Hæstiréttur íslands

Mál nr. 268/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 23

 

Þriðjudaginn 23. maí 2006.

Nr. 268/2006.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Guðmundur Siemsen fulltrúi)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en gæsluvarðhaldi var markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson  og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. maí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði er varnaraðili grunaður um að hafa ásamt öðrum veist að nafngreindum manni, sett hann í farangursgeymslu bifreiðar, farið með hann á afvikinn stað, beitt hann þar líkamlegu ofbeldi og skilið hann loks eftir. Samkvæmt áverkavottorði, sem fyrir liggur í málinu, mun brotaþoli hafa hlotið, auk minni háttar áverka, innvortis blæðingu, sem að mati læknis var lífshættuleg. Framangreind háttsemi getur varðað við 2. mgr. 218. gr. með áorðnum breytingum og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ef sök sannast. Verður fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn framangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga. Nokkuð hefur borið í milli í frásögn ætlaðs brotaþola, varnaraðila og ætlaðra samverkamanna hans. Verður á það fallist með sóknaraðila að fullnægt sé að svo stöddu skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Eftir að úrskurður héraðsdóms gekk hafa verið teknar skýrslur að nýju af ætluðum samverkamönnum varnaraðila og hafa frásagnir þeirra tekið nokkrum breytingum. Í ljósi þessa þykir rétt að ætla sóknaraðila nokkurn tíma til að taka skýrslu af varnaraðila að nýju, en ekki verður fallist á að gögn málsins beri með sér að rannsóknarhagsmunir standi til þess að marka gæsluvarðhaldi varnaraðila lengri tíma en greinir í dómsorði.

Í hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari tekið lýsingu málsatvika nánast orðrétt upp eftir greinargerð sem fylgdi kröfu sóknaraðila í héraði og þar með gert þá lýsingu að sinni án nokkurs fyrirvara. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Varnaraðili,  X, sæti gæsluvarðahaldi allt til miðvikudagsins 24. maí 2006 kl. 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. maí 2006.

Sýslumaðurinn í Kópavogi hefur krafist þess með beiðni dagsettri í dag að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí nk. kl. 16:00.  Til stuðnings kröfu sinni skírskotar sýslumaður til a-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Málavextir eru þeir helstir að um kvöldið laugardaginn 13. maí sl. voru lögreglumenn úr Kópavogi á eftirlitsferð við Vatnsendaveg í Kópavogi er vegfarandi gaf sig á tal við þá.  Kvaðst hann hafa séð menn á svartri bifreið af gerðinni [...] með skráningarnúmer A ganga í skrokk á manni og aka með hann á brott.  Hóf lögregla þegar leit að bifreiðinni.  Um klukkustund síðar barst lögreglu tilkynning um að hestamaður hefði fundið mann sem orðið hafði fyrir árás skammt innan við svokallaðan Guðmundarlund við hesthús á Vatnsendabletti. Er lögregla kom á vettvang var þar fyrir tilkynnandi og B. Var B með áverka á andliti, kvið, ökkla og víðar.  Þá var hann skólaus og föt hans rifin.  Kvaðst tilkynnandi hafa komið að B í þessu ástandi og séð svarta [...] bifreið aka hratt af vettvangi.  B var færður á slysadeild til athugunar.  Síðar sama kvöld upplýsti læknir á slysadeild að B væri með innvortis blæðingu en æð í kviðarholi hafði brostið.

Skýrsla var tekin af B í gær, mánudaginn 15. maí.  Kvaðst B vilja kæra þá C, D og X vegna líkamsárásar með því að hafa veitt honum framangreinda áverka.  Kvað hann kærðu hafa komið að heimili hans síðastliðið laugardagskvöld og fengið hann til að tala við sig í bifreið þeirra.  Kærðu hafi ekið áleiðis að Vífilsstaðavatni þar sem þeir hafi stöðvað bifreiðina, veist að honum og sett hann í farangursgeymslu hennar.  Kærðu hafi síðar stöðvað bifreiðina að nýju, tekið hann úr bifreiðinni og lagt hann á jörðina.  Hafi einn hinna kærðu slegið höfði hans við jörðina en tveir þeirra traðkað eða stappað á brjóstkassa hans og maga. Þá hafi kærðu skilið hann eftir á vettvangi og hótað honum og fjölskyldu hans frekari líkamsmeiðingum ef hann leitaði til lögreglunnar vegna málsins.

Í samtali við rannsóknarlögreglumann upplýsti Lýður Ólafsson, deildarlæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, að áverkar B væru mjög alvarlegir.  Hann hafi orðið fyrir blæðingu í slagæð til garna og þurft að þiggja blóðgjöf vegna blóðmissis.  Blæðing virtist nú vera hætt en B þyrfti þó að dveljast á sjúkrahúsi um sinn til eftirlits með blóðgúlpi.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu skýrði kærði svo frá að hann hafi verið staddur í bifreið með félögum sínum, D og C.  D hafi óskað eftir að koma við heima hjá B og hafi B komið út í bifreiðina til þeirra.  Hafi verið ekið úr [...] að Vífilsstaðavatni og hafi þar komið til rifrildis milli D og B sem hafi setið í aftursætinu.  Hann segist hafa séð D kýla B eitt högg í magann.  Ekki kannaðist X við að B hafi verið settur í farangursgeymsluna og ekið með hann upp að Vatnsenda. Þá kannaðist X heldur ekki við að hafa lagt hendur á B.

Kærði er nú í haldi lögreglunnar í Kópavogi og er undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við meðkærðu C og D ráðist að B og misþyrmt honum á hrottafenginn hátt, skilið hann eftir bjargarlausan utan alfaraleiðar og hótað honum og fjölskyldu hans enn frekari líkamsmeiðingum ef hann leitaði til lögreglu vegna málsins.  Þessi ætlaða háttsemi kærðu þykir hafa stefnt hinum slasaða í stórkostlega hættu sem hefði getað dregið B til dauða þar sem hann hlaut innvortis slagæðablæðingu.  Kærði liggur því undir grun um alvarlegt brot sem varðað getur fangelsi allt að 16 árum.  Rannsókn málsins er á byrjunarstigi.  Af rannsóknargögnum málsins má ráða að hver hinna kærðu dregur mjög úr hlutdeild sinni í málinu.  Þá gætir talsverðs misræmis í framburði þeirra um atvik málsins, einkum þegar litið er til framburðar kæranda og áverka hans.  Ber því að fallast á með lögreglunni í Kópavogi að hætta sé á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. 

Með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður krafa sýslumannsins í Kópavogi tekin til greina og kærði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 30. maí nk. kl. 16:00.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 þriðjudaginn 30. maí nk.