Hæstiréttur íslands

Mál nr. 355/2005


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Verðtrygging


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. febrúar 2006.

Nr. 355/2005.

Sigurbjörn Guðmundsson

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.

 Eyvindur G. Gunnarsson hdl.)

gegn

Lífeyrissjóði verkfræðinga

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Lífeyrissjóður. Verðtrygging.

S krafði LV um bætur fyrir tjón, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir þegar verðtryggingarhlutfall lífeyrisréttinda hans var lækkað úr 90% í 80%. Byggði hann annars vegar á því að ekki hefði verið staðið rétt að lækkuninni og hins vegar á því að með henni væri honum mismunað gagnvart öðrum sjóðfélögum. Í héraðsdómi var talið að heimilt hefði verið að greiða atkvæði um breytingar, sem fólu í sér niðurlagningu sérstaks uppbótarsjóðs og lækkun verðtryggingarhlutfallsins, á tveimur aukaaðalfundum auk þess sem ekki var fallist á að þær væru í ósamræmi við nánar tilgreinda dóma Hæstaréttar frá 2000. Þá var talið að S hefði ekki hnekkt málefnalegum rökum tryggingafræðings fyrir lækkun verðtryggingarhlutfallsins eða útreikningum hans, sem gáfu til kynna að lífeyrisgreiðslur til S væru hærri en samþykktir LV tryggja þeim, sem væru að greiða iðgjöld í sjóðinn. Varð það niðurstaða héraðsdóms að S hefði ekki verið mismunað með ólögmætum hætti af LV eða að réttindi hans hefðu verið skert þannig að færi í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar var talið að fyrri liður kröfu S ætti ekki rót sína að rekja til breytinga á samþykkt LV heldur til skýrslu tryggingafræðings LV, þar sem tillaga var gerð um lækkun verðtryggingarhlutfallsins. Á aðalfundi sjóðsins mun fundarstjóri hafa ákveðið að bera tillöguna ekki upp þar sem skylt væri að verða við henni samkvæmt samþykkt sjóðsins. Var því fyrst hreyft fyrir Hæstarétti að tryggingafræðingurinn hefði ekki verið bær til að lækka verðtryggingahlutfallið og komst sú málsástæða því ekki að fyrir réttinum. Þegar af þeirri ástæðu var ekki fallist á fyrri hluta kröfugerðar S. Að öðru leyti var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna hans og LV sýknaður af kröfum S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. ágúst 2005 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 162.684 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi greiddi iðgjöld til stefnda frá 1959-2001 eða í 43 ár. Hann hóf töku lífeyris í apríl 2002, þegar hann var 69 ára. Hann telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna breytinga sem gerðar voru á samþykktum stefnda á aukaaðalfundum hans 3. júlí 2000 og 19. september sama ár. Heldur áfrýjandi því fram að breytingarnar hafi ekki verið gerðar á lögformlegan hátt í samræmi við samþykktirnar og í annan stað mismuni þær áfrýjanda gagnvart öðrum sjóðfélögum með ólögmætum hætti. Hefur hann fengið Jón Erling Þorláksson tryggingafræðing til að reikna út ætlað tjón sitt fram til febrúar 2003. Áfrýjandi sundurliðar stefnukröfuna svo, að 128.569 krónur séu vegna lækkunar á hlutfalli verðtryggingar réttinda hans í útreikningi lífeyris úr 90% í 80% í júlí 2000 og 34.115 krónur á grundvelli vanreiknaðra réttinda vegna iðgjalda greiddra á tímabilinu 1991-2001. Samtals nemi þetta stefnufjárhæðinni 162.684 krónum. Í stefnu í héraði hélt áfrýjandi því fram að yrði fallist á kröfu hans, sem byggð væri á þessum útreikningum tryggingafræðingsins, myndi það í fyrsta lagi fela í sér að iðgjöld hans greidd 1990 og fyrr myndu veita lífeyrisrétt, sem væri 90% af fullverðtryggðum rétti áfrýjanda, og í öðru lagi að iðgjöld greidd 1991 og síðar veittu 100% verðtryggð réttindi, eins og samþykktirnar kveði á um.

Af gögnum málsins má ráða að greiðslur stefnda til áfrýjanda hafa farið eftir útreikningum sem reistir eru á athugun Bjarna Guðmundssonar tryggingafræðings á stöðu sjóðsins 31. desember 1999. Athugun þessi fór fram samkvæmt ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Tryggingafræðingurinn hefur hlotið viðurkenningu til slíks starfs, sbr. 2. mgr. sömu greinar laganna og hefur stefndi valið hann til starfa fyrir sig samkvæmt 25. gr. þeirra. Hefur hann starfað fyrir stefnda um langa hríð og útreikningum á réttindum sjóðfélaga verið hagað eftir athugunum hans og tillögugerð. Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi kom í ljós að Jón Erlingur Þorláksson hafði séð réttindaskrá stefnda en ekki útreikninga hans.

Í samþykktum stefnda, sem í gildi voru þegar fyrrgreind athugun Bjarna fór fram, var svohljóðandi bráðabirgðaákvæði í grein 19.2: „Varasjóði, sem eftir stendur, þegar úthlutað hefur verið þeim hluta hagnaðar af starfsemi sjóðsins, sem til hefur orðið vegna ávöxtunar umfram reiknigrundvöll til og með 31. des. 1990, skal verja til að hækka lífeyrisréttindi þeirra sjóðfélaga, sem lægst réttindi hafa miðað við fulla verðtryggingu iðgjalda þeirra frá upphafi, og greiða í sjóðinn skv. samþykktum þessum. Með varasjóði þessum skal haldið tilteknu hlutfalli af fullri verðtryggingu lífeyrisréttar. Hlutfall þetta verður 80% frá og með 1. jan. 1991 og endurskoðast til hækkunar eða lækkunar skv. úttekt tryggingarfræðings.” Á aðalfundi stefnda 22. maí 2000 var tekin fyrir skýrsla Bjarna Guðmundssonar frá 15. maí 2000 um framangreinda athugun. Í bókun fundarins er getið skýrslu hans og tillagna, þar á meðal um að uppbætur, sem samkvæmt tillögu hans frá 1996 höfðu verið hækkaðar svo miða mætti við 90% af verðtryggðu iðgjaldi í stað 80%, yrðu á ný færðar niður í 80% þar sem ekki væru lengur forsendur fyrir því að miða við hærra hlutfallið. Fundarstjóri vitnaði til framangreindrar greinar 19.2 í samþykktum stefnda og ákvað að þar sem þessi tillaga Bjarna væri byggð á þeirri grein væri samkvæmt orðalagi hennar skylt að verða við henni og var hún því ekki borin upp. Af fundargerðinni verður ekki séð að mótmælum hafi verið hreyft við ákvörðun fundarstjóra. Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ekki annað ráðið en að fyrri liður kröfu hans eigi rót sína að rekja til þessarar breytingar og því ekki til breytinga þeirra sem gerðar voru á samþykktum stefnda á tveimur aukaaðalfundum á árinu 2000. Þeirri málsástæðu að Bjarni Guðmundsson hafi með ólögmætum hætti breytt verðtryggingarhlutfallinu úr 90% í 80% andstætt samþykktum sjóðsins var ekki hreyft í héraði og kemst hún ekki að fyrir Hæstarétti. Þegar af þessari ástæðu verður fyrri hluti kröfugerðar áfrýjanda ekki tekinn til greina.

