Hæstiréttur íslands

Mál nr. 260/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Barnavernd
  • Vistun barns
  • Gjafsókn


                                     

Þriðjudaginn 30. apríl 2013.

Nr. 260/2013.

A

(Leifur Runólfsson hdl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn. 

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista dóttur A utan heimilis hennar frá 27. janúar 2013 til 6. júní sama ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 12. apríl 2013 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. apríl 2013, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dóttir sóknaraðila, B, verði vistuð utan heimilis sóknaraðila frá 27. janúar 2013 til 6. júní sama ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar er tekið fram að samskipti fjölskyldu hans við dóttur hans, B, hafi batnað mikið. Sóknaraðili og sambúðarkona hans hafi nú mjög jákvæða afstöðu til stúlkunnar og hún sé „fullgildur meðlimur“ fjölskyldunnar. Með kærunni fylgdi áætlun fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar 11. apríl 2013 um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga. Þar kemur fram að markmið með vistun B sé að hún nái að vinna á líðan sinni í öðru umhverfi en því sem henni hafi ekki liðið vel í. Bæta þurfi samskipti hennar og stjúpmóður hennar sem lengi hafi verið stirð. B muni fara í listmeðferð í allt að 10 skipti og starfsmaður barnaverndar muni hitta hana reglulega. Í áætluninni var gert ráð fyrir að sóknaraðili og sambúðarkona hans færu í fjölskyldumeðferð reglulega og myndu meðal annars mæta á fund fjölskyldu- og félagsþjónustunnar 18. apríl 2013. Meðal gagna sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt er bréf ráðgjafa fjölskyldu- og félagsþjónustunnar um þennan fund. Segir þar meðal annars að sambúðarkona sóknaraðila sé reiðubúin að taka B á ný inn á heimilið. Aðspurð um hvort starfsmenn barnaverndar væru velkomnir að skoða aðstæður stúlkunnar á heimilinu hafi hún neitað því. Sambúðarkonan hafi einnig neitað að fara í foreldrahæfnismat þar sem hún taldi það tilgangslaust og niðurlægjandi.

Í forsendum hins kærða úrskurðar segir meðal annars að sóknaraðili hafi tekið sig á og sótt sér fræðslu um uppeldismál og saman hafi hann og sambúðarkona hans sótt tíma hjá sálfræðingi í þeim tilgangi að efla foreldrahæfni sína. Hins vegar hafi sambúðarkonan ekki verið samstarfsfús við varnaraðila og ekkert liggi fyrir um hvort viðhorfsbreyting hafi orðið hjá henni gagnvart líðan og tilfinningum stúlkunnar. Þau gögn sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt styðja ekki þá fullyrðingu sóknaraðila að breyting hafi orðið á þessu viðhorfi sambúðarkonu hans. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 180.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. apríl 2013.

                Mál þetta var þingfest 20. febrúar 2013 og tekið til úrskurðar 27. mars sl.  Sóknaraðili er Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar en varnaraðili er A, [...], [...].

                Sóknaraðili krefst þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að stúlkan B, fædd [...], sem lýtur forsjá föður síns, varnaraðila máls þessa, verði vistuð utan heimilis varnaraðila á heimili á vegum sóknaraðila frá 27. janúar 2013 til 15. júní 2013 á grundvelli 28. gr. laga nr. 80/2002. Ekki er krafist málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að stúlkan verði þegar í stað afhent varnaraðila. Varnaraðili krefst lögmannsþóknunar að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

I.

                Málefni B voru fyrst til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar í júní 2009 en þá barst tilkynning frá sálfræðingi hjá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar þar sem óskað var eftir tilsjón fyrir varnaraðila í formi ráðgjafar um uppeldi auk aðstoðar við heimilishald. Að sögn varnaraðila hafði B þá glímt við vanlíðan og hegðunarerfiðleika um tíma en móðir hennar lést á heimili þeirra í [...]. Gerð var áætlun um meðferð máls til þriggja mánaða og lauk þar með afskiptum barnaverndarnefndar.

