Hæstiréttur íslands
Mál nr. 138/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. apríl 2003 samkvæmt yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess, að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest en refsing hans þyngd og hann dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur.
Ákærði krefst þess, að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar en ella verði hann sýknaður af því, sem honum er gefið að sök í ákæru. Þá krefst hann þess, að bótakröfu verði vísað frá dómi.
Í máli þessu er ákærði sakaður um að hafa aðfaranótt sunnudagsins 5. ágúst 2001, í tjaldi á mótssvæði við A, þröngvað Y með ofbeldi til holdlegs samræðis.
Y leitaði aðstoðar neyðarmóttöku á svæðinu kl. 04.00 morguninn 5. ágúst. Ákærði, sem var handtekinn kl. 09.50, hefur frá upphafi neitað því að hafa nauðgað stúlkunni. Við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu sama dag kvaðst hann muna vel eftir atburðum næturinnar og hefði hann engin samskipti haft við stúlkuna. Við síðari skýrslutöku tæpu ári síðar kvaðst hann hafa farið í „blackout“ og ekki muna hvað gerðist eða hvort eitthvað hefði gerst. Niðurstöður DNA-rannsókna leiddu í ljós, að snerting hafði verið milli kæranda og ákærða, og veski ákærða fannst í tjaldi kæranda um morguninn. Eins og fram kemur í héraðsdómi mældist magn alkóhóls í blóði ákærða 0,8, er sýni var tekið kl. 11.33 þann 5. ágúst, og hann hafði einnig neytt amfetamíns og MDMA-taflna. Er tekið undir þá niðurstöðu héraðsdóms, að ekki sé byggjandi á framburði ákærða um það sem gerðist.
Kærandi hefur lýst atburðum á sama veg hjá neyðarmóttöku og í skýrslum fyrir dómi. Hún greindi vinkonum sínum frá því strax um nóttina, að sér hefði verið nauðgað og hún bar áverka, sem sýndu greinilega að hún hafði verið beitt líkamlegu ofbeldi, eins og skýrslur hjúkrunarfræðings á mótssvæðinu og læknis hjá neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur bera með sér.
Ákærði reisir heimvísunarkröfu sína á því, að í héraðsdómi hafi ekki með skýrum hætti verið tekin afstaða til trúverðugleika framburðar kæranda og vitnisins V2, sem í grundvallaratriðum hafi verið ósamrýmanlegur. Eins og nánar er lýst í héraðsdómi bar V2 fyrir dómi, að hún hefði litið inn í tjald kæranda fyrr um nóttina og séð kæranda og ákærða og talið þau vera í samförum og hefði kærandi sagt sér að fara. Kærandi minnist þess ekki, að V2 hafi litið inn í tjaldið og hún sagt henni að fara. V2 bar einnig, að hún hefði um tveimur tímum síðar komið aftur að tjaldinu og þá hefði kærandi verið fullklædd og greinilega í mikilli geðshræringu og ákærði með buxurnar niður um sig og hefði hún rekið hann út úr tjaldinu að beiðni kæranda. Er þetta í samræmi við framburð kæranda að öðru leyti en því, að kærandi telur ákærða hafa verið ofan á sér, er V2 kom inn.
Eins og fram er tekið í héraðsdómi var V2 aðeins 15 ára og kærandi 16 ára, þegar atvik gerðust. Verður að byggja á því, að V2 hafi misskilið aðstæður, er hún leit sem snöggvast inn í tjaldið til kæranda. Niðurstöðu héraðsdóms verður að meta svo, að hann hafi talið framburð kæranda fyrir dóminum trúverðugan. Er heimvísunarkröfu ákærða hafnað. Með hliðsjón af lýsingum vitna á viðbrögðum og ástandi kæranda eftir atvikið, skýrslu neyðarmóttöku og framburði hjúkrunarfræðingsins og læknisins þykir ekki varhugavert að staðfesta sakarmat héraðsdóms og færslu hans á broti ákærða til refsiákvæðis.
Kærandi var aðeins 16 ára gömul, þegar ákærði, sem hún ekkert þekkti, framdi brotið. Brotið var gróft og hafði í för með sér talsverða líkamlega áverka, meðal annars mar og þrýstingsáverka á brjósti og hálsi og áverka á kynfærum. Miðað við eðli og alvarleika brotsins þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.
Ákvæði héraðsdóms um miskabætur, upptöku og sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2003.
