Print

Mál nr. 298/2012

Lykilorð
  • Líkamsárás

 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2012.

Nr. 298/2012.

 

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Kára Þórðarsyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Líkamsárás.

K var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ráðist með hnefahöggum og spörkum á A eftir að hafa ekið bifreið sinni aftan á bifreið A. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K hafi enga iðrun sýnt vegna verknaðarins heldur þvert á móti réttlætt gerðir sínar. Ætti hann sér engar málsbætur. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu K en þyngdi refsingu hans og dæmdi hann í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni. Að því frágengu krefst ákærði þess að bótakrafan verði lækkuð.

Brotaþoli krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína og tildæmdan málskostnað vegna hennar, en lætur málið að öðru leyti ekki til sín taka.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots til refsiákvæða.

Í 3. mgr. 14. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er kveðið á um að ökutæki, sem ekið er á eftir öðru ökutæki, skuli vera svo langt frá því, að eigi sé hætta á árekstri, þótt ökutækið, sem er á undan, stöðvist eða dregið sé úr hraða þess. Ákærði ók bifreið sinni aftan á bifreið brotaþola greint sinn og átti þannig sök á árekstrinum. Ákærði réðst síðan í beinu framhaldi af árekstrinum með hnefahöggum og spörkum á brotaþola og ók við svo búið á brott. Er ekkert fram komið í málinu sem gaf ákærða tilefni til þessarar ofsafengnu árásar. Þá hefur hann ekki sýnt merki iðrunar vegna verknaðarins, heldur þvert á móti réttlætt gerðir sínar. Ákærði á sér engar málsbætur. Samkvæmt þessu og með vísan til 1., 6. og 8. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Verður refsingin bundin skilorði á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, einkaréttarkröfu og málskostnað vegna hennar, eru staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Kári Þórðarson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, einkaréttarkröfu og málskostnað, eru staðfest.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 273.255 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars 2012, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 15. nóvember 2011 á hendur Kára Þórðarsyni, kt. [...], [...], [...], fyrir líkamsárás, með því að hafa, fimmtudaginn 30. september 2010, á Reykjanesbraut til móts við Mjóddina í Reykjavík, ráðist á A, eftir að þeir höfðu lent í umferðaróhappi, með hnefahöggum í andlit, höfuð og líkama og spörkum í líkama, allt með þeim afleiðingum að A hlaut eymsli á höfði, hrygg, brjóstkassa og kvið, sjáanlegt mar á brjóstkassa og vinstri kálfa og rifbeinsbrotnaði.

                Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, og 111. gr. laga nr. 82/1998.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Í málinu gerir A þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaða- og miskabætur að fjárhæð 1.297.651 kr., ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. september 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu skaðabótakröfu og til greiðsludags.

                Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Jafnframt gerir hann kröfu um að bótakröfu verði vísað frá dómi, ella verði hann sýknaður af henni. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa.I.

                Í frumskýrslu lögreglu segir að henni hafi borist tilkynning 30. september 2010 kl. 17:17 um að kona hefði orðið vitni að því, á Reykjanesbraut á móts við Mjóddina, að maður hefði gengið að öðrum manni og lamið hann þar sem hann hefði verið stopp við Reykjanesbrautina. Skömmu síðar hefði brotaþoli, A, hringt í lögreglu og sagt að hann væri stopp út við kant á Reykjanesbraut, móts við Mjóddina. Brotaþoli hefði skýrt frá því að hann hefði verið laminn af ökumanni bifreiðarinnar [...], ákærða í máli þessu, eftir árekstur á milli bifreiða þeirra. Lögregla hefði bent brotaþola á að fara á slysadeild vegna meiðsla sem hann hefði fengið og sagt að hann gæti farið á lögreglustöðina í Kópavogi til að leggja fram kæru. Lögregla hefði haft samband við skráðan eiganda bifreiðarinnar [...] og sú athugun leitt í ljós að [...] eigandans hafði verið á bifreiðinni, ákærði í máli þessu. 

                Þá segir í frumskýrslu lögreglu að hún hefði haft samband við vitni í málinu. Vitnið B, stjúpdóttir brotaþola, sem hefði verið í bifreiðinni með honum, hefði skýrt frá því að það hefði verið að lesa og ekki fylgst með umferðinni. Brotaþoli hefði ekki ekið mjög hratt og vitnið hefði fundið fyrir höggi er ökumaður bifreiðar [...], ákærði, hefði skyndilega ekið aftan á bifreið þeirra. Þau hefðu farið út í kant og skyndilega hefði ákærði rifið upp dyrnar ökumanns megin og farið að lemja og sparka í brotaþola. Vitnið hefði setið inni í bifreiðinni á meðan. Ákærði hefði svo farið aftur í bifreið sína, ekið á brott og „gefið þeim fingurinn“.