Með framangreindum athugasemdum en annars með vísun til forsendna héraðsdóms hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann eigi frekari kröfu á hendur stefnda. Verður því niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2005.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 19. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurbirni Guðmundssyni, kt. 020333-3169, Laugarnesvegi 87, Reykjavík, með stefnu birtri 23. júní 2003 á hendur Lífeyrissjóði verkfræðinga, kt. 430269-4299, Engjateigi 9, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu kr. 162.684 með dráttarvöxtum frá 1. febrúar 2003 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Einnig krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

II

Málavextir

Stefnandi er verkfræðingur og hefur átt aðild að stefnda, Lífeyrissjóði verkfræðinga, og greitt iðgjöld til hans um áratuga skeið.  Hann hóf töku lífeyris í apríl 2002.

Lífeyrissjóður verkfræðinga er sameignarsjóður, sem var stofnaður árið 1954 og starfar samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Hlutverk sjóðsins er að veita sjóðfélögum elli- og örorkulífeyri og eftirlátnum mökum þeirra og börnum maka- og barnalífeyri samkvæmt ákvæðum reglugerðar (samþykkta) fyrir sjóðinn.  Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar geta allir verkfræð­ingar orðið sjóðfélagar og aðrir sem stjórnin hefur samþykkt.  Þá er tekið fram í reglugerðinni, að elli- og örorkulífeyrisþegar teljist einnig til sjóðfélaga. 

Á áttunda áratugnum varð sjóðurinn fyrir áföllum vegna verðbólgu í landinu.  Af verðbólgunni leiddi m.a., að lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga, sem komnir voru á eftirlaun, rýrnuðu mjög.  Var brugðizt við því með því að greiða árlega uppbætur á lífeyri, sem voru nefndar jólabónus.  Á aðalfundi 1979 var samþykkt að endurskoða reglugerð sjóðsins vegna þessara vandamála, og þar til endurskoðun lyki skyldu greiddar uppbætur á greiddan lífeyri, sem næmu 80% af verðtryggingu réttinda miðað við framfærsluvísitölu.  Reglugerðinni var þó ekki breytt fyrr en í júní árið 1990, en hún öðlaðist gildi 1. janúar 1991.  Ein helsta breyting reglugerðarinnar var sú, að lífeyrisgreiðslur skyldu verðtryggðar með lánskjaravísi­tölu.  Jafnframt var samþykkt bráðabirgðaákvæði þess efnis, að ef lífeyrisréttindi, reiknuð samkvæmt almennri reiknireglu sjóðsins, veittu sjóðfélögum lægri réttindi en 80% af þeim réttindum, sem verðtryggð iðgjöld hefðu veitt þeim frá upphafi inngreiðslna, fengju þeir það, sem upp á vantaði til að ná 80% hlutfallinu, greitt úr varasjóði, sem kveðið var á um í grein 19.2 í samþykktum sjóðsins. 

Eldri sjóðfélagar voru ekki sáttir við þá breytingu, sem gerð var og töldu sig hlunnfarna af sjóðnum og mismunað til hagsbóta fyrir yngri sjóðfélaga.  Voru höfðuð mál af þeim sökum á hendur sjóðnum.  Þann 27. janúar 1999 og 14. október s.á. gengu um þau deilumál dómar í Hæstarétti, þ.e. mál nr. 57/1999: Lífeyrissjóður verkfræðinga gegn Birgi G. Frímannssyni og gagnsök, nr. 58/1999: Lífeyrissjóður verkfræðinga gegn Gunnari K. Björnssyni og gagnsök, og nr. 59/1999:  Lífeyrissjóður verkfræðinga gegn Ragnari S. Halldórssyni og gagnsök.  Var hluta krafna sjóðfélaga hafnað, en hluti þeirra var tekinn til greina.

Að fenginni niðurstöðu Hæstaréttar í ofangreindum dómsmálum ákvað stjórn stefnda að breyta samþykktum sjóðsins.  Á aðalfundi stefnda þann 22. maí 2000 var lögð fram tillaga til breytingar á samþykktum stefnda.  Þar sem ekki náðist samstaða á fundinum um fram komnar tillögur, var ákveðið að fresta afgreiðslu þeirra til aukaaðalfundar, sem haldinn var 3. júlí 2000.  Hins vegar var ákveðið á fundinum að leggja sérstakan uppbótarsjóð niður og lækka verðtryggingarhlutfallið úr 90% í 80% frá júlí 2000.  Þá var ákveðið að ráðstafa hagnaði af rekstri sjóðsins þannig, að 25 milljónir yrðu lagðar í varasjóð og 952,9 milljónum yrði ráðstafað til aukningar á réttindum sjóðfélaga. 

Kveður stefnandi ekkert af framangreindu, að undanskilinni frestun á afgreiðslu breytingar­tillagna stjórnar stefnda, hafa verið borið formlega undir fundinn til samþykktar.

Á aukaaðalfundinum þann 3. júlí greiddu 57,89% atkvæði með breytingunum við greinum 15.5, 15.6, 15.7, 15.8, 15.9, 15.10, en 61,11 % greiddu atkvæði með breytingartillögum við greinar 19.2, 19.3, 19.4 og 19.5.

Samkvæmt samþykktum stefnda bar að haga breytingum á samþykktum sjóðsins með ákveðnum hætti.  Þannig var mælt fyrir um í grein 16.1 í samþykktunum, að halda skyldi aðalfund í maímánuði ár hvert.  Þá var mælt fyrir um í gr. 17.1, að til breytinga á samþykktum stefnda þyrfti 2/3 greiddra atkvæða á einum aðalfundi eða samþykki með einföldum meirihluta á tveimur aðalfundum í röð.  Af þeim sökum var haldinn annar aukaaðalfundur þann 19. september s.á. þar sem breytingartillögur að greinum 15.5 voru samþykktar  með 79,66% atkvæða og greinum 19.2 með 77,05% atkvæða.            

