákæru.

Um 20. kafla ákæru.

        Meðákærða Þorfinni er gefið að sök að hafa veitt viðtöku á bankareikning sinn, haldið og ráðstafað samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, sam­tals 1.322.069 króna ávinningi af fjár­svikum ákærðu Rann­veigar, sem hún lét leggja inn á reikninginn með 10 tilhæfulausum greiðslum, á ríflega þriggja mánaða tímabili, frá 28. september 2005 til 5. janúar 2006. Er þetta hlutrænt séð óumdeilt, sem og að Þorfinnur tók svipaðar fjár­­hæðir út af reikningnum, ýmist samdægurs eða nokkrum dögum síðar, allt þannig að í lok tímabilsins nam mismunur á inn­lögðu og útteknu fé 39.857 krónum, sem féllu í hlut Þorfinns.

        Þorfinnur var yfirheyrður hjá lögreglu 27. júní 2006. Hann kvaðst ekki vita deili á ákærðu og hvorki hafa vitað um fjársvik hennar né að ólöglegar greiðslur væru að berast á reikninginn frá TR. Hann gaf þá skýringu á greiðslunum að kunningi hans til nokkurra ára, Ásgeir Heiðar, hefði fengið leyfi til að leggja inn á reikninginn laun, sem ekki hefðu mátt fara á hans eigin reikning, án þess að verða tekin upp í skuld við bankann. Kvaðst Þorfinnur sjálfur hafa lent í svipaðri stöðu og því hefði hann sam­þykkt beiðni Ásgeirs Heiðars og ekki spurt hann frekar út í þetta. Að sögn Þorfinns hefði honum ekki þótt undarlegt þótt greiðslurnar bærust síðan frá TR, enda hefði hann vitað að Ásgeir Heiðar væri óreglumaður og því talið að hann gæti átt rétt á bóta­greiðslum frá TR. Hann kvaðst hafa fylgst með því þegar greiðslurnar bárust, í fram­haldi látið Ásgeir Heiðar vita, því næst farið í banka, tekið út sömu fjárhæðir í peningum og afhent Ásgeiri Heiðari. Þegar greiðslurnar hefðu síðan hætt að berast hefði Þorfinnur ekki hugsað meira um málið.

        Ásgeir Heiðar greindi lögreglu frá því 4. júlí 2006 að hann þekkti Þorfinn, sem væri bróðir meðákærðu Erlu Ingu, unnustu meðákærða Dagbjarts Eiðs, og játti að hafa fengið samþykki hans til afnota af téðum bankareikningi. Hann kvaðst hafa gefið Þorfinni þá skýringu að um laun væri að ræða, sem ekki mættu fara inn á hans reikning, án þess að verða tekin upp í skuld. Þorfinnur hefði þannig ekki vitað um tilurð fjárins, en fengið 25-30.000 krónur fyrir hverja innlögn á reikninginn og haldið þeirri fjárhæð eftir við skil á öðru fé.

        Þorfinnur staðfesti fyrri framburð við yfirheyrslu 10. júlí 2006, bar að hann hefði ekki vitað um atvinnuhagi Ásgeirs Heiðars á árunum 2005-2006 eða hvort hann hefði verið í fíkniefnaneyslu, en sagðist sjálfur hafa verið í daglegri neyslu á ákæru­tíma­bilinu og hafa farið í meðferð í janúar 2006. Þá þrætti Þorfinnur fyrir að hafa þegið þóknun frá Ásgeiri Heiðari og sagði þann framburð hans rangan.

        Ásgeir Heiðar staðfesti sinn framburð við yfirheyrslu 12. júlí 2006, sagði fram­burð Þorfinns réttan í öllum meginatriðum, en áréttaði að sá hefði fengið þóknun fyrir.

        Þorfinnur staðfesti fyrri skýrslur sínar við yfirheyrslu 2. apríl 2007 og þrætti enn fyrir að hafa fengið þóknun fyrir afnot reikningsins. Hann kvaðst ekki muna eftir ein­stökum greiðslum, ekki vita hvað hefði orðið um mismuninn á innlögðu og útteknu fé samkvæmt reikningsyfirlitum og bar að við úttektir hefði hann jafnað fjárhæðir niður í slétt þúsund og afhent Ásgeiri Heiðari.   

        Við yfirheyrslu 26. október 2007 brá svo við að Ásgeir Heiðar sagði Þorfinn ekki hafa afhent honum neitt af þeim 1.322.069 krónum frá TR, sem lagðar hefðu verið inn á reikninginn heldur hefðu peningarnir runnið til Dagbjarts Eiðs, sem greiðsla fyrir fíkni­efni. Í framhaldi gaf Ásgeir Heiðar þá skýringu á notkun reikningsins, að Þorfinnur hefði skuldað Dag­bjarti Eiði peninga og því hefði Dagbjartur Eiður beðið Ásgeir Heiðar um að leggja peningana inn á reikning Þorfinns. Þaðan hefðu þeir síðan borist til Dagbjarts Eiðs, sem liður í fíkniefnaviðskiptum hans og Ásgeirs Heiðars.    

        Þorfinnur neitaði sök fyrir dómi. Hann þrætti þó ekki fyrir að hafa móttekið umræddar greiðslur á reikninginn fyrir tilstuðlan Ásgeirs Heiðars, sagðist hafa haldið að um væri að ræða laun til Ásgeirs Heiðars og viljað gera honum umbeðinn greiða, þótt þeir þekktust ekki vel. Hann sagðist ekki hafa velt tilurð greiðslnanna frekar fyrir sér og einskis hafa spurt í því sambandi, en aldrei grunað að um ólöglegt athæfi væri að tefla. Þorfinnur kvaðst ekki hafa vitað til þess að Ásgeir Heiðar væri í launaðri vinnu á ákærutímabilinu og bar að því mætti kalla umrædd laun „bætur“ eða „hans peninga til að lifa“. Sem fyrr kvaðst Þorfinnur hafa tekið peningana út af reikningnum og afhent Ásgeiri Heiðari, án þess að þóknun kæmi fyrir, en mismuninn á innlögðu og útteknu fé gæti hann ekki skýrt. Hann kvaðst ekki vita til þess að greiðslurnar tengdust fíkniefnaviðskiptum, en játti að hafa vitað að Ásgeir Heiðar hefði verið í neyslu. Aðspurður hvort honum hefði ekki fundist skrýtið að móttaka ríflega 1.300.000 krónur frá TR í þágu Ásgeirs Heiðars, á rúmum þremur mánuðum, sagðist Þorfinnur ekki hafa velt þessu fyrir sér og ekki vita „hvernig þetta virkar þarna“ hjá TR.   

        Fyrir dómi kvaðst Ásgeir Heiðar þekkja Þorfinn lítillega og hafa fengið afnot af reikningi hans gegnum Dagbjart Eið, sem hann hefði beðið að útvega fleiri reiknings­númer. Hann kvað greiðslurnar hafa runnið til Dagbjarts Eiðs og hafa tengst fíkniefna­við­skiptum þeirra í milli.

        Álit dómsins.

        Í þessum þætti málsins er vafalaust að Þorfinnur veitti viðtöku á banka­­reikning sinn, hélt og ráðstafaði samkvæmt fyrirmælum Ásgeirs Heiðars, þeim greiðslum, sem lýst er í 20. kafla ákæru og að sömu fjármuna var aflað með fjár­svikum ákærðu Rann­veigar í opinberu starfi hjá TR, sbr. V-liður 1. kafla. Frá hlutrænum sjónarhóli aðstoðaði Þorfinnur þannig Ásgeir Heiðar við að halda greindum ávinningi ólög­lega fyrir TR og stuðlaði jafnframt að þvætti peninganna með viðtöku þeirra á reikninginn og úttekt í reiðufé. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í málinu um að Þorfinnur hafi vitað deili á ákærðu eða að honum hafi mátt vera ljós fjársvik hennar úr sjóðum TR, en hafa ber í huga að Þorfinni voru ekki send afrit endur­­greiðslu­kvittana. Óháð þessu er óumdeilt að ólöglegar greiðslur inn og út af reikningnum voru, sem hér segir:

 

28. september 2005: Inn 131.175 kr.               Samdægurs: Út 131.000 kr.

11. október 2005: Inn 150.446 kr.                   12. október: Út 141.780 kr.

18. október 2005: Inn 121.264 kr.                   20. október: Út 121.000 kr.    

31. október 2005: Inn 144.025 kr.                   1. nóvember: Út 124.000 kr.

14. nóvember 2005: Inn 146.535 kr.               16. nóvember: Út 141.000 kr.

2. desember 2005: Inn 106.501 kr.                  6. desember: Út 133.000 kr.

8. desember 2005: Inn 132.361 kr.                  10. og 12. desember: Út 102.000 kr.

13. desember 2005: Inn 123.799 kr.                14. desember: Út 123.000 kr. 

22. desember 2005: Inn 143.531 kr.                23. desember: Út 143.000 kr.

5. janúar 2006: Inn 122.432 kr.                       6. janúar: Út 122.000 kr.

 

        Í málinu liggur fyrir framburður Þorfinns hjá lögreglu og fyrir dómi um að hann hafi veitt samþykki fyrir því að Ásgeir Heiðar legði inn á reikning hans væntan­leg laun, sem ekki mættu fara á hans eigin reikning vegna skulda. Segist Þorfinnur hafa tekið þetta gott og gilt og einskis hafa spurt, þrátt fyrir að umræddar greiðslur bærust síðan frá TR. Að sögn Þorfinns hafi honum ekki fundist þetta óeðlilegt, enda vitað að Ásgeir Heiðar væri óreglumaður og því talið að hann ætti rétt á sömu greiðslum í formi bóta frá TR. Þá hefur Þorfinnur staðhæft að um greiðasemi hafi verið að ræða og hann því ekki þegið þóknun fyrir. Er ekkert hald­bært fram komið, sem hnekkir þeim framburði og ber því að leggja til grundvallar að Þorfinnur hafi afhent Ásgeiri Heiðari samtals 1.282.212 krónur af peningunum frá TR og aðeins haldið eftir 39.857 króna mismun á innlögðu og útteknu fé, enda engin önnur skýring fengist á ráðstöfun þess fjár. Um framburð Þorfinns að öðru leyti er ýmis­legt að athuga. Þannig hefur hann borið að hafa þekkt Ásgeir Heiðar lítið. Í ljósi þessa þykir einkennilegt að Þorfinnur hafi heimilað umræddar innlagnir í upphafi og ærið einkennilegt að hann skuli ekki hafa krafið Ásgeir Heiðar skýringa þegar í ljós kom að greiðslurnar bárust frá TR, enda ólíku saman að jafna, launum og bótum. Skal þetta nú skýrt nánar.