                Einnig segir í frumskýrslu að lögregla hefði haft samband við C. Hann hefði greint frá því að hafa ekið eftir Reykjanesbraut til suðurs er hann hefði séð árekstur. Skömmu áður hefði vitnið tekið eftir því að ökumaður [...], þ.e. ákærði, hefði ekið fyrir aftan bifreið [...], sem er bifreið brotaþola, og ákærði hefði blikkað brotaþola til að gefa honum til kynna að færa sig yfir á hægri akrein, en hann hefði keyrt allt of hægt á vinstri akrein. Vitnið hefði svo séð brotaþola snarhemla og ákærða lenda aftan á honum. Áður en þetta hefði gerst hafi brotaþoli gert sér það að leik að tipla á hemlana en svo „kloss hemlað“, þannig að ákærði hefði lent aftan á honum. Vitnið hefði jafnframt sagt að það teldi að brotaþoli ætti sök á árekstrinum og að þetta hefði verið ásetningur hjá honum, sérstaklega vegna þess að engin bifreið hefði verið á undan honum og aðrir ökumenn hefðu þurft að taka fram úr honum á hægri akrein. Þá hefði vitnið sagt að það hefði örugglega gert það sama og ákærði hefði gert, að lemja brotaþola. Hann hefði átt það skilið fyrir þessa hegðun í umferðinni.

                Jafnframt segir í frumskýrslu að lögregla hefði rætt við vitnið D sem hefði skýrt frá því að hafa hringt í Neyðarlínuna vegna þess að það hefði orðið vitni að því að ökumaður bifreiðarinnar [...], þ.e. ákærði, hefði lamið ökumann bifreiðarinnar [...], þ.e. brotaþola. Vitnið hefði séð bílaröð myndast á vinstri akrein og allt verið stopp. Er vitnið hefði ekið fram hjá bílaröðinni hefði það séð ákærða koma út úr bifreið sinni og vaða að bifreið brotaþola og byrjað að lemja hann. Brotaþoli hefði ekki getað varið sig þar sem ákærði hefði látið hnefann dynja á honum, en skyndilega hefði ákærði farið í bifreið sína og ekið á brott. Vitnið hefði einnig sagt að það hefði ekki séð aðdraganda árekstursins.

                Brotaþoli, A, lagði fram kæru hjá lögreglu 5. október 2010. Í kæruskýrslu segir að hann hafi verið að aka suður Reykjanesbraut eftir hægri akrein. Hann hefði svo ákveðið að skipta yfir á vinstri akrein og gefið stefnuljós áður. Hann hefði séð bifreið ákærða á vinstri akrein, en það hefði verið langt í hana og hann því talið óhætt að skipta yfir á vinstri akrein. Hann hefði svo séð bifreið ákærða nálgast sig hratt og hann hefði farið það nálægt að hann hefði aðeins séð ljósin og grillið á bifreið ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa aukið ferðina en jafnframt stigið á hemlana til að sýna ákærða hemlaljósin, en ekki vitað fyrr en ákærði hefði ekið aftan á hann þannig að bifreið hans hefði kastast til. Brotaþoli sagði að hann hefði verið á u.þ.b. 60 km hraða á klst. Eftir áreksturinn hefði hann farið út úr bifreið sinni og séð ákærða koma út úr bifreið sinni á mikilli ferð og ákærði kýlt hann án fyrirvara í andlitið með krepptum hnefa. Eftir að brotaþoli hefði fengið hnefahögg í andlitið hefði hann stokkið inn í bifreið sína og reynt að loka dyrunum, en ákærði hefði haldið hurðinni þannig að hann hefði ekki getað lokað. Ákærði hefði svo látið hnefahögg og spörk dynja á honum þar sem hann hefði setið í bifreiðinni og hann hefði reynt eftir fremsta megni að verja bjargráð, sem hann væri með, sem og höfuð sitt fyrir höggum. Brotaþoli sagði að hann hefði m.a. fengið mjög þungt spark í síðuna og hann hefði fundið eitthvað gefa sig innan í sér. Brotaþoli taldi að ákærði hefði veitt honum 20-30 högg með spörkum og höggum, af öllu afli. Ákærði hefði svo allt í einu hætt, farið í bifreið sína og ekið á brott.

                Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 11. október 2010. Í lögregluskýrslu segir að ákærði hafi sagt að ástæðan fyrir því að hann hefði farið út úr bifreið sinni og lamið brotaþola hefði verið sú að hann hefði sýnt af sér vítaverðan akstur og gert sér að leik að aka á hægum hraða á vinstri akrein, fyrir framan ákærða, en brotaþoli hefði gert sér að leik að tipla á hemlana og stöðva svo bifreiðina snögglega, gersamlega að ástæðulausu, með þeim afleiðingum að ákærði hefði ekið aftan á bifreið hans. Áreksturinn hefði þannig orðið vegna þess að brotaþoli hefði stöðvað bílinn skyndilega fyrir framan ákærða og ákærði því ekki náð að stíga á hemlana. Ákærði sagði að það hefði fokið í sig og því hefði hann rokið að bifreið brotaþola. Brotaþoli hefði þá verið að koma út úr bifreið sinni, en hann hefði verið stór og mikill maður að vexti. Ákærði hefði öskrað eitthvað á hann um að hann hefði svínað fyrir sig, en svo hefðu það verið ósjálfráð viðbrögð að kýla brotaþola, frekar en að eiga á hættu að verða kýldur sjálfur. Við höggið hefði brotaþoli fallið inn í bifreið sína, en fæturnir verið fyrir utan. Ákærði hefði þá sagt brotaþola að drulla sér í burtu og sparkað einu sinni í fætur hans. Ákærði hefði gert þetta til að brotaþoli færi með lappirnar inn í bifreiðina og kæmi sér í burtu. Ákærði sagði enn fremur að á þessum tímapunkti hefði hann áttað sig á því sem hann hefði gert og skipað brotaþola að fara á næstu bensínstöð og ræða við sig. Að því sögðu hefði ákærði farið í bifreið sína og ekið á brott, en brotaþoli hefði ekki látið sjá sig á bensínstöðinni. Ákærða var kynntur vitnisburður brotaþola í kæruskýrslu, um að ákærði hefði kýlt hann í andlitið með krepptum hnefa, brotaþoli hefði farið í bifreið sína og reynt að loka dyrunum, en ákærði hefði haldið hurðinni og látið hnefahögg og spörk dynja á honum og þetta hefðu verið um 20-30 högg. Ákærði neitaði þessu alfarið og sagði að hann hefði kýlt brotaþola einu sinni og einu sinni sparkað í fætur hans.

