Print

Mál nr. 239/2002

Lykilorð
  • Skattur
  • Innheimta
  • Alþjóðasamningar
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. október 2002.

Nr. 239/2002.

Tollstjórinn í Reykjavík og

íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

Skúla Thoroddsen

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Skattar. Innheimta. Alþjóðasamningar. Frávísun að hluta frá héraðsdómi.

Yfirvöld í Svíþjóð óskuðu eftir því að T veitti aðstoð sína við innheimtu skattkröfu á hendur S í samræmi við samning milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989, sbr. lög nr. 46/1990, og alþjóðasamning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 74/1996. Að kröfu T dró vinnuveitandi S af launum hans vegna greiðslu fyrrnefnds skatts. S krafðist að T yrði dæmdur til að endurgreiða sér þessa fjárhæð þar sem ákvörðunin hefði verið ólögmæt. Tekið var fram að ekki yrði leyst úr greiðslukröfu S án þess að taka afstöðu til gildis þeirrar ákvörðunar. Þar sem S hefði ekki sýnt fram á að hann hefði hagsmuni að lögum af því að leyst yrði sérstaklega úr ólögmætis- og ógildingarkröfu hans yrði þeim kröfum vísað frá dómi. Þá var aðild Í talin óþörf og kröfum S á hendur því vísað frá héraðsdómi. Af gögnum málsins mátti ráða að aðstoðar væri óskað til innheimtu tekjuskatts með álagi. Var talið að sú innheimta félli að ákvæðum umræddra samninga en tekið fram að það færi að löggjöf þess ríkis, sem beiðni um aðstoð við innheimtu væri beint til, hvernig með hana skyldi fara. Yrði ákvæði 2. mgr. 4. gr. samnings Norðurlandanna ekki öðruvísi skilið en að þar undir gæti fallið aðstoð vinnuveitenda skattgreiðanda. Hins vegar var ekki fallist á að innheimtuúrræði það sem T beitti í málinu fæli í sér að krafa S yrði rétthærri öðrum kröfum, sbr. 15. gr. samningsins um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð og 1. mgr. 16. gr. samnings Norðurlandanna. Væri um að ræða sérstakt innheimtuúrræði að lögum samkvæmt 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Takmarkaðist innheimtan af ákvæðum greinarinnar og reglum settum með heimild í henni. Þar sem S hafði ekki sýnt fram á að þeirra ákvæða hefði ekki verið gætt með hæfilegum hætti og innheimta T fór að framangreindum lagaákvæðum var T sýknaður af endurheimtukröfu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

        Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

        Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. maí 2002. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

        Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í máli þessu leitast stefndi við að fá áfrýjanda dæmdan til að endurgreiða sér 135.027 krónur, sem vinnuveitandi stefnda, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, dró af launum hans í febrúar 2002 að kröfu áfrýjanda 8. nóvember 2001. Áður hafði áfrýjandi með bréfi 24. október 2001 skorað á stefnda að greiða sér 2.631.319 krónur eða semja um greiðslu þeirra ekki síðar en 6. nóvember sama ár. Í bréfinu kemur fram að krafa áfrýjanda varðar innheimtu skatts frá Svíþjóð. Hafði Kronofogdemyndigheten í Stokkhólmi óskað eftir því með bréfi 12. mars 2001 að áfrýjandi veitti aðstoð sína við innheimtu þessarar kröfu. Skattakröfur þessar eru samkvæmt upplýsingum áfrýjanda frá árunum 1993 og 1994. Áttu þær að fyrnast 31. desember 2000, en með dómi Länsrätten í Dalaléni í máli Kronofogdemyndigheten í Gävle gegn stefnda féllst rétturinn á að framlengja fyrningarfrestinn í fimm ár fram til 31. desember 2005. Samkvæmt endurriti dóms Kammarrätten i Sundsvall, sem lagður var fyrir Hæstarétt, hefur sá réttur nú staðfest dóm lénsréttarins. Stefndi flutti heim til Íslands 1995 og hefur ekki verið búsettur í Svíþjóð eftir það og hafa sænsk skattyfirvöld því ekki getað innheimt álagða skatta þar og freista því innheimtu hér á landi með aðstoð íslenskra tollyfirvalda í samræmi við samning milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989, en samningnum var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 46/1990 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta hann fyrir Íslands hönd. Þá er jafnframt vísað til alþjóðasamnings um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sem gerður var í Strassborg 25. janúar 1988 og veitt lagagildi hérlendis með lögum nr. 74/1996 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda hann fyrir Íslands hönd. Norðurlöndin munu samkvæmt upplýsingum áfrýjanda öll vera aðilar þess samnings.

II.

Krafa stefnda um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda er á því reist að ákvörðun tollstjóraembættisins samkvæmt bréfi þess til vinnuveitanda hans, Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, hafi verið ólögmæt, en ákvörðunin varðaði, svo sem áður greinir, afdrátt frá launum hans vegna greiðslu skatts til sænskra skattyfirvalda. Verður ekki leyst úr greiðslukröfu hans án þess að taka afstöðu til gildis þeirrar ákvörðunar. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi hagsmuni að lögum af því að leyst verði sérstaklega úr ólögmætis- og ógildingarkröfu hans. Verður þeim kröfum hans því vísað frá dómi.

Tollstjórinn í Reykjavík fullnægir skilyrðum til að eiga sjálfstæða aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi hefur ekki fært sérstök rök fyrir því að íslenska ríkið þurfi að eiga hér aðild við hlið tollstjórans til varnar endurgreiðslukröfu hans. Er aðild íslenska ríkisins í málinu vanreifuð og því rétt að vísa kröfum stefnda á hendur því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

III.

Í málinu reynir ekki á hvort skattlagning sænskra yfirvalda var lögmæt. Fer það að sænskum rétti, þar á meðal hvort skattkrafan sé fyrnd, sbr. áður greinda alþjóðasamninga, 2. mgr. 14. gr. samnings Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum og 1. mgr. 14. gr. samnings um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sem báðir hafa lagagildi á Íslandi. Samkvæmt 1. og 4. gr. fyrrgreinda samningsins er íslenska ríkinu skylt að veita aðstoð við allar þær skattkröfur sem fram hafa komið í öðru aðildarríki í samræmi við löggjöf þess og varða þá skatta og gjöld sem getur um í 2. gr. samningsins, þar á meðal við innheimtu slíkra krafna. Af gögnum málsins má ráða að aðstoðar sé óskað til innheimtu tekjuskatts með álagi. Fellur sú innheimta að greindum samningsákvæðum. Byggja samningar þessir á gagnkvæmri aðstoð aðildarríkjanna.

Það fer að löggjöf þess ríkis, sem beiðni um aðstoð við innheimtu er beint til, hvernig með hana skal fara. Í 2. mgr. 4. gr. samnings Norðurlandanna er mælt fyrir um að aðstoðin geti ekki aðeins tekið til aðgerða gegn skattgreiðandanum heldur einnig öðrum sem samkvæmt löggjöf þess aðildarríkis sem beiðni er beint til eru skyldir til að veita skattyfirvöldum aðstoð. Verður ákvæðið ekki öðruvísi skilið en að þar undir geti fallið vinnuveitendur skattgreiðanda. Samkvæmt 1. gr. samningsins um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum skulu aðildarríki veita hvert öðru stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, þar á meðal við innheimtu. Skal aðstoðarríkið samkvæmt 11. gr. samningsins gera nauðsynlegar ráðstafanir til heimtu skattkrafna þess ríkis, sem aðstoðar beiðist, eins og þær væru kröfur þess sjálfs þó með þeim undantekningum sem getur í 14. og 15. gr.  Á ákvæði 14. gr. reynir ekki frekar en þegar hefur verið fjallað um. Í 15. gr. er mælt fyrir um forgang umræddra skattkrafna og segir þar að þær skuli ekki hafa neinn slíkan forgang í aðstoðarríkinu, sem skattkröfum þess ríkis sé sérstaklega veittur, enda þótt beitt sé sömu heimtuaðferðum og gilda um skattkröfur þess sjálfs. Sambærilegt ákvæði er í 1. mgr. 16. gr. fyrrgreinds samnings Norðurlandanna. Á það verður ekki fallist með stefnda að innheimtuúrræði það sem áfrýjandi beitti í máli þessu feli í sér að krafa hans verði rétthærri öðrum kröfum. Er hér um að ræða sérstakt innheimtuúrræði að lögum samkvæmt 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Takmarkast innheimtan af ákvæðum greinarinnar og reglum settum með heimild í henni. Hefur stefndi ekki sýnt fram á að þeirra ákvæða hafi ekki verið gætt með hæfilegum hætti.

