Hæstiréttur íslands

Mál nr. 393/2005


Lykilorð

  • Samningur
  • Brostnar forsendur
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006.

Nr. 393/2005.

Kasper ehf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf.

(Erlendur Gíslason hrl.)

og gagnsök

 

Samningur. Brostnar forsendur. Skaðabætur.

K, sem rak veitingastað í Reykjavík á árunum 2001 til 2003 og Ö, framleiðandi og innflytjandi drykkjarvara, gerðu með sér viðskiptasamning í september 2001, ásamt viðaukasamningi sem undirritaður var í janúar 2003. Í júlí 2003 tilkynnti Ö að viðaukasamningurinn væri úr gildi fallinn vegna brostinna forsendna. K féllst ekki á það og höfðaði mál á hendur Ö þar sem hann krafðist efndabóta vegna ætlaðra vanefnda Ö á viðaukasamningnum. Talið var að andmæli K við yfirliti Ö um útlagðan kostnað vegna viðaukasamningsins væru of seint fram komin og komust þau ekki að fyrir Hæstarétti. Ágreiningslaust var að Ö réði ekki hljómsveitir til að leika á veitingastað K tvær helgar í júnímánuði 2003 og vanefndi að því leyti viðaukasamninginn. Þrátt fyrir það yrði að telja, að í júlí 2003 hafi verið fullreynt að framkvæmd viðaukasamningsins um ráðningu hljómsveita og kynningu á veitingastað K myndi skila þeim árangri varðandi veltu staðarins og aukningu á sölu á vörutegundum Ö að báðir aðilar hefðu verulegan hag af samstarfinu, en það var sérstaklega orðað sem forsenda viðaukasamningsins. Var fallist á með Ö að forsenda fyrir áframhaldandi samstarfi hafi verið brostin og Ö rétt að fella samninginn úr gildi. Var Ö því sýknað af kröfum K.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

          Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2005. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 70.597.270 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 530.000 krónum frá 5. júlí 2003 til 12. sama mánaðar, af 1.060.000 krónum frá þeim degi til 19. sama mánaðar, af 1.590.000 krónum frá þeim degi til 26. sama mánaðar, af 2.120.000 krónum frá þeim degi til 2. ágúst sama ár, af 2.650.000 krónum frá þeim degi til 9. sama mánaðar, af 3.180.000 krónum frá þeim degi  til 16. sama mánaðar, af 3.710.000 krónum frá þeim degi til 23. sama mánaðar, af 4.240.000 krónum frá þeim degi til 30. sama mánaðar, af 4.770.000 krónum frá þeim degi til 6. september sama ár, af 5.300.000 krónum frá þeim degi til 13. sama mánaðar, af 5.830.000 krónum frá þeim degi til 20. sama mánaðar, af 6.360.000 krónum frá þeim degi til 27. sama mánaðar, af 6.890.000 krónum frá þeim degi til 4. október sama ár, af 7.420.000 krónum frá þeim degi til 11. sama mánaðar, af 7.950.000 krónum frá þeim degi til 18. sama mánaðar, af 8.480.000 krónum frá þeim degi til 25. sama mánaðar, af 9.010.000 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 9.540.000 krónum frá þeim degi til 8. sama mánaðar, af 10.070.000 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 10.600.000 krónum frá þeim degi til 22. sama mánaðar, af 11.130.000 krónum frá þeim degi til 29. sama mánaðar og af 11.660.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst aðaláfrýjandi að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 14.117.647 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 11.660.000 krónum frá 22. júní 2004 til greiðsludags. Til þrautavara krefst hann  8.267.648 króna með dráttarvöxtum frá sama tíma en að því frágengnu skaðabóta að mati Hæstaréttar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

          Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. nóvember 2005. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað og aðaláfrýjanda verði gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

          Aðaláfrýjandi rak veitingastað í Reykjavík á árunum 2001 til 2003 en gagnáfrýjandi er framleiðandi og innflytjandi drykkjarvara. Gerðu þeir með sér viðskiptasamning í september 2001. Þann 31. janúar 2003 gaf aðaláfrýjandi út viljayfirlýsingu um endurnýjun þess samnings og undirrituðu málsaðilar viðaukasamning sama dag. Er efni þessara gerninga rakið í hinum áfrýjaða dómi. Með bréfi 4. júlí 2003 tilkynnti gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda að fyrrgreindur viðaukasamningur væri úr gildi fallinn vegna brostinna forsendna. Á það féllst aðaláfrýjandi ekki. Höfðaði hann mál þetta 18. júní 2004 og krefst efndabóta vegna ætlaðra vanefnda gagnáfrýjanda á viðbótarsamningnum.

II.

          Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti dró aðaláfrýjandi í efa réttmæti yfirlits um útlagðan kostnað gagnáfrýjanda vegna fyrrgreinds viðaukasamnings og taldi að ekki yrði á því byggt við úrlausn málsins. Yfirlit þetta lagði gagnáfrýjandi fram með greinargerð sinni til héraðsdóms og reisti meðal annars á því málatilbúnað sinn þar fyrir dómi. Eru þessi andmæli aðaláfrýjanda of seint fram komin og komast ekki að fyrir Hæstarétti.

          Ágreiningslaust er að gagnáfrýjandi réði ekki hljómsveitir til að leika á veitingastað aðaláfrýjanda tvær helgar í júnímánuði 2003 og vanefndi að því leyti 1. gr. viðaukasamnings aðila 31. janúar 2003. Þrátt fyrir það verður að telja að fullreynt hafi verið, þegar gagnáfrýjandi sendi aðaláfrýjanda bréfið 4. júlí 2003, að framkvæmd viðbótarsamningsins um ráðningu hljómsveita og kynningu á veitingastað aðaláfrýjanda myndi ekki skila þeim árangri varðandi veltu staðarins og aukningu á sölu á vörutegundum gagnáfrýjanda að báðir aðilar hefðu verulegan hag af samstarfinu, en það var sérstaklega orðað sem forsenda viðaukasamningsins í aðfararorðum hans. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

          Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Kasper ehf., greiði gagnáfrýjanda, Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2005.

         Mál þetta var þingfest 22. júní 2003.  Það var dómtekið 23. mars sl. en var tekið til munnlegs málflutnings að nýju 22. júní sl. og dómtekið sama dag.

         Stefnandi er Kasper ehf., Stórhöfða 23, Reykjavík.

         Stefndi er Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., Grjóthálsi 7-11, Reykjavík.

Dómkröfur

         Stefnandi krefst þess að stefnda, Ölgerðinni Agli Skallagrímsson ehf., verði gert að greiða stefnanda 70.597.270 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 530.000 kr. frá 5. til 12. júlí 2003, af 1.060.000 kr. frá 12. til 19. júlí 2003, af 1.590.000 kr. frá 19. til 26. júlí 2003, af 2.120.000 kr. frá 26. júlí til 2. ágúst 2003, af 2.650.000 kr. frá 2. ágúst til 9. ágúst 2003, af 3.180.000 kr. frá 9. ágúst til 16. ágúst 2003 og af 3.710.000 kr. frá 16. ágúst til 23. ágúst 2003 og af  4.240.000 kr. frá 23. ágúst til 30. ágúst 2003 og af 4.770.000 kr. frá 30. ágúst til 6. september 2003 og af 5.300.000 kr. frá 6. september til 13. september 2003 og af 5.830.000 kr. frá 13. september til 20. september 2003 og af 6.360.000 kr. frá 20. september til 27. september 2003 og af 6.890.000 kr. frá 27. september til 4. október 2003 og af 7.420.000 kr. frá 4. október til 11. október 2003 og af 7.950.000 kr. frá 11. október til 18. október 2003 og af 8.480.000 kr. frá 18. október til 25. október og af 9.010.000 kr. frá 25. október til 1. nóvember 2003 og af kr. 9.540.000 frá 1. nóvember til 8. nóvember 2003 og af 10.070.000 kr. frá 8. nóvember til 15. nóvember 2003 og af 10.600.000 kr. frá 15. nóvember til 22. nóvember 2003 og af 11.130.000 kr. frá 22. nóvember til 29. nóvember 2003 og af 11.660.000 kr. frá 29. nóvember 2003 til greiðsludags eða lægri fjárhæð að mati dómsins.

         Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

         Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.  Sérstaklega er þess óskað að málskostnaður verði ákvarðaður m.t.t. hárrar fjárhæðar dómkröfu stefnanda.

Málavextir

         Málsaðilar gerðu með sér viðskiptasamning í september 2001.  Hinn 31. janúar 2003 gerðu þeir með sér svonefndan viðaukasamning sem skyldi vera viðauki við samninginn frá 2001.  Skyldi samningurinn gilda til loka september 2005.

         Samkvæmt efni sínu er samningurinn frá 2003 samstarfssamningur um markaðsstuðning stefnda við stefnanda.  Markmið samningsins var að fá hljómsveitir inn á Champions, veitingastað sem stefnandi rak, og auglýsa staðinn upp sem fyrsta flokks skemmtistað í Reykjavík.  Segir að aðilum samningsins sé ljóst að báðir aðilar verði að hafa verulegan hag af samstarfinu.  Hagur stefnanda felist í stóraukningu á gestafjölda veitingastaðarins og þar með veltu en hagur stefnda í aukinni sölu á vörum stefnda ásamt tryggingu á langtímasamningi við Champions.

