Hæstiréttur íslands

Mál nr. 365/2017

Valitor hf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
Datacell ehf. og Sunshine Press Productions ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Matsmenn

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni D ehf. og S ehf. um að tilteknir yfirmatsmenn yrðu kvaddir fyrir dóm til að svara spurningum um nánar tilgreind atriði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þó að yfirmatsgerð hefði ekki verið lögð fram í málinu þá væri heimilt samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að kveðja yfirmatsmenn fyrir dóm í því skyni að fá úr því skorið hvort þeir hefðu lagt mat á tiltekin atriði. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2017 þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að tilteknir yfirmatsmenn yrðu kvaddir fyrir dóm til að svara spurningum um nánar tilgreind atriði. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa þeirra um málskostnað vegna þessa hluta málsins þar fyrir dómi því ekki til úrlausnar.

Atvik málsins lúta að því að varnaraðilinn Datacell ehf. og sóknaraðili hafi 15. júní 2011 gert með sér samning um svonefnda greiðslugátt til handa varnaraðilanum. Skyldi sóknaraðili taka á móti framlögum sem innt væru af hendi með kreditkortafærslum um greiðslugáttina og afhenda þau varnaraðilanum. Tilgangur greiðslugáttarinnar var að taka á móti framlögum frá einstaklingum og lögaðilum, hvar sem vera skyldi, til styrktar WikiLeaks. Varnaraðilar hafa gert samning sín á milli 1. október 2010 þar sem um þetta var samið svo og um þóknun varnaraðilans Datacell ehf. fyrir milligönguna. Byrjað var að taka við framlögum 7. júlí 2011, en sóknaraðili sleit samningnum fyrirvaralaust og lokaði greiðslugáttinni degi síðar. Þá hafði verið heitið framlögum sem námu 3.830 evrum. Með dómi Hæstaréttar 24. apríl 2013 í máli nr. 612/2012 var því slegið föstu að riftunin hafi verið ólögmæt.

Varnaraðilar höfðuðu mál þetta til heimtu skaðabóta vegna hinnar ólögmætu riftunar. Þeir beiddust dómkvaðningar manna til þess að fá ætlað tjón hvors þeirra um sig metið og var matsgerð lokið 4. mars 2016. Sóknaraðili óskaði yfirmats 17. nóvember 2016 og tók fram í beiðninni að hann teldi matsgerð þá er fyrir lægi ranga auk þess sem annmarkar hefðu verið á framkvæmd matsins. Tilgangur með yfirmatsgerð væri að fá hnekkt niðurstöðu þeirrar matsgerðar er fyrir lá um ætlað tjón varnaraðilanna. Í þinghaldi 30. mars 2017 upplýsti sóknaraðili að yfirmatsmenn hefðu lokið yfirmatsgerðinni, en hann hefur þó ekki lagt hana fram í málinu. Í þinghaldi 5. apríl sama ár lagði sóknaraðili á hinn bóginn fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna en þar leitar hann mats á atriðum sem tilgreind eru í níu tölusettum spurningum. Varnaraðilar andmæltu því að dómkvaðning færi fram. Þeir reisa mótmæli sín á því að spurningum í matsbeiðninni hafi mörgum verið svarað af hálfu yfirmatsmanna, en aðrar séu þýðingarlausar til sönnunar í málinu. Varnaraðilar krefjast þess að yfirmatsmenn verði kvaddir fyrir dóm sem vitni til þess að gefa skýrslu um það, hvaða atriða þeir hafi tekið afstöðu til í yfirmatsgerðinni.

Staðfest verður sú niðurstaða héraðsdóms að heimilt sé samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 91/1991 að kveðja yfirmatsmenn fyrir dóm í því skyni að fá úr því skorið hvort þeir hafi lagt mat á tiltekin atriði. Þá er staðfest ákvæði héraðsdóms um málskostnað þar fyrir dómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum hvorum fyrir sig kærumálskostnað eins og í dómorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Valitor hf., greiði varnaraðilum, Datacell ehf. og Sunshine Press Productions ehf., hvorum fyrir sig, 300.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2017.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 8. maí sl., er höfðað af Datacell ehf., Síðumúla 28 í Reykjavík og Sunshine Press Productions ehf., Klapparhlíð 30 í Reykjavík. Stefndi er Valitor hf., Dalshrauni 3 í Hafnarfirði.

