Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun
  • Veðréttindi


                                                         

Miðvikudaginn 14. maí 2014.

Nr. 296/2014.

Rósa Guðrún Daníelsdóttir

(Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.)

gegn

Íbúðalánasjóði

(Gizur Bergsteinsson hrl.)

Kærumál. Greiðsluaðlögun. Veðréttindi. 

R kærði úrskurð héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns um að afmá af fasteign R veðkröfur Í umfram tiltekið markaðsverðmæti fasteignarinnar. R hafði fengið samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, kom fram að það væri ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir niðurfellingu veðréttinda samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/2009 að skuldari búi á viðkomandi fasteign og hafi þar skráð lögheimili. Þar sem skilyrðinu hefði ekki verið fullnægt í málinu væri fallist á með Í að ógilda bæri ákvörðun sýslumannsins um afmáningu veðréttinda Í af fasteign R.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. apríl 2014, þar sem felld var úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins í Keflavík að afmá af fasteign sóknaraðila að Háteigi 4 í Reykjanesbæ veðkröfur varnaraðila umfram tiltekið markaðsverðmæti fasteignarinnar. Kæruheimild er í 7. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignakrafna á íbúðarhúsnæði. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til dóms Hæstaréttar 22. nóvember 2010 í máli nr. 616/2010 og forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. apríl 2014.

                Með tilkynningu samkvæmt 7. tl. 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 23. október 2013, leitaði sóknaraðili úrlausnar dómsins á ákvörðun sýslumannsins í Keflavík um nýjan höfuðstól á veðláni áhvílandi á íbúð varnaraðila á fasteigninni Háteigi 4, Reykjanesbæ.

                Krafa sóknaraðila er að ákvörðun sýslumanns um afmáningu veðréttinda sóknaraðila umfram 14.600.000 krónur á fasteigninni verði ógilt og að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað.

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað.

I

                Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. ágúst 2011 var samþykkt umsókn varnaraðila um greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er dagsett 17. apríl 2012. Varnaraðili stóð í skilum samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun og í lok tímabils greiðsluaðlögunar leitaði varnaraðili eftir því við sýslumanninn í Keflavík á grundvelli a liðar 1. mgr. 21. gr. laga nr. 101/2010 að veðbönd yrðu máð af eign hennar að Háteigi 4, Reykjanesbæ, eftir reglum 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðskrafna á íbúðarhúsnæði. Sóknaraðili á einn veðréttindi í eign varnaraðila.

                Sýslumaðurinn í Keflavík hélt veðhafafund 26. september 2013. Fyrir fundinn óskaði sóknaraðili eftir því í bréfi 16. september 2013 að fá afhent gögn málsins til þess að geta tekið afstöðu til beiðni varnaraðila um afmáningu veðskuldar við sóknaraðila. Sýslumaður synjaði sóknaraðila um afhendingu umbeðinna gagna og vísaði til 1. málsl. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009. Á veðhafafundinum kynnti sýslumaður framlögð gögn. Ekki lágu fyrir upplýsingar á fundinum um að varnaraðili átti ekki lögheimili að Háteigi 4, Reykjanesbæ, og að eign hennar var í útleigu. Á fundinum gerði sóknaraðili athugasemd við það. Engu að síður og án frekari rannsóknar tók sýslumaður á fundinum þá ákvörðun að færa höfuðstól áhvílandi skuldar niður um 5.513.292 krónur samkvæmt fyrirliggjandi mati tveggja fasteignasala og var nýr höfuðstóll skuldarinnar ákveðinn 14.600.000 krónur.

                Þann 14. október 2013 óskaði sóknaraðili eftir endurupptöku málsins hjá sýslumanni samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem þá lá fyrir þinglýstur leigusamningur um íbúð varnaraðila og ennfremur staðfesting á að hún átti ekki lögheimili á eigninni. Sýslumaður lét fara fram nýtt greiðslumat og ákvað síðan að fyrri ákvörðun í málinu skyldi standa.

                Á grundvelli 7. tl. 12. gr. laga nr. 50/2009 skaut sóknaraðili þessari ákvörðun til héraðsdóms en þar segir að rísi ágreiningur um ráðstafanir samkvæmt 12. gr. laganna geti þeir sem hlut eiga að máli leitað úrlausnar um hann fyrir dómstólum eftir sömu reglum og gilda um úrlausn ágreinings um gildi nauðungarsölu. Ágreiningur aðila snýst í fyrsta lagi um hvort skilyrði laga nr. 50/2009 hafi verið uppfyllt, annars vegar um greiðsluerfiðleika og hins vegar um lögheimili. Í öðru lagi hvort sýslumaður hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að rannsaka málið ekki nægilega vel og í þriðja lagi hvort sýslumaður hafi brotið gegn 15. gr. stjórnsýslulaga með því að hafna beiðni sóknaraðila um afhendingu gagna.