         Í 1. gr. samningsins segir m.a. að stefndi skuli leggja til hljómsveitir til að spila á Champions í sjö mánuði, frá 1. mars og út september 2003 og tryggja greiðslur til viðkomandi hljómsveita á þessu tímabili.  Á þessu tímabili skyldi stefndi fá allar tekjur af miðasölu á Champions.  Frá 1. október 2003 til 30. september 2005 skyldu stefndi og Champions í samstarfi halda áfram að fá hljómsveitir á veitingastaðinn og skyldi samstarfinu háttað þannig að ÖES sæi um að bóka hljómsveitir, sjá um miðasölu og auglýsingar.  Skyldu tekjur af miðasölu hverrar helgar þá skiptast með ákveðnum hætti.

         Í 3. gr. samningsins segir m.a. að stefndi muni til viðbótar við tryggingu greiðslna til hljómsveita standa straum af markaðssetningu á þeim kvöldum sem samningurinn nær til.

         Í framhaldi af kvörtunum stefnanda á því að stefndi efndi ekki samninginn, sbr. tölvupóstsamskipti aðila, sendi stefndi stefnanda bréf, dags. 4. júlí 2003, þar sem tilkynnt var að stefndi teldi framangreindan samning, dags. 31. janúar 2003, ógildan vegna brostinna forsendna.  Ástæða þessa var sú, samkvæmt bréfinu, að þar sem það hafi verið skýr forsenda stefnda fyrir gerð viðaukasamnings að hafa raunverulegan hag af samstarfinu, m.a. með aukinni sölu vara sinna, sé augsýnilega um brostna forsendu að ræða.  Í framhaldi af bréfi þessu sendi umboðsmaður stefnanda stefnda bréf, dags. 7. júlí 2003, þar sem hinum síðarnefnda var tilkynnt að ekki væri fallist á einhliða ákvörðun hans með nánar tilgreindum rökum.

         Þann 9. september 2003 höfðaði stefnandi mál gegn stefnda vegna vanefnda á umræddum samningi, sbr. mál nr. E-9783/2003.  Þremur mánuðum síðar eða þann 4. desember 2003 seldi stefnandi rekstur sinn, þ.e. veitingastaðinn Champions cafe.  Var því máli vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms dags. 9. júní sl. að kröfu stefnda þar sem talið var að málsgrundvöllur hefði breyst við söluna.  Höfðaði stefnandi síðar mál þetta til greiðslu skaðabóta vegna vanefnda stefnda á samningnum.  Af hálfu stefnda er því mótmælt að samningurinn hafi verið vanefndur af hans hálfu og skaðabótakröfu mótmælt.

Málsástæður stefnanda og lagarök

         Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að stefndi hafi vanefnt samning sem gerður var á milli aðila 31. janúar 2003. 

         Sá samningur sem um ræði milli stefnanda og stefnda kveði á um að markmið hans sé að fá hljómsveitir inn á veitingastaðinn Champions og auglýsa staðinn upp sem fyrsta flokks skemmtistað.  Jafnframt komi fram í inngangi samningsins að aðilum samningsins sé ljóst að báðir aðilar verði að hafa verulegan hag af samstarfinu og felist hagur stefnanda helst í stóraukningu á gestafjölda og þar með veltu og mikilli auglýsingu á staðnum.  Í framhaldi af því komi fram að stefndi muni leggja verulega fjármuni í verkefnið samkvæmt samningnum og ávinningur stefnda felist í aukinni sölu á vörutegundum stefnda ásamt tryggingu á langtímasamningi við stefnanda.  Einnig kemur fram að nái markmið samningsins fram að ganga megi ljóst vera að verðmæti Champions, þ.e. reksturs stefnanda, muni margfaldast svo nemi tugum milljóna.                                                                  

         Áður en samningur þessi var undirritaður hafi stefndi gefið út viljayfirlýsingu, dags. 31. janúar 2003, þar sem fram komi að vilji sé fyrir því að endurnýja núverandi viðskiptasamning við stefnanda með verulega stækkun í huga.  Þá komi fram að yfirlýsingin sé gefin í trausti þess samstarfs sem fyrirtækin séu að hefja til að markaðssetja Champions cafe enda muni Ölgerðin leggja verulega fjármuni í það samstarf.

         Forsendur stefnda, samkvæmt bréfi stefnda, dags. 4. júlí 2003, fyrir því að samningur aðila væri ógildur voru þær að fram komi í samningnum að báðir aðilar verði að hafa verulegan hag af samstarfinu og þar sé ávinningi stefnda lýst sem aukinni sölu á vörutegundum stefnda.  Samkvæmt þessu haldi stefndi því fram að þar sem sala stefnanda fyrir tímabilið janúar - júní 2003 sé verulega minni en fyrir sama tímabil árið 2002 sé óumdeilt að stefndi hafi ekki haft verulegan hag af samstarfinu.

         Ljóst sé þegar litið er á málavexti að ekki séu til staðar skilyrði til þess að ógilda samninginn með vísan til þess að forsendur fyrir honum séu brostnar.  Vísun stefnda til ofangreinds ákvæðis í samningi aðila um að báðir verði að hafa verulegan hag af samstarfinu hafi jafnframt enga þýðingu enda sé ákvæðið svo óljóst og almennt orðað að ekki sé hægt að halda því fram að í því felist heimild til að ógilda samninginn með þeim hætti sem stefndi hafi gert með ofangreindu bréfi.  Stefndi virðist telja að í ákvæðinu felist heimild hans til að ákveða að ógilda samninginn á hvaða tímamarki sem hann velji og á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hann velji.  Ef svo væri sé ekki hægt að líta svo á að aðilar hafi gert samning heldur einfaldlega að stefndi ákveði efni samstarfsins að eigin geðþótta.

         Í þessu sambandi skuli í fyrstu nefnt að samningur aðila sé dagsettur 31. janúar 2003 og hafi samstarfið því ekki hafist fyrr en 1. mars 2003 samkvæmt 1. gr. samningsins.  Gefi auga leið að ekki sé tækt að miða við sölu í janúar og febrúar sem hluta af samningstímabilinu eins og stefndi hafi gert í ofangreindu bréfi sínu.  Velta veitingastaðar stefnanda fyrir tímabilið janúar - febrúar 2003 hafi verið 3.415.294 kr.  Velta staðarins tímabilið mars - apríl s.á. hafi hins vegar verið 5.222.294 kr.  Ljóst sé því að veruleg aukning varð á veltu staðarins eftir að samstarfið hófst 1. mars 2003 samkvæmt samningnum.  Næsta tímabil þ.e. maí - júní hafi stefndi tekið að vanefna samninginn að því leyti að ekki hafi verulegir fjármunir verið lagðir í verkefnið eins og kveðið sé á um í inngangi samningsins.  Hljómsveitir hafi ekki verið fengnar til þess að spila á veitingastað stefnanda samkvæmt 1. gr. samningsins og markaðssetningu hafi skort, sbr. 3. gr. samningsins.  Vísað sé til tölvupóstsamskipta aðila í þessu sambandi, sbr. dómskjal 6, þar sem stefndi viðurkenni að ekki hafi verið lagðir fram þeir fjármunir sem samið hafi verið um og ekki þær hljómsveitir sem miðað hafi verið við að myndu spila á veitingastaðnum.  Ekki ætti því að koma á óvart að velta staðarins hafi minnkað á þessu tímabili.  Sú forsenda stefnda að bera saman tímabilið janúar - júní árið 2002 annars vegar og 2003 hins vegar sé þess vegna ótæk.

         Í framhaldi af því sem að framan greini beri að nefna að velta tímabilanna janúar -febrúar annars vegar og mars - apríl hins vegar árið 2002 hafi verið nánast nákvæmlega sú sama eins og sjá megi af framlögðum yfirlitum, sbr. dómskjal 18 og 19.  Samkvæmt yfirliti fyrir árið 2003 megi hins vegar sjá að velta hafi hækkað á milli þessara tveggja tímabila um 53%, þ.e. veltan hafi verið 53% hærri tímabilið mars - apríl en tímabilið janúar - febrúar árið 2003 en eins og komið hafi fram hafi samningurinn tekið gildi 1. mars 2003 og hafi einungis verið að fullu efndur í mars og apríl.  Þessar staðreyndir ættu að sýna fram á að samstarfið gekk.  Í bréfi stefnda sé lögð áhersla á að aðilar samningsins hafi gert ráð fyrir að sala á vörutegundum stefnda myndi aukast um 35 - 50%.  Í fyrsta lagi komi hvergi fram að þetta hafi verið forsenda samningsins og þessari fullyrðingu því mótmælt og í öðru lagi sé samt sem áður ljóst að sala hafi aukist um 53% eins og komið hafi fram og því séu forsendur bréfs stefnda fráleitar hvernig sem á það sé litið.

