Hæstiréttur íslands
Mál nr. 425/1999
Lykilorð
- Ómerking héraðsdóms
- Dómur
|
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2000. |
|
Nr. 425/1999. |
Brynja Baldursdóttir(Helgi Birgisson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Ómerking héraðsdóms. Dómur.
B höfðaði mál gegn vátryggingafélaginu T til greiðslu bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar, varanlega örorku og miska auk vaxta vegna slyss sem hún varð fyrir í bifreið G, sem tryggð var hjá T lögboðinni ábyrgðar- og ökumannstryggingu. Röksemdum og ályktunum héraðsdómara um ýmis atriði, sem þýðingu höfðu um kröfur G vegna tímabundins atvinnutjóns, þótti áfátt auk þess sem reifun málsatvika og málsástæðna aðilanna hefði nánast eingöngu falist í orðréttum texta langra kafla úr héraðsdómsstefnu og greinargerð T. Að auki hefði með öllu verið horft fram hjá því við úrlausn málsins í héraði, að ágreiningur væri á milli aðilanna um kröfu G um þjáningabætur og vexti, sem hvergi væri vikið að og tekin rökstudd afstaða til. Hefði og verið vanrækt að fjalla um ágreining aðilanna um við hvaða tímamark ætti að miða verðtryggingu við ákvörðun bóta fyrir varanlegan miska og örorku. Vegna þessara annmarka þótti óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. október 1999. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.878.180 krónur með 2% ársvöxtum og vaxtavöxtum af 3.542.403 krónum frá 28. september 1994 til 6. mars 1996. Frá þeim degi verði stefndi dæmdur til að greiða dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af síðarnefndu fjárhæðinni til 14. október 1998, en af 2.878.180 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi varð fyrir slysi 28. september 1994 þegar hún ók bifreið þáverandi vinnuveitanda síns, Glaðnis hf., eftir þjóðvegi nr. 1 til suðurs um Hrútafjörð, en þar missti hún stjórn á bifreiðinni, sem fór út af veginum og valt. Bifreiðin var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, svo og ökumannstryggingu samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Við slysið hlaut áfrýjandi áverka meðal annars á höfði, hálsi, baki, handleggjum og fótum. Hún aflaði sér 19. janúar 1996 örorkumats Atla Þórs Ólasonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum. Í niðurstöðum örorkumatsins tók læknirinn mið af því að áfrýjandi hefði verið frá vinnu allt frá slysdegi til þess tíma, sem matið var gert, og þannig orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 allt það tímabil. Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. laganna ættu jafnframt að reiknast fyrir sama tímabil, en áfrýjandi hefði þó ekki verið rúmliggjandi eftir slysið. Varanlegur miski áfrýjanda var metinn 10% og varanleg örorka sú sama. Stefndi vildi ekki hlíta niðurstöðum þessa mats og leitaði því álits örorkunefndar 12. mars 1996. Í álitsgerð hennar 16. nóvember sama árs var talið að eftir 1. október 1995 hafi áfrýjandi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins. Varanlegur miski hennar var metinn 10%, en varanleg örorka 8%.
Samkvæmt gögnum málsins leitaði áfrýjandi nokkru eftir slysið til stefnda um greiðslu bóta vegna tímabundins atvinnutjóns. Mun hún þá hafa látið af hendi vottorð heimilislæknis um óvinnufærni, svo og launaseðla frá Glaðni hf. fyrir júlí, ágúst og september 1994, sem báru með sér að mánaðarlaun hennar hafi verið 200.000 krónur. Á þessum grunni bætti stefndi áfrýjanda launamissi í fimmtán mánuði með greiðslum frá 9. nóvember 1994 til 4. janúar 1996, að fjárhæð alls 2.280.000 krónur, en hún mun hafa framvísað frekari læknisvottorðum á því tímabili. Að fengnu fyrrnefndu örorkumati krafðist áfrýjandi bóta úr hendi stefnda 6. febrúar 1996 á grundvelli þess. Í kröfu hennar var ráðgert að tímabundið atvinnutjón væri þegar bætt með greiðslum stefnda, en krafist þjáningabóta fyrir 478 daga, alls 348.940 krónur, bóta fyrir 10% varanlegan miska, 419.000 krónur, og bóta fyrir 10% varanlega örorku, sem tækju mið af árslaunum áfrýjanda samkvæmt áðurnefndum launaseðlum, að fjárhæð 1.728.000 krónur. Hún krafðist því alls 2.495.940 króna í bætur umfram það, sem stefndi hafði þegar greitt, að viðbættum vöxtum og nánar tilteknum kostnaði.
