Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/2001


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Húsbóndaábyrgð
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2002.

Nr. 244/2001.

Guðmundur Eyþór Guðmundsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Höfðahreppi

(Hákon Árnason hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Húsbóndaábyrgð. Gjafsókn.

G varð fyrir slysi í tímabundnu starfi, sem hann gegndi hjá sveitarfélaginu H. Átti slysið þann aðdraganda að unglingar í vinnuskóla H voru að ljúka störfum og gerðu sér af því tilefni dagamun, meðal annars með því að skvetta vatni hver á annan og á fullorðna, sem höfðu starfað með þeim um sumarið. Þar sem G lá á bakinu undir sláttuvél og reyndi að losa aðskotahlut úr vélinni komu aðvífandi tveir piltar, sem höfðu verið í vinnuskólanum og var hvor þeirra með stóra fötu með köldu vatni, sem þeir skvettu yfir G. Brást G við þessu með því að leitast við að koma sér undan sláttuvélinni. Við þetta rak G hægri öxlina harkalega upp undir öxul vélarinnar og hlaut við höggið áverka sem leiddu til tímabundins atvinnutjóns, varanlegrar örorku og varanlegs miska, sem hann krafði H um bætur fyrir ásamt bótum fyrir þjáningar. Viðbrögð G voru talin í alla staði eðlileg og að þeir, sem voru valdir að ófarnaði hans, hefðu jafnframt mátt sjá þau fyrir. Í ljósi framburðar vitna var lagt til grundvallar að tilteknir yfirmenn við vinnuskóla H hefðu sjálfir verið beinir þátttakendur í aðgerðinni gagnvart G. Umræddir starfsmenn H báru þannig sök á slysi G, en eins og atvikum var háttað voru engin efni til að láta G bera hluta tjóns síns. Skaðabótaskylda á tjóni G var því felld óskert á H sem vinnuveitanda þessara starfsmanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 18.903.385 krónur með 2% ársvöxtum frá 21. ágúst 1998 til 1. maí 1999 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi varð fyrir slysi í tímabundnu starfi, sem hann gegndi hjá stefnda um sumarið 1998, en þar mun hann einkum hafa haft með höndum að slá tún og grasbletti í sveitarfélaginu og hirða af þeim. Samkvæmt gögnum málsins átti slysið þann aðdraganda að unglingar í vinnuskóla stefnda voru að ljúka störfum og gerðu sér af því tilefni dagamun föstudaginn 21. ágúst 1998, meðal annars með því að skvetta vatni hver á annan og á fullorðna, sem höfðu starfað með þeim um sumarið. Var þessi skemmtun unglinganna að mestu gengin um garð fyrir hádegi þann dag, en síðla morguns virðast þeir árangurslaust hafa reynt í fyrrnefndu skyni að ná til áfrýjanda, sem komst undan þeim með því að halda heim til sín í hádegishlé frá störfum. Um klukkan 13 kom hann aftur til vinnu og fór þá að áhaldahúsi stefnda, þar sem hann hugðist ná aðskotahlut úr sláttuvél, sem var með áföstum safnkassa og tengd við dráttarvél, en þessi tæki hafði hann notað um morguninn við störf sín. Til að losa þennan hlut, sem mun hafa verið járnvír, lagðist áfrýjandi á bakið undir sláttuvélinni og hugðist saga hann í sundur, en vélinni hafði þá verið lyft upp að aftan í sérstaka stillingu til þess að unnt væri að komast undir hana. Þar sem áfrýjandi lá við þessa iðju komu aðvífandi tveir piltar, sem höfðu verið í vinnuskólanum um sumarið. Var hvor þeirra með stóra fötu með köldu vatni, sem þeir skvettu yfir áfrýjanda. Brást áfrýjandi við þessu með því að leitast við að koma sér undan sláttuvélinni, sem af gögnum málsins að dæma var um 50 cm frá jörðu að framan en um 80 til 90 cm að aftan. Við þetta rak áfrýjandi hægri öxlina harkalega upp undir öxul, sem var neðan á safnkassanum. Í fyrstu virðast meiðsl, sem áfrýjandi hlaut af þessu, hafa verið talin minni háttar. Síðar sama dag fór hann þó á heilsugæslustöð, þar sem tekin var röntgenmynd af öxlinni, en af myndinni greindist ekki beinbrot og var öxlin talin vera í lið. Þegar læknismeðferð við verkjum og bólgu bar ekki árangur var áfrýjanda vísað til sérfræðings. Á vegum hans var öxl áfrýjanda mynduð á ný 25. september 1998. Kom þá í ljós beinbrot og rifa á liðpoka. Áfrýjandi gekkst undir aðgerðir af þessu tilefni en hefur ekki fengið fullan bata. Leiddu áverkar hans til tímabundins atvinnutjóns, varanlegrar örorku og varanlegs miska, sem hann krefur stefnda um bætur fyrir ásamt bótum fyrir þjáningar.

Stefndi tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins fyrst um framangreint slys áfrýjanda 27. október 1998, án þess þó að aðdragandi þess væri rakinn frekar en svo að áfrýjandi hafi orðið fyrir því þegar hann hafi staðið upp undan dráttarvél, sem hann hafi verið að gera við. Þá gaf áfrýjandi skýrslu hjá lögreglunni 1. febrúar 1999 vegna slyssins, en sagði ekki nánar svo máli skiptir frá undanfara þess en gert var í skýrslu stefnda til vinnueftirlitsins. Lögreglan gerði ekki frekari ráðstafanir til að rannsaka slysið fyrr en að framkominni beiðni lögmanns áfrýjanda um það, en í bréfi hans af þessu tilefni 12. apríl 2000 var ítarlegar greint frá málsatvikum, eins og þau horfðu við áfrýjanda.

