Hæstiréttur íslands
Mál nr. 324/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
|
|
Mánudaginn 2. september 2002 |
|
Nr. 324/2002. |
M(Reynir Karlsson hrl.) gegn K (Svala Thorlacius hrl.) |
.
Kærumál. Fjárslit milli hjóna.
Í málinu var leyst úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum M og K í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Héraðsdómari hafnaði kröfu M um að við skiptin yrði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en féllst á að nánar fasteignin Y, sem væri eign X ehf., félli utan við skiptin. Var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2002, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum málsaðila í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að vikið verði við opinberu skiptin frá helmingaskiptum milli sín og varnaraðila aðallega þannig að hann fái að taka óskipt úr hjúskapareign samtals 9.730.767 krónur ásamt eignarhluta sínum í X ehf., svo og að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um að eignarhluti í fasteigninni Y, verði ekki talinn til hjúskapareigna hans. Til vara krefst sóknaraðili þess að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum til að auka hlut hans. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að því er varðar kröfur sóknaraðila um frávik frá helmingaskiptum, en dæmt verði að fyrrgreindur eignarhluti í fasteigninni Y sé hjúskapareign sóknaraðila og komi til skipta milli aðilanna. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem hún naut fyrir héraðsdómi.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari kröfum sóknaraðila um að vikið yrði frá helmingaskiptum við fjárslit milli hans og varnaraðila, en þær kröfur voru sama efnis og fyrrgreindar dómkröfur sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem að þessu snúa. Á hinn bóginn féllst héraðsdómari á með sóknaraðila að líta bæri svo á að eignarhluti í fasteigninni Y væri eign X ehf., en með því var hafnað kröfu varnaraðila um að eignarhlutinn yrði talinn hjúskapareign sóknaraðila. Varnaraðili hefur ekki fyrir sitt leyti kært úrskurð héraðsdómara til Hæstaréttar. Geta því ekki komið til frekari álita kröfur hennar að því er varðar umræddan eignarhlut í fasteigninni eða um málskostnað fyrir héraðsdómi.
Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. desember 2001 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 30. maí 2002.
Sóknaraðili er M [...].
Varnaraðili er K [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru aðallega að við búskipti málsaðila verði vikið frá helmingaskiptareglunni þannig að viðurkennt verði með dómi að honum sé heimilt að taka út úr hjúskapareign 9.730.767 kr. og eignarhluta sinn í einkahlutafélaginu Q. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að hluti í X verði ekki talin eign hans heldur eign Q ehf. þrátt fyrir að sóknaraðili sé skráður þinglýstur eigandi eignarinnar, þ.e. nánar tiltekið 105,6 fm eining í SA- og suðurhluta 3. hæðar ásamt 9,1 fm sérgeymslu í S-hluta 1. hæðar, merkt 0107 samkvæmt veðbandayfirliti. Til vara að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum til aukningar á búshluta sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili að honum verði tildæmdur málskostnaður samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur varnaraðila eru að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila og að um skipti á öllum eignum þeirra fari eftir hinni almennu reglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 103 gr. Þess er krafist að eignarhluti á þriðju hæð í fasteigninni X verði talin hjúskapareign sóknaraðila og komi til skipta á sama hátt. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Málsaðilar gengu í hjónaband 1995. Þau áttu barn saman 1987 og 1990. Haustið 1987 flutti sóknaraðili til varnaraðila að Y, þar sem varnaraðili átti íbúð, og 1989 voru þau skráð í sambúð. Þau slitu samvistum í byrjun árs 2001 og með úrskurði héraðsdóms 20. ágúst 2001 var félagsbú aðila tekið til opinberra skipta. Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. var skipuð skiptastjóri.
Á skiptafundi 4. september 2001 kom fram ágreiningur aðila um hvort skilyrði væru fyrir því að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og hvort fasteign að X tilheyrði Q ehf. eða sóknaraðila persónulega.