Stefnandi kveður ósamræmis gæta, samkvæmt fundargerðarbók, á milli þess, sem fundarstjóri fyrrnefnds auka­aðalfundar þann 19. september 2000 bar undir fundinn til samþykktar, og þess, sem bókað er samþykkt.  Þannig komi fram í fundargerð, að fundarstjóri hafi tekið fram, að “...tillögurnar hefðu verið teknar fyrir í 3 liðum á síðasta fundi, þ.e. tillögur til breytinga á greinum 6, 15 og 19 hefðu komið til umræðu og afgreiðslu hver fyrir sig.  Sagðist fundarstjóri ætla að hafa sama hátt á að þessu sinni ef ekki kæmu fram athugasemdir.”  Að lokinni atkvæðagreiðslu sé tekið fram, að grein 6.2, grein 15.5 og grein 19.2 hafi verið bornar undir atkvæði fundarmanna.  Samkvæmt efni fundar­gerðarinnar sjálfrar hafi ekki verið greidd atkvæði um m.a. greinar 15.6, 15.7, 15.8, 15.9, 15.10 og greinar 19.3, 19.4, 19.5.

Stefnandi kveður ákvörðun þessa allt frá fyrstu tíð hafa verið mjög umdeilda, þar sem Samtök eldri félaga í lífeyrissjóði verkfræðinga (SEFL) hafi talið hana fela í sér mismunun gagnvart þeim, sem greitt hefðu í sjóðinn um margra ára skeið til hagsbóta fyrir yngri sjóðfélaga.  Kveðst stefnandi strax á aðalfundinum 22. maí 2000 og í kjölfar hans hafa látið í ljós þá afstöðu sína, að þær breytingar, sem stjórn sjóðsins lagði til að gerðar yrðu á samþykktum, stæðust ekki.  Þrátt fyrir fram komnar athugasemdir stefnanda hafi stjórn stefnda hafnað sjónarmiðum hans. 

Aðila greinir á um gildi samþykkta, sem gerðar voru á aukaaðalfundum þann 3. júlí og 19. september 2000, hvað varðar form og efni. 

III.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn m.a. á því, að þær breytingar, sem bornar voru fram á aðalfundi stefnda þann 22. maí 2000 og samþykktar á aukaaðalfundum þann 3. júlí og 19. september s.á., séu ólögmætar, þar sem brotið hafi verið gegn samþykktum stefnda.  Þá er á því byggt, að fyrrnefndar breytingar feli í sér mismunun á kostnaði stefnanda, en séu til hagsbóta fyrir yngri sjóðfélaga stefnda.

l.  Um ólögmæti nýrra samþykkta vegna brota á samþykktum stefnda.

Á aukaaðalfundi sjóðsins þann 3. júlí 2000 og aukaaðalfundi þann 19. sept. s.á. hafi samþykktum stefnda verið breytt.  Á fyrrnefndum fundum hafi tillögur stjórnar stefnda um breytingar á samþykktum hlotið einfaldan meirihluta atkvæða.

Málsmeðferð stefnda hafi brotið gegn 17. gr. samþykkta sjóðsins, þar sem ekki sé heimild til þess að breyta samþykktum stefnda með samþykki einfalds meirihluta á tveimur “aukaaðalfundum”, heldur verði til að koma samþykki tveggja aðalfunda.

Stefnandi byggir á því, að sú málsmeðferð, sem að framan sé lýst, brjóti gegn gr. 16.1, 16.4 og 17.1 þágildandi samþykkta stefnda, sbr. dskj. nr. 17.  Eins og fram komi í gr. 16.1, sé gert ráð fyrir því, að aðalfundur sé haldinn í maímánuði ár hvert.  Þá sé mælt fyrir um í gr. 17.1, að til breytinga á samþykktum stefnda þurfi 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi, eða samþykki með einföldum meirihluta á tveimur aðalfundum í röð.  Af efni fyrrgreindra samþykkta sé ljóst, að afgreiða verði breytingar á samþykktum stefnda á lögmætum aðalfundum, en ekki á “aukaaðal­fundum”.  Eins og ráða megi af gögnum málsins, hafi stefndi haldið “aukaaðalfundi” til þess að breyta samþykktum sínum.  Að mati stefnanda hafi stefndi ekki breytt samþykktunum með réttum hætti með afgreiðslu sinni.  Þannig hafi stefndi ekki fengið samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi eða samþykki einfalds meirihluta á tveimur aðalfundum í röð, hvað varði breytingar á samþykktum stefnda, eins og gr. 17.1 í samþykktum stefnda áskilji.  Allt framangreint leiði til þess, að ákvarðanir stefnda séu ólögmætar og að engu hafandi.

Þannig byggi stefnandi á því, að í orðalagi greinar 17.1 samþykkta stefnda felist það, að nái breytingartillaga á samþykktum stefnda, sem borin sé upp á aðalfundi hans, ekki tilskildum meirihluta atkvæða, þ.e. 2/3 hluta atkvæða, beri að leggja breytingatillögurnar fram á ný á næsta aðalfundi stefnda til að tryggja, að breytingar­ferlið taki lengri tíma, ef 2/3 hlutar standi ekki að baki breytingum á samþykktum. Þannig hafi stefndi í raun brotið gegn framangreindum anda samþykkta stefnda, sem fram komi í skýru orðalagi þeirra, þ.e. honum hafi verið óheimilt að boða sérstaklega til aukaaðalfundar til þess eins að knýja hinar umdeildu breytingar í gegn.

2.  Um ólögmæta mismunun stefnda.

Þá byggir stefnandi á því, að fyrrnefndar breytingar mismuni stefnanda gagnvart öðrum sjóðfélögum með ólögmætum hætti.  Í fyrrnefndum breytingum felist rúmlega 11% skerðing lífeyrisréttar stefnanda með upptöku 10% af öllum iðgjöldum hans, frá upphafi fullverðtryggðum, en þessum hluta sé síðan úthlutað til allra annarra sjóðfélaga stefnda sem hagnaði í samræmi við hinar nýju samþykktir hans.  Í þessu felist ólögmæt mismunun, þar sem einungis hafi verið skert iðgjöld stefnanda (og annarra eldri sjóðfélaga), en ekki allra sjóðfélaga.  Um tölulegan útreikning, hvað þetta varði, vísist til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingarfræðings, sbr. dskj. nr. 14.

Auk framangreinds brjóti hinar nýju samþykktir gegn því réttarástandi, sem á hafi komizt eftir niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr. 57/1999, 58/1999 og 59/1999.  Í þeim dómum hafi falizt, að reikna bæri 90% verðtryggingu á lífeyrisréttindi, áunnin með iðgjöldum, greiddum 1990 og fyrr, í samræmi við samþykkt á aðalfundi stefnda árið 1996.  Lækkun á 90% í 80%, eins og samþykktirnar frá 2000 kveði á um, verði að telja ólögmæta, enda sé henni einvörðungu beint gegn eldri sjóðfélögum, þ.m.t. stefnanda, og skerði ekki rétt annarra.  Jafnframt verði að telja, að eftir 1990 beri að verðtryggja 100% þau lífeyrisréttindi, sem komi út úr framanrituðu, auk allra réttinda vegna greiðslna iðgjalda eftir 1990.  Í þessu felist, að sú kvöð, sem lögð hafi verið á eldri sjóðfélaga með hinum nýju samþykktum frá árinu 2000, þ.e. að leggja allverulegan hluta iðgjalda sinna til að fylla upp í áðurnefnda kvöð stefnda um 90% verðtryggingu, sé með öllu óheimil, þar sem sjóðfélögum sé mismunað með þeim hætti.  Kostnaðurinn við fyrrnefnda kvöð sé lagður á eldri sjóðfélaga eingöngu, þ.m.t. stefnanda, en ekki dreift á alla sjóðfélaga.

Verði fallizt á dómkröfur stefnanda, sem byggi á fyrrnefndum útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingarstærðfræðings, muni það m.a. fela eftirfarandi í sér gagnvart stefnda:

-             Iðgjöld greidd 1990 og fyrr muni veita lífeyrisrétt, sem sé 90% af fullverðtryggðum rétti stefnanda.  Rökin fyrir þessu séu þau, að þessi prósenta hafi falizt í dómum Hæstaréttar í málum nr. 57/1999, 58/1999 og 59/1999, og að lækkun réttinda úr 90% í 80% með breytingum á samþykktum sjóðsins frá árinu 2000 stangist á við reglur um lífeyrissjóði.

-              Iðgjöld greidd 1991 og síðar muni veita 100% verðtryggð réttindi að fullu, eins og reglugerð kveði á um og án skerðingar samkvæmt 80% reglu.

 

Verði ekki fallizt á kröfu stefnanda, sé fest í sessi sú ákvörðun, að stefnda hafi verið og sé heimilt að mismuna félögum sínum á grundvelli aldurs - m.ö.o. að skerða lífeyrisréttindi stefnanda og nota þá skerðingu til hækkunar á lífeyrisréttindum yngri sjóðfélaga.

Þá byggir stefnandi á því, að réttindi hans í stefnda séu eign, sem njóti friðhelgi samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995.  Í því felist, að enginn, hvorki einkaréttarlegur né opinber aðili, geti skert eign stefnanda, nema að ákveðnum skilyrðum fullnægðum.  Þá beri og að taka fram, að stefndi sé sameignarlífeyrissjóður, sem starfi samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldu­tryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Af því leiði, að óheimilt sé að skerða réttindi eins hóps innan lífeyrissjóðsins og endurúthluta þeirri eignaupptöku, sem í skerðingunni hafi falizt, til annarra aðila, þ.m.t. annars hóps innan sama lífeyrissjóðs.  Taka verði tillit til þessara sjónarmiða við mat á hinum ólögmætu ákvörðunum stefnda.

Krafa stefnanda á hendur stefnda byggi á almennum meginreglum kröfu- og samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga.  Þannig sé annars vegar í gildi samningur um greiðslu lífeyris milli stefnanda og stefnda og hins vegar njóti stefnandi ákveðinna réttinda, m.a. samkvæmt samþykktum stefnda.  Í honum felist, að á stefnanda (og vinnuveitanda hans) hafi hvílt skylda til að inna af hendi iðgjöld til stefnda.  Á móti hafi sú skylda hvílt á stefnda, og hvíli enn, að greiða stefnanda lífeyri í samræmi við samning aðila, samþykktir stefnda og lög nr. 129/1997 um skyldu­tryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Ákvörðun stefnda byggi ekki á samningi aðila, samþykktum hans sjálfs og lögum nr. 129/1997, þar sem með ákvörðun hans hafi stefnanda verið mismunað, öðrum sjóðfélögum í stefnda til hagsbóta.  Af þessu hafi hlotizt tjón, sem stefnda beri skylda til að bæta.

Verði ekki fallizt á framangreint, byggi stefnandi á almennum reglum samninga- og kröfuréttarins um skaðabætur innan samninga.  Eins og fyrr segi, sé í gildi samningur um greiðslu lífeyris milli stefnanda og stefnda.  Ákvörðun stefnda byggi ekki á samningi aðila, samþykktum hans sjálfs og lögum nr. 129/1997 og verði að telja, að í því felist vanefnd stefnda á samningnum.  Af þessu hafi hlotizt tjón, sem stefnda beri skylda til að bæta.

Um umfang tjóns stefnanda vísist til útreikninga Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingarfræðings, sbr. dskj. nr. 14.  Samkvæmt útreikningum hans sé tjón stefnanda eftirfarandi fram til febrúarmánaðar 2003:

1.             Krafa vegna lækkunar lífeyris úr 90% í 80% í júlí 2000                                      kr. 128.569

2.             Krafa vegna vanreiknaðra réttinda út á iðgjöld greidd 1991-2001        kr.   34.115

                                                                                                  SAMTALS                       kr. 162.684

 

Þá sé og gerð krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Upphafsdagur dráttarvaxta miðist við 1. febrúar 2003, en telja verði, að þá hafi tjón stefnanda endanlega komið fram.

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á almennum reglum samninga- og kröfuréttar, einkum reglunni um skuldbindingargildi samninga og meginreglunni um skaðabótaskyldu þess, sem vanefni gilda samninga, og skyldu hans til að greiða skaðabætur samkvæmt meginreglunni um skaðabætur innan samninga.  Þá er byggt á ákvæðum laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Einkum er vísað til 13.-14. gr. laganna.  Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Þess er krafizt, að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, sbr. 1. nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur, og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður stefnda

Stefndi kveðst hafna þeirri málsástæðu stefnanda, sem byggi á því, að  þær breytingar, sem bornar hafi verið fram á aðalfundi stefnda 22. maí 2000 og samþykktar á aukaaðalfundum þann 3. júlí og 19. september s.á., séu ólögmætar, þar sem brotið hafi verið gegn samþykktum stefnda, og því séu ákvarðanir um breytingar á samþykktum hans ólögmætar og að engu hafandi.  Framangreindar breytingar á samþykktum sjóðsins hafi farið fram með löglegum hætti og séu því bindandi fyrir sjóðfélaga.  Stefndi leiði þessa niðurstöðu af ákvæðum samþykkta sjóðsins, og hvernig þau ákvæði hafi verið skilin í gegnum tíðina.

Um aðalfundi sé fjallað í 16. gr. samþykkta sjóðsins, dskj. nr. 17-19.  Greinin beri fyrirsögnina “Aðalfundur”.  Í greininni sé annars vegar fjallað um aðalfund þann, sem halda skuli fyrir lok maímánaðar ár hvert, og hins vegar aukaaðalfund, sem halda skuli að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. grein 16.6.  Í grein 16.2 sé kveðið á um, hvernig skuli boða aðalfund og með hvaða fyrirvara.  Þar sé og fjallað um dagskrá hins reglulega aðalfundar, en meðal dagskrárefna séu tillögur um breytingar á samþykktum.  Í gr. 16.3 sé fjallað um skilyrði þess, að aðalfundur sé löglegur.  Í grein 16.4 segi, að á aðalfundum nægi einfaldur meirihluti til samþykkta, nema ef um sé að ræða breytingar á samþykktum sjóðsins.  Í grein 16.6 segi, að halda skuli aukaaðalfund, þegar meirihluti sjóðstjórnar telji ástæðu til, eða minnst 25 sjóðfélagar sendi stjórninni skrifleg tilmæli um það og greini tilefni.

Ekki sé þess getið í grein 16.6, hvaða efni skuli taka fyrir á aukaaðalfundi.  Þá sé þess ekki getið, að óheimilt sé að taka fyrir eitthvert tiltekið fundarefni.  Stefndi telji, að af þessu leiði, að heimilt sé að taka fyrir á aukaaðalfundi hvert það efni, sem ekki hafi þegar verið afgreitt á reglulegum aðalfundi á því starfsári með bindandi hætti, svo sem samþykki reikninga og stjórnarkjör.

Ákvæðið um, að breytingar skuli samþykktar á tveimur aðalfundum í röð, sé að finna í grein nr. 17, sem beri yfirskriftina “Breytingar á samþykktum”.  Þegar að þessari grein komi, hafi í undanfarandi grein verið búið að tala um tvenns konar aðalfundi.  Annars vegar þann aðalfund, sem beri að halda fyrir lok maímánaðar ár hvert, og hins vegar um aðra aðalfundi, sem nefndir séu aukaaðalfundir og megi halda hvenær sem sé, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Í grein 17 segi, að til breytinga á samþykktum sjóðsins þurfi 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi, eða samþykki með einföldum meirihluta á tveimur aðalfundum í röð.  Hefði ætlunin verið sú að gera kröfu um samþykki tveggja aðalfunda með árs millibili, hefði það verið tekið fram í 17. grein.  Með því að hafa ákvæði um tvo aðalfundi í sjálfstæðu ákvæði, sem komi eftir ákvæði 16, þar sem fjallað sé um tvenns konar aðalfundi, bendi slíkt eindregið til þess, að ekki skipti máli, hvort um samþykki á aðalfundi eða aukaaðalfundi sé að ræða.  Hefði ætlunin verið sú að gera kröfu um samþykki á aðalfundi með árs millibili, hefði orðið að taka það fram í ákvæðinu.  Orðalagið “tveir aðalfundir í röð” styrki þessa niðurstöðu, því orðalagið vísi til nokkurrar tímanándar atburðanna.

Þá skipti miklu máli, að sá skilningur hafi lengi verið við lýði hjá sjóðnum, að heimilt sé að breyta samþykktum hans á aukaaðalfundi.  Á aukaaðalfundi sjóðsins hinn 28. nóvember 1979 hafi verið samþykktar breytingar á reglugerð sjóðsins, m.a. um að greiða lífeyrisþegum 80% verðbætur, dskj. nr. 22.  Þetta sé einhver afdrifaríkasta breyting á skipulagi sjóðsins á undanförnum áratugum.  Gildi þessarar samþykktar hafi aldrei verið vefengt af sjóðfélögum á þeirri forsendu, að hún væri gerð á aukaaðalfundi.  Hæstiréttur hafi jafnframt byggt dóma á því, að hún teljist bindandi, sbr. dóma Hæstaréttar nr. 57/1999, 58/1999 og 59/1999.  Þetta sé einungis eitt af fjölmörgum skiptum, þar sem breytingar á samþykktum (reglugerð) sjóðsins hafi verið samþykktar á aukaaðalfundi.  Þannig hafi breytingar á samþykktum sjóðsins verið samþykktar á aukaaðalfundi, sem haldinn var 25. febrúar 1982, dskj. nr. 23, 9. desember 1998, dskj. nr. 24, og 8. febrúar 1999, dskj. nr. 25.  Þessi athugasemdalausa framkvæmd staðfesti þann skilning, að heimilt sé að afgreiða tillögur um breytingar á samþykktum á aukaaðalfundi.

Framangreindar breytingar á samþykkt sjóðsins hafi verið staðfestar af fjármála­ráðuneytinu, að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.  Í þessari staðfestingu felist samþykki þessara eftirlitsaðila þess efnis, að um löglegar breytingar hafi verið að ræða, sbr. 28. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Samkvæmt framansögðu telji stefndi engan vafa leika á því, að breytingar þær, sem gerðar hafi verið á samþykktum sjóðsins á aukaaðalfundi hans hinn 3. júlí og 19. september 2000, hafi verið löglegar.  Því séu allir sjóðfélagar, þar á meðal stefnandi, bundnir af samþykktum sjóðsins, eins og þær hljóði eftir framangreinda breytingu.

Stefndi mótmæli því sérstaklega, sem komi fram á bls. 2 í stefnu, að á aðalfundi Lífeyrissjóðs verkfræðinga hinn 22. maí 2000 hafi verið ákveðið að fara að tillögu tryggingarfræðings sjóðsins og leggja sérstakan uppbótarsjóð niður og lækka verðtryggingarhlutfallið úr 90% í 80% frá júlí 2000.  Þá segi einnig, að ákveðið hafi verið að ráðstafa hagnaði af rekstri sjóðsins þannig, að 25 milljónir yrðu lagðar í varasjóð og 952,9 milljónum yrði ráðstafað til aukningar á réttindum sjóðfélaga. Ekkert af framangreindu hafi verið borið formlega undir fundinn til samþykktar.

Hið rétta sé, að tillaga Bjarna Guðmundssonar um ráðstöfun hagnaðar hafi verið borin undir fundinn og samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, sbr. dómskj. nr. 3. Bjarni hafi kynnt þá niðurstöðu tryggingafræðilegrar úttektar sinnar, að vegna aukinna skuldbindinga sjóðsins væri ekki lengur grundvöllur til að miða uppbætur við 90% verðtryggingu iðgjalda, og því þyrfti að lækka hlutfallið í 80% frá og með l. júlí 2000.  Þessi breyting hafi verið gerð að tillögu Bjarna í samræmi við bráðabirgðaákvæði 19.2 í samþykktum sjóðsins, þar sem segi, að verðtryggingar­hlutfall lífeyrisréttar verði 80% frá og með 1. janúar 1991 og skuli “endurskoðast til hækkunar eða lækkunar skv. úttekt tryggingarfræðings”.  Það sé hins vegar rangt, sem komi fram í stefnu, að Bjarni hafi gert það að tillögu sinni, að uppbótarsjóðurinn yrði lagður niður.

Stefndi hafni jafnframt þeim málsástæðum stefnda, að fyrrnefndar breytingar feli í sér mismunun milli sjóðfélaga á kostnað stefnanda en til hagsbóta fyrir yngri sjóðfélaga stefnda, og að hinar nýju samþykktir brjóti gegn því réttarástandi, sem á hafi komizt eftir niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr. 57/1999, 58/1999 og 59/1999.

Í dómum Hæstaréttar nr. 57/1999, 58/1999 og 59/1999 hafi verið tekizt á um, hvort stefnendur ættu rétt á 100% verðtryggingu lífeyrisréttinda á grundvelli samþykkta sjóðsins.  Stefndi í málunum, þ.e. Lífeyrissjóður verkfræðinga, hafi haldið því fram, að svo væri ekki, og í samþykktum sjóðsins fælist einungis réttur stefnanda til 80% verðtryggingar til ársins 1996, en frá 1. júlí það ár ættu þeir rétt á 90% verðtryggingu í samræmi við ákvörðun sjóðsins.  Sem fyrr segi, hafi kröfu stefnenda um 100% verðtryggingu lífeyrisréttinda verið hafnað.  Ekki hafi, í dóms­niðurstöðunum, verið tekin afstaða til þess, hvort Lífeyrissjóði verkfræðinga sé skylt að veita 90% verðtryggingu lífeyrisréttinda, enda hafi slík krafa ekki verið gerð fyrir dóminum.  Í niðurstöðu dómsins felist einungis það, að Lífeyrissjóðnum sé ekki skylt, á grundvelli samþykkta sinna, að verðtryggja lífeyrisréttindin að fullu.

Stefndi hafni þeirri túlkun stefnanda á framangreindum dómum, að í þeim felist, að óheimilt sé að lækka verðtryggingarhlutfall í samþykktum sjóðsins úr 90% í 80%. Stefndi telji, að framangreindir dómar staðfesti einungis þann rétt, sem stefnendur málanna hafi haft í sjóðnum á grundvelli þeirra samþykkta sjóðsins, sem í gildi hafi verið, er dómurinn var kveðinn upp, þ.e. 80% verðtryggingarhlutfall til 30. júní 1996 en 90% verðtryggingarhlutfall frá 1. júlí 1996 og til þess dags, sem dómurinn hafi verið kveðinn upp.  Hins vegar segi dómurinn ekkert um það, hvaða framtíðarréttindi sjóðsfélagar kunni að eiga, enda sé ómögulegt fyrir dóminn að vita, hvort eða hvaða breytingar verði gerðar á reglum lífeyrissjóðsins.  Sú niðurstaða, sem stefnandi byggi á, að í framangreindum dómum Hæstaréttar felist bann við breytingum á samþykktum sjóðsins um verðtryggingarhlutfall um ókomna tíð, sé með öllu ótæk.  Dómurinn hafi einungis kveðið á um réttarstöðu stefnanda á grundvelli þeirra samþykkta sjóðsins, sem í gildi hafi verið við uppsögu dómsins.

Stefndi mótmæli því einnig, að framangreindar breytingar á samþykktum sjóðsins feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart stefnanda.  Eins og komi fram í málsatvikalýsingunni, hafi Lífeyrissjóður verkfræðinga orðið fyrir töluverðum áföllum í verðbólgu áttunda áratugarins, m.a. vegna óverðtryggðra útlána til sjóðfélaganna sjálfra.  Ávöxtun eigna sjóðsins hafi verið sveiflukennd á undanförnum árum.  Sé staðan sú, að í lok árs 2002 hafi vantað 9% til þess að eignir sjóðsins nægðu fyrir skuldbindingum hans, samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt, sem gerð hafi verið samkvæmt skyldu í 24. gr. laga nr. 129/1997, dskj. nr. 32.  Sé rétt að vekja athygli á, að samkvæmt 39. gr. laganna sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins, ef þessi munur verði 10% eða meiri.

Að beiðni stefnda hafi Bjarni Guðmundsson, tryggingafræðingur sjóðsins, reiknað út lífeyrisrétt stefnanda samkvæmt samþykktum stefnda og borið hann saman við greiddan lífeyri til hans í ágúst 2003, dskj. nr. 33.  Niðurstaðan sýni, að stefnandi njóti lífeyrisgreiðslna, sem séu 16,26% hærri en samþykktirnar veiti fyrir iðgjöld, sem nú séu greidd til sjóðsins.  Forsendur um mismunun stefnanda i óhag séu því rangar. Þessu til viðbótar komi sú mismunun, að stefnandi hafi átt þess kost á sínum tíma að fá óverðtryggð lán frá sjóðnum, sem ekki hafi verið endurgreidd með sömu verðmætum.  Þessi lán hafi verið fjármögnuð með iðgjöldum þess tíma.

Á grundvelli þessa mótmæli stefndi því sem röngu og ósönnuðu, að stefnanda hafi verið mismunað með ólögmætum hátt af hálfu stefnda.  Útreikningar sýni, að þessu sé öfugt farið.

Í framansögðu felist, að yngri sjóðfélagar hafi í nokkrum mæli tekið á sig það tap, sem sjóðurinn hafi orðið fyrir í verðbólgu áttunda áratugarins.  Það sé vandséð, að stefnandi geti átt lögvarða kröfu til þess, að yngri sjóðfélagar einir taki á sig það tap.  Samkvæmt útreikningum Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings standi sjóðurinn undir 80% verðtryggingu lífeyrisréttinda og beri þá báðir hópar sinn hlut af tapi sjóðsins frá verðbólguárunum.  Ef krafa stefnanda um 90% verðtryggingu næði fram að ganga, yrði stærri hluta þeirrar byrðar velt yfir á yngri sjóðfélagana.

Í dómum Hæstaréttar nr. 57/1999, 58/1999 og 59/1999 segi, að auðsætt sé, að eldri sjóðfélagar hafi notið hagræðis af reglum sjóðsins um greiðslur lífeyris miðað við 80% verðtryggingu iðgjalda frá upphafi.  Sé þá átt við, að þessir sjóðfélagar hafi notið betri kjara hjá sjóðnum en almennar reglur sjóðsins kveði á um, þar sem réttindi þeirra hafi ekki, eftir breytinguna á samþykktum sjóðsins, tekið mið af þeim réttindum, sem iðgjöld þeirra mynduðu.  Hafi verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að bæta réttindi þeirra.  Þessi ummæli í dómum Hæstaréttar bendi til þess, að ekki verði talið, að 80% verðtrygging á lífeyrisréttindum feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart eldri sjóðfélögum.  Stefndi telji, að reglur lífeyrissjóða, sem mismuni ekki þeim sjóðfélögum, sem eins sé ástatt um, feli ekki í sér ólögmæta mismunun.  Þessu til stuðnings vísi stefndi í dóm Hæstaréttar í máli nr. 204/2001, þar sem komi fram, að heimilt sé að breyta samþykktum lífeyrissjóða á þann veg, að réttindi tiltekinna, sambærilegra hópa taki breytingum, þannig að áhrif hafi á aðra hópa, þ.e. tilfærsla réttinda sé heimil, enda sé jafnræðis gætt milli þeirra sjóðfélaga, sem sambærilegir geti talizt.  Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 195/1999 komi fram, að heimilt sé að breyta samþykktum lífeyrissjóða, enda byggist breytingarnar á málefnalegum sjónarmiðum, taki til allra sjóðfélaga og jafnræðis sé gætt um alla þá, sem sambærilegir geti talizt.  Af framangreindum dómum Hæstaréttar og lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé ljóst, að löggjafinn veiti lífeyrissjóðum rúmar heimildir til að ráðstafa málefnum sjóða sinna með löglega gerðum samþykktum.  Framangreindar breytingar á 19. gr. rúmist innan þessara heimilda.

Þá megi einnig benda á, að breytingarnar á samþykktum sjóðsins hafi fyrst verið lagðar fyrir Fjármálaeftirlitið og síðan fjármálaráðuneytið til samþykktar.  Í bréfi stefnda til Fjármálaeftirlitsins, dags. 23. ágúst 2000, sé beðið um álit Fjármálaeftirlitsins á því, hvort sú breyting, að lækka verðtryggingarhlutfallið samkvæmt grein 19.2. úr 90% í 80% frá l. júlí 2000 og aðrar breytingar á grein 19 í samþykktum sjóðsins séu í samræmi við lög og reglur, sem taki til sjóðsins, og jafnframt, hvort Fjármálaeftirlitið telji þær samrýmast Hæstaréttardómum nr. 57-59/1999, dskj. nr. 26.  Með bréfi Fjármála­eftirlitsins til stefnda, dags. 18. september 2000, sé staðfest, að framangreindar breytingar stefnda á samþykktum sjóðsins séu heimilar, dskj. nr. 29.  Í bréfinu segi:

“Eins og fram kom í bréfi eftirlitsins, dags. 12. september, er það mat þess að í dómum Hæstaréttar komi ekki skýrt fram við hvaða verðtryggingu skuli miðað við útreikning grunnréttinda, sbr. greinar 19.3-19.5, en að mati Fjármálaeftirlitsins er sú ákvörðun um að reikna grunnréttindi sjóðfélaga miðað við 80% verðtryggingu ekki í andstöðu við dóma Hæstaréttar nr. 57-59/1999. “

Þessar breytingar á samþykktum Lífeyrissjóðs verkfræðinga hafi einnig verið staðfestar í fjármálaráðuneytinu.  Þegar samþykktirnar voru til umfjöllunar hjá Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu, muni forsvarsmenn SEFL (Samtaka eldri félaga í Lífeyrissjóði verkfræðinga) hafa komið athugasemdum sínum um ætlaða, ólögmæta mismunun á framfæri, sem og athugasemdum sínum um ætlað ólögmæti aukaaðalfunda Lífeyrissjóðs verkfræðinga.  Athugasemdirnar hafi ekki verið teknar til greina af hinum opinberu eftirlitsaðilum.  Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segi:

 “Allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs skal tilkynna fjármálaráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laga þessara og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir lífeyrissjóðinn að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.”

Með því að staðfesta samþykktirnar hafi fjármálaráðuneytið tekið efnislega afstöðu til samþykktanna í samræmi við framangreint ákvæði.  Það hafi verið niðurstaða ráðuneytisins, að breytingin fullnægði ákvæðum laga nr. 129/1997 og gildandi samþykktum Lífeyrissjóðs verkfræðinga, og hafi stefnanda því verið heimilt að gera framangreindar breytingar.

Um kröfugerð stefnanda

Stefnandi geri kröfu um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar, sem byggð sé á hluta af útreikningi Jóns E. Þorlákssonar á dskj. nr. 14, sbr. sundurliðun á bls. 6 í stefnu.  Engin krafa sé hins vegar gerð um viðurkenningu á því, að samþykktir stefnda séu ógildar að einhverju leyti.  Af hálfu stefnda sé þessari framsetningu kröfunnar mótmælt.  Stefndi hafi greitt lífeyri til stefnanda samkvæmt gildandi reglum sjóðsins, sem staðfestar séu af þar til bærum stjórnvöldum.  Augljóst megi vera, að honum verði ekki gert að greiða lífeyri með öðrum hætti, án þess að samþykktirnar verði dæmdar ólögmætar eða þeim breytt.

Krafa stefnanda sé öðrum þræði sett fram sem skaðabótakrafa innan samninga. Forsenda skaðabótaskyldu hljóti hér eins og endranær að vera sök.  Að mati stefnda sé útilokað, að sök sé fyrir hendi, þegar greiðslur til stefnanda hafi verið inntar af hendi samkvæmt samþykktum sjóðsins, sem staðfestar séu af stjórnvöldum með framangreindum hætti.  Hvort tveggja framansagt leiði til sýknu.

Um kröfu sína um sýknu vísar stefndi til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Af þeim lögum sé ljóst, að lífeyrissjóðir hafi ríka heimild til að haga málum sínum með þeim hætti, sem þeir kjósi, svo framarlega sem kveðið sé á um málefni sjóðsins í löglega gerðum samþykktum.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Jón Erlingur Þorláksson tryggingastærðfræðingur og Bjarni Ragnar Guðmundsson tryggingafræðingur.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því annars vegar, að samþykktir, sem gerðar voru á aukaaðalfundum í júlí og september 2000 séu ólögmætar og hins vegar á því að stefnanda hafi verið mismunað á ólögmætan hátt. 

Um aukaaðalfund er fjallað í 6. tl. 16. gr. samþykkta stefnda undir kaflaheitinu “Aðalfundur”, en þar segir, að aukaaðalfund skuli halda, þegar meiri hluti sjóðstjórnar telji ástæðu til, eða minnst 25 sjóðfélagar sendi stjórninni skrifleg tilmæli þar um og greini tilefni.”  Ekkert er tekið fram í samþykktunum, hvert hlutverk aukaaðalfundar sé, hvorki að hann einskorðist við ákveðin málefni né heldur að óheimilt sé að fjalla þar um tiltekin málefni.  Nægir því, að þeir, sem hafa heimild til að fara fram á aukaaðalfund, telji tilefni til þess.  Hefur stefnandi ekki sýnt fram á eða gert sennilegt, að vægi aukaaðalfundar sé annað og minna í ákveðnum málaflokkum en hins lögbundna aðalfundar.  Hafa þannig engin haldbær rök verið færð fram fyrir því, að óheimilt hafi verið að taka til afgreiðslu á umræddum aukaaðalfundum tillögur til breytinga á samþykktum stefnda.  Umdeildar breytingar á samþykktum sjóðsins hafa verið staðfestar af fjármálaráðuneytinu, svo sem skylt er samkvæmt 28. gr. l. nr. 129/1997 og hefur þannig verið formlega rétt staðið að þeim.

Síðari málsástæðu sinni til stuðnings vísar stefnandi m.a. til þess, að samþykktirnar brjóti gegn réttarsambandi, sem á hafi komizt með dómum Hæstaréttar í málum nr. 57/1999, 58/1999 og 59/1999, brotið hafi verið gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem byggt er á reglum um skaðabætur innan samninga.

Í þeim dómum Hæstaréttar, sem stefnandi vísar til kröfum sínum til stuðnings, snerist ágreiningur aðila um það m.a. hvort stefnendur ættu rétt á 100% verðtryggingu á grundvelli samþykkta sjóðsins.  Þeirri kröfu hafnaði rétturinn með því að í samþykktum sjóðsins fælist einungis réttur til 80% verðtryggingar fram til ársins 1996, en 90% frá miðju því ári.  Ekki verður hins vegar lesið úr niðurstöðum dómanna, að sjóðnum hafi verið skylt að veita 90% verðtryggingu lífeyrisréttinda til frambúðar, enda ekki gerð um það krafa í málunum.  Er því ekki fallizt á, að umdeildar breytingar á samþykktum stefnda hafi brotið gegn réttarsambandi, sem komizt hafi á í kjölfar dómanna, eða að dómarnir hafi bundið hendur stefnda til frambúðar varðandi breytingar á verðtryggingahlutfalli.

Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. l. nr. 129/1997, sem sjóðurinn starfar eftir, er sjóðnum skylt að fá álit tryggingafræðings á áhrifum breytinga á samþykktum lífeyrissjóðs á getu hans til þess að greiða lífeyri.  Ber tryggingafræðingnum jafnframt skylda til að gera stjórn sjóðsins þegar í stað grein fyrir því, leiði úttektin í ljós, að sjóðurinn muni ekki standa við skuldbindingar sínar.  Tryggingafræðingur sjóðsins má ekki starfa í þágu sjóðsins að öðru en tryggingafræðilegri athugun og ráðgjöf.  Skal tryggingafræðingur sjóðsins hafa hlotið viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til athugunar á fjárhag sjóðsins, sbr. lög um vátryggingastarfsemi, sbr. 2. mgr. 24. gr. l. nr. 129/1997. 

Á grundvelli þessara lagaboða starfaði Bjarni Guðmundsson tryggingafræðingur.        Það liggur fyrir og er óumdeilt, að stefndi varð fyrir töluverðum áföllum vegna verðbólgu á áttunda áratug síðustu aldar, sem hefur haft áhrif fram á þessa öld, en fyrir liggur, að í árslok 2002 var staða sjóðsins samkvæmt tryggingafræðilegri athugun Bjarna Guðmundssonar neikvæð um 9%.  Tryggingafræðingurinn skýrði svo frá fyrir dómi m.a., að tryggingafræðingi sjóðsins hafi verið falið að ákveða hlutfall lágmarksverðtryggingar, eða þeirrar uppbótarreglu, sem fólst í samþykktum sjóðsins.  Hefði tryggingafræðileg athugun hans á stöðu sjóðsins í árslok 1999 leitt til þess, að hann ákvað, að hlutfall verðtryggingar skyldi vera 80% í stað 90%, og vísaði hann jafnframt til þeirra raka, sem fram koma á dskj. nr. 32.  Þar segir svo m.a.:

“Er lágmarkshlutfall verðtryggingar var hækkað í 90% árið 1996 var gengið út frá ákveðnum forsendum.

Í tryggingafræðilegri úttekt ársins 1995 sagði m.a.:

Um lágmarkshlutfall verðtryggingar réttinda.

“í 2. málsgrein 20. greinar reglugerðar er kveðið á um að frá 1.1.1991 skuli greitt til þeirra sjóðfélaga sem greiða í sjóðinn til aldursmarka að lágmarki 80% af fullri verðtryggingu réttinda, með möguleika á endurskoðun síðar.  Hlutfall þetta hefur verið 80% frá 1991.

Er það tillaga mín að frá 1. júlí 1996 verði hlutfallið hækkað í 90%.  Er við mat á hversu mikið muni unnt að greiða miðað við að ávöxtun sjóðsins verði þann tíma sem þessar sérstöku uppbætur vara 5% umfram hækkun vísitölu neyzluverðs, og sjóðfélagar þeir sem reglan mun gilda fyrir greiði fram til lífeyrisaldurs jafn há iðgjöld og þeir greiddu 1995.”

 

Með dómum Hæstaréttar í málum 57-59/1999 eru þessar forsendur brostnar.  Sá fjöldi sjóðfélaga, sem reglan tekur til hefur aukizt stórlega, ekki er talið heimilt að binda uppbætur við greiðslu iðgjalda til aldursmarka, og réttindi sem fengin eru vegna úthlutunar hagnaðar eru ekki talin koma til frádráttar.  Svo sem fram kemur í niðurstöðum að framan dugir uppbótasjóður ekki til þess að greiða uppbætur 80% af fullri verðtryggingu iðgjalda, samkvæmt þeirri túlkun, sem fram kemur í dómum Hæstaréttar.  Ef miða ætti við 90% í stað 80% lágmark eftir þeim aðferðum myndi áfallin skuldbinding sjóðsins hækka í 8.946,6 milljónir, og uppbótarskuldbinding verða 420 milljónir króna umfram eign í uppbótasjóði og yrði því kostnaður við uppbætur um 572 milljónir.

Ljóst er því að ekki er grundvöllur til þess að miða uppbætur við 90% fullrar verðtryggingar iðgjalda, og fjármunir uppbótarsjóðsins eins duga ekki fyrir 80% viðmiðinu.  Í ljósi þess sem að framan er rakið er þó lagt til að hlutfallið verði fær í 80% frá og með 01.07.2000.”

Hefur málefnalegum rökum að baki þessari tillögu tryggingafræðingsins ekki verið hnekkt á neinn hátt eða þau gerð tortryggileg.

Að beiðni stefnda reiknaði Bjarni Guðmundsson út lífeyrisrétt stefnanda samkvæmt samþykktum stefnda og bar saman við greiddan lífeyri til hans í ágúst 2003, sbr. dskj. nr. 33.  Var það niðurstaða hans, að lífeyrisgreiðslur til stefnanda væru 16,26% hærri en samþykktirnar veita fyrir iðgjöld, sem nú eru greidd til sjóðsins.  Útreikningum tryggingafræðingsins hefur ekki verið hnekkt, og í ljósi stöðu hans er ekki fallizt á, að útreikningar Jóns Þorlákssonar tryggingastærðfræðings hnekki þeim útreikningum.  Sá síðarnefndi skýrði svo frá, aðspurður fyrir dómi í hverju munurinn á þessum útreikningum væri fólginn, að hann hefði ekki séð útreikninga sjóðsins, en hann reiknaði með, að munurinn lægi í því, að hann miðaði við 100% réttindi í sínum útreikningum í stað 80%, sem sjóðurinn vildi halda sig við. 

Í ljósi framanritaðs verður ekki séð, að staðhæfingar stefnanda um ólögmæta mismunun öðrum sjóðfélögum til hagsbóta, eigi sér stoð. 

Fallast má á með stefnanda, að réttindi hans njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. l. nr. 97/1995.  Stefnandi hefur hins vegar ekki sýnt fram á, að umdeildar breytingar á samþykktum sjóðsins, séu byggðar á ómálefnalegum sjónarmiðum eða séu til þess fallnar að skerða réttindi hans með þeim hætti að brjóti gegn þessu ákvæði. 

Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á eða gert sennilegt, að hann hafi orði fyrir skaðabótaskyldu tjóni vegna aðgerða stefnda.

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. 

Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Lífeyrissjóður verkfræðinga, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigurbjörns Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.