II.

                Í málinu liggur fyrir læknisvottorð Theodórs Friðrikssonar, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-Fossvogi, dags. 8. október 2010. Þar segir að A hafi leitað á slysadeild 30. september 2010 kl. 18:04 vegna líkamsárásar sem hann hefði orðið fyrir skömmu áður. Við skoðun hafi brotaþoli verið með eymsli víðs vegar um líkamann. Ekki hafi verið sjáanlegir áverkar á höfði. Einhver dreifð eymsli hafi verið, en staðsetningu ekki verið nánar lýst. Þá hafi hann kvartað um talsverðan höfuðverk og sagt að hann væri dofinn í andliti. Hann hafi verið þreifiaumur á brjóstkassa og „hvellaumur“ fyrir rifbeinum vinstra megin og sterkur grunur verið um brot. Sjáanlegir maráverkar hafi verið á „thorax“. Þá hafi hann verið þreifiaumur yfir hryggsúlu og rifjabörðum og „flönkum“ sitt hvorum megin og einnig hafi verið eymsli við þreifingu á kvið, en samkvæmt sjúkraskrá hafi ekki verið áberandi sjáanlegir marblettir. Á vinstri kálfa hafi hins vegar verið mar og brotaþoli hafi haltrað við gang. Jafnframt segir í vottorðinu að þar sem um hafi verið að ræða dreifða maráverka víðs vegar um líkamann og talsverð eymsli í brjóstkassa og kvið hafi verið tekin sneiðmynd, en ekki hafi verið að sjá nein áverkamerki fyrir utan óreglu í 6. rifi utanvert vinstra megin og þar hafi verið grunur um ótilfært brot. Brotaþoli hafi verið útskrifaður eftir skoðun og fyllt hafi verið út beiðni fyrir hann um áfallahjálp og dóttur hans sem hefði verið vitni að árásinni.

                Í samantekt vottorðsins segir að um hafi verið að ræða dreifða áverka víðs vegar um líkama. Eymsli á höfði, hrygg, brjóstkassa og kvið, sjáanlegt mar á brjóstkassa og vinstri kálfa. Rifbrot hafi sést á 6. rifi á sneiðmynd. Að lokum segir að maráverkar ættu að jafna sig á 10-14 dögum hið mesta og ekki væri ástæða til að ætla að áverkar brotaþola hefðu varanlegar líkamlegar afleiðingar. Rifbrot gætu verið 4-6 vikur að gróa og valdið viðvarandi verkjum í 2-3 vikur.

III.

                Ákærði lagði fram skriflega greinargerð í málinu, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í greinargerð sinni byggir ákærði á því að það sé alls ósannað að hann hafi ráðist á brotaþola með „eiginlegri líkamsárás“. Ákærði hafi hins vegar sett brotaþola inn í bifreiðina, svo þarna yrði ekki hættuástand, eftir að ákærði hefði gert sér grein fyrir því að þarna væri ekki hægt að ræða málin af neinni skynsemi, en þá hafi verið farin að renna af honum mesta reiðin út af vítaverðum akstri brotaþola.

                Ákærði byggir á því að brotaþoli hafi átt sök á árekstrinum, en hann hafi hagað akstri sínum af stórkostlegu gáleysi, samkvæmt umferðarlögum. Brotaþoli hafi því gefið ákærða fyllsta tilefni til að ákærði ræddi við hann eftir að áreksturinn varð. Þá hafi brotaþoli hins vegar verið mjög æstur og ógnvekjandi og búið sig undir að ráðast á ákærða, sem hafi varið sig með þeim hætti að ýta brotaþola aftur niður í  ökumannssætið, sem hann hafi staðið upp úr.

                Einnig byggir ákærði á því að ekki sé hægt að taka mark á vitninu B þar sem hún sé stjúpdóttir brotaþola. Framburður hennar hjá lögreglu sé að engu hafandi. Þá sé vitnisburður D verulega vafasamur, þar sem hæpið sé að hún hafi orðið vitni að því sem hún segist hafa orðið vitni að, en ökumaður í sporum D hljóti að hafa orðið að hafa athygli sína bundna við aksturinn og sé ómögulegt að hún hafi getað séð það sem hún lýsir, þannig að því verði treyst sem réttri lýsingu á atvikum.