                Í byrjun sumars árið 2010 barst tilkynning frá sálfræðingi Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar en varnaraðili hafði leitað þangað með áhyggjur sínar af kynferðislegu tali og athæfi B. Óskaði varnaraðili eftir því að B færi í Barnahús og gerði hún það. Ekkert kom hins vegar fram sem benti til þess að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi líkt og varnaraðili hafði áhyggjur af.

                Sumarið 2010 bárust barnaverndarnefnd tvær tilkynningar frá móðurfjölskyldu B er laut að vanrækslu varnaraðila varðandi umsjón og eftirlit með B og C systur hennar. Höfðu tilkynnendur miklar áhyggjur af þeim systrum en varnaraðili hafði þá lokað fyrir öll samskipti dætra sinna við móðurfjölskyldu þeirra. Í viðtali hjá Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar 6. september 2010 kom fram að varnaraðili hafði miklar áhyggjur af ofbeldis- og kynferðislegri hegðun B. Á þessum tíma hafði B verið að hitta D sálfræðing reglulega en D fann fyrir mikilli sorg og hræðslu hjá stúlkunni. Á teymisfundi kom fram að mikilvægt væri að vinna með uppeldisaðferðir varnaraðila og að fjölskyldan hefði þörf á fjölskyldumeðferð.

                Á meðan á könnun máls fór fram barst önnur tilkynning frá móðurfjölskyldu stúlkunnar um að B hefði komið grátandi heim til móðursystur sinnar og ekki viljað fara heim með varnaraðila. Í viðtali starfsmanns barnaverndarnefndar við B kom fram að hún vildi ekki búa lengur hjá varnaraðila heldur hjá frænkum sínum í móðurætt. Einnig var rætt við varnaraðila sem sagði B óviðráðanlega og var ekki sammála því að uppeldisaðferðir hans eins og að setja stúlkuna í straff væru óréttlátar. Þá ræddi starfsmaður barnaverndarnefndar við unnustu varnaraðila, E, sem talaði um óeðlilega mannasiði B, að stúlkan sýndi matargræðgi, væri sóðaleg, sýndi erfiða hegðun, þ. á m. erfiða kynferðislega hegðun og gæti ekki verið eftirlitslaus með öðrum börnum. Þá sagði E að ekki væri hægt að vera góð við hana því þá hengdi hún sig á viðkomandi. Mat starfsmanna sóknaraðila var að fjölskyldan ætti í talsverðum erfiðleikum með að takast á við hegðun og líðan stúlkunnar og að það væri henni fyrir bestu að fara tímabundið af heimilinu á meðan verið væri að ákveða hvaða meðferðaráherslur myndu henta stúlkunni og fjölskyldu hennar. Varnaraðili var hins vegar ekki tilbúinn að samþykkja tímabundna vistun B utan heimilis.

                Niðurstöðu könnunar máls hjá sóknaraðila benti til þess að B liði ekki vel á heimili sínu og þörf væri á að beita stuðningsúrræðum til að vinna með fjölskyldu hennar. Auk þess væri þörf á að leiðbeina föður í uppeldishlutverkinu og aðstoða hann við að draga úr hörðum refsingum á hendur dætrum sínum. Gerð var áætlun um meðferð máls til eins mánaðar sem skyldi endurskoðuð að þeim tíma liðnum. Í áætluninni kom fram að sett yrði tilsjón inn á heimili varnaraðila til athugunar og leiðbeiningar og að B færi í [...] eftir skóla og væri áfram í meðferð hjá sálfræðingi. Þá var kveðið á um að stuðla skyldi að sáttameðferð milli föður og móðurfjölskyldu B.

                Í skýrslu tilsjónaraðila kom fram að varnaraðili væri með mikinn aga á dætrum sínum og að mjög fastar rútínur væru á heimilinu. Þyrfti B t.d. að fara að sofa kl. 19:30 en yngri systir hennar 20:30. Gaf varnaraðili þær útskýringar að B væri svo þreytt á morgnana og því þyrfti hún að fara svona snemma að sofa. Samkvæmt skýrslu tilsjónaraðila talaði varnaraðili mikið um heilsu og mikilvægi hreyfingar og heilbrigðs mataræðis og fannst tilsjónaraðila að varnaraðili væri mikill öfgamaður hvað þetta varðar.

