Hæstiréttur íslands

Mál nr. 501/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. desember 2005.

Nr. 501/2005.

M

(Garðar Briem hrl.)

gegn

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að K hefði forsjá tveggja barna málsaðila til bráðabirgða þar til dómur gengi í forsjármáli þeirra, sem og niðurstaða um umgengnisrétt og meðlagsgreiðslur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2005, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að hún hafi forsjá tveggja barna sinna og sóknaraðila til bráðabirgða þar til dómur gengur í forsjármáli milli aðila og jafnframt kveðið á um umgengnisrétt og meðlagsgreiðslur. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að honum verði til bráðabirgða falin forsjá barnanna, A, f. [...] 2003, og B, f. [...] 2005. Þá krefst hann þess að dæmt verði að samvistir barnanna skuli vera vika í senn hjá hvoru foreldri, þó þannig að það fyrirkomulag hefjist hjá drengnum 1. mars 2006. Til vara krefst hann þess að forsjá barnanna verði til bráðabirgða áfram sameiginleg og samvistartími sóknaraðila við stúlkuna verði aldrei minni en aðra hvora helgi, frá klukkan 16 á fimmtudegi til klukkan 17 á sunnudegi, en við drenginn aðra hvora helgi frá klukkan 8.30 til 13.30 og 14 til 17 hvorn dag. Í vikunni næst á eftir helgarumgengni dvelji bæði börnin hjá sóknaraðila einn eftirmiðdag á miðvikudegi frá klukkan 16 til 18. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að lögheimili barnanna verði hjá sér til bráðabirgða og kveðið verði á um inntak umgengnisréttar og meðlag meðan á rekstri forsjármálsins stendur. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Börn málsaðila eru ung að árum, drengurinn rúmlega átta mánaða og telpan rúmlega tveggja ára. Foreldrarnir hafa ekki komist að samkomulagi um forsjá þeirra til bráðabirgða þar til forsjármáli þeirra verður ráðið til lykta. Ekki hefur heldur tekist sátt um umgengni við börnin þann tíma. Fallist er á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar, að það sé börnunum fyrir bestu að vera í forsjá varnaraðila til bráðabirgða. Þá er einnig fallist á þá lágmarksumgengni, sem ákveðin er í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2005.

Í málinu er deilt um forsjá tveggja barna aðila, A, [kt.] og B, [kt.]. Málið var höfðað 20. október 2005 og þingfest 26. sama mánaðar. Þann dag var einnig lögð fram krafa um bráðabirgðaforsjá barnanna og er sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Sóknar­aðili er K, [...]. Varnaraðili er M, [...]. Hann skilaði greinargerð í bráðabirgðaforsjárþættinum 31. október. Dómari leitaði sátta með aðilum 4. nóvember, en sættir tókust ekki. Málið var því munnlega flutt og ágreiningur aðila um bráðabirgðaforsjá barnanna tekinn til úrskurðar.

Sóknaraðili krefst þess að dómari úrskurði á þann veg að henni verði falin óskipt forsjá barnanna til bráða­birgða þar til endanlegur dómur gengur í forsjár­málinu. Jafnframt úrskurði dómari til bráðabirgða um inntak umgengnisréttar varnar­aðila við börnin. Loks verði kveðið á um skyldu varnaraðila til að greiða tvöfalt með­lag með hvoru barni frá 1. júní 2005 til þess tíma er dómur fellur í málinu.

Varnaraðili krefst þess aðallega að honum verði falin forsjá barnanna til bráða­birgða og að í úrskurði verði kveðið á um jafnar samvistir beggja aðila við börnin, til skiptis viku og viku í senn. Til vara er þess krafist að forsjá barnanna verði áfram sam­eigin­leg á meðan óleyst er úr forsjármálinu og að samvistir aðila hvors um sig við börnin verði með fyrrgreindum hætti. 

I.

Aðilar hófu sambúð árið 2001. Þeim fæddist dóttirin A [...] 2003 og sonurinn B [...] 2005. Þau slitu samvistir 1. júní síðastliðinn og flutti varnaraðili þá út af sameiginlegu heimili þeirra að [...]. Gögn málsins, þar á meðal tölvu­póst­sendingar, bera með sér að samskipti aðila um hags­muni barnanna og samvistir varnaraðila við þau hafi verið erfið og samskiptin stöðugt færst á verra veg síðustu vikur og mánuði. Greinir aðila á um ástæður þessa. Hitt liggur fyrir, að vegna ágreinings aðila hitti varnaraðili ekki börnin samfellt í 3-4 vikur þar til A fór til dvalar hjá honum helgina 4.-6. nóvember. Telpan, sem er rúmlega tveggja ára, er í leikskólanum [...], en snáðinn, sem er tæplega átta mánaða og enn á brjósti, er að jafnaði heima hjá sóknar­aðila. Hún er í fæðingarorlofi, en hyggst fara aftur út á vinnumarkaðinn 1. febrúar 2006. Á heimili sóknaraðila búa einnig tveir synir hennar, 16 og 18 ára, frá fyrri sambúð. Varnar­aðili er forstöðumaður hjá [...], en vinnur að auki við [...]. Varnaraðili mun eiga ónýtt fæðingarorlof í tengslum við fæðingu B, tvo mánuði, sem hann vill nýta í desember, og eftir atvikum í janúar, til að geta verið miklum samvistum við bæði börnin. Ekki liggur annað fyrir en að heimilis­aðstæður beggja aðila séu góðar og að fjár­hags­staða þeirra sé trygg.

II.

Við sáttaumleitanir 4. nóvember síðastliðinn voru ræddir ýmsir kostir til að leysa ágreining aðila um forsjá og umgengni við börnin, án þess að til dóms­úrskurðar þyrfti að koma. Síðasta sáttatilboð sóknaraðila hljóðaði á þann veg að forsjá barnanna yrði áfram sameiginleg, til bráðabirgða, á meðan óleyst væri úr forsjár­­ágreiningi aðila og á meðan myndu börnin eiga lögheimili hjá henni. Telpan færi síðan til dvalar hjá varnaraðila aðra hvora helgi, frá klukkan 16 á fimmtudegi til klukkan 17 á sunnudegi. Í vikunni næst á eftir helgar­umgengni myndi telpan svo dvelja hjá varnaraðila einn eftir­miðdag á miðvikudegi, frá klukkan 16 til 18. Í það skipti færi sá stutti með systur sinni til varnaraðila, en að auki myndi varnaraðili hafa hann hjá sér aðra hvora helgi, laugardag og sunnudag, frá klukkan 08:30 til 13:30 og 14 til 17 hvorn dag, en umrætt hlé á samvistum báða dagana væri gert vegna brjósta­gjafar á heimili sóknaraðila. Gagntilboð varnaraðila var á þann veg að hann féllist á sameiginlega forsjá til bráða­birgða og lögheimili barnanna hjá sóknaraðila, en á móti fengi hann telpuna til sín aðra hvora helgi, frá klukkan 16 á fimmtudegi til mánu­dags­­morguns, en þá myndi hann skila henni í leikskólann. Einnig myndi telpan dvelja hjá honum einn dag í vikunni á eftir helgarumgengni, t.d. á miðvikudegi, frá klukkan 16 til næsta morguns er hann færi með hana í leikskólann. Í sömu viku og sama dag kæmi snáðinn til dvalar hjá varnaraðila frá klukkan 16 til 18, en að öðru leyti hefði hann umgengni við soninn aðra hvora helgi, laugardag og sunnudag, frá klukkan 10-18 hvorn dag.

Þar sem ekki náðist samkomulag milli aðila í nefndu sáttaþinghaldi héldu þeir fram ýtrustu kröfum til úrskurðar varðandi forsjá og umgengnisrétt, en varnaraðili sam­þykkti kröfu sóknaraðila um tvöfalt meðlag með börnunum.

III.

Aðilar byggja báðir kröfugerð sína í þessum þætti málsins á 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, en eðli máls samkvæmt styðst varakrafa varnaraðila ennfremur við 2. mgr. 35. gr. laganna. Sóknaraðili bendir á að börnin séu ung að árum og hafi verið í umsjá hennar frá fæðingu. Börnin hafi því eðlilega tengst henni mun betur en varnaraðila, sem hafi verið mikið fjarri heimilis vegna vinnu sinnar og þekki því lítið til daglegra þarfa þeirra. Eigi þetta sérstaklega við um B, sem sé enn á brjósti, en varnaraðili hafi flutt út af heimili barnanna þegar drengurinn hafi verið aðeins tveggja og hálfs mánaðar gamall. Aðstæður varnaraðila séu og mun lakari til að fara með forsjá barnanna þar sem hann sé mikið í útlöndum vegna vinnu sinnar og þjálfi [...] öll kvöld. Sóknaraðili kveður skapofsa varnaraðila og hótanir í hennar garð hafa valdið því að umgengni hans við börnin hafi orðið minni en efni stóðu til, en þar sem ekki hafi tekist að semja við hann um inntak og fyrir­komu­lag umgengni eigi hún erfitt með að treysta honum fyrir börnunum. Krafa varnaraðila um jafnar samvistir aðila við börnin, til skiptis viku og viku í senn, sýni hve lítið inn­sæi hann virðist hafa í þarfir barnanna. Eins og sakir standa telur sóknaraðili því að hagsmunir barnanna krefjist þess að henni verði falin forsjá þeirra til bráðabirgða, svo að börnunum verði tryggður stöðugleiki og öryggi í uppeldi sínu hjá því foreldri sem verið hafi aðalumönnunaraðili þeirra hvors um sig frá fæðingu. Koma þurfi hins vegar á umgengni barnanna við varnaraðila í samræmi við aldur þeirra og hagsmuni að öðru leyti.

Varnaraðili byggir einnig á því að hagsmunum barnanna sé betur borgið, fái hann forsjá þeirra til bráðabirgða. Hann sé tengdur börnunum sterkum böndum, sérstak­lega A, en á meðan hann og sóknaraðili hafi verið í sambúð hafi hann tekið jafnan þátt í daglegri umönnun hennar. Telpan sé því mjög hænd að honum og sæki til hans bæði öryggi og ástúð. Varnaraðili hafi tekið minni þátt í umönnun B, en það sé vegna afstöðu sóknaraðila eftir sambúðarslitin. Hafi sóknar­aðili skert samvistir hans við drenginn og systur hans svo verulega, að hljóti að bera vott um skort hennar á næmni og skilningi á þörfum barnanna. Varnaraðili hafi þó keypt fast­eign í nágrenni við sóknaraðila og lagt ofuráherslu á að fá að taka þátt í umönnun barnanna og þróa samband sitt við drenginn. Þá sé hann búinn að hagræða vinnu­­tíma sínum þannig að hann geti auðveldlega annast um börnin og njóti þar fulls skilnings beggja vinnuveitenda sinna. Varnaraðili bendir einnig á að sóknaraðili sé nú senn að ljúka töku fæðingar­orlofs og skapist þá veruleg óvissa um framtíð barnanna, enda sé með öllu óvíst hvort og hvar hún fái atvinnu. Hún hljóti þó að hætta með drenginn á brjósti, fari hún að vinna 1. febrúar 2006, en hann sé nú þegar nánast hættur á brjósti, enda orðinn sjö og hálfsmánaðar gamall. Sökum alls þessa standi ekkert í vegi fyrir því að varnaraðili fari með óskipta forsjá barnanna eða sé að minnsta kosti samvistum við þau til jafns við sóknar­aðila, en varnaraðili leggi mikla áherslu á að börnin haldi góðum tengslum við báða foreldra sína og fái að umgangast þá jafnt. Því telur hann rétt að úrskurðað verði, hvort heldur í samræmi við aðal- eða varakröfu sína, að börnin dvelji til skiptis hjá aðilum, viku og viku í senn. Varnaraðili kveðst þó vera reiðubúinn að gefa drengnum tveggja mánaða aðlögunartíma að jöfnum samvistum, í sam­ráði við sóknaraðila og á meðan hann sé sjálfur í fæðingar­orlofi, en miða beri við að frá 1. janúar 2006 verði samvistir foreldra og barna jafnar.

IV.

Það er grundvallarmarkmið barnalaga nr. 76/2003, sem reist er á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989, að standa vörð um hags­muni barna þannig að þeir sitji ávallt í fyrirrúmi og hagsmunir foreldra víki að sama skapi þegar ágreiningur um málefni barna koma til kasta dómstóla. Þetta grunnsjónarmið endurspeglast í 34. og 35. gr. laganna, en þar er lögð sú ábyrgð og skylda á dómara að kveða á um forsjá barns, umgengni og meðlag, hvort heldur til frambúðar eða til bráðabirgða, „eftir því sem barni er fyrir bestu“, takist ekki dómsátt milli foreldra þess um sömu atriði.

Tilvitnaðar lagagreinar er að finna í V. kafla barnalaga, sem ber heitið „foreldra­skyldur og forsjá“. Þar segir, að við samvistarslit foreldra eigi barnið rétt á forsjá þeirra, annars eða beggja. Inntak þessa réttar barnsins felst fyrst og fremst í skyldum foreldranna, sem tíundaðar eru í 28. gr. laganna. Rétti foreldra er þar lýst í mun færri orðum, en hann felst einkum í því að ráða persónu­legum högum barnsins, ákveða búsetu þess og fara með lögformlegt fyrirsvar barnsins. Sá réttur foreldra er lögfestur í þágu barna. Það er því útbreiddur og leiður misskilningur að barnalögin hafi verið sett til að tryggja réttindi foreldra og vernda sjálfstæða hagsmuni þeirra af úrlausn einstakra forsjármála.

Í þeim ágreiningi sem hér er til úrlausnar var reynt til þrautar að ná sáttum milli aðila um hagsmuni barna þeirra, A og B, með það eitt að leiðar­ljósi að tryggja sem best velferð og þarfir barnanna til bráðabirgða á meðan óleyst er úr forsjármálinu og koma þannig í veg fyrir að dómstóll þyrfti að skera á hnútinn. Hefði tekist sátt um áframhaldandi sameiginlega forsjá, börnin átt tíma­bundið lögheimili hjá sóknaraðila og samkomulag tekist um samvistir þeirra við varnar­aðila, verður að ætla að aðilar hefðu tekið höndum saman um að láta samkomu­lagið ganga upp og slíðra sverðin á meðan forsjármálið er rekið fyrir dómi.

Til að sameiginleg forsjá geti haldist og barnið fái notið ávinnings af henni verða foreldrar að geta ræðst við á friðsamlegan hátt og vera samstíga um helstu þarfir og hagsmunamál barnsins. Snar þáttur í slíkri samvinnu er að foreldrar séu sammála um hvernig haga skuli samvistum þess við það foreldri, sem barnið hefur ekki fasta búsetu hjá. Takist foreldrum vel til í þessum efnum má ætla að velferð barnsins sé betur borgið með sameigin­legri forsjá en ekki, óháð því hvort foreldrarnir hafi nokkurn tíma búið saman eður ei. Greini foreldra hins vegar verulega á um hagsmuni barnsins er viðbúið að brestir komi fljótt í ljós í samskiptum þeirra og fyrr en varir sé barnið orðið miðpunktur í tog­streitu foreldranna og jafnvel bitbein í harð­vítugum forsjár­­ágreiningi. Í slíkri stöðu víkur réttur barnsins fyrir hagsmunum foreldranna og barnið verður í raun þolandi hinnar sameiginlegu forsjár.

Í máli því sem hér er til meðferðar er ofangreind staða komin upp. Aðilar hafa vart getað talast við á undanförnum vikum og mánuðum og neikvæð samskipti þeirra hafa farið fram ýmist með tölvupóstsendingum eða fyrir milligöngu lögmanna. Þrátt fyrir þá lokakosti, sem aðilar settu hvor öðrum til að ljúka mætti bráðabirgðaforsjár­þætti málsins, er ljóst að í raun ber himinn og haf á milli þeirra í afstöðu til þess hvernig haga beri samvistum þeirra hvors um sig við börn sín, með tilliti til þarfa og hagsmuna hinna síðarnefndu. Þar sem sættir tókust ekki um þetta atriði er það álit dómsins að nú verði hagsmunir aðila, annars eða beggja, að víkja fyrir hagsmunum barnanna.

Enn liggur ekki fyrir í málinu sálfræðileg álitsgerð um forsjárhæfi aðila og hæfni þeirra hvors um sig sem uppalanda. Verður því ekki tekin afstaða til þess hjá hvorum aðila hagsmunum barnanna er betur borgið til frambúðar. Við ákvörðun dómara um forsjá þeirra til bráðabirgða ráða hins vegar eftirfarandi atriði úrslitum.

Börnin eru bæði kornung og B er enn á brjósti. Sóknaraðili upplýsti fyrir dómi að snáðinn væri þó farinn að nærast á barnamat, sam­hliða móðurmjólkinni og því sleppti hún nú daglega einni gjöf, seinnipart morguns. Það er hvorki á valdi dómara né á færi varnaraðila að hafa áhrif á það hversu lengi sóknaraðili brjóstfæðir son sinn. Um það hefur hún ein ákvörðunarvald og ber að haga því í samræmi við þarfir drengsins, möguleika sína og vilja til áframhaldandi brjóstagjafa og persónu­legar aðstæður að öðru leyti. Drengurinn hefur búið hjá sóknaraðila frá fæðingu og þekkir hana mun betur en nokkra aðra persónu. A hefur einnig búið hjá sóknaraðila alla sína skömmu ævi og er hagvön á heimili hennar. Aðstæður telpunnar og aðbúnaður hjá sóknaraðila krefjast þess ekki að breyting verði gerð á búsetu hennar að svo stöddu. Þá er ekkert fram komið í málinu, sem réttlætt gæti að skilja systkinin að. Með framangreind atriði í huga velkist dómurinn ekki í vafa um að það sé nú börnunum fyrir bestu að lúta óskiptri forsjá sóknaraðila, þar sem sættir tókust ekki um annað. Ber því að ákvarða svo í samræmi við 1. mgr. 35. gr. barnalaga.

Vegna ungs aldurs barnanna vakna spurningar um hvort dómara sé rétt, á þessu stigi málsmeðferðar, að úrskurða um fyrirkomulag og inntak umgengni varnar­aðila við börnin, enda liggja ennþá fyrir takmarkaðar upplýsingar um persónulega eigin­leika hans og hagi. Á þetta sérstaklega við um drenginn B. Er dómara enda heimilt samkvæmt 1. mgr. 35. gr., sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga, að hafna því að ákveða inntak umgengnisréttar til bráðabirgða ef slík úrlausn er barni fyrir bestu. Með slíkri ákvörðun er ekki og má ekki vega að gagnkvæmum umgengnisrétti foreldris og barns, sem nýtur verndar 1. og 2. mgr. 46. gr. laganna. Það sjónarmið gæti eitt réttlætt slíka ákvörðun í þessu máli, að dómurinn teldi réttast að inntak umgengninnar yrði ákveðið á öðrum vettvangi, að höfðu samráði við og samkvæmt ráðleggingum frá sér­kunnáttu­mönnum á þessu sviði. Með hliðsjón af gagnkvæmum hagsmunum barnanna og varnar­aðila, telur dómurinn þó ekki rétt, eins og sakir standa, að færast undan því með öllu að úrskurða um samvistir þeirra, en hafa verður í huga að með ákvörðun dómsins er kveðið á um lágmarksumgengni varnaraðila við börnin, í þeirri von að aðilum takist að ná saman um rýmri umgengni í kjölfar dómsniðurstöðunnar.

A er rúmlega tveggja ára gömul og gengur í leikskóla alla virka daga vikunnar. Á þessum aldri þurfa börn, umfram allt annað, stöðugleika, festu og öryggi, jafnt í dag­legu umhverfi sínu sem umönnun. Sálarlíf svo ungra barna er brot­hætt. Þarfir þeirra beinast fyrst og fremst að því að fá ást og umhyggju, skilning og vernd foreldris eða foreldra. Með þessa hagsmuni telpunnar í huga, sem virðast að óbreyttu vera tryggðir hjá sóknaraðila telur dómurinn að telpunni sé nú fyrir bestu að dvelja samvistum við varnaraðila aðra hvora helgi frá klukkan 16 á föstudegi til klukkan 17 á sunnudegi, þannig að varnaraðili sæki hana í leikskólann á föstudegi og skili henni á heimili sóknaraðila á sunnudegi. Þá skuli telpan dvelja hjá varnaraðila einn eftirmiðdag í næstu viku á eftir, á miðvikudegi frá klukkan 16 til 18, þannig að varnaraðili bæði sæki og skili telpunni á heimili sóknaraðila. Í sama skipti skal B dvelja samvistum við systur sína og varnaraðila. Vegna ungs aldurs hans og þess að hann er enn á brjósti skal varnaðili þess utan eiga rétt á samvistum við drenginn aðra hvora helgi, þá sömu og telpan er hjá honum, frá klukkan 14 til 18 á laugardegi og sunnudegi.

Miðað við þá staðreynd að A var samvistum við varnaraðila helgina 4.-6. nóvember síðastliðinn verður við það miðað að umgengni samkvæmt framan­sögðu við bæði börnin hefjist helgina 18.-20. nóvember.

Að öðru leyti en því sem nú hefur verið ákvarðað af dómara, sem ekki þekkir til málsaðila, barna þeirra og aðstæðna framar því sem áður hefur komið fram, verður dómurinn að leggja það traust á aðila að þeir reyni eftir megni að bæta samskipti sín um málefni barnanna, barnanna vegna og að sóknaraðili komi til móts við óskir varnar­aðila og þarfir barnanna um rýmri umgengni en úrskurðuð hefur verið. Skiptir þar sérstaklega miklu máli fyrir drenginn, á meðan hann er svo ungur, að hann hitti föður sinn oftar þótt samvistirnar megi vera stuttar og eftir atvikum eiga sér stað inni á heimili sóknaraðila. Tíð samskipti feðganna er hlutur sem drengurinn á rétt á að njóta svo að þeir kynnist betur og tengist eðlilegum tilfinningaböndum föður og sonar. Þá verður að brýna aðila á að þótt forsjá beggja barna verði nú til bráða­birgða á hendi annars þeirra ber báðum aðilum sama og óbreytt skylda til að standa vörð um réttindi barnanna og ala þau upp í sameiningu.

Vegna þeirra atriða, sem nú síðast hafa verið nefnd, ákvað dómari að bjóða aðilum að haldið verði sérstakt sáttaþinghald í forsjármálinu fyrir næstu jól. Af þeim sökum tóku aðilar enga afstöðu til óska eða krafna um inntak og fyrirkomulag umgengni um jól og áramót. Eftir atvikum er ekki útilokað að semja megi um rýmri umgengni varnaraðila við börnin í þessu þinghaldi.

Varnaraðili hefur samþykkt kröfu sóknaraðila um greiðslu svokallaðs tvöfalds með­lags með hvoru barni um sig frá og með 1. júní 2005. Er óumdeilt að hann er vel aflögufær til að inna slíkt meðlag af hendi. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 35. gr. barnalaga, sbr. og 1. mgr. 53. gr., 2. og 6. mgr. 57. gr. og loks 2. mgr. 55. gr., sem skilgreinir lagalega merkingu einfalds meðlags, þykir rétt að taka þá kröfu sóknaraðila til greina.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisniðurstöðu í forsjármálinu.  

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðs­­dómara.

ÚRSKURÐARORÐ:

Sóknaraðili, K, fer ein með forsjá A, [kt.] og B, [kt.] barna sinna og varnaraðila, M, fram að málalyktum í forsjármáli aðila nr. E-1995/2005.

A skal dvelja hjá varnaraðila aðra hvora helgi, frá klukkan 16 á föstu­degi til klukkan 17 á sunnudegi, í fyrsta skipti helgina 18.-20. nóvember 2005. Varnaraðili sæki telpuna í leikskóla á föstudegi og skili henni á heimili sóknaraðila á sunnudegi. Telpan skal að auki dvelja hjá varnaraðila einn eftirmiðdag í næstu viku á eftir helgarumgengni, á miðvikudegi frá klukkan 16 til 18 og skal varnaraðili bæði sækja og skila telpunni á heimili sóknaraðila. Í sama skipti skal B dvelja samvistum við systur sína og varnaraðila. Þess utan skal drengurinn dvelja hjá varnar­aðila aðra hvora helgi, þá sömu og telpan, frá klukkan 14 til 18 á laugardegi og sunnu­degi. Verði ekki öðruvísi samið milli aðila skal þessi skipan umgengni vera óbreytt fram að lyktum í forsjármálinu.

Varnaraðili greiði sóknaraðila meðlag með börnunum frá 1. júní 2005 til þess tíma er lyktir fást í forsjármálinu og skal mánaðarleg fjárhæð meðlags með hvoru barni um sig nema tvöfaldri fjárhæð barnalífeyris eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma af Tryggingastofnun ríkisins.

­