Hæstiréttur íslands

Mál nr. 448/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 27. júní 2012.

Nr. 448/2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Óli Á. Hermannsson fulltrúi)

gegn

X

(Súsanna Björg Fróðadóttir hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júní 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. júlí 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði vægari úrræðum, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júní 2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt.[...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. júlí 2012 kl. 16:00. Vísar lögreglustjóri aðallega til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en til vara til 2. mgr. 95. gr. sömu laga.

Kærða mótmælir kröfunni.

Krafan er reist á því að kærða sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Í greinargerð lögreglu og öðrum gögnum málsins segir að hinn 25. maí 2012, [...], hafi A kt. [...] komið til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn. Tollgæslan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi haft afskipti af A og kærasta hennar, B, fæddum [...], [...]ríkisborgara.

Þegar tekið hafi verið Itemiser stroksýni úr tösku sem A hafi haft meðferðis hafi komið fram há svörun við kókaíni. Er stungið hafi verið í töskuna hafi mátt sjá hvítt duft, ætlað kókaín.

Tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi rannsakað meint fíkniefni. Í töskunni hafi verið falin 569,15 g af meintu kókaíni. Efnin séu nú til rannsóknar og sé beðið matsgerðar frá rannsóknarstofnun Háskóla Íslands. Meint fíkniefni hafi verið falin í harðplasti á hliðum töskunnar.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi sterkan grun um að kærði og X og C kt. [...], kærasti kærðu eigi aðild að innflutningi meintra fíkniefna. A sé móðir kærðu.

Kærða hafi ásamt C verið handtekin þann 25. maí sl. vegna rannsóknar málsins.

Kærða hafi verið yfirheyrð vegna málsins og hafi hún viðurkennt að eiga aðild að innflutningi fíkniefnanna.

Lögregla sé einnig að rannsaka tengsl kærðu við innflutning á 347 g af kókaíni sem lögregla hafi haldlagt þann 8. desember 2011, mál lögreglu 008-2011-12963. Lögregla hafi grun um að kærða hafi komið að þeim innflutningi. Kærða hafi verið yfirheyrð vegna aðildar hennar að því máli. Kærða hafi viðurkennt að hafa vitað af þeim innflutningi en að hún hafi ekki tekið þátt í skipulagningu hans. Gögn hafi verið borin undir kærðu við yfirheyrslur sem lögregla telji að bendi til aðildar kærðu að innflutningi fyrrnefndra 347 g af kókaíni þann 8. desember 2011 og hafi kærða neitað að tjá sig um þau gögn eða svarað að hún hafi verið í neyslu kókaíns á þeim tíma.

Kærða hafi einnig viðurkennt við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa afhent aðila 140 g af kókaíni þegar hún hafi verið síðast í Kaupamannahöfn sem að sá aðili átti að flytja til Íslands.

Lögregla hafi rökstuddan grun um að fleiri aðilar hafi átt aðild að innflutningi ofangreindra meintra fíkniefna og sé beðið eftir að handtaka þeirra muni eiga sér stað svo að hægt sé að yfirheyra þá  vegna gruns lögreglu um aðild þeirra að innflutningunum.

Einangrun hafi verið aflétt af kærðu.

Vísist nánar til meðfylgjandi gagna málsins.

Rannsókn þessa máls sé í fullum gangi og njóti algers forgangs hjá fíkniefnadeild lögreglustjórans á Suðurnesjum en málið sé mjög umfangsmikið. Magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafi fundist, þyki eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

Kærða hafi játað hjá lögreglu að hafa beðið móður sína, A, að taka með sér tösku til landsins frá Danmörku sem hafi innihaldið fyrrnefnd 569,15 g af meintum fíkniefnum án þess að móðir hennar hefði vitneskju um fíkniefnin. Jafnframt hafi kærða játað að hafa skipulagt þennan innflutning fíkniefnanna.

Kærða þyki vera undir sterkum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot. Sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mikið magn hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki  að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærðu þyki mjög alvarlegt. Rannsókn málsins miði vel en sé ekki lokið. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig einnig nauðsynlegt að kærða sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærða hafi játað, gangi laus áður en máli lýkur með dómi, þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærðu í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 659/2011, 164/2010, 91/2010, 56,2010, 136/2008, 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir sterkur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Er ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og er talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir.

Með vísan til alls framangreinds, 1. mgr. a liðar 95. gr., 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri almannahagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. júlí 2012 kl. 16.00.

Ljóst er af þeim rannsóknargögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn að málið er  umfangsmikið og teygir anga sína út á land og til útlanda. Mikil rannsóknarvinna hefur farið fram hjá lögreglu en þeirri vinnu er ekki lokið. Fallist verður á með lögreglu að haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún hugsanlega torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Kærða er undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og hugsanlega gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það er því mat dómsins að málið sé það umfangsmikið að það verði ekki rannsakað að fullu á þeim fjórum vikum sem liðnar eru frá handtöku kærðu. Verður því talið að skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt og verður því krafa lögreglustjórans um að kærða sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og hún er fram sett.

Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.        

Úrskurðarorð:

Kærða, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. júlí nk. kl. 16:00.