Með vísun til þeirra gagna sem lágu fyrir taldi skiptastjóri að eignastaða sóknaraðila hafi við stofnun hjúskapar verið:
1. Maðurinn átti 92% hlutafjár í hlutafélaginu Q. Við stofnun félagsins átti maðurinn 27,4% hluta í félaginu. Árið 1987 keypti hann 64% hlutafjár og á því í dag 92% hlutafjár. Kaupverð eignahlutans fólst í yfirtöku skuldar.
2. Maðurinn átti 50% eignarhluta í fasteigninni að Z. Eignarhlutinn var seldur í maí 1988 og nam söluverð hans kr. 5.275.000. Þar af námu yfirteknar skuldir kr. 1.400.000. Hreint söluandvirði eignarhlutans nam kr. 3.875.000. Sama ár keypti maðurinn íbúð að Þ. Kaupverð eignarinnar nam kr. 4.600.000 en þar af voru yfirteknar skuldir kr. 1.713.279. Maðurinn seldi íbúðina 1989 fyrir kr. 4.750.000. Yfirteknar skuldir námu þá kr. 1.915.356 og var hreint söluandvirði eignarhlutans kr. 2.834.644. Árið 1989 keyptu maðurinn og konan saman fasteign að Æ. Kaupverð eignarinnar var kr. 5.500.000. Þar af voru yfirteknar skuldir kr. 1.900.000. Eigninni er þinglýst á bæði hjónin og þess getið að kaupsamningi að eignarhluti hvor sé 50%
Eignarstaða varnaraðila hafi hins vegar við stofnun hjúskapar verið:
1. Konan átti 4. herb. verkamannaíbúð að Y. Íbúðin var innleyst af verkamannabústöðum á ca. kr. 1.000.000 árið 1992 en er í dag seld á frjálsum markaði. Árið 1989 keyptu maðurinn og konan saman fasteign að Æ svo sem rakið hefur verið. Konan heldur því fram að frá árinu 1995 hafi hún fengið fjárframlög frá móður sinn, alls kr. 3.000.000. Því til sönnunar hefur hún lagt fram ljósrit af innborgunarseðlum.
Að teknu tilliti til eigna hvors hjóna við stofnun hjúskapar, eignamyndunar á hjúskapartíma þeirra, framlags hvors um sig og þess að hjónabandið stóð í sex ár og þeim fæddust tvö börn taldi skiptastjóri ekki rök til að víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Þá taldi skiptastjóri að Q ehf. hefði eignast fasteignina að X með afsali 1. janúar 1997 en kaupverð eignarinnar hefði ekki verið greitt svo sem samið hefði verið um. Hlutafélagið skuldaði þannig aðilum kaupverðið 5.068.660 kr.
Skiptastjóri setti fram tillögu til sáttar og lausnar á fjárskiptum aðila. Ekki náðist sátt með aðilum og var ágreiningi beint til héraðsdóms til úrlausnar með bréfi skiptastjóra sem móttekið var í héraðsdómi 26. nóvember 2001.
Eins og áður sagði var málið tekið fyrir og þingfest í héraðsdómi 14. desember 2001. Ákveðið var að M teldist sóknaraðili í málinu en K vararaðili.
Sóknaraðili byggir á því að hafa verið mun betur settur fjárhagslega þegar hann og varnaraðili kynntust. Á árinu 1988 hafi hann selt einbýlishús sitt og fyrri konu sinnar að Z. Söluverð hafi verið 10.550.000 kr. og áhvílandi skuldir 2.800.000 kr. Til skipta hafi því komið 7.750.000 kr. og hlutur hans því verið 3.875.000 kr. Hafi hann keypt íbúð að Þ, 3. nóvember 1988 - kaupverðið 4.600.000 kr., yfirteknar skuldir 1.713.279 kr. Eftir kaupin hafi hann því átt í peningum 988.279 kr. Íbúðina í Þ hafi hann selt fyrir 4.750.000 kr. 26. júlí 1989. Yfirteknar skuldir hafi verið 915.356 kr. Hann hafi því fengið út úr íbúðinni 2.834.644 kr. í peningum og því samtals haft þá til ráðstöfunar 3.822.923 kr.