Málið er höfðað með ákæru, útgefinni 18. júlí 2002, á hendur: „X, [kt.], með lögheimili að [ ], en dvalarstað að [ ], fyrir kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 5. ágúst 2001, í tjaldi á mótssvæði við [A], þröngvað [Y], með ofbeldi til holdlegs samræðis.
Telst þetta varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Jafnframt er þess krafist að 1,01 g af amfetamíni, sem ákærði var með í vörslum sínum er hann var handtekinn vegna rannsóknar málsins sunnudaginn 5. ágúst 2001 á mótssvæðinu verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001.
Bótakrafa:
[M], krefst skaðabóta f.h. ólögráða dóttur sinnar [Y], að fjárhæð kr. 2.500.000 auk dráttarvaxta samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 5. ágúst 2001 til greiðsludags og til greiðslu lögmannsþóknunar.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af refsikröfu og bótakröfu. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún sæti verulegri lækkun. Þrautavarakrafa er sú að málinu verði vísað frá dómi. Í öllum tilvikum er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.
Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 5. ágúst 2001, barst lögreglu kl. 09.32 þann dag tilkynning um nauðgun á mótssvæðinu við A. Segir í skýrslunni að þrír lögreglumenn hafi farið á staðinn þar sem starfsmenn björgunarsveita hafi vísað á ákærða, sem sagður var hafa nauðgað stúlku nóttina áður. Því er síðan lýst í skýrslunni að stúlkan hafi leitað aðstoðar Stígamóta og neyðarmóttöku á mótsvæðinu.
Því er lýst í skýrslunni að ákærði hafi í viðræðum við lögreglu neitað því að hafa nauðgað stúlku um nóttina.
Þá er því lýst að Y og V1 hafi verið í sjúkrabifreið á mótssvæðinu og kom fram hjá þeim að þær hefðu vísað á ákærða og sagt hann hafa nauðgað Y í tjaldi hennar um kl. 03.00 um nóttina.
Samkvæmt frásögn vitnisins V1 hafi Y greint henni frá því að maður hafi ruðst inn í tjaldið til hennar um miðnætti. Hann hafi tekið hana hálstaki og hafi hún sýnt V1 áverka á hálsi, sem hún kvað af völdum mannsins. Y hafi sagt að V2 hefði komið í tjaldið meðan maðurinn var þar. Y hefði beðið V2 um að fara og sækja hjálp. V2 hefði misskilið Y og talið að hún vildi fá frið og þá yfirgefið tjaldið. Í framhaldi af þessu hefði pilturinn nauðgað Y. Hann hefði ekki notað verju og orðið sáðfall í leggöng hennar. Hún lýsti því að skömmu eftir að þær hittust hefðu þær séð ákærða liggjandi skammt frá tjaldi Y og hefði hann verið handtekinn skömmu síðar.
Á vettvangi ræddi lögreglan við vitnið V2. Samkvæmt frásögn hennar hafði hún komið í tjaldið hjá Y um miðnættið, en þá hefði Y verið þar auk ákærða. V2 kvað sér hafa virst Y gefa í skyn að hún ætti að fara og láta þau í friði. V2 kvaðst þá hafa farið, en komið aftur í tjaldið um kl. 03.00 til kl. 03.30 um nóttina. Y hafi þá verið fullklædd, en ákærði með buxurnar niður um sig. Y hefði beðið sig um aðstoð við að koma ákærða út úr tjaldinu, sem hún kvaðst hafa gert, en hún kvað Y hafa skolfið og verið í geðshræringu. Í framhaldi af þessu hafi Y greint henni frá því að ákærði hefði nauðgað henni. V2 lýsti því er hún fylgdi Y til að leita sér aðstoðar.
Í skýrslunni segir að ákærði hafi verið handtekinn kl. 09.50 og færður á lögreglustöðina í C, þar sem hann ræddi við lögmann kl. 10.07, en lögmaðurinn er verjandi ákærða í máli þessu. Þá er í skýrslunni lýst rannsóknum sem gerðar voru í framhaldinu.
Undir rannsókn málsins var tekin skýrsla af Y fyrir dómi, þar sem hún lýsti hinni meintu nauðgun. Vikið verður að þeirri skýrslu síðar er vitnisburður hennar undir aðalmeðferð málsins verður reifaður.