                Varnaraðili var ekki til mikillar samvinnu frá því að hann skrifaði undir áætlun um meðferð málsins haustið 2010. Hann hefur verið boðaður í viðtöl en hefur ekki viljað koma. Þá þótti sóknaraðila að sambýliskona varnaraðila, E, hafi ekki verið til samvinnu í máli B.

                Varnaraðili var boðaður á fund þann 11. nóvember 2010 til að fara yfir áætlun um meðferð máls og kom fram á þeim fundi að B liði betur og að varnaraðili væri að taka á sínum málum í uppeldishlutverkinu. Beiðni varnaraðila um að loka málinu var synjað á meðferðarfundi hjá sóknaraðila þann 16. nóvember 2010. Þar sem varnaraðili var ekki fáanlegur til að skrifa undir áframhaldandi áætlun um meðferð máls gerði sóknaraðili  einhliða áætlun sem var svo kynnt varnaraðila.

                Þann 3. desember 2010 bárust sóknaraðila tvær tilkynningar vegna B. Önnur var frá [...]skóla þar sem fram komu áhyggjur af líðan stúlkunnar. Hún væri döpur og kvíðin þegar liði á skóladaginn. Hún hefði sagt frá því að hún fengi yfirleitt brauð í matinn á meðan aðrir fjölskyldumeðlimir fengju annað að borða, t.d. kjúklingarétt. Þá kom jafnframt tilkynning frá móður vinkonu B sem sagði að B hefði tjáð dóttur sinni að varnaraðili og sambýliskona hans væru vond við sig og hafi hún beðið skólasystur sína um að láta einhvern fullorðinn vita hvernig henni liði svo hægt væri að bjarga henni.

                Þann 6. desember fóru starfsmenn sóknaraðila í [...]skóla og ræddu við B. Greindi hún frá því að henni liði illa heima hjá varnaraðila og væri oftast verulega döpur. Varnaraðili væri alltaf reiður við sig sama hvort hún væri óþekk eða ekki. Sagðist hún ekki vilja búa hjá varnaraðila og tók hún sérstaklega fram að hún vildi síst hitta varnaraðila og helst móðurfjölskyldu sína. Starfsfólk sóknaraðila mátu það svo að stúlkan væri ítrekað að kalla á hjálp og ekki væri hægt að tryggja öryggi hennar heima hjá varnaraðila að svo stöddu. Mat sóknaraðili það nauðsynlegt að stúlkan færi af heimili varnaraðila tímabundið á meðan frekari könnun stæði yfir. Þar sem varnaraðili neitaði að skrifa undir samþykki fyrir vistun B utan heimilis samkvæmt 25. gr. barnaverndarlaga var stúlkan neyðarvistuð tímabundið samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga. Þann 17. desember 2010 var B vistuð utan heimilis samkvæmt 25. gr. barnaverndarlaga en þá hafði varnaraðili samþykkt vistun utan heimilis tímabundið á meðan frekara mat færi fram á fjölskyldunni. Tillaga kom fram um að B yrði vistuð hjá móðurfjölskyldu sinni en varnaraðili samþykkti það ekki. B fór því í fóstur á [...] með samþykki varnaraðila til 1. júlí 2011.

                Móðurfólk B óskaði eftir umgengni við stúlkuna um jólin 2010 en á það var ekki fallist af hálfu varnaraðila. Hann samþykkti þó að móðurfjölskyldan mætti heimsækja hana aðra hverja helgi á [...] í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti heimilisfólksins á [...]. Varnaraðili sjálfur vildi ekki umgengni við B fyrstu tvo mánuði vistunar hennar á [...] og hann hringdi heldur ekki í hana fyrsta mánuðinn. Móðurfólk B átti umgengni við hana aðra hverja helgi allt þar til í maí 2011 en þá stöðvaði varnaraðili umgengnina á þeim forsendum að móðurfólk B væri ekki að virða þær umgengnisreglur sem hann hefði lagt fyrir þau.

                Undir rekstri málsins hjá sóknaraðila var unnið foreldrahæfnismat af F og G sálfræðingum. Í því mati, sem dagsett er 28. febrúar 2011, kemur m.a. fram að varnaraðili sé erfiður í samskiptum. Hann eigi erfitt með að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Hann vantreysti fólki og óttist sífellt að verið sé að stjórna honum eða eyðileggja líf hans. Þá kemur fram að hann hafi lélegt innsæi í eigið tilfinningalíf og lítinn skilning á þroska og líðan dætra sinna og gerir þar af leiðandi óeðlilegar kröfur til þeirra. Í stað þess að sýna breytingum á uppeldisaðstæðum dætra sinna skilning og bæta líðan þeirra með tillitssemi beiti hann refsingum og harðræði, aðferðum sem séu dæmdar til að mistakast. Þá kemur fram að varnaraðili flutti á heimili unnustu sinnar án þess að hugsa um velferð dætra sinna. Að mati sálfræðinganna sé framkoma varnaraðila við B óásættanleg, á skjön við barnaverndarlög og þurfi að breytast. Fram kemur að B eigi ekki við að stríða andleg eða geðræn veikindi eins og varnaraðili og sambýliskona hans haldi fram, heldur sé B heilbrigt og að mörgu leyti hæfileikaríkt barn sem þó þarfnist festu og ákveðni í uppeldi samfara öryggi, ástúð og jákvæðni. E, sambýliskona varnaraðila, fór jafnframt í viðtal vegna foreldrahæfnismatsins og gaf hún upp verulega neikvæða mynd af B. Hvergi í viðtalinu kom fram jákvætt viðmót gagnvart stúlkunni.

                Þegar vistun B á [...] lauk 1. júlí 2011 fór hún aftur heim til varnaraðila. Hún hélt áfram sálfræðimeðferð hjá H sem hún hafði verið hjá meðan hún dvaldi á [...]. Í fyrstu virtist allt ganga vel en þegar fór að líða á haustið kom í ljós vanlíðan stúlkunnar. Sálfræðingurinn ráðlagði varnaraðila að slaka á aganum og gefa B meira svigrúm til að vera hún sjálf. Í beinu framhaldi af því tilkynnti varnaraðili sálfræðingnum að hann ætlaði að finna annan sálfræðing fyrir B. Í janúar 2012 var vanlíðan B komin á það stig að hún fór inn á BUGL í nokkra daga og í kjölfarið aftur í vistun á [...]. Varnaraðili samþykkti þá vistun utan heimilis samkvæmt 25. gr. barnaverndarlaga í eitt ár. Sagðist hann ekki treysta sér lengur til að hafa B á heimilinu. B var sjálf hlynnt vistuninni og sagðist ekki vilja búa á heimili varnaraðila á meðan E, unnusta varnaraðila, byggi þar.

                Þann 20. febrúar fóru starfsmenn sóknaraðila í heimsókn á [...] og ræddu við B. Hún sagðist vera ánægði í skólanum og sér liði vel á [...]. I fósturmóðir hennar sagði jafnframt að vel væri búið að ganga hjá B og að hún stæði sig mjög vel í skólanum.

                Í febrúar 2012 óskaði móðurfjölskylda B eftir umgengni við hana á meðan hún væri á [...]. Varnaraðili samþykkti það í fyrstu en dró síðan samþykki sitt til baka. Úrskurðaði sóknaraðili þann 19. mars 2012 að umgengni skyldi fara fram.

