Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


Þriðjudaginn 3. febrúar 2015

Nr. 55/2015.

Gunnhildur Loftsdóttir

(Sigurður Gizurarson hrl.)

gegn

Landsvirkjun

(Jón Sveinsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni G um dómkvaðningu matsmanns til að meta til peningaverðs fallréttindi jarðarinnar B. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að hvorki yrði ráðið af matsbeiðni hver sú krafa væri sem G vildi staðreyna né væri þar gerð grein fyrir á hvaða lagagrundvelli hún hygðist reisa málatilbúnað sinn á hendur L.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2014, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með beiðni 14. apríl 2014 óskaði sóknaraðili eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta til peningaverðs fallréttindi jarðarinnar Breiðaness í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í Þjórsá. Var beiðnin sett fram án þess að mál hefði verið höfðað um þessi réttindi og var hún því reist á XII. kafla laga nr. 91/1991, þótt þess hafi hvergi verið getið í beiðninni. Eftir að dómkvaðningar hafði verið krafist höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila til viðurkenningar á bótaskyldu, en því máli var vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 27. nóvember 2014. Þeim úrskurði var ekki skotið til Hæstaréttar.

Í matsbeiðni sóknaraðila segir að matsþoli, sem er varnaraðili málsins, hafi leitast við að komast yfir vatnsréttindi í neðri hluta Þjórsár fyrir landi jarðarinnar Breiðaness, en sóknaraðili mun vera einn af eigendum hennar. Í því skyni hafi varnaraðili fengið systkini sóknaraðila til að undirrita samningsdrög þar að lútandi. Þá segir í matsbeiðninni að varnaraðili hafi haldið sig við ákveðnar verðhugmyndir, sem sóknaraðili geti ekki fallist á, en hún telji varnaraðila ekki hafa gert neina raunhæfa tilraun til að komast að samkomulagi við eigendur jarðarinnar um markaðsverð réttindanna.

Í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 segir að aðila, sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, sé heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli, ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laganna skal í matsbeiðni greina skýrt frá því atviki sem aðili vill leita sönnunar um, hver réttindi eru í húfi og hverja aðra sönnun varðar að lögum. Svo sem hér hefur verið rakið verður hvorki ráðið af matsbeiðni hver sú krafa er sem sóknaraðili vill staðreyna né heldur er þar gerð grein fyrir á hvaða lagagrundvelli sóknaraðili hyggst reisa málatilbúnað sinn á hendur varnaraðila. Þegar af þeirri ástæðu að matsbeiðnin var alls ófullnægjandi verður að staðfesta hinn kærða úrskurð, enda verður ekki bætt úr annmarka að þessu leyti við meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Gunnhildur Loftsdóttir, greiði varnaraðila, Landsvirkjun, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2014.

Mál þetta var þingfest 7. júlí sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 3. desember sl.

                Matsbeiðandi, Gunnhildur Loftsdóttir, Miðbraut 26, Seltjarnarnesi, óskar þess, með vísan til 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dómkvaddur verði matsmaður til að meta til peningaverðs fallréttindi jarðarinnar Breiðaness í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, í Þjórsá. Þá krefst matsbeiðandi málskostnaðar úr hendi matsþola.

                Matsþoli, Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, krefst þess aðallega að ,,dómari taki til úrskurðar hvort að matsbeiðni eigi að ná fram að ganga“ en til vara að ,,dómari úrskurði um það hvort rétt sé að matsbeiðni sé beint að Landsvirkjun“. Þá krefst matsþoli málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda.

                Efni matsbeiðni

                Í matsbeiðni kemur fram að líta megi á Landsvirkjun sem matsþola þar sem fulltrúar hennar hafi, vegna fyrirhugaðrar Holtsvirkjunar, leitast við að komast yfir fallréttindi í neðri hluta Þjórsár fyrir landi jarðarinnar Breiðaness. Matsþoli hafi m.a. fengið systkini matsbeiðanda, sem eru sameigendur hennar að jörðinni, til að undirrita samningsdrög þar að lútandi. Matsþoli hafi haldið sig við ákveðnar verðhugmyndir sem matsbeiðandi geti ekki fallist á þar sem hún telji að fullt verð fyrir þessi réttindi hljóti að vera markaðsvirði þeirra. Matsþoli hafi ekki gert neina raunhæfa tilraun til að komast að samkomulagi við eigendur Breiðaness um rétt verð fallréttinda. Matsbeiðandi vilji því fá mat dómkvadds matsmanns um markaðsvirði réttindanna. 

                Málsástæður matsbeiðanda

                Matsbeiðandi byggir á því að réttur hennar til að fá verðmæti vatnsréttinda sinna metið til peningaverðs ráðist ekki af því hvort matsgerðin renni stoðum undir lögmæti stefnukröfu í viðurkenningarmáli matsbeiðanda gegn matsþola, enda hafi dómari í þessu matsmáli ekki lögsögu um hvað þar teljist sönnunargagn.