Í lögregluskýrslu af ákærða 5. ágúst 2001 neitaði hann sök og kvaðst muna vel eftir nóttinni áður.
Undir rannsókn málsins var gerð DNA-rannsókn, þar sem í ljós kom að munnvatn sem fannst á hálsi Y hafi verið með DNA-sniði, sem komi heim og saman við DNA-snið í blóði ákærða og frumur með DNA-sniði Y hafi fundist í sýnum sem tekin voru með því að strjúka yfir vísifingur og löngutöng ákærða.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 29. apríl 2002 var ákærða kynnt ósamræmi milli fyrri skýrslu hans annars vegar og vitna hins vegar. Hann kvaðst ekki vilja breyta fyrri framburði sínum, en kvaðst hafa farið í “blackout“ um nóttina og því ekki muna hvað gerðist eða hvort eitthvað gerðist. Þá voru ofangreindar DNA-niðurstöður kynntar ákærða. Hann kvaðst ekki geta skýrt hvernig erfðaefni hefði fundist eins og lýst var. Þá kvaðst hann ekki muna hvort hann hafi verið í tjaldi Y um nóttina.
Nú verður rakinn framburður vitna og ákærða fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið á A aðfaranótt 5. ágúst 2001 og muna eitthvað eftir atburðum þá nótt, þótt hann myndi þá ekki í öllum atriðum. Hann kvaðst hafa farið á mótssvæðið með félögum sínum. Hann kvaðst hafa drukkið áfengi auk þess sem hann neytti amfetamíns og MDMA-taflna. Hann kvaðst hafa hitt V3, fyrrverandi unnustu sína, um kl. 21.00 til 22.00, að því er ákærði taldi, og síðan aftur um miðnættið. Hann kvaðst ekki þekkja Y og ekki muna eftir neinum samskiptum við hana þessa nótt. Ákærði kvaðst hafa kynnt sér niðurstöðu DNA-rannsóknar, sem lýst var að framan, og ekki hafa skýringar á því sem hún leiddi í ljós.
Ákærði greindi frá því er maður sem kynnti sig sem bróður Y hafi ítrekað hringt í ákærða og hótað ófarnaði. Ákærði lýsti einstökum tilvikum er þetta hafi átt sér stað.
Vitnið Y kvaðst hafa verið á A um verslunarmannahelgina 2001 í fylgd tveggja vinkvenna sinna þeirra, V1 og V4. Hún kvaðst hafa komið á svæðið á fimmtudeginum. Á laugardagskvöldinu hafi hún verið fyrir utan tjald sitt ásamt fleira fólki. Hún kvað mörgum tjöldum hafa verið tjaldað þétt saman. Þar hafi ákærði verið, en hún kvaðst ekki hafa séð hann áður á samkomunni og ekki þekkja hann og ekki hafa rætt við hann þarna. Eftir að fólkið hafi dvalið töluverða stund við tjöldin hafi hópurinn tvístrast og Y þá sagt V1 vinkonu sinni að hún ætlaði inn í tjald sitt, sem hún gerði, en þær V1 hafi gist í sama tjaldi. Hún kvað ákærða hafa komið inn í tjaldið strax á eftir henni. Hún kvaðst hafa beðið hann um að fara út úr tjaldinu, en hann hafi ekki sinnt því heldur hafi hann ráðist á hana, gripið um háls henni og þrýst henni niður, en hún kvaðst hafa barist á móti. Ákærði hafi náð að rífa hana úr buxunum og tekið peysu upp um hana og þröngvað henni til samræðis, nauðgað henni. Hún mundi ekki hvort ákærða varð sáðlát. Þetta hafi gerst um það bil hálftíma eftir að fólkið fór frá tjaldinu og hún fór inn í tjald sitt. Fram kom í vitnisburði hennar að hún áttaði sig ekki á tíma en taldi að þessir atburðir sem hún lýsti hefðu gerst einhvern tíma á tímabilinu frá því um miðnætti til kl. 03.00 um nóttina.
Y kvað engan hafa komið í tjaldið er þetta átti sér stað. Hún kvaðst hafa öskrað og hrópað á hjálp allan tímann meðan þessi atburður gerðist. Þessu hafi síðan lokið er V2 kom og færði ákærða út úr tjaldinu en er V2 kom hafi ákærði legið ofan á henni. Eftir rifrildi ákærða og V2 fyrir utan tjaldið hafi ákærði hlaupið í burtu.