Um sama leyti og áfrýjandi krafði stefnda um uppgjör bóta samkvæmt framansögðu mun bú Glaðnis hf. hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Leitaði stefndi 12. apríl 1996 upplýsinga um laun áfrýjanda hjá skiptastjóra í þrotabúinu, sem fól löggiltum endurskoðanda að taka þær saman. Í svari endurskoðandans 14. maí sama árs var vitnað til þess að í bókhaldsgögnum félagsins hafi verið launaseðlar áfrýjanda, sem hafi sýnt að hún hefði þegið laun hjá því frá febrúar 1994 að telja. Hvorn af tveimur fyrstu starfsmánuðum hennar hafi laun numið 60.000 krónum samkvæmt launaseðlum, en næstu sex mánuðina, til og með september 1994, hafi mánaðarlaun verið 80.000 krónur. Hafi laun hennar því alls numið 600.000 krónum, en á tímabilinu hafi verið dregnar 35.676 krónur af þeirri fjárhæð vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Greiðslur til áfrýjanda samkvæmt viðskiptareikningi hjá félaginu hafi samtals verið 700.000 krónur frá mars til september 1994 og hún þannig fengið ofgreiddar 135.676 krónur. Síðla árs 1994 hafi verið gerðir nýir launaseðlar fyrir áfrýjanda vegna júlí, ágúst og september og hafi mánaðarlaun þar verið tilgreind 200.000 krónur. Þess var getið að þau laun hafi verið töluvert hærri en mánaðarlaun þriggja nafngreindra yfirmanna hjá félaginu. Lét endurskoðandinn í ljós það álit að ólíklegt yrði að telja að laun áfrýjanda hafi að réttu lagi verið þau, sem fram kæmu á síðastnefndum launaseðlum, en mun líklegra væri að upphaflegu seðlarnir hafi verið réttir. Stefndi beindi 23. maí 1996 til rannsóknarlögreglu ríkisins kæru á hendur áfrýjanda og fór fram opinber rannsókn af því tilefni. Ríkislögreglustjóri gaf út ákæru 21. janúar 1998 á hendur áfrýjanda fyrir fjársvik og nafngreindum fyrrum forráðamanni Glaðnis hf., sem þá var orðinn sambúðarmaður áfrýjanda, fyrir hlutdeild í því broti. Þau voru sýknuð af kröfum ákæruvaldsins með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra 17. apríl sama árs, þar sem talið var að áfrýjanda hafi ekki verið kunnugt um annað en að þrír síðastnefndu launaseðlar hennar hafi verið réttir og í samræmi við samninga hennar við félagið um launakjör, en þannig væri ósannað að hún hafi framvísað launaseðlunum við stefnda með auðgun í huga. Af hálfu ákæruvalds var þessum dómi unað.
Í kjölfar þessa dóms bauð stefndi 18. júní 1998 uppgjör bóta handa áfrýjanda. Í þeim efnum lagði stefndi til að tímabundið tjón áfrýjanda yrði talið 80.000 krónur á mánuði í eitt ár frá slysdegi til samræmis við niðurstöðu örorkunefndar um að hún hafi ekki mátt vænta frekari bata eftir 1. október 1995, en bætur þannig reiknaðar yrðu að þessu leyti 960.000 krónur. Þjáningabætur yrðu 248.325 krónur, en þar væri miðað við að þær tækju til sama tímabils og bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og að fjárhæð þeirra réðist af 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga um bætur handa tjónþola, sem ekki væri rúmliggjandi, en þó þannig að þegar fjárhæð samkvæmt 3. málslið ákvæðisins, 200.000 krónum, væri náð yrðu frekari bætur skertar um helming. Varanlegur miski yrði bættur með 442.050 krónum, en lagt væri til grundvallar samhljóða mat Atla Þórs Ólasonar og örorkunefndar um að hann væri 10%. Við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku yrði miðað við að áfrýjandi hefði í fullu starfi fengið 160.000 krónur í mánaðarlaun, þegar litið væri til þess að fyrrgreindar 80.000 krónur hefðu verið greiddar á mánuði fyrir hálft starf. Verðbætt árslaun á þeim grunni yrðu 2.057.872 krónur, en sú fjárhæð yrði hækkuð um 6% vegna missis framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Fjárhæðin með þeirri hækkun yrði margfölduð með 7,5 samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga, en útkoman af því síðan skert um 5% vegna aldurs áfrýjanda, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Af niðurstöðu þess útreiknings fengi áfrýjandi 8% til samræmis við niðurstöðu örorkunefndar um varanlega örorku hennar, eða 1.243.366 krónur. Taldi þannig stefndi að bætur handa áfrýjanda ættu alls að nema 2.893.741 krónu, en frá ætti að draga fyrri greiðslur, 2.281.000 krónur, og stæði þá eftir 612.741 króna. Við þá fjárhæð yrðu bættar 47.258 krónur í vexti og 189.258 krónur vegna innheimtulauna lögmanns áfrýjanda. Bauð því stefndi alls 849.257 krónur til fullnaðaruppgjörs.