II.

Í skýrslu, sem áfrýjandi gaf við aðalmeðferð málsins í héraði, sagði hann meðal annars frá því að rétt fyrir áðurgreint slys hafi hann lagst á bakið undir sláttuvélina þannig að hann næði með höndunum í hnífa hennar, sem voru fremst á henni, þeim megin sem hún var tengd við dráttarvélina. Hann hafi ekki verið með höfuðið undir hnífunum vegna hættu á að hann fengi óhreinindi af þeim í augun. Hafi hann legið langsum undir miðri sláttuvélinni og fæturnir staðið að nokkru út undan henni að aftan. Hann kvaðst þá hafa orðið var við mannaferðir, en ekki hvarflað að sér að þar gætu verið unglingar úr vinnuskólanum, því þeir hafi átt að fara heim úr vinnu á hádegi. Þegar hann hafi skyndilega fengið yfir sig ískalt vatn hafi hans fyrsta hugsun verið sú að forða sér í flýti undan vélinni, enda hafi hann ekki vitað hvað var að gerast. Hann hafi farið af stað á hliðinni, en síðan ranglega talið sig vera kominn undan vélinni og risið upp með þeim afleiðingum að öxlin hafi rekist upp undir endann á öxlinum undir vélinni. Þetta hafi verið ein samfelld hreyfing hjá sér.

Í framhaldi af áðurgreindu bréfi lögmanns áfrýjanda 12. apríl 2000 tók lögreglan skýrslur meðal annars af Magnúsi Ólafssyni, sem gegndi starfi verkstjóra hjá stefnda, Rósu Björgu Högnadóttur og Guðrúnu Soffíu Pétursdóttur, sem voru flokkstjórar við vinnuskóla stefnda um sumarið 1998, og öðrum piltinum, sem hellti vatninu á áfrýjanda. Þau Rósa og Magnús voru leidd sem vitni við aðalmeðferð málsins í héraði, svo og hinn pilturinn, sem kom við sögu í aðdragandanum að slysi áfrýjanda. Í lögregluskýrslu Guðrúnar kom fram að í svokölluðum vatnsslag að morgni 21. ágúst 1998 hafi flest allir orðið rennandi blautir, en áfrýjandi þó alveg sloppið. Hafi því verið ákveðið „að gusa á hann þegar hann kæmi úr mat.“ Guðrún hafi ásamt Rósu fengið piltana tvo til liðs við sig. Þegar áfrýjandi hafi farið að gera við sláttuvélina hafi Magnús látið þau vita gegnum talstöð að „nú væri lag“, því áfrýjandi væri kominn að áhaldahúsi stefnda. Piltarnir hafi verið tilbúnir með vatnsfötur og skvett yfir áfrýjanda þar sem hann „bograði undir sláttuvélinni.“ Hann hafi rokið upp og þá rekið sig í vélina. Framburður piltsins, sem gaf skýrslu hjá lögreglunni, var efnislega á sama veg um þessi atvik að frátöldu því að hann sá ekki þegar áfrýjandi rak sig í sláttuvélina. Fyrir dómi sagðist Rósa hafa verið stödd inni í áhaldahúsinu og fylgst með þegar piltarnir skvettu vatni yfir áfrýjanda, en Magnús hafi verið staddur utan við húsið í bifreið og þaðan gert áður viðvart gegnum talstöð að tækifæri væri til að láta verða af þessu. Hún staðfesti jafnframt frásögn sína í lögregluskýrslu um að áfrýjandi hafi sprottið upp þegar hann fékk vatnið yfir sig og þá rekist upp undir sláttuvélina. Pilturinn, sem gaf skýrslu fyrir dómi, greindi frá því að þeim, sem biðu inni í áhaldahúsinu eftir tækifæri til að skvetta vatni á áfrýjanda, hafi verið tilkynnt í talstöð að hann lægi undir sláttuvélinni. Hafi þeir piltarnir látið verða af því honum algerlega að óvörum. Hafi hinn pilturinn hvatt sig til að taka þátt í þessu, en flokkstjórarnir Guðrún og Rósa fylgst með. Aðspurður fyrir dómi sagðist Magnús ekki muna hvort hann hafi tilkynnt gegnum talstöð að lag væri til að skvetta vatni á áfrýjanda, en „það gæti vel verið.“ Þá staðfesti hann frásögn sína í lögregluskýrslu um að áfrýjandi „vatt upp á bolinn og lyfti hægri öxlinni er hann fékk gusuna og við það rakst hann upp undir sláttuvélina.“

Í ljósi þessa framburðar vitna verður að leggja til grundvallar að áðurnefndir yfirmenn við vinnuskóla stefnda, verkstjórinn og flokkstjórarnir, hafi í félagi við unglinga, sem þar höfðu starfað, lagt á ráðin um að hrekkja áfrýjanda, þar sem hann var við vinnu sína, og fylgst með þegar unglingarnir hrundu þeim ráðagerðum í framkvæmd. Með þessu voru yfirmennirnir sjálfir beinir þátttakendur í aðgerðinni gagnvart áfrýjanda. Skiptir því engu hvort unglingarnir voru þegar hættir störfum hjá stefnda, svo sem hann hefur borið fyrir sig. Þessum yfirmönnum átti að vera fyllilega ljóst hvers kyns hætta gat fylgt því að hella skyndilega allmiklu köldu vatni yfir mann, sem átti einskis slíks von og lá á bakinu í þröngri aðstöðu undir sláttuvél við vinnu sína. Með áðurgreindum framburði vitna er nægilega sýnt að áfrýjandi brást við þessu óvænta atviki með því ósjálfrátt að reyna að komast í flýti undan sláttuvélinni, en rakst í þeirri viðleitni upp undir hana og hlaut þá áverkana, sem hann krefst nú bóta fyrir. Þessi viðbrögð áfrýjanda voru í alla staði eðlileg og máttu þeir, sem voru valdir að ófarnaði hans, jafnframt sjá þau fyrir. Umræddir starfsmenn stefnda bera þannig sök á slysi áfrýjanda, en eins og atvikum var hér háttað eru engin efni til að láta hann bera hluta tjóns síns. Verður því skaðabótaskylda á tjóni áfrýjanda felld óskert á stefnda sem vinnuveitanda þessara starfsmanna.