Hinn 21. mars 1989 hafi hann keypt einbýlishúsið að Æ á 5.500.000 kr. Yfirteknar skuldir hafi verið 1.900.000 kr. Hann hafi því eftir kaupin haft til ráðstöfunar 222.923 kr. Húsið hafi verið gamalt og þurft verulegra viðgerða við.
Kveðst sóknaraðili vera [...]. Hann hafi unnið sjálfur að stórkostlegum endurbótum á húsinu og garðinum umhverfis það og [...]. Úrbætur á húsinu hafi skilað sér í miklu hærra söluverði þegar húsið var selt 18. nóvember 1996 á 11.200.000 kr., sem hafi verið veruleg hækkun umfram hækkun byggingarvísitölu á tímabilinu og áður en almennar verðhækkanir urðu á fasteignamarkaðinum. Af söluverðinu hafi yfirteknar skuldir verið 3.008.632 kr. Mismunur til ráðstöfunar hafi því verið 8.414.291 kr. (8.191.368 + 222.923) þ.a. 2.071.368 kr. í verðbréfum.
Aðilar málsins hafi keypt einbýlishús að Ö 24. október 1996. Kaupverðið hafi verið 17.300.000 kr. Þar af yfirteknar skuldir voru 635.020 kr. Mismunurinn hafi verið greiddur með verðbréfum og nýjum lánum þ.m.t. láni að fjárhæð 3.500.000 kr. frá föður sóknaraðila.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið megi sjá að sóknaraðili hafi einn fjármagnað öll framangreind fasteignakaup að undanskyldum lánum sem aðilar hafi bæði tekið saman vegna fjármögnunar til kaupa á Ö. Krefst sóknaraðili þess með vísan til framangreinds, sbr. 1. sbr. 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, að viðurkennt verði með dómi að honum verði heimilað að taka óskipt úr hjúskapareign 8.414.291 kr. sem sé sú upphæð sem hann hafi haft til ráðstöfunar þegar Æ var selt.
Þá byggir sóknaraðili á því að hann hafi til að auðvelda framangreind kaup á fasteignunum að Æ og Ö, hætt að greiða í Lífeyrissjóð tæknifræðinga á tímabilinu 1990 til 1999. Samtals sé um að ræða greiðslur að upphæð 5.269.356 kr. Sóknaraðili gerir þó aðeins kröfu vegna tímabilsins 1995-2000 á meðan að aðilar hafi verið í hjónabandi. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 hefði verið unnt að krefjast þess að slík verðmæti í lífeyrissjóðnum kæmu ekki undir skiptin. Og þar sem þetta fé hafi verið nýtt í þágu búsins, standi lagarök til þess að þessi fjárhæð komi ekki undir skiptin frekar en inneign hans í lífeyrissjóðnum.
Þá byggir sóknaraðili kröfu sína um frávik frá helmingaskiptareglunni á því að hann hafi haft mun meiri tekjur en varnaraðili. Á árunum 1995 til og með 1999 hafi hann unnið fyrir 74,1% tekna heimilisins en varnaraðili 25,9%. Ennfremur hafi varnaraðili tekið lán án samráðs við hann uppá 34.00.000 kr. til kaupa á hlutabréfum sem hríðfallið hafi í verði. Þannig hafi varnaraðili beinlínis rýrt efni búsins. Þá sé varnaraðili 75% öryrki og hafi stundum átt fullt í fangi með að annast heimilið. Hafi sóknaraðili stundum þurft að taka sér frí frá vinnu til að annast heimilið og dæturnar vegna veikinda sóknaraðila.
Tölulega kveðst sóknaraðili byggja á þeirri fjárhæð sem hann hafi haft til ráðstöfunar eftir söluna á Æ sem hann keypti einn, auk þeirrar fjárhæðar sem hann greiddi ekki í lífeyrissjóð á meðan að aðilar voru í hjónabandi á tímabilinu 1995-2000 vegna fasteignakaupa í þágu búsins, þ.e. 1.316.476 kr. En samtals nemi þessi fjárhæð 9.730.767 kr.