                Í málinu gera stefnendur aðallega þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða Sunshine Press Production 7.698.931.792 krónur og Datacell ehf. 405.206.936 krónur. Til vara er þess krafist að stefndi greiði Sunshine Press Production 3.495.026.310 krónur og Datacell 183.454.927, til þrautavara er krafist greiðslu 1.267.825.851 króna til Sunshine Press Production og 66.727.676 króna til Datacell. Að þessum kröfum frágengnum gera stefnendur loks kröfu um stefndi verði gert að greiða stefnendum bætur sem ákveðnar verði að álitum. Í öllum tilvikum er gerð krafa um vexti og dráttarvexti og málskostnað úr hendi stefnda.

                Í þinghaldi þann 5. maí sl. gerðu stefnendur þá kröfu að stefnda yrði gert að leggja fram yfirmatsgerð sem dómkvaddir yfirmatsmenn voru fengir til að vinna samkvæmd yfirmatsbeiðni stefnda með ákvörðun dómsins þann 18. nóvember 2016. Í næsta þinghaldi á eftir gerði stefndi jafnframt þá kröfu að yfirmatsmenn yrðu kvaddir fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu áður en ágreiningur aðila um nýja matsbeiðni stefnda yrði útkljáður. Stefndi mótmælir kröfum stefnenda og krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins.

                Til stuðnings þeirri kröfu að stefndu verði gert að leggja fram yfirmatsgerð benda stefnendur á að fyrir liggi að yfirmatsmenn hafi lokið störfum og óumdeilt sé að stefndi hafi fengi matsgerð þeirra afhenta. Matgerðin kunni að hafa mikla þýðingu í málinu. Þar sem stefni hafi ekki orðið við áskorun um framlagningu skjalsins skv. 67. sbr. 68. gr. laga nr. 91/1991 krefjist stefnendur þess að stefnda verði með úrskurði dómsins gert að leggja matsgerðina fram.

                Í ljósi þess að yfirmatsgerðin hafi ekki enn verið lögð fram í málinu og fyrir dóminum liggi að taka afstöðu til beiðni stefnda um dómkvaðningu nýrra matsmanna gera stefnendur jafnframt þá kröfu að yfirmatsmönnum verði gert að gefa skýrslur fyrir dómi. Kveða stefnendur að tilgangur skýrslugjafarinnar sé sá að leggja spurningar fyrir yfirmatsmenn um það hvaða gögn þeir höfðu til hliðsjónar við mat sitt og hvaða atriði hafi komið til skoðunar í yfirmatsgerðinni. Fyrir liggur að yfirmatsmenn töldu sér ekki fært að svara skriflegri fyrirspurn lögmanns stefnanda þar sem hann beindi til þeirra nánar greindum spurningum um framangreint. Vísuðu yfirmatsmenn í svari sínu til lögmanns stefnenda til þess að þeir hafi lokið matsstörfum að öðru leyti en því að þeir séu reiðubúnir til að staðfesta matsgerðina fyrir dómi og svara spurningum um hana á sama stað.

                Stefnendur rökstyðja þessa kröfu á þá leið að ekki sé unnt með öðrum hætti en með skýrslugjöf yfirmatsmanna að leiða í ljós hvort þær matsspurningar sem komi fram í nýju matsbeiðni stefnda hafi þegar verið svarað eða hvort tekið hafi verið í yfirmati á þeim atriðum sem matspurningar nú lúti að og hvort þau gögn og upplýsingar sem þar sé óskað hafi legið frammi. Komi í ljós að yfirmatsmenn hafi metið þau atriði sem matsbeiðni stefnda lúti að sé ljóst að hafna beri beiðni hans um nýja matsgerð þar eð réttarfarslög setji því skorður að unnt sé að óska nýs undirmats um efni sem þegar hefur verið metið af yfirmatsmönnum. Vísar stefndi til 65. gr. laga nr. 91/1991 um skyldu matsmanna til að koma fyrir dóm, en þar sé kveðið á um að tilgangur skýrslugjafar þeirra sé m.a. að gefa skýrslu um atriði sem tengjast matsgerðinni. Stefnendur byggja á því að það sé ekki skilyrði þess að ákvæðinu verði beitt að matsgerð hafi verið lögð fram fyrir dómi.

 

Stefndi krefst þess að hvorum   tveggja kröfum stefnenda verði hafnað. Engin heimild sé í lögum til að knýja hann til að leggja yfirmatsgerð fram í dómi, enda hafi aðilar forræði á sönnunarfærslu og ákveði því sjálfir hvaða gögn þeir leggi fram og hvenær þau verði lögð fram. Þá rökstyður hann andmæli sín við því að yfirmatsmenn verði kallaðir fyrir dóm með vísan til sömu meginreglu, þ.e. forræði aðila á sönnunarfærslu. Stefndi byggir á því að matsbeiðni hans lúti að öðrum spurningum en lögð var fyrir yfirmatsmenn. Sönnunargildi allra matsgerða sé háð frjálsu mati dómara þegar þær liggi fyrir sbr. 66. gr. laga 91/1991.