 

 

III.

Áfrýjandi reisir bótakröfu sína á hendur stefnda á örorkumati, sem hann aflaði sér hjá lækni 14. júní 2000, en þar var áfrýjandi talinn hafa verið með öllu óvinnufær frá slysdegi 21. ágúst 1998 til 6. mars 2000 og á sama tímabili haldinn þjáningum, sem veiti rétt til bóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar af samtals 21 viku og fimm daga rúmliggjandi. Varanlegur miski áfrýjanda var metinn 20%, en varanleg örorka 50%. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk stefndi dómkvadda tvo lækna til að leggja mat á afleiðingar slyss áfrýjanda. Í matsgerð þeirra 9. mars 2001 var komist að sömu niðurstöðu og í framangreindu örorkumati um tímabundna óvinnufærni áfrýjanda og varanlegan miska hans. Þá var heildartímabil til þjáningabóta metið á sama veg og í örorkumatinu, en matsmenn töldu þó áfrýjanda hafa verið rúmliggjandi í 21 viku og tvo daga. Dómkvöddu matsmennirnir komust að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka áfrýjanda væri 30%.

Framangreint örorkumat, sem áfrýjandi styður kröfu sína við, var fengið af honum hjá einum lækni án samráðs við stefnda. Getur örorkumat þetta ekki gengið framar matsgerð tveggja sérfræðinga, sem dómkvaddir voru til starfa samkvæmt ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda eru ekki á henni neinir gallar, sem rýrt geta gildi hennar. Matsgerðinni hefur ekki verið hrundið með yfirmati. Hún verður því lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

IV.

Áfrýjandi krefst bóta að fjárhæð 2.450.000 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns. Þennan kröfulið skýrði hann þannig í héraðsdómsstefnu að hann hafi haldið launum hjá stefnda til 21. nóvember 1998 og geri því ekki kröfu um bætur vegna tímabilsins frá slysdegi til þess dags. Segist áfrýjandi hafa haft 125.000 krónur í mánaðarlaun fyrir störf sín hjá stefnda, en þeim sinnti hann í orlofi frá aðalstarfi sem skipverji á fiskiskipi, þar sem hann kveðst hafa haft að meðaltali 216.896 krónur í mánaðarlaun á fyrri hluta árs 1998. Á þessum grunni telur áfrýjandi sanngjarnt að miða við að meðallaun hans á tímabilinu, sem hann var að öðru leyti óvinnufær, hefðu numið 175.000 krónum á mánuði. Þetta tímabil telur áfrýjandi sem fjórtán mánuði frá janúar 1999 til mars 2000 og er þá tímabundið atvinnutjón hans fyrrgreind fjárhæð. Við aðalmeðferð málsins í héraði lagði stefndi fram útreikning af sinni hendi á tjóni áfrýjanda miðað við niðurstöður dómkvaddra matsmanna. Við útreikning á tímabundnu tjóni áfrýjanda tók stefndi mið af öllu hærri mánaðarlaunum en áfrýjandi miðar við samkvæmt áðursögðu, eða 207.828 krónum. Í því ljósi eru ekki efni til annars en að leggja til grundvallar þá fjárhæð, sem áfrýjandi krefst í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, en við útreikning hennar hefur hann samkvæmt áðursögðu þegar tekið tillit til launa úr hendi stefnda eftir slysdag. Samkvæmt gögnum málsins fékk áfrýjandi greidda dagpeninga á umræddu tímabili frá Tryggingastofnun ríkisins og úr slysatryggingu launþega, samtals 697.911 krónur. Verður sú fjárhæð að koma til frádráttar þessum lið í kröfu áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Að því gættu verða bætur handa honum vegna tímabundins atvinnutjóns 1.752.089 krónur.

Í kröfugerð sinni hefur áfrýjandi lagt til grundvallar að hann eigi rétt til þjáningabóta í samtals 555 daga og sé fjárhæð þeirra 577.482 krónur. Þar af hafi hann verið rúmliggjandi í 152 daga, en með fótaferð 403 daga. Styðst áfrýjandi í þessum efnum við niðurstöðu örorkumats. Í matsgerð dómkvaddra manna var sem áður segir komist að sömu niðurstöðu um heildarlengd tímabilsins, sem áfrýjandi á rétt til þjáningabóta fyrir, en þar var hann þó talinn hafa verið rúmliggjandi þremur dögum skemur en lagt var til grundvallar í örorkumati. Til samræmis við það, sem áður segir, verður við úrlausn málsins byggt á niðurstöðu matsmanna og áfrýjandi því talinn hafa verið rúmliggjandi 149 daga og með fótaferð 406 daga. Áfrýjandi hefur réttilega framreiknað fjárhæð þjáningabóta samkvæmt þágildandi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til verðlags á þeim tíma, sem hann hafði kröfu sína fyrst uppi gagnvart stefnda með höfðun málsins, sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verða honum dæmdar þjáningabætur að fjárhæð samtals 575.315 krónur.

