Hæstiréttur íslands

Mál nr. 48/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Sparisjóður
  • Stofnfé


Þriðjudaginn 22

 

Þriðjudaginn 22. febrúar 2005.

Nr. 48/2005.

Sparisjóður Skagafjarðar

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Agnari Halldóri Gunnarssyni,

Bjarna Jónssyni

Gunnari Rögnvaldssyni

Herði Jónssyni

Jóni Sigurðssyni

Pálma Sigurði Sighvats

Sigmari Jóhannssyni

Sigurði Guðmundssyni

Sigurði Þorsteinssyni og

Valgeiri Bjarnasyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Lögbann.Sparisjóður. Stofnfé.

Samstæða Kaupfélags Skagfirðinga seldi tæplega 40% af stofnfé í S til stjórnenda og starfsmanna í samstæðu kaupfélagsins, eða maka þeirra og einstaklinga tengdum þeim fjölskylduböndum. Var salan til þess fallin að virkja atkvæðisrétt fyrir stofnfjárhluti sem áður höfðu verið skilgreindir sem virkir eignarhlutir kaupfélagssamstæðunnar. Á fundi stofnfjáreigenda í S daginn eftir umrædda sölu stofnfjár var samþykkt stofnfjáraukning í krafti hins aukna atkvæðavægis samsteypunnar. Þóttu varnaraðilar hafa gert það nægilega sennilegt að vafi ríkti um að framsal stofnfjár og eftirfarandi fundur stofnfjáreigenda hafi verið í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að gera sýslumanni að leggja lögbann við stofnfjáraukningunni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. janúar 2005 þar sem sýslumanninum á Sauðárkróki var gert að leggja lögbann við því að stofnfé sóknaraðila verði aukið líkt og ákveðið var á fundi stofnfjáreigenda 24. nóvember 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um lögbann verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Helstu málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram var stofnfé sóknaraðila aukið verulega á árunum 2000 og 2001. Eftir það varð samanlagður eignarhlutur samstæðu Kaupfélags Skagfirðinga tæplega 40% af stofnfé, en þeim hlutum fylgdi 5% atkvæðisréttur í samræmi við samþykktir sóknaraðila og ákvæði 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er kveða á um að einstökum stofnfjáreigendum sé aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggjast á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðs. Samkvæmt gögnum málsins hafa málefni sóknaraðila verið til athugunar hjá Fjármálaeftirlitinu frá árinu 2003. Hinn 28. febrúar 2003 beindi Kaupfélag Skagfirðinga, fyrir hönd dótturfyrirtækja sem mynda samstæðu kaupfélagsins, umsókn til Fjármálaeftirlitsins um heimild fyrir dótturfyrirtækin til að eignast svonefndan virkan eignarhluta í sóknaraðila, en fram kemur í umsókninni að það hafi farist fyrir er aukning á stofnfé átti sér stað á árunum 2000 og 2001. Var um að ræða umsókn samkvæmt VI. kafla laga nr. 161/2002 vegna fjögurra dótturfyrirtækja kaupfélagsins, Fiskiðju Sauðárkróks ehf., Fiskiðjunnar Skagfirðings hf., Vörumiðlunar ehf. og Elements hf. Með svari Fjármálaeftirlitsins 24. mars 2003 var veitt samþykki fyrir að bein og óbein hlutdeild kaupfélagsins og dótturfyrirtækja færi yfir 33% af stofnfé sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002. Jafnframt var minnt á að samkvæmt VI. kafla laganna hvíli á kaupfélaginu viðvarandi upplýsingaskylda taki beinn eða óbeinn eignarhlutur þess í sóknaraðila breytingum. Í fylgiskjali með umsókninni var þess getið að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn fyrirtækja innan samstæðunnar ættu einnig stofnfé í sóknaraðila, en umsókn kaupfélagsins um virkan eignarhlut tók ekki til þeirra. Þar sem Fjármálaeftirlitið taldi ástæðu til þess að ætla að telja ætti eignarhluta nokkurra stjórnenda og starfsmanna þessara félaga með hinum virka eignarhlut kaupfélagssamstæðunnar hélt það áfram athugun sinni á hvort stofnast hefði til virks eignarhlutar í sóknaraðila umfram virkan eignarhlut samstæðunnar, sem fengið hafði samþykki eftirlitsins fyrr á árinu. Niðurstaða þeirrar athugunar birtist í bréfi 10. september 2003 og var hún á þá lund að vegna eindreginna yfirlýsinga þeirra sem í hlut áttu um hið gagnstæða hefði Fjármálaeftirlitið ekki á þeim tíma forsendur til að slá því föstu að hinn virki eignarhlutur væri stærri en sá sem samþykktur hefði verið. Fjármálaeftirlitið gerði hins vegar þann fyrirvara að það kynni að taka niðurstöðuna til endurskoðunar að fenginni frekari reynslu af eignarhaldinu. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf Fjármálaeftirlitsins 1. febrúar 2005 til sóknaraðila þar sem fram kemur sú niðurstaða athugunar á sóknaraðila að mistekist hafi að koma starfsemi hans í viðunandi horf og að ástæða sé til að ætla að meðferð eignarhluta í sóknaraðila, meðal annars við ákvarðanir á fundi stofnfjáreigenda 24. nóvember 2004, hafi ekki verið í samræmi við IV. kafla og 70. gr. laga nr. 161/2002.