II

                Sóknaraðili byggir á því að ekki liggi fyrir í málinu að varnaraðili verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með greiðslu skuldarinnar, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009. Varnaraðili hafi leigt eign sína út frá 1. júlí 2012 til 30. júní 2013 fyrir 115.000 krónur á mánuði. Þá sé því ekki mótmælt af hálfu varnaraðila að íbúðin hafi verið í útleigu síðan. Telur sóknaraðili að í ljósi þessa sé varnaraðili fullfær um að greiða af áhvílandi láni.

                Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi flutt lögheimili sitt að Hnappavöllum 4, Öræfum, þann 5. júní 2012 og, eins og áður sagði, búi ekki lengur að Háteigi 4, Reykjanesbæ. Í athugasemdum við 12. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/2009 komi fram að reglur ákvæðisins taki aðeins til þeirrar fasteignar þar sem skuldari haldi heimili og hafi skráð lögheimili. Tilgangur löggjafans sé að tryggja að fjölskyldur haldi heimilum sínum og því sé það sett sem skilyrði í 12. gr. að umsækjandi haldi heimili á þeirri eign sem sótt sé um afmáningu veðréttinda á og hafi þar skráð lögheimili. Vilji löggjafans hafi verið að tryggja heimilum landsins öruggt húsaskjól og tækifæri á að raska sem minnst eðlilegu heimilishaldi þrátt fyrir þær efnahagslegu hremmingar sem dundu yfir þjóðina á haustmánuðum 2008. Tilgangurinn hafi ekki verið að afmá kröfur af eignum í útleigu eins og mál þetta snúist um.

                Þá byggir sóknaraðili ennfremur á því að sýslumaður hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni nægilega vel áður en ákvörðun var tekin. Vísar sóknaraðili til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi. Í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009 segi að sýslumaður kanni hvort skilyrði fyrir afmáningu séu uppfyllt en eitt af skilyrðum þess sé að skuldari sé um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með veðskuldir sem hvíla á eigninni. Sýnt hafi verið fram á að rannsókn sýslumanns hafi verið ófullnægjandi. Sú staðreynd að varnaraðili eigi ekki lögheimili á staðnum hafi átt að gefa sýslumanni tilefni til að kanna málið nánar og athuga hvort eignin væri í útleigu.

                Að lokum byggir sóknaraðili á því að synjun sýslumanns á afhendingu gagna hafi verið í andstöðu við 15. gr. stjórnsýslulaga.

                Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að leigutekjur hennar séu þess valdandi að ekki sé unnt að líta svo á að hún uppfylli skilyrði 12. gr. laga nr. 50/2009. Ekki megi líta fram hjá því að eftir að sóknaraðili fór fram á endurupptöku ákvörðunar sýslumanns hafi sýslumaður aflað nýs greiðslumats. Nýjar forsendur hafi verið lagðar til grundvallar í hinu nýja mati og það hafi leitt til þess að greiðslugeta varnaraðila hafi aukist um 15.334 krónur á mánuði. Það hafi ekki verið nóg til að breyta þeirri niðurstöðu að varnaraðili teldist vera í greiðsluvanda þannig að ákvörðun sýslumanns um afmáningu hafi staðið óbreytt. Því mótmæli varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila að varnaraðili teljist ekki lengur vera í greiðsluvanda í skilningi 12. gr. laga nr. 50/2009.

                Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki átt rétt á að fá afmáningu veðkrafna á fasteign sinni samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/2009 á þeim grundvelli að varnaraðili hafi ekki haft dvalarstað á lögheimili.

                Varnaraðili heldur því fram að ákvörðun sýslumanns hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun. Um gildissvið laga nr. 37/1993 sé fjallað í fyrsta kafla laganna. Varnaraðili telur að lögjöfnun út frá 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1993 leiði til þeirrar niðurstöðu að lögin gildi ekki um afmáningu veðkrafna. Þar af leiðandi verði að líta svo á að ákvörðun sýslumanns, sem sóknaraðili krefst ógildingar á í máli þessu, hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun.

                Varðandi rannsóknarskyldu sýslumanns tekur varnaraðili fram að sóknaraðili hafi upplýst embætti sýslumanns um leigugreiðslur eftir að ráðstöfun á grundvelli 12. gr. hafi farið fram og óskað eftir endurupptöku. Sýslumaður hafi brugðist strax við og kallað eftir öðru greiðslumati. Niðurstaða þeirrar skoðunar hafi verið sú að greiðslugeta varnaraðila breyttist lítillega þar sem hún hafi á móti þurft að standa straum af kostnaði af fasteign þeirri þar sem hún sé búsett. Sýslumaður hafi því rannsakað þetta mál til hlítar.

                Varðandi málsástæðu sóknaraðila byggða á synjun á afhendingu gagna bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi fengið sum gögn afhent fyrir veðhafafund en önnur á fundinum sjálfum. Það hafi hins vegar ekki komið að sök því að sjónarmið sóknaraðila hafi engu að síður komið fram í málinu og sýslumaður endurupptekið málið á grundvelli nýrra gagna. Sýslumaður hafi gætt meðalhófs, sem sé skuldurum afar mikilvægt, enda oft um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða. Meðalhófsreglan sé lögfest í 12. gr. laga nr. 37/1993 og verði að sjálfsögðu að líta til 15. gr. sömu laga í samhengi við hana.

III

                Eins og að framan er rakið sótti varnaraðili um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og komst samningur á 17. apríl 2012 til eins árs. Varnaraðili stóð í skilum með samninginn og lagði fram beiðni hjá sýslumanni um niðurfellingu veðréttinda sem voru hærri en söluverð eignar hennar. Á veðhafafundi 26. september 2013 féllst sýslumaður á beiðni varnaraðila. Sóknaraðili hefur skotið þessari ákvörðun sýslumanns til dómsins með stoð í 7. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009.

                Í a lið 1. mgr. 21. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga segir að þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tímabils greiðsluaðlögunar, en áður en það er á enda, geti skuldari leitað eftir því að veðbönd verði máð af fasteignum eftir reglum 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, enda sé fullnægt öllum almennum skilyrðum fyrir þeirri aðgerð samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt þessu tilvitnaða ákvæði laganna þarf skuldari að fullnægja öllum almennum skilyrðum laga nr. 50/2009 til þess að eiga rétt á að fá veðbönd afmáð af fasteign sinni. Meðal hinna almennu skilyrða laga nr. 50/2009 er að skuldari eigi lögheimili á fasteigninni, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, þar sem segir að greiðsluaðlögun geti aðeins varðað fasteign þar sem skuldari heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða hóflegt húsnæði miðað við þarfir skuldara og fjölskyldu hans sem ætlað sé til búsetu samkvæmt  ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Undantekningar eru aðeins þær, samkvæmt 3. mgr. 2. gr., að skuldari sé búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda.

                Fyrir liggur í málinu að varnaraðili flutti lögheimili sitt frá Háteigi 4, Reykjanesbæ, 5. júní 2012 og hefur ekki búið þar síðan.

                Í athugasemdum með 12. gr. laga í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/2009 kemur fram að úrræði samkvæmt 12. gr. stendur aðeins þeim til boða sem halda heimili og hafa skráð lögheimili á fasteigninni. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir m.a. að í kjölfar bankahrunsins á liðnu hausti og þeirrar miklu efnahagslægðar sem því hefur fylgt með tilheyrandi greiðsluvanda fyrir stóran hóp fólks, þyki jafnframt nauðsynlegt að tryggja einstaklingum virkara úrræði til að gera þeim eftir fremsta megni kleift að endurskipuleggja fjármál sín með það að markmiði að þeir geti búið áfram í fasteign sinni sé þess nokkur kostur. Tilgangur löggjafans var því sá að leitast við að tryggja að fjölskyldur héldu heimilum sínum.

                Samkvæmt framansögðu verður talið að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir niðurfellingu veðréttinda, samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/2009, að skuldari búi á fasteign sinni og hafi þar skráð lögheimili. Þessu skilyrði var ekki fullnægt og ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á með sóknaraðila að ógilda beri ákvörðun sýslumannsins í Keflavík um afmáningu veðréttinda sóknaraðila á fasteigninni Háteigi 4, Reykjanesbæ.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Ákvörðun sýslumannsins í Keflavík um að afmá veðréttindi sóknaraðila umfram markaðsverðmæti, 14.600.000 krónur, af fasteign varnaraðila að Háteigi 4, Reykjanesbæ, fastanr. 208-8262, skal vera ógild.

                Málskostnaður fellur niður.