Krafa áfrýjanda um bætur fyrir varanlegan miska, 963.071 króna, er miðuð við sama miskastig og dómkvaddir matsmenn komust að niðurstöðu um. Fjárhæð þessa kröfuliðar er fundin sem hlutfall af miskabótum samkvæmt þágildandi 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga með sams konar framreikningi vegna verðlagsbreytinga og getið var hér að framan í sambandi við þjáningabætur. Verður þessi kröfuliður því tekinn að fullu til greina.

Áfrýjandi krefst bóta vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 14.662.832 krónur. Við útreikning þess kröfuliðar miðar hann við 50% varanlega örorku samkvæmt áðurnefndu örorkumati, svo og að meðalárslaun hans á árunum 1995 til 1998 hafi numið 2.932.566 krónum, þegar talinn sé með 6% iðgjaldahluti vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Engar forsendur eru til að víkja á þennan hátt frá þeirri meginreglu þágildandi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga að bætur fyrir varanlega örorku verði miðaðar við heildarlaun næstliðins árs fyrir þann dag, sem tjón varð. Af gögnum málsins verður ekki ráðið af nákvæmni hver þau laun áfrýjanda voru. Í fyrrnefndum útreikningi stefnda á tjóni áfrýjanda var miðað við að árslaun hans hafi numið 2.493.943 krónum, en að viðbættum iðgjaldahluta vinnuveitanda í lífeyrissjóð verði sú fjárhæð 2.643.579 krónur. Með því að áfrýjandi hefur ekki sjálfur lagt fram viðhlítandi gögn til að reikna út bætur fyrir varanlega örorku verður að styðjast við þennan útreikning stefnda. Á grundvelli matsgerðar dómkvaddra manna um 30% varanlega örorku áfrýjanda nemur tjón hans af þessum sökum 7.930.737 krónum, sbr. þágildandi 6. gr. skaðabótalaga. Áfrýjandi var 42 ára á slysdegi. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 9. gr. sömu laga ber því að lækka bætur til hans fyrir varanlega örorku um 17% og verður þá fjárhæð þeirra 6.582.512 krónur. Samkvæmt þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga kemur til frádráttar þeim bótum greiðsla til áfrýjanda úr slysatryggingu launþega á 523.500 krónum. Á áfrýjandi þannig rétt á 6.059.012 krónum úr hendi stefnda samkvæmt þessum kröfulið.

Áfrýjandi hefur loks krafist greiðslu á 250.000 krónum fyrir annað fjártjón, sem hann nefnir svo, en til þess kveðst hann meðal annars telja ferðakostnað vegna læknismeðferðar, símkostnað og kaupverð lyfja. Fyrir slíkum liðum hefði áfrýjanda verið í lófa lagið að halda saman viðhlítandi gögnum, en hefur engin lagt fram. Verður þessum lið í kröfu hans því hafnað.

Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda bætur að fjárhæð 9.349.487 krónur. Í héraðsdómsstefnu krafðist áfrýjandi ársvaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af tildæmdum bótum fyrir tímabilið frá slysdegi til þess dags, sem málið var þingfest í héraði, en frá þeim degi dráttarvaxta. Svo sem ljóst er af áðursögðu hefur áfrýjandi breytt kröfugerð sinni að þessu leyti fyrir Hæstarétti stefnda í óhag. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 verður þeirri breytingu ekki komið að. Verða áfrýjanda því dæmdir vextir eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem í dómsorði segir. Vegna gjafsóknar áfrýjanda rennur sá málskostnaður í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda verður látið standa óraskað. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Höfðahreppur, greiði áfrýjanda, Guðmundi Eyþóri Guðmundssyni, 9.349.487 krónur með 2% ársvöxtum frá 21. ágúst 1998 til 7. september 2000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði í ríkissjóð samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2001.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 21. maí sl., að loknum munnlegum mál­flutn­ingi, var höfðað fyrir dómþinginu af Guðmundi Eyþóri Guðmundssyni, kt. 221255-4889, Eyrarvegi 18, Stokkseyri, á hendur Höfðahreppi, kt. 650169-6039, Túnbraut 1-3, Skagaströnd og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykja­vík, til réttargæslu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefn­anda 18.903.385 krónur, ásamt 2% ársvöxtum frá 21. ágúst 1998 til 1. maí 1999, en með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 7. september 2000, en með dráttarvöxtum sam­kvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefn­andi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu, og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.

Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess, að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur honum.

Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins dagsettu 8. desember 2000.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

Stefnandi hóf störf hjá stefnda hinn 27. maí 1998, og starfaði einkum sem véla­mað­ur á dráttarvél, við slátt og fleira.  Stefnandi var ráðinn tímabundið hjá stefnda það sumar.  Hafði stefnandi meðal annars séð um að heyja þau tún og grasbletti, sem eru innan sveitarfélagsins og á vegum þess, þá um sumarið.  Kveðst stefnandi hafa starf­að nokkuð með þeim unglingum, sem unnu hjá stefnda sumarið 1998 í svo­kall­aðri unglingavinnu.