Innheimta áfrýjanda fór að framangreindum lagaákvæðum. Af því leiðir að ekki verður fallist á kröfur stefnda og er áfrýjandi, tollstjórinn í Reykjavík, sýknaður af endurheimtukröfu hans.

 Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

         Vísað er frá héraðsdómi kröfum stefnda, Skúla Thoroddsen, á hendur áfrýjanda íslenska ríkinu. Jafnframt er vísað frá héraðsdómi kröfum hans um ólögmæti og ógildi ákvörðunar áfrýjanda tollstjórans í Reykjavík frá 8. nóvember 2001 um að krefja vinnuveitanda stefnda, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, um afdrátt af launum hans til greiðslu kröfu sænskra skattyfirvalda.

         Áfrýjandi tollstjórinn í Reykjavík skal vera sýkn af endurheimtukröfu stefnda. 

            Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.         

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2002.

I

Mál þetta, sem sætir flýtimeðferð, er höfðað  27. febrúar sl. og dómtekið 27. mars sl.

Stefnandi er  Skúli Thoroddsen, Vatnsholti 5c, Keflavík.

Stefndu eru tollstjóraembættið, Tryggvagötu 19, Reykjavík og íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt fyrir þess hönd.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að sú ákvörðun stefnda, toll­stjóra­embættisins, sbr. bréf 8. nóvember 2001, að krefja vinnuveitanda stefnanda, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, um afdrátt af launum stefnanda til greiðslu skatt­krafna sænskra skattyfirvalda á hendur stefnanda sé ólögmæt.  Þess er einnig kraf­ist að nefnd ákvörðun verði ógilt með dómi.  Þá er þess krafist að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða stefnanda 135.027 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2002 til greiðslu­dags.  Þess er einnig krafist að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaða­bóta úr hendi stefndu vegna þess tjóns sem hann hefur orðið fyrir af völdum nefndrar ákvörðunar stefnda, tollstjóraembættisins.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndu krefjast þess að dómkrafa stefnanda um viðurkenningu á rétti hans til skaða­bóta úr hendi þeirra verði vísað frá dómi en að öðru leyti er krafist sýknu, þar með talið á framangreindri kröfu á viðurkenningu skaðabótaréttar, verði ekki fallist á frá­vísunarkröfuna.  Þá er krafist málskostnaðar.

II

Málavextir eru þeir að stefndi, tollstjóraembættið í Reykjavík, hefur haft til inn­heimtu skattkröfu sænskra skattyfirvalda á hendur stefnanda.  Reyndi stefndi að inn­heimta þessa kröfu hjá stefnanda en án árangurs.  Stefndi krafðist þess að vinnu­veitandi stefnanda, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, héldi eftir af launum stefn­anda til greiðslu þessarar sænsku kröfu.  Eftir allnokkur bréfaskipti í lok sl. árs og upp­hafi þessa milli vinnuveitandans og stefnda lauk þeim skiptum með því að hann taldi sér ekki annað fært en að verða við kröfum stefnda um launaafdrátt og 14. febrúar sl. voru dregnar 135.027 krónur af launum hans og greiddar stefnda.  

III

Stefnandi byggir á því að ákvörðun stefnda, tollstjóraembættisins, og krafa hans um afdrátt af launum stefnanda njóti engrar lagastoðar og sé af þeim ástæðum ólög­mæt og ógildanleg. Þessi ákvörðun stefnda gangi auk þess gegn gildandi ákvæðum laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og ákvæðum milliríkjasamninga um inn­heimtu erlendra skattkrafna.  Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki gætt grund­vall­arreglna stjórnsýsluréttarins um töku ákvörðunarinnar, sem leiði sjálfstætt til þess að hún sé ógildanleg samkvæmt almennum réttum stjórnsýsluréttarins.