Í hinum kærða úrskurði er vikið að deilum milli stofnfjáreigenda um framtíðarskipan mála hjá sóknaraðila. Þá er rakið hvernig sóknaraðili telur að þau deilumál hafi verið til lykta ráðin á fundi stjórnar sóknaraðila 11. nóvember 2004 og fundi stofnfjáreigenda 24. sama mánaðar, en ágreiningur málsaðila stendur um lögmæti þeirra ákvarðana, er þá voru teknar en þeim hefur ekki enn verið hrundið í framkvæmd. Er fallist á með héraðsdómara að sú staðreynd að ákvörðun hafi þegar verið tekin um aukningu stofnfjár í sóknaraðila standi ekki í vegi fyrir því að varnaraðilar fái lagt lögbann við framkvæmd þeirrar stofnfjáraukningar, sem telst byrjuð eða yfirvofandi í skilningi 24. gr. laga nr. 31/1990.

Af gögnum málsins má ráða að ágreiningur sé um hversu mikil áhrif Kaupfélag Skagfirðinga skuli hafa í sóknaraðila. Er ljóst að sala stofnfjár, sem samþykkt var á stjórnarfundi sóknaraðila 23. nóvember 2004, var til þess fallin að virkja atkvæðisrétt fyrir stofnfjárhluti sem áður höfðu verið skilgreindir sem virkir eignarhlutir samstæðu Kaupfélags Skagfirðinga og sættu þar með, eins og áður segir, takmörkunum samkvæmt 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002. Voru stofnfjárhlutirnir að mestu leyti framseldir til stjórnenda og starfsmanna í samstæðu kaupfélagsins, eða maka þeirra og einstaklinga tengdum þeim fjölskylduböndum. Er einnig fram komið að hluti stofnfjárins var framseldur Sparisjóði Ólafsfjarðar, en sparisjóðsstjóri hans er jafnframt stjórnarformaður sóknaraðila. Hæfi hans og annars stjórnarmanns sóknaraðila til framsalsgerninganna er vefengt í málinu. Af gögnum málsins liggur fyrir að umræddir kaupsamningar um stofnfjárhluti í sóknaraðila við starfmenn Kaupfélags Skagfirðinga og einstaklinga þeim tengdum voru allir utan einn gerðir á sama degi. Eru þeir allir eins orðaðir, nema hvað varðar fjölda stofnfjárhluta og er kaupverð hluta á sama gengi, eða genginu einum. Sá munur sem felst í kaupsamningunum varðandi fjölda seldra stofnfjárhluta virðist oftast leiða til þess að viðkomandi stofnfjáreigendur fari þá hver um sig með 5% af heildaratkvæðamagni í sóknaraðila. Í flestum tilvikum er um að ræða verulega aukningu á stofnfé til viðkomandi, auk þess sem nokkrir kaupenda höfðu ekki átt stofnfé áður. Afleiðing þessa verður sú að unnt verður að nýta nær allan atkvæðisrétt, sem án takmarkana í lögum fylgdi stofnfjárbréfum dótturfélaga Kaupfélags Skagfirðinga. Atkvæðisréttur eigenda þessa stofnfjár yrði þá tæplega 40% í stað 5% áður. Fram er komið í málinu að niðurstaða fundar stofnfjáreigenda 24. nóvember 2004 um breytingar á samþykktum sóknaraðila hefði orðið á annan veg ef ekki hefðu komið til framangreind framsöl með tilheyrandi breytingum á atkvæðavægi.

Að öllu framangreindu virtu hafa varnaraðilar gert það nægilega sennilegt að vafi ríki um að framsal stofnfjár og fundur stofnfjáreigenda 24. nóvember 2004 hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 161/2002 og samþykktir sóknaraðila, þannig að raskað hafi verið lögvörðum rétti varnaraðila sem stofnfjáreigenda í sóknaraðila, sem kunni að verða fyrir spjöllum verði þeir knúnir til að bíða dóms um réttindi sín. Að þessu gættu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar, er fallist á að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt til þess að lögbannskrafa varnaraðila nái fram að ganga, enda hafi sóknaraðili ekki sýnt nægilega fram á að ákvæði 3. mgr. sömu greinar eigi við í máli þessu. Því verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, Sparisjóður Skagafjarðar, greiði varnaraðilum, Agnari Halldóri Gunnarssyni, Bjarna Jónssyni, Gunnari Rögnvaldssyni, Herði Jónssyni, Jóni Sigurðssyni, Pálma Sigurði Sighvats, Sigmari Jóhannssyni, Sigurði Guðmundssyni, Sigurði Þorsteinssyni og Valgeiri Bjarnasyni, hverjum um sig samtals 40.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. janúar 2005.

I

   Mál þetta barst dóminum 20. desember sl. og var tekið til úrskurðar 11. þessa mánaðar.

Sóknaraðilar eru Agnar Halldór Gunnarsson, Miklabæ Akrahreppi, Skagafirði, Pálmi Sigurður Sighvats, Drekahlíð 7, Sauðárkróki, Bjarni Jónsson, Nátthaga 10, Gunnar Rögnvaldsson, Löngumýri Hörður Jónsson, Hofi 2, Jón Sigurðsson Sleitustöðum 2, Sigmar Jóhannsson, Lindabæ, Sigurður Guðmundsson, Víðinesi 2, Sigurður Þorsteinsson, Melum, Valgeir Bjarnason, Nátthaga 7, allir til heimilis í Sveitarfélaginu Skagafirði.

             Varnaraðili er Sparisjóður Skagafjarðar, Faxatorgi, Sauðárkróki.

             Sóknaraðilar krefjast þess að felld verði úr gildi synjun sýslumannsins á Sauðárkróki frá 16. desember sl., um að leggja lögbann við því að ákvörðunum sem teknar voru á fundi stofnfjáreigenda Sparisjóðs Hólahrepps þann 24. nóvember 2004 verði hrint í framkvæmd. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir sýslumanninn á Sauðárkróki að leggja lögbann við því að stofnfjáraukning sem ákveðin var á fundi stofnfjáreigenda varnaraðila þann 24. nóvember 2004 verði framkvæmd. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

             Varnaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á Sauðárkróki um að hafna kröfum sóknaraðila um lögbann verði staðfest. Þá krefst varnaraðili þess, ef fallist verður á kröfur sóknaraðila, að kæra til Hæstaréttar Íslands fresti framkvæmd þeirra sbr. 3. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990. Loks krefst varnaraðili þess að sóknaraðilum verði óskipt gert að greiða honum málskostnað.

II.

Málavextir

             Með aðkomu dótturfélaga Kaupfélags Skagfirðinga (KS) að varnaraðila á árunum 2000 og 2001 var stofnfé varnaraðila aukið verulega. Eftir aukninguna varð samanlagður eignarhlutur KS samsteypunnar um 40% af stofnfénu. Auk þess áttu sumir stjórnarmanna samsteypunnar og aðilar tengdir þeim stofnfé. Í marsmánuði 2003 samþykkti Fjármálaeftirlitið að KS og dótturfélög þess væri hæft til að eiga virkan eignarhlut í varnaraðila og veitti heimild fyrir því að bein og óbein hlutdeild KS samsteypunnar færi yfir 33% af stofnfé varnaraðila.

Fyrir aðalfund í varnaraðila 2003 risu upp deilur um meðferð atkvæðisréttar eignarhluta KS samsteypunnar svo og einstaklinga tengdum KS. Skiptust stofnfjáreigendur í tvo hópa. Annar hópurinn lagðist algerlega gegn því að KS næði meirihluta í sjóðnum með því að einstaklingar tengdir KS fengu að greiða atkvæði í samræmi við stofnfjáreign sína og töldu að eign þeirra bæri að meta sem hluta af stofnfjáreign KS. Deilan endaði með samkomulagi aðila þannig að hvor hópur um sig tilnefndi tvo menn í stjórn varnaraðila og oddamaður var tilnefndur af Sambandi íslenskra sparisjóða.

             Með bréfi dagsettu 11. nóvember 2004 boðaði stjórn varnaraðila stofnfjáreigendur til fundar 24. nóvember. Fyrir fundinum lá meðal annars tillaga um breytingar á samþykktum varnaraðila þannig að stofnfé skyldi aukið úr 22.000.000 króna í 88.000.000. Þá var og lagt til að nafni varnaraðila yrði breytt úr Sparisjóður Hólahrepps í Sparisjóður Skagafjarðar. Þá var og boðað til kosningar stjórnar. Daginn fyrir fundinn var haldinn stjórnarfundur í varnaraðila. Fyrir stjórnarfundinum lá beiðni um kaup og sölu stofnfjárhluta. Aðallega var um að ræða að dótturfélög KS höfðu selt allt stofnfé sitt að undanskyldum 5%. Kaupendur voru framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skagfirðings hf. og eiginkona hans, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS og kona hans, tveir skrifstofustjórar KS og kona annars þeirra svo og eiginkona kaupfélagstjóra KS. Þá keyptu tveir sparisjóðir hvor um sig 5% af stofnfé varnaraðila. Þegar að því kom að afgreiða þessa beiðni viku stjórnarmennirnir Sigurjón R. Rafnsson aðstoðar-kaupfélagsstjóri og Jón E. Friðriksson framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skagfirðings af fundinum og varamenn þeirra Lárus Dagur Pálsson og Birgir Gunnarsson tóku sæti þeirra. Stjórnin samþykkti síðan sölu bréfanna með þremur atkvæðum gegn tveimur. Eftir söluna átti einungis eitt dótturfélag KS, Fiskiðja Sauðárkróks ehf., stofnbréf í varnaraðila samtals 44 bréf hvert að fjárhæð 25.000 krónur eða  5% af stofnfé varnaraðila.

             Á boðuðum fundi stofnfjáreigenda þann 24. nóvember sl. kom fram krafa um að þeir aðilar sem keyptu stofnféð daginn áður yrðu metnir sem einn vegna tengsla þeirra við KS og að eignarhlut þeirra og KS fylgdi einvörðungu 5% atkvæðisréttur. Fundarstjóri tók ekki afstöðu til þessa ágreinings og taldi sér skylt að leggja til grundvallar þá skrá stofnbréfa sem lá fyrir fundinum en gat þess jafnframt að ef sá listi væri rangur gæti það leitt til þess að ákvarðanir fundarins yrðu ógiltar fyrir dómi. Á fundinum var síðan samþykkt að auka stofnfé eins og tillaga sú sem lá fyrir fundinum gerði ráð fyrir. Þá var áðurgreind tillaga um nafnbreytingu varnaraðila einnig samþykkt og einnig var varnaraðila kosin ný stjórn. 

             Með beiðni dagsettri 8. desember sl. kröfðust sóknaraðilar, sem allir eru eigendur stofnfjár í varnaraðila og eiga samtals rétt rúm 6% stofnfjár, þess að sýslumaðurinn á Sauðárkróki legði lögbann við því að stofnfé í varnaraðila yrði aukið í samræmi við samþykkt fundarins. Lögbannskrafan náði einnig til tveggja annarra atriða sem ekki eru til umfjöllunar hér. Þann 16. desember sl. hafnaði sýslumaður kröfum sóknaraðila. Með bréfi dagsettu 17. desember kröfðust sóknaraðilar úrlausnar dómsins um synjun sýslumannsins.

III

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

             Sóknaraðilar byggja kröfu sína á því að verulegur vafi leiki á því hvort löglega var staðið að ákvörðun um aukningu stofnfjár á fundi stofnfjáreigenda 24. nóvember sl. Að mati sóknaraðila fól meðferð atkvæðisréttar á fundinum í sér brot á lögum nr. 161/2002 og samþykktum varnaraðila. Telja sóknaraðilar að sala á eignarhlutum í eigu KS samsteypunnar til einstaklinga sem teljast nátengdir KS samsteypunni hafi verið málamyndagerningar gerðir í þeim eina tilgangi að ljá eignarhluta KS samsteypunnar atkvæðisrétt umfram það sem samsteypan mátti njóta. Við munnlegan flutning málsins var því haldið fram að hálfu sóknaraðila að um það hafi verið samið er KS eignaðist stóran hlut í varnaraðila að eignarhlutur KS yrði óvirkur að mestu. Telja sóknaraðilar fráleitt án nánari sönnunarfærslu af hálfu KS samsteypunnar að um raunverulega eignayfirfærslu hafi verið að ræða þar sem eignarhlutirnir séu að verulegu leyti skráðir á stjórnamenn og starfsmenn KS samsteypunnar og maka þeirra. Sóknaraðilar halda því fram að allur aðdragandi og framkvæmd sölu eignarhlutanna sýni að eingöngu var stefnt að því að tryggja nægt atkvæðamagn við ákvörðunartöku á fundi stofnfjáreigenda. Að mati sóknaraðila verði því að meta KS samsteypuna og einstaklingana sem keyptu hlutina sem einn eiganda í skilningi 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002. Í þeirri grein segi meðal annars að allir stofnfjáreigendur skuli eiga jafnan atkvæðisrétt nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum sparisjóðs. Þó sé einstökum stofnfjáreigendum aldrei heimilt, fyrir sína hönd eða annarra að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggist á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðsins.

Sóknaraðilar benda einnig á að salan hafi ekki verið tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrirfram eins og mælt sé fyrir um í 47. gr. nefndra laga nr. 161/2002.

Sóknaraðilar halda því fram að sala á eignarhlutum til Sparisjóðs Ólafsfjarðar hafi verið ólögmæt þar sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Ólafsfjarðar hafi tekið þátt í að samþykkja söluna sem stjórnarmaður í varnaraðila í brýnni andstöðu við 3. mgr. 26. gr. samþykkta varnaraðila. Við munnlegan flutnings málsins benti lögmaður sóknaraðila á að varamaður sem tók sæti í stjórn varnaraðila þegar framsals-gerningarnir voru samþykktir sé svili Sigurjóns Rafnssonar aðstoðarkaupfélagsstjóra og mágur Maríu Sævarsdóttur en þau hafi bæði fengið framselt stofnfé og því hafi hann verið vanhæfur við afgreiðslu málsins.

Sóknaraðilar líta svo á að ákvörðun um að synja um umbeðið lögbann með þeim rökum sem sýslumaður gerði sé röng. Sóknaraðilar byggja á því að þeir þurfi ekki, til að hið umbeðna lögbann nái fram að ganga, að sanna að yfirvofandi eða byrjuð athöfn varnaraðila brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 sé nægjanlegt að þeir geri sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra. Sýslumaður hafi ekki það hlutverk að komast að efnislegri niðurstöðu um málsástæður aðila nema að því leyti sem nauðsynlegt kann að vera til að komast að niðurstöðu um rétt sóknaraðila til að hin umbeðna gerð nái fram að ganga. Sóknaraðilar telja að sýslumaður hafi auk þess litið framhjá þeim atriðum varðandi forsendur lögbannskröfu þeirra sem mestu máli skipta. Þannig sé fráleitt að halda því fram að niðurstaða hafi fengist varðandi það hvort framsal stofnfjár í eigu KS samsteypunnar hafi verið lögmætt líkt og sýslumaður slái föstu en það sé ekki í verkahring sýslumanns að leggja efnisdóm á málið. Sönnunarfærsla varðandi lögmæti framsalsins eigi að fara fram í staðfestingarmáli. Einnig telja sóknaraðilar fráleitt að fullyrða að álit Fjármálaeftirlits feli í sér leiðbeinandi og þaðan af síður bindandi niðurstöðu um það hvort líta beri á framsalshafa stofnfjárins sem sjálfstæða stofnfjáreigendur eða hvort meta skuli hlut þeirra með eignarhlut KS samsteypunnar. Telja sóknaraðilar að sýslumaður hafi tekið sér dómsvald er hann kemst að niðurstöðu í málinu og ef hann hefði slíkt vald væri eftirfarandi staðfestingarmál í raun óþarft.

Sóknaraðilar halda því fram að ef krafa þeirra nái ekki fram að ganga og stofnfjáraukning sem ákveðin var að ólögum á fundinum 24. nóvember sl. verði að veruleika muni réttindi sem þeir eiga fara forgörðum ef þeir verði að bíða dóms um þau. Ljóst sé að bindandi samningar um sölu stofnfjár af aukningunni til þriðja manns verði ekki ónýttir síðar í máli milli aðila þessa máls.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan telja sóknaraðilar að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt til að lagt verði lögbann við framkvæmd stofnfjáraukningarinnar.

             Hvað lagarök varðar vísa sóknaraðilar til þeirra lagaákvæða sem getið er hér að framan. Krafa um málskostnað er studd við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en krafa um álag er nemur virðisaukaskatti styðst við lög nr. 55/1988 um virðisaukaskatt en sóknaraðilar eru ekki virðisaukaskattskyldir og ber því nauðsyn til að fá dæmt álag á málskostnað er nemur þessum skatti.

             Málsástæður og lagarök varnaraðila.

             Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að ákvörðun um að auka stofnfé hafi verið tekin vegna þess að tap hafi verið á rekstri varnaraðila um nokkurt skeið og af þeim sökum hafi gengið á eigið fé hans. Þetta geti haft þær afleiðingar, ef stofnfé er ekki aukið, að varnaraðili geti misst starfsleyfi sitt vegna þess að eigið fé fari niður fyrir lögboðin mörk sem fram koma í lögum nr. 161/2002. Lækkun eiginfjár geti orðið til þess að samsetning útlána breytist þannig að varnaraðili uppfylli ekki ákvæði 30. gr. nefndra laga og missi af þeim sökum starfsleyfið. Með því að auka stofnféð líkt og samþykkt var á fundinum sé rekstur varnaraðila tryggður. Varnaraðili bendir á að aukningin hafi verið samþykkt með þeim meirihluta sem áskilinn er í 11. gr. samþykkta varnaraðila. Varnaraðili byggir á því að um lögmæta ákvörðun hafi verið að ræða.

             Varnaraðili bendir á að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991 séu talin upp þau skilyrði sem verða að vera fyrir hendi til að lögbann verði lagt við athöfn sem er byrjuð eða yfirvofandi. Ákvörðun um aukningu stofnfjár hafi þegar verið tekin og búið að tilkynna stofnfjáreigendum um ákvörðunina. Varnaraðili telur hins vegar ekki ljóst af málatilbúnaði sóknaraðila hvort krafist er lögbanns við ákvörðuninni um að auka stofnféð eða hvort lögbannið beinist að framkvæmd aukningar stofnfjárins. Meðan krafan sé ekki betur rökstudd og ljósari en þetta uppfylli hún ekki skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sbr. 26. gr. laganna.

             Varnaraðili telur að sóknaraðilar hafi ekki gert grein fyrir þeim hagsmunum sem þeir ætli sér að verja með lögbanni. Í samþykktum varnaraðila séu ítarleg ákvæði er lúta að réttindum sem fylgja stofnfjáreign. Þessi réttindi séu þau helst að mæta á fundi stofnfjáreigenda, atkvæðisréttur á slíkum fundum, réttur til arðs af stofnfé og réttur til að skrá sig fyrir aukningu á stofnfé. Sóknaraðilar verði, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, að sýna fram á hvaða lögvörðu réttindi þeirra geta farið forgörðum ef kröfu þeirra er hafnað. Sóknaraðilar hafi nýtt atkvæðisrétt sinn á fundinum 24. nóvember sl., þar hafi aukning stofnfjár verið ákveðin í samræmi við 11. gr. samþykkta varnaraðila og þeir hafi rétt á að skrá sig fyrir auknu stofnfé í samræmi við 12. gr. samþykktanna. Því verði ekki séð hvaða athöfn sé yfirvofandi sem feli í sér brot á réttindum sóknaraðila og engir hagsmunir þeirra geti tapast ef kröfu þeirra verði hafnað.

             Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á hvaða réttindi þeirra kunni að fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum ef þeir verði knúnir til að bíða dóms um þann ágreining sem þeir kusu að gera á fundinum 24. nóvember sl. Leggur varnaraðili áherslu á að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verði sóknaraðilar að sanna eða gera sennilegt að réttindi þeirra spillist ef þeir fari almenna dómstólaleið til að fá úr þeim skorið. Liggja þurfi fyrir án nokkurs vafa hvaða réttarspjöll hlytust af almennri dómstólaleið ella verði að hafna lögbannskröfu þeirra.

             Varnaraðilar benda einnig á að í 1. tl. 3. mgr. nefndrar 24. gr. séu ákvæði um að lögbann verði ekki lagt við athöfn þegar réttarreglur um refsingar eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna tryggir þá nægilega. Telur varnaraðili ekki liggja fyrir hvaða hagsmunir sóknaraðila kunni að spillast sem ekki eru nægjanlega tryggðir með reglum um skaðabætur. Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar eigi samtals rúm 6% af stofnfé og í lögbannskröfu sinni láti þeir að því liggja að þeir vilji hafa áhrif á framtíðarstefnu varnaraðila. Þá komi þar einnig fram að hugsanlegt sé að allir núverandi stofnfjáreigendur hafi ekki ráð á að taka þátt í stofnfjáraukningunni. Þessir hagsmunir geta að mati varnaraðila ekki leitt til þess að lögbannskrafan verði tekin til greina.

             Varnaraðili vísar einnig til 2. tl. 3. mgr. 24. gr. nefndra laga nr. 31/1990 en þar komi fram að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef sýnt þyki að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðaþola af því að athöfn fari fram og svo af hagsmunum gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggja athöfnina. Varnaraðili telur, eins og áður er rakið, að mikil óvissa sé um hvort unnt sé að halda rekstri hans áfram ef stofnfé verður ekki aukið á næstu vikum og því séu hagsmunir aðila að aukningu stofnfjárins í raun sameiginlegir. Varnaraðili segist hafa boðið sóknaraðilum tryggingu fyrir því tjóni sem þeir kunni að verða fyrir nái krafa þeirra ekki fram að ganga en því hafi þeir hafnað án skýringa. Þá bendir varnaraðili á að skv. ákvæðum 1. og 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé gert ráð fyrir að fram fari mat á þeim hagsmunum sem í húfi eru. Lögbann sé neyðarráðstöfun til að koma í veg fyrir að gengið verði á lögvarinn rétt manna og varna því að hann glatist. Hér verði að hafa í huga að annars vegar séu einhverjir hugsanlegir hagsmunir eigenda rúmlega 6% stofnfjár en hins vegar spurning um áframhaldandi starfsemi varnaraðila og telur hann útilokað að svo lítill hluti stofnfjáreigenda geti stöðvað rekstur varnaraðila.

             Að mati varnaraðila fjalla sóknaraðilar um nokkur atriði í gerðarbeiðni sinni sem ekki verður séð að þeim beri að gæta að og slík atriði skipti ekki máli þegar leyst er úr máli þessu. Nefnir varnaraðili í þessu sambandi sölu á stofnfé 23. nóvember sl. og tilkynningu til Fjármálaeftirlits því samfara. Einnig afgreiðslu stjórnar varnaaðila á sölu stofnfjár til Sparisjóðs Ólafsfjarðar og að nokkrir aðilar sem keypt höfðu stofnfé fyrir 13. nóvember sl. hafi ekki átt að hafa atkvæðisrétt á fundinum daginn eftir.

Varnaraðili telur að regla 47. gr. laga nr. 161/2002, um tilkynningarskyldu þegar selt er af virkum eignarhlut, sbr. 40. gr. laganna, mæli eingöngu fyrir um að tilkynnt sé um slík viðskipti fyrirfram. Ekki sé nauðsynlegt að leita eftir samþykki Fjármálaeftirlits fyrir slíkri sölu og bendir hann á bréf Fjármálaeftirlitsins í því sambandi. Þar komi fram að tilkynning um söluna hafi borist með símbréfi kl. 18:00 þann 23. nóvember sl. en Fjármálaeftirlitið hafi ekki séð ástæðu til að aðhafast neitt vegna sölunnar.

Varnaraðili telur að ekkert sé við sölu á stofnfé til Sparisjóðs Ólafsfjarðar að athuga og bendir á að þó svo sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Ólafsfjarðar hafi, sem stjórnarmaður í varnaraðila, tekið þátt í að samþykkja söluna þá hafi viðskiptin ekki verið milli varnaraðila og Sparisjóðs Ólafsfjarðar heldur Sparisjóðs Ólafsfjarðar og þriðja manns. Í 9. gr. samþykkta varnaraðila segi að leita skuli samþykkis stjórnar hans fyrir sölu á stofnfé og samhljóða regla sé í 1. mgr. 64. gr. laga nr. 161/2002. Varnaraðili telur að í þessum reglum felist ekki annað og meira en að tilkynna söluna til stjórnar en sala á stofnfé sé ekki bundin neinum kvöðum. Af þessum sökum eigi stjórnin ekki annan kost en að samþykkja söluna a.m.k. verði ástæður fyrir synjun á sölu að vera mjög ríkar og varla komi aðrar ástæður til greina en þær sem ganga í berhögg við lög sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002. Varnaraðili telur því að 3. mgr. 26. gr. samþykkta hans taki til þeirra atvika þegar stjórnarmenn eru að taka þátt í afgreiðslu mála sem varða réttindi og skyldur varnaraðila. Vísar hann í þessu sambandi til 55. gr. laga nr. 161/2002 þar sem fram komi að ákvæðin séu til þess fallin að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra stjórnarmanna og þess fjármálafyrirtækis sem þeir eru stjórnarmenn í.

Varnaraðili bendir einnig á að með sölu á eignarhlutum dótturfélaga KS hafi virkur eignarhlutur verið leystur upp. Af þessum sökum eigi 2. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002 ekki við en þar sé fjallað um það þegar framsal stofnfjár leiðir til þess að einstakur aðili einn eða með þeim sem hann er í nánum tengslum við eignast eða fari með virkan eignarhlut í sparisjóði sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna. Sóknaraðilar telji aftur á móti að meta verði þá aðila sem keyptu stofnféð sem einn aðila með ,,kaupfélaginu” í skilningi 3. mgr. 70. gr. nefndra laga. Erfitt sé að átta sig á hvað sóknaraðilar eigi við með þessu þar sem Kaupfélag Skagfirðinga eigi ekki neinn hlut eftir söluna heldur eigi eitt dótturfélaga þess 5% stofnfjárins. Enginn einn aðili hafi eftir söluna átt meira en 5% af stofnfé og fór ekki með atkvæðisrétt fyrir meira en þann hlut á fundinum 24. nóvember sl. Varnaraðili mótmælir því að um málamyndagerning hafi verið að ræða er stofnféð var selt og vísar til framlagðra kaupsamninga í þeim efnum. Telur varnaraðili langsótt að svipta þá einstaklinga sem keyptu stofnféð atkvæðisrétti sem tryggður er öllum stofnfjáreigendum í 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002. Verði fallist á þessi sjónarmið sóknaraðila þá sé farið langt út fyrir orðalag nefndrar 3. mgr. 70. gr. auk þess sem slík skýring væri í andstöðu við tilgang ákvæðisins. Með ákvæðinu sé ekki átt við að skyldleiki stofnfjáreigenda geti valdið því að þeir verði sviptir atkvæðisrétti sínum. Ákvæðið sé skýrt og samkvæmt því geti enginn farið með meira en 5% atkvæða á fundi stofnfjáreigenda og sá sem á 5% getur því ekki farið með atkvæði fyrir annan samkvæmt umboði á slíkum fundi og þannig greitt atkvæði fyrir meira en 5% stofnfjár.

IV

Niðurstaða

             Í máli þessu er eingöngu til úrlausnar hvort leggja beri lögbann við því að stofnfé varnaraðila verði aukið úr 22.000.000 króna í 88.000.000 eins og samþykkt var á fundi stofnfjáreigenda þann 24. nóvember sl. Telja verður að sóknaraðilar beini kröfum sínum réttilega að varnaraðila þar sem framkvæmd aukningar stofnfjárins er í hans höndum og að mati dómsins er á þessu stig málsins ekki þörf á aðild annarra stofnfjáreigenda eða þeirra sem keyptu stofnfé þann 23. nóvember sl., að málinu.

             Niðurstaða máls þessa veltur fyrst og fremst á því hvort sóknaraðilum hafi tekist að sanna eða gera sennilegt að framsal á stofnfé sem samþykkt var á stjórnarfundi í varnaraðila 23. nóvember sl. hafi verið ólögmætt eða að draga megi lögmæti framsalsins í efa. Með framsalinu varð u.þ.b. 35% af eignarhlut dótturfélaga KS virkur í þeim skilningi að á fundi stofnfjáreigenda 24. nóvember sl. fylgdi atkvæðisréttur þessum eignarhlutum en svo hafði ekki verið fram að því.

Áður er rakið hvernig að framsalinu var staðið og að framsalshafar eru 8 einstaklingar frammámenn innan KS samsteypunnar og/eða eiginkonur þeirra svo og tveir sparisjóðir. Fallast má á með sóknaraðilum, þrátt fyrir framlagða kaupsamninga, að þeim hafi tekist að gera sennilegt að framsalið hafi á sér nokkurn málamyndablæ og að helsti tilgangur þess hafi verið að knýja fram breytingar á samþykktum varnaraðila. Þá má og fallast á með sóknaraðilum að draga megi í efa hæfi stjórnarmannanna Magnúsar Brandssonar og Birgis Gunnarssonar til að samþykkja framsal stofnfjárins. Sóknaraðilar og aðrir stofnfjáreigendur í varnaraðila eiga rétt á því að farið sé að lögum og samþykktum varnaraðila þegar stofnfé skiptir um eigendur.

Samkvæmt 15. gr. samþykkta varnaraðila fara lögmætir fundir stofnfjár-eigenda með æðsta vald í málefnum varnaraðila og fara stofnfjáreigendur með ákvörðunarvald á slíkum fundum. Fundir þessir eru eini vettvangurinn, þar sem eigendur stofnfjár geta beitt ákvörðunarvaldi sínu. Slíkir fundir geta tekið fyrir sérhvert málefni er sjóðinn varðar og ber stjórn sjóðsins þá að fara eftir ákvörðun fundarins. Sóknaraðilar líkt og aðrir eigendur stofnfjár eiga lögvarinn rétt á því að atkvæði séu greidd á slíkum fundum eins og lög mæla fyrir um og skiptir þá ekki máli þó þeir eigi einvörðungu 6% af stofnfé varnaraðila. Af fundargerð fundarins frá 24. nóvember sl. má ráða, eins og atkvæði voru greidd, að breytingar á samþykktum varnaraðila hefðu ekki verið samþykktar án atkvæða áður óvirks eignarhlutar dótturfélaga KS.

Varnaraðili hefur bent á að nauðsynlegt sé að auka stofnfé til að koma í veg fyrir að hann missi starfsleyfi sitt. Fallast verður á með varnaraðila að aukning stofnfjár sé nauðsynleg sbr. bréf endurskoðanda sem lagt hefur verið fram í málinu. Hins vegar liggur ekki fyrir að aukning stofnfjár þoli ekki bið eftir því að niðurstaða fáist í staðfestingarmáli þar sem efnislega mun reyna á lögmæti framsals stofnbréfanna og lögmæti þeirra ákvarðana sem teknar voru á fundi stofnfjáreigenda í framhaldi af því. Í því máli mun væntanlega einnig reyna á meint samkomulag um meðferð stofnfjár dótturfélaga KS.

Samkvæmt þessu verður að telja að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt til að lögbannskrafa sóknaraðila nái fram að ganga, enda eiga ákvæði 3. mgr. 24. gr. nefndra laga ekki við í þessu máli. Er því lagt fyrir sýslumanninn á Sauðárkróki að leggja lögbann við því að stofnfé varnaraðila verði aukið eins og ákveðið var á fundi stofnfjáreigenda 24. nóvember 2004.

Ekki eru efni til að verða við kröfu varnaraðila um að kæra úrskurðarins til Hæstaréttar Íslands fresti framkvæmd lögbannsins enda væri slík frestun líkleg til þess að varnaraðili lyki við aukningu stofnfjárins á þeim tíma og féllu áhrif lögbannsins þannig í raun niður.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðilum sameiginlega 150.000 krónur í málskostnað.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ástráður Haraldsson hrl. en af hálfu varnaraðila Árni Pálsson hrl.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Lagt er fyrir sýslumanninn á Sauðárkróki að leggja lögbann við því að stofnfé varnaraðila máls þessa, Sparisjóðs Skagafjarðar, verði aukið líkt og ákveðið var á fundi stofnfjáreigenda 24. nóvember 2004.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum Agnari Halldóri Gunnarssyni, Bjarna Jónssyni, Gunnari Rögnvaldssyni, Herði Jónssyni, Jóni Sigurðssyni, Pálma Sigurði Sighvats, Sigmari Jóhannssyni, Sigurði Þorsteinssyni og Valgeiri Bjarnasyni samtals 150.000 krónur í málskostnað.