Kröfu sína um að viðurkennt verði að honum sé heimilt að taka óskipt úr hjúskapareign eignarhluta sinn í einkahlutafélaginu Q, styður sóknaraðili við það að hafi unnið við fyrirtækið frá 1969. Hann hafi 2. nóvember 1987 keypt 64% hlutafjár í félaginu, en fyrir hafi hann átti 27,5%, og hafi því frá þeim tíma verið eigandi 95% hlutafjárins. Þegar hann keypti hlutaféð hafi hann verið eini eigandi félagsins sem jafnframt hafi verið starfsmaður þess, en auk hans hafi ritari unnið hjá félaginu. Starfssemi félagsins hafi byggi að nánast öllu leyti á samböndum og vinnuframlagi sóknaraðila. Verðmæti félagsins sé því lítið eða ekkert enda rekstur þess „í járnum" eins og reikningar þess bera með sér. Með tilliti til þess að hann hafi unnið hjá félaginu langstærstan hluta starfsævi sinnar, hafi frá því allar atvinnutekjur sínar og hafi eignast það að stærstum hluta löngu áður en aðilar gengu í hjónaband og fjárhagur þeirra varð sameiginlegur, séu lagarök til þess með vísan til 1. mgr. 102. gr. að hann fái að halda félaginu utan skipta og/eða víkja beri frá reglum um helmingaskipti sbr. 1. og 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Kröfu sína um að staðfest verði með dómi að Q ehf. sé eigandi atvinnuhúsnæðis að X en ekki sóknaraðili, þrátt fyrir að hann sé ennþá skráður þinglýstur eigandi þess húsnæðis, kveðst hann styðja við að hann hafi afsalað eigninni til Q ehf. með afsali dags. 1. janúar 1997. Ástæðan fyrir því hafi verið að á árinu 1999 hafi komið í ljós að leigugreiðslur sem Q greiddi voru skattlagðar sem venjulegar atvinnutekjur en ekki leigutekjur með 10% skatti eins og sóknaraðili hafði reiknað með. Að ráði endurskoðanda félagsins hafi fasteignin verið seld Q. Eignin hafi fyrst farið á skattframtals Q 1999 en hafi á árunum 1996-1998 verið á sameiginlegu framtali sóknaraðila og varnaraðila. Q hafi samþykkti víxil að fjárhæð 5.088.660 kr. fyrir kaupverðinu og greitt vexti til aðila af þeirri fjárhæð síðan. Afsali vegna kaupanna hefði hins vegar aldrei verið þinglýst. Víxillinn sé eign búsins.
Varakröfu sína um að ákveðin verði önnur frávik frá helmingaskiptum til aukningar á búshluta sóknaraðila, kveðst sóknaraðili styðja við það að hafa lagt miklu meira til búsins en varnaraðili.
Varðandi þá málsástæður varnaraðila að varnaraðili hafi fengið 3.000.000 kr. frá móður sinni á árunum 1993-1996, kveðst sóknaraðili ekki kannast við þessa peninga og mótmælir því að varnaraðili hafi lagt þá til búsins. Varnaraðili hafa sönnunarbyrðina fyrir því að hafa lagt þessa peninga til búsins. Líta beri til þess að til sameiginlegs fjárfélags aðila stofnaðist ekki fyrr en í júlí 1995.
Varnaraðili kveðst byggja kröfur sínar á aðalreglunni um fjárskipti hjóna í 103. gr. laga nr. 31/1993 þar sem segir að hvor maki um sig eigi rétt á tilkalli til helmings úr skírri hjúskapareign hins, svo og 4. mgr. 109. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Sóknaraðili reisi kröfu sína á 1. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1993 þar sem segir að víkja megi frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Eigi þetta einkum við þegar tekið sé tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega meira en hitt við hjúskaparstofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið að gjöf frá öðrum en maka sínum. Telur varnaraðili að fráleitt sé að halda því fram að skipti milli aðila samkvæmt hinni almennu reglu hjúskaparlaganna sé bersýnilega ósanngjörn þegar litið er til allra málsatvika. Þvert á móti telur varnaraðili að skipti samkvæmt 104. gr hjúskaparlaga sé bersýnilega ósanngjörn. Í öllum fræðiritum á þessu sviði svo og þeim dómum sem gengið hafa sé skýrt tekið fram að helmingaregla hjúskaparlaga sé sú grundvallarregla sem almennt skuli gilda og að skýra verði undantekningarregluna í 104. gr. mjög þröngt.
