Hæstiréttur íslands

Mál nr. 248/2013


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Þjófnaður
  • Ítrekun


                                     

Fimmtudaginn 3. október 2013.

Nr. 248/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Guðna Þorberg Theodórssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Brot gegn valdstjórninni. Þjófnaður. Ítrekun.

G var ákærður fyrir þjófnað og brot gegn valdstjórninni með því að hafa stolið gólfmottum úr bíl, ráðist á lögreglumann og hótað tveimur öðrum lögreglumönnum. Voru brot G talin sönnuð og var hann dæmdur fyrir brot gegn 244. og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. G átti nokkurn sakarferil að baki og höfðu eldri dómar áhrif til ítrekunar við ákvörðun refsingar. Var refsing G ákveðin fangelsi í 15 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. apríl 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði heimvísað, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð.

Ákæruvaldið hefur fallið frá því sem greinir í ákæru 13. nóvember 2012 að lögreglumaðurinn A hafi hlotið hruflsár á hægri kinn og á báðum höndum. Hið rétta sé að A hafi ekki hlotið slík sár á kinn og ekki á hægri hönd. Að öðru leyti sé lýsing á áverkum A rétt í ákærunni.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er reist á tveimur ástæðum. Annars vegar að ákærði hafi ætíð neitað sök og fyrirsjáanlegt hafi verið að niðurstaða réðist öðru fremur á mati héraðsdómara á framburði vitna. Við slíkar aðstæður eigi héraðsdómur að vera fjölskipaður, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hins vegar er krafa ákærða á því reist að framsetning 2. liðar ákæru 5. nóvember 2012 sé óskýr og villandi.

Ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og sönnunargögnum er háttað í málinu þykja ekki efni til að hnekkja mati héraðsdóms að þessu leyti. Athugasemdir ákærða er lúta að framsetningu 2. liðar ákæru 5. nóvember 2012 eru ekki studdar rökum og geta að lögum ekki leitt til ómerkingar héraðsdóms. Samkvæmt þessu verður ómerkingarkröfu ákærða hafnað.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi fær framburður A lögreglumanns um að ákærði hafi slegið sig hnefahögg stoð í læknisvottorði H sem staðfesti vottorðið við skýrslugjöf í héraði. Auk þess fær þessi lýsing A stoð í framburði G lögreglumanns um að hún hafi séð ákærða slá til A þótt hún hafi ekki séð hvar höggið lenti. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar fyrir brot gegn 244. gr. og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði er fæddur á árinu 1971 og samkvæmt sakavottorði hefur hann allt frá árinu 1988 margoft hlotið dóma og gengist undir sáttir fyrir ýmis brot gegn hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni, umferðar- og áfengislögum. Hlaut hann á árunum 1988 til 1997 átta refsidóma fyrir margvísleg brot gegn almennum hegningarlögum. Á árinu 2004 gekkst hann tvisvar undir sektargerð fyrir fíkniefnalagabrot og aftur í byrjun árs 2005. Hinn 22. mars það ár var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi skilorðsbundið í fjögur ár fyrir nytjastuld og 3. nóvember sama ár í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í fjögur ár fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot. Hinn 1. febrúar 2006 var ákærði dæmdur í 90 daga fangelsi skilorðsbundið í fjögur ár og jafnframt til sektarrefsingar fyrir minni háttar líkamsárás og umferðarlagabrot. Um var að ræða hegningarauka jafnframt því sem refsing samkvæmt dóminum 22. mars 2005 var tekin upp og dæmd með. Hinn 30. október 2008 var ákærði dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot og áfengis- og umferðarlagabrot. Var um að ræða hegningarauka auk þess sem tekin var upp skilorðsbundin refsing samkvæmt framangreindum dómum 3. nóvember 2005 og 1. febrúar 2006. Hinn 22. október 2009 var ákærði dæmdur í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað og umferðarlagabrot. Hinn 29. október 2010 hlaut hann 15 daga fangelsi fyrir þjófnað, en um hegningarauka var að ræða. Hinn 16. mars 2011 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir meiri háttar líkamsárás og 16. maí sama ár var honum með hegningarauka ekki gerð sérstök refsing fyrir þjófnaðarbrot. Loks var ákærði 28. febrúar 2012 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir þjófnað, hilmingu og áfengislagabrot. Samkvæmt sakavottorði lauk ákærði afplánun á þeim óskilorðsbundnu refsingum sem að framan greinir á árunum 2011 og 2013.

Eins og að framan er rakið hefur ákærði áður hlotið refsingar fyrir ofbeldis- og auðgunarbrot og hafa þau áhrif til ítrekunar á refsingu hans nú, sbr. 3. mgr. 106. gr., 1. mgr. 218. gr. b. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt þessu verður litið til 72. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 15 mánuði. 

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Guðni Þorberg Theodórsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 278.675 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 1. mars 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. febrúar sl., er höfðað með tveimur ákærum útgefnum af ríkissaksóknara á hendur Guðna Þorberg Theodórssyni, kt. [...],[...], þeirri fyrri útgefinni þann 5. nóvember 2012 fyrir að hafa framið eftirtalin brot fimmtudaginn 2. ágúst 2012 í [...]:

  1. Þjófnað, með því að hafa farið í heimildarleysi inn í bifreið af gerðinni [...] sem stóð á bifreiðastæði við bílapartasöluna [...], og stolið fimm gólfmottum samtals að verðmæti um kr. 10.000.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa í fangageymslu lögreglustöðvarinnar að Hringbraut 130, hótað lögreglumönnunum A og B, sem voru þar við skyldustörf, að blóðga sig og smita þá með lifrarbólgu C ef þeir reyndu að nálgast ákærða.

