Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-308

A (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
gegn
B (Unnar Steinn Bjarndal lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Fjárslit
  • Óvígð sambúð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 3. desember 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 23. nóvember sama ár í máli nr. 618/2021: A gegn B á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks samkvæmt XIV. kafla laga nr. 20/1991. Með úrskurði Landsréttar var meðal annars staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila um að við fjárslit milli aðila skyldu koma í hlut hvors þeirra um sig þær eignir sem þau voru skráð fyrir á viðmiðunardegi skipta, fyrir utan bifreiðina […] sem skyldi koma í hlut leyfisbeiðanda og félagsins C ehf. sem skyldi koma í hlut gagnaðila. Jafnframt var nokkrum kröfum málsaðila vísað frá héraðsdómi.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og varði mikilsverða almannahagsmuni. Með úrskurði Landsréttar hafi verið vikið frá fordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum um gagnkvæma eignamyndun á sambúðartíma og viðurkenndum meginreglum við skiptingu á sameiginlegu búi við slit sambúðar. Litið hafi verið fram hjá verðmæti vinnuframlags leyfisbeiðanda vegna vinnu inni á heimili og ekki tekið tillit til verðmæta sem hún hafi lagt til við upphaf sambúðar aðila. Þá hafi Landsréttur ekki tekið afstöðu til allra málsástæðna hennar, auk þess sem viðmiðunardagur skipta sé rangur. Því sé ástæða til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni til.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni til. Beiðninni er því hafnað.