Varnaraðili byggir á því að hjúskapur aðila hafi staðið það lengi - og þar áður óvígð sambúð - sem óhjákvæmilegt sé að líta til í þessu sambandi. Fjárhagur þeirra hafi verið samtvinnaður nánast frá upphafi óvígðar sambúðar og bæði lagt til búsins fjármuni og vinnu. Þó að maðurinn hafi átt nokkrar eignir umfram hana í upphafi þá hafi sú eign runnið inn í sameiginlegan fjárhag. Þá hafi varnaraðili fengið fé afhent að gjöf frá móður sinni. Ennfremur beri að líta til þess að hjónin eigi saman 2 börn og að hún sé skv. úrskurði Tryggingastofnunar ríkisins alger öryrki.
Hvað varði lengd hjúskaparins sé ljóst að raunveruleg sambúð málsaðila hafi staðið frá því á miðju sumri 1987, þegar sóknaraðili sagði upp húsnæði sínu í Ð og flutti inn í íbúð hennar í Y til áramóta 2000/2001, eða samtals í 13 ár. Þá hafi leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng ekki verið gefið út fyrr en 26. mars 2002 þannig að hjónaband þeirra hefur staðið á sjöunda ár. Samdóma álit fræðimanna sé að við svo langt hjónaband sem hér um ræðir sé útilokað að beita skáskiptareglu 104. gr. hjúskaparlaga.
Varnaraðili byggir á því að báðir málsaðilar hafi átt eignir við upphaf sambúðar. Á þessum tíma hafa átt sér stað ýmsar eignabreytingar beggja hjóna, þau hafa bæði selt eignir og keypt, og þegar þau hófu sameiginleg kaup á íbúðarhúsnæði hafi það strax verið þinglýst eign þeirra beggja. Þá er byggt á því að varnaraðili sé öryrki og hafi ekki aflað sér launatekna svo heitið getið utan heimilis og því hafi launatekjur mannsins runnið til sameiginlegrar framfærslu hjónanna og tveggja barna þeirra svo og til greiðslu á skuldum. Hún hafi hins vegar haft fulla starfsgetu til að sinna heimilinu og sjá um börn þeirra. Hafi þannig skapast veruleg fjárhagsleg samstaða með hjónum. Viðvíkjandi ákvæðinu um „arf eða gjöf frá öðrum en maka sínum" sé það varnaraðili sem hafir þegið slíkar eignir frá móður sinni er runnið hafi til búsins. Sóknaraðili hafi einnig fengið fé hjá föður sínum sem hann hefur talið fram sem lán og krafist að verði tekin inn í skiptin. Þegar litið sé til alls þessa verði að mótmæla að ákvæðið um bersýnilega ósanngjörn skipti geti að nokkru leyti átt við hér.
Í greinargerð með núgildandi hjúskaparlögum segi að helmingaskiptaregla hjúskaparlaga sé reist á sanngirnissjónarmiðum og eigi reglan sér aldahefð í norrænum rétti. Henni hefur ætíð verið ætlað að verja hagsmuni þess maka, sem hvorki aflaði tekna né eigna. Hugmyndin sé sú að skapa heimavinnandi maka hlutdeild í eignum búsins við skilnað og stuðla þannig að jafnstöðu þeirra við hjúskaparlok. Þessi regla taki bæði til eignamyndunar eftir að hjúskapur var stofnaður og einnig til hlutdeildar í eignum sem hjónin fluttu með sér í búið.