Niðurstaða:

Aðilar máls hafa forræði á því hvernig þeir haga sönnunarfærslu í málinu. Samkvæmt 67. laga nr. 91/1991 er aðila kleift að skora á gagnaðila að leggja fram skjal sem hann hefur í vörslu sinni. Í X. kafla laganna er kveðið á um afleiðingar þess ef aðili verður ekki við slíkri áskorun og er í kaflanum með tæmandi hætti greint frá tækum viðbrögðum við synjun gagnaðila á að leggja fram skal. Samkvæmt þeim reglum er ekki unnt að knýja aðila máls með dómsúrskurði til að verða við áskorun um framlagningu skjal. Kröfu stefnenda þar að lútandi er því hafnað.

                Varðandi kröfu stefnenda um að yfirmatsmenn komi fyrir dóm verður að líta svo á að með því hyggist stefnendur sanna að yfirmatsmenn hafi þegar svarað einhverjum eða öllum þeim spurningum sem stefndi óskar eftir að nýir matsmenn svari.

                Í þessu efni ber að líta til þess að aðili getur ekki aflað matsgerðar um atriði sem þegar hafa verið metin í undirmatsgerð og yfirmatsgerð. Í máli þessu hefur þegar verið unnin bæði undir- og yfirmatsgerð og sú fyrri lögð fyrir dóminn. Sú spurning sem lögð var fyrir matsmenn fól í sér að meta fjártjón sem stefnendur telja sig hafa orðið fyrir vegna lokunar stefnda á greiðslugátt stefnda Datacell ehf. Í fyrirliggjandi matsbeiðni stefnda, sem dómurinn hefur enn ekki tekið afstöðu til, er m.a. óskað eftir mati dómkvaddra matsmanna á því hvort og þá hver hafi verið hagnaðarmissir stefnenda vegna framangreindrar lokunar á greiðslugátt stefnanda Datacell ehf. á nánar greindu tímabili.

                Svo sem að framan greinir hefur yfirmatsgerð ekki verið lögð fram í dómi og óvíst hvort stefndi muni gera það. Hvorki af yfirmatsbeiðni né öðrum gögnum málsins verður skýrlega ráðið hvort yfirmatsmenn hafi svarað framangreindri spurningu sem stefndi nú óskar eftir að lögð verði fyrir nýja matsmenn. Í því efni ber að líta til þess að spurningin sem lögð var fyrir yfirmatsmenn er mun víðtækari en sú sem stefndi óskar eftir svari við fyrirliggjandi matsgerð. Þá er heldur ekki ljóst hvort svör við örðum spurningum í matbeiðni hafi verið svarað af yfirmatsmönnum.

                Stefnendur staðhæfa að yfirmatsmenn hafi þegar svarað þeim spurningum sem fram koma í matsbeiðni stefnda. Í því skyni að færa sönnur á þá staðhæfingu sína óska þeir eftir að fá að leiða yfirmatsmenn fyrir dóm og leggja fyrir þá spurningar sem lúta að þessu atriði. Samkvæmt 65. gr. laga nr. 91/1991 geta aðilar gert kröfu til þess að matsmenn komi fyrir dóm, m.a. til að svara spurningum sem tengjast matsgerð sinni. Þar sem stefndi hefur ekki lagt yfirmatsgerðina fram í dómi og ágreiningur er uppi um hvort tilteknum spurningum hafi verið svarað í yfirmatsgerðinni, verður fallist á kröfu stefnenda um að leiða yfirmatsmenn fyrir dómi í því skyni að spyrja þá út í það atriði. Hins vegar hefur það ekki þýðingu við úrslausn ágreinings um framkomna matsbeiðni að spyrja yfirmatsmenn út í hvaða gagna þeir hafi aflað við vinnu sína og verður þeim ekki gert að svara spurningum þar að lútandi.

                Ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins bíður endanlegs dóms.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Hafnað er kröfu stefnenda, Sunshine Press Production ehf. og Datacell ehf. um að Valitor hf. verði gert að leggja fram yfirmatsgerð en fallist er á kröfu stefnenda um að yfirmatsmenn verði kvaddir fyrir dóm til að svara því hvaða atriði þeir tóku afstöðu til í matsgerð sinni.