Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-6

A (Eiríkur Elís Þorláksson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Rannsókn sakamáls
  • Handtaka
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 6. janúar 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. desember 2022 í máli nr. 599/2021: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var handtekinn […] febrúar 2016. Tilefni handtökunnar voru SMS-skilaboð milli hans og lögreglumanns hjá fíkniefnadeild lögreglunnar er vörðuðu tiltekna skýrslu sem leyfisbeiðandi var að reyna að verða sér úti um gegn ákveðnu endurgjaldi. Leyfisbeiðandi var í kjölfarið ákærður fyrir brot gegn 109. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en sýknaður með héraðsdómi sem ekki var áfrýjað. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um bætur úr hendi gagnaðila og krefst hann alls 44.936.029 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Sú krafa er aðallega reist á því að hann eigi bótarétt á hlutlægum grundvelli samkvæmt 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vegna handtökunnar, útgáfu ákæru á hendur sér og eftirfarandi sakamálameðferðar. Til vara reisir hann kröfu sína á sakarábyrgð gagnaðila.

4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda en með dómi Landsréttar var fallist á kröfu hans um miskabætur og voru þær ákveðnar að álitum 300.000 krónur. Í dómi Landsréttar var rakið að 246. gr. laga nr. 88/2008 væri hlutlæg bótaregla sem hefði verið skýrð svo að þeir einir ættu rétt til bóta á grundvelli ákvæðisins sem sætt hefðu rannsóknaraðgerðum samkvæmt IX. til XIV. kafla laganna. Samkvæmt því yrðu ekki sóttar bætur á grundvelli þessa ákvæðis vegna tjóns sem maður kynni að verða fyrir vegna útgáfu ákæru og sakamálameðferðar fyrir dómi. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að samskipti leyfisbeiðanda og lögreglumannsins, eins og atvikum hefði verið háttað, yrðu ekki virt leyfisbeiðanda til sakar. Hann yrði því ekki gerður meðábyrgur fyrir ályktunum lögreglu þannig að leitt gæti til missis bótaréttar samkvæmt hlutlægri bótareglu 1. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Bæri leyfisbeiðanda því réttur til bóta vegna handtöku og frelsissviptingar þeirrar sem hann mátti sæta […] febrúar 2016. Þá taldi Landsréttur að ekki lægju fyrir gögn sem veittu dóminum grundvöll til að meta hvað af tjóni leyfisbeiðanda yrði rakið til handtökunnar og þess tíma sem hann var í haldi lögreglu. Yrðu miskabætur til leyfisbeiðanda vegna handtökunnar sérstaklega metnar að álitum svo sem venja stæði til við ákvörðun bóta við þær aðstæður. Loks hafnaði rétturinn bótakröfu leyfisbeiðanda á grunni sakarábyrgðar gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að ekki hafi áður reynt á það í dómaframkvæmd Hæstaréttar að einstaklingur sem sætt hafi þvingunarráðstöfunum af hálfu lögreglu sanni tjón sitt með því að leggja fram matsgerð um bæði varanlegan miska og varanlega örorku. Jafnframt hafi úrslit málsins almennt gildi um beitingu ólögfestra reglna um orsakatengsl. Þá reisir hann beiðnina á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, meðal annars þar sem bótakrafa hans njóti verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Loks telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan að formi og efni til. Hinir efnislegu annmarkar felist meðal annars í því að dómurinn sé í andstöðu við hefðbundin sjónarmið í bótarétti. Dómurinn sé jafnframt bersýnilega rangur að formi til, meðal annars í ljósi þess að ekki hafi verið tekin afstaða til kröfu hans vegna sjúkrakostnaðar.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.