Á það er bent að taka þurfi tillit til afkomu maka eftir skilnað þar sem varnaraðili er 75 % öryrki og hefur haft tvö börn á framfæri sínu sem búið hafa hjá henni frá samvistarslitum og muni að öllum líkindum verða á hennar framfæri til lögræðisaldurs. Þá er bent á að sóknaraðili sé tvígiftur og hafi komið beint úr öðru hjónabandi þegar hann kynnist varnaraðila og hafi því þekkt skiptareglur hjúskaparlaga eftir þann skilnað. Hefði honum verið í lófa lagið að gera kaupmála við varnaraðila hefði honum þótt sanngjarnt við inngöngu í hjónaband að gera einhverjar eignir að séreignum. Sú staðreynd að hann hafi enga kröfu gert um slíkt við varnaraðila á þeim tíma segir þá sögu að hann hafi þá í raun talið fjárhag þeirra svo samrunninn eftir 8 ára sambúð að ekki væri eðlilegt að fara fram á slíkt.
Andmælt er kröfu sóknaraðila um að fá greidda af eignum málsaðila „bætur" vegna iðgjalda sem hann hætti að greiða í Lífeyrissjóð tæknifræðinga um nokkurra ára skeið. Í lagagrein þeirri sem sóknaraðili byggir þessa kröfu sína á, þ.e. 102. gr. 2. tl. hjúskaparlaga, sé kveðið á um að hægt sé að gera kröfu um að haldið sé utan skipta „réttindum í opinberum lífeyrissjóðum svo og einkalífeyrissjóðum, svo og kröfu til lífeyris eða líftryggingafjár, sem hefur ekki endurkaupsvirði samkvæmt kröfu annars maka eða þeirra sameiginlega". Ekki sé með nokkru móti hægt að sjá að þessi lagagrein eigi við um kröfu sóknaraðila. Engin sönnun liggur fyrir um það að iðgjaldagreiðslur þessar hafi runnið til að kaupa á fasteignunum Æ og Ö og gætu þessir peningar allt eins hafa farið til einkaneyslu sóknaraðila og hljóti hann að hafa sönnunarbyrði fyrir kröfu þessari. Og jafnvel þótt talið væri að eignamyndun hafi einhver orðið vegna þessara vanræktu iðgjaldagreiðslna sé sú eign með engu móti sérgreinanleg.
Varnaraðili krefst þess að eignarhluti í fasteigninni X, merkt 0107, verði talin hjúskapareign sóknaraðila en ekki eign Q ehf. Eignarhluti þessi sé þinglýst eign sóknaraðila og beri hann því sönnunarbyrði fyrir því að svo sé ekki. Sóknaraðili hafi keypti þessa eign árið 1991 og hafi eignin þá þegar verið þinglýst eign hans. Lagt hafi verið fram óþinglýst afsal, dags. 1. janúar 1997, um sölu eignarhlutans til hlutafélagsins Q. Engar greiðslur hafa farið fram á söluandvirðinu og engin þinglýsing sem sýni nýjan eiganda fasteignarinnar. Þá sé enn fremur eignarhlutinn sýndur á skattframtölum málsaðila árin 1998 og 1999. Afsalið sé því málamyndagerningur og bókhaldshagræðing til að lækka opinber gjöld er líta beri fram hjá og eigi þessi eign að koma til helmingaskipta líkt og aðrar eignir búsins.
M gaf aðilaskýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann myndi eftir því að K hafi, hugsanlega á árinu 1994, fengið einhverja fjárhæð frá móður sinni og keypt sófasett, grill og sólhúsgögn í garðinn. Hafi hún gert þetta sjálf en aldrei afhent honum neina peninga.
M kvaðst af afspurn hafa verið kunnugt um að móðir K var að selja eignir sínar og skipta á milli barna sinna. Hann greindi frá því að sér hefði verið kunnugt um fasteignir sem hún seldi en ekki virði þeirra, þ.e. hvaða skuldir hvíldu á þeim. Hann kvaðst hafa vitað að hún hefði átt sumarhús á F og íbúð í G. Hann sagði að hins vegar hafi K ekki rætt við hann um fjármál sín, hvorki áður en þau gengu í hjónaband né eftir.