Y kvaðst eftir þetta hafa leitað læknis, en hún kvað ákærða hafa bitið sig í eyrað og þá hafi hún hlotið áverka á hálsi eftir kverkatak eða hálstak. Þá hafi hún leitað til Stígamóta, sem voru með móttöku á svæðinu. Er hún kom aftur í tjald sitt kvaðst hún hafa fundið veski í tjaldinu, en í veskinu hafi verið kort á nafni ákærða. Hún lýsti því er hún sá ákærða sofandi úti skammt frá tjaldi hennar.
Y mundi ekki eftir því að V2 hefði um nóttina komið að tjaldi hennar, en farið eins og V2 bar og síðar verður lýst. Y var kynntur vitnisburður V2 um þetta og kvaðst hún aldrei mundi hafa sagt V2 að fara ef hún hefði komið. Daginn eftir kvaðst Y hafa farið til Reykjavíkur og á neyðarmóttöku.
Y kvað skólagöngu sína hafa tafist vegna þessa máls, en hún hafi hætt námi síðastliðinn vetur vegna þessa. Hún hafi verið mjög taugaveikluð og ekki haft orku eða úthald til að gera neitt. Hún hafi síðan hafið nám á ný síðastliðið haust og gangi vel. Hún lýsti aðstoð sem hún hefur hlotið eftir atburðinn.
Y kvaðst ekki vita hvort bróðir hennar hefði hringt eða látið aðra hringja í ákærða vegna þessa máls.
Vitnið V2 kvaðst hafa verið á A og hafa hitt þar V1 frænku sína, sem var í för með Y. V2 kvaðst ekki þekkja ákærða og aðeins hafa séð hann einu sinni, en það hafi verið við tjald Y. V2 kvað málavexti þá, að hún hafi komið við í tjaldi Y aðfaranótt laugardags eða sunnudags. Er hún opnaði tjaldið kvaðst hún hafa séð Y og mann inni í tjaldinu. Hún kvaðst ekki hafa viljað trufla og hafa farið, en hún kvað Y einnig hafa beðið sig um að fara. Aðspurð kvað V2 Y hvorki hafa beðið um aðstoð né hafa greint sér frá því að eitthvað væri að, en hún kvaðst hafa talið Y og manninn hafa verið í samförum. Hún kvaðst ekki hafa merkt neitt óeðlilegt.
V2 kvaðst hafa komið aftur í tjaldið til Y. Þá hafi ákærði verið þar og með buxurnar á hælunum. Hún mundi ekki hversu löngu síðar hún kom, en hjá lögreglunni kvaðst hún hafa komið aftur tveimur tímum síðar eða svo. Fyrir dómi kvað hún það geta verið, en hún myndi það ekki, en skýrslan hjá lögreglunni væri rétt og hún hafi þá munað atburði betur. V2 kvaðst hafa komið ákærða út úr tjaldinu að ósk Y, sem hafi greint henni frá því sem gerst hafði. Eftir það fór hún með Y og leitaði aðstoðar. Hún kvað Y hafa skolfið mikið og hún hafi verið öll í sogblettum eða því um líku. Í hana hafi vantað eyrnalokk og bitið hafi verið í eyrað á henni.
V2 kvað Y hafa greint sér frá því síðar að hún hafi beðið hana um að fara sækja V5 vin V1, eða haft álíka ummæli, er hún kom í fyrra sinnið í tjaldið til hennar um nóttina. V2 kvaðst ekki hafa heyrt þetta og því lokað tjaldinu og farið og talið sig vera að trufla þau.