Hinn 21. ágúst 1998 varð stefnandi fyrir vinnuslysi, er hann rak hægri öxlina í járn­bita dráttarvélar.  Um aðdraganda slyssins segir stefnandi svo, að hann hafi verið að fara á vinnustað sinn, áhaldahús sveitarfélagsins, eftir hádegishlé.  Hafi hann ætlað að losa járnvír sem fest hafi í sláttuvél, sem hann hafi verið að slá með fyrir hádegi, svo hann gæti haldið áfram slætti.  Kveðst hann hafa ekið dráttarvélinni að áhalda­hús­inu og tekið vél hennar úr sambandi.  Hann hafi síðan náð sér í verkfæri og skriðið undir dráttarvélina, svo hægt væri að losa vírinn.  Stefnandi kvaðst hafa legið á bak­inu við þessa vinnu sína, er hann hafi heyrt til mannaferða og komið á hann ísköld vatns­gusa.  Stefnandi kveðst hafa hrokkið mjög við og ósjálfrátt reynt að forða sér, en við það hafi hann rekið hægri öxl sína í járnbita.  Stefnandi hljóp á eftir drengjunum og tuskaði þá til, að eigin sögn, en ekki hafi verið um átök að ræða.  Hafa dreng­irnir staðfest fyrir dómi þann framburð stefnanda.  Stefnandi kveðst ekki hafa kennt til fyrr en um það bil klukkustund síðar og hafi hann þá tilkynnt slysið til sveit­ar­stjóra stefnda, sem hafi látið aka stefnanda til læknis á Blönduósi.

Stefnandi kveður sveitarstjóra hafa brýnt fyrir sér að segja ekki frá því fyrir lög­reglu hvernig slysið hafi viljað til og því sé skýrsla hans fyrir lögreglu, sem tekin var rúm­um fimm mánuðum eftir slysið, ekki í samræmi við frásögn hans af atburðum nú.

Stefndi hefur mótmælt þessari fullyrðingu stefnanda og kveðst hafa brýnt fyrir stefn­anda að segja lögreglu frá atvikum.  Einnig hafi, að ósk sveitarstjóra, verið teknar skýrslur af flokksstjórum vinnuskólans, verkstjóra og drengjunum tveimur.

Tveir piltar úr vinnuskóla stefnda skvettu vatninu á stefnanda, þar sem hann lá undir dráttarvélinni.  Höfðu unglingar í vinnuskólanum verið að halda upp á lok vinnu­tímabilsins þennan dag meðal annars með því að vera í vatnsslag og skvetta vatni á flokkstjóra vinnuskólans.

Hinn 8. mars 2000 mat Atli Ólason, læknir, varanlega örorku stefnanda vegna slyss­ins, 20%.  Tímabundna örorku stefnanda, frá 21.08.1998 til 8. mars 2000, 100%

Að beiðni lögmanns stefnanda framkvæmdi fyrrgreindur læknir nýtt örorkumat sam­kvæmt skaðabótalögum og er það dagsett 14. júní 2000.  Telur læknirinn að frá 6. mars 2000 hafi ekki verið að vænta frekari bata.  Þjáningartímabil teljist frá 21.08.1998 fram til 06.03.2000.  Síðan segir: „Við mat á varanlegri örorku samkvæmt skaða­bótalögum er litið til þess að Guðmundur hafði starfað einkum sem háseti á tog­ur­um en í sumarleyfi í landi.  Hann kveðst hafa haft í tekjur 3,0 – 3,5 milljónir síðustu árin.  Hann treystir sér ekki til að fara í vinnu á sjó og hefur ekki fundið neina vinnu í landi sem hentar honum.  Aðalástæða óvinnufærni er öxlin.  Óþægindi í baki leggjast þar við en eru mun minni að mati Guðmundar.

Telja verður líklegt að Guðmundur hefði haldið áfram sama vinnufyrirkomulagi og hann var í fyrir slysið, þ.e. að vera háseti á togurum og vinna í sumarleyfi í landi.  Eftir vinnuslysið 21.08.1998 var hann óvinnufær til erfiðra verka bæði á sjó og landi og er enn.  Miðað við hreyfiskerðingu, áreynsluverki og eymsli í hægri öxl, verður það að teljast trúverðugt að Guðmundur sé ófær til erfiðra starfa bæði á sjó og landi en hugs­anlegt að síðar geti hann unnið vinnu við vinnuborð þar sem hann þarf ekki að beita höndunum til mikilla átaka, einkum upp eða niður fyrir sig.  Slík atvinnutækifæri eru fá í heimasveit.  Því er talið líklegt að Guðmundur verði fyrir umtalsverðu tekju­tapi vegna axlaráverkans.  Varanleg örorka er metin 50%.

NIÐURSTAÐA

Við vinnuslysið þann 21.08.1998 varð Guðmundur Eyþór Guðmundsson fyrir eftir­farandi skaða samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993:

1.      Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:

Frá 21.08.1998 til 06.03.2000.

2       Þjáningabætur skv. 3. grein:

Rúmliggjandi:

Frá 12.10.1998 til 14.10.1998.

Frá júní 1999 í níu vikur.

Frá 03.09.1999 til 04.09.1999.

Frá október 1999 í tólf vikur.

Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi:

Frá 21.08.1998 til 06.03.2000, að frádregnum þeim tíma er

hann var rúmliggjandi.

3.Varanlegur miski skv. 4. grein:  20%.