K gaf aðilaskýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að hún hefði keypt hlutabréf að einhverju leyti án samráðs við M. Hún kvaðst hafa fengið örorkubætur vegna dóms Hæstaréttar 300.000 til 400.000 krónur í apríl eftir að hún var farin að heiman.
A gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann og systkini hans hafi fengið alla vega 2.500.000 kr. hvert í sinn hlut frá móður þeirra.
B gaf skýrslu fyrir rétti. Hann staðfesti m.a. að hafa áætlað ráðstöfunartekjur aðila á árunum 1988 - 2000 svo sem fram kemur á dskj. nr. 86.
C gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. móðir hans hefði gefið honum og systkinum hans um það bil 2.500.000 kr. hverju fyrir sig. Þetta hafi sennilega gerst á árunum 1995 og 1996.
Niðurstaða: Fallist er á með varnaraðila að sóknaraðila sé ekki heimilt að halda utan skipta fjárhæð er nemi iðgjöldum, sem sóknaraðila hefði getað greitt í lífeyrissjóð á árunum 1995-1999, enda var þessi fjárhæð ekki til eða ígildi hennar er dómsmál var höfðað til skilnaðar 24. janúar 2001.
Samkvæmt afsali 1. janúar 1997 seldi sóknaraðili Q ehf. tiltekið skrifstofuhúsnæði að X eins og þar er nánar tilgreint. Varnaraðili krefst þess að eign þessi verði talin hjúskapareign sóknaraðila enda sé sóknaraðili þinglýstur eigandi en ekki Q ehf. Samkvæmt ársreikningum Q ehf. hefur fasteignin verið talin eign félagsins frá árinu 1999. Frá sama tíma er eignin ekki færð á persónuleg skattframtöl aðila. Af hálfu sóknaraðila er upplýst að félagið hafi samþykkt víxil að fjárhæð 5.088.660 kr. fyrir kaupverðinu og hafi vextir verið greiddir til málsaðila af þeirri fjárhæð síðan. Q ehf. verður því að teljast eigandi þessa skrifstofuhúsnæðis.
Skipta á skírum hjúskapareignum hjóna til helminga við fjárskipti vegna skilnaðar, sbr. 103. gr. laga nr. 31/1993. Greint er frá því í 104. gr. sömu laga að víkja megi frá reglum um helmingaskipti, ef slík skipti yrðu bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna, og hvað líta ber til í því sambandi.
Aðilar gengu í hjónaband 1995, eiga tvö börn saman og slitu samvistum í byrjun árs 2001. Báðir aðilar áttu eignir við upphaf sambúðar en maðurinn þó sýnu meiri. Ljóst er að maðurinn aflaði tekna umfram það sem konan, sem er 75% öryrki, hefur haft í örorkubætur. Ekki hefur þó verið sýnt fram á að konan hafi ekki sinnt heimilisstörfum öll þau ár, sem aðilar voru í sambúð, svo sem haldið er fram af hennar hálfu.
Með hliðsjón af framangreindu, sérstakalega hvað aðilar voru lengi í sambúð með fjárhagslega samstöðu, þykir ekki bersýnilega ósanngjarnt að skipta hjúskapar-eignum aðila til helminga við fjárskipti þeirra.
Þannig verður hafnað kröfu sóknaraðila að við búskipti málsaðila verði vikið frá helmingaskiptareglunni en viðurkennt að 105,6 fm eining í SA- og suðurhluta 3. hæðar húseignar að X, ásamt 9,1 fm sérgeymslu í S-hluta 1. hæðar, merkt 0107, í sömu húseign, sé eign Q ehf.
Rétt er að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns varnaraðila er hæfileg þykir 350.000 kr. án virðisaukaskatts.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, M, um að við búskipti hans og K verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Viðurkennt er að 105,6 fm eining í SA- og suðurhluta 3. hæðar húseignar að X, Reykjavík, ásamt 9,1 fm sérgeymslu í S-hluta 1. hæðar, merkt 0107, í sömu húseign, falli ekki undir búskipti aðila.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns varnaraðila, Svölu Thorlacius hrl., er hæfileg þykir 350.000 krónur.