         Meginregla samningaréttar sé sú að menn verði að standa við samninga sína og að gerða löggerninga skuli halda.  Telja verði mjög hæpið að einhliða ákvörðun stefnda um að samningur aðila sé ógildur, vegna þess að stefndi hafi ekki lengur hag af samstarfinu, fái staðist.  Eingöngu sé um að ræða skoðun annars aðilans að þessu leyti á árangri samstarfsins auk þess sem einu rökin fyrir því að stefndi taldi samninginn ógildan hafi verið þau að hann sá ekki lengur hag af samstarfinu.  Telja verði umræddan samning mjög lítils virði ef annar aðilinn geti einhliða tilkynnt að hann sé ógildur ef hann hafi ekki lengur áhuga á að standa við skyldur sínar.  Stefndi verði að standa við gerða samninga og geti ekki borið fyrir sig almennar ástæður um að hann telji sig ekki lengur hafa hag af því.

         Ekki nægi í þessu sambandi að vísa til þess ákvæðis samnings aðila sem stefndi geri.  Í ákvæðinu komi fram að aðilum sé ljóst að báðir verði að hafa verulegan hag af samstarfinu.  Um sé að ræða mjög óljóst orðalag sem ekki verði byggt á til þess að ógilda samning einhliða eins og stefndi gerði í þessu tilfelli.  Hvergi komi fram að um sé að ræða forsendu fyrir því að samningurinn gildi eða hvaða áhrif það hafi ef annar aðilinn hafi ekki „verulegan hag" af samstarfinu eða við hvað sé miðað í þessu sambandi.  Ekki kemur fram hvernig meta eigi verulegan hag aðila né hvenær eigi að meta það hvort aðilar hafi verulegan hag af samstarfinu.  Ef reyna eigi að túlka hvað þessi setning í samningnum þýði þurfi einfaldlega að álykta þar um.  Helst sé að skilja af orðalagi ákvæðisins að verið sé að leggja áherslu á að stefnandi hafi ávinning af samstarfinu enda komi sérstaklega fram í framhaldinu hver hagur hans sé.  Að neðan komi síðan fram að stefndi muni leggja fram verulega fjármuni og að ávinningur hans sé mestur í aukinni sölu á vörutegundum ásamt tryggingu á lang-tímasamningi við stefnanda.  Þetta virðist því nefnt í dæmaskyni og ekki útskýrt frekar.

         Þess vegna sé undarlegt ef annar aðilinn geti tekið upp á því að meta samstarfið þegar honum sýnist og ákveðið að ganga út með vísan til þeirra sjónarmiða sem honum henti.  Sérstaklega sé það undarlegt þegar litið sé til þess að í þessu tilfelli gildi samningurinn í tvö og hálft ár en stefndi ákveði að láta reyna á samstarfið í tvo heila mánuði og gangi svo úr samstarfinu að eigin geðþótta þrátt fyrir að sala hafi aukist til muna.

         Ef litið sé til sölutalna árin 2002 og 2003, sbr. dómskjöl 18 og 19, megi sjá að árið 2002 séu sölutölur vegna janúar - febrúar og mars - apríl nánast upp á krónu þær sömu.  Árið 2003 séu sölutölur hins vegar miklu mun lægri á tímabilinu janúar - febrúar eða um 40% lægri en vegna sama tímabils árið áður. Þess vegna sé ótækt að bera saman tímabilin mars - apríl annars vegar vegna ársins 2002 og hins vegar ársins 2003.  Bera verði saman tímabilin janúar - febrúar 2003 og  mars – apríl enda hafi verið um að ræða algerlega sambærileg tímabil árið 2002.  Ef þessi tímabil séu borin saman megi sjá verulega hækkun í sölutölum eða úr 3.415.036 kr. í 5.251.097 kr.

         Ofangreindu til stuðnings megi sjá af tölvupóstsamskiptum aðila, sem dagsett séu 18.-20. júní 2003, að stefndi lýsi því yfir að hann muni standa við samning aðilanna.  Einungis tveimur vikum síðar tilkynni stefndi að samningurinn sé ógildur með vísan til veltutalna tímabilanna janúar til júní.  Varla hafi verið um að ræða breytingu á forsendum á þessum tveimur vikum.

         Í 1. gr. þess samnings sem um ræðir komi eftirfarandi fram:

„ÖES leggur til hljómsveitir til að spila á Champions í sjö mánuði, frá 1. mars og út september 2003.  ÖES mun tryggja greiðslur til viðkomandi hljómsveita á þessu tímabili. Á þessu tímabili fær ÖES allar tekjur af miðasölu á Champions.  Frá 1. október 2003 til 30. september 2005 munu ÖES og Champions í samstarfi halda áfram að fá hljómsveitir á veitingastaðinn og mun samstarfinu háttað þannig að ÖES sér um að bóka hljómsveitir, sjá um miðasölu og auglýsingar.  ÖES mun ráða til þess utanaðkomandi aðila. Champions mun sjá um dyravörslu.  Tekjur af miðasölu hverrar helgar munu skiptast sem hér segir:

                                                  450.000 kr. til hljómsveita og þóknunar vegna þeirra

                                                  80.000 kr. til auglýsinga

                                                  30.000 kr. til miðasölu

         Það sem eftir verður af miðasölu hverrar helgar mun skiptast þannig að 2/3 (66,6%) rennur til Champions og 1/3 (33,3%) til ÖES.  Mun uppgjör til hljómsveita verða gerð upp eftir hverja helgi en Champions og ÖES gera upp sín mál mánaðarlega og eigi síðar en 5. hvers mánaðar. "

         Í 3. gr. samningsins komi fram að ÖES muni standa straum af markaðssetningu á þeim kvöldum sem samningurinn nái til til viðbótar tryggingu greiðslna til hljómsveita.  Þá komi fram bæði í 4. og 7. gr. samningsins að verði eigendaskipti að veitingastaðnum Champions fylgi þessi samningur með, þ.e. kaupandi rekstursins muni verða aðili að samningnum eftir kaupin.  Í því sambandi verði einnig að líta til þess sem fram komi hér að framan að í upphafi samningsins sé tekið fram að nái markmið samningsins fram að ganga megi ljóst vera að verðmæti Champions muni margfaldast svo nemi tugum milljóna.  Jafnframt megi sjá af fram lögðu yfirliti sem stefndi hafi afhent stefnanda hvaða hljómsveitir hafi verið lagt upp með að fá til þess að spila á veitingastaðnum.

         Samkvæmt framangreindu megi sjá að stefndi hafi skuldbundið sig samkvæmt samningi aðila að leggja til hljómsveitir fyrir 450.000 kr. um hverja helgi auk þess sem hann myndi standa straum af markaðssetningu vegna þessa fyrir 80.000 kr.  Sjá megi að um sé að ræða veruleg verðmæti fyrir stefnanda sem skipti sköpum fyrir rekstrargrundvöll hans.  Stefndi hafi skuldbundið sig til þessa gegn því m.a. að tryggja áframhaldandi samning við stefnanda og að stefndi myndi hljóta tekjur af miðasölu. Stefnandi hafi því lagt út í aðrar fjárfestingar í trausti þess að samningurinn stæðist og stefndi myndi standa straum af þessum kostnaði en ekki stefnandi.  Ljóst sé að tilhögun rekstrar verði önnur þegar fyrir liggi samningur sem þessi, sem mál þetta varði, m.t.t. ofangreinds yfirlits yfir þær hljómsveitir sem stefndi hafi skuldbundið sig til þess að ráða til þess að spila á veitingastaðnum.

         Fjárhæð dómkröfu miðist, samkvæmt framansögðu, í fyrsta lagi við þær fjárhæðir sem stefndi hafi skuldbundið sig til þess að leggja í reksturinn vegna kostnaðar við að bóka hljómsveitir inn á veitingastað stefnanda, 450.000 kr., auk kostnaðar vegna auglýsinga 80.000 kr.  Þessar fjárhæðir hafi stefndi skuldbundið sig samkvæmt umræddum samningi til þess að inna af hendi hverja helgi út septembermánuð árið 2005.  Miðað sé því við að um sé að ræða 117 helgar ef frá er talinn maí og júní mánuður 2003 þar sem ekki liggi fyrir hversu háar fjárhæðir hafi verið lagðar fram af hálfu stefnda á þessu tímabili þar eð samningurinn hafi ekki verið vanefndur að fullu á þessu tímabili.  Samtals geri þessar greiðslur því 62.010.000 kr.  Fram til desembermánaðar 2003 hafi stefndi verið skuldbundinn til þess að inna þessar greiðslur af hendi gagnvart stefnanda, þ.e. samtals 11.660.000 kr., en við það tímamark hefði samningurinn hins vegar yfirfærst til kaupanda rekstursins samkvæmt 4. og 7. gr. samningsins ef hann hefði verið efndur af hálfu stefnda.  Gert sé ráð fyrir því að ef stefnandi selji reksturinn muni samningurinn fylgja með í kaupunum.