Áfrýjandi hafnaði framangreindu boði stefnda og höfðaði í kjölfarið mál þetta. Í héraðsdómsstefnu krafðist áfrýjandi 3.100.000 krónur í bætur vegna tímabundins atvinnutjóns. Í þeim efnum bar hún því við að hún hafi á sínum tíma samið við forráðamenn Glaðnis hf. um að gegna fullu starfi hjá félaginu fyrir 200.000 krónur á mánuði og hafi sú breyting átt að koma til framkvæmda um líkt leyti og hún varð fyrir slysinu 28. september 1994. Samkvæmt örorkumati Atla Þórs Ólasonar hafi hún verið óvinnufær í 151/2 mánuð frá slysdegi og væri því tímabundið atvinnutjón sú fjárhæð, sem áður greinir. Þá krafðist áfrýjandi þjáningabóta að fjárhæð 348.940 krónur, sem væri óskert fjárhæð slíkra bóta samkvæmt 1. mgr. 3. gr., sbr. 15. gr. skaðabótalaga í 478 daga. Hún krafðist bóta vegna varanlegs miska að fjárhæð 420.850 krónur, svo og 1.953.253 krónur í bætur fyrir varanlega örorku. Síðastgreindu fjárhæðina miðaði áfrýjandi við að verðbætt árslaun sín hefðu átt að nema 2.604.338 krónum. Þar við ættu að bætast 6% vegna missis lífeyrisréttinda en frá að dragast 5% vegna aldurs hennar. Af útkomunni margfaldaðri með 7,5 ætti að reikna 10% sem bætur fyrir varanlega örorku til samræmis við niðurstöðu örorkumats Atla Þórs Ólasonar. Þannig taldi áfrýjandi að bætur ættu alls að verða 5.823.043 krónur, en til frádráttar að koma 2.280.000 krónur, sem stefndi hafði greitt upp í tjón hennar. Í héraðsdómsstefnu gerði áfrýjandi kröfu um greiðslu fyrrnefndu fjárhæðarinnar með 2% ársvöxtum frá slysdegi til 6. febrúar 1996, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni síðarnefndu fjárhæðinni.
Í greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi kom meðal annars fram að áfrýjanda hefðu staðið og stæðu enn til boða bætur samkvæmt áðurgreindri tillögu hans frá 18. júní 1998, en með því yrði tjón hennar að fullu bætt. Krafðist stefndi því sýknu af kröfu áfrýjanda „gegn greiðslu á kr. 613.741,- ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 28. september 1994 til greiðsludags“, eins og sagði í greinargerðinni. Að þessu fram komnu greiddi stefndi 14. október 1998 áfrýjanda samtals 853.121 krónu. Var þar um að ræða áðurnefnda fjárhæð, 612.741 krónu, ásamt 189.258 krónum vegna innheimtuþóknunar lögmanns áfrýjanda og 51.122 krónum í vexti, sem aðilana greinir ekki á um að hafi verið reiknaðir sem 2% ársvextir samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi til greiðsludags. Til samræmis við þessa greiðslu lækkaði áfrýjandi kröfu sína fyrir héraðsdómi um þá fjárhæð, sem greiddist þannig upp í höfuðstól og vexti, 663.863 krónur. Að teknu tilliti til greiðslna stefnda á árununum 1994 til 1996, að fjárhæð alls 2.281.000 krónur, varð endanleg kröfugerð áfrýjanda sú að stefnda yrði gert að greiða sér 2.878.180 krónur. Krafðist áfrýjandi 2% ársvaxta af mismuninum á upphaflegum höfuðstól kröfu sinnar og innborgunum stefnda 1994 til 1996, 3.542.403 krónum, frá slysdegi til 6. mars 1996, en dráttarvaxta af sömu fjárhæð frá þeim degi til 14. október 1998 og af 2.878.180 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Er þetta sama dómkrafa og áfrýjandi gerir fyrir Hæstarétti.
II.
Eins og ráðið verður af framangreindu stóð ágreiningur aðilanna þegar málið var dómtekið í héraði í fyrsta lagi um tímabundið atvinnutjón áfrýjanda, bæði hvað varðar lengd tímabils þess og fjárhæð launa hennar fyrir slysið, sem bætur yrðu reiknaðar eftir. Í öðru lagi deildu þau um þjáningabætur, bæði um lengd tímabilsins, sem þær yrðu greiddar fyrir, og hvort skerða ætti þær með tilliti til ákvæðis 3. málsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Í þriðja lagi var ágreiningur um bætur fyrir varanlega örorku, annars vegar um örorkustig áfrýjanda og hins vegar við hvaða fjárhæð launa ætti að miða þær. Í fjórða lagi var deilt um hvort áfrýjandi ætti rétt til vaxta úr hendi stefnda í samræmi við kröfugerð hennar, sem áður er rakin, eða hvort hún hafi fengið vexti að fullu greidda sem 2% ársvexti af bótum frá slysdegi til 14. október 1998. Í tengslum við ákvörðun bóta fyrir varanlegan miska og örorku, svo og vaxta, bar og á milli aðilanna við hvaða tímamark ætti að miða verðbætur samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga. Taldi áfrýjandi að miða ætti fjárhæð bóta við verðlag í febrúar 1996, enda bæri krafa hennar dráttarvexti frá þeim tíma, en stefndi virðist hafa miðað bætur, sem hann greiddi áfrýjanda samkvæmt áðursögðu, við verðlag í júní 1998. Þessu til viðbótar deildu aðilarnir um málskostnað.
Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að leggja ætti til grundvallar að mánaðarlaun áfrýjanda fyrir slysdag hafi verið 80.000 krónur, að hún hafi verið í hálfu starfi á þeim tíma og ósannað væri að breyting í þeim efnum hafi verið í vændum, að niðurstaða örorkunefndar um varanlega örorku áfrýjanda gengi framar niðurstöðu um sama efni í örorkumati Atla Þórs Ólasonar og að tímabundið atvinnutjón áfrýjanda yrði bætt til 1. október 1995 í samræmi við álitsgerð örorkunefndar um hvenær ekki hafi mátt vænta frekari bata. Var miðað við að stefndi hefði gert upp við áfrýjanda á þessum forsendum og var hann því sýknaður, en málskostnaður felldur niður. Röksemdum fyrir þessum ályktunum héraðsdómara er í ýmsu áfátt, auk þess sem reifun málsatvika og málsástæðna aðilanna í hinum áfrýjaða dómi fólst nánast eingöngu í orðréttum texta langra kafla úr héraðsdómsstefnu og greinargerð stefnda í héraði. Án tillits til þess var þó að auki með öllu horft við úrlausn málsins í héraði fram hjá því að ágreiningur var á milli aðilanna um kröfu áfrýjanda um þjáningabætur og vexti, sem hvergi var vikið að og tekin rökstudd afstaða til í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms. Var og vanrækt að fjalla um deilu aðilanna um hvernig reikna ætti verðbætur vegna kröfu áfrýjanda um bætur fyrir varanlegan miska og örorku. Vegna þessara meginannmarka á hinum áfrýjaða dómi er óhjákvæmilegt að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur. Málinu er vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 1999.
Mál þetta sem dómtekið var 26. maí sl. er höfðað með stefnu útgefinni 28. ágúst 1998 og þingfest 1. september 1998.
Stefnandi er Brynja Baldursdóttir, kt. 120464-1939, Eyrargötu 16, Siglufirði.
Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf. kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8 Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 2.878.180 krónur með 2% vöxtum og vaxtavöxtum af 3.542.403 krónum (2.878.180 + 663.863) frá 28 september 1994 til 6. mars1996, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 14. október 1998, en af 2.878.180 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði dæmd til að greiða henni málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefndu er að sýknað verði af kröfum stefnanda í málinu og stefndu dæmdur málskostnaður að mati dómsins.
MÁLSATVIK
Stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar JH-765 sem síðdegis 28. september 1994 var ekið suður þjóðveg 1 í Hrútafirði. Hún missti stjórn á bifreiðinni og hafnaði hún á hvolfi utan vegar. Við slysið hlaut stefnandi áverka víða á líkamann, höfuð, háls, brjóst, mjóbak, handleggi og fætur. Flestir áverkanna gengu til baka en eftir stóðu óþægindi í hálsi, brjóst- og mjóbaki, ásamt höfuðverk sem tengdust tognun í hálsi og baki. Samkvæmt örorkumati dr. med. Atla Þórs Ólasonar, dagsettu 19. janúar 1996, varð stefnandi við umferðarslysið fyrir eftirfarandi skaða skv. skaðabótalögum nr. 50/1993:
l. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:
Frá 28.09.1994 til dagsins í dag ... 100%
2. Þjáningabætur skv. 3. grein:
Reiknast fyrir sama tíma og tímabil
óvinnufærni. Slasaða var ekki rúmliggjandi.
3. Varanlegur miski skv. 4. grein: 10% .
4. Varanleg örorka skv. 5. grein: 10%
5. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 10%
Bifreiðin JH-765 var í eigu þáverandi vinnuveitanda stefnanda, Glaðnis hf á Siglufirði, og var hún tryggð ábyrgðar- og ökumannstryggingu hjá stefndu Tryggingamiðstöðinni hf. Stefnda vildi ekki una örorkumati Atla Þórs Ólasonar og leitaði eftir áliti Örorkunefndar á afleiðingum slyssins fyrir stefnanda. Álitsgerð nefndarinnar lá fyrir 16. nóvember 1996 og er þar komist að sömu niðurstöðu og Atli Þór um varanlegan miska stefnanda en varanleg örorka vegna afleiðinga slyssins var metin 8%. Tímabil þjáninga og tímabundins atvinnutjóns var ekki sérstaklega metið af nefndinni.
Með bréfi til Rannsóknarlögreglu ríkisins dags. 23. maí 1996, óskaði stefnda eftir opinberri rannsókn á því, hvort stefnandi hefði haft félagið að "féþúfu með þeim sviksamlega hætti að leggja fram fölsuð gögn sem sönnun á fjártjóni eins og segir m.a. í bréfinu. Tildrög þessarar rannsóknarbeiðni voru þau að stefnda taldi sig hafa fengið upplýsingar um að stefnandi hefði gefið sér rangar upplýsingar um launakjör sín hjá Glaðni hf. og með því fengið greiddar of háar bætur upp í tímabundið atvinnutjón. Stefnda hafði bætt stefnanda launatap í l5 mánuði á þeirri forsendu að hún hefði haft kr. 200.000 í mánaðarlaun hjá Glaðni hf. Hinn 21. janúar 1998 gaf Ríkislögreglustjórinn út ákæru á hendur stefnanda. Í ákæruskjalinu segir m.a. að stefnandi sé ákærð:
"fyrir fjársvik með því að ákærða ... lagði fram í lok október eða byrjun nóvember 1994 hjá Tryggingamiðstöðinni hf. ... ranga launaseðla vegna launa síðustu þriggja mánaða áður en hún lenti í bílslysi sem átti sér stað 28. september 1994 og greiddi Tryggingamiðstöðin hf. ákærðu kr. 1.081.000 umfram það sem henni bar í bætur en félagið hafði reiknað kr. 3.000.000 í bætur vegna launtaps í 15 mánuði í stað kr. 1.200.000, allt á grundvelli hinna
röngu launaseðla..."
Í sakamálinu hafði stefnda uppi skaðabótakröfu að fjárhæð kr. 1.081.000.
Með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra 17. apríl 1998 var stefnandi alfarið sýknuð af kröfum ákæruvaldsins með vísan til þess að ekki hafi af ákæruvaldsins hálfu verið færðar sönnur á að hún hafi framvísað launaseðlunum með auðgun í huga og að ekki hefði annað verið leitt í ljós en hún hafi talið þá rétta og í samræmi við umsamin laun hennar hjá Glaðni hf. og því vel fallna til ákvörðunar bótagreiðslna.
Eftir að grunur vaknaði hjá stefndu um saknæma háttsemi af hálfu stefnanda var hún ekki reiðubúin til bótauppgjörs vegna málsins. Það var ekki fyrr en eftir sýknudóm héraðsdóms og þegar fyrir lá að málinu yrði ekki áfrýjað til Hæstaréttar, að stefnda lýsti sig reiðubúna til bótauppgjörs. Með bréfi, dags. 18. júní 1998, gerði stefnda stefnanda tillögu að bótauppgjöri. Í tillögu stefndu var m.a. gert ráð fyrir að tímabundið atvinnutjón yrði bætt með kr. 80.000 á mánuði í 12 mánuði og að tekjuviðmiðun við útreikning á varanlegri örorku yrði kr. 1.920.000. Á þetta gat stefnandi ekki fallist og eftir nokkrar samningaviðræður varð ljóst að af samkomulagi yrði ekki. Telur stefnandi því málssókn þessi því óumflýjanlega.
Krafa stefnanda sundurliðast þannig:
|
1. Tímabundið tjón (kr. 200.000 x 15 1/2 mán.) |
kr. 3.100.000 |
|
Greitt inná tímabundið tjón |
kr. (2.281.000) |
|
|
kr. 819.000 |
|
2. Þjáningabætur: |
|
|
Batnandi m. fótaferð 478 dagar x 740(700 x 3453/3282)* |
kr. 348.940 |
|
*Lánskjaravísitala: júlí 1993 3282 / febrúar 1996 3453 |
|
|
3. Varanlegur miski 10% af 4.208.500 (4.000.000 x 3453/3282) |
kr. 420.850 |
|
4. Varanleg örorka 2.604.338 x 7,5 x 10% |
kr. 1.953.253 |
|
5. Innborgun 14.10.1998 |
kr. (663.863) |
|
Samtals stefnufjárhæð |
kr. 2.878.180 |
Um 1
Skv. mati Atla Þórs Ólasonar læknis tekur tímabundið atvinnutjón mið af því að stefnandi var frá vinnu frá slysdegi til 19. janúar 1998, eða í 15 1/2 mánuð. Óumdeilt er að hún hafði engar tekjur umrætt tímabil.
Launakjör stefnanda hjá Glaðni hf. voru þau að fyrir hálft starf skyldi hún hafa kr. 100.000 í mánaðarlaun, en fyrir fullt starf kr. 200.000. Um það var samið að hún yrði í fullu stafi eftir að Glaðnir hf. hefði flutt starfsemi sína til Siglufjarðar. Tímabundið atvinnutjón tekur því mið af 200.000 kr. mánaðarlaunum. Þá hefur ekki verið tekið tillit til þess að stefnandi er hámenntaður listamaður og að hún gekk út frá því að með starfi sínu hjá Glaðni hf. myndi hún hafa tekjur af listgrein sinni.
Um 2
Skv. mati Atla Þórs ber að reikna þjáningabætur fyrir sama tíma og tímabil óvinnufærni, eða í 15 1/2 mánuð (478 daga). Það skal áréttað að lækkunarheimildin í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga er undantekningaákvæði sem ber að skýra þröngt og kemur aðeins til greina að beita henni ef veikindatímabil tjónþola hefur verið mjög langt, hann verið veikur jafnvel svo árum skiptir.
Um 3
vísast til örorkumats Atla Þórs, sem staðfest er af Örorkunefnd.
Um 4
Fjártjón vegna varanlegrar örorku er reiknað skv. mati Atla Þórs um 10% varanlega örorku stefnanda vegna slyssins. Mat örorkunefndarinnar, sem er 2% lægra en mat Atla Þórs, er ekki til þess fallið að hnekkja mati Atla Þórs.
Stefnandi var nýlega komin út á vinnumarkað þegar slysið átti sér stað. Því er ekki hægt að miða við heildarvinnutekjur hennar á næstliðnu ári fyrir slysið. Skv. 2. mgr. 7. gr. ber að meta árslaun hennar sérstaklega með tilliti til hinna óvenjulegu aðstæðna. Árstekjur eru miðaðar við 2.400.000, sbr. umfjöllun um tl. l. Við bætast 6% vegna framlags í lífeyrissjóð. Lækkun vegna aldurs skv. 9. gr. er 5%. Með tilliti til verðlagsbreytinga skv. 15. gr. skaðabótalaga er launaviðmiðunin kr. 2.416.800 x 3453/3373* = 2.604.338.
* Lánskjaravísitala: september 1994 3373 / febrúar 1996 3453
Lagarök Um ábyrgð stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. fer skv 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Um fjárhæðir er byggt á skaðabótalögum nr. 50/1993, 3. gr. um þjáningabætur, 4. gr. um varanlega miska og 5. gr., sbr. 6. og 7. gr. um varanlega örorku.
Krafan um vexti byggir á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að aðalágreiningurinn aðila lúti að því hvaða viðmiðunartekjur skuli leggja til grundvallar við ákvörðun á tjóni stefnanda.
Stefnda heldur því fram að miðað við fyrirliggjandi gögn og þá rannsókn er gerð var af hálfu KPMG Endurskoðunar hf. sé augljóst að laun stefnanda mánuðina fyrir slysið hafi verið kr. 80.000,- á mánuði fyrir hálft starf, en ekki kr. 100.000,- eins og haldið sé fram af stefnanda.
Því er haldið fram að launaseðlar þeir er stefnandi framvísaði hjá stefndu Tryggingamiðstöðinni hf. sem bera með sér kr. 200.000 mánaðarlaun séu rangir og ekki í samræmi við laun hennar hjá fyrirtækinu.
Rannsókn KPMG Endurskoðunar sem frammi liggur í málinu, sýni þetta svo ekki verður um villst. Þá hafi stefnandi sjálf viðurkennt við yfirheyrslur í Héraðsdómi Norðurlands vestra að laun hennar fyrir hálft starf hafi verið kr. 80.000,- en öllu tali hennar um að hér hafi verið átt við útborguð laun hljóti að verða að vísa á bug þar sem sú fullyrðing eigi ekki stoð í gögnum málsins.
Það sama sé upp á teningnum varðandi þá fullyrðingu stefnanda að frá flutningi Glaðnis hf. til Siglufjarðar í apríl 1994 hafi hún verið komin í fullt starf. Þetta geti alls ekki talist sannað og nægi þar að vísa til framburðar Atla Ómarssonar sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra Glaðnis hf. frá síðara hluta sumars 1994 til byrjunar nóvember það ár. Hann segir í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi Norðurlands Vestra, að stefnandi hafi verið í hálfu starfi og jafnframt að laun hennar hafi verið kr. 60.000,- til 80.000,- á mánuði.
Greiðslur til stefnanda á þessu tímabili styðji þetta einnig eins og sjá megi af ofangreindri rannsókn KPMG endurskoðunar hf.
Launaseðlarnir sem stefnandi hafi framvísað hjá stefndu í nóvembermánuði 1994 og gerðir voru eftirá að frumkvæði þáverandi framkvæmdastjóra Glaðnis hf., Arnþóri Þórssyni, sambýlismanni stefnanda séu í engu samræmi við bókhald fyrirtækisins frá þessum tíma og geti því tæpast talist trúverðugir, né traustur grunnur við útreikning á atvinnutjóni stefnanda.
Við athugun á skattframtali stefnanda 1995 vegna tekna 1994, komi fram að framtaldar tekjur frá Glaðni hf. eru kr. 600.000,- en ættu að vera u.þ.b. 2.000.000,- ef frásögn hennar um launakjör sín hjá fyrirtækinu ætti við rök að styðjast.
Athygli veki að þeir sem styðja fullyrðingar stefnanda um launakjör hennar hjá Glaðni hf. séu sambýlismaður hennar Arnþór Þórsson og þeir feðgar Eiríkur Ragnarsson og Ragnar Eiríksson sem komið munu hafa að upphaflegri ráðningu stefnanda til fyrirtækisins. Ljóst sé að þeir feðgar séu samstarfsmenn og félagar nefnds Arnþórs til nokkra ára og hljóti framburður þeirra að skoðast í því ljósi og er honum mótmælt sem röngum og er hér bæði átt við skriflegar yfirlýsingar þeirra á sem fram hafa verið lagðar í málinu auk þess sem fram komi hjá þeim í skýrslu fyrir dómi.
Hins vegar sé það svo að enginn þeirra sem skýrslur gáfu í umræddu sakamáli á hendur stefnanda og talist geti algerlega hlutlausir og án tengsla við stefnanda kannist við hin umdeildu launakjör hennar. Sé hér átt við stjórnarmanninn Björn Valdimarsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins þegar stefnandi lenti í slysinu, Atla Ómarsson, Kristján E. Jónasson, löggiltan endurskoðanda Glaðnis hf. og Pálínu Pálsdóttur sem reiknaði út laun fyrir Glaðni hf. og færði bókhaldið á þeim tíma sem hér um ræði.
M.a. með vísan til þessa telur stefnda ljóst að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi verið verulega ofbætt. Stefnandi hafði kr. 80.000,- á mánuði fyrir hálft starf þegar hún lenti í slysinu. Ósannað sé að einhver breyting hafi verið fyrirhuguð um þau launakjör. Af því leiði að tímabundna tjónið hafi verið 80.000,- x 12 mánuðir eða kr. 960.000,-. Greitt hafi verið kr. 2.280.000,- og umframbætur því kr. 1.320.000,-.
Þar sem niðurstöður matsgerða þeirra er liggja frammi í málinu séu misvísandi er einnig ágreiningur varðandi það atriði. Atli Þór Ólason telji að tímabundnu tjóni og þjáningabótum eigi að ljúka þann 19. janúar 1996 en hins vegar segir álitsgerð Örorkunefndar að sá tímapunktur skuli vera 1. október 1995.
Þá telur Örorkunefnd að varanleg örorka stefnanda skv. 5. gr. skaðabótalaga sé 8% en ekki 10% eins og Atli Þór mat hans.
Því er haldið fram af hálfu stefndu að ekki séu efni til að miða við annað en niðurstöðu Örorkunefndar að þessu leyti. Hafa beri í huga að í Örorkunefnd sitji þrír menn, tveir læknar og einn lögfræðingur, auk þess sem Örorkunefnd hafi unnið sína álitsgerð síðar en Atli Þór og fyllri læknisfræðileg gögn legið til grundvallar niðurstöðu Örorkunefndar en niðurstöðu Atla Þórs.
Þá verði óhlutdrægni Örorkunefndar ekki dregin í efa í málinu.
Með vísan til bréfs stefndu dagsetts 18. júní 1998, sem hafi að geyma útreikning stefndu á tjóni stefnanda vegna slyssins, komi fram að heildartjónið nemi kr. 2.893.741,- og þar sem sú fjárhæð hafi þegar verið greidd beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Að lokum er lögð á það sérstök áhersla af hálfu stefndu að sönnunarkröfur eru mun ríkari í refsimáli en í almennu einkamáli og þess vegna er því hafnað að sýknudómurinn sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Norðurlands vestra þann 17. apríl 1998 hafi hér nokkuð fordæmisgildi.
NIÐURSTAÐA
Samkvæmt skattframtali stefnanda gjaldárið 1995 voru tekjur hennar hjá fyrirtækinu Glaðni hf 600.000 krónur. Samkvæmt bókhaldsgögnum frá fyrirtæki þessu hafði stefnandi 80.000 krónur í laun fyrir mánuðina júní, júlí og ágúst 1994. Stefnandi ber fyrir sig að hún hafi gert um það samkomulag við Atla Ómarsson og Bjarna Valdimarsson að hún skyldi hafa 200.000 krónur í mánaðarlaun. Þeir hafa báðir borið á móti þessu. Þykir stefnandi hvorki hafa sýnt fram á að laun hennar hafi átt að vera hærri en þær 80.000 krónur sem hún fékk í laun samkvæmt bókum félagsins og skilagrein til innheimtumanns ríkissjóðs né heldur að hún hafi verið í fullu starfi hjá fyrirtækinu eftir að fyrirtækið var flutt til Siglufjarðar og er fallist á það með stefnda að við þau laun skuli miða við uppgjör á bótum til hennar svo sem haldið hefur verið fram af hálfu stefnda.
Þá liggur frammi álitsgerð Örorkunefndar frá 16. nóvember 1996. Samkvæmt henni er varanlegur miski stefnanda metinn 10% en varanleg örorka er metin 8% vegna afleiðinga umferðarslyssins 28. september 1994. Ekki þykja þeir annmarkar á matsgerð þessari að efni séu til að hnekkja henni og verður niðurstaða hennar um varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda lögð til grundvallar hér.
Þá segir í niðurstöðukafla álitsgerðar nefndarinnar, að eftir 1. október 1995 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins. Þykir sýnt fram á það í málinu að bætur til stefnanda skuli ákveða fyrir 12 mánuði eins og gert hefur verið af hálfu stefnda sbr. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefndi hefur gert upp við stefnanda á ofangreindum forsendum og með því að niðurstaða dómsins er að varanleg örorka stefnanda sé 8%, varanlegur miski 10%, tímabil það sem bæta skal tímabundið atvinnutjón 12 mánuðir og að mánaðarlaun stefnanda hafi verið 80.000 krónur á mánuði og ósannað að samkomulag hafi verið um að þau skyldu hækka við flutning fyrirtækisins Glaðnis hf til Siglufjarðar, verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal sýkna af öllum kröfum stefnanda, Brynju Baldursdóttur.
Málskostnaður fellur niður.