Stefnandi bendir á að samkvæmt 113. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt sé inn­heimtumönnum tryggður óvenjulegur og verulegur forgangsréttur til að leita fulln­ustu skattkrafna og annarra opinberra gjalda í launum skuldara.  Með því ákvæði sé inn­heimtumönnum veitt heimild til þess að krefjast þess að launagreiðendur haldi eftir af launum viðkomandi skuldara til fullnustu krafnanna.  Ákvæðið veiti inn­heimtu­mönnum ótvíræðan forgang umfram almenna kröfuhafa.  Stefndi, toll­stjóra­embættið, hafi til innheimtu skattkröfu sænskra yfirvalda á hendur stefnanda og til stuðn­ings innheimtuaðgerðum hafi stefndi vísað til samnings milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum, sbr. staðfestingarlög þeirra nr. 46/1990, og samnings um gagn­kvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sbr. staðfestingarlög nr. 74/1996.  Stefn­andi byggir á því að samkvæmt berum orðum þessara samninga gildi ekki fram­an­greindur forgangsréttur innheimtumanna ríkissjóðs um erlendar skattkröfur sem inn­heimtar séu á grundvelli samninganna.  Krafa stefnda um launaafdrátt sé því lög­leysa, enda ákvæði samninganna skýr og fortakslaus og leiki enginn vafi á um skýringu þeirra.

Þá byggir stefnandi enn fremur á því að lög um tekjuskatt og eignarskatt veiti inn­heimtu­mönnum ríkissjóðs ekki heimild til að krefjast launaafdráttar við innheimtu á er­lendum skattkröfum.  Komi það greinilega fram í 113. gr. laganna en samkvæmt henni taki heimildin til að halda eftir af launum manna einungis til þeirra gjalda, sem inn­heimt séu samkvæmt lögunum sjálfum.  Af því leiði að utan heimildarinnar falli erlend gjöld, sem innheimt séu af erlendum aðilum á grundvelli erlendra laga.

Stefnandi byggir einnig á því að málsmeðferð stefnda á ákvörðun hans um launa­afdrátt hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Fram­ganga stefnda í málinu hafi ekki verið í anda þess, sem boðið sé í nefndri reglu.  Stefnandi hafi ítrekað bent stefnda á að skattkrafan á hendur honum sé umdeild í Svíþjóð og til meðferðar fyrir dómstólum þar í landi.  Stefndi hafi hins vegar ekki sýnt biðlund eða frestað aðgerðum, sem óhjákvæmilega hafi gengið mjög nærri stefnanda, á meðan beðið var niðurstöðu dómsmálsins.  Verði þó ekki séð að hagsmunir stefnda eða sænskra skattyfirvalda hefðu nokkuð skerst við það að bíða eftir þeirra úrlausn.

Endurgreiðslukröfu sína byggir stefnandi á því að launaafdrátturinn hafi verið ólög­mætur, sbr. það sem að framan var rakið, og beri stefnda því að endurgreiða féð í sam­ræmi við almennar reglur kröfuréttarins og ákvæði laga nr. 29/1995 um end­ur­greiðslu oftekinna skatta og gjalda.  Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 14. febrúar sl., þ.e. þeim degi er vinnuveitandi hans innti greiðsluna af hendi til stefnda.

Kröfu sína um viðurkenningu á rétti til skaðabóta byggir stefndi á almennum reglum skaðabótaréttarins.  Stefndi hafi með ólögmætri og saknæmri ákvörðun sinni valdið stefnanda tjóni og beri að bæta það.  Þar sem enn sé óvíst um endanlega fjárhæð tjónsins er einungis krafist viðurkenningar á skaðabótaréttinum, sbr. d lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að stefnandi geti ekki leitað við­ur­kenn­ingardóms á bótaskyldu í málinu án fjárhæðar og sé dómkrafan því hvorki í sam­ræmi við 2. mgr. 25. gr. né d lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Krafan sé al­gjörlega vanreifuð og erfitt að verjast henni.   Stefnandi nefni engar ástæður fyrir því að hann geti ekki tilgreint fjárhæð í stefnunni og halda stefndu því fram að engar ástæður réttlæti það.  Þá byggja stefndu á því að þessi dómkrafa sé í raun beiðni um lög­fræðilegt álit þar sem stefnandi hafi ekki gert neina tilraun til að sýna fram á meint tjón.

Af hálfu stefndu er byggt á því að stefndi, tollstjóraembættið, sé að innheimta kröfu fyrir sænsk skattayfirvöld og sé þar um að ræða gilda kröfu vegna vangreiddra skatta stefnanda í Svíþjóð.  Stefndi hafi ákveðið að krefja vinnuveitanda stefnanda um afdrátt af launum til greiðslu þessarar kröfu og hafi sú ákvörðun verið lögmæt og séu engin skilyrði til ógildingar hennar.  Þessi ákvörðun hafi byggst á samningi milli Norð­urlandanna um aðstoð í skattamálum, sbr. staðfestingarlög nr. 46/1990.  Þá er einnig vísað til alþjóðasamnings um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sbr. stað­festingarlög nr. 74/1996. 

Af hálfu stefndu er bent á að samkvæmt ákvæðum samninganna skuli ráðstafanir, til tryggingar greiðslu á skattkröfum samkvæmt þeim, gerðar í samræmi við löggjöf eða stjórnsýsluvenju í því aðildarríki þar sem tryggingarráðstafana sé óskað.  Á því er byggt af hálfu stefndu að á Íslandi sé þannig heimilt að beita þeim innheimtuaðferðum sem lög landsins heimila, þar með töldum launaafdrætti.  Þá er einnig á því byggt að samkvæmt samningunum beri Íslandi að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að inn­heimta skattkröfur beiðniríkis eins og þær væru kröfur þess sjálfs.  Þetta síðast- greinda sé grundvallaratriði við alla innheimtu samkvæmt framangreindum milli­ríkja­samn­ingum.  Af því leiði að beita verði öllum sömu réttarúrræðum við innheimtu erlendra skattkrafna sem gilda um innheimtu innlendra skattkrafna, þar á meðal launa­af­drætti.   Þær undantekningar sem gerðar séu í samningunum eigi ekki við í þessu máli. 

Af hálfu stefndu er einnig á því byggt að ekki hafi verið brotið gegn meðal­hófs­reglu stjórnsýslulaga við innheimtu skattkröfunnar á hendur stefnanda.  Stefndi, toll­stjóra­embættið, hafi sinnt innheimtuhlutverki sínu í samræmi við lög og reglur.  Stefndu benda á að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá stefnanda 16. ágúst 2000.  Stefnandi krafðist ógildingar á fjárnámsgerðinni og við meðferð málsins fyrir dómi aftur­kallaði stefndi það vegna formgalla.  Í kjölfar þess ákvað stefndi að aðhafast ekki frekar, enda hafi legið fyrir yfirlýsing um eignaleysi.  Krafan var síðan endursend til Svíþjóðar, enda taldi stefndi að hún væri fyrnd.  Sænsk yfirvöld höfðu hins vegar gripið til ráðstafana til að rjúfa fyrningu kröfunnar og var fyrningarfrestur hennar fram­lengdur.  Stefnanda var gert viðvart um að krafan væri komin aftur og honum jafnframt boðið að semja um greiðslu á henni innan tiltekins tíma en það boð þekktist stefnandi ekki.  Í framhaldi af því fór stefndi þess á leit við vinnuveitanda stefnanda að haldið yrði eftir af launum hans.  Með vísan til framangreinds telja stefndu að gætt hafi verið allra reglna um eðlilega málsmeðferð.  Loks benda stefndu á að samkvæmt 111. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt fresti ágreiningur um álagningu eða deila um skattskyldu ekki innheimtunni og gildi þetta ákvæði ótvírætt um þá kröfu, sem málið snýst um.  Loks byggja stefndu á því að endurgreiðslukröfu stefnanda sé rang­lega beint að þeim, en þeir fjármunir sem dregnir voru af launum stefnanda séu eign sænska ríkisins.  Stefnanda hafi því borið að beina þeirri kröfu að því.  Stefndi, tollstjóraembættið, hafi þegar skilað launaafdrættinum til eiganda kröfunnar og sé því um aðildarskort að ræða, sem eigi að leiða til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.

IV

Kröfu sína um viðurkenningu á rétti til skaðabóta úr hendi stefndu kveðst stefnandi byggja á almennum reglum skaðabótaréttarins.  Kveður hann stefnda, toll­stjóra­embættið, hafa valdið sér tjóni með hinni ólögmætu og saknæmu háttsemi og beri sér því bætur.  Þar eð enn sé óvíst um fjárhæð tjónsins sé aðeins krafist viður­kenn­ingar á skaðabótaréttinum. 

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála má hafa þennan hátt á, þ.e. krefja um bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana.  Þetta ákvæði leysir stefnanda þó ekki undan því að greina í stefnu máls­ástæður þær, sem hann byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik, sem þarf að greina, til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst svo sem boðið er í e-lið sömu greinar.  Í stefnu gerir stefnandi enga grein fyrir því hvernig háttsemi stefndu eigi að hafa valdið honum tjóni og í hverju það sé fólgið.  Það er því fallist á það með stefndu að krafa þessi sé vanreifuð af hálfu stefnanda og verður henni vísað frá dómi.