Í skýrslutöku hjá lögreglunni 12. september 2001 er svofelldur kafli um komu V2 til Y:
„Ég var síðan ekkert með þeim [V1] og [Y] á laugardagskvöldinu, rétt hitti þær, en aðfarnótt sunnudagsins, milli miðnættis og 02:00 þá fór ég að tjaldinu þeirra og ætlaði ég mér að hitta [V1] frænku mína. Ég opnaði tjaldið og þá blasti við mér andlit [Y] og ofan á henni lá einhver strákur, er greinilega var að hafa við hana samfarir. [Y] sagði mér að fara, með nokkru hasti þannig að ég hrökk til baka strax og lokaði tjaldinu því ég vildi ekki trufla því mér var ljóst hvað um var að vera í tjaldinu, þau voru í samförum. Ég heyrði síðan ekki að [Y] sagði eitthvað meira, hún sagði mér það síðar að hún hafi sagt, eftir að hún var búin að reka mig burt, “farðu og náðu í [V5]” sem er vinur [V1] frænku minnar en þau voru farin að sofa í tjaldi rétt hjá. Ég heyrði ekki bón hennar um að sækja [V5] því ég hrökk strax til baka og lokaði tjaldinu. [Y] lá á bakinu með strákinn ofan á sér og sneri höfuð [Y] að opi tjaldsins þegar ég opnaði það. Ég sá rétt á kollinn á stráknum en hann var með skollitað hár. Ég taldi að strákurinn væri að hafa samfarir við [Y] með hennar samþykki, þar sem [Y] brást fremur ókvæða við þegar ég kom að eins og fyrr er lýst en ég heyrði ekki allt sem hún sagði eða bað mig um að gera. Ég vildi ekki trufla þau og hrökk því strax til baka.
Ég fór síðan og hélt áfram að skemmta mér eftir að hafa verið “rekin” frá tjaldinu eins og fyrr er lýst og kom að tjaldinu að nokkrum tíma liðnum, tveimur tímum eða svo. Þá kom ég í tjaldið aftur og enn var [Y] í tjaldinu og sá strákur sem legið hafði ofan á henni fyrr um nóttina eins og ég hef þegar lýst. Þegar ég kom sat hún uppi, fullklædd greinilega í mikilli geðshræringu og fór síðan að gráta en strákurinn var með buxurnar niður um sig og ekki í neinum nærbuxum þannig að í kynfæri sást.“
Eins og lýst var staðfesti V2 þennan vitnisburð sinn fyrir dómi og kvaðst hafa munað atburði betur er hún gaf skýrslu hjá lögreglu en er hún kom fyrir dóm.
Vitnið V1 kvaðst hafa verið í för með Y á mótssvæðinu á A á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hún kvaðst ekki vera viss um það hvenær hún hitti Y daginn eftir hina meintu nauðgun, en taldi að það hafi verið um hádegisbilið. V1 kvað Y hafa greint sér frá því að ráðist hefði verið á hana og henni nauðgað. V1 kvað Y örugglega hafa verið með meira en 15 til 20 marbletti á hálsi. Þá hafi hún verið með bitfar á eyra og verið blóðug. V1 kvaðst hafa fylgt Y þar til hún fór til Reykjavíkur þennan dag og er þær voru staddar í sjúkrabifreið á svæðinu hafi Y beðið sig um að afhenda lögreglu veski, sem hún vissi af í tjaldi sínu. V1 kvaðst hafa gert þetta, en í veskinu hafi verið skilríki ákærða. V1 lýsti því er þær Y og V2 fóru að ræða saman daginn eftir og þá hafi Y bent þeim V2 á ákærða, sem lá sofandi skammt frá tjaldi þeirra.
Vitnið V6 kvaðst hafa verið með ákærða fram eftir nóttu aðfaranótt 5. ágúst 2001 á mótssvæðinu. Hann kvaðst ekkert vita um ferðir hans eftir að leiðir þeirra skildu og vissi ekki hvort ákærði hitti Y um nóttina. Hann kvað ákærða hafa verið mikið ölvaðan. Vitnisburður V6 verður ekki rakinn frekar, enda varpar hann ekki ljósi á málavexti.
Vitnið V3 kvaðst ekkert vita um atburð þann sem lýst er í ákærunni. Hún kvaðst hafa spurt ákærða hvort þetta hefði gerst og hefði ákærði svarað því að hann myndi það ekki. V3 kvaðst ekki viss hvenær hún hitti ákærða aðfaranótt 5. ágúst 2001, en taldi það hafa getað verið um miðnættið. Í lögregluskýrslu lýsti hún því að ákærði hafi þá verið mjög ölvaður. Síðar sömu nótt kvaðst hún hafa heyrt til ákærða á tali við vinkonu vitnisins fyrir utan tjaldið og heyrði hún á ákærða að hann hafi verið að leita af veski og úlpu og talið að vitnið hefði hvort tveggja undir höndum en þetta gæti hafa verið milli kl. 03 og 04 um nóttina.