                Ákærði byggir jafnframt á því að sagður hraði bifreiðar ákærða, er áreksturinn varð, sé ekki í samræmi við þær skemmdir sem lýst er að hafi orðið á bifreið brotaþola, en ekkert hafi séð á bifreiðinni sem ákærði ók. Er einnig í þessu sambandi vísað til vitnisburðar C.

                Kröfu sína um frávísun skaðabótakröfunnar byggir ákærði helst á því líkamstjón, sem brotaþoli lýsir að hann hafi orðið fyrir, er ákærði hafi hrint brotaþola inn í bifreiðina, sé ósannað. Ákærði telur að lýsing áverka í læknisvottorði Theodórs Friðrikssonar sé í engu samræmi við þá árás sem brotaþoli lýsi í lögregluskýrslu eða í öðrum vottorðum, en í vottorðinu segi m.a.: „Við skoðun er lýst eymslum víðsvegar um líkama. Ekki munu vera sjáanlegir áverkar á höfði en einhver dreifð eymsli en staðsetningu ekki nánar lýst.“ Aðrir áverkar séu mest maráverkar og ekki áverkar sem gætu hafa komið til við hrindingu ákærða. 

                Í greinargerð ákærða er skorað á brotaþola að leggja fram ítarlegar upplýsingar um fyrra heilsufar, andlegt og líkamlegt, alla vega sex ár aftur í tímann. Telur ákærði að ekki sé útilokað að áverkar brotaþola hafi verið fyrir hendi þegar þann 30.  september 2010. Einnig er skorað á ákæruvaldið að leggja fram mat dómkvaddra matsmanna um hraða bifreiðar ákærða, miðað við þær skemmdir sem á bifreiðunum urðu, sem og frekari upplýsingar um árekstursstaðinn, bremsuför og annað, sem með öllu skorti í lögregluskýrslu. Einnig telur ákærði nauðsynlegt að brotaþoli leggi fram mat samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga, á áverkum þeim sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Þær upplýsingar sem liggi frammi í málinu séu eingöngu staðhæfingar, án þess að nokkur sönnun liggi fyrir um líkamstjón.

IV.

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði kvaðst hafa verið á vinstri akrein á Reykjanesbraut á háannatíma, á leið í Hafnarfjörð. Umferð hefði verið mikil og bíll verið við bíl. Það hefði verið um ein til ein og hálf bíllengd milli ákærða og næsta bíls fyrir framan hann þegar brotaþoli hefði komið á hægri akrein og troðið sér á milli ákærða og þess sem var fyrir framan hann. Við það hefði ákærði blikkað framljósunum og brotaþoli hefði þá neglt niður og ákærði lent aftan á honum, en ákærða hefði ekki gefist tími til að bremsa. Ákærði sagði að brotaþoli hefði gert þetta algjörlega að tilefnislausu og þetta hefði bara verið frekja í brotaþola. Ákærði kvaðst hafa orðið reiður og bílaröð myndast fyrir aftan þá og enginn komist neitt. Ákærði sagði að hann hefði hlaupið út úr bifreið sinni og séð brotaþola opna bíldyrnar og „hrammarnir á honum hefðu komið út“, en hann hefði litið út eins og gamall sjóari með húðflúr og stóra upphandleggi. Ákærði kvaðst hafa verið nýkominn úr brjósklosaðgerð á hálsi og hann hefði hlaupið að brotaþola og hrint honum inn í bílinn og sagt honum að vera ekki með þennan „djöfulskap og tilgerð“ og hann ætti að koma sér á næsta bílastæði ef hann vildi ræða þetta eitthvað nánar. Ákærði hefði svo farið upp í bifreið sína og farið af stað. Ákærði bætti því við að brotaþoli hefði ekki viljað fara inn í bifreið sína og verið með fætur sína út fyrir bíldyrnar og ákærði hefði því sparkað í fætur brotaþola til að koma honum inn í bílinn. Þetta hefði verið eitt spark eða tvö. Ákærði neitaði því að hafa slegið brotaþola og sagði að hann hefði hrint honum með því að ýta á bringu hans. Ákærða var þá kynntur framburður sinn hjá lögreglu um að hann hefði kýlt brotaþola og svo sparkað í hann. Ákærði svaraði: „Kýlt hann í bringuna eða í hann einhvers staðar, ekkert alvarlega sko.“ Sækjandi benti ákærða þá á að það væri munur á því að ýta við einhverjum eða kýla með krepptum hnefa og sagði ákærði þá að það hefði átt að sjást meira á brotaþola ef hann hefði kýlt hann. Jafnframt sagði ákærði að í dagbók lögreglu væri réttilega haft eftir honum að hann hefði hrint brotaþola og sparkað í hann og svo ekið á brott.