Það er meginmálsástæða stefnanda að krafa stefnda, tollstjóraembættisins, um að vinnuveitandi hans haldi eftir af launum hans til greiðslu skattkröfunnar frá Svíþjóð, eigi sér ekki lagastoð.  Heimildin til að halda eftir af launum manna til greiðslu opin­berra gjalda er í 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.  Þar segir að allir, sem hafi menn í þjónustu sinni og greiði þeim laun, skuli, að kröfu inn­heimtu­manns, halda eftir af kaupi launþega til lúkningar gjöldum, sem innheimt eru samkvæmt 110. gr. laganna, þ.e. tekjuskatti og eignarskatti.  Í lagaákvæðinu er þannig ekki heimild til að halda eftir af launum manna til að greiða með önnur opinber gjöld og heldur ekki til að greiða með kröfur frá öðrum löndum, sem eru til innheimtu hér á landi í samræmi við ákvæði milliríkjasamninga.     

Af hálfu stefndu er á því byggt að samkvæmt ákvæðum tveggja milli­ríkja­samn­inga, sem hafi lagagildi hér á landi, hafi stefnda, tollstjóraembættinu, verið heimilt að leggja fyrir vinnuveitanda stefnanda að halda eftir af launum hans.  Annars vegar er hér um að ræða samning milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum, sem hefur laga­gildi hér á landi, sbr. lög nr. 46/1990 og hins vegar samning um gagnkvæma aðstoð í skatta­málum, sbr. lög nr. 74/1996.  Í 1. mgr. 19. gr. fyrrnefnda samningsins segir að ráð­stafanir til tryggingar greiðslu á skattkröfum samkvæmt samningnum skuli gerðar í samræmi við löggjöf eða stjórnsýsluvenjur í því aðildarríki þar sem trygg­inga­ráð­stafana sé óskað.  Og í 1. mgr. 11. gr. síðarnefnda samningsins segir að aðstoðarríki skuli, að ósk beiðniríkis, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að heimta skattkröfur eins og þær væru kröfur þess sjálfs.

Eins og að framan sagði er heimildin til að halda eftir af launum manna til greiðslu skatta eingöngu bundin við innheimtu tekjuskatts og eignarskatts, sem lagður er á samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981.  Hér er um að ræða íþyngjandi ákvæði, sem ber að skýra þröngt.  Hin almennt orðuðu ákvæði milliríkjasamninganna um skyldur stefnda, íslenska ríkisins, að innheimta erlendar skattkröfur í samræmi við eigin lög og stjórnsýsluvenjur eru ekki jafngild hinu afdráttarlausa ákvæði laganna um heimild til að halda eftir af launum manna til greiðslu tiltekinna skatta.  Það er því, þegar af þeirri ástæðu, fallist á það með stefnanda að sú ákvörðun stefnda, toll­stjóra­em­bættisins, að krefja vinnuveitanda hans um að halda eftir af launum hans til greiðslu sænsku skattkröfunnar hafi verið ólögmæt og verður hún ógilt.

Samkvæmt þessari niðurstöðu verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða stefnanda um­krafða fjárhæð með vöxtum eins og krafist er.  Þeir eiga aðild að málinu, enda lagði stefndi, tollstjóraembættið, fyrir vinnuveitanda stefnanda að halda eftir af laun­um hans og lét greiða sér.  Hafi stefndu ráðstafað fjármununum til annarra verða þeir að bera hallann af því.  Loks verða stefndu óskipt dæmdir til að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Kröfu stefnanda, Skúla Thoroddsen, um að viðurkenndur verði með dómi réttur hans til skaðabóta úr hendi stefndu, tollstjóraembættisins og íslenska ríkisins, er vísað frá dómi.

Viðurkennt er að sú ákvörðun stefnda, toll­stjóra­embættisins, í bréfi 8. nóvember 2001, að krefja vinnuveitanda stefnanda, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, um af­drátt af launum hans til greiðslu skattkrafna sænskra skattyfirvalda á hendur honum hafi verið ólögmæt og skal hún vera ógild. 

Stefndu greiði óskipt stefnanda 135.027 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2002 til greiðslu­dags og 350.000 krónur í málskostnað.