Hæstiréttur íslands

Mál nr. 578/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Þriðjudaginn 6. nóvember 2007.

Nr. 578/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(enginn)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 1. mgr. C. liður 103.gr. laga nr. 19/1991

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 29. nóvember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði var gefin út ákæra á hendur varnaraðila 1. nóvember 2007 fyrir hegningarlaga- og fíkniefnalagabrot sem sögð eru hafa verið framin á tímabilinu frá mars til október 2007. Þá var varnaraðili með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2007 dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir ýmis afbrot. Uppfyllt eru skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þess að varnaraðili verði látinn sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í héraði í máli því sem ákæra 1. nóvember 2007 tekur til. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um gæsluvarðhald yfir varnaraðila til 29. nóvember 2007, klukkan 16. 

Dómsorð:

       Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli samkvæmt ákæru 1. nóvember 2007 þó eigi lengur en til fimmtudagsins 29. nóvember 2007 kl. 16.

 

                                  Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 1. nóvember 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæslu­varð­haldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 29. nóvember nk. kl. 16.00.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september sl. nr. R-466/2007, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 495/2007, hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/991, til 4. október sl.  Gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-486/2007 til dagsins í dag kl. 16.00 með skírskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Í dag hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðað opinbert mál á hendur ákærða með útgáfu ákæru. Í ákæruskjali sé ákærða gefin að sök átta hilmingarbrot, fjögur þjófnarbrot, hótun og fíkniefnalagabrot. 

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] sl. nr. [...] hafi ákærði verið dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir fjölda afbrota, einkum þjófnaðar- og hilmingarbrot.  Dómurinn sé ekki fullnustuhæfur þar sem ákærði hafi áfrýjað honum til Hæstaréttar Íslands.

Við rannsókn mála ákærða hafi komið í ljós að hann væri í mikilli neyslu fíkniefna og megi ætla að hann fjármagni neyslu sína með afbrotum.  Í ljósi brota­starf­semi ákærða síðustu misseri sé það mat lögreglustjóra að ákærði muni halda áfram afbrotum gangi hann laus.  Það sé því nauðsynlegt, svo unnt verði að ljúka málum hans fyrir dómi, að hann sæti nú áfram síbrotagæslu.  

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum [...] sl. hlaut kærði tveggja ára fangelsi óskilorðsbundið fyrir fjölda afbrota. Hefur dóminum verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Þá hefur í dag verið gefin út ákæra á hendur kærða þar sem honum eru gefin að sök átta hilmingarbrot, fjögur þjófnaðarbrot, hótun og fíkniefnalagabrot. Með hliðsjón af brotaferli kærða ber að fallast á að líkur séu á því að hann muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Ber því með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að taka kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                      Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 29. nóvember nk. kl. 16.00.