                Þann 20. ágúst 2012 tók sóknaraðili fyrir beiðni móðurforeldra B um að B færi í fóstur til móðursystur B, J og eiginmanns hennar, K. Varnaraðili var ekki tilbúinn að samþykkja vistun B hjá J og K og rökstuddi mál sitt m.a. með þeim hætti að K væri alkóhólisti og ofbeldishneigður og J ætti við geðræna erfiðleika að stríða og þyrfti að nota geðlyf og beitti börn sín ofbeldi. Starfsmaður sóknaraðila kannaði málið og í ljós kom að þessar ásakanir voru úr lausi lofti gripnar. Þann 20. ágúst 2012 úrskurðaði sóknaraðili að B skyldi vistuð hjá J og K frá og með þeim degi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Í úrskurðarorði sóknaraðila kom jafnframt fram að óskað yrði eftir framlengingu á vistun samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga til 27. janúar 2013. Sátt náðist fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 24. október 2012 um að B yrði vistuð utan heimilis varnaraðila hjá J og K til 27. janúar 2013.

                Þann 10. september 2012 var umgengni komið á milli B og varnaraðila með samningi til tveggja mánaða. Þegar gera átti nýjan umgengnissamning í nóvember 2012 gekk erfiðlega að fá varnaraðila til þess að mæta á fundi sóknaraðila. Þann 21. desember var þó gerður nýr umgengnissamningur sem gilti til 3. janúar 2013.

                E, sambýliskona varnaraðila, var boðuð á fund sóknaraðila 15. janúar 2013 þar sem ætlunin var að kanna viðhorf hennar til B og kanna hvort að eitthvað hefði breyst frá því sem fram kom í foreldrahæfnismati 28. febrúar 2011. B mætti hins vegar ekki á fund sóknaraðila heldur bað um að fá spurningar sendar heim í tölvupósti.

                Þann 21. janúar 2013 var mál B tekið fyrir hjá sóknaraðila og kveðinn upp úrskurður um að hún skyldi áfram vera vistuð á heimili á vegum sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 27. janúar 2013, sbr. a. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá kom fram í úrskurði sóknaraðila að óskað yrði eftir framlengingu á vistun til 15. júní 2013 samkvæmt 28. gr. sömu laga. Í úrskurði sóknaraðila segir m.a. að það sé mat sóknaraðila að B og E, sambýliskona varnaraðila, hafi ekki náð að byggja upp nægilega góð tengsl sín á milli á þeim tíma sem B hefur verið í fóstri. Leggur sóknaraðili ríka áherslu á að E fari í foreldrahæfnismat og að E og varnaraðili mæti í viðtöl til Barnaverndar Reykjanesbæjar. Einnig leggur sóknaraðili til að varnaraðili, E og B, fari saman í fjölskylduráðgjöf og E og varnaraðili taki þátt í viðburðum tengdum skóla og tómstundastarfi B. Þá telur sóknaraðili mikilvægt að bæði E og varnaraðili sinni umgengni við B. Í ljósi þess að lítið hefur gengið að byggja upp jákvæð tengsl milli B og fjölskyldu hennar hjá varnaraðila og skortur hefur verið á samvinnu varnaraðila og E við sóknaraðila sá sóknaraðili sér ekki fært að samþykkja að B færi með varnaraðila til Bandaríkjanna 23.-27. janúar 2013.

II.

                Krafa sóknaraðila er reist á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002. Það er mat sóknaraðila að það sé stúlkunni fyrir bestu að vera áfram vistuð utan heimilis varnaraðila. Sóknaraðili telur nauðsynlegt að áframhaldandi vistun standi lengur heldur en tvo mánuði og metur það svo að það sé stúlkunni fyrir bestu að vera áfram vistuð á núverandi fósturheimili hjá móðursystur sinni og manni hennar þar sem hún er í nálægð og reglulegri umgengni við fjölskyldu sína hjá varnaraðila.

                Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002 sé fullnægt og úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna hafi ekki skilað árangri, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Þá telur sóknaraðili að brýnir hagsmunir stúlkunnar mæli með því að hún verði áfram vistuð utan heimilis varnaraðila og það lengur en í tvo mánuði. Í ljósi meðalhófsreglunnar telur sóknaraðili rétt að sú vistun skuli standa til 15. júní 2013 en um það leyti lýkur skólaárinu 2012-2013. Á því er jafnframt byggt af hálfu sóknaraðila að meðalhófsreglunni hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins.

                B hafi verið vistuð hjá núverandi fósturforeldrum sínum síðan 20. ágúst 2012 en þar áður hafi hún verið í vistun á [...] frá 27. janúar 2012. Á því ári sem B hafi dvalið samfellt utan heimilis varnaraðila hafi líðan hennar batnað til muna. Eftir að B hafi verið vistuð á núverandi fósturheimili hafi fyrst farið að bera á viðleitni af hálfu varnaraðila til þess að vinna í sínum málum, bæta uppeldisaðferðir sínar og sinna umgengni við B. E, sambýliskona varnaraðila, hafi hins vegar staðið fyrir utan alla slíka vinnslu og hafi ekki viljað vera í samvinnu við starfsmenn sóknaraðila. Þá virðist sóknaraðila sem E hafi ekkert unnið í því að bæta viðhorf sitt gagnvart B en það lýsi sér m.a. í því að E hafi ekkert talað við B í fyrsta skipti sem B kom á heimili hennar og varnaraðila í nóvember 2012 eftir að hafa verið vistuð utan heimilis síðan í lok janúar sama ár. Ekkert liggi jafnframt fyrir sem gefi til kynna að E sé farin að sýna B meiri skilning nú en áður né að hún sé að vinna í sjálfri sér, tilfinningum sínum gagnvart B og viðhorfi sínu til uppeldis. Það sé því mat sóknaraðila að tilætluð markmið hafi ekki náðst og því sé ekki réttlætanlegt að B fari aftur heim til varnaraðila að svo stöddu. Þá byggir sóknaraðili jafnframt á því ekki hafi tekist sættir á milli varnaraðila og móðurfjölskyldu B og sé sáttavilji varnaraðila afar takmarkaður. Það sé mat sóknaraðila að öryggi B og hagsmunir verði ekki tryggðir ef ekki takist að vinna í málefnum fjölskyldu hennar hjá varnaraðila áður en hún snýr aftur heim til varnaraðila. Í því samhengi telur sóknaraðili mjög mikilvægt að samband B og E verði styrkt.

                Varnaraðili byggir mál sitt á því að sóknaraðili hafi farið offari varðandi aðgerðir gagnvart sér og sinni fjölskyldu síðustu mánuði. Það sé engin nauðsyn að grípa til svo róttækra aðgerða sem gert hafi verið. Varnaraðili telur vel hægt að ná samkomulagi um áframhaldandi úrræði samkvæmt 24. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

                Varnaraðili byggir kröfu sína um að hafnað verði kröfu sóknaraðila á þeirri meginreglu barnaverndarlaga, sem skýrt komi fram í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, um að ætíð skuli gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reyndar áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá skuli jafnframt ávallt miðað við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Krafa varnaraðila byggist einnig á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 38. gr. barnaverndarlaga. Því séu skilyrði b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga ekki fyrir hendi þar sem ekki hafi reynt á vægari úrræði. Þá byggir varnaraðili ennfremur á því að íþyngjandi ráðstafanir eigi ekki að standa lengur en þörf krefji hverju sinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 80/2002. Þá telur varnaraðili ennfremur að krafa sóknaraðila brjóti í bága við 18. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um friðhelgi fjölskyldu og heimilis.

                Varnaraðili bendir á í þessu sambandi að hann hafi sjálfur ásamt sambýliskonu sinni farið í sálfræðimeðferð.

                Í kröfu sóknaraðila komi fram að E, sambýliskona varnaraðila, hafi verið boðuð á fund hjá sóknaraðila 15. janúar 2013 en hafi ekki mætt. Hún hafi því miður ekki komist á fundinn en óskaði eftir því í tölvupósti að fá spurningalista sem hún gæti svarað. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki séð ástæðu til að senda E neinar spurningar né bjóða henni annan fundartíma. Þess ber að gera að E sé ekki formlegur aðili að þessu máli.

                Sóknaraðili þessa máls hafi passað vel upp á að B og systir hennar C umgangist móðurfjölskyldu sína. Á sama tíma hafi sóknaraðili ítrekað komið í veg fyrir að B fengi að umgangast föðurfjölskyldu sína sem búi í [...]. Svo virðist sem sóknaraðili sé mjög meðvirkur með móðurfjölskyldu barnsins. Þannig sé allt tekið sem réttu sem móðurfjölskyldan segi á sama tíma og efast sé um trúverðugleika varnaraðila.

III.

                Varnaraðili var giftur L sem lést á heimili sínu snemma árs [...]. Saman áttu þau tvær dætur, B og C. Fyrir átti L M, fæddan [...]. Í lok árs 2009 kynntist varnaraðili E og fljótlega tóku þau upp sambúð og flutti varnaraðili á heimili hennar með dætur sínar. E á tvær dætur, N [...] ára og O [...] ára. Fjölskyldan býr í [...] eins og fósturforeldrar B.

Afskipti sóknaraðila af málefnum B eru rakin hér að framan. Að mati sóknaraðila var nauðsynlegt að grípa til ráðstafana með hagsmuni barnsins í huga. Leiddu þessi afskipti sóknaraðila til neyðarvistunar B tímabundið 6. desember 2010, sbr. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Með samþykki varnaraðila var B vistuð utan heimilis, sbr. 25. gr. barnaverndarlaga, frá 17. desember 2010 til 1. júní 2011. Dvaldi stúlkan þá að [...] í [...]. Eftir það fór hún heim til varnaraðila og E og virtist þá ganga vel um hríð en um haustið fór að bera á vanlíðan stúlkunnar sem leiddi til vistunar hennar á BUGL í nokkra daga í janúar 2012 og síðan til vistunar á [...] í eitt ár með samþykki varnaraðila. Þann 20. ágúst 2012 úrskurðaði sóknaraðili að B skyldi vistuð hjá móðursystur sinni, J og eiginmanni hennar, K, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Varnaraðili mótmælti þeirri ráðstöfun en með sátt í Héraðsdómi Reykjaness 24. október 2013 féllst varnaraðli á áframhaldandi vistun B til 27. janúar 2013. Þann 21. janúar 2013 nýtti sóknaraðili sér heimild a. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga og úrskurðaði að B skyldi dvelja áfram hjá J og K í tvo mánuði til viðbótar frá 27. janúar 2013. Þá var þess getið í úrskurði að óskað yrði eftir framlengingu á vistun til 15. júní 2013, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga, og hefur svo verið gert í dómkröfum.

                Um þann síðastgreinda úrskurð sóknaraðila er nú deilt í málinu, þ.e. hvort réttmætt hafi verið af sóknaraðila að krefjast vistunar B utan heimilis frá 27. janúar 2013 til 15. júní 2013.

                Í samræmi við 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga skipaði dómari P sálfræðing til að gera skýrslu um viðhorf B til málsins. Fram kemur í skýrslunni að B er nokkuð ákveðin í því að vilja flytja til föður síns sem fyrst. Kemur jafnframt fram í skýrslunni að henni líði vel hjá móðursystur sinni. Hún er ánægð með allan aðbúnað en sakni föður síns og systkina og vilji því fara heim til þeirra. Þá segir í skýrslunni að B virðist trúa því að samskipti og viðmót á heimili varnaraðila  hafi raunverulega breyst til batnaðar og hún tekur á sig sök á því að áður hafi gengið illa.

                Þó að vilji B standi til þess að fara til varnaraðila verður samt sem áður fyrst og fremst að horfa til hagsmuna barnsins. Í málinu hefur nægilega komið fram að sóknaraðili hefur reynt öll vægari úrræði til þess að koma málum í rétt horf en án árangurs.

                Undir rekstri málsins hjá sóknaraðila aflaði sóknaraðili mats tveggja sálfræðinga, F og G, og skiluðu þau mati 28. febrúar 2011. Í ítarlegu foreldrahæfnismati þeirra segir m.a.: „A er eðlilega greindur og á ekki við að etja alvarlega persónuleikaraskanir. Hann á sögu um að vera geðfelldur og góður fjölskyldufaðir en mótlæti í lífi hans hefur greinilega haft neikvæð áhrif á hann. Nú er hann erfiður í samskiptum, á erfitt með að greina aðalatriði frá aukaatriðum, vantreysti fólki og óttist sífellt að verið sé að stjórna honum og eyðileggja líf hans. Hann hefur lélegt innsæi í eigið tilfinningalíf, hefur lítinn skilning á þroska og líðan dætra sinna og gerir óeðlilegar kröfur til þeirra. Í stað þess að sýna skilning og bæta líðan dætranna með tillitssemi og breytingum á uppeldisaðstæðum þeirra beitir hann refsingum og harðræði, aðferðum sem dæmdar eru til að mistakast. A flutti inn á heimili unnustu sinnar án þess að hugsa fyrir velferð dætra sinna. Framkoma A við B og þær aðferðir sem hann beitti eru óásættanlegar, eru á skjön við barnaverndarlög og þurfa að breytast. A þarf að ákvarða framtíð sína og unnustu sinnar. Í þeirri ákvörðun þarf framtíð B að vera skýr. Á hún að vera fullgildur aðili í fjölskyldu hans og E og búa við jafnræði og vinsemd eða er heppilegast að hún búi tímabundið annars staðar? Þessari spurningu þarf A að svara af heilindum. B á ekki við að stríða andleg eða geðræn veikindi eins og A og E unnusta hans hafa grunað. Hún er heilbrigð og um margt mjög hæfileikaríkt barn sem þó þarfnast festu og ákveðni í uppeldi samfara öryggi, ástúð og jákvæðni“.

                Þá segir ennfremur í matsgerðinni að harðneskjuleg afstaða E, unnustu föður, hafi vakið undrun matsmanna. Skoðanir hennar séu um margt ýktari og öfgafyllri en A. Hún virðist afar langt frá því að geta sýnt B skilning og mætt henni á forsendum telpunnar. Svo virðist sem E hafi ekki hugsað framtíð sína til langs tíma. Hún hafi ekki bara eignast unnusta heldur hafi hún tekið inn á heimili sitt heila fjölskyldu, fjölskyldu sem eigi sína sögu og hafi ekki unnið úr sorg sinni.

                Eftir að þessi matsgerð var unnin hefur varnaraðili sannarlega tekið sig á og sótt sér fræðslu um uppeldismál og saman hefur hann og E sótt tíma hjá sálfræðingi í þeim tilgangi að efla foreldrahæfni sína með það að markmiði að draga úr síendurteknum samskiptavanda við B.

                Engu að síður verður ekki framhjá því litið við úrlausn málsins að E hefur ekki verið samstarfsfús við sóknaraðila og ekkert liggur í raun fyrir í málinu hvort viðhorfsbreyting hafi orðið hjá henni gagnvart líðan og tilfinningum B en E lýsti mjög neikvæðri afstöðu til B í áðurnefndu foreldrahæfnismati 28. febrúar 2011. Enda þótt að E sé ekki beinn aðili að málinu verður ekki fram hjá því gengið að hún er sambýliskona varnaraðila og mun því koma að uppeldi B. Viðhorf hennar til B skipta því miklu máli varðandi það að stúlkunni líði vel og komi til með að farnast vel.

                Að þessu virtu verður fallist á kröfu sóknaraðila um að B verði vistuð utan heimilis varnaraðila frá 27. janúar 2013 til 6. júní 2013 en fyrir liggur í málinu að skóla lýkur 6. júní það ár.

                Af hálfu sóknaraðila er ekki krafist málskostnaðar. Málskostnaður fellur niður milli aðila. Varnaraðili hefur gjafsókn í málinu. Gjafsóknarkostnaður hans, sem er þóknun lögmanns hans, Leifs Runólfssonar hdl., 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu sóknaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar, að stúlkan B verði vistuð utan heimilis síns frá 27. janúar 2013 til 6. júní 2013.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila sem er þóknun lögmanns hans, Leifs Runólfssonar hdl., 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.