                Þegar ákærði var inntur eftir því á hvaða hátt honum hefði þótt brotaþoli ógnandi sagði hann að það hefði verið hvernig brotaþoli hefði komið út úr bifreið sinni og hvernig hann hefði hagað sér í umferðinni. Nánar um það hvernig brotaþoli hefði komið út úr bifreiðinni sagði ákærði að brotaþoli hefði sparkað í hurðina þannig að hún hafi slengst upp og svo hefðu hrammarnir komið á hurðarkarminn og hann hefði komið út úr bifreiðinni, stór og mikill maður með sjóarahúðflúr á framhandleggnum. Jafnframt sagði ákærði að hann hefði mátt við litlu vegna þess að hann hefði verið nýkominn úr aðgerð. Borið var undir ákærða að í frumskýrslu lögreglu er haft eftir vitninu D að ákærði hefði látið hnefana dynja á brotaþola og sagði ákærði að það væri ekki rétt. Einnig var ákærða kynntur framburður brotaþola hjá lögreglu um að ákærði hefði sparkað og slegið hann ítrekað og neitaði ákærði því. Spurður um áverka brotaþola, sem lýst er í fyrirliggjandi læknisvottorði, sagði ákærði að hann teldi að brotaþoli hefði veitt sér þessa áverka sjálfur. Það sem ákærði hefði gert væri ekki til þess fallið að valda áverkum. 

                Brotaþoli A sagði að aðdragandi málsins hefði verið sá að hann hefði verið á leið í Hafnarfjörð og það hefði verið mikil og hæg umferð. Brotaþoli kvaðst hafa séð stórt bil opnast vinstra megin við sig og ákveðið að skipta um akrein og farið á vinstri akreinina í rólegheitunum. Hann hefði svo séð í baksýnis­speglinum bifreið fyrir aftan sig, sem hefði nálgast hratt. Bifreiðin hefði verið það nálægt að það eina sem hefði sést hefðu verið ljósin á henni. Brotaþoli kvaðst hafa stigið aðeins á bremsuna til að blikka bremsuljósunum á bifreiðina fyrir aftan og svo hefði hann haldið áfram sínu striki í umferðinni og aukið aðeins hraðann að næstu bifreið. Bifreiðin fyrir aftan brotaþola hefði hins vegar nálgast hann á fullri ferð og hann haldið að hún færi aftan á hann, sem og hún hefði gert. Brotaþoli kvaðst hafa stöðvað bifreið sína, opnað dyrnar og ætlað út úr henni, en þá hefði hann séð ökumann hinnar bifreiðarinnar koma hlaupandi út úr sinni bifreið á fullri ferð. Brotaþola hefði ekki litist á blikuna og snúið aftur í bifreið sína og ætlað að loka dyrunum en ökumaðurinn hefði rifið upp hurðina. Brotaþoli kvaðst hafa fengið spörk í síðuna, örugglega 5-6 spörk, og svo hefði hann fengið högg í höfuðið, fyrir aftan eyrað, í um 5-10 skipti. Fram kom að brotaþoli væri hjartveikur og með bjargráð og hann hefði reynt að verja hann. Brotaþoli kvaðst hafa vankast og misst gleraugun. Ákærði hefði að lokum hlaupið á brott, farið í bifreið sína og ekið í burtu. Brotaþoli kvaðst hafa átt í vandræðum með að finna leiðina á spítalann og keyrt óvart í Hafnarfjörð, en svo haldið aftur til Reykjavíkur og á spítala. Brotaþoli neitaði því sem ákærði heldur fram um að brotaþoli hefði verið ógnandi. Einnig neitaði brotaþoli því að hann hefði „svínað“ fyrir ákærða og sagði að það hefði verið nóg pláss og hann hefði ekki snögghemlað. Það eina sem brotaþoli hefði gert hafi verið að sýna ákærða bremsuljósin. Aðspurður sagði brotaþoli að slys, sem hann hefði orðið fyrir á árinu 2009, hefði ekkert með áverka þá að gera sem hann hefði hlotið við meinta árás. Þá sagði hann að áverkar hans hefðu ekki komið til við það að ákærði keyrði aftan á hann. Fram kom að brotaþoli hefði verið í bílbelti. Jafnframt sagði brotaþoli að hann væri enn aumur í síðunni, þar sem hann hefði rifbeinsbrotnað, og hann gæti ekki setið lengi. Þá kvaðst hann enn fá höfuðverk, suð fyrir eyrum og svima.

                Vitnið B, stjúpdóttir brotaþola, sem sat í farþegasætinu við hlið brotaþola umrætt sinn, sagði að það hefði verið mikil umferð á Reykjanesbrautinni. Brotaþoli hefði skipt um akrein, frá hægri til vinstri, og það hefði verið nóg pláss þegar hann hefði skipt um akrein. Vitnið kvaðst hafa litið í baksýnisspegilinn og séð bifreiðina fyrir aftan þau koma mjög nálægt þeim. Brotaþoli hefði þá aukið ferðina en bifreiðin fyrir aftan hefði ekið aftan á þau. Brotaþoli hefði þá stöðvað bifreiðina og maðurinn, sem hefði ekið á þau, hefði einnig stansað. Brotaþoli hafi ætlað að fara út og ræða við manninn, en sá síðarnefndi hefði komið hlaupandi og virst vera brjálaður. Maðurinn hefði slegið brotaþola í andlitið og brotaþoli hlaupið aftur í bifreið sína, en maðurinn hefði rifið upp dyrnar og kýlt brotaþola, barið hann í síðuna og sparkað í fætur hans. Þetta hefði verið í 5-10 skipti. Síðan hefði maðurinn farið í burtu og öskrað eitthvað ljótt. Vitnið sagði jafnframt að brotaþoli hefði verið mjög vankaður eftir þetta og hringt í lögreglu. Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði verið hræddur og að ákærði hefði verið ógnandi en ekki brotaþoli. Vitnið kvaðst ekki hafa meiðst við áreksturinn.