Vitnið V7 kvaðst hafa hitt ákærða aðfaranótt 5. ágúst 2001 á mótssvæðinu á A. Hún kvaðst muna óljóst hvenær hún hitti hann um nóttina, en það gæti hafa verið á milli kl. 03.00 og 04.00. Hún kvaðst ekkert vita um hina meintu nauðgun, en kvaðst fyrst hafa frétt af málinu hálfu ári frá atburðinum.
Vitnið V4 kvaðst á þeim tíma sem lýst er í ákærunni hafa sofið í tjaldi sínu, sem hefði verið fast við tjald Y. Hún kvaðst ekki hafa hugmynd um það hvenær hún fór að sofa, en það hafi verið á undan öðrum. Hún kvaðst halda að hún hefði heyrt öskur um nóttina, en ekki hafa vitað hvort það væri frá Y og haldið áfram að sofa.
Eyrún Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur kvað neyðarmóttöku vegna nauðgunar hafa verið með aðstöðu á A þessa helgi. Hún kvað Y hafa komið aðfaranótt 5. ágúst 2001 í fylgd vinkonu sinnar. Eyrún kvað Y hafa verið illa stadda. Hún hafi verið blóðug í andliti og miklu uppnámi. Hún hafi gráti og skolfið og liðið mjög illa andlega og líkamlega. Eyrún kvað Y hafa verið með bitsár á nefi, blætt hafi úr eyrnasnepli og sogför og óljóst bitfar á hálsi, en þar hafi einnig blætt úr. Hún kvað engan vafa leika á því að Y hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi, en hún hafi greint frá því að henni hefði verið nauðgað.
Í skýrslu sem Eyrún Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur ritaði um komu Y á neyðarmóttökuna segir að hún hafi komið kl. 04 um nóttina. Y hafi greint frá því að henni hefði verið nauðgað um leggöng.
Vitnið Jóhanna Jónasdóttir læknir tók á móti og skoðaði Y á neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur, sunnudaginn 5. ágúst 2001. Hún staðfesti og skýrði skýrslu, sem hún ritaði um skoðunina.
Í skýrslu Jóhönnu er kafli sem ber heitið frásögn sjúklings. Þar er m.a. lýst ofbeldi sem Y kvað ákærða hafa beitt hana. Síðan segir: „[...] “
Jóhanna kvað áverkana á Y hafa samrýmst vel frásögn hennar af atburðinum. Hefði sú frásögn ekki legið fyrir taldi vitnið að áverkarnir hefðu getað verið þrýstingsáverkar eftir átök. Hún kvað áverka á kynfærum Y hafa gefið til kynna að reynt hefði verið að hafa samfarir við hana á síðastliðnum einum eða tveimur sólarhringum fyrir skoðunina. Jóhanna skýrði þetta álit sitt út frá áverkunum á kynfærum Y. Hún kvaðst ekki geta fullyrt hvort það hafi tekist.
Því var áður lýst að undir rannsókn málsins fór fram DNA-rannsókn af tilteknum sýnum. Í álitsgerð Rannsóknarstofu í réttarmeinafræði, dags. 18. febrúar 2002, er svofelld niðurstaða:
,,A:
Samkvæmt framanskráðu fannst munnvatn á hálsi kæranda (Y) með DNA-sniði, sem kemur heim við DNA-snið í blóði frá kærðu (X, [KT.]).
B.
Ennfremur leiddi rannsóknin í ljós að frumur með DNA-sniði kæranda ([Y]) fundust í sýnum í bómullarpinnum, sem tekin voru með því að strjúka yfir vísifingur og löngutöng kærða (X [kt.] )
Niðurstöðurnar sýna þannig að snerting hefur verið milli kærða og kæranda.
Í svari Rettsmedisinsk Institutt er greint frá þeim aðferðum, sem stuðst er við svo og segir um áreiðanleika niðurstöðunnar að líkurnar til þess að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi eru ávallt lægri en 0,001% eða 1:10.000. Unnt er að reikna líkurnar í hverju máli fyrir sig ef þurfa þykir (sjá meðfylgjandi ljósrit af svari Rettsmedisinsk Institutt frá 12.02.2002.).“
Gunnlaugur Geirsson prófessor kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði álitsgerðina.
Vitnið Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur staðfesti og skýrði fyrir dóminum stöðumat, sem dags. er 15. október 2002, en matið var ritað eftir viðtöl Ólafar við Y. Fram kemur í matinu að Y hefur komið 26 sinnum í viðtal. Í matinu er meðal annars lýst og það skýrt að Y hafi upplifað tilfinningar sem séu algengar hjá þeim sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi.