        Ef marka má framburð Þorfinns stóð hann í þeirri trú að Ásgeir Heiðar væri að þiggja einhverskonar örorkubætur frá TR, sem á ríflega þriggja mánaða tímabili, námu 1.322.069 krónum og voru inntar af hendi með ójöfnum greiðslum, hæst 150.446 krónur og lægst 106.501 króna. Ennfremur stóð hann þá í trú um að ekki væri óeðli­legt að TR greiddi slíkar bætur með óreglu­legu millibili, svo sem sést að ofan.

        Það er mat dómenda að á framangreindu sé slíkur ólíkindablær og því sé sá fram­burður Þorfinns að engu hafandi, að hann hafi verið eða mátt vera í góðri trú um lög­legan upp­runa fjárins, enda myndi önnur ályktun leiða af sér að eðlilegt geti talist að óreglu­maður þiggi um 95.000 krónur á viku í örorkubætur. Að þessu gættu er það álit dómenda að Þorfinnur hafi ekki getað velkst í vafa um að ólögmætt athæfi byggi að baki greiðslunum og að með viðtöku fjárins og fyrrgreindri ráðstöfun þess væri hann að taka þátt í refsiverðum verknaði. Með því að gera þetta engu að síður, án þess að draga í efa uppruna fjárins, þykir Þorfinnur hafa auðsýnt slíkt sinnu­leysi að ekki verður dregin önnur, skynsamleg ályktun en að hann hafi frá upp­hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvaðan peningarnir væru komnir og fremur verið reiðu­búinn að taka þátt í verknaðinum en að láta það ógert. Þykir þannig hafið yfir skynsamlegan vafa að Þorfinnur hafi með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi gerst sekur um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, enda hefði honum, eins og hér stóð á, mátt vera ljóst að téðir fjár­munir væru að öllum líkindum afrakstur af auðgunar­broti Ásgeirs Heiðars eða annarra. Ber að sak­­fella Þorfinn því til sam­ræmis.

V.

        Ákærða Rannveig.

        Ákærða er 45 ára. Samkvæmt sakavottorði gekkst hún 14. desember 2007 undir 90.000 króna sekt fyrir ölvunarakstur. Samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga ber að taka tillit til þessa þegar refsing er nú ákveðin, en greindur sakaferill er ákærðu til hags­bóta. Við ákvörðun refsingar þykir annars mega líta til þess að ákærða játaði hátt­semi sína strax í upphafi lögreglu­rann­sóknar, lagði sitt af mörkum til að upplýsa málið, meðal annars með því að greina frá aðild annarra, og hefur fyrir dómi gengist afdráttarlaust við þeim sökum, sem hún er borin í ákæru. Á hinn bóginn verður ekki horft framhjá því að um stórfellt brot í opinberu starfi var að ræða, en ákærða kom á fót umfangsmikilli fjár­svikastarfsemi, sem teygði anga sína víða og stóð samfellt yfir í nærri fjögur og hálft ár. Þegar upp var staðið hafði ákærða þannig svikið tæplega 76.000.000 króna út úr sjóðum TR og sjálf haft um eða yfir 30.000.000 króna upp úr krafsinu, eftir því sem næst verður komist. Brotavilji var því ein­beittur og tjónið einkar yfirgripsmikið, en það er óbætt. Með hlið­sjón af framan­sögðu og vísan til niður­lagsorða 138. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærðu hæfi­lega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Samkvæmt 76. gr. sömu laga skal koma til frádráttar refsingunni sautján daga gæslu­varð­hald, frá 26. júní til 12. júlí 2006.

        Ákærði Ásgeir Heiðar.

        Ákærði er 25 ára. Samkvæmt sakavottorði og öðrum gögnum málsins var hann 20. júní 2002 sakfelldur fyrir tilraun til þjófnaðar og 2. október fyrir nytjastuld, en í hvorugt skipti gerð refsing í ljósi fyrri sakaferils. Hinn 24. október 2002 staðfesti Hæsti­­réttur síðan átján mánaða fangelsisdóm, uppkveðinn í héraði 24. apríl sama ár, fyrir þrettán hegningar­­lagabrot. Í kjölfar þessa var ákærði 27. mars 2003 sakfelldur fyrir fjársvik, en ekki gerð frekari refsing. Hinn 11. nóvember 2003 var ákærði hins vegar dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir átta hegningarlagabrot og 5. október 2005 hlaut hann 120.000 króna sekt fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot. Næst var hann 16. október 2007 dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir tvo þjófnaði og nytjastuld, gekkst 26. nóvember undir 67.500 króna sekt fyrir vörslur fíkniefna og var loks 17. janúar 2008 dæmdur af Hæstarétti í átján mánaða fangelsi fyrir nytjastuld, hylmingu og sjö þjófnaðarbrot.