                Vitnið C sagði að það hefði séð bifreið ákærða blikka bifreiðina fyrir framan hann, þ.e. brotaþola, og þá hefði brotaþoli stigið á bremsuna, sleppt en svo neglt niður með þeim afleiðingum að ákærði fór aftan á brotaþola. Báðar bifreiðarnar hefðu stoppað og ákærði farið út úr bifreiðinni, en vitnið hefði þá verið komið það langt að það hefði ekki séð hvað gerðist eftir þetta eða meinta líkamsárás. Vitnið taldi að brotaþoli hefði átt sök á árekstrinum, hann hefði tafið umferðina og átt að færa sig yfir á hægri akreinina og hleypa ákærða fram hjá, en hann hefði ekki gert það og augsýnilega viljað tefja umferðina. Umferðin hefði verið hægari á vinstri akrein en þeirri hægri. Enn fremur sagði vitnið að þetta hefði ekki verið mjög harður árekstur.

                Vitnið D skýrði frá því að það hefði verið farþegi í bifreið á Reykjanesbrautinni þegar það hefði séð tvær bifreiðar stopp. Maður hefði rokið út úr annarri bifreiðinni og að hinni bifreiðinni, rifið upp dyrnar og kýlt tvisvar inn í bifreiðina. Vitnið kvaðst hafa sagt við mann sinn, sem var ökumaðurinn, að þetta væri ljótt og hann hefði stöðvað bifreiðina undir brú sem þarna er og vitnið hringt á lögregluna. Lögreglan hefði þá sagt að henni hefði þegar borist tilkynning um málið en vitnið hefði verið beðið um að gefa lögreglu upp bílnúmer bifreiðanna tveggja. Meðan maður vitnisins hefði lesið upp bílnúmerin fyrir vitnið hefðu þau séð áðurnefndan mann sparka einu sinni inn í bifreiðina eða í áttina að henni. Vitnið sagði að  það hefði svo spurt lögregluna í símanum hvort það mætti fara og því hefði verið sagt að það væri í lagi og vitnið hefði því gert það. Bifreiðarnar tvær hefðu þá enn verið á vettvangi.

                Vitnið E kvaðst hafa verið farþegi í bifreið hjá systur sinni. Þær hefðu ekið eftir Reykjanesbraut í átt að Kópavogi þegar vitnið hefði séð að bílar hefðu lent í árekstri. Vitnið hefði svo séð þann sem hafði ekið aftan á hina bifreiðina, þ.e. ákærða, rjúka út úr bifreið sinni og ganga mjög stíft að bifreiðinni sem hann ók á, þ.e. bifreið brotaþola. Brotaþoli hafi verið á leið út úr bifreið sinni og ákærði þá tekið í hurðina hjá honum og byrjað að sparka og lemja og skella hurðinni aftur. Vitnið lýsti þessu nánar þannig að brotaþoli hefði setið í bifreiðinni og ákærði hefði sparkað og verið að hjakka eitthvað í hurðinni og lamið með höndunum. Þetta hefði verið ítrekað og greinilega um átök að ræða. Vitnið sagði að sér hefði verið brugðið og það hefði því hringt í lögreglu.  

                Vitnið Theodór Friðriksson, sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala-Fossvogi, greindi frá því að það hefði séð brotaþola þegar hann kom á slysadeild umræddan dag, en fyrirliggjandi læknisvottorð væri ritað af kandídat sem hefði skoðað hann fyrst. Brotaþoli hafi haft dreifð eymsli og verið með verki í höfði, brjóstkassa og kvið. Hann hafi verið hvellaumur vinstra megin á brjóstkassa og sterkur grunur hafi verið um rifbrot. Tekin hafi verið sneiðmynd af brotaþola sem hafi sýnt að hann var með óreglu á rifi sem hafi bent til rifbrots og það hafi einmitt verið á þeim stað sem hann hafi verið með mestan verk. Það væri því mjög líklegt, miðað við skoðun og myndina, að það hafi verið sprunga í rifi. Jafnframt sagði vitnið að rifbrot væri fyrst og fremst greint við skoðun. Röntgenmyndir hjálpuðu ekki mikið við greiningu en sneiðmynd væri nákvæmari og greindi það oftast. Vitnið sagði enn fremur að hjá brotaþola hafi verið óregla í rifi á nákvæmlega þeim stað sem hann hafi lýst og því verði að teljast mjög líklegt að það hafi verið sprunga þarna, en í sjálfu sér væri ekki til 100% staðfesting á því. Þá greindi vitnið frá því að brotaþoli hafi verið með eymsli og óþægindi í höfði en því væri ekki lýst nógu vel í vottorðinu. Ekki hafi verið sjáanlegir áverkar á höfði, en stundum væri mar djúpt í vefjum sem sjáist ekki strax. Maráverkar væru því ekki útilokaðir á höfði. Aðspurt sagði vitnið að ef um verulega þung högg í andlit væri að ræða gerði maður ráð fyrir sjáanlegum áverkum. Brotaþoli hefði verið með sjáanlegt mar á brjóstkassa, væntanlega þar sem eymslin hafi verið mest, og á vinstri kálfa. Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hafi ekki getað rifbeinsbrotnað við notkun öryggisbeltis þar sem áverkinn hefði verið vinstra megin, nánast undir holhendinni.