Vitnið Gerður Pálmadóttir heimilislæknir Y skýrði frá vitneskju sinni um afleiðingar hinnar meintu nauðgunar. Meðal annars á skólagöngu Y og hún hafi þolað lítið áreiti, haft martraðir og verið grátgjörn. Töluverð einkenni væru enn til staðar, þótt hún hafi aftur byrjað skólagöngu síðastliðið haust.
Þórður Sigmundsson geðlæknir staðfesti fyrir dóminum læknisvottorð sem hann ritaði fyrir Y, en vottorðið er dags. 9. nóvember 2002. Hann kvaðst hafa rætt einu sinni við hana og komið hafi í ljós að hún hafi þjást af áfallastreituröskun, sem bendi til þess að hún hafi orðið fyrir áfalli.
Vitnið V8, móðurbróðir ákærða, lýsti því er hann ók ákærða úr C á mótssvæðið við A þessa helgi. Hann lýsti auk þess persónulegum högum ákærða, sem hann kvað hafa búið á heimili vitnisins að mestu leyti frá hinum meinta atburði, sem lýst er í ákæru. Ákærði hafi á þeim tíma farið í meðferð og staðið sig vel að áliti vitnisins, sem lýsti því nánar.
Vitnið V9 kom fyrir dóminn en vitnisburður hennar varpar ekki ljósi á málavexti.
Niðurstaða
Engum haldbærum rökum hefur verið skotið undir kröfu verjandans um frávísun málsins og er þeirri kröfu hafnað.
Ákærði sem neitar sök kvaðst ekki muna eftir neinum samskiptum við Y aðfaranótt 5. ágúst 2001. Ákærði og vitni hafa lýst ölvunarástandi ákærða þessa nótt, en ákærði bar hjá lögreglunni að hann hafi farið í „blackout“ um nóttina. Tekið var blóð- og þvagsýni úr ákærða kl. 12.20, 5. ágúst 2001. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar sýnanna reyndist þvagsýnið innihalda 1,09 alkóhól, en blóðsýnið 0,81 alkóhól. Þetta gefur vísbendingu um ölvunarástand ákærða nóttina áður, þótt óljóst sé hvort og þá hvað ákærði drakk eftir að hann fór úr tjaldinu hjá Y. Þá sagðist ákærði hafa neitt amfetamíns og MDMA-taflna og er það staðfest af matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði sem dagsett er 8. október 2001.
Y lýsti því við læknisskoðun að ákærði hafi virst mikið drukkinn, en samskipti hennar og V2 við ákærða í tjaldinu benda til þess að ákærði hafi verið mjög ölvaður. Þetta álit dómsins fær jafnframt stoð í vitnisburði V6 og V3, sem bæði höfðu samskipti við ákærða um nóttina og báru að ákærði hefði verið mikið ölvaður og V3 hafði auk þess eftir ákærða að hann myndi ekki atburði.
Að öllu ofanrituðu virtu er það álit dómsins að ekki sé byggjandi á framburði ákærða um það sem gerðist enda langlíklegast að hann muni atburði illa eða alls ekki vegna ástands síns.
Y kom á neyðarmóttöku á mótssvæðinu kl. 04.00 aðfaranótt 5. ágúst. Hún taldi að ákærði hefði verið í tjaldi hennar einhvern tíma á tímabilinu frá miðnætti fram til kl. 03.00. V2 kvaðst hafa komið í tjaldið til Y einhvern tíma á tímabilinu frá miðnætti til kl. 02.00 og aftur síðar um nóttina. Fram kom hjá V2 að hún hafi verið að skemmta sér um nóttina og mundi hún tímasetningar ekki vel. Áður var lýst vitnisburði V2 um fyrri komu hennar í tjaldið til Y sem hefur borið að hún muni ekki eftir þeirri komu V2. Á það ber að líta að V2 var einungis 15 ára gömul er þetta átti sér stað og Y 16 ára. Engu verður með vissu slegið föstu um fyrri komu V2 í tjaldið til Y, en ekki verður hjá því komist að hafa í huga að svo ungar stúlkur sem hér um ræðir kunni að hafa misskilið kringumstæður og að eðlilegar skýringar kunni að vera á þessu óskýrða misræmi í vitnisburði þeirra. Að mati dómsins hefur þetta misræmi ekki áhrif á niðurstöðu málsins. Að öllu ofanrituðu virtu er það álit dómsins að ekkert verði með vissu ráðið um tímasetningar af vitnisburði V2.
