Hæstiréttur íslands
Mál nr. 645/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 7. desember 2007. |
|
Nr. 645/2007. |
Sýslumaðurinn á Selfossi(Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri) gegn X(Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var X gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. desember 2007
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. desember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um gæsluvarðhald yfir varnaraðila. Að virtum gögnum málsins er þó ekki ástæða til að það standi lengur en í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. desember 2007 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. nóvember 2007.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...] til lögheimilis að [heimilisfang], 112 Reykjavík, nú í haldi lögreglunnar á Selfossi, verði gert að sæta gæsluvarðahaldi allt til kl. 16:00 sunnudaginn 30. desember n.k.
I.
Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglunni á Selfossi hafi þann 28. nóvember sl., verið tilkynnt um fjölda innbrota, í heimahúsi við Ártún á Selfossi, í heimahúsi í Flóahreppi, í garðyrkjustöð í Hveragerði og í bifreiðar fyrir utan verkstæði á Selfossi. Þar fyrir utan hafi lögreglunni á Hvolsvelli verið tilkynnt sama dag um þjófnað á bíllyklum úr bifreið er stóð fyrir utan verkstæði í Rangárvallasýslu.
Að morgni 29. nóvember s.l. hafi X verið handtekinn eftir að starfsmenn Landsvirkjunnar tilkynntu um að brotist hafi verið inn í turnhús á stíflumannvirki við Ísakot, fyrir ofan Búrfellsvirkjun. Hafi verið komið að X, sofandi ölvunarsvefni í vinnusal í kjallara. Á vettvangi hefði hann ekki getað gert grein fyrir veru sinni þar, eða hvernig hann hefði komist þangað. Við leit á X hafi fundist munir er tengjast flestum innbrotsmálanna frá 28. nóvember sl.
Þá segir að X hafi við yfirheyrslu í morgun ekki getað gefið trúverðugar skýringar á ferðum sínum eða tilurð muna þeirra er fundust á honum umrætt sinn við handtöku. X segist hafa verið á ferðinni við annan mann, en neitar að nafngreina hann. Lögregla hefur leitað að hugsanlegu ökutæki í kringum Ísakot án árangurs. Þá sé hluti þýfis úr ofangreindum innbrotum ófundið. Því sé nauðsynlegt að krafa þessi nái fram að ganga svo unnt sé að rannsaka málið án þess að X nái að hafa áhrif á samseka eða vitni og spilla hugsanlegum sakargögnum. Þá segir að lokum í greinargerðinni að X hafi margoft komið við sögu lögreglu vegna ýmissa mála, m.a. vegna auðgunarbrota. Hann hafi síðast verið dæmdur þann 8. október sl. í þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára vegna þjófnaða og fleiri brota.
Lögreglustjóri vísar til þess að verið sé að rannsaka ætluð brot X á 244. gr. almennra hegningarlaga. Ætluð brot séu að hluta mjög gróf þar sem brotist hefur verið inná heimili fólks í miðri viku um hábjartan dag. Þau sakarefni sem hér um ræðir munu varða fangelsisrefsingu ef sök telst sönnuð. Rannsókn málsins sé mjög viðamikil, þar sem um mörg innbrot sé að ræða og sé á frumstigi. Loks er bent á að hluti þýfis úr framangreindum innbrotum sé enn ófundið. Auk þess telur lögregla verulega hættu eins og mál þetta er vaxið að hinn grunaði muni torvelda rannsóknina með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og samseka. Með vísan til alls ofanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að ofangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga.
II.
Í rannsóknargögnum sem liggja fyrir í málinu kemur fram að brotist hafi verið inn á sjö stöðum í Hveragerði, Selfossi, Flóahreppi, Rauðalæk í Rangárvallasýslu og Bláskógabyggð. Á fimm þessara staða sást til hvítrar sendibifreiðar. Þá hafa tvenn mismunandi skóför fundist við innbrotsstaði sem samrýmast skóm kærða og öðrum skóm. Þá hafa lyklar úr bifreiðum fundist í fórum kærða sem tilkynnt hafði verið um þjófnað á. Þá kemur fram að nokkuð af þýfi sé ekki fundið.
Af öllu ofansögðu og með hliðsjón af sakargögnum, þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið þau innbrot og þann þjófnað sem lögreglan rannsakar auk þess að sterkar líkur eru á að hann hafi haft samverkamann. Kærði er grunaður um innbrot og þjófnað og getur háttsemi hans varðað hann fangelsisrefsingu allt að sex árum ef sök sannast. Kærði neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja grun um aðild hans að innbrotunum. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærði geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina að því leyti að kærði sæti ekki lengri gæslu en til föstudagsins 21. desember nk. kl. 16.00
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], með lögheimili að [heimilisfang], Reykjavík, skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 21. desember nk. kl. 16:00.