         Augljóst sé að verðmæti rekstursins hefði numið hærri fjárhæð ef með í kaupunum hefði fylgt samningur þar sem stefndi skuldbindi sig til ofangreindra framlaga um hverja helgi.  Það verðmæti hljóti að samsvara þeim fjárhæðum sem stefndi hafi skuldbundið sig til að leggja til rekstursins sem nemi ofangreindum fjárhæðum.  Í þessu sambandi verði jafnframt að líta til þess sem fram komi í upphafi samningsins um að miðað sé við að verðmæti Champions cafe muni margfaldast svo nemi tugum milljóna eins og komið hafi fram.  Samkvæmt þessu sé gengið út frá auknu verðmæti rekstursins svo nemi tugum milljóna.

         Bein afleiðing vanefnda stefnda sé því sú að stefnandi hafi ekki aðeins neyðst til þess að selja reksturinn, þar sem grundvelli hans hafi verið svipt undan honum við vanefnd stefnda, heldur hafi stefnandi jafnframt neyðst til þess að selja reksturinn á mun lægra verði en ef stefndi hefði efnt samninginn sem nemi annars vegar 50.350.000 kr. vegna fjárframlaga af hálfu stefnda í 95 vikur eftir söluna og hins vegar þeirri fjárhæð sem greint sé frá hér að neðan.

         Í öðru lagi sé gert ráð fyrir annars vegar tapaðri sölu stefnanda vegna reksturs stefnanda frá því samningur aðila var vanefndur og þar til rekstur stefnanda var seldur og hins vegar fjárhagslegs taps stefnanda vegna lækkaðs söluverðs á rekstrinum.  Hið síðarnefnda miðist við að söluverð rekstursins hafi verið lægra vegna þess að ef samningur aðila hefði verið efndur hefði kaupandi rekstursins orðið aðili að samningnum við kaupin og samningurinn hefði því í raun orðið hluti af kaupunum sem kaupandinn hefði greitt stefnanda fyrir.  Þess vegna sé virði samningsins metið, að því er varðar auknar tekjur miðað við að hann hefði verið að fullu efndur til loka september 2005. metið.  Heildarvirði samningsins sé þó neðangreind fjárhæð auk ofangreindrar fjárhæðar vegna áfram­haldandi fjárframlaga stefnda sem hefðu komið í hlut stefnda við sölu á rekstrinum.

         Framlegðartap stefnanda samkvæmt framlögðu mati Deloitte hf. sé 2.009.338 kr. en virði samningsins við sölu stefnanda á rekstri sínum sé samkvæmt matinu 6.577.932 kr. þegar tekið sé mið af tekjuaukningu stefnanda á meðan samningurinn var efndur.  Samtals geri þetta 8.587.270 kr.  Jafnframt sé vísað til framlagðra lista yfir hreyfingar fjárhags.  Þessum fjárhæðum hafi stefnandi tapað annars vegar í rekstri fram til 4. desember 2003 og vegna sölu stefnanda á rekstri sínum þann dag.

         Samkvæmt framansögðu felist tjón stefnanda í:

         Tapaðri sölu stefnanda vegna reksturs fram að sölu Champions cafe.

         Fjárhagslegs taps stefnanda vegna sölu hans á rekstri sínum, þ.e. Champions cafe, vegna lækkaðs söluverðs.  Sú fjárhæð sundurliðist þannig að annars vegar sé um að ræða þær fjárhæðir sem stefndi hafi skuldbundið sig til að leggja til rekstursins í formi hljómsveita og markaðssetningar en hins vegar vegna virði samningsins vegna aukinna tekna kaupanda rekstursins fram til septemberloka 2005.

         Samtals nemi tjónið samkvæmt þessu 70.597.270 kr.

         Dráttarvaxtakrafa byggist á því að gjalddagar þeirra fjárhæða sem stefndi hafi skuldbundið sig til þess að greiða vegna hljómsveita auk auglýsinga sé einu sinni í viku og þá miðað við laugardag enda kveði á um það í samningnum að hljómsveitir skuli spila á veitingastað stefnanda um hverja helgi.

         Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til grundvallarreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og ákvæða laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda samninga.  Jafnframt er vísað til meginreglna kröfuréttar um efndabætur. Um dráttarvexti er vísað til III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.  Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

Málsástæður stefnda og lagarök

         Stefndi reisir sýknukröfu sína aðallega á því, að viðaukasamningurinn hafi fallið úr gildi þann 1. júlí 2003 vegna brostinna forsendna og skilyrða.  Því hafi stefndi ekki vanefnt samninginn með neinum hætti.

         Í inngangskafla samningsins segi orðrétt:

         "Aðilum samningsins er ljóst að báðir verða að hafa verulegan hag af samstarfinu..."

         Því sé síðan nánar lýst að ávinningur stefnda felist í aukinni sölu á vörum hans. Gildi samningsins og áframhald samstarfsins hafi því m.a. verið háð verulegum hag beggja samningsaðila af samstarfinu og aukinni sölu á vörum stefnda.

         Stefndi mótmæli því að tilvísun til þessa ákvæðis hafi enga þýðingu þar sem það sé svo óljóst og almennt orðað.  Ef ákvæðið hefði enga þýðingu, þá hefði það ekki verið tekið upp í samning aðila. Sú staðreynd að þessi forsenda var tekin upp í samninginn staðfesti grundvallarþýðingu hennar fyrir gildi samningsins.  Hér megi einnig benda á að samningsaðilar leggi jafnframt áherslu á að þetta skilyrði fyrir gildi samningsins liggi skýrt fyrir, sbr. orðalag um að þeim sé þetta skilyrði ljóst.

         Stefndi geti heldur ekki fallist á það með stefnanda að ákvæðið sé óljóst og almennt orðað.  Þar sé vísað beint til verulegs hags af samstarfinu og því meira að segja lýst hvað felist nánar í þeirri tilvísun, þ.e. aukin sala á vörum stefnda.  Stefndi telur ákvæðið því vera mjög afdráttarlaust og sértækt.

         Í stefnu segi að hvergi komi fram að um forsendu fyrir gildi samningsins sé að ræða.  Þá segi ekki hvaða áhrif það hafi að annar aðilinn hafi ekki verulegan hag af samstarfinu, við hvað eigi að miða og hvernig eða hvenær eigi að meta hag aðila.  Stefndi geti ýmist ekki fallist á þessar fullyrðingar eða fengið séð hvaða þýðingu þær hafi.

         Í fyrsta lagi sé rétt að árétta að forsendubrestur geti valdið ógildi samninga þó forsendnanna sé ekki getið í samningnum sjálfum. Í öðru lagi sé orðalag ákvæðisins með þeim hætti að ekki fari á milli mála að hér sé fjallað um forsendu eða skilyrði fyrir gildi samningsins, sbr. umfjöllun hér að framan.  Tilvísun til þess að aðilum sé ljóst að báðir verði að hafa verulegan hag af samstarfi sé ómögulegt að skilja með öðrum hætti en að samstarfið sé einmitt háð því skilyrði, að öðrum kosti falli það niður.  Í þessu sambandi vilji stefndi leggja áherslu á að í ákvæðinu segi að aðilar verði að hafa verulegan hag af samstarfinu.  Augljóst sé að sé þetta fortakslausa skilyrði ekki uppfyllt falli samningurinn niður.

         Í umdeildu ákvæði komi beinlínis fram við hvað beri að miða þegar metið sé hvort skilyrði fyrir gildi samningsins séu uppfyllt, þ.e. hlutlægar tölur um hag samningsaðila og vörusölu stefnda.  Í því sambandi telji stefndi rétt að mótmæla mjög svo langsóttri túlkun stefnanda á ákvæðinu í þá veru að aukin sala á vörum stefnda sé einungis nefnd í dæmaskyni og að áhersla ákvæðisins sé á því að stefnandi hafi hag af samstarfinu.  Túlkun stefnda sé beinlínis fráleit þegar haft sé í huga að stefndi sé atvinnu­fyrirtæki, rekið í þeim tilgangi að afla hluthöfum arðs, en ekki góðgerðarstofnun.  Umræddur samningur sé ekki örlætis- eða gjafagerningur, þó oft megi ætla að stefnandi telji svo vera.

         Stefndi telji engra leiðbeininga þörf um hvernig meta skuli hag af samstarfinu.  Vegna málatilbúnaðar stefnanda sé hins vegar rétt að upplýsa að aðili teljist hafa verulegan hag af samstarfi þegar það skili honum umtalsvert meiri hagnaði en á sambærilegu tímabili áður en samstarf hófst.  Þá komi einnig fram í ákvæðinu einn áhrifaþáttur í þessu mati, þ.e. títtnefnd aukin sala.  Hana megi meta með sama hætti, þ.e. hvort sala hafi aukist eftir að samstarfið hófst borið saman við sambærilegt tímabil áður en samstarfið hófst.

         Stefndi geti hins vegar fallist á að tímamarkið sé hátð mati en leggi jafnframt áherslu á að stefnandi hafi kosið að undirrita samninginn með þessu orðalagi.  Ákvörðun stefnda um að ljúka samstarfinu hafi verið á því reist að útséð væri með að hann hefði hagnað af samstarfinu.  Stefndi telji ljóst að sú ákvörðun hans hafi verið fullkomlega réttmæt m.t.t staðreynda þessa máls og að enginn þurfi að velkjast í vafa um að hann hafi ekki haft verulegan hag af samstarfinu og að svo myndi ekki vera á samningstímabilinu, sbr. dskj. 21 og 22.  Tap hans hefði einungis aukist við áframhald samstarfsins.

         Í því sambandi vill stefndi vekja athygli á því að tap hans á þeim fjórum mánuðum sem samstarf aðila varði, hafi numið rúmlega tveimur milljónum krónum meira en heildarvelta stefnanda á sama tímabili.  Þá hafi tapið numið tæplega áttfaldri sölu á vörum hans til stefnanda á sama tímabili.  Í því sambandi sé rétt að minna á að dskj. 21 sýni sölutölur stefnda til stefnanda, ekki framlegð hans af sölunni en hún sé eðli málsins samkvæmt lægri.  Kaup stefnanda af stefnda hefðu því a.m.k. þurft að áttfaldast svo stefndi tapaði ekki á samningnum, auk þess sem mikillar aukningar umfram það hefði verið þörf svo að stefndi hefði verulegan hag af samstarfinu.

         Stefnandi telur skilning á ákvæðinu háðan því að ályktað sé um efni þess.  Stefndi fái ekki að fullu skilið þessa fullyrðingu enda sé það almennt órjúfanlegur þáttur af samningum að efni þeirra þurfi að túlka, skýra og álykta um.  Þá geti hann ekki fallist á að flókinnar samningstúlkunar sé þörf í fyrirliggjandi máli, en ofangreinda fullyrðingu stefnanda megi helst skilja í þá veru.  Eins og margsinnis hafi komið fram segi í samningnum að aðilar verði að hafa verulegan hag af samstarfinu.  Hér sé um mjög einfalda forsendu og skilyrði að ræða.  Stefnandi geri hins vegar sitt ýtrasta til að flækja einfaldan hlut og virðist vilja túlka þessi orð með þeim hætti að samstarf aðila ætti að halda áfram þó, eins og staðreyndin sé í þessu máli, báðir aðilar tapi á því.  Stefnandi telur ljóst að slíkt væri algerlega ótæk niðurstaða og í beinni andstöðu við orðalag og tilgang ákvæðisins.

         Hér sé jafnframt gagnlegt að líta til þess hvers vegna aðilar hafi tekið þessa forsendu upp í samning sinn.  Aðilar, og þá sérstaklega stefndi, hafi viljað tryggja að samstarfið og þátttaka hans væri háð því að hann hefði verulegan hag af því.  Í því sambandi vilji stefndi árétta að það sé mjög eðlilegt að vilja skilyrða samning með þeim hætti.  Hvort gagnaðili fallist á það sé hins vegar annað mál.  Það sé á valdi hans sjálfs og hann hafi ávallt þann kost, telji hann það óeðlilegt, að undirrita ekki samninginn.  Stefnandi hafi hins vegar kosið að undirrita samninginn með því ákvæði sem hann kjósi nú að halda fram að sé þýðingarlaust.

         Stefndi mótmælir því að hann telji að í ákvæðinu felist heimild til að ógilda samninginn á hvaða tímamarki sem hann velur og grundvelli þeirra sjónarmiða sem hann velur.  Stefndi hafi ekki haft val um það tímamark eða þau sjónarmið sem valdið hafi ógildi samningsins.  Hann hafi verið, rétt eins og stefnandi, bundinn af ákvæðum samningsins.  Þegar ljóst var orðið að skilyrði og forsendur þær sem samningurinn mæli sjálfur fyrir um voru brostnar, hafi hann hins vegar að sjálfsögðu gripið til viðeigandi úrræða af þeim sökum.  Fullyrðingum stefnanda um geðþóttaákvarðanir stefnda sé því algjörlega vísað á bug enda augljóslega í hróplegu ósamræmi við staðreyndir málsins og framlögð málsskjöl.

         Hið sama megi segja um fullyrðingar stefnanda um að samningur sé lítils virði ef annar aðili geti einhliða tilkynnt að hann hafi ekki áhuga á að standa við skyldur sínar og að stefndi beri fyrir sig almennar ástæður um að hann telji sig ekki lengur hafa hag af því að standa við samninginn.  Eins og vikið hafi verið að hér að framan hafi stefnandi undirritað samninginn með því orðalagi sem liggi fyrir í málinu og verði að sæta því, rétt eins og stefndi, að það hafi fullar réttarverkanir.  Stefndi hafi efnt skyldur sínar samkvæmt samningnum þar til ljóst var orðið að skilyrði fyrir gildi hans, sem séu nákvæmlega tilgreind í samningnum, voru ekki uppfyllt og að forsendur hans hefðu brostið.  Hafi hann jafnframt ávallt miðað við og tilgreint þær forsendur og skilyrði sem tíunduð séu í samningi aðila.

         Samkvæmt reglum samningaréttar valdi brostnar forsendur því að samningsaðili sé ekki bundinn við efni samnings, þ.e. samningur sé ógildur.

         Í stefnu séu teknar upp beinar tilvitnanir í fræðirit til stuðnings því að réttarreglur um brostnar forsendur séu undantekningar frá meginreglunni um skuldbindingargildi samninga.  Stefndi telji enga sérstaka ástæðu til að leggjast gegn þeirri útleggingu fræðimannsins sem tekin sé orðrétt upp í stefnu en telur hana jafnframt þýðingarlausa.  Í fyrirliggjandi máli séu forsendur og skilyrði tekin skýrlega upp í samninginn og gildi hans augljóslega bundið þeim.  Þeir hagsmunir viðskiptalífsins sem skýri framan­greinda reglu eigi því ekki við hér heldur hin alkunna regla um samningsfrelsi og meginreglan um að orð skulu standa.  Ljóst sé að stefnandi hafi verið bundinn af efni samningsins og að hann verði jafnframt að hlíta því að samningurinn falli úr gildi þegar forsenda eða skilyrði, sem lýst sé í samningnum, bresti.

         Þá telur stefndi ljóst að sanngjarnt sé að leggja áhættuna á stefnanda fyrir því að ofangreind forsenda brast.  Sú niðurstaða sé óumflýjanleg þegar tekið sé tillit til þess að samkvæmt samningi aðila hafi það einungis verið stefndi sem hafi lagt til fjármuni í samstarfið.  Þá fjármuni hafi hann lagt í verkefnið á grundvelli þess að hann hefði verulegan hag af.  Skylda stefnanda samkvæmt samningnum hafi verið að tryggja að sú forsenda gengi eftir, sbr. m.a. 4. gr. samningsins, enda hlutverk hans að reka skemmti­staðinn á þann hátt að velta hans ykist.  Samkvæmt því sé eðlilegt að stefnandi beri áhættuna af því að framangreind forsenda brast.

         Stefndi mótmælir því sem segir í stefnu, að mjög hæpið sé að einhliða ákvörðun stefnda um ógildi samnings fái staðist og að einungis sé um skoðun annars samnings­aðila á árangri samstarfsins að ræða.  Hér sé um reginmisskilning stefnanda á samningi aðila og staðreyndum málsins að ræða.  Í málinu liggi fyrir að sala á vörutegundum stefnda hafi ekki aukist heldur hafi hún minnkað um 26%, m.v. sambærilegt tímabil árið áður en samstarfið hófst.  Hér sé ekki um huglæga skoðun að ræða heldur hlutlægar tölur um sölu á vörum stefnda.  Jafnframt sé óumdeilanleg staðreynd að stefndi hafi ekki haft verulegan hag af samningnum, heldur hið öndverða þ.e. hann hafi tapað um 9,4 milljónum króna.

         Stefndi telur tilvísanir stefnanda til tölvupóstsamskipta aðila þýðingarlausar og hafi þau engin áhrif á það mat hvort forsendur fyrir samningnum hafi brostið.  Í þeim komi aðeins fram staðfesting á því að stefndi hafi efnt samningsskyldur sínar með réttum hætti þar til ljóst var að skilyrðum fyrir gildi samningsins væri ekki fullnægt og að forsendur hans hefðu brostið.

         Þann 1. júlí 2003 hafi orðið endanlega ljóst að stefndi myndi ekki hafa verulegan hag af samstarfinu.  Hafi þá verið liðnir fjórir mánuðir af því sjö mánaða samningstímabili sem stefndi skyldi leggja til hljómsveitir og stefndi hafi tapað svo miklu fé að útilokað var að hann næði að jafna það út á samningstímabilinu.  Útlagður kostnaður hans vegna samningsins hafi, þann 1. júlí 2003, numið a.m.k. 9,4 milljónum króna.  Þau útgjöld séu hreint tap stefnda þar sem tekjur af miðasölu hafi komið til frádráttar áður en reikningar vegna hljómsveita voru sendir honum.  Margar af vinsælustu hljómsveitum landsins hafi spilað á skemmtistað stefnanda á þessu tímabili og milljónum króna hafi verið eytt í auglýsingar án þess að sala ykist.  Sala á vörum stefnda á tímabilinu mars til og með júní hafi verið ríflega fjórðungi minni en árið áður.  Þá hafi enn fremur verið ljóst að tekjur af miðasölu myndu ekki nægja til að greiða kostnað vegna hljómsveita, miðasölu og markaðssetningar á síðara samningstímabilinu.  Með hliðsjón af þessari afleitu niðurstöðu hafi stefndi talið ljóst að skilyrðum samningsins hefði ekki verið fullnægt og skyldur samningsaðila því fallnar niður vegna brostinna forsendna.

         Stefnandi haldi því fram að samstarfið hafi aðeins verið virkt í tvo mánuði.   Þessari fullyrðingu sé mótmælt sem rangri og ósannaðri.  Nægi hér að vísa til yfirlits yfir útlagðan kostnað stefnda m.a. í maí og júní, sem og dskj. 67, þar sem fram komi hve mikla áherslu stefndi hafi lagt á markaðssetningu skemmtistaðarins á þessum tíma.  Á þessu tímabili hafi spilað m.a. hljómsveitirnar Hunang, Von, Sniglabandið, Spútnik, Geirmundur Valtýs, BSG og Ingvar Valgeirs og hafi kostnaður stefnda vegna þessa og markaðssetningar skemmtistaðarins numið a.m.k. 2,5 milljónum króna.  Augljóst sé því að fullyrðing stefnanda um vanefndir stefnda sé haldlaus.  Þá geri stefnandi ekki skaðabótakröfu vegna hinna meintu vanefnda stefnda á þessu tímabili sem sýni vel fram á takmarkaðan trúverðugleika þessarar fullyrðingar.

         Stefndi vilji sérstaklega mótmæla tilvísun stefnanda til tölvubréfa og fullyrðingum um að þar komi fram viðurkenning á vanefndum.  Þar komi einfaldlega engin slík viðurkenning fram.  Stefndi vilji þó taka fram að fyrir mistök hafi láðst að bóka hljómsveit í tvær helgar í júní.  Hann telji þó ljóst að það breyti ekki ofangreindri niðurstöðu þar sem sala stefnda til stefnanda hafi verið meiri í júní en maí.  Í raun sýni það e.t.v. best og sanni að samstarfið hafi engin áhrif haft á veltu stefnanda.

         Í stefnu sé miðað við veltu skemmtistaðarins en stefndi telji ljóst að miða beri við sölu hans til stefnanda þegar metið sé hvort skilyrði samningsins séu uppfyllt, sbr. dskj. 21.  Sé það í samræmi við lýsingu í inngangskafla samningsins á skilyrðum hans.

         Stefnandi haldi því jafnframt fram að miða eigi við mismun á veltu janúar-febrúar og mars-apríl 2003 þegar metið sé hvort stefndi hafi haft verulegan hagnað af samstarfinu.  Stefnandi færi afar takmörkuð rök fyrir því að leggja beri þessa aðferð til grundvallar en fyrir því beri hann sönnunarbyrði.  Segi í stefnu að þar sem velta hafi verið minni janúar-febrúar árið 2003 en sömu mánuði árið 2002 sé ekki hægt að bera saman mánuðina mars-apríl 2002 og 2003.  Stefndi skilji ekki þessa röksemdafærslu en hvað sem því líði er ljóst að þessi aðferð sé mjög óeðlileg og gefi ekki rétta mynd af umræddum rekstri.

Stefnandi vísi til þess að sölutölur fyrir tímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 2002 hafi verið nánast þær sömu, en að mikill munur sé á þessum tveimur tímabilum árið 2003.  Stefndi fái ekki betur séð en að þessi rök séu í beinni þversögn við rök stefnanda fyrir því að ótækt sé að bera saman árin 2002 og 2003, sbr. hér að ofan.  Þar valdi óvenjulega lág velta í janúar-febrúar 2003 því að ótækt sé að bera saman mars-apríl 2002 og 2003, en stefnandi telji fullkomlega eðlilegt að miða við veltuaukningu frá þessu óvenju veltulága tímabili þegar hann rökstyðji fjárhæð dómkröfu sinnar.

         Yfirlit yfir hreyfingar fjárhags stefnanda staðfesti að sala á tímabilinu janúar-febrúar 2003 hafi verið óvenjulega lítil, rétt eins og stefnandi bendi sjálfur á, og því sé allur samanburður við það tímabil til þess fallinn að gefa ranga hugmynd um áhrif samstarfsins.

         Stefndi telji ofangreinda staðreynd staðfesta að aðferð stefnanda sé með öllu ómarktæk.  Hér megi ennfremur benda á að munur á milli þessara tveggja tímabila sé ekki ákvarðandi fyrir það sem eftir var samningstímabilsins, þar sem aukning á veltu geti orsakast af mörgum mismundandi áhrifaþáttum, t.d. hefðbundinni sveiflu í veltu staðarins á milli mánaða m.a. vegna frídaga, helga, ýmissa viðburða o.s.frv.  Skoðun á yfirlitunum staðfesti að breytingar á veltu milli einstakra mánaða og tímabila séu verulegar.

         Stefndi fái heldur ekki séð hvers vegna stefnandi kjósi að miða við tvo mánuði í samanbruði sínum.  Í því sambandi sé áhugavert að bera saman veltu stefnanda í janúar, febrúar, mars, apríl og maí en á seinustu þrem mánuðum sé óumdeilanlegt, m.t.t. gagna málsins, að samstarfið hafi að fullu verið virkt.  Velta árið 2002 og 2003 hafi verið eftirfarandi:

 

2003

2002

 

Janúar

1.895.000

2.792.635

 

Febrúar

1.520.000

2.889.271

 

Mars  

2.663.000

2.902.475

 

Apríl   

2.568.000

2.747.023

 

Maí      1

1.435.000

2.338.401

 

Samtals

10.081.000

13.669.805

 

 

         Af þessu megi sjá að velta árið 2003 í janúar sé hærri en velta í febrúar og að velta í  maí sé minni en í þeim báðum.  Stefndi telji þetta vera til nokkurrar skýringar á ákvörðun stefnanda.  Velta stefnanda aukist aðeins tímabundið í mars og apríl 2003 en minnki síðan aftur í maí, og enn frekar í júní.  Skýri þetta þá ákvörðun stefnanda að miða einungis við mars og apríl og gera samanburð af tveggja mánaða tímabilum.  Það henti honum einfaldlega best.  Þannig miði hann einungis við mismuninn á milli janúar-febrúar og mars-apríl, þrátt fyrir að samstarf aðila hefði einnig náð yfir maí og að hluta til júní.  Sé réttmætum forsendum beitt í aðferð stefnanda komi í ljós að ekki hafi verið um neina aukningu á veltu að ræða.  Samkvæmt því sé niðurstaðan enn á ný að samstarfið hafi verið hvorugum aðila í hag.  Í því sambandi megi einnig vekja athygli á að velta mánuðina mars til maí árið 2002 hafi ávallt verið hærri en sömu mánuði árið 2003, þó ekkert samstarf væri í gangi.

         Stefndi telur mun eðlilegra viðmið að bera sölu ákveðinna mánaða saman við sölu sömu mánuði árið á undan.  Það viðmið sé í raun það eina sem til greina komi vegna árstíðabundinna sveiflna í sölu stefnanda og sé jafnframt í samræmi við viðteknar venjur þegar fyrirtæki kanni og meti rekstrarárangur sinn.  Í því sambandi sé rétt að vekja athygli á því að í mati Deloitte, sem stefnandi leggi sjálfur fram, sé þessari aðferð beitt, þó með sérstökum hætti sé.

         Ákvörðun stefnanda um að beita ekki fyrrgreindri aðferð sé þó skiljanleg þar sem sala staðarins í mars-apríl árið 2003 hafi verið minni en sala hans árið 2002.  Þá hafi sala í maí-júní 2003 verið rétt rúmlega helmingur af því sem hún hafi verið í maí-júní árið 2002.  Fullyrðingar stefnanda um að sala hafi aukist til muna séu því fjarri öllum sannleika, sama hvaða mánuðir séu bornir saman.

         Í fyrri stefnu vegna sama ágreiningsmáls aðila komi fram að sölu skemmtistaðarins hafi farið að hraka að loknum fyrstu fjórum mánuðum ársins 2002.  Stefndi hafi talið sérstaklega eftirtektavert að stefnandi hafi viðurkennt að mánuðirnir maí-júní 2002 hafi verið lélegir, þegar haft sé í huga að sala á vörum stefnda á tímabilinu maí-júní 2003 hafi verið rétt rúmlega helmingur af því sem hún hafi verið árið 2002.  Stefnandi telji ófært að fallast á að forsenda samningsins um aukna sölu á  vörum stefnda hafi brostið.  Fái stefndi ekki séð hvernig þetta tvennt fari saman enda hafi stefndi nú fellt þessa setningu úr málatilbúnaði sínum.

         Stefndi vilji að lokum taka skýrt fram að í raun skipti takmörkuðu máli hvor aðferðin sé lögð til grundvallar.  Meginskilyrði og forsenda samnings aðila hafi verið að samstarfið skilaði þeim verulegum hag.  Í ljósi þess mikla taps sem stefndi hafi orðið fyrir á þeim fjórum mánuðum sem samstarfið varaði sé vafalaust að hann hafi ekki haft hag af samstarfinu og samningurinn því fallinn niður.

         Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki fært fullnægjandi sönnur á tjón sitt.  Stefnandi höfði mál þetta á þeim grunni að um skaðabótamál vegna vanefnda á samningi sé að ræða og í lagarökum vísi stefnandi til meginreglna kröfuréttar um efndabætur.  Hins vegar sé sönnunarfærslu hans svo verulega ábótavant að stefndi fái ekki séð hvernig mögulegt sé að fallast á óraunhæfar og órökréttar kröfur hans.

         Stefnandi reikni tjón sitt m.a. með þeim hætti að miða við fjárhæðirnar 450.000 kr. og 80.000 kr.  Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi skuldbundið sig til að inna þessar greiðslur af hendi út september 2005.  Stefndi telur blasa við að þessi fullyrðing sé röng og í ósamræmi við samning aðila, sbr. umfjöllun hér fyrr.

         Í fyrsta lagi hafi skylda stefnda til að leggja til hljómsveitir fallið niður þann 30. september 2003, eins og komi skýrlega fram í 1. gr. samningsins.  Hafi stefnandi viðurkennt það sjálfur neðst á bls. 1 í fyrri stefnu sinni, en hafi nú af skiljanlegum ástæðum fellt þá viðurkenningu úr stefnu sinni.  Jafnframt staðfesti tölvupóstur fyrirsvarsmanns stefnanda, dags. 11. júní 2003, að stefndi skyldi einungis bera kostnað fyrstu sjö mánuði samstarfsins.  Eftir það tímamark skyldi miðasala standa undir öllum kostnaði vegna samningsins.

         Í öðru lagi sé augljóst við lestur 1. gr. samningsins að þær fjárhæðir sem stefnandi  vísi til varði einungis það hvernig greiða hafi átt kostnað á síðara samningstímabilinu og hvernig tekjur af miðasölu hafi átt að skiptast þá, sbr. síðari málslið 1. gr. samningsins.  Hvergi sé vísað til þess að þetta séu greiðslur sem renna eigi frá stefnda til stefnanda.  Þetta sé ekki einu sinni sá kostnaður sem stefndi hafi átt að bera, heldur það hlutfall af miðasölu á síðara samningstímabilinu sem miðað hafi verið við að færi til greiðslu kostnaðar.  Stefnandi hafi viðurkennt þetta atriði í rauninni efst á bls. 2 í fyrri stefnu.  Sé stefnanda því haldlaust að vísa til þessara fjárhæða í þeirri viðleitni sinni að leggja sönnur á tjón sitt.

         Í þriðja lagi verði að hafa í huga að stefndi skyldi, á því sjö mánaða tímabili sem hann leggði til hljómsveitir, fá allar tekjur af miðasölu.  Stefnandi taki ekkert tillit til þess í útreikningi skaðabótakröfu sinnar.

         Stefndi telur rétt á ítreka að tjón stefnanda geti aldrei falist í greiðslum stefnda til hljómsveita.  Þær greiðslur hafi aldrei átt að fara til stefnanda og tjón hans geti því ekki falist í því að verða af þeim greiðslum.  Fullyrðingar stefnanda um að stefndi hafi skuldbundið sig til að leggja fjármagn í rekstur stefnanda séu einfaldlega í beinu ósamræmi við samning aðila og umfjöllun hér að framan.  Samningur aðila sé ekki fjármögnunarsamningur, eins og stefnandi virðist álíta.  Samkvæmt réttarreglum kröfuréttar um efndabætur sé tilgangur þeirra að gera samningsaðila eins settan og staðið hefði verið við samning eftir efni sínu.  Ljóst sé að krafa stefnanda sé í engu samræmi við þær réttarreglur.

         Stefndi mótmæli því sem ósönnuðu að stefnandi hafi fjárfest í trausti þess að samningurinn myndi halda.

         Stefnandi vísi einnig til tapaðrar framlegðar sinnar vegna meintra vanefnda stefnda.  Sönnunarfærslu sé hins vegar verulega ábótavant.  Í fyrsta lagi leggi hann fram mat Deloitte, til sönnunar á tjóninu.  Það mat hafi enga þýðingu í málinu enda sé þar ekki um mat óvilhallra dómkvaddra matsmanna að ræða.  Í lögum um meðferð einkamála sé mælt fyrir um þá sönnunarfærslu sem beita skuli þegar mats sérfróðra manna er þörf.  Telja verði að atvik máls þessa séu með þeim hætti að slíkt sé nauðsynlegt.  Að öðrum kosti verði að telja að tjón stefnanda sé ósannað enda hvíli sönnunarbyrði á honum.

         Í öðru lagi felist aðferðafræði Deloitte í því að taka mismun á veltu mars-apríl 2002 og 2003, miðað við að hlutfallslega sama lækkun hefði orðið í mars-apríl 2003 og janúar-febrúar 2003.  Stefndi hafnar því með öllu að slík hugarleikfimi hafi nokkurt gildi í málinu.  Stefndi telur nægja að vísa til rökstuðnings síns hér að framan varðandi sama atriði en árétti að engin aukning hafi orðið á sölu hvort sem miðað sé við samanburð áranna 2002 og 2003 eða janúar til febrúar og mars til júní 2003.

         Í þriðja lagi telji stefnandi að tjón sitt felist m.a. í því að söluverð veitingastaðarins hafi verið lægra því kaupandi rekstursins hefði orðið aðili að umdeildum samningi hefði hann enn verið í gildi.  Þetta sé rangt því að í b-lið 6. gr. viðskiptasamnings aðila segi að samþykki stefnda þurfi svo samningurinn fylgi með við eigendaskipti.  Kaupandi rekstursins hefði því aldrei orðið  sjálfkrafa  aðili    samningnum.  Stefnandi hafi engan rétt samkvæmt samningi aðila eða réttmætar væntingar til þess að geta gert sér verðmæti úr samningnum við sölu veitingastaðarins.  Tjón hans geti því aldrei falist í því, enda hafi stefndi algjört sjálfræði um samþykki fyrir slíkri skuldskeytingu.

         Þar sem stefnandi hafi ekki fært fullnægjandi sönnur fyrir tjóni sínu sé óumflýjanlegt að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

         Upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt.  Samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, þurfi gjalddagi að vera fyrir fram ákveðinn svo kröfuhafi megi krefjast dráttarvaxta frá þeim degi.  Í samningi aðila sé ekki mælt fyrir um greiðsluskuldbindingu stefnda, hvað þá gjalddaga.

         Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar, m.a. um réttaráhrif lausnarskilyrða á gildi samninga, svo og um réttaráhrif brostinna forsendna.  Þá er vísað til meginreglna skaðabótaréttar og réttarfars, m.a. um sönnun fyrir tjóni.

         Málskostnaðarkrafa styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

         Fyrir liggur að málsaðilar gerðu með sér viðskiptasamning í september 2001.  Hinn 31. janúar 2003 gerðu málsaðilar með sér svonefndan viðaukasamning sem skyldi vera viðauki við samninginn frá 2001.

         Samkvæmt efni sínu er samningurinn frá 2003 samstarfssamningur um markaðsstuðning stefnda við stefnanda.  Markmið samningsins var að fá hljómsveitir inn á Champions, veitingastað sem stefnandi rak, og auglýsa staðinn upp sem fyrsta flokks skemmtistað í Reykjavík.  Segir að aðilum samningsins sé ljóst að báðir aðilar verði að hafa verulegan hag af samstarfinu.  Hagur stefnanda felist í stóraukningu á gestafjölda veitingastaðarins og þar með veltu en hagur stefnda í aukinni sölu á vörum stefnda ásamt tryggingu á langtímasamningi við Champions.

         Í 1. gr. samningsins segir:

         “ÖES leggur til hljómsveitir til að spila á Champions í sjö mánuði, frá 1. mars og út september 2003.  ÖES mun tryggja greiðslur til viðkomandi hljómsveita á þessu tímabili.  Á þessu tímabili fær ÖES allar tekjur af miðasölu á Champions.  Frá 1. október 2003 til 30. september 2005 munu ÖES og Champions í samstarfi halda áfram að fá hljómsveitir á veitingastaðinn og mun samstarfinu háttað þannig að ÖES sér um að bóka hljómsveitir, sjá um miðasölu og auglýsingar.  ÖES mun ráða til þess utanað komandi aðila.  Champions mun sjá um dyravörslu.  Tekjur af miðasölu hverrar helgar munu skiptast sem hér segir:

         450.000 kr. til hljómsveita og þóknunar vegna þeirra

           80.000 kr. til auglýsinga

           30.000 kr. til miðasölu

         Það sem eftir verður af miðasölu hverrar helgar mun  skiptast þannig að 2/3 (66,6%) rennur til Champions og 1/3 (33,3%) til ÖES.  Mun uppgjör til hljómsveita verða gerð upp eftir hverja helgi en Champions og ÖES gera upp sín mál mánaðarlega og eigi síðar en 5. hvers mánaðar.”

         Í 3. gr. samningsins segir m.a. “ÖES mun til viðbótar við tryggingu greiðslna til hljómsveita standa straum af markaðssetningu á þeim kvöldum sem samningurinn nær til.”

         Í viljayfirlýsingu sem undirrituð var af hálfu stefnda 31. janúar 2003, eða sama dag og viðaukasamningurinn var gerður, lýsir stefnandi yfir vilja til þess að endurnýja núverandi samning við stefnanda með verulega stækkun veitingastaðarins í huga fyrir árslok 2003.  Þá segir að viljayfirlýsingin sé gerð í trausti þess samstarfs sem fyrirtækin séu að hefja til að markaðssetja Champions Cafe enda muni Ölgerðin leggja verulega fjármuni í það samstarf.

         Með bréfi, dags. 4. júlí 2003, tilkynnti stefndi stefnanda að viðaukasamningurinn væri fallinn úr gildi vegna brostinna forsendna.  Í bréfinu segir að samkvæmt samningnum sé aðilum ljóst að báðir verði að hafa verulegan hag af samstarfinu og ávinningi stefnda lýst sem aukinni sölu á vörum til stefnanda.  Vísað er til þess að samkvæmt upplýsingum úr bókhaldskerfi stefnda sé sala fyrirtækisins til Champions Cafe fyrir tímabilið janúar – júní 2003 verulega minni en fyrir sama tímabil árið 2002.  Hafi sala staðarins minnkað um hartnær 30% þrátt fyrir að stefndi hafi lagt verulega fjármuni í verkefnið og markaðssetningu Champions Cafe og stefndi því orðið fyrir verulegu tjóni vegna samstarfsins.  Þá segir í bréfinu:

         “Þar sem það var skýr forsenda ÖES fyrir gerð viðaukasamningsins að hafa raunverulegan hag af samstarfinu, m.a. með aukinni sölu vara sinna, er hér augsýnilega um brostna forsendu að ræða,  Forsendan er veruleg og jafnframt ákvörðunarástæða fyrir ÖES.  Viðemjanda ÖES var það fullljóst, enda kemur fram greinargóð lýsing í inngangskafla samningsins á forsendum samningsins.

         Samkvæmt reglum samningaréttar hafa brostnar forsendur þær afleiðingar í för með sér að samningsaðili er ekki bundinn við efni samningsins, þ.e. samningurinn er ógildur.”

         Með bréfi, dags. 7. júlí 2003, mótmælti stefnandi einhliða ákvörðun stefnda um að ógilda samninginn og skoraði á stefnda að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.  Jafnframt áskildi stefnandi sér rétt til að leita réttar síns vegna hugsanlegs tjóns vegna vanefnda stefnda á samningnum.

         Þegar virt er orðalag viðaukasamningsins þykir ljóst að forsenda samningsgerðarinnar hafi verið sú að báðir aðilar högnuðust á samningnum.    Stefnandi með því að fjöldi gesta ykist stórlega og stefndi með því að auka sölu á vörum sínum til stefnanda.  Til þess að svo mætti verða skuldbatt stefndi sig til þess að leggja af mörkum verulega fjármuni án þess að það sé skilgreint nánar.  Samkvæmt samningnum skyldi stefndi leggja til hljómsveitir í sjö mánuði og auglýsa staðinn.   Ekki er tilgreint hverju stefndi skyldi til kosta varðandi hljómsveitir eða auglýsingar á staðnum.

         Fyrir liggur, sbr. yfirlit yfir útlagðan kostnað stefnda vegna viðaukasamningsins, að á tímabilinu janúar 2003 til og með júní 2003, nam útlagður kostnaður stefnda vegna markaðssetningar og hljómsveita, að frádregnum tekjum af miðasölu, 9.451.999,64 krónum.

         Samkvæmt lista yfir hreyfingar fjárhags stefnanda nam brúttósala stefnanda í janúar 2003 1.814.749 krónum, í febrúar s.á. 1.600.287 krónum, í mars s.á. 2.663.404 krónum, í apríl s.á. 2.558.890 krónum, í maí s.á. 1.434.837 krónum og í júní s.á. 1.059.684 krónum.  Eins og sjá má jókst sala stefnanda nokkuð í mars og apríl 2003 frá því sem hún hafði verið í janúar og febrúar s.á. en minnkaði aftur í maí og júní s.á. 

         Stefndi heldur því fram að í maí og júní 2003 hafi stefndi farið að vanefna samninginn þannig að verulegir fjármunir hafi ekki verið lagðir í verkefnið, hljómsveitir hafi ekki verið fengnar til að spila og markaðssetningu hafi skort.  Hvað stefnandi telur verulega fjármuni liggur ekki fyrir, en eins og áður greinir er það ekki skilgreint í samningi aðila.  Þá verður ekki séð, sbr. fullyrðingar stefnanda í stefnu, að í tölvupóstssamskiptum aðila sé að finna viðurkenningu stefnda á því að hafa ekki lagt í verkefnið þá fjármuni sem samið hafi verið um eða viðurkenningu á því að hafa ekki fengið þær hljómsveitir til að spila sem gert hafði verið ráð fyrir að myndu spila á staðnum.  Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það í málinu að stefndi hafi vanefnt samninginn í maí og júní 2003 en samkvæmt kostnaðaryfirliti stefnda virðist stefndi hafa greitt talsverðar fjárhæðir vegna tónlistarflutnings á þessum tíma.

         Þegar litið er til málatilbúnaðar stefnanda og kröfugerðar hans virðist hann líta svo á að stefndi hafi skuldbundið sig til þess að greiða fyrir auglýsingar og hljómsveitir hverja helgi út árið 2005.  Er ekki á það fallist með stefnanda.  Samkvæmt 1. gr. samningsins skuldbatt stefndi sig til þess að leggja til hljómsveitir og tryggja greiðslur til þeirra í sjö mánuði, frá 1. mars 2003 og út september 2003.  Engar fjárhæðir eru nefndar í því sambandi í samningnum.  Þá eru engar fjárhæðir nefndar í samningnum varðandi markaðssetningu á þessu 7 mánaða tímabili, sbr. 3. gr. samningsins.  Eftir 1. október 2003 gerir samningurinn ráð fyrir ákveðnu samstarfi aðilanna.  Segir þar að stefndi sjái um að bóka hljómsveitir, sjá um miðasölu og auglýsingar.  Ekkert segir um það í samningnum að stefndi eigi að bera kostnaðinn af þessu, en samkvæmt samningnum virðist ráð fyrir því gert að tekjur af miðasölu fari til greiðslu slíks kostnaðar og nánar tilgreint hvernig þær skuli deilast niður á þessa liði.

         Með því að ekki þykir sýnt fram á í málinu að stefndi hafi vanefnt samninginn í maí og júní 2003 ber að líta svo á að stefndi hafi efnt samninginn þar til hann felldi hann úr gildi 4. júlí 2003.  Stefndi hafi því, í samræmi við samning aðila, séð um að leggja til hljómsveitir og greiða fyrir þær, sbr. 1. gr. samningsins, og staðið straum af markaðssetningu, sbr. 3. gr. hans, í fjóra mánuði af þeim sjö mánuðum sem hann hafði skuldbundið sig til þess samkvæmt samningi aðila.  

         Stefndi lagði í töluverðan kostnað til efnda á samningnum, en samtals lagði hann til tæpa níu og hálfa milljón króna í samstarfið.  Samkvæmt hreyfingalista stefnanda nam heildarvelta hans svipaðri fjárhæð á sama tímabili.  Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að báðir aðilar samningsins hafi haft verulegan hag af samstarfinu þann tíma sem það stóð.  Ekki þykir sýnt fram á fylgni milli samningsins og aukins gestafjölda hjá stefnanda eða aukinnar sölu stefnda á vörum til stefnanda.  Sala stefnanda jókst nokkuð í mars og apríl 2003 en minnkaði aftur í maí og júní s. á.  Eins og rakið er hér að framan þykir ekki sýnt fram á að minnkandi sala stefnanda í maí og júní 2003 verði rakin til vanefnda stefnda á samningi aðila.  Sala á vörum stefnda til stefnanda jókst hins vegar ekki í mars.  Hún jókst um rúmar 100.000 krónur í apríl en féll síðan aftur í maí og júní 2003.  Þegar þetta er virt verður að fallast á með stefnda að markmið samningsins hafi ekki náðst.  Forsenda fyrir áframhaldandi samstarfi var því brostin  og stefnda rétt að fella samninginn úr gildi.    

         Ber því, samkvæmt framansögðu,  að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

         Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

         Stefndi, Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kaspers ehf.

         Málskostnaður fellur niður.