Vitnið V3 kvaðst telja sig að hafa hitt ákærða um miðnættið, en síðan hafa heyrt í honum síðar um nóttina eða á milli kl. 03.00 og 04.00. Vitnið V7 kvaðst hafa hitt ákærða um nóttina og það gæti hafa verið á milli kl. 03.00 og 04.00.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ekki hægt að slá neinu föstu um tímasetningar, en flest bendir til þess að ákærði hafi verið í tjaldi Y einhvern tíma á tímabilinu upp úr miðnætti fram til um kl. 03.00 um nóttina en sannað er með vitnisburði Y og V2 að ákærði var í tjaldinu um nóttina. DNA-rannsókn sú sem lýst var að framan sannar samskipti ákærða og Y og einnig það að veski ákærða fannst í tjaldi hennar.
Y hefur tvisvar sinnum gefið vitnisburð fyrir dómi um atburðinn. Þar greindi hún frá því að ákærði hefði komið inn í tjaldið og þá strax þröngvað henni til samræðis og nauðgað henni. Er Y kom á neyðarmóttöku kl. 04.00 var hún með áverka og hafði sýnilega verið beitt líkamlegu ofbeldi og vísast í þessu sambandi til vitnisburðar Eyrúnar Jónsdóttur hjúkrunarfræðings, en vitnisburður hennar styður frásögn Y um að hún hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi. Þegar um nóttina eða að morgni næsta dags greindi Y þeim V2 og V1 frá því að henni hefði verið nauðgað og er vísað til vitnisburðar þeirra beggja um ásigkomulag Y. Þá lýsti Y nauðguninni við læknisskoðun á neyðarmóttöku. Í vitnisburði Jóhönnu Jónasdóttur læknis er lýst áverkum á Y, bæði á kynfærum og annars staðar á líkamanum. Vitnisburður Jóhönnu og læknisskoðun á Y styðja vitnisburð Y um nauðgunina og að ofbeldi hafi verið beitt.
Hér að ofan er rakið á hvern hátt einstakir þættir máls þessa teljast sannaðir. Þar var rakinn vitnisburður og sýnileg sönnunargögn varðandi einstaka þætti málsins. Að öllu ofanrituðu virtu telur dómurinn sannað með vitnisburði þeirra vitna sem vísað er til hér að ofan og með sýnilegum sönnunargögnum, sem vikið hefur verið að, en gegn neitun ákærða, að ákærði hafi framið þá háttsemi sem í ákærunni greinir og er brot ákærða þar rétt fært til refsiákvæðis.
Ákærði gekkst undir tvær lögreglustjórasáttir á árunum 1998 og 1999 fyrir umferðarlagabrot. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun á árinu 2000 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða er alvarlegt og beindist gegn kynfrelsi Y, sem var mjög ung og brotið því til þess fallið að færa líf hennar úr skorðum eins og raunin varð og rakið hefur verið.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði en hvorki þykir fært að skilorðsbinda refsivistina í heild né að hluta.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 skal ákærði sæta upptöku á 1,01 g af amfetamíni sem ákærði hafði í fórum sínum 5. ágúst 2001.
Y á rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hér að framan var lýst afleiðingum brots ákærða á Y. Með vísan til ofanritaðs þykja miskabætur hennar hæfilega ákvarðaðar 700.000 krónur og skal ákærði greiða dráttarvexti á þá fjárhæð frá 29. maí 2002 að telja og til greiðsludags, en þá var liðinn mánuður frá því að ákærða var kynnt krafan.
Ákærði greiði 150.000 krónur í réttargæsluþóknun til Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur í málsvarnarlaun til Guðjóns Ármanns Jónssonar hæstaréttarlögmanns.
Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Hjördís Hákonardóttir og Friðgeir Björnsson dómstjóri.
DÓMSORÐ:
Ákærði X sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði sæti upptöku á 1,01 g af amfetamíni.
Ákærði greiði Y, 700.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta frá 29. maí 2002 að telja og til greiðsludags.
Ákærði greiði 150.000 krónur í réttargæsluþóknun til Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur í málsvarnarlaun til Guðjóns Ármanns Jónssonar hæstaréttarlögmanns.