Hæstiréttur íslands

Mál nr. 181/2006


Lykilorð

  • Bókhald
  • Ársreikningur
  • Endurskoðandi
  • Tollalagabrot
  • Skjalabrot


Dómsatkvæði

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2007.

Nr. 181/2006.

Ákæruvaldið

(Sigurður Tómas Magnússon

 settur ríkissaksóknari)

gegn

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni

(Gestur Jónsson hrl.)

Kristínu Jóhannesdóttur

(Kristín Edwald hrl.)

Stefáni Hilmari Hilmarssyni og

Önnu Þórðardóttur

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Bókhald. Ársreikningar. Endurskoðendur. Tolllagabrot. Skjalabrot.

Opinbert mál var höfðað á hendur JÁ, J, K, T, SH og A, en 32 af 40 ákæruliðum var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 420/2005. Hins vegar var lagt fyrir héraðsdóm að taka aðra ákæruliði til efnismeðferðar og var leyst úr þeim með hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti sneri málið að 33., 34., 35., 36., 38. og 40. ákærulið, en fallið hafði verið frá sökum á hendur J og T og jafnframt dregið úr sakargiftum á hendur öðrum. Samkvæmt 33. til 36. lið ákæru var JÁ gefið að sök að hafa brotið gegn 43., sbr. 36. gr. þágildandi laga nr. 144/1994 um ársreikninga með því að hafa í starfi forstjóra B hf. látið rangar og villandi skýringar fylgja ársreikningum félagsins 1998 til 2001, þar sem látið hafi verið hjá líða að tilgreina nánar tiltekna fjárhæð lána, sem hafi verið veitt honum sjálfum, K og tveimur nafngreindum félögum. Við skýringu á merkingu hugtaksins lán var tekið mið af því að eingöngu reyndi á hana við úrlausn um hvort JÁ hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var hugtakið því skýrt eftir orðanna hljóðan, en við skýringu á ákvæðinu jafnframt litið til 2. og 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 696/1996. Tekið var fram að þær fjárhæðir, sem tilgreindar voru í ákæru, hefðu myndast sem mismunur B hf. til eignar, sem stóð í lok hvers reikningsárs í bókhaldi félagsins á viðskiptareikningum hvers skuldara. Var ekki fallist á með ákæruvaldinu að hugtakið lán tæki til heildarfjárhæðar krafna B hf. á hendur fyrrgreindum aðilum í lok hvers reikningsárs, án þess að frekar yrði að huga að því hvernig kröfurnar hefðu myndast. Af skoðun á viðskiptareikningum var talið að tilteknar færslur sem taldar voru B hf. til eignar gætu ekki talist hafa komið til með veitingu láns, óljóst væri af bókhaldsgögnum hvort aðrar færslur hefðu stafað af lánveitingum og þar að auki væri nokkur fjöldi færslna sem allar líkur virtust á að skipa ætti þannig í flokk. Auk þessa og annarra álitaefna var þó talið skipta mestu máli að JÁ, SH og A hefði ekki gefist fyrir dómi kostur á að koma fram skýringum og afstöðu sinni til þess hvort einstakar færslur varði lán í skilningi 43. gr. laga nr. 144/1994 og eftir atvikum hvort einhverjar gætu hafa verið undanþegnar tilgreiningarskyldu samkvæmt ákvæðinu. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu JÁ, SH og A af þessum sakargiftum. Í 38. lið ákæru var JÁ sakaður um að hafa brotið gegn tollalögum og almennum hegningarlögum með því að hafa við innflutning bifreiðar í nafni B hf. gefið rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning. Þótt lagt væri til grundvallar að JÁ hefði verið kunnugt um að greiðslur vegna bifreiðarinnar hefðu numið hærri fjárhæð en sem tilgreind var í þeim reikningi, sem lá til grundvallar aðflutningsskýrslu, var ekki talið sannað gegn eindreginni neitun hans að hann hefði ákveðið eða lagt á ráðin um hvaða gögn yrðu afhent því félagi sem sá um gerð skýrslunnar eða skipt sér að öðru leyti af skýrslugerð. Ekki var talið nægilega hafið yfir skynsamlegan vafa að mistök annarra starfsmanna félagsins hefðu ekki valdið því að ranglega hefði verið staðið að verki við samantekt gagna um verð bifreiðarinnar til undirbúnings greiðslu aðflutningsgjalda. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu JÁ af þessum sakargiftum því staðfest. Í 40. lið ákæru var K sökuð um brot gegn tollalögum og almennum hegningarlögum með því að hafa við innflutning bifreiðar gefið rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning. Ekki voru talin fram komin viðhlítandi gögn um gangverð bifreiðar, eins og þeirrar sem um ræddi, á þeim stað og tíma sem kaupin voru gerð. Þá var þrátt fyrir umtalsverða sönnunarfærslu talið óljóst hvað ætla mátti að það félag sem útvegaði K bifreiðina kynni að hafa greitt fyrir hana. Að þessu athuguðu var fallist á með héraðsdómi að gegn eindreginni neitun K hefði ekki verið færðar viðhlítandi sönnur fyrir þeim sökum sem hún var borin. Var niðurstaða dómsins um sýknu hennar því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 22. mars 2006 og krefst „sakfellingar samkvæmt ákæru útgefinni 1. júlí 2005 hvað varðar ákæruliði 33 til 36, 38 og 40 og að ákærðu verði dæmd til refsingar.“

Ákærðu krefjast staðfestingar héraðsdóms.

I.

Mál þetta höfðaði ríkislögreglustjóri gegn ákærðu ásamt Jóhannesi Jónssyni og Tryggva Jónssyni með ákæru 1. júlí 2005, þar sem lýst var í 40 liðum sökum á hendur þeim, ýmist einu þeirra eða fleirum í hverjum lið fyrir sig. Samkvæmt því, sem greindi í ákærunni, gegndi ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson starfi forstjóra Baugs hf. frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og stjórnarformanns frá síðastnefndum degi, en Tryggvi Jónsson starfi aðstoðarforstjóra sama félags frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og forstjóra frá þeim tíma. Hafi Jóhannes Jónsson verið starfsmaður félagsins og átt sæti í stjórn þess frá 7. júlí 1998, en ákærða Kristín Jóhannesdóttir verið varamaður í stjórninni frá 26. apríl 2000, auk þess að vera framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. frá 27. ágúst 1999. Þá hafi ákærði Stefán Hilmar Hilmarsson einn verið löggiltur endurskoðandi Baugs hf. frá 7. júlí 1998 fram að árinu 2000, en upp frá því með ákærðu Önnu Þórðardóttur. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2005 var málinu vísað frá dómi. Sú niðurstaða var staðfest með dómi Hæstaréttar 10. október sama ár í máli nr. 420/2005 að því er varðaði fyrstu 32 liði ákærunnar, en að öðru leyti var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka 33. til og með 40. lið hennar til efnismeðferðar. Með hinum áfrýjaða dómi var leyst að efni til úr því, sem samkvæmt þessu stóð eftir af upphaflega málinu.

Í 33. og 34. lið ákærunnar var sökum beint að ákærðu Jóni Ásgeiri og Stefáni Hilmari ásamt Tryggva Jónssyni, en í 35. og 36. lið að þeim sömu og ákærðu Önnu. Nánar tiltekið var ákærði Jón Ásgeir í 33. lið ákæru sakaður um að hafa sem forstjóri Baugs hf. við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings félagsins vegna ársins 1998 með tilstuðlan Tryggva, aðstoðarforstjóra félagsins og yfirmanns fjármála, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi, þar sem ekki var sérstaklega getið fjárhæðar lána til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, sundurliðaðri með upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, heldur hafi hún verið felld undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem hennar hafi ekki verið getið í skýrslu stjórnar eða skýringum við ársreikninginn, eins og hafi borið að gera. Ákærði Stefán Hilmar var borinn sökum um að hafa sem endurskoðandi félagsins áritað án fyrirvara ársreikninginn með röngum og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa. Við þennan lið ákærunnar var tiltekið að lán af þeim toga, sem hér um ræðir, hafi í lok ársins 1998 numið annars vegar 221.298 krónum til ákærða Jóns Ásgeirs og hins vegar 401.430 krónum til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Ákærði Jón Ásgeir var sakaður um að hafa brotið með þessu gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og 2. tölulið 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr., 43. gr. og 36. gr. þágildandi laga nr. 144/1994 um ársreikninga, Tryggvi gegn sömu lagaákvæðum, til vara sem hlutdeildarmaður, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 144/1994, og ákærði Stefán Hilmar gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og 2. og 3. tölulið 85. gr., sbr. 82. gr., 43. gr. og 36. gr. laga nr. 144/1994. Í 34. lið ákæru var efnislega samhljóða sakargiftum beint að sömu mönnum vegna ársreiknings Baugs hf. fyrir árið 1999, en lán við lok þess reikningsárs hafi annars vegar verið til ákærða Jóns Ásgeirs, 7.048.346 krónur, og hins vegar Fjárfestingafélagsins Gaums hf., 143.068.986 krónur. Í 35. lið ákærunnar voru sams konar sakir bornar á ákærða Jón Ásgeir og Tryggva, svo og ákærðu Stefán Hilmar og Önnu sem löggilta endurskoðendur Baugs hf., vegna ársreiknings félagsins fyrir árið 2000, en í lok þess hafi staðið úti lán til ákærða Jóns Ásgeirs, 19.537.582 krónur, Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., 121.443.932 krónur, og Fjárfars ehf., 113.602.581 króna. Loks voru ákærðu Jón Ásgeir, Stefán Hilmar og Anna ásamt Tryggva sökuð í 36. lið ákærunnar um sams konar brot varðandi ársreikning Baugs hf. fyrir reikningsárið 2001, sem hafi lokið 28. febrúar 2002, en þann dag hafi lán til ákærða Jóns Ásgeirs numið 67.218.559 krónum, ákærðu Kristínar 3.388.833 krónum, Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. 244.347.997 krónum og Fjárfars ehf. 168.883.376 krónum. Fyrir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms tóku gildi lög nr. 3/2006 um ársreikninga, sem leystu af hólmi áðurnefnd lög nr. 144/1994. Ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 83. gr., 82. gr., 43. gr. og 36. gr. eldri laganna, sem vísað var til í ákæru, eiga sér samsvörun í 2. tölulið 1. mgr. 121. gr., 120. gr., 53. gr. og 43. gr. yngri laganna, en 2. mgr. 83. gr. eldri laganna, sem vísað var sérstaklega til varðandi ætluð brot Tryggva, og 2. og 3. töluliður 85. gr. þeirra, sem ætluð brot ákærðu Stefáns Hilmars og Önnu töldust meðal annars varða við, voru sama efnis og núgildandi ákvæði 2. mgr. 121. gr. og 2. og 3. töluliðar 123. gr. laga nr. 3/2006.

Í 37. og 38. lið ákærunnar var sökum beint að ákærða Jóni Ásgeiri einum, í 39. lið Jóhannesi Jónssyni og í 40. lið ákærðu Kristínu um „tollsvik og rangfærslu skjala“ í tengslum við innflutning á fjórum tilgreindum bifreiðum. Af ástæðum, sem nánar verður vikið að síðar, þarf ekki að rekja hér efni 37. og 39. liðar ákærunnar. Í 38. liðnum var ákærði Jón Ásgeir sakaður um að hafa við innflutning bifreiðarinnar OD 090 í nafni Baugs hf. gefið tollstjóranum í Reykjavík rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslu 3. desember 1999 og lagt fram tilhæfulausan reikning frá 23. september sama ár, útgefinn af Nordica Inc. í Miami í Bandaríkjunum, þar sem kaupverð bifreiðarinnar hafi verið tilgreint 27.600 bandaríkjadalir í stað 34.400 dala samkvæmt vörureikningi 29. október 1999 frá Automotores Zona Franca í sömu borg, en fyrrnefndi reikningurinn hafi verið gerður að ósk ákærða af viðskiptafélaga hans, Jóni Gerald Sullenberger. Með þessu hafi ákærði komið sér undan greiðslu nánar tiltekinna aðflutningsgjalda að fjárhæð samtals 589.129 krónur. Í 40. lið ákærunnar var ákærðu Kristínu gefið að sök að hafa við innflutning á bifreiðinni KY 835 gefið rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslu 30. maí 2000 til tollstjórans í Reykjavík og lagt fram tilhæfulausan reikning 11. apríl sama ár frá áðurnefndu félagi, Nordica Inc., þar sem kaupverð bifreiðarinnar hafi verið tilgreint 46.780 bandaríkjadalir í stað 58.200 dala samkvæmt vörureikningi 17. maí 2000 frá Automotores Zona Franca, en fyrrgreinda reikninginn hafi Jón Gerald Sullenberger gefið út að ósk ákærðu. Hafi hún með þessu komið sér undan greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð alls 697.237 krónur. Í ákærunni voru þessi ætluðu brot ákærðu talin varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 126. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir uppkvaðningu héraðsdóms höfðu fyrrnefndu lögin fallið niður við gildistöku tollalaga nr. 88/2005, en ákvæði eldri laganna, sem vísað var til í ákæru, eiga sér nú samsvörun í 1. og 4. mgr. 172. gr. yngri laganna að því er ákæruefnin varðar. Við aðalmeðferð málsins í héraði var af hálfu ákæruvaldsins lögð fram bókun um lækkun á þeim fjárhæðum, sem greindi meðal annars í 38. og 40. lið ákærunnar og áður er getið. Að því er fyrrnefnda liðinn varðar var samkvæmt bókuninni lagt til grundvallar að rétt verð bifreiðarinnar, sem þar um ræddi, hafi verið 33.000 bandaríkjadalir og aðflutningsgjöld því orðið 480.605 krónum lægri en efni hafi verið til. Í síðarnefnda liðnum hafi rétt verð bifreiðarinnar átt að vera 42.000 bandaríkjadalir og gjöldin því orðið 439.185 krónum of lág. Af hálfu ákæruvaldsins er því borið við að ritvillur hafi verið gerðar í bókuninni varðandi síðargreindu bifreiðina og hafi þær verið leiðréttar við munnlegan flutning málsins í héraði, en þess þó ekki getið í hinum áfrýjaða dómi. Þessar villur hafi verið augljósar, meðal annars með því að bókuninni hafi fylgt nýir útreikningar á aðflutningsgjöldum, sem beri með sér að ætlunin hafi verið að tilgreina sem verð bifreiðarinnar 56.800 bandaríkjadali og mismun aðflutningsgjalda 611.761 krónu.

Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu ásamt Jóhannesi Jónssyni og Tryggva Jónssyni sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. Af hálfu þess er unað við niðurstöðu héraðsdóms um sýknu þeirra Jóhannesar og Tryggva, svo og um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af sökum samkvæmt 37. lið ákærunnar. Fyrir Hæstarétti snýr málið því að 33., 34., 35., 36., 38. og 40. lið hennar og beinast sakir samkvæmt fjórum fyrstnefndu liðunum nú að ákærðu Jóni Ásgeiri og Stefáni Hilmari, svo og að ákærðu Önnu í 35. og 36. lið. Auk þessa hefur af hálfu ákæruvaldsins verið lýst yfir fyrir Hæstarétti að fallið sé frá þeim sakargiftum á hendur ákærða Jóni Ásgeiri samkvæmt 33. til 36. lið ákærunnar að hann hafi sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðnum skammtímakröfur í efnahagsreikningum og ekki getið þeirra lána, sem um ræðir í þessum liðum, í skýrslu stjórnar í ársreikningum Baugs hf. fyrir árin 1998 til 2001. Samkvæmt greinargerð ríkissaksóknara fyrir Hæstarétti er því ákærða Jóni Ásgeiri í þessum liðum ákærunnar „nú einungis gefið að sök að hafa látið rangar og villandi skýringar fylgja ársreikningi Baugs hf. fyrir árin 1998-2001 með því að láta hjá líða að tilgreina þar fjárhæðir lána sem veitt voru til hluthafa, stjórnarmanna, forstjóra og aðila þeim nátengdum, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála“, en fjárhæðir og skuldarar séu þeir sömu og fram komu í ákærunni og áður var getið. Þessu til samræmis er ákærða Stefáni Hilmari nú gefið að sök einum samkvæmt 33. og 34. lið ákærunnar og með ákærðu Önnu samkvæmt 35. og 36. lið að hafa án fyrirvara áritað ársreikninga Baugs hf., sem um ræðir í hverjum lið, þótt þeim hafi fylgt rangar og villandi skýringar að framangreindu leyti. Sakir á hendur ákærða Jóni Ásgeiri samkvæmt 38. lið og ákærðu Kristínu samkvæmt 40. lið ákærunnar eru fyrir Hæstarétti þær sömu og endanlega voru bornar fram af hálfu ákæruvaldsins í héraði, að teknu tilliti til áðurgreindrar leiðréttingar á ritvillum í bókun varðandi síðastnefnda liðinn.

Samkvæmt framansögðu hefur af hálfu ákæruvaldsins verið dregið úr sakargiftum á hendur ákærðu frá því, sem upphaflega greindi í 33. til 36., 38. og 40. lið ákæru, auk þess sem fallið hefur verið fyrir Hæstarétti frá sökum á hendur Tryggva Jónssyni samkvæmt fjórum fyrstnefndu liðunum. Þótt þessar breytingar hafi verið gerðar eru engin tvímæli um hvaða sakir eru nú bornar á hvern ákærðu og rúmast þær allar innan ákærunnar með þeim breytingum, sem gerðar voru á henni undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi. Fyrrgreinda dómkröfu ríkissaksóknara fyrir Hæstarétti um sakfellingu „samkvæmt ákæru útgefinni 1. júlí 2005 hvað varðar ákæruliði 33 til 36, 38 og 40“ verður að skýra til samræmis við það, sem hér hefur verið greint.

II.

Með áðurgreindum breytingum á málatilbúnaði ákæruvaldsins er ákærði Jón Ásgeir nú borinn sökum samkvæmt 33. til 36. lið ákæru um að hafa brotið gegn 43., sbr. 36. gr. þágildandi laga nr. 144/1994, þannig að refsingu varði samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 121. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006, með því að hafa í starfi forstjóra Baugs hf. látið rangar og villandi skýringar fylgja ársreikningum félagsins 1998 til 2001, sem falist hafi í því að láta hjá líða að tilgreina nánar tiltekna fjárhæð lána, sem hafi öll þessi ár verið veitt honum sjálfum og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., svo og Fjárfari ehf. tvö síðustu reikningsárin og ákærðu Kristínu á því síðasta. Í málinu hafa ekki verið bornar brigður á að ákærði Jón Ásgeir hafi þrátt fyrir starfsheiti sitt hjá Baugi hf. borið ásamt stjórn félagsins þá skyldu, sem 1. mgr. 3. gr. laga nr. 144/1994 lagði á stjórn og framkvæmdastjóra félags til að semja á hverju reikningsári ársreikning, sem hefði meðal annars að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Í 36. gr. síðastnefndra laga var mælt fyrir um að í slíkum skýringum í ársreikningi skyldi að minnsta kosti veita upplýsingar um þau atriði, sem getið var í 37. gr. til 51. gr. laganna. Samkvæmt þessu bar meðal annars vegna 1. mgr. 43. gr. laganna að tilgreina í skýringunum fjárhæð lána, svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar, sem veitt höfðu verið félagsaðilum eða stjórnendum félags eða móðurfélags þess vegna tengsla þeirra við félögin, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, en með félagsaðilum var átt við hluthafa að því er hlutafélög varðaði, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 2. mgr. 43. gr. þeirra var jafnframt tiltekið að þessi fyrirmæli ættu einnig við gagnvart einstaklingum, sem væru nátengdir þeim sem áður var getið.

Í framangreindu ákvæði 43. gr. laga nr. 144/1994, sem ákærði Jón Ásgeir er sakaður um að hafa brotið gegn, var boðið að tilgreina skyldi í skýringum við ársreikning fjárhæð nánar tiltekinna lána. Við skýringu á merkingu síðastgreinds orðs er óhjákvæmilegt að taka mið af því að í málinu reynir á hana eingöngu við úrlausn um hvort ákærði hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þessu orði verður því ekki gefið hér víðtækara inntak en leiðir af hljóðan þess og getur þar engu breytt hvort ákvæðinu kunni að hafa verið ætlað annað markmið en þjónað yrði með slíkri skýringu, svo sem meðal annars mætti álykta af lögskýringargögnum við það, þar sem sagði að það væri í samræmi við fyrirmæli 13. töluliðar 1. mgr. 43. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalaganna nr. 78/660/EB. Að þessu virtu og með því að orðalagi 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994 var hagað á þennan veg, en hvorki rætt þar um kröfur á hendur félagsaðilum eða stjórnendum félags né inneign hjá þeim, svo sem löggjafanum hefði verið í lófa lagið ef ætlunin hefði verið að gefa ákvæðinu slíkt inntak, verður að beita þeirri orðskýringu að félag teljist hafa veitt lán í þessum skilningi þegar það hefur greitt félagsaðila, stjórnanda eða einstaklingi nátengdum þeim peningaupphæð eða ígildi hennar eða látið af hendi til þeirra önnur fjárhagsleg verðmæti með áskilnaði um endurgreiðslu peningaupphæðarinnar eða ígildis hennar eða skil á verðmætunum. Að jöfnu við þetta má og leggja ef félag hefur með sama áskilnaði innt af hendi peningagreiðslu eða ígildi hennar til þriðja manns eða afhent honum önnur fjárhagsleg verðmæti til að efna skyldu, sem hvílt hefur gagnvart honum á félagsaðila, stjórnanda félags eða einstaklingi þeim nákomnum, en með því má líta svo á að lán hafi verið veitt þeim, sem greiðsla eða afhending var til hagsbóta fyrir. Engin efni eru til að þrengja þetta hugtak í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994 með því að binda það við þau tilvik ein, þar sem lán í þessum skilningi hefur verið veitt með formlegri ráðstöfun eða skilmálar þess hafa verið sérstaklega ákveðnir, enda standa ekki haldbær rök til slíkrar skýringar, sem á sér enga stoð í orðalagi ákvæðisins.

Auk þess, sem að framan greinir, verður við skýringu á 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994 að líta til þess að skyldan til að veita upplýsingar í skýringum við ársreikning, sem þar var mælt fyrir um, tók ekki til allra lána, sem veitt voru félagsaðilum, stjórnendum félags eða einstaklingum þeim nátengdum, heldur eingöngu þeirra lána, sem slíkum aðilum voru veitt vegna tengsla þeirra við félagið. Í 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 696/1996 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, sem sett var með heimild í 89. gr. laga nr. 144/1994, var mælt nánar fyrir um síðastgreint atriði þannig að átt væri við tengsl, sem beinlínis stöfuðu af störfum þessara aðila fyrir félag eða eignarhaldi að því, en ekki regluleg viðskipti þeirra, sem byggðust á sama grunni og viðskipti annarra ótengdra viðskiptavina. Þá verður jafnframt að gæta að því að samkvæmt 3. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar átti sú sundurliðun á fjárhæð lána, sem kveðið var á um í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994, ekki að miðast við einstaka menn, heldur tegund fyrirgreiðslu eða samanlagða fyrirgreiðslu til félagsaðila, stjórnenda félags og stjórnenda móðurfélags þess, svo sem þar var að orði komist.

Eins og áður kom fram eru sakargiftir á hendur ákærða Jóni Ásgeiri afmarkaðar þannig í 33. lið ákæru að ekki hafi verið getið í skýringum við ársreikning Baugs hf. fyrir árið 1998 um lán með nánar tilgreindum fjárhæðum, sem félagið hafi veitt honum og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. Sakir í 34., 35. og 36. lið ákærunnar snúa á hliðstæðan hátt að ársreikningum Baugs hf. fyrir reikningsárin 1999, 2000 og 2001 og lánum til hinna sömu, en að auki varðandi ársreikning 2000 að lánum til Fjárfars ehf. og ársreikning 2001 að lánum til þess félags og ákærðu Kristínar, allt með nánar tilteknum fjárhæðum hvert ár varðandi hvern skuldara fyrir sig. Fjárhæðirnar í þessum liðum ákærunnar eru ekki raktar þar til tiltekinna ráðstafana, heldur er í öllum tilvikum um að ræða mismun Baugi hf. til eignar, sem stóð í lok hvers reikningsárs í bókhaldi félagsins á viðskiptareikningum ákærða Jóns Ásgeirs og Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., svo og eftir atvikum viðskiptareikningum Fjárfars ehf. og ákærðu Kristínar. Samkvæmt málatilbúnaði ákæruvaldsins hefur þessi afmörkun á sakarefnum helgast af því að af hálfu þess hafi verið litið svo á að hugtakið lán í 43. gr. laga nr. 144/1994 hafi tekið til heildarfjárhæðar krafna Baugs hf. á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Kristínu og félögunum tveimur í lok hvers reikningsárs, án þess að frekar yrði að huga að því hvernig kröfurnar hefðu myndast. Samkvæmt því, sem áður segir, verður slíkri skýringu á hugtakinu lán ekki beitt við úrlausn málsins.

Í greinargerð ríkissaksóknara fyrir Hæstarétti er vikið að því að þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að „eitthvað af þeim lánum sem mynduðu þá skuldastöðu við Baug hf. sem hér um ræðir hafi ekki þurft að tilgreina í skýringum ársreiknings“, þá sé á því byggt að sakfella eigi ákærða Jón Ásgeir fyrir að tilgreina ekki lánveitingar, sem „Hæstiréttur telur sannað“ að átt hafi undir 43. gr. laga nr. 144/1994. Vegna þessa er til þess að líta að af svokölluðum hreyfingarlistum úr bókhaldi Baugs hf., sem liggja fyrir í málinu, er ljóst að fjárhæðirnar, sem tilgreindar eru í ákæru varðandi hvern skuldara fyrir sig, hafa myndast sem mismunur á færslum til eignar annars vegar og skuldar hins vegar á hverjum viðskiptareikningi. Fjöldi bókhaldsfærslna hvert ár og á hverjum þessara fjögurra viðskiptareikninga er mjög breytilegur eða allt frá 2 til 114 á einu ári og eru tilefni þeirra margvísleg. Færslurnar, sem mynda mismuninn samkvæmt 33. til 36. lið ákærunnar á þessum viðskiptareikningum á fjórum reikningsárum, eru samtals 430, þar af 275 færslur Baugi hf. til eignar á alls 1.428.472.287 krónum og 155 færslur félaginu til skuldar á 944.633.522 krónum. Á viðskiptareikningunum eru Baugi hf. færðar tilteknar fjárhæðir til eignar í fjölmörgum tilvikum, sem eftir fyrirliggjandi gögnum geta bersýnilega ekki talist hafa komið til með veitingu láns í áðurgreindum skilningi 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994, meðal annars á grundvelli reikninga og kaupsamninga, þar sem hönd hefur ekki selt hendi, vegna vöruúttekta og með greiðslu krafna á hendur Baugi hf., sem félagið virðist hafa talið sig eiga framkröfur fyrir. Eftir standa margar færslur, sem framlögð bókhaldsgögn gefa ekki án nánari skýringa fullnægjandi vísbendingar um hvort stafað hafi af lánveitingum í þessum skilningi, en að auki nokkur fjöldi, sem allar líkur virðast á að skipa ætti þannig í flokk, svo sem í tilvikum, þar sem færslur hafa verið reistar á skriflegum viðurkenningum fyrir lántöku eða átt rætur að rekja til greiðslna Baugs hf. til þriðja manns á kröfum, sem hvíldu ekki á félaginu heldur einhverjum þessara viðskiptamanna. Inn á viðskiptareikningana koma sem fyrr segir færslur Baugi hf. til skuldar og þar með til lækkunar á kröfum félagsins á hendur þessum viðskiptamönnum. Sumum þessum færslum má hæglega jafna við samsvarandi færslur, sem áður hafa verið gerðar félaginu til eignar, svo sem þegar tilteknir reikningar hafa verið greiddir með fullri fjárhæð, en við aðrar getur þetta á hinn bóginn ekki átt. Um þau tilvik liggur ekki ljóst fyrir af hendi ákæruvaldsins hvort færslur ættu að koma til lækkunar á kröfum Baugs hf. á grundvelli hugsanlegra lánveitinga eða öðrum kröfum samkvæmt viðskiptareikningunum. Álitaefni af þessum meiði eru mismörg eftir tímabilum og milli einstakra viðskiptareikninga, en fram hjá því verður ekki litið að vegna áðurgreinds ákvæðis 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 696/1996 verða einstakir skuldarar ekki aðgreindir í þessum efnum, heldur ber að skoða þá þannig að þeir myndi eina heild innan hvers árs. Auk alls þessa skiptir þó mestu að við munnlega sönnunarfærslu fyrir héraðsdómi voru ákærðu Jón Ásgeir, Stefán Hilmar og Anna, sem 33. til 36. liður ákærunnar snúa að, í raun ekkert spurð um einstakar færslur á viðskiptareikningunum og ástæður þess að þær hafi ekki hver fyrir sig eða í afmörkuðum flokkum tilvika kallað á skýringar í ársreikningum vegna ákvæða 43. gr. laga nr. 144/1994. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var málið ekki flutt í héraði um einstakar færslur í þessu sambandi, en þótt af hálfu ákæruvaldsins hafi að nokkru verið leitast við að gera það við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti hafði ekki fyrr við meðferð málsins fyrir dómi gefist tilefni fyrir ákærðu til verjast sökum á þeim grunni, þrátt fyrir að um þetta hafi verið fjallað að nokkru marki við rannsókn lögreglunnar. Vegna þess háttar, sem hafður hefur verið á saksókn að þessu leyti, hefur ákærðu ekki réttilega gefist kostur á að koma fram skýringum og afstöðu sinni til þess hvort einstakar færslur á viðskiptareikningunum, sem hér um ræðir, varði lán í skilningi 43. gr. laga nr. 144/1994 og eftir atvikum hvort einhverjar þeirra geti hafa verið undanþegnar tilgreiningarskyldu samkvæmt ákvæðinu vegna áðurnefndra fyrirmæla 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 696/1996. Að þessu virtu er óhjákvæmilegt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af þeim sökum, sem hann er borinn í 33. til 36. lið ákæru. Af því leiðir sjálfkrafa að staðfest verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærðu Stefáns Hilmars og Önnu af kröfum ákæruvaldsins.

III.

Með 38. lið ákæru er ákærði Jón Ásgeir sem fyrr greinir sakaður um að hafa brotið gegn 1. mgr. og 4. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2005, sbr. áður 1. mgr. og 2. mgr. 126. gr. laga nr. 55/1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa við innflutning bifreiðarinnar OD 090 í nafni Baugs hf. gefið tollstjóranum í Reykjavík rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu 3. desember 1999 og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning að fjárhæð 27.600 bandaríkjadalir, sem gerður hafi verið að beiðni hans af Jóni Gerald Sullenberger 23. september sama ár í nafni Nordica Inc. Eins og sakargiftum var breytt undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi er við það miðað af hálfu ákæruvaldsins að kaupverð bifreiðarinnar hafi í raun numið 33.000 bandaríkjadölum, en í þeim efnum er stuðst við reikning, sem hermt er að félagið Automotores Zona Franca hafi gert Nordica Inc. vegna bifreiðarinnar. Til samræmis við þetta er ákærði Jón Ásgeir borinn sökum um að hafa komið sér undan greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð samtals 480.605 krónur.

Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi liggur fyrir í málinu reikningur 25. september 1999 frá Nordica Inc. á hendur Baugi hf. fyrir verði nánar tiltekinnar bifreiðar, 27.600 bandaríkjadölum, en við skráningu hér á landi fékk hún númerið OD 090. Fjárhæð reikningsins hafði Baugur hf. greitt Nordica Inc. með sem svaraði 2.001.874 krónum degi fyrir dagsetningu hans í samræmi við óskir, sem fyrrnefndur Jón Gerald setti fram í símbréfi til nafngreinds starfsmanns Baugs hf. 23. sama mánaðar. Þá liggur fyrir reikningur 30. september 1999 frá Nordica Inc. til Baugs hf. að fjárhæð 7.600 bandaríkjadalir, en samkvæmt texta hans var hann um þóknun fyrir nánar tilteknar markaðsrannsóknir í Flórida í Bandaríkjunum á tímabilinu frá 1. ágúst til 30. september 1999. Fjárhæð þessa reiknings greiddi Baugur hf. einnig degi fyrir útgáfudag hans og innti af hendi í því skyni 550.250 krónur. Samkvæmt framburði Jóns Geralds var samanlögð fjárhæð þessara tveggja reikninga í raun verð bifreiðarinnar, sem hann hafi tekið að sér að útvega í Bandaríkjunum að beiðni ákærða Jóns Ásgeirs og senda hingað til lands, en ákærði hafi óskað eftir því að verðinu yrði skipt á þennan hátt á tvo reikninga. Ákærði bar fyrir dómi að Baugur hf. hafi keypt bifreiðina af Nordica Inc. og selt hana síðan Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., en hún hafi verið fengin til afnota fyrir fyrrverandi eiginkonu ákærða. Neitaði ákærði að hafa átt orðaskipti við Jón Gerald um gerð reikninga fyrir bifreiðinni, sem hann minnti að Aðföng hf., dótturfélag Baugs hf., hafi séð um að flytja til landsins. Sérstaklega aðspurður um reikning Nordica Inc. að fjárhæð 7.600 bandaríkjadalir sagði ákærði að hann hafi verið fyrir þóknun til Jóns Geralds „vegna ýmiss tilstands, annars vegar að útvega bílinn og eitthvað fleira sem var þar á ferðinni.“

Gegn neitun ákærða er ósannað að hann hafi óskað eftir því að gerðir yrðu á framangreindan hátt tveir reikningar fyrir verði bifreiðarinnar, sem hér um ræðir. Til þess verður á hinn bóginn að líta að af gögnum málsins verður séð að fjárhæðin, sem varið var til greiðslu síðastnefnds reiknings Nordica Inc., 550.250 krónur, var færð 29. september 1999 til gjalda í bókhaldi Baugs hf. á tiltekinn reikningslið með þeirri skýringu að hún væri vegna aðkeyptra markaðsupplýsinga. Með bókhaldsfærslu sama dag var þessi fjárhæð tekin af þeim reikningslið og færð þess í stað til eignar á öðrum, sem bar heitið „bifreiðar án vsk“, en þar hafði áður verið færð fjárhæðin, sem greidd var vegna fyrrnefnds reiknings Nordica Inc. frá 25. september 1999, 2.001.874 krónur. Þáverandi starfsmaður Baugs hf., sem gerði þessar breytingarfærslur, kvaðst í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi ekki minnast tilefnis þeirra eða við hvaða upplýsingar hafi verið stuðst. Eftir komu bifreiðarinnar til landsins greiddi Baugur hf. 17. desember 1999 vegna aðflutningsgjalda og annars kostnaðar samtals 2.464.352 krónur, sem einnig voru færðar á sama reikningslið. Baugur hf. seldi síðan Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. bifreiðina og var gerður reikningur 20. janúar 2000 fyrir verði hennar, 5.016.476 krónum, en þá samtölu mynda jafnframt þær þrjár fjárhæðir, sem næstar voru nefndar hér á undan. Að virtum þessum gerðum innflytjanda bifreiðarinnar, Baugs hf., fær ekki annað staðist en að gengið hafi verið út frá því að verið væri að greiða Nordica Inc. fyrir hana með samanlagðri fjárhæð umræddra tveggja reikninga, 35.200 bandaríkjadölum. Á framlögðu eintaki af reikningi Nordica Inc. 30. september 1999 fyrir 7.600 bandaríkjadölum, sem mun vera komið úr bókhaldsgögnum Baugs hf., sést að hann hefur verið áritaður um samþykki og staðfesti ákærði Jón Ásgeir í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að það hafi hann gert. Samkvæmt því og í ljósi fyrrgreinds framburðar hans um hvað búið hafi að baki þessum reikningi getur ekki farið á milli mála að honum hafi verið kunnugt í það minnsta að greiðslur vegna bifreiðarinnar hafi numið hærri fjárhæð en þeim 27.600 bandaríkjadölum, sem tilgreindir voru í reikningi Nordica Inc. frá 25. september 1999.

Af gögnum málsins virðist mega ráða að bifreiðin OD 090 hafi komið til landsins með skipi í nóvember 1999, en aðflutningsskýrsla vegna hennar var afhent tollstjóranum í Reykjavík 7. desember sama ár. Í skýrslunni var tilgreint að heildarverð reiknings fyrir bifreiðinni hafi verið 27.600 bandaríkjadalir. Samkvæmt skýrslunni var innflytjandi bifreiðarinnar Baugur hf. og umboðsmaður hans Aðföng hf. Skýrslan var undirrituð af þáverandi starfsmanni síðarnefnda félagsins. Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi kannaðist starfsmaðurinn við aðflutningsskýrsluna, sem hann kvað yfirmenn í Aðföngum hf. hafa falið sér að gera, en ekki var hann inntur frekar eftir hverjir þeir hefðu verið. Aðspurður um gögn, sem fylgdu skýrslunni, skýrði hann almennt svo frá að flutningstilkynningar hafi borist í símbréfum eða tölvupósti, en þegar þær væru komnar hefði hann leitað að reikningum, sem yfirleitt hafi verið í pósti til Aðfanga hf. Fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði Jón Ásgeir ekkert hafa skipt sér af innflutningi þessarar bifreiðar og ekki vita hver hafi afhent gögn vegna hennar til Aðfanga hf. Þótt lagt sé til grundvallar samkvæmt áðursögðu að ákærða hafi verið kunnugt um að greitt hafi verið meira vegna bifreiðarinnar en nam fjárhæð reiknings Nordica Inc. fyrir 27.600 bandaríkjadölum hefur gegn eindreginni neitun hans ekkert komið fram til staðfestingar því að hann hafi ákveðið eða lagt á ráðin um hvaða gögn yrðu afhent Aðföngum hf. til að gera aðflutningsskýrslu eða skipt sér að öðru leyti af atriðum, sem vörðuðu þá skýrslugerð. Í þessu sambandi verður ekki horft fram hjá því að báðir reikningarnir frá Nordica Inc. höfðu verið greiddir undir lok september 1999, rúmum tveimur mánuðum áður en aðflutningsskýrslan var gerð. Með því að annað hefur ekki verið upplýst verður að ætla að leita hafi þurft upplýsinga og skjala til að styðja skýrsluna við í bókhaldsgögnum Baugs hf. Þegar hér var komið sögu höfðu þessar greiðslur báðar verið færðar á áðurnefndan reikningslið í bókhaldi Baugs hf., sem virðist hafa verið ætlaður fyrir kostnaðarverð bifreiða, og mátti þetta blasa við þeim, sem kannaði færslur á þeim lið. Ekki hefur verið upplýst fyrir dómi um nánari atvik við sendingu gagna til Aðfanga hf. í sambandi við gerð aðflutningsskýrslunnar og hefur því ekki verið borið við af hálfu ákæruvaldsins að atriði af þeim meiði hafi verið innan verksviðs ákærða Jóns Ásgeirs sem forstjóra Baugs hf. Eins og málið liggur fyrir er ekki unnt að líta svo á að nægilega sé hafið yfir skynsamlegan vafa að mistök annarra starfsmanna félagsins hafi ekki valdið því að ranglega hafi verið staðið að verki þegar gögn voru tekin saman um verð bifreiðarinnar til undirbúnings greiðslu aðflutningsgjalda. Af þessum sökum er ekki sannað að ákærði Jón Ásgeir hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi komið því til leiðar að Aðföng hf. veitti í umboði Baugs hf. rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslunni, sem 38. liður ákærunnar varðar. Verður því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða af þessum sakargiftum.

IV.

Í 40. lið ákæru er ákærða Kristín borin sökum um að hafa brotið gegn 1. mgr. og 4. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2005, sbr. áður 1. mgr. og 2. mgr. 126. gr. laga nr. 55/1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa við innflutning bifreiðarinnar KY 835 gefið tollstjóranum í Reykjavík rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu 30. maí 2000 og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning að fjárhæð 46.780 bandaríkjadalir, sem gerður hafi verið að beiðni ákærðu af Jóni Gerald Sullenberger 11. apríl sama ár í nafni Nordica Inc. Með áðurgreindum breytingum og leiðréttingum, sem gerðar hafa verið á þessum lið ákærunnar, er af hálfu ákæruvaldsins miðað við að kaupverð bifreiðarinnar hafi í raun numið 56.800 bandaríkjadölum, sem fram komi í reikningi Automotores Zona Franca á hendur Nordica Inc. Í samræmi við þetta er ákærða Kristín sökuð um að hafa komið sér undan greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð samtals  611.761 krónu.

Í málinu liggur fyrir reikningur fyrir tiltekinni bifreið á hendur ákærðu Kristínu frá Nordica Inc. 11. apríl 2000 að fjárhæð 46.780 bandaríkjadalir. Daginn eftir leitaði áðurnefndur Jón Gerald eftir því með símbréfi til ákærðu að hún léti senda þessa fjárhæð inn á tilgreindan bankareikning Nordica Inc. og var það gert degi síðar, en að auki mun um leið hafa verið greiddur reikningur frá sama félagi vegna kaupa föður ákærðu, Jóhannesar Jónssonar, á annarri bifreið, sem um ræddi í 39. lið ákæru. Þá liggur einnig fyrir reikningur frá Nordica Inc. 17. apríl 2000 á hendur Pönnupizzum ehf., en samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, mun framkvæmdastjóri þess félags hafa verið þáverandi eiginmaður ákærðu og félagið jafnframt í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., þar sem ákærða var framkvæmdastjóri. Reikningurinn var að fjárhæð 23.970 bandaríkjadalir, en samkvæmt texta hans var þetta umsamin þóknun fyrir ráðgjöf og þjónustu vegna veitingahúsa og umboðslaun. Reikningurinn var greiddur 19. apríl 2000. Samkvæmt framburði Jóns Geralds svaraði samanlögð fjárhæð þessara þriggja reikninga til raunverulegs verðs bifreiðanna tveggja, sem hann hafi tekið að sér að útvega í Bandaríkjunum handa ákærðu og Jóhannesi Jónssyni. Hafi hann skipt verðinu á þrjá reikninga að ósk ákærðu, svo sem séð verði af útprentun af tölvupóstsendingu 10. apríl 2000, sem lögð hefur verið fram í málinu og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærða hefur ekki kannast við þessa tölvupóstsendingu, sem ummerki voru ekki fundin um í tölvu hennar eða Jóns Geralds við rannsókn málsins. Þá hefur hún heldur ekki kannast við að verð bifreiðarinnar hafi verið annað en þeir 46.780 bandaríkjadalir, sem tilgreindir voru í reikningi Nordica Inc. til hennar, en um reikning sama félags á hendur Pönnupizzum ehf. og viðskiptum að baki honum hafi hún ekki haft vitneskju.

Í hinum áfrýjaða dómi er lýst framlögðum gögnum í þessum þætti málsins, sem varða meðal annars kaup Nordica Inc. á bifreiðunum tveimur af Automotores Zona Franca, verð þeirra í þeim viðskiptum og upplýsingar um þær frá fyrri tímum, en eins og þar kemur fram eru ýmsir annmarkar á þessum gögnum. Jafnframt er í dóminum gerð grein fyrir vitnisburði Jóns Geralds Sullenberger og forráðamanns Automotores Zona Franca, Ivan Gabriel Motta, fyrir héraðsdómi, svo og að ósamræmi hafi verið milli þeirra í vissum atriðum og misræmi í framburði þess fyrrnefnda á mismunandi stigum málsins. Ekki hafa komið fram viðhlítandi gögn um gangverð bifreiðar eins og þeirrar, sem ákærða Kristín fékk senda til landsins, á þeim stað og tíma sem kaupin voru gerð. Þá er þrátt fyrir umfangsmikla sönnunarfærslu óljóst hvað ætla megi að Nordica Inc. kunni að hafa greitt fyrir bifreiðina þegar verið var að útvega hana fyrir ákærðu Kristínu, en hvernig sem litið er til gagna málsins fæst ekki samræmi milli þess, sem á mismunandi stigum hefur verið hermt að kaupverðið hafi numið, og heildarfjárhæðar þeirra þriggja reikninga Nordica Inc., sem áður er lýst. Að þessu athuguðu verður að fallast á með héraðsdómi að gegn eindreginni neitun ákærðu hafi ekki verið færðar nægilegar sönnur fyrir þeim sökum, sem hún er borin í 40. lið ákæru. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærðu af kröfum ákæruvaldsins verður því staðfest.

V.

Fyrir Hæstarétti hefur ríkissaksóknari ekki leitað sérstaklega endurskoðunar á ákvæðum héraðsdóms um sakarkostnað. Þau verða því staðfest.

Samkvæmt  166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins úr ríkissjóði. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu ákærðu Önnu lagður fram reikningur 31. mars 2006 að fjárhæð 464.136 krónur frá PricewaterhouseCoopers hf. á hendur lögmannsstofu skipaðs verjanda hennar og þess krafist að útgjöld þessi yrðu felld undir sakarkostnað málsins. Reikningur þessi ber á engan hátt með sér hvernig hann kunni að tengjast máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að verða við þessari kröfu. Verður því ekki kveðið á um greiðslu annars sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti en málsvarnarlauna skipaðra verjenda ákærðu. Um ákvörðun þeirra launa er þess að geta að verjendur hafa lagt fram yfirlit um fjölda vinnustunda, sem varið hafi verið til málsvarnar fyrir Hæstarétti. Sá stundarfjöldi er í engu samræmi við sakarefni eða umfang málsins. Er fjárhæð málsvarnarlauna ákveðin eins og greint er í dómsorði og er virðisaukaskattur innifalinn í henni.

Það athugast að sakflytjendur, einkum þó verjendur ákærðu, hafa lagt fram í Hæstarétti greinargerðir, sem eru úr hófi langar og hafa að geyma skriflegan málflutning.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.245.000 krónur, skipaðs verjanda ákærðu Kristínar Jóhannesdóttur, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur, og skipaðs verjanda ákærðu Stefáns Hilmars Hilmarssonar og Önnu Þórðardóttur, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2006.

Málið var höfðað með ákæru Ríkislögreglustjóra, dagsettri 1. júlí sl. á hendur ákærðu, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, kt. 270168-4509, Laufásvegi 69, Reykjavík, Jóhannesi Jónssyni, kt. 310840-3009, Hrafnabjörgum 4, Akureyri, Kristínu Jóhannesdóttur, kt. 090363-3959, Barðaströnd 9, Seltjarnarnesi, Tryggva Jónssyni, kt. 140755-2739, Vesturhúsum 22, Reykjavík, Stefáni Hilmari Hilmarssyni, kt. 300761-3649, Brautarholti 2, Reykjavík og Önnu Þórðardóttur, kt. 210960-5629, Langholtsvegi 108 a, Reykjavík.  Ákæran var upphaflega í 40 töluliðum en með dómi Hæstaréttar Íslands 10. október sl. var ákærunni, að undanskildum tveimur síðustu köflunum, vísað frá dómi.  Samkvæmt því er málshöfðunin sem hér greinir: 

“Ákærðu, Jóni Ásgeiri, sem gegndi starfi forstjóra Baugs hf. frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og starfi stjórnarformanns hlutafélagsins frá 3. júní 2002, Tryggva, sem gegndi starfi aðstoðarforstjóra Baugs hf. frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og starfi forstjóra hlutafélagsins frá 3. júní 2002, Jóhannesi, sem var stjórnarmaður Baugs hf. og starfsmaður félagsins frá 7. júlí 1998, Kristínu, sem var framkvæmdastjóri Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf., kt. 560389-1400, frá 27. ágúst 1999 og varastjórnarmaður Baugs hf. frá 26. apríl 2000, Stefáni Hilmari, sem var löggiltur endurskoðandi Baugs hf. frá 7. júlí 1998, Önnu, sem var löggiltur endurskoðandi Baugs hf. frá og með árinu 2000, eru gefin að sök brot á eftirtöldum lagaákvæðum almennra hegningarlaga, laga um bókhald, ársreikninga og hlutafélög, samkvæmt málavaxtalýsingum sem hér fara á eftir og rakið er í hverju tilviki fyrir sig.  [...]

VIII.  Brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ársreikninga.

Ákærðu Jóni Ásgeiri, Tryggva, Stefáni Hilmari og Önnu eru gefin að sök brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ársreikninga í eftirgreindum tilvikum:

33.Ákærði Jón Ásgeir, sem framkvæmdastjóri Baugs hf., með því að hafa, við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings vegna ársins 1998, með tilstuðlan og aðstoð meðákærða Tryggva sem aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanns fjármála hlutafélagsins, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, heldur felldar undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem þeirra var ekki getið í skýrslu stjórnar eða í skýringum ársreikningsins eins og bar að gera.  Ársreikninginn með þessum röngu og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa, áritaði ákærði Stefán Hilmar, endurskoðandi hlutafélagsins, án fyrirvara.

Lán til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum námu í lok reikningsárs 1998 fjárhæðum sem hér greinir:

Lánþegi

Samtals krafa í lok reikningsárs

Lánveitingar árið 1998 andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög

nr. 2, 1995.

Jón Ásgeir Jóhannesson

221.298,00 kr.

61.466,50 kr.

Gaumur ehf.

401.430,00 kr.

401.430,00 kr.

34.Ákærði Jón Ásgeir, sem framkvæmdastjóri Baugs hf., með því að hafa, við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings vegna ársins 1999, með tilstuðlan og aðstoð meðákærða Tryggva sem aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanns fjármála hlutafélagsins, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, heldur felldar undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem þeirra var ekki getið í skýrslu stjórnar eða í skýringum ársreikningsins eins og bar að gera.  Ársreikninginn með þessum röngu og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa, áritaði ákærði Stefán Hilmar, endurskoðandi hlutafélagsins, án fyrirvara.

Lán til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum námu í lok reikningsárs 1999 fjárhæðum sem hér greinir:

Lánþegi

Samtals krafa í lok reikningsárs

Lánveitingar árið 1999 andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög

nr. 2, 1995.

Jón Ásgeir Jóhannesson

7.048.346,00 kr.

215.145,51 kr.

Gaumur ehf.

143.068.986,00 kr.

205.310.411,00 kr.

35.Ákærði Jón Ásgeir, sem framkvæmdastjóri Baugs hf., með því að hafa, við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings vegna ársins 2000, með tilstuðlan og aðstoð meðákærða Tryggva sem aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanns fjármála hlutafélagsins, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, heldur felldar undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem þeirra var ekki getið í skýrslu stjórnar eða í skýringum ársreikningsins eins og bar að gera.  Ársreikninginn með þessum röngu og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa árituðu ákærðu Stefán Hilmar og Anna, endurskoðendur hlutafélagsins, án fyrirvara.

Lán til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum námu í lok reikningsárs 2000 fjárhæðum sem hér greinir:

Lánþegi

Samtals krafa í lok reikningsárs

Lánveitingar árið 2000 andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög

nr. 2, 1995.  

Jón Ásgeir Jóhannesson

19.537.582,00 kr.

1.041.542,50 kr.

Gaumur ehf.

121.443.932,00 kr.

76.224.951,00 kr.

Fjárfar ehf.

113.602.581,00 kr.

114.500.000,00 kr.

36.Ákærði Jón Ásgeir, sem framkvæmdastjóri Baugs hf., með því að hafa, við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings vegna ársins 2001, með tilstuðlan og aðstoð meðákærða Tryggva sem aðstoðarframkvæmdastjóra og yfirmanns fjármála hlutafélagsins, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, heldur felldar undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem þeirra var ekki getið í skýrslu stjórnar eða í skýringum ársreikningsins eins og bar að gera.  Ársreikninginn með þessum röngu og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa árituðu ákærðu Stefán Hilmar og Anna, endurskoðendur hlutafélagsins, án fyrirvara.

Lán til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum námu í lok 14 mánaða reikningsárs 2001, 28. febrúar 2002, fjárhæðum sem hér greinir:

Lánþegi

Samtals krafa í lok reikningsárs

Lánveitingar reikningsárið 2001 andstæðar 104. gr. laga um hlutafélög nr. 2, 1995.  

Jón Ásgeir Jóhannesson

67.218.559,00 kr.

14.464.627,00 kr.

Kristín Jóhannesdóttir

3.388.833,00 kr.

3.786.727,00 kr.

Gaumur ehf.

244.347.997,00 kr.

151.823.363,00 kr.

Fjárfar ehf.

168.883.376,00 kr.

85.758.591,00 kr.

Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt 33. til og með 36. töluliðs ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 sbr., 2. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr. sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga.

Brot ákærða Tryggva samkvæmt 33. til og með 36. töluliðs ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga. Til vara teljast brot ákærða Tryggva varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. tl. 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 83. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.

Brot ákærða Stefáns Hilmars samkvæmt 33. til og með 36. töluliðs ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. og 3. tl. 85. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994 um ársreikninga.

Brot ákærðu Önnu samkvæmt 35. og 36. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. og 3. tl. 85. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994 um ársreikninga.

IX.  Tollsvik og rangfærsla skjala.

Ákærðu Jóni Ásgeiri, Jóhannesi og Kristínu fyrir tollsvik og rangfærslu skjala í eftirgreindum tilvikum:

37.Ákærði Jón Ásgeir með því að hafa við innflutning í nafni Bónus sf. á bifreiðinni PX 256, með sendingarnr. D 779 01 11 8 US NYC 0884, gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslu dags. 6. nóvember 1998, innlagðri sama dag hjá Tollstjóranum í Reykjavík, ásamt tilhæfulausum vörureikningi dags. 20. október 1998, útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, sem tilgreindi kaupverð bifreiðarinnar ranglega USD 29.875,00 í stað USD 37.000,00 samkvæmt kaupsamningi dags. 13. október 1998 frá Colonial, Miami, Flórída í Bandaríkjunum, en reikninginn hafði viðskiptafélagi ákærða, Jón Gerald Sullenberger, gefið út að ósk ákærða í þessu skyni, og með því að aðflutningsgjöld voru reiknuð á grundvelli aðflutningsskýrslunnar kom ákærði sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 202.510,00 og vörugjaldi að fjárhæð kr. 325.618,00 eða samtals kr. 528.128,00.

38.Ákærði Jón Ásgeir með því að hafa við innflutning á bifreiðinni OD 090, með sendingarnúmeri S HEG 10 11 9 CA MTR W004, í nafni hlutafélagsins Baugs, gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslu dags. 3. desember 1999, innlagðri 7. desember 1999 hjá Tollstjóranum í Reykjavík, ásamt tilhæfulausum vörureikningi dags. 23. september 1999, útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, sem tilgreindi kaupverð bifreiðarinnar ranglega USD 27.600,00 í stað USD 34.400,00 samkvæmt vörureikningi dags. 29. október 1999 frá Automotores Zona Franca, Miami, Flórída í Bandaríkjunum, en fyrrnefnda reikninginn hafði viðskiptafélagi ákærða, Jón Gerald Sullenberger, gefið út að ósk ákærða í þessu skyni, og með því að aðflutningsgjöld voru reiknuð á grundvelli aðflutningsskýrslunnar kom ákærði sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 225.900,00 og vörugjaldi að fjárhæð kr. 363.229,00 eða samtals kr. 589.129,00.

39.Ákærði Jóhannes með því að hafa við innflutning á bifreiðinni KY 293, með sendingarnr. D 779 28 05 0 US NYC 0160, gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslu dags. 30. maí 2000, innlagðri sama dag hjá Tollstjóranum í Reykjavík, ásamt tilhæfulausum vörureikningi dags. 11. apríl 2000, útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, sem tilgreindi kaupverð bifreiðarinnar ranglega USD 34.850,00 í stað USD 43.400,00 samkvæmt vörureikningi dags. 17. maí 2000 frá Automotores Zona Franca, Miami, Flórída í Bandaríkjunum, en fyrrnefnda reikninginn hafði viðskiptafélagi ákærða, Jón Gerald Sullenberger, gefið út að ósk ákærða í þessu skyni, og með því að aðflutningsgjöld voru reiknuð á grundvelli aðflutningsskýrslunnar kom ákærði sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 231.691,00 og vörugjaldi að fjárhæð kr. 293.487,00 eða samtals kr. 525.178,00.

40.Ákærða Kristín með því að hafa við innflutning á bifreiðinni KY 835, með sendingarnr. D 779 28 05 0 US NYC 0159, gefið rangar upplýsingar á aðflutningsskýrslu dags. 30. maí 2000, innlagðri sama dag hjá Tollstjóranum í Reykjavík, ásamt tilhæfulausum vörureikningi dags. 11. apríl 2000, útgefnum af Nordica Inc., Miami, Flórída í Bandaríkjunum, sem tilgreindi kaupverð bifreiðarinnar ranglega USD 46.780,00 í stað USD 58.200,00 samkvæmt vörureikningi dags. 17. maí 2000 frá Automotores Zona Franca, Miami, Flórída í Bandaríkjunum, en fyrrnefnda reikninginn hafði viðskiptafélagi ákærðu, Jón Gerald Sullenberger, gefið út að ósk ákærðu í þessu skyni, og með því að aðflutningsgjöld voru reiknuð á grundvelli aðflutningsskýrslunnar kom ákærða sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 307.598,00 og vörugjaldi að fjárhæð kr. 389.639,00 eða samtals kr. 697.237,00.

Brot ákærða Jóns Ásgeirs samkvæmt 37. og 38. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55, 1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Brot ákærða Jóhannesar samkvæmt 39. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55, 1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Brot ákærðu Kristínar samkvæmt 40. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55, 1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot.”

Af hálfu ákæruvalds hefur verið fallið frá tilvísun til 104. gr. hlutafélagalaga í VIII. kafla ákærunnar.  Þá hefur ákæruvaldið látið bóka varðandi 38. ákærulið, að vegna nýrra upplýsinga í málinu sé byggt á því að grunnverð bílsins OD-090 hafi verið 33.000 dollarar og ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson hafi komið sér undan því að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 184.287 krónur og vörugjaldi að fjárhæð 296.318 krónur eða samtals 4810.605 krónum.  Síðastnefndu töluna hefur sækjandinn leiðrétt í 480.605.  Dómurinn fellst á að leiðréttingin komist að, þrátt fyrir mótmæli verjanda ákærðu Kristínar, enda er um að ræða augljósa ritvillu, sbr. 1. mgr. 118. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.  Þá er bókað eftir ákæruvaldinu varðandi 39. ákærulið að byggt sé á því að grunnverð bílsins KY-297 hafi verið 42.000 dollarar og ákærði Jóhannes Jónsson hafi komið sér undan að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 193.754 krónur og vörugjaldi að fjárhæð 245.431 krónur eða samtals 439.185 krónum.  Loks er bókað eftir ákæruvaldinu varðandi 40. ákærulið að byggt sé á því að grunnverð bílsins KY-835 hafi verið 42.000 dollarar og ákærða Kristín Jóhannesdóttir hafi komið sér undan að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 269.889 krónur og vörugjaldi 611.761 krónur að fjárhæð eða samtals 439.185 krónum.

Málavextir

Það er upphaf máls þessa að klukkan 10.00 að morgni sunnudagsins 25. ágúst 2002 gaf maður að nafni Jón Gerald Sullenberger sig fram við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra “og kvaðst vilja greina frá atvikum sem hann taldi að kunni að varða við lög”, eins og segir í skýrslu lögreglufulltrúa.  Jón Gerald kvaðst vera kaupsýslumaður, búsettur í Flórída og reka þar fyrirtækið Nordica Inc.  Hann hafi um langt skeið stundað stórinnkaup á vörum í Bandaríkjunum er hann hafi selt til Íslands.  Stærstu viðskiptavinir hans þar hafi verið fyrirtæki feðganna Jóhannesar Jónssonar og sonar hans Jóns Ásgeirs, sem eru meðal ákærðra í málinu.  Hin síðari ár hafi þeir verið einu viðskiptavinir hans, en viðskiptin verið honum mjög óhagstæð og hafi hann tapað á þeim síðustu þrjú árin.  Kvaðst Jón Gerald hafa leitað til lögmanns er hafi ráðlagt honum að leita til lögreglu og aðstoðað hann við það.  Jafnframt væri lögmaðurinn að undirbúa einkamál vegna viðskiptanna.

Í lögregluskýrslunni er haft eftir Jóni Gerald að meint brot þeirra feðga, svo og Tryggva Jónssonar, sem einnig er ákærður í málinu, hafi annars vegar verið þau að fá hann til að gefa út reikninga til að ná fé út úr Baugi hf. og hins vegar snúi þau að kaupum og rekstri skemmtisnekkju í Flórída, sem hafi verið fjármögnuð af fyrirtækjum þeirra feðga.  Á grundvelli framburðar Jóns Gerald og gagna frá honum var krafist dómsúrskurðar 28. ágúst, er heimilaði leit í húsnæði fyrirtækjanna Aðfanga hf. og Baugs hf. og jafnframt til að handtaka framangreinda Jón Ásgeir og Tryggva.  Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði leit þennan sama dag og við leitina var lagt hald á mikið af gögnum.  Þá var Tryggvi handtekinn og hafður í haldi lögreglu þar til síðdegis næsta dag.  Jón Ásgeir var erlendis.

Rannsókn lögreglu sem hófst í lok ágúst 2002 hélt áfram næstu árin og teygði anga sína víða um lönd.  Henni lauk með því að ríkislögreglustjóri gaf út ákæru 1. júlí 2005 og var málið þingfest 17. ágúst.  Héraðsdómur taldi vera annmarka á málinu, er væru þess eðlis að varða kynni frávísun.  Var sakflytjendum gefinn kostur á að flytja málið varðandi þau atriði 13. september og með úrskurði 20. sama mánaðar vísaði héraðsdómur málinu frá dómi.  Ríkislögreglustjóri kærði úrskurðinn til Hæstaréttar og með dómi hans 10. október var fyrstu 32 ákæruliðunum vísað frá dómi.  Það eru því 8 ákæruliðir sem eru til umfjöllunar hér.

Ákærðu hafa öll starfað í tengslum við atvinnurekstur þeirra feðga, ákærðu  Jóhannesar Jónssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.  Upphaf þess rekstrar má rekja til þess að í apríl 1989 opnuðu þeir lágvöruverslunina Bónus.  Starfsemin óx með árunum og er nú svo komið að hún er rekin í nafni Baugs Group, sem  er alþjóðlegt fjárfestingarfélag með áherslu á fjárfestingar í þjónustu, smásöluverslun og fasteignarekstur á Íslandi og erlendis. 

Á þeim tíma sem rannsókn lögreglu hófst, þ.e. í ágúst 2002, var ákærði Jón Ásgeir stjórnarformaður Baugs Group hf., en hann hafði verið forstjóri þess frá miðju ári 1998 til 3. júní 2002.  Ákærði Tryggvi Jónsson tók þá við starfinu, en hann hafði verið aðstoðarforstjóri þess frá miðju ári 1998.  Á sama tíma varð ákærði Jón Ásgeir formaður stjórnar félagsins.  Ákærði Jóhannes var í stjórn félagsins og ákærða Kristín í varastjórn.  Hún er dóttir ákærða Jóhannesar og starfar sem framkvæmdastjóri Gaums hf., sem er fjárfestingarfélag.  Ákærðu, Stefán Hilmar Hilmarsson og Anna Þórðardóttir, eru bæði löggiltir endurskoðendur.  Ákærði Stefán Hilmar var á árinu 1998 kjörinn endurskoðandi Baugs hf. á vegum KPMG Endurskoðunar hf., en þar starfaði hann þar til í október 2004 að hann gerðist starfsmaður Baugs hf.  Ákærða Anna starfaði og starfar enn hjá endurskoðunarfyrirtækinu.

VIII. kafli ákæru. Ætluð brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ársreikninga.

Þáttur ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva

Ákærðu neita sök að öllu leyti.  Af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið farið yfir viðskiptamannareikninga ákærðu Jóns Ásgeirs og Kristínar og félaganna Gaums og Fjárfars né heldur einstakar ráðstafanir að baki færslunum í ársreikningunum.  Hefur af þess hálfu hvorki verið spurt út í þær né að þeim vikið í málflutningi, enda verið á því byggt í saksókninni að allar fjárhæðir, sem færðar eru til inneignar á viðskiptareikning framkvæmdastjóra, stjórnenda eða hluthafa, teljist til lána í merkingu 43. gr. ársreikningalaga nr. 144, 1994.  Samkvæmt 36. gr., sbr. 43. gr. ársreikningalaga, sbr. nú 53. gr. l. nr. 3, 2006, skal í skýringum í ársreikningi tilgreina fjárhæðir lána, svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar sem veittar hafa verið félagsaðilum eða stjórnendum félags, eða móðurfélags þess, vegna tengsla þessara aðila við félögin, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála.  Á þetta einnig við gagnvart einstaklingum sem eru nátengdir félagsaðilum eða stjórnendum félags.  Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að auk bókhaldstilskipana Evrópusambandsins hafi dönsk lög um ársreikninga verið höfð til hliðsjónar þegar frumvarpið var samið en dönsku lögin hafi verið byggð á sömu tilskipunum.  Þá kemur þar ennfremur fram að í stað þess að telja upp í frumvarpinu þá liði, sem fram skuli koma í efnahagsreikningi og rekstrarreikningi, sé lagt til að fjármálaráðherra gefi út reglugerð um uppsetningu þessara reikninga og er kveðið á um það í 1. mgr. 89. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 10. gr.  Þar er ráðherra heimilað að setja reglugerð um framkvæmd laganna, þar á meðal um uppsetningu ársreikninga og samstæðureikninga, óstyttra og samandreginna, svo og um skil á þeim og birtingu þeirra hjá ársreikningaskrá.  Í 3. og 26. gr. reglugerðar um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga nr. 696, 1996 eru hins vegar efnisákvæði sem telja verður að séu mun ítarlegri en 43. gr. laga um ársreikninga og sýnast þau rýmka mjög hugtakið lán.  Þá segir í athugasemdum með 43. gr. frumvarpsins að greinin sé í samræmi við 13. tölul. 1. mgr. 43. gr. 4. tilskipunar ráðs Evrópusambandsins, sbr. einnig 2. mgr. 100. gr. þágildandi laga um hlutafélög nr. 32, 1978, en 43. gr. laga um ársreikninga leysti það ákvæði hlutafélagalaganna af hólmi.  Dómurinn álítur, þrátt fyrir þessi orð frumvarpsins, að skilgreining hugtaksins láns í þessu ákvæði tilskipunarinnar og fyrrgreindu ákvæði eldri laga um hlutafélög sé mun rýmri og ítarlegri en í 43. gr. laga um ársreikninga og það sama megi segja um 73. gr dönsku laganna um ársreikninga, sem byggir á tilskipuninni.  Dómurinn lítur svo á að reglugerðin um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga geti ekki geymt rýmri refsiheimild en 43. gr. laga um ársreikninga.  Þá er það að athuga að í ákvæðinu stendur orðið lán með veðsetningum, ábyrgðum og tryggingum, sem eru formlegir gerningar, og vísa má til samanburðar í ákvæði 104. gr. núgildandi laga um hlutafélög en þar er hlutafélagi bannað að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán - þó ekki venjuleg viðskiptalán - eða að setja tryggingu fyrir þá.  Vegna þessa en þó einkum vegna viðurkenndra sjónarmiða um skýringu og beitingu refsiheimilda í íslenskum rétti álítur dómurinn, þrátt fyrir þessa athugasemd í lagafrumvarpinu, að skilja beri orðið lán í 43. gr. laganna svo að það eigi við um formlega lánveitingu.

Ákvæði 100. gr. eldri laga um hlutafélög, höfðu að geyma ítarleg ákvæði um að kröfur og skuldir dótturfélaga skyldi tilgreina sérstaklega í efnahagsreikningi og ennfremur var þar mælt fyrir um það að lánað verðmæti hlutafélags til hluthafa, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra skyldi tilgreint í efnahagsreikningi og í 102. gr. þeirra laga var kveðið á um það að gerð skyldi grein fyrir kröfum á eða skuldir við dótturfélög eða móðurfélög í skýringum ársreiknings.  Núgildandi lög um hlutafélög nr. 137, 1994, sem hefur verið breytt og þau endurútgefin sem lög nr. 2, 1995,  leystu eldri lögin af hólmi og einnig kom 43. gr. laga um ársreikninga að nokkru leyti í þeirra stað.  Í hvorugri þessari löggjöf er að finna ákvæði sem skylda hlutafélög til þess að tilgreina kröfur eða skuldir við dótturfélög í efnahagsreikningi  né heldur ákvæði sem skylda þessi hlutafélög til að færa lán til hluthafa, stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra þess, eða móður- eða dótturfélags þess, sem sérstakan lið í efnahagsreikningi.  Margnefndri 43. gr. laga um ársreikninga er skipað í IV. kafla laganna, sem fjallar um skýringar með ársreikningi.  Í athugasemdum með þeim kafla segir að ákvæði hans feli ekki í sér teljandi breytingar frá gildandi lagaákvæðum en þau séu þó að ýmsu leyti ítarlegri.  Í 102. gr. eldri hlutafélagalaga var að finna ákvæði um skýringar í ársreikningi og var í 17. tl. þeirrar greinar gert ráð fyrir því að þar skyldi sérgreina upplýsingar um kröfur eða skuldir við dótturfélög eða móðurfélög, sbr. 1. mgr. 100.gr., og í 18. tl. skyldu koma fram ábyrgðarskuldbindingar vegna hluthafa, stjórnarmanna o. fl. aðila, sbr. 2. og 3. mgr. 100. gr.  Í ákæruliðum 33 - 36 er ákærðu gefið að sök að hafa við gerð ársreikninga sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi þar sem fjárhæð lána, sundurliðuð ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmastjóra og aðila þeim nátengdum, var ekki sérstaklega getið, auk sem þessara lána hafi ekki verið getið í skýrslu stjórnar eða skýringum ársreikninga.  Samkvæmt framansögðu var ekki skylt samkvæmt ársreikningalögum á þeim árum sem málið nær til að sérgreina þessi lán í efnahagsreikningi hlutafélags, heldur nægði að geta þeirra í skýringum með ársreikningi.

Skal þá vikið að því hvort einstakar ráðstafanir í þágu ákærðu Jóns Ásgeirs og Kristínar teljist vera lán í skilningi 43. gr. ársreikningalaga og hefðu því þurft að koma fram í skýringum með ársreikningunum.  Sem fyrr segir er á því byggt af hálfu ákæruvaldsins að allar færslur á viðskiptareikninga eigenda, stjórnenda og hluthafa teljist til lána í þessum skilningi. 

A. Lán til ákærða Jóns Ásgeirs.

Samkvæmt athugun dómsins á viðskiptamannareikningi Jóns Ásgeirs í bókhaldi  Baugs hf. fyrir tímabilið 1. janúar 1998 til 4. október 2002 sem efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra fékk afhentan frá Baugi hf., 11. október 2002, ber fjárhæðum sem tilgreindar eru í ákæru sem lán til ákærða Jóns Ásgeirs í lok hvers reikningsárs saman við stöðu viðskiptareiknings hans á sama tíma, að teknu tilliti til leiðréttinga frá aurum í krónur.  Samkvæmt því sem upplýst hefur verið hér fyrir dóminum var færslum úr viðskiptareikningi ákærða Jóns Ásgeirs og annarra stjórnenda og eigenda Baugs safnað í sérstakan safnreikning í bókhaldi Baugs hf. nr. 74310 undir nafninu “eigendur og stjórnendur - safn” en staða þessara reikninga í árslok var ekki sérgreind undir liðnum “skammtímakröfur í efnahagsreikningi” félagsins í árslok hvers árs, heldur mun hún hafa verið innifalin í þeim kröfum sem þar eru tilgreindar.

Dómurinn hefur farið yfir færslur á viðskiptareikningi ákærða Jóns Ásgeirs, sbr. safnreikning nr. 74310 í bókhaldi Baugs hf., á tímabilinu 1. janúar 1998 til 4. október.  Sú athugun leiðir til þess að fjalla verður um það hvort nokkrar færslur þar teljist lán í skilningi 43. gr. ársreikningalaga.  Er gerð grein fyrir þeim hér á eftir svo og skýringum ákærða og innri endurskoðanda Baugs hf.:

Nr.

Dags. og texti bókunar

Fjárhæð kr.

Upplýsingar úr fylgiskjölum og gögnum

Skýring Jóns Ásgeirs og innri endurskoðanda

1.

16/5/00, “lán til JÁJ”

500.000

Lagt inn á bankareikning Gunnars Rúnars Ólasonar

Ranglega fært á JÁJ

2.

14/9/00, “Jón Ásgeir Jóhannesson/lán”

3.000.000

Lagt inn á bankareikning í eigu JÁJ

Um var að ræða starfstengda greiðslu

3.

3/10/00, “lán JÁJ”

4.000.000

Lagt inn á bankareikning í eigu JÁJ

Um var að ræða starfstengda greiðslu

4.

18/5/01, “Jón Ásgeir Jóhannesson”

6.000.000

Lagt inn á bankareikning í eigu JÁJ, fskj. áritað “lán”

Um var að ræða lán til JÁJ til kaupa á bifreið

5.

11/1/02, “Leiðr. I843 v/lán til JÁJ”

700.000

Lagt inn á bankareikning í eigu JÁJ

Fyrirframgreidd laun

 

 

 

 

 

Ekki er að finna neinar skuldaviðurkenningar, tryggingar eða samninga um endurgreiðslu og lánakjör sem tengist færslum samkvæmt töluliðum 1 - 3 og tölulið 6 í töflunni hér að ofan.  Hafa færslurnar heldur ekki verið vaxtareiknaðar í viðskiptamannareikningi ákærða Jóns Ásgeirs.  Af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið reynt að hnekkja skýringum ákærða Jóns Ásgeirs og annarra hjá Baugi hf. sem koma fram í töflunni. Verður því að telja að ekki hafi verið sýnt fram á að færslur þessar hafi verið lán í skilningi 43. grein ársreikningalaga.

Varðandi 6 milljóna króna greiðslu til ákærða Jóns Ásgeirs til bílakaupa, sbr. tl. 4. í töflunni, hefur dómurinn skoðað fylgiskjal nr. T002294, sem er ljósrit af útprentun færslu úr skjálínu Íslandsbanka.  Þar kemur fram að 18. maí 2001 voru teknar út af reikningi Baugs hf. nr. 720, 6.000.000 króna og sú fjárhæð var sama dag lögð inn á reikning í sama banka nr. 680 í eigu ákærða Jóns Ásgeirs. Á ljósritið er handfært eftirfarandi: “D-v/Jóns K-720 lán”.  Í greinargerð innra eftirlits Baugs hf. til ríkislögreglustjóra, dagsettri 11. október 2002, kemur fram að um sé að ræða greiðslu til ákærða vegna bifreiðakaupa.  Í 4. grein starfssamnings ákærða, dagsettum 18. júní 1998, segir svo: “Félagið leggur forstjóra til bifreið að eigin vali sem hann skal nota vegna starfa fyrir félagið auk þess sem honum eru frjáls afnot af bifreiðinni í eigin þágu. Félagið greiðir rekstrarkostnað og heldur forstjóra skaðlausum af hlunnindaskatti sem af bifreiðaafnotunum kann að leiða.“  Í greinargerðinni kemur fram að ákærði hafi aldrei nýtt sér þetta ákvæði í samningnum, að öðru leyti en því, að greiðsla að fjárhæð 6 milljónir króna árið 2001 hafi verið bókuð sem lán til hans en ekki verið gengið formlega frá gögnum vegna þess í bókum félagsins.  Ákærði skýrði þetta svo í bréfi til ríkislögreglustjóra, 27. ágúst 2004, að samkvæmt starfssamningi hans við Baug hf. hefði félagið átt að útvega honum bíl að eigin vali.  Væri greiðslan vegna kaupa á Range Rover-bíl og því til sönnunar lét hann fylgja reikning frá seljanda bílsins, B&L.  Samkvæmt athugun dómsins er hér um að ræða reikning B&L, 15. mars 2000, stílaðan á ákærða Jón Ásgeir, vegna Range Rover 4,6, að fjárhæð kr. 6.510.100.  Samkvæmt reikningnum er andvirði bifreiðarinnar greitt þann dag með “uppítökubíl”, sem metinn er á kr. 3.500.000, með kr. 3.000.000 í peningum og kr. 10.100 innborgun bifreiðagjalda.  Eins og fyrr segir tók ákærði við 6 milljónum króna 18. maí 2001.  Hvorki dagsetning reikningsins né efni hans styðja þá staðhæfingu ákærða að tengsl séu á milli þessara bílakaupa hans og móttöku á þessari fjárhæð.  Þar að auki mæla ákvæði 4. gr. starfssamnings hans við Baug hf. gegn þeirri skýringu hans, að féð sé lán til hans vegna bílakaupa.  Þá tengjast þessari færslu hvorki skuldaviðurkenning, trygging né samningur um endurgreiðslu og lánakjör og loks hefur hún ekki verið vaxtareiknuð í viðskiptamannareikningi ákærða.  Þykir dóminum önnur skýring vera líklegri á þessari færslu en að um lán til ákærða hafi verið að ræða.  Telst því vera ósannað, þrátt fyrir staðhæfingu hans, að þessi færsla hafi verið vegna láns í skilningi 43. grein ársreikningalaga.

B. Ógreidd hlutafjárloforð ákærðu Jóns Ásgeirs og Kristínar Jóhannesdóttur.

Samkvæmt færslu á viðskiptamannareikning ákærða Jóns Ásgeirs hjá Baugi hf., dags. 13. febrúar 2001, er hann skuldfærður fyrir kr. 17.039.530.  Samkvæmt fylgiskjali bókhalds nr. I00647 með þessari færslu er þar um að ræða afstemmingu á ógreiddu hlutafé í tengslum við hlutafjárútboð Baugs hf. í desember 2000, þar sem hlutur ákærða Jóns Ásgeirs í því útboði er færður af reikningslyklinum “ógreidd hlutafjáraukning” og skuldfærður á ákærða Jón Ásgeir. Samkvæmt færslu á viðskiptamannareikning ákærðu Kristínar sama dag, er hún skuldfærð fyrir kr. 3.786.727 með vísan til sama fylgiskjals, sem er hlutur hennar í nefndu hlutafjárútboði. Samskonar færsla að fjárhæð kr. 17.039.530 er sama dag skuldfærð á ákærða Jóhannes Jónsson en ekki er ákært vegna þeirrar skuldastöðu.  Framangreindri færslu á viðskiptamannareikning ákærða Jóns Ásgeirs tengist kreditfærsla á sama reikning, 5. júlí 2001, að fjárhæð kr. 1.790.442, en mismunarfjárhæðin, kr. 15.249.088, er hluti af ákærufjárhæð kr. 67.318.559 vegna reikningstímabilsins sem lauk 28. febrúar 2002, sbr. lið 36 í ákæru.  Nefnd kreditfærsla er vegna arðgreiðslu til Jóns Ásgeirs.  Framangreindri færslu á viðskiptamannareikning ákærðu Kristínar Jóhannesdóttur tengist kreditfærsla á sama reikning, 5. júlí 2001,  að fjárhæð kr. 397.894, en mismunarfjárhæðin, kr. 3.388.833, er sú fjárhæð sem ákært er fyrir vegna reikningstímabilsins, sem lauk 28. febrúar 2002, sbr. lið 36 í ákæru.  Þessi kreditfærsla er sömuleiðis vegna arðgreiðslu til Kristínar. Samkvæmt 19. gr. laga um hlutafélög skal við hækkun hlutafjár greiða hluti að fullu í síðasta lagi einu ári eftir að hækkunin hefur verið tilkynnt til hlutafélagaskrár. Engar skuldaviðurkenningar, tryggingar eða samningar um endurgreiðslu og lánakjör tengjast þessum færslur og hafa þær ekki verið vaxtareiknaðar í viðskiptamannareikningi.  Með vísan til alls þessa verður því að telja að ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að þessar skuldfærslur á viðskiptamannareikninga ákærðu Jóns Ásgeirs og Kristínar hafi verið vegna lána í skilningi 43. greinar ársreikningalaga.

C. Aðrar færslur á viðskiptamannareikning Jóns Ásgeirs.

Í greinargerð innra eftirlits Baugs hf., dagsettri 11. október 2002, er sú almenna skýring gefin á þessum færslum, að mestmegnis sé um að ræða kostnað vegna starfa forstjórans fyrir félagið og á móti hafi komið greiðslur vegna samningsbundinna dagpeninga. Útlagður kostnaður á viðskiptakorti sé að stórum hluta bókaður á forstjórann, enda þótt greinilega sé um að ræða rekstrarkostnað.  Ástæða þessa liggi meðal annars í því, að áritun um tilgang reikninga hafi vantað, frumrit fylgiskjals ekki verið til staðar eða um mistök hafi verið að ræða.  Síðar hafi ekki gefist tími til að fara yfir reikningana og hafi því fyrirtækið verið látið njóta vafans og kostnaðurinn skuldfærður á forstjórann.  Ákærði hefur skýrt þessar færslur að hluta sem kostnað vegna starfa hans fyrir félagið og að hluta sem einkakostnað hans.  Ekki hefur verið reynt að hnekkja þessari skýringu ákærða.  Af þeim sökum og vegna eðlis þessara færslna telur dómurinn að ekki hafi verið sýnt fram á það að staða þessara færslna á því tímabili sem ákæran tekur til geti flokkast undir lán í skilningi 43. greinar ársreikningalaga.

D. Lán til annarra hluthafa, sbr. 2. tl. 2. gr. laga um ársreikninga.

 Sem fyrr segir er í 43. gr. ársreikningalaganna kveðið á um það að í skýringum í ársreikningi skuli tilgreina fjárhæðir lána, svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar sem veittar hafa verið félagsaðilum, auk annarra.  Í 1. mgr. 2. tl. 2. gr. laga um ársreikninga tekur hugtakið félagsaðili til hluthafa í hlutafélagi og eiganda eignarhluta í öðru félagi.  Það er því ljóst að 43. gr. laganna getur tekið til lána til Gaums ehf. og Fjárfars ehf.

Gaumur fjárfestingarfélag ehf.

 Af hálfu  ákæruvaldsins er, eins og fyrr segir, byggt á því  að allar færslur á viðskiptareikning eigenda, stjórnenda og hluthafa teldust til lána í skilningi 43. gr. ársreikningalaga. Athugun dómsins á viðskiptamannareikningi Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. leiðir í ljós að fjárhæðum sem tilgreindar eru í ákæru sem lán til Gaums í lok hvers reikningsárs ber saman við stöðu viðskiptamannareiknings þess félags á sama tíma.  Dómurinn hefur skoðað þær færslur í reikningnum á tímabilinu 1. janúar 1998 til 4. október 2002 og hreyfingalista vegna lánardrottnareiknings Gaums ehf. í bókhaldi Baugs hf. frá 22. desember 1998 til 10. desember 1999.  Sú athugun leiðir til þess að fjalla verður um það hvort nokkrar færslur þar teljist lán í skilningi 43. gr. ársreikningalaga.  Er gerð grein fyrir þeim hér á eftir svo og skýringum ákærða og endurskoðenda Baugs hf.:

Nr.

Dags. og texti bókunar

Fjárhæð í kr.

Upplýsingar úr fylgiskjöl-

um og gögnum

Skýringar forsvarsmanna Baugs hf. og endur-skoðenda þeirra¹

1.

10.08.99, “Lán til Gaums 10/8/99”

10.000.000

Staðfesting undirrituð f.h. Baugs hf. og Gaums, dags 10. ágúst 1999 með 10,5% vöxtum

Greiðsla sem byggist á samningi milli Baugs og Gaums vegna Apóteksins hf. en Baugur keypti 69% hlutabréfa í Apótekinu af Gaumi 25. ágúst 1999 á 483.000.000 króna.

2.

17.08.99, Lán til Gaums

20.000.000

Staðfesting undirrituð f.h. Baugs hf. og Gaums, dags. 17. ágúst 1999 með 12,2% vöxtum

Greiðsla sem byggist á samningi milli Baugs og Gaums vegna Apóteksins hf.

3.

23.08.99, “Gaumur v/hlutafjárútboðs”

100.000.000

Staðfesting undirrituð f.h. Baugs hf. á lánveitingu til Gaums vegna hlutafjárútboðs, dags. 20. ágúst 1999 með 12,2% vöxtum

Baugur kaupir eignin bréf af Gaumi til þess að selja þau til NRP gegn því að eignast sérleyfissamning NRP við Debenhams

4.

11.10.99, “Lán frá Baugi”

4.500.000

Staðfesting undirrituð f.h. Baugs hf. á lánveitingu til Gaums, dags. 11. október 1999 með 11,5% vöxtum

Greiðsla vegna kaupa Gaums á geymsluhúsnæði að Viðarhöfða 6, Reykjavík, sem fyrir-hugað var að selja síðar til Baugs. Umrætt húsnæði komst ekki í eigu Baugs.

5.

14.12.99, “Lán frá Baugi”

35.000.000

Staðfesting undirrituð f.h. Baugs og Gaums varðandi lán til Gaums, dags. 14. desember 1999, með 13,25% vöxtum. Lánið var endurgreitt 21. desember 1999.

Greiðsla til Gaums vegna kaupa félagsins 8. nóvember 1999 á GBP 186.500 hlutum í Debenhams PLC, Bret-landi.  Hlutabréfaviðskiptin í Debenhams PLC hafi tengst samningum Baugs við Debenhams PLC um breytingu á einkaleyfis-samningi um rekstur Debenhams sérverslana. Einnig að hinn 21. desember (1999) hafi framangreind hlutabréf í Debenhams PLC að nafnverði 186.500 pund verið seld og hafi sölutapið því numið 17,4 milljónum króna sem gjaldfært var hjá Gaumi, og voru þá framangreind-ar 35 milljónir króna þá endurgreiddar inn á viðskiptamannareikning hjá Baugi.

6.

18.05.01, “Lán til Gaums”

100.000.000

Staðfesting undirrituð f.h. Baugs hf. á láni til Gaums, dags. 18. maí 2001 með 16% vöxtum

Fyrirhugað hafði verið af hálfu Baugs að eiga viðskipti um eignarhlut í NRG AB (Nordic Restaurant Group). Fjárfestingarfélagið Gaumur hafi tekið upphafsáhættu í þessu fjárfestingarverkefni Baugs. Gaumur greiddi samdægurs lánveitingunni kr. 100.000.000 til NRG AB. Eignarhlutur NRG AB komst síðar í eigu Baugs hf.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[1] Af hálfu forsvarsmanna Baugs og endurskoðenda þeirra hafa lánin til Gaums almennt verið skýrð sem lán á viðskiptalegum forsendum og hafi það samband ríkt milli þessara fyrirtækja að Gaumur hafi tekið upphafsáhættu í fjárfestingarverkefnum til þess að draga úr rekstraráhættu Baugs sem síðan keypti verkefnin af Gaumi. Innri eftirlitsdeild Baugs hf. lýsti þessu þannig að veruleg viðskipti væru milli félaganna. Gaumur tæki þátt í launakostnaði forstjóra Baugs. Baugur keypti eignir af Gaumi á árunum 1999 og 2000 og eignir þessar hefðu síðan verið seldar á markaðsverði samkvæmt mati og Baugur hefði síðan selt þær á hærra verði og haft af því verulegan hagnað.

Í tengslum við þessa greiningu er nauðsynlegt að huga að tengslum 43. greinar ársreikningalaga við 104. grein hlutafélagalaga um óheimil lán eða tryggingu til hluthafa, stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra hlutafélags. Í athugasemdum við frumvarp til hlutafélagalaga nr. 137, 1994 var gengið út frá því að ekki væri lengur heimilt að lána til hluthafa og því lagt til að 2. mgr. 100. gr. eldri hlutafélagalaga um sérgreiningu lána til hluthafa yrði felld niður.  Reyndar verður að geta þess að  ósamræmi er á milli 104. gr. hlutafélagalaga, sem beinlínis bannar lánveitingar til eigenda og stjórnenda, og 43. gr. ársreikningalaga sem skyldar stjórnendur til þess að geta þeirra í ársreikningi.  Hvað sem því líður er ljóst að bæði 43. gr. ársreikningalaga og 104. gr. hlutafélagalaga ná til sams konar lána og sömu aðila og í lokamálslið síðarnefnda ákvæðisins er beinlínis tekið fram að bannið við lánum taki ekki til venjulegra viðskiptalána, eins og áður var vikið að.  Í athugasemdum við þá frumvarpsgrein segir að bannið taki “ekki til venjulegra viðskiptalána, t.d. greiðslukortaviðskipta, eða til lána til fyrirtækja sem eru hluthafar ef þau eru liður í viðskiptum og venjubundin bæði í fyrirtækinu og almennt í slíkum fyrirtækjum.”  Loks má geta 2. gr. l. nr. 133, 2001 ásamt athugasemdum, sem breytti tekjuskattslögum nr. 90, 2003, þar sem kveðið er á um það, að til tekna samkvæmt 7. gr. laganna, skuli einnig telja lán til starfsmanna og hluthafa og stjórnarmanna, sem eru óheimil samkvæmt 104. gr. laga um hlutafélög.  Með vísan til þeirra tengsla sem verður að telja að séu milli 43. greinar ársreikningslaga og 104. greinar hlutafélagalaga verður að telja að ein af meginrökunum fyrir lögfestingu þessara ákvæða hafi verið sú ósk löggjafans að útiloka að skattskyldar tekjur hluthafa, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga væri hægt að dulbúa í formi skattfrjálsra lána.  Þessi ályktun styrkist af sjónarmiðum í danskri lagaframkvæmd varðandi upptöku sambærilegra ákvæða í danska hlutafélagalöggjöf, en eins og áður er vikið að sækja þessi ákvæði, m.a., fyrirmynd sína í danska löggjöf.  Ekki verður séð að þessi sjónarmið geti átt við um viðskiptalán.  Vegna þessa alls og þess sem áður sagði um  skýringu og beitingu refsiheimilda í íslenskum rétti lítur dómurinn svo á að skýra beri 43. gr. ársreikningalaga til samræmis við 104. gr. hlutafélagalaga að þessu leyti og slá því föstu að ekki sé skylt að gera grein fyrir venjulegum viðskiptalánum til hluthafa í ársreikningi.

Dóminum þykja skýringar forsvarsmanna Baugs hf. og endurskoðenda þeirra á þessum lánum í töflunni, sem ákæruvaldið hefur ekki reynt að hnekkja, benda til þess að þau lán sem þar eru tilgreind geti talist til viðskiptalána.  Er því ósannað að þau teljist vera lán í skilningi 43. gr. ársreikningalaga.

Hlutafjárútboð Baugs hf. í desember 2000 og fl.

Við hlutafjárútboð Baugs hf. í desember 2000 átti Gaumur ehf. að greiða 340.529.987 krónur fyrir hlutabréf í Baugi hf. og greiddi Gilding hf. hlutafjáraukningu fyrir Gaum hf. að fjárhæð 290.000.000 króna, sbr. færslur á þessum fjárhæðum í viðskiptareikning Gaums ehf. hjá Baugi hf., dagsettar 13. febrúar 2001, en mismunur þessara fjárhæða er 50.529.987 krónur. Varðandi þá stöðu sem þannig myndaðist í viðskiptareikningi Gaums hjá Baugi hf. vegna þátttöku Gaums ehf. í hlutafjárútboði Baugs hf. að fjárhæð 50.529.987 krónur, verður að mati dómsins ekki talið að um lánveitingu hafi verið að ræða, heldur hafi krafan stofnast við áskrift að hækkun hlutafjár hjá Baugi hf., en um slíkar kröfur gilda ákvæði hlutafélagalaga nr. 2, 1995 um hækkun hlutafjár. 

Þá kemur fram í bréfi innra eftirlits Baugs, dagsettu 11. október 2002 varðandi aðrar viðskiptastöður Gaums ehf. á viðskiptamanna- og lánadrottnareikningum í bókhaldi Baugs  hf. að veruleg viðskipti væru milli félaganna.  Þannig tæki Gaumur þátt í launakostnaði forstjóra Baugs hf., Baugur hf. hefði keypt eignir af Gaumi ehf. á árunum 1999 og 2000 og eignir þessar hefðu síðan verið seldar á markaðsverði samkvæmt mati, en Baugur hf. hefði síðan selt þær á hærra verði og haft af því verulegan hagnað.  Skýringum sem fram hafa komið á þessum færslum öllum hefur ekki verið hnekkt af hálfu ákæruvalds.  Vegna eðlis þessara færslna telur dómurinn að ekki hafi verið sýnt fram á það að þær geti talist lán í skilningi 43. gr. ársreikningalaga.

Fjárfar ehf.

Fram er komið í málinu að Fjárfar ehf. skuldi Baugi hf. 168,8 milljónir króna á viðskiptareikningi.  Skuldin sé vegna kaupa Fjárfars ehf. á hlutabréfum í Baugi hf., annars vegar að fjárhæð 64,5 milljónir króna og hins vegar 85 milljóna króna. Reiknaðir hafi verið vextir á viðskiptareikninginn að fjárhæð 29,9 milljónir króna.  Dómurinn hefur kannað viðskiptareikning Fjárfars í bókhaldi Baugs, hreyfingarlista skv. útprentun, dags. 30. september 2002.  Færslur á viðskiptareikninginn eru eftirfarandi:

1.

16.05. 2000

“Hlutafé selt í Fjárfari, 5m*12,9,”

64.500.000

2.

30.06.2000

“Baugur .net selt til Fjárfars”

50.000.000

3.

01.09.2000

“Greiddur arður til Fjárfars”

-897.419

4.

01.01.01

“Ógreiddur arður til Fjárfars”

-5.010.632

5.

13.02.01

“Fjárfar ehf. ógr. hlutafjárauk”

85.758.591

6.

30.06.01

“Vaxtatekjur af skuld Fjárfar”

29.969.758

7.

05.07.01

“Fjárfar ehf., arður 2001”

-5.436.922

8.

21.02.02

“Bakfærð hlutabréfakaup í B”

-50.000.000

Samkvæmt reikningnum nam skuld Fjárfars ehf. við Baug hf., 21. febrúar 2002, 168.883.376 krónum, sem stemmir við fjárhæð láns í lok 14 mánaða reikningsárs 2001, 28. febrúar 2002, til Fjárfars ehf., sem tilgreind er í 36. lið ákæru.  Mismunurinn á þremur fyrstu töluliðunum í töflunni hér að framan er 113.602.581 króna, sem stemmir við fjárhæð láns í lok reikningsársins 2000 til Fjárfars ehf., sem tilgreind er í 35. lið ákæru.  Ákærði Tryggvi segir að hann geti ekki skýrt þessar færslur, en fram er komið hjá þeim ákærða Jóni Ásgeiri að sá síðarnefndi eigi lítinn hlut í þessu félagi, eða um 5-6%.  Segir ákærði Jón Ásgeir ennfremur að Fjárfar ehf. hafi átt hlutafé í Baugi hf. á tímabili en samkvæmt ársreikningi 2002-2003 sé Fjárfar ehf. ekki lengur hluthafi í Baugi hf.  Minni hann að viðskiptin, sem áttu sér stað 16. maí 2000, að fjárhæð 64.500.000 krónur, sbr. tl. 1, tengist á einhvern hátt kaupum Baugs hf. á verslunum 10-11. Varðandi viðskiptin 13. febrúar 2001 að fjárhæð 85.758.591 króna, sbr. tl. 5, telur hann að þau hafi tengst hlutafjárútboði Baugs hf.  Fjárfar ehf. hafi haft forkaupsrétt á bréfum í Baugi hf. samkvæmt útboðinu og þannig boðist bréfin á lægra gengi.  Ætlunin hefði verið sú að  kaupa bréfin og selja þau strax áfram á hærra gengi.  Það hafi hins vegar ekki gengið eftir.  Ekki hafi staðið til að mynda viðskiptaskuld gagnvart Baugi hf. vegna þessara viðskipta. Varðandi viðskiptin 30. júní 2000, sbr. tl. 2, vegna kaupa Fjárfars ehf. í hlutabréfum í félaginu Baugur.net segir hann að þessi viðskipti hafi komið upp á þeim tíma þegar netvæðingin var í hámarki og slík félög hafi staðið hvað hæst á hlutabréfamörkuðum. Hann segir að til hafi staðið að setja félagið á markað og hafi þessi sala verið undanfari þess.  Hins vegar hafi Baugur hf. ekki staðið við fyrirætlanir sínar varðandi Baug.net og þessu viðskipti gengið til baka vegna þess.  Þá segir ákærði að það hafi verið stjórnendur Baugs hf., þ.e. hann sjálfur og ákærði Tryggvi, sem hafi tekið ákvarðanir um þessar lánveitingar eða viðskipti og á hvaða forsendum þær hafi verið gerðar. Hafi þeir vitað af forsendum viðskiptanna 13. febrúar 2001, sbr. tl. 5, og að til stæði að selja bréfin áfram.  Líti hann á þetta sem viðskiptalán vegna viðskipta félaganna og staðið hafi til að þetta yrði greitt upp á árinu.  Skýringar ákærða Jóns Ásgeirs varðandi færslurnar í töluliðum 1 - 4 og 6 - 8 hér að ofan benda til þess að þær geti talist til viðskiptalána.  Hefur ekki verið reynt að hnekkja þeim af hálfu ákæruvalds.  Telst það því vera ósannað í málinu að færslurnar séu lán í skilningi 43. gr. ársreikningalaga. 

Sérstaklega varðandi færslu samkvæmt tl. 5 á kröfu á viðskiptareikning Fjárfars ehf. hjá Baugi hf. þann 13. febrúar vegna þátttöku Fjárfars ehf. í hlutafjárútboði Baugs hf. að fjárhæð 85.758.591 króna, verður að mati dómsins ekki talið að um lánveitingu hafi verið að ræða, heldur hafi krafan stofnast við áskrift að hækkun hlutafjár hjá Baugi hf., en um slíkar kröfur gilda ákvæði núgildandi hlutafjárlaga um hækkun hlutafjár.   Getur færslan því ekki talist lán í skilningi 43. gr. ársreikningalaga. 

Niðurstaða.

Sýnt hefur verið fram á hér á undan, að ekki var skylt á þeim árum sem ákæran nær til að tilgreina lán til hluthafa, stjórnenda eða framkvæmdastjóra hlutafélags sérstaklega í efnahagsreikningi, heldur nægði að geta þeirra í skýringum.  Eins og rakið hefur verið og ályktað hér að framan telst heldur engin þeirra ráðstafana, sem séð verður að ákæran taki til, vera lán í skilningi 43. gr. laga um ársreikninga.  Af þessu leiðir að ársreikningarnir teljast ekki hafa verið gerðir með röngum og villandi sérgreiningum, eins og í ákærunni segir, og að ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva var óskylt að geta færslna varðandi þær í ársreikningum fyrir árin 1998, 1999, 2000 og 14 mánaða ársreikningi ársins 2001, sem lauk 28. febrúar 2002, hvort sem var í efnahagsreikningi eða í skýringum með ársreikningi.  Að því er varðar þær sakargiftir að ákærðu hafi ekki getið þeirra í skýrslum stjórnar skal tekið fram að það atriði var fellt úr 36. gr. ársreikningalaganna með setningu laga nr. 56, 2003.  Er því ekki fyrir að fara gildri refsiheimild um það atriði, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.  Ber að sýkna ákærðu alfarið af ákæruliðum 33 til 36.

Þáttur ákærðu Stefáns Hilmars og Önnu.

Ákærðu eru saksótt fyrir það að hafa, án viðeigandi skýringa, áritað ársreikninga Baugs hf. fyrir árin 1998, 1999, 2000 og 14 mánaða ársreikningi ársins 2001, þótt þeir væru með röngum og villandi sérgreiningum, sbr. ákæruliði 33 til 36.  Þar sem því hefur nú verið slegið föstu í kaflanum hér að framan að ársreikningarnir voru ekki með með röngum og villandi sérgreiningum og að ekki bar að geta þeirra í skýringum með ársreikningi, ber einnig að sýkna ákærðu af öllum þessum liðum ákærunnar.

IX. kafli ákæru.  Ætluð tollsvik og rangfærsla skjala af hálfu ákærðu Jóns Ásgeirs, Jóhannesar og Kristínar.

Ákærðu neita öll sök.  Ákærði Jón Ásgeir kveður Jón Gerald hafa selt þeim eða fyrirtækjum þeirra 7 – 8 bíla í allt.  Gerðist það ýmist að frumkvæði Jóns Geralds eða þeirra.  Oft hafi verið um að ræða bíla sem erfitt var að finna í Evrópu og því hafi verið skipt við Jón Gerald.  Viðskipti þeirra við Jón Gerald hafi annars verið talsverð.  Aðallega hafi verið um að ræða matvörur og sérvörur sem Jón Gerald útvegaði fyrirtækjum þeirra frá Bandaríkjunum.  Viðskiptin hafi hafist 1995 og komist á fyrir kunningsskap í gegnum fjölskyldutengsl.   Ákærði segir það, í sambandi við bílaviðskiptin, að ekki hafi verið horft í  hvað bílarnir kostuðu, enda hafi aðalatriðið verið að fá bíla af þeirri gerð sem menn vildu.  Stundum hafi þessir bílar orðið dýrari en sambærilegir bílar sem fluttir voru inn frá Evrópu.  Hann kveður samkomulag og samskipti við Jón Gerald hafa versnað á árinu 2001 vegna viðskiptaágreinings sem hafi risið vegna þess að Jóni Gerald tókst ekki að gera fyrirtæki sitt, Nordica, að öflugu fyrirtæki sem hægt væri að reiða sig á og eins vegna gengisbreytinga. 

Ákærði Jóhannes kveðst ekki geta skýrt það hvers vegna Jón Gerald beri þessar sakir á þau þrjú.  Hann telur sig hins vegar vita að frumkvæðið sé ekki frá honum komið heldur standi aðrir á bak við hann.  Hann skýrir frá því að Jón Gerald hafi hringt í sig eitt sinn á miðju sumri og sagt við sig að hann skyldi vera syni sínum góður vegna þess að hann ætlaði að koma fljótlega og stytta honum aldur.  Ekki viti hann hver hafi verið kveikjan að þessu símtali.  

Jón Gerald Sullenberger hefur skýrt frá því að hann hafi séð um kaup á 6 eða 7 bílum fyrir ákærðu á tímabilinu 1996, að hann minni, til 2001 eða 2002.  Frumkvæðið að þessum bílakaupum hafi ákærðu átt, fyrst Jón Ásgeir en svo meðákærðu.  Kveðst hann hafa litið svo á að hann væri milligöngumaður milli ákærðu og bílasölufyrirtækjanna.  Hann segir að ekki hafi það virst skipta kaupendur máli hvað bílarnir kostuðu.  Aldrei hafi verið samið um neina þóknun til hans vegna þessara viðskipta.  Ástæðan fyrir þessum kærum á hendur ákærðu og öðrum kærum sé sú að hann hafi séð að stjórnendur Baugs og Bónus báðu hann um að búa til reikninga sem þeir notuðu í bókhaldi hjá sér.  Hafi hann vitað að þarna var um misferli að ræða og þeir hafi notað hann í því skyni.  Þegar þeir hafi svo ekki haldið samninga við hann og viðskiptafélaga hans, Jim Schafer, hafi hann ákveðið að þetta yrði að stöðva.  Því hafi hann ákveðið að leita réttar síns, komið til landsins í júlí 2001 og fengið sér lögmann sem hafi haft samband við ríkislögreglustjóraembættið.  Í framhaldi af því hafi saksóknarinn við það embætti komið og sótt hann og hann þá lagt fram gögn sín hjá lögreglu og gefið skýrslu.  Hann kannast við að tveir lögreglumenn frá ríkislögreglustjóra hafi komið til Miami að finna hann í október 2002.  Hafi þeir farið í gegnum bókhald fyrirtækisins og tekið afrit af tölvum hans.  Þá hafi þeir einnig tekið skýrslu af honum og konu hans.  Hann segir ríkislögreglustjóraembættið hafa haft samband við hann fyrir skömmu vegna aðalmeðferðar málsins og spurt hvort hann gæti haft upp á vitnum þar ytra.  Hafi hann þá vísað þeim á Ivan Motta hjá AZF, sem hann þekki vegna bílaviðskiptanna sem málið snúist um. Hann hafi svo farið og heimsótt Ivan áður en þeir fóru til Íslands og þá fengið að sjá hjá honum gögn sem hann sagðist hafa fundið hjá sér.  Hann hafi frætt Ivan Motta um málið, sem einnig hafi verið búinn að leita sér upplýsinga um það sjálfur.  Hafi Ivan Motta svo haft þau með sér hingað til lands og afhent lögreglu og kveðst Jón Gerald þá hafa verið viðstaddur.  Hafi hann verið beðinn um það af starfsmanni ríkislögreglustjóra að fylgja Ivan Motta til lögreglu.  Hann segir þá hafa verið samferða hingað til lands til þess að bera vitni í málinu og búi þeir á sama hóteli.  Hafi ríkislögreglustjóri séð um að bóka fyrir þá hótelið. 

Jón Gerald segir lögregluna hafa spurt hvort hann gæti fundið sölumanninn hjá Colonial Jeep en komið hafi í ljós að það fyrirtæki var ekki lengur til og sölumaðurinn hafi ekki komið til vitnisburðar.  

Hann segir ágætan vinskap hafa ríkt milli sín og ákærðu frá árinu 1991 er samstarfið við Bónus hófst, fram til áramóta 2000-1.  Eftir það hafi farið að súrna á milli þeirra og hafi það fyrst og fremst verið vegna ágreinings um viðskipti, sem hafi komið til af brigðmælum ákærðu.  Hann kveðst vera eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Nordica.  Samstarf hans og Baugs hafi aðallega falist í því að hann fann og keypti inn fyrir þá matvöru í Bandaríkjunum og kom vörunni í skip.  Hafi þessi viðskipti verið mikill hluti af starfsemi Nordica, að vísu mismikill eftir árum.  Hann kannast við að hafa sent tölvuskeyti til ákærða Jóns Ásgeirs 1. júlí 2002 þar sem bæði er vikið að ágreiningi um viðskipti hans við Baug og Aðföng og því að ákærði hafi reynt að komast yfir eiginkonu hans.  Hann var spurður hvort hann hefði hótað því í símtali við ákærða Jóhannes að hann myndi “ganga frá” Jóni Ásgeiri og að hann ætti skammt eftir ólifað.  Vitnið neitaði að svara þessu og bar fyrir sig 51. gr. laga um meðferð opinberra mála.  

 Undir Jón Gerald er borin skýrsla sem hann gaf fyrir lögreglu í Miami 6. október 2002 þar sem haft er eftir honum að hann hafi haft milligöngu um bílakaup frá árinu 1996 fyrir ákærðu og aðra.  Í einhverjum þessara tilvika hafi hann tekið þóknun fyrir þessa milligöngu.  Bílainnflutningur þessi hafi þó ekki verið umtalsverður og lítill fyrir aðra en ákærðu.  Síðast hafi hann séð um að útvega þrjá líkbíla hingað til lands.  Hann er spurður út í það sem segir í skýrslunni að hann hafi séð um þetta fyrir þá feðga af greiðasemi og ekkert tekið í þóknun, en í annarri skýrslu 22. mars 2003 er haft eftir honum að hann hafi lagt 4.000 dollara á bílana, sem um er fjallað í ákæruliðum 39 og 40.  Hann segir þá tvo bíla vera undantekningu að þessu leyti þar sem mikil vinna hafi farið í þennan innflutning.

Ivan Gabriel Motta hefur komið fyrir dóm.  Hann kveðst vera alþjóðlegur bílakaupmaður, vera viðskiptafræðingur að mennt og hafa auk þess sótt námskeið í alþjóðaviðskiptum.  Hann kveður fyrirtækið Automotores Zona Franca vera eign AZF Automotive Group Inc.  Hann kveðst hafa rekið þetta fyrirtæki á þeim tíma sem máli skiptir og hafa þekkt Jón Gerald í a.m.k. tíu ár gegnum viðskipti þeirra.  Kveðst hann halda að Jón Gerald hafi í allt keypt sex eða sjö bíla af honum.  Hann segist hafa gert það að skilyrði fyrir komu sinni hingað til lands, eða öllu fremur hafi það verið ósk hans, að hann kæmi hingað í fylgd einhvers sem hann þekkti og því hafi þeir Jón Gerald orðið samferða og gisti á sama hóteli.  Hann kveðst ekki þekkja til þessa máls í smáatriðum en hann viti þó að það hafi vakið athygli margra.  Um sakborningana viti hann það að þeir eigi verslanakeðju.  Hann viti að Jón Gerald hafi verið umboðsmaður þeirra og selt vörur til þeirra frá Miami.  Hann segist hafa fengið vitnakvaðningu frá íslenskum lögregluyfirvöldum.  Jón Gerald hafi fyrst haft samband við hann og spurt hvort hann væri tilbúinn að koma hingað til lands til þess að bera vitni í málinu.  Hafi það verið nokkrum dögum áður en hann fékk kvaðningu frá lögreglunni.  Hann kveðst hafa umgengist Jón Gerald mikið eftir komuna hingað til lands en þeir hafi þó ekki rætt málið í smáatriðum.  Þó hafi þeir talað um bílana sem um ræðir.   Hann segir aðspurður að lögreglan hafi ekki óskað eftir gögnum frá honum og hann hafi fyrst heyrt af málinu fremur nýlega frá Jóni Gerald.

Hann kveðst hafa átt viðskipti með nokkra bíla við Jón Gerald eða Nordica á árunum 1998 til 2000.  Hann segir fyrirtæki sitt eingöngu selja bíla til útflutnings og Jón Gerald hafi keypt bílana til þess að flytja þá til Íslands.  Hann hafi selt bílana til Nordica og seinna hafi hann fengið gefin upp nöfn kaupendanna og sé þetta venjulegt í slíkum viðskiptum.  Hann segist ekki muna til þess að hafa verið í sambandi við neinn af þessum íslensku kaupendum.

Hann segir að bílarnir þrír hafi verið keyptir frá birgjum í Kanada vegna hagstæðs gengis á þeim tíma sem um ræðir.  Hafi þeir verið fluttir þaðan með sérstökum innsigluðum flutningabílum og svo út úr Bandaríkjunum aftur án þess að greidd væru gjöld af þeim þar eða þeir skráðir.

Ákæruliður 37.

Fyrir liggur að haustið 1998 var bíllinn PX 256, sem er af gerðinni Grand Cherokee, fluttur hingað til lands á vegum fyrirtækisins Bónuss frá Bandaríkjunum með flugi.  Hafði ákærði Jón Ásgeir fengið Jón Gerald Sullenberger, eiganda fyrirtækisins Nordica í Coral Gables í Flórída í Bandaríkjunum, til þess kaupa bílinn fyrir sig þar ytra og senda hann til Íslands.  Keypti Jón Gerald bílinn af fyrirtækinu Colonial Jeep sem var í Miami í Florida, en það fyrirtæki mun ekki lengur vera til.  Í málinu er ljósrit af samningi  um bílakaupin, dagsettum 13. október, sem Jón Gerald lét lögreglu í té, og er kaupandi þar sagður vera Bónus og kaupverðið vera 37.000 dollarar.  Kemur þar einnig fram að 1.000 dollarar höfðu verið greiddir inn á samninginn sem “deposit”.  Ofan í samninginn hefur verið ljósrituð nóta með sömu dagsetningu þar sem fram kemur að “John G. Sullenberger (Bonus)” greiði Colonial Jeep 1.000 dollara með kreditkorti.  Í málinu er ennfremur ljósrit af tékka, dagsettum 19. október 1998, að fjárhæð 36.000 dollarar, sem er greiðsla til Colonial Jeep frá Nordica. Þá er í málinu ljósrit af reikningi frá Nordica til Bónuss vegna sama bíls, dagsettum 20. október, en þar er kaupverð bílsins sagt vera 29.875 dollarar.  Undir þennan reikning hefur Jón Gerald skrifað.  Þegar bíllinn var tollafgreiddur hér fylgdi þessi vörureikningur honum og í aðflutningsskýrslu, sem fyrirtækið TVG-Zimsen sá um, var verðið einnig tilgreint 29.875 dollarar.  Þess er að geta að í málinu er annar reikningur, sem Jón Gerald lét lögreglu í té, með sömu dagsetningu og efnislega samhljóða hinum en óundirritaður og með öðru letri.  Í málinu er einnig óundirritaður reikningur úr bókhaldi Gaums hf. frá Nordica til Gaums hf. fyrir gisti- og ferðakostnaði, dagsettur 19. október, að fjárhæð 6.000 dollarar.  Í málinu er annar reikningur, efnislega samhljóða hinum, með sömu dagsetningu og einnig óundirritaður.  Í málinu er ljósrit af skjali sem Jón Gerald afhenti lögreglu og virðist vera af reikningsyfirliti Nordica en nafn bankans hefur ekki ljósritast með.  Þar kemur fram að Bónus sendi hinn 14. október 30.975 dollara inn á reikning Nordica.  Þá er í málinu kreditfærslunóta frá Ready State Bank, sem Jón Gerald afhenti lögreglu, fyrir jafn hárri greiðslu frá Bónus þennan sama dag, inn á sama reikning, og virðist það vera frumrit.  Þá er annað ljósrit í málinu af reikningsyfirliti Nordica frá þessum banka fyrir 5.975 dollara greiðslu frá Bónus og samsvarandi kreditfærslunóta í frumriti.  Hvort tveggja stafar frá Jóni Gerald.  Loks er í málinu gjaldeyriskaupanóta, dagsett 12. október, en ekki ársett, vegna 6.000 dollara greiðslu frá Bónus til Nordica.  Henni fylgir ólæsilegt ljósrit af sjóðstrimli. 

Ekki hefur tekist að finna vitni frá Colonial Jeep til þess að bera vitni í málinu um bílakaupin.

Ákærði kannast við að hafa látið kaupa þennan bíl en ekki muni hann hvernig þetta kom til.  Þessi bíll hafi verið ætlaður forstjóranum, þ. e. ákærða.  Ekki muni hann eftir einstökum atriðum varðandi bílinn, enda sé langt um liðið.  Hann muni það að Nordica hafi selt Bónus þennan bíl og gerði reikning fyrir honum.  Hljóti Bónus að hafa greitt reikninginn.  Hann kveðst ekki vita hver hafi séð um að tollafgreiða bílinn en það hljóti að hafa gerst á vegum innflutningssviðs fyrirtækisins.  Hann kveðst ekki geta skýrt muninn á fjárhæðinni á reikningnum frá Colonial Jeep og reikningnum frá Nordica.  Kannski hafi Jón Gerald fengið eftirá greiddan afslátt af bílverðinu, enda tíðkist ýmislegt í bílaviðskiptum í Bandaríkjunum.  Um reikning Nordica á hendur Gaumi hf. fyrir gistingu og ferðakostnaði að fjárhæð 6.000 dollarar segir ákærði að þetta sé líklega fyrir kostnaði sem Jón Gerald hafi lagt út fyrir þau.  Hafi hann oft gert slíkt eins og komi fram í bókum fyrirtækisins.  Ekki muni hann hvaða viðskiptum þessi kostnaður tengdist. 

Jón Gerald segir ákærða Jón Ásgeir hafa haft samband við sig og beðið um að fundinn yrði bíll sem hann ætlaði til persónulegra nota fyrir sig.  Hafi hann sett fram óskir um árgerð og tegund bílsins og hafi ekki verið rætt um verð.  Kveðst Jón Gerald hafa fundið bíl af þeirri gerð sem óskað var eftir og látið ákærða vita um verðið og ákærði samþykkt það.  Ekki geti hann fullyrt hvort hann sendi ákærða gögn um verðið eða hvort ákærði vissi hvar bíllinn var keyptur.  Hann staðfestir að samningsljósritið frá Colonial Jeep og tékkaljósritið varði þessi viðskipti.  Hafi ákærði beðið um að útbúinn yrði reikningur á Bónus og hann sjálfan fyrir tiltekinni fjárhæð sem hann tiltók.  Þá hafi hann beðið um að annar reikningur yrði útbúinn og sagt fyrir um hvernig hann skyldi hljóða og skyldi stílaður á Gaum hf.  Hafi ákærði ekki gefið neina skýringu á þessu.  Kveðst Jón Gerald hafa gert þetta og sent reikningana til Íslands.  Hann hafi ekki átt annars kost en að fara að fyrirmælum ákærða, enda hafi hann verið búinn að leggja út fyrir bílnum og þurft að fá það fé endurgreitt.  Hann kveðst ekki hafa fengið neitt fyrir þetta ómak.    Hann  kveður ljósritin í málinu vera af þessum reikningum.   Ljósrit af reikningum 19. og 20. október segir hann einnig varða þessi viðskipti.  Segir hann fyrri reikningana komna úr eldra bókhaldsforriti hjá sér en hitt settið sé síðari útprentun úr nýrra forritinu sem sett var upp hjá honum.  Hann kannast við tilkynningar Ready State Bank um innborgun á reikning hans og kveður þær báðar varða greiðslurnar fyrir bílinn frá Bónusi, að frádregnum bankakostnaði. 

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök.  Samningur Colonial Jeep og Jóns Geralds Sullenberger um bílakaupin er aðeins í óstaðfestu ljósriti í málinu eins og flest önnur sönnunargögn varðandi þetta sakarefni.  Sönnunargildi slíkra skjala hlýtur að teljast vera takmarkað.  Ekkert vitni annað en Jón Gerald hefur borið að kaupverð bílsins hafi verið hærra en kemur fram í vörureikningi Nordica og aðflutningsskýrslunni.  Eins og fram er komið bendir ýmislegt til þess að Jón Gerald beri þungan hug til ákærða og jafnvel annarra í fjölskyldu hans.  Hlýtur það að rýra sönnunargildi vitnisburðar hans.  Verður því, gegn neitun ákærða, að telja þetta ósannað og ber að sýkna hann af þessum ákærulið.

Ákæruliður 38.

 Fyrir liggur að haustið 1999 var bíllinn OD 090, sem er af gerðinni Grand Cherokee, fluttur hingað til lands á vegum Baugs hf. frá Kanada.  Hafði ákærði Jón Ásgeir fengið Jón Gerald Sullenberger til þess kaupa bíl þennan fyrir sig þar ytra og senda hann til Íslands.  Setti Jón Gerald sig í samband við fyrirtækið Automotores Zona Franca í Miami í Flórída.  Fyrirtæki þetta hafði uppi á bíl þessum í Kanada og var hann fluttur til Íslands með skipi.  Meðal gagna í málinu er vörureikningur frá Nordica til Baugs að fjárhæð 27.600 dollarar að meðtöldum flutningskostnaði, 800 dollurum, undirritaður af Jóni Gerald.  Reikningur þessi fylgdi aðflutningsskýrslunni til tollyfirvalda, sem er dagsett 3. desember, og þar er byggt á þessu verði.  Í málinu er hins vegar óundirritað skjal, sem Jón Gerald afhenti lögreglu, og er það í formi reiknings frá Nordica, dagsetts 25. september 1999.  Skjal þetta er einnig nefnt reikningur í rannsókninni en virðist vera pöntun til AZF Automotive Group á nýjum bíl af gerðinni Grand Cherokee Limited.  Er kaupverð bílsins þar tilgreint 33.000 dollarar en flutningskostnaður 1.450 dollarar, samtals 34.450 dollarar.  Þá er í málinu skjal, sem Jón Gerald afhenti lögreglu, óundirritað reikningsafrit frá Automotores Zona Franca, dagsett 29. október 1999, fyrir bíl af gerðinni Grand Cherokee Limited sem m. a. er lýst með orðunum “28K Package”.   Kaupverð er þar tilgreint 33.000 dollarar og kostnaður 1.400 dollarar, samtals 34.400 dollarar.  Þá afhenti Jón Gerald lögreglu annan reikning Nordica,  dagsettan 30. september, stílaðan á Baug og að fjárhæð 7.600 dollarar.  Er reikningurinn fyrir markaðskönnun og markaðsrannsókn í Flórída frá 1. ágúst til 30. september þetta ár.  Baugur greiddi þessa reikninga 24. og 29. september í Íslandsbanka, sem sendi greiðslurnar inn á reikning Nordica í Union Planters Bank á Miami Beach.  Jón Gerald hefur afhent lögreglu ljósrit af tveimur tékkum Nordica til AZF Automotive Group.  Tékkarnir virðast hafa verið smækkaðir í ljósrituninni og eru ekki vel læsilegir en greina má þar framleiðslunúmer bílsins sem hér um ræðir.  Annar tékkinn er að fjárhæð 10.000 dollarar og dagsettur 27. september en hinn 23.000 dollarar, dagsettur 3. október.  Jafnframt hefur Jón Gerald afhent lögreglu ljósrit af  reikningsyfirliti þar sem eru færslur sem svara til þessara tékka.  Meðal gagna þeirra sem Jón Gerald afhenti lögreglu er ljósrit af útflutningsskýrslu hans á sérstöku eyðublaði kanadískra yfirvalda varðandi bílinn.  Skjal þetta er illlæsilegt vegna afritunar, að ætla má.  Þar er andvirði bílsins sagt vera 30.000 dollarar en ekki kemur þar fram hvort um er að ræða bandaríska eða kanadíska dollara og ekki verður ráðið af ljósritinu hvort verðið er fob eða cif.

 Í málinu eru gögn úr bókhaldi Baugs hf. þar sem sést að báðar þessar greiðslur voru endanlega færðar sem “bifreiðar án vsk” en lægri greiðslan hafði fyrst verið færð sem “aðkeyptar markaðsupplýsingar”.  Þá hefur þar fundist ljósrit af vörureikningnum úr bókhaldi félagsins frá Nordica að fjárhæð 7.600 dollarar sem virðist hafa verið áritað til samþykkis.  Af ljósritinu virðist mega ráða að við það skjal hafi þá verið festur miði með orðinu “bíll” og undir því stafir.  Þá virðist reikningurinn hafa verið samþykktur með sömu stöfum.

Ákærði kannast við að umræddur bíll hafi verið fluttur inn á vegum Baugs hf. og síðan seldur Gaumi hf.  Segir hann bílinn hafa verið keyptan handa fyrrverandi eiginkonu ákærða.  Hann kveðst halda að Jón Gerald hafi boðið þennan bíl til sölu og séð um að kaupa hann ytra og selja þeim hann.  Ekki muni hann hver hafi séð um þetta gagnvart Jóni Gerald eða einstök atriði varðandi viðskiptin.  Hann segir að innflutningssvið fyrirtækisins Aðfanga hljóti að hafa séð um innflutninginn og hann sjálfur ekki komið þar nærri.   Ekki hafi komið til tals milli þeirra Jóns Geralds hvernig reikningsgerð skyldi hagað.  Um reikninginn að fjárhæð 7.600 dollarar segir ákærði að hann sé fyrir umstangi við það að útvega bílinn og einhverju öðru.  Hann kveður mögulegt að stafirnir hans séu undir orðinu “bíll” á miðanum á reikningnum sem kominn er úr bókhaldi Baugs hf. en orðið sjálft hafi hann ekki skrifað eða skipt sér neitt af þessu.  Hann kveðst hafa samþykkt reikninginn.  Um bókhaldsfærslurnar vegna þessara viðskipta segist ákærði halda að þær skýrist af því að hluti af þessum kostnaði hafi verið þóknun til Jóns Geralds fyrir að útvega bílinn.  Hann segir það hljóti að hafa verið mistök að innheimta allan þennan kostnað hjá Gaumi hf., sem aðeins hefði átt að greiða hluta hans. 

Jón Gerald hefur greint frá því að ákærði Jón Ásgeir hafi beðið um að bíll af tiltekinni tegund og árgerð yrði keyptur fyrir hann.  Ekki hafi verið rætt um hvað bíllinn mætti kosta og þá fyrst talað um verð þegar búið var að finna slíkan bíl og hann hafði sagt ákærða af því.  Kveðst hann ekki muna til þess að hafa verið í sambandi við aðra en Jón Ásgeir út af þessum bíl.  Hann kveðst hafa litið svo á að hann væri milligöngumaður milli ákærða og seljanda bílsins.  Jón Gerald kannast við reikninginn frá Automotores Zona Franca 29. október 1999 og segir það vera reikninginn fyrir þessum bíl.  Um flutningskostnaðinn á reikningnum segist hann halda að hann hafi ekki verið greiddur heldur muni hann sjálfur hafa séð um að láta flytja bílinn.  Hafi þessi liður verið tilboð bílasalans í flutning á bílnum.  Hann kveðst hafa verið búinn að senda sinn reikning til Íslands, þ. e. 25. september, áður en hann fékk þennan reikning.

Hann kannast við tékkaljósritin og kveður þessa tékka vera greiðslur fyrir bílinn.  Hafi hann greitt inn á hann tékka upp á 10.000 dollara og síðan fullgreitt bílinn með hinum tékkanum.  Hann segist vera viss um að ákærða hafi verið kunnugt um raunverulegt verð bílsins, enda hafi hann sagt honum það sjálfur.  Ákærði hafi þá beðið sig um að útbúa tvo reikninga, annan á Baug en hinn á Gaum.  Hafi þetta komið fram í símtali og ákærði beðið um að gerður yrði reikningur að fjárhæð 27.600 dollarar á Baug og annar reikningur, einnig á Baug, fyrir mismuninum.  Hafi ákærði mælt fyrir um textann á þessum reikningum.  Ekki hafi ákærði skýrt þetta að neinu leyti.  Kveðst Jón Gerald hafa orðið að gera þetta til þess að fá endurgreitt bílverðið sem hann hafði lagt út fyrir.  Kannast hann við að hafa úbúið reikninginn sem framvísað var til tollyfirvalda og einnig reikninginn úr bókhaldi Baugs að fjárhæð 7.600 dollarar.  Sams konar reikninga sem hann lét lögreglu í té, dagsetta 25. og 30. september kannast hann einnig við.  Hann kannast við að hafa fengið þetta endurgreitt í tvennu lagi eins og fram komi í skjölum málsins.  Sérstaklega aðspurður segir hann lægri greiðsluna vera einnig fyrir bílinn og geti ekki verið um neina aðra þjónustu að ræða.  Hafi greiðslurnar borist eftir að hann sendi reikningana í faxi.  Ekki hafi verið samið um neina þóknun fyrir þessa milligöngu hans.  Hann hafi hins vegar krafið Baug um greiðslu alls 35.200 dollara, þ.e. 800 dollara umfram bílverðið, vegna kostnaðar sem hann hafði af  flutningi bílsins.      

Í tilefni af  því sem haft er eftir honum hjá lögreglu 6. október 2002 segir hann aðspurður að sig hafi verið farið að gruna það á árinu 2000 að annar reikningurinn væri notaður gagnvart tollyfirvöldum en hinn færi í bókhaldið sem annar kostnaður.  Honum er bent á misræmi við þetta sem komi fram í skýrslu hans hjá lögreglu 22. mars 2003 þar sem haft er eftir honum, að þegar hann útbjó reikningana haustið 1999, hafi hann gert sér grein fyrir því að þannig væri í pottinn búið.  Kemur ekki fram skýring á þessu hjá honum.

Hann er spurður út í útflutningsyfirlýsinguna sem hann gaf vegna bílsins.  Segir hann yfirlýsinguna vera um það að bíllinn sem þar greinir hafi verið fluttur úr landi og því þurfi ekki að borga af honum söluskatt.  Hann kannast við að hafa undirritað skjalið en segist ekki hafa útbúið það.  Segir hann skrifstofu Samskipa í Norfolk hafa útbúið skjalið.  Hann kveðst hallast að því að tilgreint verðmæti bílsins sé í bandaríkjadollurum, enda hafi hann greitt fyrir bílinn í þeirri mynt.

Ivan Gabriel Motta hefur borið vitni um þetta sakarefni.  Hefur verið borið undir hann reikningsafrit AZF, 29. október 1999, sem komið er frá Jóni Gerald.  Hann kannast við skjalið og segir þetta vera reikning fyrir bíl sem hann hafi selt Nordica af gerðinni Jeep Grand Cherokee Limited.  Hann geti hins vegar ekki komið með samsvarandi skjal úr bókhaldi sínu þar sem bókhaldsskjöl séu ekki varðveitt lengur en í fimm ár.  Um liðinn flutningskostnað, 1.400 dollara, geti hann ekki sagt hvort hann hafi verið greiddur.  Hann sér ljósrit af tveimur tékkum úr bókhaldi Nordica að fjárhæð 10.000 og 23.000 dollarar og kveður þá hafa verið greiðslu fyrir bíl sem þar sé tilgreindur með skráningarnúmeri og hafi Jón Gerald skrifað það.  Hann kveður Nordica hafa greitt 33.000 dollara fyrir bílinn og Jón Gerald ekki fengið neina endurgreiðslu af því.   

Fram er komið hjá honum í öðru samhengi að frumrit reikninga frá honum séu gerð með ritvél en ekki í tölvu.   Hann segist hafa tölvuvætt reikningskerfi í fyrirtæki sínu en hinir vélrituðu reikningar séu gefnir út af öryggisástæðum.  Reikninga af þeirri gerð sé krafist í flestum löndum, enda geti hver sem er búið til reikninga í tölvu.  Einnig kom þar fram hjá honum að reikningar, eins og þessi, séu tölvureikningar. 

Íris Bjarnadóttir Ansnes starfaði á fjármálasviði Baugs hf. á þeim tíma sem máli skiptir, m.a. við sjóðstýringu.  Næsti yfirmaður hennar segir hún að hafi verið Linda Jóhannsdóttir og hafi hún ekki fengið fyrirmæli frá öðrum.  Hún kveðst muna að umræddur bíll hafi verið seldur Gaumi hf.  Ekki muni hún eftir bókhaldsfærslunum í þessu samhengi en kannast við að þær séu merktar af henni.  Hún kveðst ekki muna hver hafi gefið henni fyrirmæli um færslurnar.  Hún kveðst ekki muna sérstaklega eftir reikningnum með miðanum en hún segist gera ráð fyrir að það hafi verið ákærði sem skrifaði upp á reikninginn.  Hún kannast ekki við að hafa skrifað orðið bíll á miðann.  Stafirnir undir því orði líkist stöfunum á reikningnum.  Hún kannast við að hafa látið senda greiðsluna upp á 7.600 dollara á reikning Nordica en ekki muni hún að beiðni hvers það var gert.  

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök.  Jón Gerald Sullenberger hefur hins vegar borið að verð bílsins hafi verið hærra en það sem kemur fram á vörureikningi Nordica og aðflutningsskýrslu með bílnum sem um ræðir.  Eins og fram er komið bendir ýmislegt til þess að Jón Gerald beri þungan hug til ákærða og jafnvel annarra í fjölskyldu hans.  Hlýtur það að rýra sönnunargildi vitnisburðar hans.  Á hinn bóginn hefur við aðalmeðferð málsins komið fram vitnið Ivan Gabriel Motta og borið með Jóni Gerald um reikninginn.  Þegar framburður hans er metinn verður þó að hafa í huga að Jón Gerald virðist hafa verið fenginn til þess að fá hann til þess að  koma hingað til lands frá Bandaríkjunum til vitnisburðar, að þeir hittust  áður þar ytra, að þeir urðu samferða hingað til lands, bjuggu á sama hóteli og umgengust mikið meðan á dvöl þeirra stóð hér og loks að Ivan Motta hefur ekki verið fyllilega trúverðugt vitni, sbr. ákæruliði 39-40 hér á eftir. 

Beinar skjallegar vísbendingar hafa þó komið fram sem styðja framburð Jóns Geralds.  Þar á meðal er tölvugerður reikningur, sem Ivan G. Motta hefur staðfest að sé frá honum kominn og Jón Gerald hefur afhent lögreglu.  Það sem fram er komið hjá þeim tveimur um sams konar gögn í málinu leiðir hins vegar til þess að þetta skjal verður að skoða sem tilboð en ekki reikning fyrir endanlegu verði bílsins.  Frumrit reiknings frá AZF til Nordica fyrir bílnum hefur ekki verið lagt fram og mun vera glatað, sbr. hér á eftir.  Ekki er öðrum gögnum fyrir að fara frá AZF um þessi viðskipti.  Þá telst pöntunarblaðið sem Jón Gerald afhenti lögreglu vera bein vísbending um það að bílverðið hafi verið 34.450 dollarar, en það rýrir hins vegar sönnunargildi þessa skjals að það var prentað úr tölvu Jóns Geralds en var ekki komið í málið frá AZF.  Önnur bein vísbending um verð bílsins hlýtur að teljast ljósrit af tveimur tékkum Nordica til AZF, fyrir 23.000 dollurum og 10.000 dollurum, þar sem má lesa framleiðslunúmer bílsins, en eins og áður er sagt hlýtur sönnunargildi slíkra ljósrita af augljósum ástæðum að vera takmarkað.  Þá eru þessi gögn auk þess í smækkuðu ljósriti og ekki vel læsileg.  Reikningsyfirlit á tveimur blöðum þar sem þessir tékkar koma fram eru einnig í ljósriti.  Framburð Ivans G. Motta um að báðir þessir tékkar séu fyrir þessum tiltekna bíl verður einnig að meta með hliðsjón af því að hann er gefinn rúmum sex árum seinna og vitnið hefur engin gögn í fórum sínum til þess að byggja á. 

Óbein vísbending í sömu veru hlýtur að teljast, að reikningur Nordica til Baugs að fjárhæð 7.600 dollarar, sem ákærði samþykkti til greiðslu, hefur verið færður sem bíll í bókhaldi Baugs.  Á ljósriti af reikningnum, sem komið er í málið úr bókhaldi félagsins sést orðið “bíll” handritað og undir því stafir, sem ákærði hefur ekki borið á móti að séu hans.  Á hinn bóginn virðist þetta hafa staðið á miða sem ljósritaður er ofan í reikninginn.  Þennan miða kannast gjaldkerinn, sem framkvæmdi bókhaldsfærslur varðandi bílinn, ekki við.  Ákærði hefur að sínu leyti skýrt þennan reikning svo að hann sé að hluta til vegna þóknunar til Jóns Geralds við það að útvega bílinn en að hluta fyrir annað.  Hafi það verið mistök að færa allan þennan kostnað eins og gert var.  Dómurinn lítur svo á að þessi skýring ákærða sé í sjálfu sér ekki fráleit.

Þegar allt framangreint er metið, eindregin neitun ákærða, það að vitnin sem bera gegn honum geta ekki talist óaðfinnanleg og loks takmarkað sönnunargildi hinna skjallegu gagna, telur dómurinn ekki vera komnar fram sönnur um það að kaupverð bílsins hafi verið hærra en kemur fram í vörureikningi Nordica og í aðflutningsskýrslunni.  Verður því að telja þetta ósannað og sýkna ákærða af þessum ákærulið.

Ákæruliðir 39 og 40.

Fyrir liggur að vorið 2000 fluttu ákærðu Jóhannes og Kristín hvort sinn bíl með flugi frá Bandaríkjunum. Bíll ákærða Jóhannesar, KY-293, var af gerðinni GMC Grand Yukon og bíll Kristínar, KY-835, af gerðinni BMW.  Höfðu ákærðu fengið Jón Gerald, sem fyrr er nefndur, til þess kaupa bíla þessa fyrir sig þar ytra og senda til Íslands.  Setti Jón Gerald sig í samband við fyrirtækið Automotores Zona Franca í Miami í Flórída í þessu skyni.  Það fyrirtæki fann bíla af þeirri gerð sem ákærðu sóttust eftir hjá bílasölufyrirtækjum í Kanada.  Voru bílarnir fluttir þaðan til New York þaðan sem flogið var með þá hingað til lands.

Í málinu er aðflutningsskýrsla, dagsett 30. maí, þar sem reikningsverð bíls ákærða Jóhannesar er tilgreint 34.850 dollarar.  Með skýrslunni fylgdi samsvarandi vörureikningur frá Nordica til ákærða, dagsettur 12. apríl og undirritaður af Jóni Gerald.  Jón Gerald hefur undir rannsókn málsins afhent lögreglu annan undirritaðan reikning með sama númeri og sama efni, en dagsettan 25. maí, auk samhljóða reikningsblaðs, óundirritaðs.

Þá er í málinu aðflutningsskýrsla vegna bíls ákærðu Kristínar, dagsett 30. maí, þar sem reikningsverð er tilgreint 46.780 dollarar.  Með skýrslunni fylgdi samsvarandi vörureikningur frá Nordica til ákærðu, dagsettur 12. apríl og undirritaður af Jóni Gerald.  Jón Gerald hefur undir rannsókn málsins afhent lögreglu annan undirritaðan reikning með sama númeri og sama efni, en dagsettan 25. maí.

Jón Gerald hefur afhent lögreglu reikning frá Nordica á fyrirtækið Pönnupizzur, Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík, dagsettan 17. apríl og undirritaðan af honum, að fjárhæð 23.970 dollarar, auk samhljóða reikningsblaðs, óundirritaðs.  Er sá reikningur fyrir þóknun vegna veitingaþjónustu og “commissions finders”, svo og fyrir ráðgjöf.  Samkvæmt símbréfi Íslandsbanka, 19. apríl, til Nordica greiddu Pönnupizzur þennan reikning sama dag með millifærslu á reikning Nordica í Union Planters Bank.  Í málinu er frumrit af símbréfi Jóns Geralds til ákærða Jóhannesar, dagsett 12. apríl, þar sem hann óskar eftir því að 34.850 dollarar verði greiddir inn á reikning Nordica í Union Planters Bank á Miami Beach.  Þá er í málinu símbréf, dagsett 13. apríl, frá Íslandsbanka hf. til Nordica þar sem tilkynnt er um millifærslu að beiðni Gaums hf. á 81.630 dollurum á reikning Nordica í Union Planters, sem er samtala reikningsverðs beggja bílanna.  Meðal gagna sem Jón Gerald afhenti lögreglu eru símbréf frá Automotores Zona Franca, 7. og 12. apríl, til Nordica um bíla, sem fáanlegir séu og um búnað í þeim.  Segir þar að verð á bíl af gerðinni Yukon sé 42.000 dollarar með þeim búnaði sem þar er tiltekinn og verð á bíl af gerðinni BMW sé ýmist 56.800, 57.700 eða 61.000 dollarar, að ætla verður eftir búnaði bílsins.   Jón Gerald afhenti lögreglu einnig útprentað tölvuskeyti frá ákærðu Kristínu til hans, dagsett 10. apríl undir fyrirsögninni: “Reikn. vegna bílainnfl.”  Segir þar að best sé “að reikn. vegna bílanna komi annars vegar á mig og hins vegar á pabba. Það er í raun vegna skattsins. Þriðji reikn. væri best að hafa á Gaum.”  Þá eru þar gefin upp heimilisföng þeirra feðgina og Fjárfestingafélagsins Gaums ehf.  Komið hefur fram í meðferð málsins að rafrit af skjali þessu hafi hvorki fundist í tölvu ákærðu Kristínar né Jóns Geralds við athugun lögreglu. 

Í málinu er útfyllt eyðublað, dagsett 17. apríl, sem Jón Gerald afhenti lögreglu og hefur yfirskriftina “Shipment No# 10” og kemur þar fram yfirlit um vörur seldar Pönnupizzum fyrir 23.970 dollara, ákærða Jóhannesi fyrir 34.850 dollara og ákærðu Kristínu fyrir 46.780 dollara, samtals fyrir 105.600 dollara.  Aftan við nafn ákærða Jóhannesar hefur talan 43.800 verið skrifuð með öðru bleki og aftan við nafn ákærðu Kristínar talan 61.800, einnig með öðru bleki.  Þá kemur fram á blaðinu að kostnaður í tveimur liðum vegna Zona Franca, sé 56.800 og 42.000 dollarar, samtals 98.800 dollarar og loks er þar færður brúttóhagnaður af sölu, 6.800 dollarar.      

Þá afhenti Jón Gerald lögreglu ljósrit af tveimur reikningum frá Automotores Zona Franca, báða dagsetta 17. maí.  Þar er reikningsverð Yukon-bílsins tilgreint 43.400 dollarar og BMW-bílsins 58.200 dollarar.  Af því sem stendur efst á blaðröndinni má ráða að þessi skjöl hafi verið send í faxi frá Zona Franca 12. mars 2003.  Í yfirlitsskýrslu lögreglunnar um þennan þátt málsins kemur fram að þessi gögn hafi hann afhent 14. mars 2003.

Meðal gagnanna sem lögregla tók við úr hendi Jóns Geralds er ljósrit af tveimur tékkum Nordica til AZF Automotores, báðum dagsettum 20. apríl og báðum að fjárhæð 20.000 dollarar.  Á hvorn tékkanna hefur verið skrifað framleiðslunúmer annars af bílunum sem einnig eru tilgreind á reikningnum.  Þá hefur Jón Gerald einnig afhent smækkað ljósrit af tveim öðrum tékkum frá Nordica til AZF Automotive Group, báðum dagsettum 12. maí.  Annar tékkinn er að fjárhæð 22.000 dollarar og stendur framleiðslunúmer Yukon-bílsins á honum, en hinn að fjárhæð 36.800 dollarar og honum framleiðslunúmer BMW-bílsins.  Allir þessir tékkar koma fram á reikningsyfirliti frá Union Planters Bank sem Jón Gerald hefur afhent í ljósriti.  Fram er komið að fyrri tveir tékkarnir hafi reynst innistæðulausir.

Loks er að geta tölvuskeytis frá ákærðu Kristínu til Jóns Geralds, 26. september 2000 þar sem hún segist hafa verið að fá pappíra um bílainnflutninginn og segir þar verð þeirra vera mun hærra en hann hefði talað um í vor.  Hennar bíll hefði “komið út á” 8,1 milljón og bíll föður hennar á 6,3 milljónir.  Jafnframt spyr hún hvort þetta geti staðist.  Komið er fram að rafrit af þessu skeyti hefur fundist í tölvu Jóns Geralds en ekki í tölvu ákærðu Kristínar.

Næst er að geta gagna varðandi þessa ákæruliði, sem lögð hafa verið fram við aðalmeðferð málsins.  Ivan Gabriel Motta, sem áður er nefndur, hafði með sér skjöl úr fyrirtækjunum þegar hann kom fyrir dóm.  Eru þau í tveimur skjalamöppum eða umslögum með árituðum upplýsingum um viðskiptin með þessa tvo bíla.  Af skjölunum er fyrst að nefna reikninga með samliggjandi, áprentuðum númerum fyrir bíl af gerðinni BMW og öðrum bíl af gerðinni Yukon.  Hafa þeir sömu númer og reikningsljósrit sem Jón Gerald afhenti, þótt þau séu greinilega ekki gerð eftir þeim.  Á reikningnum varðandi BMW-bíl er hins vegar vísað til annars skráningarnúmers en kemur fram á reikningsljósritunum sem komu frá Jóni Gerald.  Virðast reikningarnir vera gerðir með ritvél á eyðublöð með áprentuðum númerum.  Fjárhæð hvors um sig er 1.400 dollurum lægri en fjárhæðin á reikningsljósritunum sem Jón Gerald afhenti. 

Þá er þar að finna útprentun af tölvuskeyti ákærðu Kristínar, dagsettu 4. október sem fyrr er getið.  Ennfremur eru meðal þessara gagna afrit af tveimur bankatékkum frá Union Planters Bank til AZF Automotive Group Inc., báðum að fjárhæð 20.000 dollarar, útgefnum 27. apríl og 3. maí.  Þá er þar einnig tilkynning (útprentun) bankans til AZF um tvo innistæðulausa tékka frá Nordica með sömu númerum og fjárhæð og fyrstu tveir tékkarnir frá Nordica.  Þá eru þar skjöl, sem virðast vera frumrit af hluta símbréfs frá Automotores Zona Franca til Nordica um bíla, sem fáanlegir séu og um búnað í þeim.

Þessu til viðbótar ber að geta gagna um skráningu tveggja bíla af gerðinni BMW í Kanada, hvors með sínu framleiðslunúmeri, annars vegar númers sem endar á tölunni -901 og hins vegar á tölunni -891.   Þá er að nefna yfirlýsingu Ivan G. Motta varðandi þetta, dagsetta 7. júní 2000, sem virðist ætlað að skýra það hvor þessara tveggja bíla hafi verið seldur ákærðu Kristínu.  Þannig hefur þó tekist til með þá skjalagerð að yfirlýsinguna virðist mega skilja á hvorn veginn sem er.

Loks ber að taka fram að sérstök lögreglurannsókn fór fram á því, samhliða aðalmeðferðinni í málinu, hvert sé framleiðslunúmer BMW-bílsins sem fluttur var inn til landsins.  Hefur verið aflað gagna um það hjá bifreiðaskráningunni og bíllinn sjálfur verið skoðaður.  Leiddi sú rannsókn í ljós að framleiðslunúmer þess bíls endar á -891.

Ákærði Jóhannes kannast við að hafa keypt Yukon-bílinn sem um ræðir.  Kveðst hann hafa haft samband við Jón Gerald og þeir ráðgast um bílakaupin.  Hafi hann sagt Jóni Gerald hvernig bíl hann vildi fá og Jón Gerald tekið að sér að finna hann.  Ekki hafi verið rætt um verð á milli þeirra.  Ekki muni hann til þess að Jón Gerald bæri undir hann verðið þegar bíllinn var fundinn, enda segist hann ekki horfa í slíkar fjárhæðir og hefði aldrei farið að fórna viðskiptaheiðri sínum fyrir svona lagað.  Hann segist ekki hafa gefið nein fyrirmæli um reikningsgerð í þessu sambandi, en hann hafi tekið fram við Jón Gerald að hann skyldi selja ákærða bílinn í gegn um fyrirtækið Nordica.  Minnir ákærða að bíllinn hafi komið í flugi til landsins.  Gaumur muni svo hafa greitt reikninginn frá Nordica en ekki muni hann hvað bíllinn kostaði.  Ekki muni hann hvort talað hafi verið um þóknun til Jóns Geralds en hann hljóti að hafa fengið eitthvað fyrir sinn snúð.  Hann segir sig minna að Bílabúð Benna hafi verið fengin til þess að fá bílinn tollafgreiddan.  Ekki muni hann til þess að hafa skipt sér af því og líklega hafi tiltekinn starfsmaður fyrirtækisins séð um þetta.  Kveðst hann ekki hafa séð neina pappíra varðandi innflutninginn.  Hann kveðst aldrei hafa átt nein skipti við fyrirtækið AZF og aldrei séð reikninginn frá því.  Hann kveðst ekki hafa haft með að gera viðskiptin með BMW-bílinn.  Hann kveður Gaum hf. hafa átt fyrirtækið Pönnupizzur á þessum tíma.  Kveðst hann hafa verið stjórnarformaður þess fyrirtækis en þáverandi tengdasonur hans hafi séð um reksturinn.  Hann kveðst ekki hafa skipt sér af rekstrinum, svo sem með því að skrifa upp á reikninga, en þó lagt á það áherslu að bregðast yrði við tapi sem hafi verið á rekstrinum.  Hann kannast ekki við reikninginn frá Nordica á það fyrirtæki og telur sig vita að það fyrirtæki hafi ekki keypt bíla af Jóni Gerald.  Geti hann ekki skýrt þennan reikning.    

Ákærða Kristín kannast við að hafa flutt inn bíl af gerðinni BMW.  Kveðst hún hafa keypt bílinn af Nordica eftir að hún fékk Jón Gerald til þess að finna slíkan bíl og kaupa fyrir sig.  Ekki hafi verið rætt fyrir fram um hvað hann mætti kosta og ekki verið rætt um verðið að hana minnir fyrr en hún fékk reikning frá Nordica.   Hafi hún engin fyrirmæli gefið Jóni Gerald um það hvernig reikningurinn skyldi úr garði gerður.  Hún kveðst hafa séð um að greiða reikninginn fyrir bílinn.  Ekki minnist hún þess að rætt hafi verið um þóknun til Jóns Geralds fyrir hans ómak.  Hún segir Bílabúð Benna hafa séð um að leysa bílinn úr tolli.  Hún kveðst ekki geta skýrt muninn á reikningnum frá AZF til Nordica og reikningnum frá Nordica til hennar.  Hún kveðst einnig hafa séð um að greiða reikninginn fyrir Yukon-bíl föður hennar og muni hún hafa greitt báða reikningana saman.  Hún muni ekki hver lét reikningana fyrir bílana ganga til Bílabúðar Benna eftir að hún fékk þá frá Nordica.  Hún kveður Gaum hf. hafa átt Pönnupizzur á þessum tíma og þáverandi eiginmaður hennar, Jón Garðar Ögmundsson, hafi verið framkvæmdastjóri þar.  Hún kveðst ekki hafa vitað um reikning Nordica á Pönnupizzur á þessum tíma.  Hún viti þó að einhver viðskipti hafi verið á milli fyrirtækjanna en hún hafi ekki haft með reksturinn að gera.  Þau hjón hafi farið út í frí og Jón Garðar þá hitt Jón Gerald út af viðskiptunum en henni ekki verið kunnugt um hvers eðlis þau væru.   Ekki muni hún hversu lengi þeir funduðu um þetta þegar þeir hittust.  Um tölvuskeytið frá 10. apríl 2000 segir ákærða að hún muni ekki eftir því að hafa sent það.  Hún kannast við netfangið á því sem sitt eigið.  Um hitt tölvuskeytið frá 26. september segir ákærða að hún kannist ekki við að hafa sent það og kveðst ekki minnast þess að hafa verið óánægð með verðið á bílunum.  Þá segist hún ekki hafa séð nein gögn frá AZF á þessum tíma og aldrei átt nein skipti við það fyrirtæki.  Hafi hún ekki vitað hvar Jón Gerald keypti bílinn sem hún flutti inn. 

Jón Gerald hefur skýrt frá því að ákærði Jóhannes hafi hringt í sig og beðið um að útvegaður yrði bíll fyrir hann og einnig bíll handa dóttur hans, ákærðu Kristínu, sem hann ætlaði að gefa henni.  Hafi ákærði tilgreint af hvaða tegund og árgerð bílarnir skyldu vera.  Í skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 6. október 2002 er haft eftir honum að ákærði Jóhannes hafi óskað eftir því að reikningarnir vegna bílanna yrðu lægri en raunverð þeirra.  Framburður hans fyrir dómi verður hins vegar ekki skilinn öðru vísi en svo að  ákærði hafi engin fyrirmæli gefið um slíkt heldur vísað á dóttur sína um allt sem viðkæmi greiðslu.  Telur Jón Gerald þó að ákærði Jóhannes hafi vitað hvernig reikningarnir skyldu útbúnir.  Um þetta hafi hann þó engin gögn.  Hafi hann spurt ákærðu Kristínu um þetta og hún þá sent tölvupóst þar sem sagði hverjir ættu að greiða fyrir bílana.  Kannast hann við útprentun af tölvuskeyti ákærðu Kristínar, 10. apríl, sem hann afhenti lögreglu.  Kveðst hann hafa varðveitt það með öðrum gögnum um þessi bílakaup. Hann kveðst ekki geta skýrt af hverju þetta skeyti fannst ekki í tölvu hans þegar hún var athuguð.  Hann getur þess að þetta netfang sé ekki lengur í notkun.  Hann kveður þetta skjal vera ófalsað.   Þá kannast hann við tölvuskeyti frá ákærðu 26. september og kveður skeyti þetta vera ófalsað og frá henni komið.  Hann segir ákærðu hafa verið óánægða með það hvað bílarnir reyndust dýrir þegar þeir voru komnir til landsins.    

Auk þessa hafi ákærða Kristín sagt fyrir um hvernig reikningarnir skyldu hljóða og að einn skyldi stílaður á Pönnupizzur.  Hafi hún einnig sagt fyrir um fjárhæðir reikninganna.  Engar skýringar hafi verið gefnar á þessu fyrirkomulagi.  Hafi hann orðið að gera þetta til þess að fá aftur kostnað sem hann hafði lagt út fyrir bílunum.  Sérstaklega aðspurður segir hann að ákærði Jóhannes hafi ekki gefið fyrirmæli um þetta.  Hann staðfestir að reikningar sem framvísað var hjá tollyfirvöldum vegna bílanna séu frá honum komnir svo og samsvarandi reikningar í öðrum útgáfum, sem hann hefur látið í té.  Ennfremur hafi hann útbúið reikninginn á Pönnupizzur.  Hann skýrir mismunandi dagsetningar á þessum reikningum þannig að fyrstu reikningarnir hafi verið pro forma-reikningar sem hann hafi sent ákærðu Kristínu til þess að fá greitt fyrir bílana.  Tölvan dagsetji svo sjálfkrafa reikningsútprentunina eftir því hvenær hún er gerð. 

Að heildarfjárhæð þeirra þriggja reikninga sem hann sendi til Íslands sé 6.800 dollurum hærri en heildarfjárhæð reikninganna frá AZF skýrir hann með flutningskostnaði af bílunum til New York og kostnaði við að koma þeim í flug þar, auk þóknunar til hans.  Það sem sé skráð sem brúttóhagnaður á “Shipment No# 10” sé í raun brúttókostnaður “áður en það var kominn kostnaður við flutningana á bílunum til New York”.  Þá sé einnig inni í þessu þóknun til hans sjálfs sem numið gæti um 4.000 dollurum sem hann hafi lagt á bílaverðið, enda lifi hann ekki á loftinu.     

Jón Gerald kannast við ljósrit af reikningi frá Automotores Zona Franca að fjárhæð 58.200 dollarar.  Segir hann þetta vera reikning fyrir bíl ákærðu Kristínar.  Um kostnaðarliðinn 1.400 dollarar segir hann það sama og áður, að hann hafi beðið bílasalann um að gera sér tilboð í flutninginn á bílnum til New York en hann hins vegar ákveðið að sjá um flutninginn sjálfur.  Þessa fjárhæð hafi hann því ekki greitt AZF.  Þá kannast Jón Gerald við hinn reikninginn frá AZF og segir hann vera fyrir bíl ákærða Jóhannesar.  Um flutningskostnaðarliðinn sé það sama að segja og hann hefur sagt um hinn reikninginn; hafi það verið tilboð í flutning.   Báða þessa reikninga kveðst hann hafa látið lögreglu í té, annað hvort þegar hann lagði fram kæruna eða þegar lögreglumenn komu út til þess að hitta hann og fá gögn úr bókhaldinu.  Honum er þá bent á að þessi skjöl beri það með sér að hafa verið send í faxi í mars 2003.  Kveðst hann ekki geta skýrt það.  Hann segir aðspurður þessa reikninga ekki vera endanlega en reikningarnir sem Ivan Motta hafi afhent séu endanlegir reikningar og þar sé flutningskostnaðurinn ekki með.   

Undir Jón Gerald er borinn reikningur, sem Ivan G. Motta hefur afhent og varðar bíl af gerðinni BMW og gerð var grein fyrir að ofan.  Hann segir þetta vera lokareikning, endanlegan reikning fyrir viðskiptunum, og án flutningskostnaðarins.   Hann kannast við tékkaljósritin sem hann hefur afhent lögreglu og kveður þetta vera tékka sem hann hafi gefið út fyrir bílunum tveimur.  Hann segir tvo fyrri tékkana, hvorn upp á 20.000 dollara, hafa reynst innistæðulausa og hann því fengið útgefna tvo bankatékka í þeirra stað og látið ganga til AZF.  Hann sér afrit af tékkum meðal þeirra skjala sem Ivan G. Motta hefur afhent og staðfestir að þau séu af umræddum bankatékkum.  Hann kveðst ekki geta skýrt af hverju hann tók ekki fram í lögregluyfirheyrslunni 6. október 2002 að tékkarnir hafi reynst innistæðulausir.  Hann bendir þó á að þetta hafi komið fram í tékkayfirliti sem hann afhenti lögreglu.  

Um Jón Garðar Ögmundsson segir Jón Gerald að það sé alrangt sem fram hafi komið hjá honum að þeir hafi átt mikil samskipti fyrrum.  Hann kannast við að hafa hitt Jón Garðar á ferðum sínum hingað til lands en það hafi aðeins verið fyrir það að Jón Garðar hafi verið með skrifstofuherbergi inni á skrifstofu Vöruveltunnar en þangað kom Jón Gerald í viðskiptaerindum.  Hann hafi aldrei átt nein viðskipti við hann í þeim tilvikum og þeir einungis átt saman kunningjaspjall.  Hann muni eftir því að þau ákærða Kristín og  Jón Garðar hafi komið með börnin til Flórída og hafi þeir þá hist.  Hafi þau búið á “bátnum” meðan þau dvöldust þar í viku eða tíu daga.  Kveðst hann hafa hitt þau einu sinni eða tvisvar á þessum tíma þegar hann kom til þess að athuga hvort ekki væri allt í lagi á bátnum.  Hafi þá aðeins verið spjallað um daginn og veginn.  Sé það alrangt sem Jón Garðar segi að þeir hafi varið nokkrum dagpörtum í að heimsækja seljendur brauðdeigs vegna fyrirtækisins Pönnupizzur.  Sé reikningurinn á Pönnupizzur fyrir mismuninum á bílareikningunum.  Hann kannast við að hafa fengið lánaðan bíl hjá Jóni Garðari þegar hann var hér á ferðum sínum og þá vanalega hafa sótt bílinn í vinnuna til hans. 

Jón Gerald segir aðspurður að upphaflega hafi verið pantaður annar bíll fyrir ákærðu  Kristínu en sá sem fluttur var inn.  Hann hafi misst af þeim bíl og því annar sömu gerðar en með öðru framleiðslunúmeri verið fenginn í hans stað.

Jón Gerald er spurður út í misræmi milli skýrslu hans og þess sem komið sé fram í málinu um hver greitt hafi flutningskostnaðinn til Íslands og segir hann það hljóta að stafa af misskilningi við skýrslutökuna.

Jón Garðar Ögmundsson, fyrrverandi eiginmaður ákærðu Kristínar, var framkvæmdastjóri fyrirtækisins Pönnupizzur á árunum 1999 og 2000.  Hann kannast við reikning Nordica 17. apríl 2000 á Pönnupizzur.  Hann segir reikninginn vera fyrir aðstoð Jóns Geralds við það að koma á viðskiptum með deig í “brauðstangir”.  Kveðst hann hafa farið út haustið 1999 ásamt konu sinni, ákærðu Kristínu, til Miami þar sem aðalbirgir þeirra var með vöruhús.  Þetta hafi bæði verið fjölskyldu- og vinnuferð.  Hafi þeir Jón Gerald farið á ýmsa staði að skoða ýmislegt þessu viðvíkjandi, umbúðir, deig og fleira.  Úr þessu hafi orðið heilmikil vinna, heimsóknir í ýmis vöruhús og fleira.  Hafi þeir varið í þessi ferðalög 2 til 3 dagpörtum.  Kristín hafi ekki verið með þeim þá.    Eftir nokkurn tíma, á að giska 3 til 4 mánuði, og vinnu hafi hins vegar komið í ljós að ekki gat orðið úr viðskiptum með deig og annað þar sem bökunarhiti þess var annar en á vörum sem fengnar voru frá Evrópu og fyrirtækið var með fyrir og aukaefni voru önnur en leyfð eru í Evrópu.  Kveðst Jón Garðar hafa varið í þetta nokkrum dögum þar ytra.  Ekki muni hann lengur hve oft hann hafi hitt Jón Gerald út af þessu en þeir hafi einnig talast við í síma.  Auk þessa hafi þeir hist þegar Jón Gerald kom til Íslands bæði vegna þessa og eins hins að hann fékk þá alltaf bíl að láni hjá sér.  Enginn skriflegur eða munnlegur samningur hafi verið gerður um þessa þjónustu Jóns Geralds.  Engin fylgiskjöl né sundurliðun hafi fylgt reikningnum frá Nordica.  Aftur á móti hafi Jón Gerald reifað við sig þann tíma og kostnað sem hafði farið í þetta hjá honum.  Hafi hann stungið upp á þessari fjárhæð og vitninu sýnst hún vera sanngjörn og samþykkt hana.  Upphaflega hugmyndin hafi verið sú að þetta gætu orðið ábatasöm viðskipti sem skiluðu Jóni Gerald tekjum í formi umboðsþóknunar.  Þar sem ekki varð úr þessu og hann hafði átt frumkvæðið að þessu hafi honum þótt eðlilegt að Jón Gerald fengi greitt fyrir þessa vinnu. 

Hann segir það vera sér óskiljanlegt að Jón Gerald beri á annan veg um þessi samskipti þeirra og reikninginn. Hann kveðst hafa kynnst Jóni Gerald fyrir um 15 árum þegar Bónus hf. var stofnað.  Hann hafi verið með barnavörur af ýmsu tagi sem hann flutti inn frá Ameríku.  Hafi hann keypt megnið af þeim vörum af Jóni Gerald og þeir þá kynnst vel. 

Hann segist minnast þess að á þessum tíma hafi eiginkona hans, ákærða Kristín, verið að leita sér að bíl hjá “BL” en þar hafi ekki verið bíl að fá sem hún vildi og að endingu hafi hún ákveðið að snúa sér að þeirri leið sem valin var.  Þá segir hann að ekki hefðu verið rædd bílakaup í Flórídaferðinni.  Hann kveðst ekki vita annað um þessi bílakaup en að ákærðu hafi langað í bíl af þessari gerð og hún hljóti að hafa beðið Jón Gerald um að útvega hann.  

Hann kveður ákærða Jóhannes hafa setið í stjórn félagsins Pönnupizzur og setið fundi með vitninu og fylgst með án þess þó að skipta sér af daglegum rekstri.  Ákærða Kristín hafi ekki komið að rekstri fyrirtækisins. 

Ivan Motta hefur borið vitni um þessi sakarefni og undir hann verið borin gögn sem hann hefur afhent lögreglu.   Um reikning, sem virðist vera frumrit á númeruðu eyðublaði og varðar BMW-bíl, segir hann að það sé reikningur sem sé útbúinn vegna útflutnings.  Séu slíkir reikningar gerðir með ritvél en ekki í tölvu og séu því frumrit.   Þessi tiltekni reikningur varði BMW-bíl sem hafi verið fluttur inn til Bandaríkjanna frá Kanada og svo sendur áfram til Íslands.  Hann segist hafa tölvuvætt reikningskerfi í fyrirtæki sínu en einnig séu gefnir út vélritaðir reikningar af öryggisástæðum, eins og þessi tiltekni reikningur.   Undir hann er borinn reikningur AZF  úr bókhaldi Nordica og segir hann þennan reikning vera pro forma - reikning eða tilboð.

Um mismunandi framleiðslunúmer BMW-bílanna segir vitnið frá á sama veg og Jón Gerald.  Gögn varðandi þetta eru borin undir hann og hann er rækilega spurður hvort bíllinn sem hefur verksmiðjunúmer -901 og tilgreindur er á frumreikningnum sé sá sem seldur var til Íslands.  Svör hans við frekari spurningum um þetta eru misvísandi.

Um annan sams konar reikning, sem varðar Yukon-bíl, segir hann að hann sé frumreikningur, eins og hinn, vélritaður og gerður í þríriti.  Reikninga af þessari gerð sé krafist í flestum löndum, enda geti hver sem er búið til reikninga í tölvu.  Spurður um ástæðu þess að þessi reikningsfrumrit voru hjá honum en höfðu ekki verið afhent Jóni Gerald segir hann að Jón Gerald hafi aldrei vitjað um þau.

Undir hann er borinn reikningur AZF úr bókhaldi Nordica og segir hann þennan reikning vera reikning úr tölvu. 

Hann segir að bílarnir hafi verið pantaðir samtímis eftir að greitt hafði verið inn á þá, helmingur verðsins, að hann minni.  Þegar bílarnir voru tilbúnir til sendingar hafi hann krafist fullrar greiðslu.  Hann kannast við tékkaljósritin tvö sem komin eru úr bókhaldi Nordica og segir það vera tékka sem reynst hafi innistæðulausir, að hann minnir.  Seinna hafi Nordica látið hann hafa bankatékka.  Séu tékkaafritin sem hann hefur afhent af þessum bankatékkum.  Þá kannast hann við ljósrit af tveimur tékkum sem komnir eru frá Jóni Gerald að fjárhæð 22.000 dollarar og 36.800 dollarar.  Kveður hann þetta vera tékkana fyrir eftirstöðvunum af verði bílanna.  Þessir fjórir tékkar séu því full greiðsla fyrir bílana sem reikningar hans varða. 

Um flutningskostnaðinn að fjárhæð 1.400 dollarar á tölvugerðu reikningunum segir hann að fyrst hafi staðið til að AZF sæi um flutninginn en til þess hafi ekki komið því Jón Gerald hafi ákveðið að sjá um flutninginn sjálfur.  Hafi þessi fjárhæð því ekki verið greidd.  Þessir tölvugerðu reikningur hafi verið sendir Nordica áður en Jón Gerald ákvað þetta. 

Hann segir aðspurður um þessa reikninga að hann hafi ekki sent þá til Jóns Geralds í mars 2003 og muni ekki eftir því að þeir hafi verið sendir frá honum.  Þá segir hann þá Jón Gerald ekki hafa yfirfarið gögnin sem hann hafði með sér til Íslands áður en hann afhenti þau yfirvöldum hér.  Hafi Jón Gerald fyrst séð þessi gögn sl. sunnudag og hafi hann fylgt vitninu til lögreglunnar. 

Undir Ivan Motta er borin útprentun tölvuskeytis, sem hann hefur afhent og er sama skeyti og Jón Gerald afhenti lögreglu.  Hann kveðst ekki muna hvenær hann fékk skjal þetta í hendur en hann hafi fengið það frá Nordica til þess að hann gæti gengið frá útflutningspappírum vegna bílanna, enda hafi hann ekki haft nöfn og heimilisföng bíleigendanna tiltæk.  Hann kveðst stundum nota tölvupóst en hann muni ekki til þess að hafa verið í sambandi við Jón Gerald  með tölvupósti vegna bílakaupanna.  Varðandi þetta tiltekna skeyti muni hann ekki hvernig hann fékk það, hvort það var í tölvupósti eða faxi.

Niðurstaða

Ákærðu neita bæði sök.  Jón Gerald Sullenberger hefur hins vegar borið að verð bílanna hafi verið hærra en það sem kemur fram á vörureikningum Nordica og aðflutningsskýrslum með bílunum.  Áður er komið fram að Jón Gerald virðist bera þungan hug til ákærða Jóns Ásgeirs og jafnvel annarra í fjölskyldu hans.  Hýtur þetta að draga úr sönnunargildi framburðar hans.  Á hinn bóginn hefur við aðalmeðferð málsins komið fram vitnið Ivan Gabriel Motta og hefur hann afhent ýmisleg skjalleg sönnunargögn í málið.  Þegar framburður hans er metinn verður þó að hafa í huga að Jón Gerald virðist hafa verið fenginn til þess að fá hann til þess að  koma hingað til lands frá Bandaríkjunum til vitnisburðar, að þeir hittust  áður þar ytra og að Jón Gerald fór þá yfir skjölin hjá honum, að þeir urðu samferða hingað til lands, bjuggu á sama hóteli og umgengust mikið meðan á dvöl þeirra stóð hér og loks að Ivan Motta kannast ekki við að hafa símsent blöðin til Jóns Geralds í mars 2003, sbr. hér á eftir.

Beinar skjallegar vísbendingar um að raunverð bílanna hafi verið hærra en reikningsverð þeirra við tollafgreiðslu eru nokkrar: 

Símbréfin frá Automotores Zona Franca til Nordica 7. og 12. apríl um verð bílanna sem Jón Gerald afhenti lögreglu eru studd samsvarandi blöðum úr bókhaldi AZF.  Þau geta þó ekki talist vera reikningar heldur einhvers konar sölutilboð og sönnunargildi þeirra um raunverulegt verð bílanna hlýtur að teljast takmarkað.

Reikningsblöðunum sem Jón Gerald afhenti lögreglu í mars 2003 ber saman um verð og við þá reikninga sem Ivan Motta hafði með sér hingað til lands.  Á hinn bóginn bera þessi blöð, sem telja verður að séu sölutilboð, það með sér að hafa upphaflega verið verið símsend frá AZF til Jóns Geralds í mars 2003 (Ivan Motta kannast að vísu ekki við það), þ. e. rúmu hálfu ári eftir að Jón Gerald hafði kært til lögreglu.  Einnig er á það að líta að frumreikningarnir komu ekki upphaflega í málið úr bókhaldi Nordica.  Þá hefur ekki komið fram skýring á því að sama dagsetning er á frumreikningunum sem  Ivan Motta kom með og tilboðsblöðunum sem Jón Gerald lét í té.  Loks er það að athuga varðandi BMW-bílinn sérstaklega, að á tilboðsblaðinu um hann, sem ætti að væri eldra en endanlegur reikningur, skuli vera framleiðslunúmer bílsins, sem fluttur var til landsins, en á endanlegum reikningi skuli vera framleiðslunúmer fyrri bílsins, sem ekki var keyptur.  Þykir þetta, ásamt ruglingslegum framburði Ivans Motta um þetta atriði, draga talsvert úr sönnunargildi þessara skjala allra.

Tékkar Nordica með greiðslum fyrir bílana, sem eru auk þess merktir framleiðslunúmerum þeirra, og reikningsyfirlit þar sem þeir koma fram teljast vísbending um það að raunverð bílanna hafi verið hærra en verð þeirra samkvæmt reikningum Nordica.  Á hitt er þó að líta að þessi gögn eru öll í ljósriti og sumpart í smækkuðu ljósriti.  Sönnunargildi slíkra skjala telur dómurinn því að sé takmarkað.Aftur á móti hefur Ivan Motta afhent afrit af tveimur bankatékkum, 27. apríl og 3. maí 2000, hvorum að fjárhæð 20.000 dollarar, sem bera með sér að vera greiðsla Nordica til AZF.  Dómurinn telur þessi gögn vera örugg en á það er að líta að samanlagt andvirði þessara tveggja tékka er lægra en uppgefið tollverð bílanna.   

Óbeinar vísbendingar um að raunverð bílanna hafi verið hærra en reikningsverð þeirra við tollafgreiðslu eru nokkrar: 

Blað sem komið er úr bókhaldi Nordica og ber yfirskriftina “Shipment No# 10” hefur Jón Gerald útbúið sjálfur og á það virðist hafa svo verið fært með öðru bleki, eins og til skýringar, hvernig samanlögð fjárhæð reikninganna þriggja frá Nordica skiptist á milli ákærðu Jóhannesar og Kristínar.  Telur dómurinn sönnunargildi þessa skjals vera takmarkað.

Tölvuskeyti 10. apríl 2000 frá ákærðu Kristínu til Jóns Geralds um að skipta verði bílanna á þrjá reikninga, sem Jón Gerald hefur afhent lögreglu, hefur Ivan Motta einnig haft eintak af og það verið lagt fram við aðalmeðferð málsins.  Ákærða kannast ekki við þetta skeyti og rafrit þess hefur hvorki fundist í tölvu hennar né í tölvu Jóns Geralds.  Telur dómurinn sönnunargildi þessara gagna því vera takmarkað.

Tölvuskeyti 26. september 2000 frá ákærðu Kristínu til Jóns Geralds um verð á bílunum er komið frá honum.  Ákærða kannast ekki við þetta skeyti og rafrit þess hefur einungis fundist í tölvu Jóns Geralds.  Telur dómurinn sönnunargildi þessa gagns einnig vera takmarkað.

Loks ber að nefna reikning Nordica á fyrirtækið Pönnupizzur að fjárhæð 23.970 dollarar.  Skýringar Jóns Garðars Ögmundssonar á þeim reikningi verður að telja að séu ósennilegar um það sem hann segir vera að baki reikningnum, bæði vegna fjárhæðarinnar, sem dómurinn álítur mjög háa, og eins hins, að engin fylgigögn eða greinargerð voru með honum í bókhaldi fyrirtækisins.  Dómurinn telur reikning þennan vera grunsamlegan en vísbending er í um það málinu að hann gæti skýrst af öðrum málsatvikum en þeim sem nú er ákært fyrir.

Þegar allt framangreint er virt, eindregin neitun ákærðu, það að vitnin, sem bera gegn þeim, geta ekki talist óaðfinnanleg, takmarkað sönnunargildi hinna skjallegu gagna og sumpart óvissa um tilurð þeirra, telur dómurinn, að ekki séu komnar fram sönnur um það, að kaupverð bílanna hafi verið hærra en kemur fram í vörureikningum Nordica og aðflutningsskýrslunum.  Ber því að sýkna ákærðu af þessum ákæruliðum.

Sakarkostnaður.

Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið mið af vinnuskýrslum verjenda og viðmiðunarreglum dómstólaráðs.  Þá er virðisaukaskattur innifalinn í málsvarnarlaununum.  Málsvarnarlaun verjanda ákærða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Gests Jónssonar hrl., ákveðast þannig 15.000.000 króna.  Málsvarnarlaun verjanda ákærða Jóhannesar Jónssonar, Einars Þórs Sverrissonar hdl., ákveðast þannig 6.000.000 króna.  Málsvarnarlaun verjanda ákærðu Kristínar Jóhannesdóttur, Kristínar Edwald hrl., ákveðast þannig 7.200.000 krónur.  Málsvarnarlaun verjanda ákærða Tryggva Jónssonar, Jakobs R. Möller hrl., ákveðast þannig 4.400.000 króna.  Málsvarnarlaun verjanda ákærðu Stefáns Hilmars Hilmarssonar og Önnu Þórðardóttur, Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., ákveðast þannig 8.200.000 króna.  Yfirlit um sakarkostnað í málinu hefur ekki borist frá ákæruvaldinu, sbr. 2. mgr. 168. gr. oml., sbr. lög nr. 82, 2005.  Hins vegar hafa verjendur ákærðu Jóns Ásgeirs, Stefáns Hilmars og Önnu lagt fram yfirlit yfir kostnað sem ákærðu hafa haft af öflun sérfræðiálita og gagna þeim tengdum. Nemur kostnaður ákærða Jóns Ásgeirs samtals 15.936.375 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti og kostnaður ákærðu Stefáns Hilmars og Önnu 937.920 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti.  Samkvæmt 166. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. b - lið 164. gr. sömu laga  ber að greiða allan þennan kostnað úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málsvarnarlauna og annars sakarkostnaðar hefur verið litið til málsins í heild eins og það var samkvæmt ákærunni, en með dómi Hæstaréttar 10. október sl. var fyrstu 32 ákæruliðum vísað frá dómi.  Í dómi Hæstaréttar var kveðið á um að ákvörðun sakarkostnaðar, þar með talinna málsvarnarlauna, skyldi bíða efnisdóms.

Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómendurnir Arngrímur Ísberg héraðsdómari og Garðar Valdimarsson, hrl. og löggiltur endur­skoðandi, kváðu upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærðu, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Kristín Jóhannesdóttir, Tryggvi Jónsson, Stefán Hilmar Hilmarsson og Anna Þórðardóttir, eru sýkn af ákæru í máli þessu.

Málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði sem hér segir:  Gesti Jónssyni hrl., 15.000.000 króna, Einari Þór Sverrissyni hdl., 6.000.000 króna, Kristínu Edwald hrl., 7.200.000 króna, Jakobi R. Möller hrl., 4.400.000 króna og Þórunni Guðmundsdóttur hrl., 8.200.000 króna. 

Annar sakarkostnaður, samtals 16.874.295 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði.