Hæstiréttur íslands
Mál nr. 275/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Mánudaginn 29. ágúst 2005: |
|
Nr. 275/2005. |
Fjarðarmót ehf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) gegn Sigurði Hannesi Oddssyni og Hrafnhildi Lúthersdóttur (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Af efni dómsáttar sem aðilar höfðu gert í málinu þótti ljóst að S og H hefðu fallist á meginhluta stefnukröfu F og var þeim að því virtu og umfangi málsins gert að greiða sóknaraðila 180.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júní 2005, þar sem kveðið var á um að málskostnaður félli niður í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum, sem var lokið að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál 4. janúar 2005 á hendur varnaraðilum til greiðslu 560.106 króna með dráttarvöxtum frá 13. nóvember 2002 til greiðsludags. Um var að ræða eftirstöðvar kaupverðs samkvæmt kaupsamningi aðila 3. febrúar 2000 vegna kaupa varnaraðila á íbúð í fjölbýlishúsi nr. 2a við Hringbraut í Hafnarfirði, er sóknaraðili hafði í smíðum. Varnaraðilar kröfðust aðallega sýknu en til vara lækkunar á dómkröfu sóknaraðila og reistu málsvörn sína einkum á því að frágangi sóknaraðila væri ábótavant, en lokagreiðsla miðaðist ekki við tilgreindan gjalddaga heldur lok verksins. Með bréfi 23. ágúst 2003 staðfesti byggingarfulltrúi að lokaúttekt á smíði hússins hefði farið fram, en samkvæmt ákvörðun bæjaryfirvalda 30. september 2003 fór slík úttekt fram á ný 17. maí 2004, en einungis á sameign hússins, þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við smíði þess og veittur tveggja mánaða frestur til úrbóta. Við upphaf aðalmeðferðar málsins gerðu aðilar sátt fyrir dómi þess efnis að varnaraðilar skyldu greiða sóknaraðila 600.000 krónur fyrir 1. júní 2005 gegn útgáfu afsals, en kröfur aðila um málskostnað voru lagðar í úrskurð. Gekk hinn kærði úrskurður um þetta eina ágreiningsefni er stóð eftir að gerðri dómsáttinni. Sama dag og mál þetta var höfðað höfðaði sóknaraðili annað mál á hendur tveimur öðrum kaupendum íbúðar í húsinu um samkynja sakarefni. Í síðarnefnda málinu varð, líkt og í þessu máli, í héraði sátt með aðilum um annað en málskostnað, sbr. mál réttarins nr. 276/2005.
Gegn mótmælum sóknaraðila verður ekki með órækum hætti fullyrt af framlögðum gögnum að verki hans sé enn ólokið eins og nefnt er í hinum kærða úrskurði. Þá er í gögnum málsins að finna bréf, sent áður en málið var höfðað, þar sem varnaraðilar lýsa sig reiðubúna að greiða sóknaraðila nokkuð lægri fjárhæð en dómsáttin kvað á um. Hins vegar er ljóst af efni dómsáttarinnar að varnaraðilar féllust á meginhluta stefnukröfu sóknaraðila. Að þessu virtu og umfangi málsins verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila 180.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðilar, Sigurður Hannes Oddsson og Hrafnhildur Lúthersdóttir, greiði sóknaraðila, Fjarðarmóti ehf., 180.000 krónur í málskostnað í héraði og 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júní 2005.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar þann 31. maí 2005 um greiðslu málskostnaðar, höfðaði Fjarðarmót ehf., Bæjarhrauni 8, Hafnarfirði, þann 4. janúar 2005 á hendur Sigurði Hannesi Oddsyni og Hrafnhildi Lúthersdóttur, báðum til heimilis að Hringbraut 2a, Hafnarfirði, til greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignar.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda kr. 560.106 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. nóvember 2002 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Ennfremur krefst stefnandi að heimilað verði að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 13. nóvember 2003, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Til vara krefjast stefndu að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.
I.
Í stefnu lýsir stefnandi helstu málsástæðum og málsatvikum á þá leið að með kaupsamningi dagsettum 3. febrúar 2000, keyptu stefndu íbúð af stefnanda í fjöleignarhúsinu nr. 2a við Hringbraut í Hafnarfirði. Um var að ræða 4ra herbergja íbúð á þriðju hæð í húsinu, merkt 0301 ásamt bílskýli merkt B5 og sérgeymslu á 1. hæð, merkt 0102. Umsamið kaupverð eignarinnar var kr. 13.250.000, sem stefndu lofuðu samkvæmt kaupsamningi að greiða þannig:
I. 1. Við undirritun kaupsamnings kr. 1.000.000
2. Tilbúið undir tréverk “ 1.625.000
3. Við afhendingu íbúðarinnar “ 1.625.000
4. Við fullnaðarfrágang “ 1.500.000
II. Með fasteignabréfum:
Frumbréf kr. 5.204.663
Viðaukabréf “ 2.295.337
Samtals kr. 13.250.000
Greiðslur útborgunar voru verðtryggðar miðað við neysluvísitölu með grunnvísitölu maí 1999.
Með bréfi dagsettu 6. nóvember 2002 voru stefndu boðuð til fundar til afsalsgerðar á fasteignasölunni Ás þann 13. nóvember sama ár. Fyrir fundinn lá kostnaðaruppgjör unnið af fasteignasölunni og samkvæmt því áttu stefndu ógreiddar kr. 560.106, sem er stefnufjárhæð málsins.
II.
Af hálfu stefndu er á því byggt að fullnaðarfrágangi fasteignarinnar sé ekki lokið og af þeirri ástæðu hafi þau greitt inn á lokagreiðslu kr. 1.200.000 í stað kr. 1.500.000. Byggt er á þeirri málsástæðu að efndatími greiðslu nr. 4 skv. kaupsamningi sé ekki kominn og því eigi að sýkna stefndu.
Í málinu liggur frammi úttekt Steingríms Haukssonar tæknifræðings frá 17. maí 2004, þar sem gerðar eru margar athugasemdir við frágang eignarinnar.
Því er haldið fram að frá þeim tíma hafi bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar gefið stefnanda frest til að ljúka frágangi eignarinnar í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar. Að öðrum kosti verði öðrum aðila falið að ljúka verkinu á kostnað stefnanda, sbr. gr. 210.2 í byggingarreglugerð. Stefnandi hafi bætt úr einhverjum af þeim athugasemdum sem gerðar voru við frágang hans á verkinu, en því er haldið fram að úrbótum sé ekki lokið og þar af leiðandi sé efndatími ekki kominn.
Stefndu hafa lýst sig reiðubúna til þess að greiða eftirstöðvar lokagreiðslu við fullnaðarfrágang fasteignarinnar gegn útgáfu afsals.
III.
Í þinghaldi 31. maí síðastliðinn tókst sátt með málsaðilum á þann veg að stefndu greiði stefnanda 600.000 krónur eigi síðar en miðvikudaginn 1. júní 2005 gegn útgáfu afsals, sem eru eftirstöðvar lokagreiðslu verðbætt með vísitölu neysluverðs til greiðsludags. Dómkrafa stefnanda var hins vegar að stefndu greiddu 560.106 krónur með dráttarvöxtum frá 13. nóvember 2002 til greiðsludags, sem er í dag. Fram kom í sama þinghaldi að ýmis atriði er Steingrímur Hauksson tæknifræðingur benti á í úttekt sinni frá 17. maí 2004, er enn ólokið í apríl 2005.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Málskostnaður fellur niður.