        Ákærði er nú sakfelldur fyrir hylmingarbrot á tímabilinu frá janúar 2002 til október 2004, sem og hlutdeild í fjársvikum í opinberu starfi á tímabilinu frá maí 2002 til júní 2006. Ber því samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga að dæma honum hegningar­auka, sem samsvari þeirri þynging refsingar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um brotin í fyrri málunum, sem þannig koma öll til skoðunar á nýjan leik, þótt með ólíku móti sé. Ákærði á sér til málsbóta að hafa játað sakargiftir fyrir dómi. Á hinn bóginn horfir til refsiþyngingar að hann er ekki aðeins sekur um hlut­deild í fjársvikum í opinberu starfi, heldur ber að líta svo á að hann hafi að stórum hluta verið nánast aðalfremjandi brotsins, en fyrir tilstuðlan ákærða og skipulagningu runnu samtals um 50.000.000 króna út úr sjóðum TR og hagnýtti hann sér þorra þess fjár, með einum eða öðrum hætti. Með hliðsjón af greindum atriðum, sem og 77. gr. og 138. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin tólf mánaða fangelsi. Frá þeirri refsingu ber að draga sextán daga gæsluvarðhald, frá 27. júní til 12. júlí 2006, sbr. 76. gr. hegningarlaganna.

        Ákærða Anna Dóra.

        Ákærða er 24 ára. Samkvæmt sakavottorði hlaut hún 22. janúar 2003 skilorðs­bundna ákærufrestun fyrir hylmingu. Hefur umrætt brot ekki áhrif við ákvörðun refsingar í þessu máli. Það sem einkum horfir til refsiþyngingar er að brot ákærðu fólst í því að hylma yfir tæplega 11.000.000 króna fjársvik, að hún notaði eigin banka­reikninga til þvættis á umræddu fé og naut verulegs ávinnings af háttseminni, sem stóð óslitið í rúm fjögur ár. Brotavilji var því skýr og einbeittur, en atferli hennar þykir rétt að virða í heild sem framhaldsbrot. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að ákærða gekkst við háttseminni hjá lögreglu og hefur fyrir dómi játað sök í málinu. Þá þykir mega líta til þess að ákærða var aðeins 19 ára þegar hún hóf þátttöku í greindum fjársvikum og að hún blandaðist inn í blekkingarferlið á grundvelli sambúðar með Ásgeiri Heiðari. Kann þetta að skýra brot ákærðu, þótt ekki réttlæti það gerðir hennar á nokkurn hátt. Loks þykir mega hafa hliðsjón af því að ákærða hefur verið „edrú“ í rúm þrjú ár og er í fastri vinnu. Að öllu þessu gættu þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði.

        Með hliðsjón af játningu ákærðu og því að hún á óveru­legan sakaferil að baki þykir mega ákveða að fresta nú fullnustu á sex mánuðum dæmdrar refsingar þannig að sá hluti hennar falli niður að liðnum þremur árum frá dóms­birtingu haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­laga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Til frá­dráttar óskilorðsbundinni refsivist skal koma átta daga gæsluvarð­hald, frá 27. júní til 4. júlí 2006.

        Ákærði Ágúst Jón.

        Ákærði er 25 ára. Samkvæmt sakavottorði og öðrum gögnum málsins var hann 31. maí 2002 dæmdur í átta mánaða fangelsi, skilorðsbundið þrjú ár, fyrir þjófnaðar­brot og 30. desember 2002 var honum dæmdur 15 mánaða hegningarauki, þar af tólf mánuðir skil­orðs­bundnir í þrjú ár, einnig fyrir þjófnaðarbrot. Í kjölfar þess dóms hlaut ákærði fjórum sinnum sektarrefsingar, árin 2004, 2006 og 2007, samtals að fjárhæð rúm­lega 460.000 krónur, áður en hann var 13. mars 2008 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið tvö ár, fyrir eignaspjöll. Ber nú að ákveða ákærða hegningar­auka við framan­greind brot, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Að því gættu, og í ljósi þess að hylmingar­brot ákærða er ekki stórfellt, þykir ekki efni til að gera honum frekari refsingu.

        Ákærða Bryndís.

        Ákærða er tæplega 25 ára og hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi. Ber ákærðu að njóta þessa við ákvörðun refsingar, sem og þess að langt er um liðið frá hinu saknæma atferli, sem virt verður í heild sem framhaldsbrot. Þá ber að líta til þess að brotið varðaði ekki verulega fjárhæð, að ákærða naut óverulegs ávinnings og að hún var aðeins 19-20 ára gömul þegar hún braut af sér. Með hliðsjón af þessum atriðum þykir rétt að fresta nú ákvörðun refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­­laga með áorðnum breytingum.