                Matsbeiðandi bendir á að matsþoli fullyrði ranglega að af hans hálfu hafi verið leitað frjálsra samninga við landeigendur Breiðaness um leigu vatns- og landsréttinda við Þjórsá. Í reynd hafi verið beitt alls kyns misneytingu til að koma á samningi m.a. um leigu á vatnsréttindunum og nokkrum öðrum landsréttindum til 60 ára. Athugasemdum matsbeiðanda við samningstilboð matsþola hafi aldrei verið svarað. Allt að einu hafi þessir aðilar boðað til undirritunar samnings, fengið fjögur systkini matsbeiðanda til undirritunar og greitt þeim leigu, vitandi vits að enginn löglegur samningur um nýtingu vatnsfallsins hafi verið kominn á. Þá mótmælir matsbeiðandi fullyrðingum um að ágreiningur sé um fjárhæð vatnsréttinda. Verð hafi aldrei verið rætt við matsbeiðanda eða henni gefinn kostur á að hafa uppi kröfur í því efni. Í tilboði matsþola hafi aðeins komið fram það verð sem hann hafi álitið hæfilegt. Ágreiningur hafi hins vegar komið upp vegna ákvæðis í samningstilboði matsþola, þar sem gengið hafi verið út frá því að eigendur annarra jarða á Sandlækjartorfu ættu hugsanlega hlutdeild í vatnsréttindunum ásamt Breiðanesi, þótt þær jarðir ættu ekki bakka að Þjórsá. Eigendur Breiðaness skyldu höfða mál á hendur eigendum annarra jarða á Sandlækjartorfu til að fá staðfest að vatnsréttindi í Þjórsá fyrir landi Breiðaness tilheyrðu eingöngu eigendum jarðarinnar. Einungis 1/6 hluti leigunnar skyldi greiddur eigendum Breiðaness við undirritun samnings, en afgangurinn síðar ef niðurstaða dómsmálsins yrði jákvæð. Matsbeiðandi hafi talið að lögfræðileg álitsgerð, sem hafi verið forsenda þessa ákvæðis samningsdraganna, væri fjarstæða og hún hafi því neitað að láta teyma sig út í óþörf og kostnaðarsöm málaferli.

                Matsbeiðandi telur að matsþoli hafi virt að vettugi samningsfrelsi matsbeiðanda með því að semja sérstaklega við systkini hennar sem hafi ekki ein sér haft ráðstöfunarrétt á vatnsréttindum Breiðaness. Þau hafi verið og séu enn í óskiptri sameign systkinanna fimm og því verði engin mikilvæg ákvörðun tekin um þau nema allir sameigendur séu sammála.        Matsbeiðandi telur að mótbára matsþola við aðild sinni að þessu máli stangist á við kröfu hans um að matsbeiðnin nái ekki fram að ganga. Eigi matsþoli hvorki aðild að málinu né hagsmuna að gæta um framgang matsbeiðninnar sé honum ekki stætt á að mótmæla matsbeiðninni.

Málsástæður matsþola

Matsþoli vísar til þess að þegar matsbeiðandi lagði fram þessa matsbeiðni hafi mál ekki verið höfðað. Hinn 19. júní sl. hafi matsþola verið birt stefna í máli sem hafi verið þingfest 24. júní. Í stefnu sé þess krafist að staðfest verði með dómi að matsþoli hafi valdið matsbeiðanda bótaskyldu fjárhagslegu tjóni með tilraunum sínum til að komast yfir vatnsréttindi jarðarinnar Breiðaness í Þjórsá. Nú hafi því máli verið vísað frá dómi.

Matsþoli hafi leitað frjálsra samninga við landeigendur Breiðaness um leigu vatns- og landsréttinda við Þjórsá. Þrátt fyrir að engin skylda hvíli á aðilum til að semja í frjálsum samningum hafi fjögur systkini matsbeiðanda samið við matsþola um framsal sinna réttinda. Þar sem samningar hafi ekki náðst á milli matsþola og matsbeiðanda standi ekki til af hálfu matsþola að hefja viðræður að nýju. Í ljósi málsatvika telji matsþoli að þessi matsbeiðni hafi enga þýðingu við sönnun í fyrrnefndu dómsmáli þar sem krafa í stefnu lúti ekki að ágreiningi um verðmæti vatnsréttinda, heldur hugsanlega bótaskyldu tjóni sem matsbeiðandi telji sig hafa orðið fyrir í viðræðum við matsþola um möguleg kaup á vatnsréttindum. Ágreiningslaust sé að matsbeiðandi vilji fá hærra verð fyrir vatnsréttindi en matsþoli sé tilbúinn að borga. Því fari fjarri að niðurstaða dómkvadds matsmanns leiði til þess að áhugasamur kaupandi eigi að greiða hærra verð, vilji hann það ekki.

Matsþoli geri jafnframt athugasemdir við að matsbeiðni sé beint að honum. Ekkert samningssamband sé á milli matsþola og matsbeiðanda. Atvik þessa máls megi bera saman við aðstæður þar sem aðili leiti til landeiganda á almennum markaði og óski eftir að kaupa hluta af landi hans en ekki náist samkomulag um verð þar sem landeigandi vilji fá hærra verð en áhugasamur kaupandi vilji borga. Ekki verði séð með góðu móti að landeigandi geti dómkvatt matsmann og beint slíku mati að áhugasömum kaupanda, einkum í ljósi þess að ekkert samningssamband sé á milli aðila, né hvíli nokkur skuldbinding á aðilum til að ganga til samninga.

Að lokum bendir matsþoli á að umræddar virkjanir í neðri hluta Þjórsár hafi verið á teikniborðinu í rúm hundrað ár. Samningar við landeigendur hafi fyrst tekist á árinu 1913 af hálfu Einars Benediktssonar og Títanfélagsins. Umræddar virkjanir séu í biðflokki rammaáætlunar og ekki sé útséð um að því verði breytt. Það sé því ekki útilokað að önnur hundrað ár líði áður en eitthvað gerist. Engin leyfi hafi verið veitt fyrir virkjuninni og verði það ekki hægt á meðan hún sé í biðflokki rammaáætlunar.

Niðurstaða

Matsbeiðni matsbeiðanda lýtur að því að dómkvaddur verði matsmaður til að meta til peningaverðs fallréttindi jarðarinnar Breiðaness í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, í Þjórsá.

Eftir að matsbeiðnin var móttekin hjá dóminum 14. apríl sl. höfðaði matsbeiðandi mál á hendur matsþola fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 19. júní sl. Málið er nr. E-2415/2014 í málaskrá réttarins. Dómkröfur stefnanda voru þær „að staðfest verði með dómi að stefndi hafi valdið stefnanda bótaskyldu tjóni með tilraunum sínum til að komast yfir vatnsréttindi jarðarinnar Breiðaness í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, í Þjórsá, og spildu af landi jarðarinnar“. Byggði matsbeiðandi á því að matsþoli hefði valdið sér tjóni með því að semja við systkini hennar um afnot af vatns- og landréttindum jarðarinnar Breiðaness. Með úrskurði 27. nóvember sl. var máli E-2415/2014 vísað frá dómi. Í forsendum héraðsdóms fyrir frávísuninni kemur m.a. fram að í stefnu sé hvorki gerð viðhlítandi grein fyrir því hvaða atvik og lagarök hafi leitt til þess að samningur stefnda og önnur hegðan hans, í tengslum við samningsgerðina, hafi valdið stefnanda tjóni né í hverju fjárhagslegt tjón hennar kunni að vera fólgið. Sé m.a. óskýrt í hverju sviksamleg hegðun stefnda við gerð samnings hafi verið fólgin og með hvaða hætti samningar stefnda við systkini stefnanda hafi valdið bótaskyldu á hendur stefnda. Taldi dómari málatilbúnað stefnanda að þessu leyti því ekki í samræmi við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar. 

Af málatilbúnaði matsbeiðanda verður helst ráðið að hún hafi með umbeðinni dómkvaðningu ætlað að afla sönnunargagns í framangreindu máli nr. E-2415/2014.

Í XII. kafla laga nr. 91/1991 eru reglur um öflun sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað. Heimild 77. gr. laganna til að óska eftir dómkvaðningu matsmanns er þannig bundin við þann sem hefur í hyggju að höfða mál um kröfu, sem staðreyna þarf eða renna stoðum undir með slíku sönnunargagni. Að mati dómsins verður ekki séð að umbeðið mat geti, eins og málatilbúnaði matsbeiðanda er háttað, rennt stoðum undir skaðabótakröfu hennar á hendur matsþola. Umrædd skaðabótakrafa virðist lúta að bótaskyldu tjóni sem matsþoli telur  sig hafa orðið fyrir í viðræðum við matsþola um möguleg kaup á vatnsréttindum en ekki ágreiningi um verðmæti vatnsréttinda. Verður því ekki séð að matsbeiðandi hafi lögvarða hagsmuni af því að dómkvaðningin fari fram, sbr. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna kröfu matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns.

Með vísan til þessarar niðurstöðu á matsþoli rétt á málskostnaði úr hendi matsbeiðanda, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 125.500 krónur.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Beiðni matsbeiðanda, Gunnhildar Loftsdóttur, um dómkvaðningu matsmanns, er hafnað.

Matsbeiðandi greiði matsþola, Landsvirkjun, 125.500 krónur í málskostnað.