4.      Varanleg örorka skv. 5. grein:  50%

5.      Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka:  20%”

Að kröfu lögmanns stefnda voru dómkvaddir matsmenn hinn 18. janúar 2001.  Hinir dómkvöddu matsmenn, læknarnir Guðmundur Björnssonar og Bogi Jónsson, kom­ust að þeirri niðurstöðu í matsgerð sinni, sem dagsett er 9. mars sl., að tíma­bundið atvinnutjón stefnanda vegna slyssins teljist vera 100% frá 21. ágúst 1998 til 6. mars 2000.  Þjáningartími hafi verið frá 21. ágúst 1998 til 6. mars 2000.  Á þeim tíma hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 2 daga vegna aðgerðar og 21 viku vegna end­ur­hæf­ingar.  Varanlega örorku stefnanda mátu þeir 30%.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að starfsmenn hins stefnda sveitarfélags eigi sök á því líkamstjóni, sem stefnandi varð fyrir hinn 21. ágúst 1998.  Stefnandi hafi legið undir dráttarvélinni til þess að losa vírbendu úr sláttuvél tengdri dráttarvélinni.  Að­staða hans til verksins hafi verið mjög þröng og erfið.  Þegar hann í þessari stöðu hafi fengið á sig vatnsgusu, hafi ósjálfráð viðbrögð hans verið að forða sér og reyna að standa á fætur með því að smokra sér undan dráttarvélinni.  Hafi hann farið upp af miklum krafti og við það rekið hægri öxlina í sláttuvélina og slasað sig.  Allt hafi þetta gerst í einu vetfangi.

Unglingarnir sem skvett hafi á hann vatni hafi báðir verið í vinnu hjá stefnda.  Þeir hafi verið undir stjórn flokkstjóra, sem vitað hafi af för drengjanna og hvað þeir hygð­ust gera.  Byggir stefnandi á því, að flokkstjórarnir hafi fylgst með aðförinni að stefn­anda og þegar vatninu hafi verið skvett á hann og þeir því ekki sýnt af sér nægi­lega varúð, frekar en drengirnir.

Stefnandi byggir á því, að sök starfsmanna stefnda sé í raun margs konar.  Í fyrsta lagi hafi sveitarstjóri sýnt af sér gáleysi með því að láta slíka starfsvenju viðgangast í vinnu­tíma starfsmanna sveitarfélagsins.  Í öðru lagi hafi verkstjórn verið ábótavant, þar sem þetta háttalag hafi farið fram með fullri vitneskju verkstjóra stefnda.  Verk­stjór­inn hafi mátt vita að stórhættulegt sé að hrekkja menn við vinnu sína, með því að skvetta á þá vatni þeim að óvörum.  Á þessari háttsemi beri stefndi ábyrgð, þar sem um nokkurra ára venju sé að ræða og háttsemin verið leyfð. 

Ekki verði því haldið fram, þar sem um venju hafi verið að ræða, sem stefndi lét við­gangast, að fyrrgreindir aðilar hafi farið út fyrir starfssvið sitt með athöfnum sín­um eða athafnaleysi.  Byggir stefnandi þá málsástæðu og á því, að ekki hafi verið hlut­ast til um opinbera rannsókn á orsökum slyssins og slysið ekki verið tilkynnt til Vinnu­eftirlits ríkisins þegar í stað, eins og lög bjóði.  Verkstjórn hafi verið áfátt, þar sem flokkstjórar og unglingarnir hafi ekki verið varaðir við og fyrir þeim brýnt að sýna sér­staka aðgæslu við vatnsskvetturnar.  Eðlilegra sé að ábyrgðartryggjandi bæti tjónið frekar en ofangreindir starfsmenn eða stefnandi sjálfur.  Skaðabótarétt megi rekja til sann­girnissjónarmiða og það sé í samræmi við þau sjónarmið, að ábyrgðartryggjandi stefnda bæti tjónið.  Þá sé einnig ljóst að stefnandi hafi engan þátt átt í tjóninu.

Stefnandi hefur sundurliðað kröfu sína á eftirfarandi hátt í stefnu: „

1. tímabundin örorka

kr. 2.450.000

2. varanleg örorka

kr.14.662.832

3. Þjáningabætur:

4. rúmliggjandi 152 x 1.300 x 3951/3282

    batnandi 403 x 700 x 3951/3282

 

kr. 237.879

 

kr.339.603

 

4.Varanlegur miski 4.000.000 x 3951/3282 x 20%

kr.963.071

5.Annað fjártjón

kr.250.000

                                     Samtals skaðabótakrafa

kr.18.903.385”

Stefnandi kveðst reikna út lið 1 með þeim hætti, að hann hafi fengið 125.00 krónur í laun á mánuði frá stefnda, þegar hann slasaðist, en þar hafi hann unnið frá júní­byrjun til slysdags og fengið greidd laun fram til 21. nóvember 1998.  Laun af sjó­mennsku fyrri hluta ársins hafi verið 1.084.483 krónur eða 216.896 krónur á mán­uði.  Telur því stefnandi sanngjarnt að miða við 175.00 króna mánaðarlaun, mánuðina janúar 1999 til mars 2000, eins og hann geri.

Stefnandi kveður fjárhæð liðar 2 vera byggða á meðallaunum stefnanda á ár­un­um 1998, 1.709.265 krónur, 1997 2.935.977 krónur, 1996 2.418.946 krónur og 1995 4.002.101 króna.  Meðallaun þessara ára séu því 2.766.572 krónur.  Að viðbættu 6% ið­gjaldi atvinnurekanda, séu meðallaun því 2.932.566 krónur.  Bætur stefnanda vegna var­anlegrar örorku séu því 2.932.566 x 10 x 50%, samtals 14.662.832 krónur.  Stefn­andi byggir á því, að hann hafi verið í tímabundnu starfi í landi, en hafi haft þann hátt á, mörg undanfarin ár, að vinna í landi á sumrin.  Stefnandi bendir á að hann hafi verið eftir­sóttur sjómaður, sem hafi víða getað gengið í pláss hjá góðum aflamönnum og hafi það verið ætlun hans haustið 1998.  Telur stefnandi að meta beri árslaun hans sér­stak­lega með ofangreindum hætti því öðruvísi verði ekki komist að raunverulegu afla­hæfi.