        Ákærði Dagbjartur Eiður.

        Ákærði er 27 ára. Samkvæmt sakavottorði og öðrum gögnum málsins var hann 4. mars 2004 dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Var sá dómur tekinn upp vegna skilorðsrofa, dæmdur í samkynja máli 13. september 2005 og ákærða gerð 60 daga refsing, skilorðsbundin í tvö ár. Í kjölfar þess dóms hefur ákærði þrívegis hlotið sektarrefsingar, árin 2006 og 2007, samtals að fjárhæð krónur 230.000. Ákærði er nú sakfelldur fyrir að hylma yfir 3.569.908 króna fjársvik, á tímabilinu frá 18. október 2004 til 6. júní 2006, en ákærði notaði bankareikning sinn til þvættis á umræddu fé. Verður greint atferli virt í heild sem framhaldsbrot. Með brotinu rauf ákærði skilorð dómsins frá 13. september 2005. Verður sá dómur því tekinn upp og dæmt í einu lagi fyrir brot, sem ákærði var þar sakfelldur fyrir og brotið sem hér er til meðferðar samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. sömu laga. Þá ber einnig að hafa hliðsjón af 78. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar verður annars litið til þess að um nær samfellda brotastarfsemi var að ræða, sem náði yfir langt tímabil og varðaði umtalsverðar fjárhæðir. Þá hefur ákærði neitað allri sök við rann­­sókn og meðferð málsins. Hann á sér engar málsbætur. Þykir refsing þannig hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.

        Ákærða Erla Inga.

        Ákærða er 24 ára. Samkvæmt sakavottorði hlaut hún 23. júlí 2003 skilorðs­bundna ákærufrestun fyrir þjófnað og 26. febrúar 2004 gekkst hún undir 31.000 króna sektar­greiðslu fyrir fíkniefnalagabrot. Hafa umrædd brot ekki áhrif við ákvörðun refsingar í þessu máli Ákærða er nú sakfelld fyrir að hylma yfir 6.575.886 króna fjársvik, á tíma­bilinu frá 26. október 2004 til 1. júní 2006, en ákærða notaði banka­reikning sinn til þvættis á umræddu fé. Verður greint atferli virt í heild sem framhalds­brot. Við ákvörðun refsingar ber að horfa til þess að um samfellda brotastarfsemi var að ræða, sem náði yfir langt tímabil og varðaði verulegar fjárhæðir. Naut ákærða ávinnings af brotinu, þótt í óverulegum mæli væri. Hún hefur neitað allri sök við rann­sókn og með­ferð málsins og á sér engar málsbætur. Með framan­greind atriði í huga þykir refsing hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi. Er ekki efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

        Ákærði Heiðar Andri.

        Ákærði er 29 ára. Samkvæmt sakavottorði og öðrum gögnum málsins hlaut hann í maí 1997 tveggja ára fangelsisdóm fyrir líkamsárás og var þá tekin upp og dæmd með eldri 15 mánaða skilorðsbundin refsing. Hinn 11. október 2006 gekkst ákærði undir 106.000 króna sekt fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot og 18. mars 2008 sættist hann á 140.000 króna sekt fyrir umferðarlagabrot. Ber nú að dæma ákærða hegningarauka við framan­greind sektarbrot, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Hann er í þessu máli sakfelldur fyrir að hylma yfir 2.838.266 króna fjársvik, á tímabilinu frá 8. desember 2005 til 8. júní 2006, en ákærði notaði banka­reikning sinn til þvættis á umræddu fé. Verður greint atferli virt í heild sem framhalds­brot. Við ákvörðun refsingar ber að horfa til þess að um samfellda brotastarfsemi var að ræða, sem náði yfir sex mánaða tímabil og varðaði umtalsverðar fjárhæðir. Naut ákærði þó nokkurs ávinnings af brotinu. Hann hefur neitað allri sök við rann­sókn og meðferð málsins og á sér engar málsbætur. Að gættum öllum þessum atriðum þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Er ekki efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

        Ákærða Hrafnhildur Ýr.

        Ákærða er tæplega 25 ára. Samkvæmt sakavottorði var hún 15. maí 2002 dæmd í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið tvö ár, fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot. Hefur sá dómur ekki áhrif við ákvörðun refsingar í þessu máli. Ákærða er nú sakfelld fyrir að hylma yfir 5.664.819 króna fjársvik, á tímabilinu frá 12. júní 2002 til 6. júní 2006, en ákærða notaði bankareikninga sína til þvættis á umræddu fé. Var háttsemin framin í samfellu frá 12. júní 2002 til 14. febrúar 2003, en síðan varð hlé fram í maí 2004 og aftur til 22. mars 2005, þá er við tók samfelld brota­starf­semi hennar til loka ákæru­tíma­bilsins. Að þessu gættu þykir rétt að virða atferli ákærðu sem þrjár brota­eindir í skilningi 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brotin stóðu yfir langan tíma, vörðuðu veru­legar fjár­hæðir og að ákærða naut ríkulegs ávinnings. Brotavilji ákærðu var einbeittur og neitaði hún allri sök við rann­sókn og með­ferð málsins. Hún á sér engar málsbætur. Með hliðsjón af framansögðu þykir refsing hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi. Er ekki efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

        Ákærði Konráð Þór.

        Ákærði er 25 ára. Samkvæmt sakavottorði var hann 26. júní 2002 dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið þrjú ár, fyrir þjófnað og eignaspjöll. Þá hlaut hann 10. október 2002 skilorðsbundna ákærufrestun fyrir þjófnað, var í mars 2003 dæmdur til sektargreiðslu fyrir umferðarlagabrot og í apríl fyrir þjófnað. Loks gekkst ákærði 4. mars 2004 undir sektargreiðslu fyrir umferðarlagabrot. Hafa greindar refsingar ekki sér­staka þýðingu við ákvörðun refsingar í þessu máli. Ákærði er nú sakfelldur fyrir að hylma yfir 891.696 króna fjársvik, á tímabilinu frá 11. apríl til 19. maí 2006, en hann notaði banka­reikning sinn til þvættis á umræddu fé. Verður greint atferli virt í heild sem framhalds­brot. Við ákvörðun refsingar ber annars að líta til þess að um tölu­verða fjár­hæð var að tefla. Ákærði hefur neitað allri sök við rann­sókn og meðferð málsins og á sér ekki aðrar málsbætur en að hafa greitt TR 2.696 krónur, sem hann hafði haldið eftir á reikningnum. Með ­greind atriði í huga þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, sem eftir atvikum þykir mega skilorðsbinda þannig að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

        Ákærði Svavar Kristján.

        Ákærði er 23 ára. Samkvæmt sakavottorði gekkst hann þrívegis undir sektar­greiðslur fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot, á árunum 2002-2003. Hafa þau brot enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þá sættist hann 13. febrúar 2008 á 140.000 króna sekt fyrir umferðarlagabrot. Ber að taka tillit til þessa við ákvörðun refsingar í málinu, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði er nú sakfelldur fyrir að hylma yfir 5.222.737 króna fjársvik, á tímabilinu frá 23. mars 2005 til 7. júní 2006, en ákærði notaði bankareikning sinn til þvættis á umræddu fé. Verður háttsemin virt í heild sem framhalds­brot. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að brotið stóð yfir langan tíma, varðaði veru­legar fjárhæðir og að ákærði naut ríkulegs ávinnings. Brotavilji ákærða var einbeittur og neitaði hann allri sök við rann­sókn og meðferð málsins. Hann á sér engar málsbætur. Með hliðsjón af framansögðu þykir refsing hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi. Er ekki efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

        Ákærða Tinna.

        Ákærða er 27 ára. Samkvæmt sakavottorði og öðrum gögnum málsins var hún 8. febrúar 2006 dæmd í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið tvö ár, fyrir sérstaklega hættu­lega líkams­árás. Í kjölfarið gekkst hún 2. mars 2006 undir 37.500 króna sektar­greiðslu fyrir fíkniefnalagabrot og var 18. október 2007 dæmd í 90.000 króna sekt fyrir umferðar­laga­brot. Ákærða er nú sakfelld fyrir að hylma yfir 589.021 krónu fjársvik, á tímabilinu frá 24. maí til 9. júní 2006, en ákærða notaði bankareikning sinn til þvættis á umræddu fé. Verður greint atferli virt í heild sem framhaldsbrot. Með brotinu rauf ákærða skilorð dómsins frá 8. febrúar 2006. Verður sá dómur því tekinn upp og dæmt í einu lagi fyrir brotið, sem ákærða var þar sakfelld fyrir og brotið sem hér er til meðferðar samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. sömu laga. Þá ber einnig að hafa hliðsjón af 78. gr. laganna vegna sektarbrotsins 18. október 2007. Við ákvörðun refsingar ber annars að horfa til þess að um lága fjárhæð var að ræða og að ákærða naut óverulegs ávinnings. Hún hefur neitað sök við rann­sókn og með­ferð málsins og á sér engar málsbætur. Að gættum þessum atriðum þykir refsing hæfilega ákveðin sjö mánaða fangelsi. Er ekki efni til að skil­orðs­binda þá refsingu.

        Ákærði Þorfinnur.

        Ákærði er 23 ára. Samkvæmt sakavottorði og öðrum gögnum málsins var hann 19. desember 2003 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið þrjú ár, fyrir þjófnaðarbrot og var þá tekin upp og dæmd með eldri 30 daga skilorðsbundin refsing. Hinn 9. desember 2004 var hann síðan dæmdur í átta mánaða fangelsi, skilorðsbundið þrjú ár, fyrir þjófnaðarbrot og fleira, en refsing samkvæmt fyrri dómi var tekin upp og dæmd með. Loks var ákærði 6. júní 2007 dæmdur í tíu mánaða fangelsi, skilorðs­bundið fjögur ár, fyrir tilraun til fjársvika og var þá refsing samkvæmt fyrri dómi tekin upp og dæmd með á grundvelli skilorðsrofa. Ákærði er nú sakfelldur fyrir að hylma yfir 1.322.069 króna fjársvik, á tímabilinu frá 28. september 2005 til 5. janúar 2006, en hann notaði bankareikning sinn til þvættis á umræddu fé. Verður greint atferli virt í heild sem framhaldsbrot. Brot ákærða er framið fyrir uppsögu dómsins 6. júní 2007. Verður sá dómur því tekinn upp og dæmt í einu lagi fyrir brotin, sem ákærði var þar sak­felldur fyrir og brotið sem hér er til meðferðar samkvæmt 60. gr. almennra hegningar­laga, sbr. 78. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar ber annars að líta til þess að um tölu­verða fjárhæð var að tefla og að ákærði naut óverulegs ávinnings af brotinu. Hann hefur neitað allri sök við rann­sókn og meðferð málsins og á sér engar máls­­bætur. Að öllu þessu gættu þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði.

        Með hliðsjón af því að um hegningarauka er að ræða þykir mega ákveða að fresta nú fullnustu níu mánaða af hinni dæmdu refsingu og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá dóms­birtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­laga með áorðnum breytingum.

VI.

        TR krefst í málinu skaðabóta úr hendi ákærðu Rannveigar að fjárhæð krónur 75.750.444 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2006 til þess dags er liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags. Krafan var birt á dómþingi 14. mars 2008. Með hliðsjón af sakfellingu ákærðu og vísan til 2. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma um bóta­kröfuna og ákveða bætur eftir almennum reglum. Grundvöllur kröfunnar er skýr og ótvíræður og er óumdeilt að hún er ógreidd. Ber því að dæma ákærðu til að greiða umkrafða fjárhæð, með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

VII.

        Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að fella á ríkis­sjóð málsvarnarlaun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, að því marki sem þau varða X, og málsvarnarlaun Oddgeirs Einarssonar og Gríms Sigurðar­sonar héraðs­dóms­­lög­manna, að því marki sem þau varða Y.

        Hilmar hefur gætt hagsmuna X við rannsókn og meðferð málsins. Þykja máls­varnar­laun hæfilega ákveðin 409.356 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

        Oddgeir gætti hagsmuna Y við rannsókn málsins og fram að aðal­með­ferð. Þykir þóknun hans hæfilega ákveðin 382.713 krónur að meðtöldum virðis­auka­skatti. Málsvarnar­laun Gríms þykja í ljósi framanritaðs hæfilega ákveðin 223.104 krónur að meðtöldum virðis­auka­skatti.

        Ákærðu, sem sakfelld eru í málinu, verða dæmd til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna að fullu á grundvelli 1. mgr. 165. gr. sömu laga, en eins og málið er vaxið þykir ekki efni til að skipta sakarkostnaði vegna ákærðu Önnu Dóru og Heiðars Andra þótt þau hafi verið sýknuð af hlutdeild í fjársvikum.

        Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður hefur gætt hagsmuna ákærðu Rannveigu frá því haustið 2007. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 391.677 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Bjarni Hauksson héraðsdómslögmaður hefur gætt hagsmuna ákærðu Önnu Dóru við rann­sókn og meðferð málsins. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 690.726 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

        Hilmar Ingimundarson hefur gætt hagsmuna ákærða Ágústs Jóns við rannsókn og með­ferð málsins. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 409.356 krónur að með­töldum virðisaukaskatti.

        Sigmundur Hannesson hæstaréttarlögmaður hefur gætt hagsmuna ákærða Ásgeir Heiðar við rannsókn og meðferð málsins. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 779.370 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Guðjón Ólafur Jónsson hæstaréttarlögmaður hefur gætt hagsmuna ákærðu Bryn­dísar við rannsókn og meðferð málsins. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 520.908 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Stefán Karl Kristjánsson héraðsdómslögmaður hefur gætt hagsmuna ákærða Dagbjarts Eiðs við hluta lögreglurannsóknar og síðan fyrir dómi. Þykja málsvarnar­laun hæfilega ákveðin 281.370 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Stefán Karl hefur einnig gætt hagsmuna ákærðu Erlu Ingu við hluta lögreglu­rann­sóknar og síðan fyrir dómi. Þykja málsvarnar­laun hæfilega ákveðin 324.447 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Auður Björg Jónsdóttir héraðsdómslögmaður hefur gætt hagsmuna ákærða Heiðars Andra fyrir dómi. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 434.754 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Berglind Svavarsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur gætt hagsmuna ákærðu Hrafn­hildar Ýrar við rannsókn og meðferð málsins. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 409.356 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Grímur Sigurðarson hefur gætt hagsmuna ákærða Konráðs Þórs við rannsókn og með­ferð málsins. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 409.356 krónur að með­töldum virðisaukaskatti.

        Berglind Svavarsdóttir hefur gætt hagsmuna ákærða Svavars Kristjáns við rann­sókn og meðferð málsins. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 409.356 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Jón Egilsson héraðsdómslögmaður hefur gætt hagsmuna ákærðu Tinnu fyrir dómi. Þykja málsvarnarlaun hæfilega ákveðin 434.754 krónur að með­töldum virðis­­­auka­­skatti.

        Stefán Karl Kristjánsson hefur gætt hagsmuna ákærða Þorfinns við hluta lög­reglu­rannsóknar og síðan við aðalmeðferð. Þykja málsvarnar­laun hæfilega ákveðin 281.370 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti. Áður hafði Kristján Stefánsson hæsta­réttar­lögmaður gætt hagsmuna ákærða og þykir þóknun til hans hæfi­lega ákveðin 167.328 krónur að með­töldum virðis­auka­skatti.

        Björn Þorvaldsson aðstoðarsaksóknari sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.

        Dómsuppsaga hefur dregist og helgast það af umfangi máls og önnum dóms­for­manns.

                                                                  DÓMSORÐ:

        Ákærða Rannveig Rafnsdóttir sæti fangelsi þrjú ár, en frá refsingunni skal draga sautján daga gæsluvarðhald, frá 26. júní til 12. júlí 2006.

        Ákærði X er sýkn sakar.

        Ákærða Anna Dóra Ólafsdóttir sæti fangelsi níu mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá dóms­­birtingu haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Frá þriggja mánaða óskilorðsbundinni refsingu skal draga átta daga gæsluvarðhald, frá 27. júní til 4. júlí 2006.

        Ákærða Ágústi Jóni Óskarssyni er ekki gerð refsing.

        Ákærði Ásgeir Heiðar Stefánsson sæti fangelsi tólf mánuði, en frá refsingunni skal draga sextán daga gæsluvarðhald, frá 27. júní til 12. júlí 2006.

        Ákvörðun um refsingu ákærðu Bryndísar Bjarnadóttur er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá dóms­­birtingu haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

        Ákærði Dagbjartur Eiður Ólason sæti fangelsi sex mánuði.

        Ákærða Erla Inga Hilmarsdóttir sæti fangelsi sex mánuði.

        Ákærði Heiðar Andri Heiðarsson sæti fangelsi þrjá mánuði.

        Ákærða Hrafnhildur Ýr Þrastardóttir sæti fangelsi sex mánuði.

        Ákærði Konráð Þór Lárusson sæti fangelsi tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá dóms­­birtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

        Ákærði Y er sýkn sakar.

        Ákærði Svavar Kristján Sigurðsson sæti fangelsi sex mánuði.

        Ákærða Tinna Jensdóttir sæti fangelsi sjö mánuði.

        Ákærði Þorfinnur Hilmarsson sæti fangelsi tólf mánuði, en fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá dóms­­birtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

        Ákærða Rannveig greiði Tryggingastofnun ríkisins 75.750.444 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2006 til 14. apríl 2008, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðslu­dags.

        Ákærða Rannveig greiði 391.677 króna málsvarnarlaun Jóns Magnússonar hæsta­réttarlögmanns.

        Úr ríkissjóði greiðast 409.356 króna málsvarnarlaun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða X.

        Ákærða Anna Dóra greiði 690.726 króna málsvarnarlaun Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns.

        Ákærði Ágúst Jón greiði 409.356 króna málsvarnarlaun Hilmars Ingimundar­sonar hæstaréttarlögmanns.

        Ákærði Ásgeir Heiðar greiði 779.370 króna málsvarnarlaun Sigmundar Hannes­sonar hæstaréttarlögmanns.

        Ákærða Bryndís greiði 520.908 króna málsvarnarlaun Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns.

        Ákærði Dagbjartur Eiður greiði 281.370 króna málsvarnarlaun Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns.

        Ákærða Erla Inga greiði 324.447 króna málsvarnarlaun Stefáns Karls Kristjáns­sonar héraðsdómslögmanns.

        Ákærði Heiðar Andri greiði 434.754 króna málsvarnarlaun Auðar Bjargar Jóns­dóttur héraðsdómslögmanns.

        Ákærða Hrafnhildur Ýr greiði 409.356 króna málsvarnarlaun Berglindar Svavars­dóttur hæstaréttarlögmanns.

        Ákærði Konráð Þór greiði 409.356 króna málsvarnarlaun Gríms Sigurðar­sonar héraðs­dóms­lög­manns.

        Úr ríkissjóði greiðist 382.713 króna þóknun Oddgeirs Einarssonar héraðsdóms­lög­manns, fyrrum verjanda ákærða Y, og 223.104 króna málsvarnarlaun verjandans Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns.

        Ákærði Svavar Kristján greiði 409.356 króna málsvarnarlaun Berglindar Svavars­dóttur hæstaréttarlögmanns.

        Ákærða Tinna greiði 434.754 króna málsvarnarlaun Jóns Egilssonar héraðsdóms­lögmanns.

        Ákærði Þorfinnur greiði 167.328 króna þóknun fyrrum verjanda síns, Kristjáns Stefáns­sonar hæstaréttarlögmanns, og 281.370 króna málsvarnarlaun verjandans Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdóms­lög­manns