V.

                Ákærði neitar sök. Aðdragandi málsins er sá að ákærði keyrði aftan á bifreið brotaþola. Hjá lögreglu sagði ákærði að það hefði verið vegna þess að brotaþoli hefði hemlað snögglega og sýnt af sér vítaverðan akstur. Ákærði hefði því reiðst og hann hefði rokið að bifreið brotaþola, öskrað eitthvað á hann og það hefðu verið ósjálfráð viðbrögð að kýla brotaþola, en ákærði hefði verið hræddur um að brotaþoli, sem væri stór og mikill vexti, myndi kýla ákærða. Jafnframt hefði ákærði sparkað í fætur brotaþola til að koma honum inn í bifreið hans, svo hann færi í burtu.

                Fyrir dómi sagði ákærði sem fyrr að hann hefði reiðst út í brotaþola vegna þess að hann hefði átt sök á árekstrinum. Ákærði lýsti brotaþola sem stórum og miklum sjóara, með mikla hramma og stóra upphandleggi, og að hann hefði verið mjög ógnandi. Brotaþoli kom fyrir dóm og þessi lýsing ákærða á honum stenst ekki. Þá er framburður ákærða um að brotaþoli hafi verið ógnandi ekki í samræmi við það sem fram hefur komið hjá vitnum. Nánar tiltekið skýrði vitnið D frá því að ákærði hefði rokið að bifreið brotaþola og rifið upp hurðina. Ákærði telur framburð vitnisins vafasaman vegna þess að vitnið hafi verið ökumaður og þurft að vera með hugann við aksturinn, en þessu verður að hafna, enda kom fram hjá vitninu fyrir dómi að það hefði verið farþegi. Vitnið E sagði einnig að ákærði hefði rokið út úr bifreið sinni og gengið stíft að brotaþola, tekið í hurðina og ráðist á brotaþola. Vitnið B skýrði einnig frá því að það hefði verið ákærði sem var ógnandi en ekki brotaþoli. Dómurinn fellst ekki á það með ákærða að virða beri vitnisburð B að vettugi vegna þess að hún er stjúpdóttir brotaþola, enda samrýmist vitnisburður hennar framburði annarra vitna. Þegar litið er til framburðar téðra vitna, og framburðar ákærða sjálfs hjá lögreglu, er ljóst að það var ákærði sem var ógnandi við brotaþola en ekki öfugt. Ósamræmi er í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi, um það hvernig hann réðst á brotaþola, og er það til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar hans. Eins og áður segir kvaðst hann hjá lögreglu hafa kýlt brotaþola en fyrir dómi dró hann úr þessu og sagði að hann hefði hrint honum með því að ýta á bringu hans. Þegar ákærði var beðinn um að skýra þetta ósamræmi sagði hann: „Kýlt hann í bringuna eða í hann einhvers staðar, ekkert alvarlega sko.“

                Brotaþoli hefur neitað því að hann hafi átt sök á árekstrinum. Þegar hann lagði fram kæru sína hjá lögreglu skýrði hann frá því að ákærði hefði veitt honum um 20-30 högg, en fyrir dómi greindi hann frá því að hann hefði fengið 5-6 spörk í líkamann og 5-10 högg í höfuð, fyrir aftan eyrað. Vitnið E sagði að ákærði hefði bæði sparkað með fótum og lamið með höndum og sagði að það hefði verið ítrekað, en treysti sér ekki til að lýsa því hversu oft. Vitnið D hefur borið um að ákærði hafi kýlt tvisvar inn í bifreiðina og sparkað einu sinni. Framburður brotaþola um að hann hafi fengið högg í höfuð og spörk í líkama fær því stoð í framburði vitna, en ekki hefur verið um jafn mörg högg og spörk að ræða og hann hefur haldið fram.

                Í málflutningsræðu verjanda var því haldið fram af hálfu ákærða að fyrirliggjandi læknisvottorð væri ekki tækt sem sönnunargagn í málinu, heldur verði að leggja fram sjúkraskrá sem sé frumgagnið. Þessu ber að hafna, enda tíðkast það í sakamálum að leggja fram vottorð sem þessi, sem lögregla aflar, en ekki sjúkraskrá, og hafa þau verið talin gild sönnunargögn. Í fyrirliggjandi læknisvottorði kemur fram að brotaþoli hafi verið með dreifða áverka víðs vegar um líkamann, eymsli á höfði, hrygg, brjóstkassa og kvið. Sjáanlegt mar hafi verið á vinstri kálfa og brjóstkassa. Einnig hafi rifbrot sést á 6. rifi á sneiðmynd. Ekki voru sjáanlegir áverkar í andliti brotaþola og með hliðsjón af framburði hans fyrir dómi um að högg ákærða hefðu lent fyrir aftan eyra er ósannað að ákærði hafi veitt honum hnefahögg í andlit. Hins vegar þykir sannað, með hliðsjón af dreifðum áverkum brotaþola og framburði vitna, að ákærði hafi ráðist á brotaþola með hnefahöggum í höfuð og líkama og spörkum í líkama, eins og honum er gefið að sök í ákæru.

                Framburður ákærða um að brotaþoli hafi sjálfur veitt sér þá áverka sem lýst er í ákæru er fráleitur. Ákærði mótmælir því sérstaklega að brotaþoli hafi rifbeinsbrotnað og bendir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 234/2011. Aðstæður þar voru allt aðrar en í máli því sem er hér til úrlausnar, en í téðum dómi var sakborningur sýknaður. Ekki var talið útilokað að aðrir en sakborningur hefðu tekið harkalega á brotaþola og við fyrstu skoðun á brotaþola á slysadeild voru ekki merki um rifbeinsbrot. Við seinni skoðun á brotaþola var svo tekin röntgenmynd og á henni sást ekki brot. Í máli því sem hér er til úrlausnar var brotaþoli hins vegar „hvellaumur“ yfir rifbeinum og á sneiðmynd sást óregla á 6. rifi, einmitt á þeim stað sem hann var aumastur. Er ekkert annað komið fram í málinu sem getur útskýrt rifbeinsbrotið en árás ákærða. Þannig geta áverkar brotaþola ekki verið tilkomnir vegna árekstrarins umrætt sinn, enda var hann ekki harður, engar skemmdir urðu á bifreið ákærða, og vitnið B, sem sat við hlið brotaþola, meiddist ekkert. Þá hefur vitnið Theodór Friðriksson, sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala-Fossvogi, borið sérstaklega um það að rifbeinsbrot ofarlega vinstra megin gæti ekki hafa hlotist af bílbelti ökumanns og þegar litið er til sjúkragagna brotaþola getur ekki verið um gamlan áverka að ræða. Þegar allt framangreint er virt verður að telja sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að brotaþoli hafi við árás ákærða hlotið þá áverka sem lýst er í ákæru. 

                Samkvæmt framansögðu er ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök, nema högg í andlit eru ósönnuð, og þær afleiðingar sem greinir í ákæru. Brot ákærða er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

VI.

                Ákærði er fæddur í [...] 1978. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann tvisvar gerst sekur um umferðarlagabrot, en þau brot hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar nú. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að hann réðst á brotaþola með offorsi og hlaut brotaþoli dreifða áverka, m.a. rifbeinsbrot. Aksturslag brotaþola getur ekki réttlætt árás ákærða. Ákærði hefur enga iðrun sýnt og virðist ekki sjá neitt rangt við að hafa ráðist á brotaþola. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Með hliðsjón af dómaframkvæmd og því að sakaferill ákærða hefur ekki áhrif hér verður refsing hans skilorðsbundin, eins og nánar greinir í dómsorði.

VII.

                Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa brotaþola, A, að fjárhæð 1.297.651 kr., auk vaxta, sem sundurliðast þannig:

                Sjúkrakostnaður                              200.000 kr.

                Þjáningabætur                                    95.160 kr.

                Miskabætur                                         900.000 kr.

                Lögmannskostnaður                         102.491 kr.

               

                Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás og ber hann skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi. Við aðalmeðferð málsins var fallið frá kröfu vegna sjúkrakostnaðar.

                Krafa um þjáningabætur er rökstudd með því að brotaþoli hafi verið veikur en ekki rúmliggjandi í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í tvo mánuði frá þeim degi er líkamsárásin átti sér stað, eða til 30. nóvember 2011, samtals í 61 dag. Krafa hans vegna þjáningabóta sé því 61x1560 (700x7239/3282), samtals 95.160 kr. Með hliðsjón af því sem segir í fyrirliggjandi vottorði, um að rifbeinsbrot geti verið 4-6 vikur að gróa og valdið viðvarandi verkjum í 2-3 vikur, verður fallist á að ákærða beri að greiða brotaþola þjáningabætur í 14 daga, eða 21.840 kr.

                Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna árásarinnar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. lög nr. 37/1999, sem þykja eftir atvikum hæfilega ákveðnar 300.000 kr.

                Samkvæmt framansögðu ber ákærða að greiða brotaþola samtals 321.840 kr. auk vaxta eins og í dómsorði greinir, en dráttarvextir reiknast frá 1. janúar 2012 þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða í fyrirkalli, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

                Bótakrafa brotaþola vegna lögmannskostnaðar var gerð með fyrirvara um hækkun, kæmi í ljós að meiri tími færi í málið en 4,5 klst. Að þessu virtu og samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber ákærða að greiða brotaþola málskostnað, sem er ákveðinn með vísan til framlagðs málskostnaðarreiknings, 546.219 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti.

VIII.

                Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað málsins. Um er að ræða kostnað vegna læknisvottorðs, 34.500 kr., og þóknun verjanda. Ekki liggur fyrir tímaskýrsla verjanda og þykir þóknun hans hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tilkynningu dómstólaráðs nr. 1/2010 um viðmiðunarreglur fyrir héraðsdómstólana í sakamálum, 188.250 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Kári Þórðarson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði A 321.840 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. september 2010 til 1. janúar 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði A 546.219 krónur í málskostnað.

                Ákærði greiði 222.750 krónur í sakarkostnað, þar með talda 188.250 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns.