Hæstiréttur íslands
Mál nr. 178/2012
Lykilorð
- Nauðungarvistun
- Frelsissvipting
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2012. |
|
Nr. 178/2012.
|
A (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Nauðungarvistun. Frelsissvipting. Miskabætur.
A krafði Í um miskabætur vegna þess að hún hefði verið vistuð á geðdeild Landspítala gegn vilja sínum eftir að nauðungarvistun hennar á deildinni lauk. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að hvorki hefði verið gætt að þeirri skyldu að skrá í sjúkraskrá A hvenær nauðungarvistun hennar lauk né að afla skriflegs samþykkis hennar fyrir áframhaldandi meðferð í samræmi við meginreglu 3. mgr. 7. gr. laga um réttindi sjúklinga. Hins vegar féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að Í hefði nægilega sannað með framburði vitna og skriflegum gögnum sem lögð voru fram í málinu, að áframhaldandi vistun A á geðdeildinni hefði verið með samþykki hennar. Var Í því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2012. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 15. febrúar 2009 til 2. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstaréttin látinn niður falla.
Áfrýjandi krefst í málinu miskabóta vegna þess að hún hafi verið vistuð á geðdeild Landspítala gegn vilja sínum eftir að nauðungarvistun hennar, sem samþykkt var af dóms- og kirkjumálaráðuneyti 25. janúar 2009, lauk 15. febrúar sama ár. Miðar hún kröfu sína við að hún hafi án heimildar verið vistuð á geðdeildinni gegn vilja sínum frá síðastnefndum degi til 11. mars 2009. Vistunin hafi verið skerðing á þeim réttindum hennar til frelsis, sem varin séu af 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Samkvæmt læknisvottorði 12. maí 2009 voru ástæður nauðungarvistunar áfrýjanda á geðdeild Landspítala ,,töluverð geðrofseinkenni“ hennar. Í vottorðinu er meðal annars gerð grein fyrir ýmiss konar vanlíðan áfrýjanda, sem tengdist íbúð í fjöleignarhúsi sem hún bjó í á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík. Í gögnum málsins kemur einnig fram að hún hafi verið nokkrum íbúum fjöleignarhússins til mikils ama.
Að lokinni nauðungarvistun áfrýjanda var ekki heimilt að vista hana lengur á geðdeild Landspítala, nema með samþykki hennar. Hún andmælir því að slíkt samþykki hafi verið veitt eða starfsfólk deildarinnar hafi af öðrum ástæðum mátt gera ráð fyrir því að hún samþykkti að dvelja þar lengur til læknismeðferðar, enda taldi hún sig ekki þurfa á slíkri meðferð að halda. Hefur stefndi sönnunarbyrði fyrir því að áfrýjandi hafi veitt samþykki sitt til áframhaldandi meðferðar og dvalar á deildinni. Áfrýjandi telur að gildandi reglur standi til þess að slík sönnun eigi sér stað með formlegum hætti, enda hafi engin ástæða verið til annars en að fylgja fyrirmælum laga þar að lútandi. Stefndi telur að almennar reglur gildi um slíka sönnun.
Í 2. gr. reglugerðar nr. 227/1991, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 545/1995, er mælt fyrir um að geta skuli í sjúkraskrá þess sem dvelst á sjúkrastofnun gegn vilja sínum hvenær nauðungarvistun lýkur, annað hvort með útskrift sjúklings eða með samþykki hans fyrir áframhaldandi meðferð. Fallist er á með áfrýjanda að þessarar skyldu hafi ekki verið gætt af hálfu geðdeildar Landspítala er nauðungarvistun áfrýjanda lauk 15. febrúar 2009. Þá var þess heldur ekki gætt að afla skriflegs samþykkis áfrýjanda fyrir áframhaldandi meðferð, sbr. meginreglu 3. mgr. 7. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Við mat á því hvort sannað sé að stefnda hafi veitt samþykki sitt gilda ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður fallist á með héraðsdómi að stefndi hafi nægilega sannað með framburði vitna og skriflegum gögnum sem lögð hafa verið fram, að áframhaldandi vistun áfrýjanda á geðdeildinni hafi verið með samþykki hennar. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2012.
Mál þetta höfðaði A, kt. [...], [...], [...], með stefnu birtri 23. júní 2011, á hendur velferðarráðherra f.h. íslenska ríkisins. Málið var dómtekið 16. desember sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 15. febrúar 2009 til 2. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar, til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefnandi krefst bóta vegna þess að henni hafi verið haldið nauðugri á geðdeild eftir að nauðungarvistun er hún sætti þar, var útrunnin.
Borgarlæknir flutti stefnanda á geðdeild Landspítala 23. janúar 2009. Var hún í fyrstu vistuð samkvæmt heimild í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997. Með ákvörðun dómsmálaráðherra, 25. janúar 2009, var stefnandi vistuð nauðug á sjúkrahúsinu í 21 dag. Í bréfi ráðherra var vísað til 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna.
Stefnandi skaut ákvörðun ráðherra til héraðsdóms, sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði 30. janúar 2009. Var úrskurðinum skotið til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi 19. febrúar 2009.
Ágreiningsefni málsins er fyrst og fremst það hvers vegna stefnandi var ekki útskrifuð af sjúkrahúsinu 15. febrúar 2009, þegar hin tímabundna nauðungarvistun var útrunnin. Aðilar hafa mismunandi álit á þessari spurningu, eins og síðar verður rakið.
Stefnandi sagði í aðilaskýrslu sinni að sér hefði aldrei verið sagt að nauðungarvistunartíminn væri liðinn. Hún hefði ekki verið beðin um samþykki fyrir því að vera áfram á deildinni. Hún hefði getað flutt inn í íbúðina sína, þó að ýmislegt hefði þurft að gera við íbúðina. Ekki hefði verið búið að gera neitt við íbúðina þegar hún útskrifaðist af sjúkrahúsinu. Hún kvaðst alltaf hafa viljað fara, sér hefði ekki liðið vel.
Af gögnum málsins má fyrst líta til læknabréfs er Ómar Hjaltason geðlæknir ritaði heimilislækni stefnanda, dags. 12. maí 2009. Þar er ekki fjallað skýrlega um þetta álitaefni. Þó segir: Greinilegar ranghugmyndir koma fram hjá A en þær tengjast mikið íbúðinni og einangrast nokkuð við íbúðina varðandi það sem maður fær fram subjectivt. Eftir að A kemur hér inn á deildina þá er hún róleg og samvinnuþýð má segja. Hún er ósátt við það að hafa verið nauðungarvistuð en átti hins vegar nokkuð góð samskipti við starfsfólk og samsjúklinga. Bar dálítið á vægum paranoid einkennum hér inni í byrjun og tortryggni en það minnkaði mikið. Áður en 21 dags vistun lauk á var A raunar farin að sinna erindum sínum ein úti í bæ og eftir að nauðungarvistun lýkur þá er hún áfram hér á deildinni í töluverðan tíma samanber hér að ofan. Er þá í samvinnu við starfsfólk deildarinnar að skoða sín mál og þá sérstaklega þessi íbúðarmál.
Ómar Hjaltason gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði að stefnanda hafi verið veitt leyfi til að fara í ferðir út af deildinni áður en nauðungarvistuninni lauk. Íbúð hennar hafi verið talsvert skemmd og hafi hún viljað vera áfram á deildinni á meðan unnið væri að íbúðamálum hennar. Hann hafi rætt þetta beint við stefnanda. Hann sagði að stefnandi hefði verið mjög meðvituð um hvenær nauðungarvistun lyki.
Í skráningu hjúkrunar er skráð þann 15. febrúar, daginn sem nauðungarvistun stefnanda átti að ljúka: Fór í hádegismat til vinkonu. Mjög paranoid, mjög vör um sig og talar um einelti bæði sjúklinga og starfsfólks. Segir að það sé fylgst með sér og mikil spenna sé á deildinni. Talar um doða í tánum. Mikill talþrýstingur og er krefjandi.
Í dagnótu félagsráðgjafa, dags. 19. febrúar, segir að fundur hafi verið haldinn heima hjá stefnanda. Þar hafi verið starfsmaður félagsþjónustunnar, tveir starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins og félagsráðgjafi frá [...]. Segir að farið hafi verið í gegnum íbúðina með stefnanda og hún metin. Starfsmaður félagsbústaða hafi sagt að lagfæra þyrfti alla íbúðina og rífa allt út.
Í dagnótu 2. mars er sagt frá könnun á möguleikum félagsþjónustunnar, en engin sérstök úrræði virðast hafa verið tiltæk.
Í dagnótu 6. mars segir orðrétt: „Undirrituð hefur verið að hitta A til að ræða húsnæðismálin. A hefur ekki viljað útskrifast af deildinni þar sem hún er ekki búin að fá milliflutning. Undirrituð ræddi það við hana að hún gæti ekki verið á deildinni þangað til það gengi í gegn og var hún sammála því. A sættist á að ef það verða gerðar lágmarksviðgerðir á íbúðinni hennar þá gæti hún útskrifast í hana þangað til hún fær milliflutning.“
Lögmaður ritaði fyrir hönd stefnanda bréf til Landspítalans, dags. 6. október 2010. Þar krefur hann um skýringar á því hvers vegna stefnandi hafi verið vistuð lengur en til 15. febrúar 2009. Jafnframt áskildi stefnandi sér rétt til að krefja um skaðabætur.
Þessu erindi var vísað til ríkislögmanns og var honum síðar send greinargerð yfirlæknis geðdeildar. Svaraði ríkislögmaður bréfi lögmanns stefnanda þann 15. nóvember 2010 og hafnaði fullyrðingum um að stefnandi hefði verið vistuð nauðug á sjúkrahúsinu lengur en úrskurður ráðuneytisins mælti fyrir um.
Í greinargerð Tómasar Zoëga segir að fullyrðingar um að stefnanda hafi verið haldið nauðugri á geðdeildinni séu rangar. Orðrétt segir: „ Um miðjan febrúarmánuð 2009 leið A mun betur en í byrjun innlagnar. Hún var glaðleg og samvinnuþýð. Engin tilraun var gerð til að hefta för hennar og hún hafði frjáls leyfi. Með félagsráðgjafa deildarinnar var hún að vinna í húsnæðismálum sínum.“ Í lok bréfsins segir: „Áður en 21 sólarhringur var liðinn var hún sjálfviljug á deildinni og hélt áfram að vinna í málum sínum eins og áður er skýrt.“
Þetta bréf yfirlæknisins fylgdi bréfi aðstoðarlækningaforstjóra spítalans til ríkislögmanns, dags. 26. október 2010. Í bréfinu segir enn fremur: „ kemur fram að henni var boðin vistun í annarri íbúð en sinni eigin, auk þess sem henni var boðið að dvelja á gistiheimili, meðan verið væri að standsetja þá íbúð, sem hún hafði til umráða, en hún hafnaði því. Hún fór allra sinna ferða inn og út af deildinni að eigin þörfum eftir að nauðungarvistun lauk og aldrei voru gerðar tilraunir til að hefta för hennar. Nótur í sjúkraskrá staðfesta þetta “
Jónína Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur sagði að í fyrstu hefði stefnandi verið ósátt við að vera á deildinni. Þegar vistuninni var lokið hefði hún ekki viljað þiggja þá kosti sem henni buðust. Hún hafi hins vegar þegið boð um að vera áfram á deildinni. Hún hefði verið alveg meðvituð um það hvenær nauðungarvistuninni lyki. Hún hafi farið oft út af deildinni til að sinna ýmsum erindum.
Guðrún Kolbrún Otterstedt félagsráðgjafi sagði að stefnandi hefði rætt við sig um íbúðamál sín. Hún hefði farið með henni í íbúð hennar. Mjög heitt hafi verið í íbúðinni og kranar á ofnum ónýtir. Stefnandi hefði beðið hana að aðstoða sig, hún þyrfti að fá aðra íbúð. Stefnandi hafi, þegar nauðungarvistuninni lauk, sagt að hún treysti sér ekki til að útskrifast og fara í íbúðina. Hún hafi viljað fara á gistiheimili, en [...] hafi ekki viljað greiða kostnað af því. Því hafi hún viljað vera áfram á deildinni. Að lokum hafi verið gerðar lágmarks endurbætur á íbúðinni. Hafi hún flutt þangað áður en þeim endurbótum var lokið.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að nauðungarvistun sinni hafi átt að ljúka 15. febrúar 2009. Þann dag hafi borið að útskrifa hana af sjúkrahúsinu. Hún hafi hins vegar ekki verið útskrifuð fyrr en 11. mars 2009. Henni hafi því verið haldið nauðugri á ólögmætan hátt.
Stefnandi mótmælir þeim skýringum stefnda að hún hafi samþykkt að vera áfram á sjúkrahúsi. Vísar hún til þess að í dagbók komi skýrt fram að henni hafi liðið illa og verið ósátt við veru sína þar frá upphafi. Tekur hún nokkur dæmi af dagbókarskráningum í stefnu.
Þá segir stefnandi að hafa beri í huga að sú skylda hafi hvílt á sjúkrahúsinu að útskrifa sig þegar er heimild til nauðungarvistunar féll niður. Jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hafi dvalið sjálfviljug á sjúkrahúsinu, þá leiði það ekki til þess að stjórnvald losni undan ófrávíkjanlegri skyldu sinni eða til þess að minni kröfur verði gerðar til lögmætis athafna stjórnvalda. Stefnandi hafi dvalið á sjúkrahúsinu vegna andlegrar vanheilsu.
Stefnandi segir að sér hafi verið haldið nauðugri á sjúkrahúsinu í 25 daga, frá 15. febrúar til 11. mars 2009. Hún byggir bótakröfu á 32. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hún byggir á því að brotið sé alvarlegt gagnvart sér, sem hafi verið vistuð á sjúkrahúsi vegna andlegrar vanheilsu. Hún krefst miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur og segir að það sé hófleg krafa.
Auk framangreindra lagareglna vísar stefnandi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir því að stefnanda hafi verið haldið nauðugri og á ólögmætan hátt á sjúkrahúsinu frá 15. febrúar 2009 uns hún var útskrifuð. Hún hafi dvalið þar af fúsum og frjálsum vilja. Hún hafi haft leyfi til fjarvista í samráði við starfsfólk. Því geti hún ekki krafist bóta, þar sem engri saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna stefnda hafi verið til að dreifa.
Stefndi bendir á að stefnandi hafi vitað um rétt sinn. Hún hafi skotið ákvörðun um nauðungarvistun til dómstóla og vitað nákvæmlega hvenær nauðungarvistun hennar lyki.
Verði ekki á sýknukröfu fallist krefst stefndi þess að bætur verði dæmdar að mun lægri en stefnandi krefst. Krafan sé fjarri lagi í ljósi málavaxta.
Um sönnun fyrir staðhæfingu um að stefnandi hafi dvalið á sjúkrahúsinu af fúsum og frjálsum vilja vísar stefndi til bókana í nótum hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa. Íbúð stefnanda hafi verið óhæf til íbúðar og hún hafi ekki viljað fara þangað. Aðrir kostir hafi ekki verið tækir.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila snýst eingöngu um vistun stefnanda á geðdeild Landspítalans á tímabilinu frá 15. febrúar til 11. mars 2009. Hinn 15. febrúar var útrunninn sá tími sem markaður hafði verið nauðungarvistun stefnanda á deildinni.
Stefnandi var sjálfráða og réð því dvalarstað sínum. Eftir 15. febrúar var henni ekki skylt að dvelja á geðdeild Landspítalans eins og óumdeilt er að hún gerði.
Stefnandi kveðst ekki hafa samþykkt að dvelja áfram á geðdeildinni eftir 15. febrúar. Starfmenn sjúkrahússins bera á hinn bóginn að hún hafi dvalið áfram á deildinni að eigin ósk. Bókun í sjúkraskrá ber ekki skýrlega með sér vilja stefnanda til að dvelja áfram. Fram kemur að hún var í nokkru ójafnvægi daginn sem nauðungarvistuninni lauk, en jafnframt að hún hafi farið ein út af deildinni. Einnig kemur fram að hún hefði áður fengið slík leyfi. Þá benda bókanir í dagnótum félagsráðgjafa til þess að stefnandi hafi viljað dvelja á geðdeildinni á meðan unnið væri að úrbótum á íbúð hennar eða henni fundin önnur íbúð. Er með þessu komin fram næg sönnun þeirrar fullyrðingar stefnda að stefnandi hafi sjálf viljað dvelja áfram á deildinni.
Ekki er í lögum áskilnaður um form samþykkis aðila til vistunar á sjúkrahúsi. Er það ekki í valdi dómstóla að kveða á um að slíkt samþykki skuli vera í ákveðnu formi. Þess vegna verður ekki fallist á með stefnanda að fortakslaus skylda hafi hvílt á sjúkrahúsinu að útskrifa hana 15 febrúar. Hins vegar er ljóst að hefði stefnandi viljað fara út af sjúkrahúsinu hefði verið óheimilt að halda henni þar nauðugri.
Samkvæmt framansögðu er ósannað að stefnanda hafi verið haldið nauðugri á geðdeild Landspítalans og er því ekki grundvöllur til að dæma henni bætur samkvæmt reglum lögræðislaga eða skaðabótalaga. Verður stefndi sýknaður af kröfum hennar. Rétt er að málskostnaður falli niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.