Stefnandi kveður fjárhæð liðar 5 vera byggða á 1. gr. skaðabótalaga.  Um sé að ræða þann kostnað, sem stefnandi sannanlega hafi haft af slysinu, en erfitt hafi verið að taka sérstaka reikninga vegna kostnaðar, svo sem vegna ferða til Reykjavíkur til lækna, vegna símtala og lyfja.  Einnig sé inni í þessum lið kostnaður við bú­ferla­flutn­inga frá Skagaströnd til Stokkseyrar, sem sé stærra vinnusvæði og hafi meiri at­vinnu­mögu­leika.

Vaxtakröfu sína styður stefnandi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, en samkvæmt þeim lögum skuli skaðabótakröfur bera 4,5% árs­vexti frá 1. maí 1999.

Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og reglna skaða­bóta­rétt­arins um ábyrgð vinnuveitanda vegna sakar starfsmanns hans.  Þá kveðst stefnandi vísa til reglna um uppsafnaða sök ótilgreindra starfsmanna.  Einnig vísar stefnandi til laga nr. 46/1990, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sérstaklega 13. gr., 20. gr., 21. gr., 23. gr. og 86. gr. þeirra laga.  Stefnandi vísar og til reglna vinnu­rétt­arins um verkstjórnarvald og húsbóndavald atvinnurekenda og eftirlitsskyldu þessara aðila með starfsmönnum sínum.

Bótafjárhæð byggir stefnandi á skaðabótalögum nr. 50/1993.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að slysið megi nær eingöngu rekja til þess, að stefnandi hafi rokið á fætur til þess að jafna um piltana, sem skvett hafi á hann vatni.  Hin ofsafengnu viðbrögð stefnanda hafi verið fullkomlega óþörf og tilkomin vegna reiði hans yfir að blotna.  Stefndi heldur því og fram, að stefnandi hafi eins getað meiðst í viðureign sinni við annan drengjanna inni í áhaldahúsinu eftir að stefn­andi rak sig upp undir safnkassann.

Stefndi telur að hvorki skilyrði sakarreglunnar né reglunnar um ábyrgð vinnu­veit­anda á skaðaverkum starfsmanna sinna séu uppfyllt, þar sem skilyrðin um senni­lega afleiðingu séu ekki til staðar í málinu.  Ef fallist verði á það, að um saknæma hegð­un starfsmanna stefnda hafi verið að ræða, hafi hegðun þeirra ekki verið til þess fall­inn að valda tjóni og hafi hún ekki aukið hættuna á þeim tjónsatburði, sem orðið hafi.  Hvorki sé eðlilegt né sanngjarnt að skaðabótareglur séu svo víðtækar að menn beri ábyrgð á svo fjarlægum afleiðingum, sem þessum.

Stefndi mótmælir því, að starfsmenn hans eigi sök á líkamstjóni stefnanda.  Hefð­bundn­um störfum vinnuskólans hafi verið lokið og unglingarnir, því ekki lengur undir verkstjórn starfsmanna stefndu.  Algengt sé og tíðkist víða, að menn geri sér daga­mun á tímamótum og sé þá gjarnan ærslast.  Það að skvetta vatni geti ekki talist hættu­leg skemmtan og því ekkert sem gefið hafi starfsmönnum stefnda tilefni til að ætla að illa færi.

Stefndi mótmælir því, að aðstaða stefnanda til verksins hafi verið mjög þröng og erfið.  Teikningar af dráttarvélinni bendi til þess, að stefnandi hafi haft gott svigrúm og ekki verri vinnuaðstöðu en hann hafi mátt búast við.  Stefnandi hafi og þekkt að­stöð­una vel, þar sem hann hafi séð um viðhald dráttarvélarinnar.

Stefndi telur starfsmenn sína ekki hafa sýnt af sér saknæma hegðun.  Mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda, að verkstjórarnir hafi ekki sýnt af sér nægilega varúð og brugðist eftirlits- og umönnunarskyldu sinni með því að fylgjast ekki með drengjun­um.  Telur stefndi að verkstjórarnir hafi ekki getað búist við öðru en því að stefn­andi blotnaði við þennan leik.

Stefndi mótmælir því og að sveitarstjóri stefnda hafi sýnt af sér gáleysi með því að leyfa að vatni væri skvett á lokadegi vinnuskólans.  Þá verði tjón stefnanda ekki rakið til skorts á verkstjórn, þar sem vinnuskólanum hafi verið lokið. 

Stefndi mótmælir því, að starfsmenn hans hafi með athöfn sinni eða athafnaleysi farið út fyrir starf sitt.  Hafi þeir farið út fyrir starf sitt í þessu efni hafi ábyrgð stefnda fall­ið niður samkvæmt reglunni um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfs­manna sinna.  Stefnanda hafi verið kunnugt um að vatni hafi verið skvett fyrr um dag­inn og hafi því mátt búast við að reynt yrði að skvetta á hann líka.  Skemmtun þessi, sem myndast hafi venja um á lokadegi vinnuskólans, hafi verið meinlaus hrekkur, en ekki atlaga og hún því ekki saknæm.

Stefndi mótmælir því, að það skipti máli hvort óhappið var tilkynnt strax til lög­reglu eða Vinnueftirlits.  Enginn vafi sé á hver atvik voru í atburðarrás óhappsins.  Stefn­anda hafi strax verið ekið til læknis af starfsmanni stefnda og ekkert hafi bent til þess í upphafi, að atvik myndu draga dilk á eftir sér fyrir heilsu stefnanda.  Slysið hafi strax verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins eftir að ljóst hafi orðið að meiðsl stefnanda væru alvarleg.

Stefndi mótmælir því, að ekki hafi verið brýnt fyrir unglingunum að sýna að­gæslu við vatnsskvetturnar.

Stefndi mótmælir því, að eðlilegra sé að ábyrgðartryggjandi bæti tjónið frekar en starfs­menn stefnda eða stefnandi sjálfur.  Ábyrgðartryggingin breyti ekki bóta­grund­vell­inum, sem sé sök.  Hins vegar sé ekki sök annarra en stefnanda sjálfs fyrir að fara í málinu.

Stefndi mótmælir forsendum og niðurstöðu örorkumats Atla Þórs Ólasonar, læknis, enda hafi stefndi engan þátt átt í að útbúa matsbeiðni.  Mótmælir stefndi sér­stak­lega niðurstöðu læknisins um 50% varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaða­bóta­laga.  Þá mótmælir stefndi mati læknisins á tímabili óvinnufærni, tímabundnu at­vinnu­tjóni og tímabili þjáningabóta.

Stefndi mótmælir því og að stefnandi hafi haft tekjur á bilinu 3-3,5 milljónir síð­ustu árin, enda beri skattframtöl hans það ekki með sér.  Þá beri skattframtöl það og með sér að stefnandi hafi ekki haft sjómennsku að aðalstarfi heldur hafi stefnandi þegið laun frá fjölmörgum vinnuveitendum.

Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi þurft að flytja búferlum milli lands­fjórð­unga vegna slyssins.

Varakröfu sína byggir stefndi á því, að stefnandi eigi sjálfur meginsök á tjóni sínu.  Stefnanda hafi verið vel kunnugt um þá venju, sem myndast hafi um að farið væri í vatnsslag á lokadegi Vinnuskólans.  Hann hafi vitað að vatni hafi verið skvett að morgni slysdagsins.  Hann hafi heyrt til mannaferða, þar sem hann hafi legið undir drátt­arvélinni og hefði hæglega getað komið sér undan henni strax.  Stefnandi hafi hæg­lega getað séð drengina nálgast dráttarvélina og því hafi hið snögga viðbragð hans verið með öllu óþarft, enda stefnandi þá þegar orðinn blautur.

Stefnufjárhæðin sé og allt of há.  Draga beri frá hugsanlegum bótum fyrir var­an­lega örorku, þær bætur, sem stefnandi hafi þegar fengið greiddar úr slysatryggingu laun­þega, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eða 523.500 krónur.  Þá beri að draga frá hugs­anlegu tímabundnu tekjutjóni stefnanda dagpeninga, sem hann hafi fengið greidda úr slysatryggingu launþega, 328.495 krónur, slysadagpeninga, sem hann hafi hugs­anlega fengið greidda frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 4. mgr. 5. gr. þá­gild­andi skaðabótalaga og þau laun sem stefnandi hafi fengið frá stefnda.

Stefndi mótmælir og sérstaklega kröfu um vexti frá 1. maí 1999, þar sem ekki séu laga­skilyrði fyrir þeirri kröfu, sbr. 15. gr. laga nr. 37/1999, er breytt hafi skaða­bóta­lög­um nr. 50/1993.  Stefndi mótmælir og kröfu um upphafsdag dráttarvaxtakröfu, en stefn­andi eigi engan rétt til dráttarvaxta fyrr en í fyrsta lagi er rökstudd endanleg kröfu­gerð liggi fyrir, eða við dómsuppsögu.

Um lagarök vísar stefndi til ólögfestra reglna skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnu­veitanda á skaðaverkum starfsmanna, skaðabótalaga nr. 50/1993.

Kröfu varðandi vexti og dráttarvexti byggir stefndi á vaxtalögum nr. 25/1987.

Stefndi byggir kröfu sína um málskostnað á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Stefnandi, sem var starfsmaður stefnda, byggir kröfu sína á hendur stefnda á því, að starfsmenn stefnda hafi valdið honum tjóni.

Stefnandi hefur lýst atburðum svo, að hann hafi verið við vinnu sína undir sláttu­vél­inni, að losa vír, sem fest hafi í vélarhnífnum.  Hafi þá drifið þar að tvo drengi, sem starfað hafi í vinnuskóla stefnda og þeir skvett á hann vatni, þar sem hann lá undir vél­inni.  Honum hafi brugðið mjög við þetta og flýtt sér undan vélinni, en við það rekið öxl­ina upp undir járnhlíf sláttuvélarinnar. 

Óumdeilt er að umrætt sinn var skvett vatni á stefnanda af drengjum, sem starfað höfðu í vinnuskóla stefnda.  Þó svo vart geti það talist til skemmtunar að hrekkja menn svo við vinnu sína, varð stefnandi ekki, að eigin sögn, fyrir slysi við þær vatns­skvettur, heldur við það, að hann í beinu framhaldi var að færa sig undan sláttuvélinni og stóð of fljótt upp með þeim afleiðingum að hann rak hægri öxlina upp undir vélina.  Þrátt fyrir að stefnanda hafi brugðið við það að fá á sig vatnsgusur verður ekki talið að fyrr­greindur hrekkur sé almennt fallinn til þess að valda tjóni.  Verður ekki annað séð en að orsök slyssins verði einungis rakin til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs, en hvorki lélegrar verkstjórnar né hrekkja starfsmana.  Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. 

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 481.200 krónur, þar af þóknun lögmanns stefn­anda 450.000, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Höfðahreppur, er sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar Eyþórs Guðmunds­sonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 481.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar af þóknun lögmanns stefnanda, 450.000 krónur.