Telst þetta varða við 106. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Síðari ákæran er gefin út af ríkissaksóknara 13. nóvember 2012,  fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa þriðjudaginn 27. mars 2012 að [...], ráðist á lögreglumanninn A, sem þar var við skyldustörf, rifið í jakka A, ýtt honum, slegið hann hnefahöggi í hálsinn vinstra megin og í kjölfarið lentu þeir í átökum, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut hruflsár undir höku vinstra megin, á hægri kinn, á báðum höndum, á hægri olnboga og vinstra hné, mar á hægra herðablaði, roða og eymsli við þreifingu á baki.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verið dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.                   

                Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði sök í öllum ákæruliðum.

                Fór aðalmeðferð fram þann 6. febrúar sl. og framhald aðalmeðferðar 18. febrúar sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málavextir.

Ákæra útgefin 5. nóvember 2012.

Ákæruliður 1.

Samkvæmt gögnum málsins barst varðstofu lögreglunnar í Keflavík tilkynning um aðila sem væri kominn inn á athafnasvæði [...], en það sé bílapartasala. Á vettvangi hitti lögreglumaður eigandann, B, og ákærða. Fékk lögreglan upplýsingar um að ákærði hefði tekið gólfmottur og sett í bifreið sína. Neitaði ákærði lögreglu um að leita í bifreið sinni sem staðsett var utan svæðisins. Í kjölfar var bifreið ákærða flutt með dráttarbifreið á lögreglustöðina. Segir í lögregluskýrslu að ákærði hafi brugðist illa við og verið frekar ógnandi í garð lögreglumanna. Var ákærði handtekinn, grunaður um þjófnað og húsbrot og færður í handjárn. Var hann færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa.

                Segir í lögregluskýrslu að [...] bifreiðapartasala sé staðsett við [...]. Athafnasvæðið sé afgirt, en hægt sé að komast inn um girðinguna á suðvesturhliðinni. Öllum ætti þó að vera ljóst að um væri að ræða lokað svæði sem ekki sé ætlast til að farið sé inn á.

                Eftir að ákærði var kominn á lögreglustöð heimilaði hann leit í bifreiðinni og staðfesti það með undirritun leitarheimildar. Í farangursrými bifreiðarinnar fundust gólfmottur sem ákærði kvaðst hafa tekið af athafnasvæði [...]. Ákærði kvaðst hafa gefið sér það að þær kæmu ekki til með að seljast og því tekið þær.

Ákæruliður 2.

Í kjölfar þess að ákærði var færður í fangaklefa kom í ljós að hann var á boðunarlista Fangelsismálastofnunar. Var af hálfu stofnunarinnar óskað eftir því að ákærði yrði vistaður um nóttina og haft yrði aftur samband við stofnunina eftir kl. 9.00 um morguninn með það í huga að koma ákærða í afplánun. Eftir að ákærða var tilkynnt þessi ákvörðun Fangelsismálastofnunar hafi ekkert verið hægt að ræða við hann þar sem hann hafi verið mjög æstur og óviðræðuhæfur með öllu. Ekki hafi verið hægt að taka af ákærða skýrslu vegna málsins en ákærði hafi meðal annars hótað að blóðga sig og smita lögreglumenn af lifrarbólgu C.

                Í upplýsingaskýrslu lögreglu segir að þegar ákærða hafi verið kynnt ákvörðun Fangelsismálastofnunar hafi hann orðið mjög æstur, sparkað og lamið í hurð og veggi fangaklefans og látið svívirðingar ganga yfir lögreglumenn. Þá hafi hann hótað að blóðga sig og reyna að smita lögreglumennina með lifrarbólgu ef þeir reyndu að nálgast hann. Lögreglumenn höfðu tvívegis áður lent í blóðugum átökum við ákærða og þurft að gangast undir margra mánaða prófanir hjá læknum til að komast að því hvort þeir væru smitaðir.

                Þá segir í upplýsingaskýrslu lögreglumannanna B og D, sem voru á vakt á varðstofu umrætt sinn,  að stjórnandi vaktarinnar hafi beðið þá að tilkynna ákærða um ákvörðun Fangelsismálastofnunar. Kvaðst B hafa staðið hjá D er hann færði ákærða fréttirnar. Hafi ákærði m.a. sagt að lögreglan vissi að hann væri smitaður af lifrarbólgu og hafi ákærði hótað að blóðga sig og reyna að smita lögreglumennina ef þeir reyndu að nálgast hann. Taldi lögreglumaðurinn, af ástandi ákærða, fulla ástæðu til að taka þessar hótanir alvarlega.

 Ákæra útgefin 13. nóvember 2012.

Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu segir að upphaf máls þessa sé að sunnudaginn 27. maí 2012, kl. 22:10, hafi borist tilkynning til Fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra um að sést hafi til ölvaðs manns við [...] brjóta rúðu. Lögreglumenn hafi farið á vettvang og hitt fyrir E, sem sagði þeim frá manni sem hafi verið með læti fyrir utan húsið og gengið á bak við húsið áður en lögregla kom á vettvang. Hafi lögreglumenn gengið kring um húsið og séð brotna rúðu á jarðhæð en ekki meintan geranda. Þeir hafi því í framhaldi ákveðið að ræða við íbúa íbúðarinnar, sem rúðan hafði verið brotin í, og barið dyra. Hafi húsráðandinn, F, komið til dyra og virst skelkuð. Hafi hún sagt þeim að hann væri rólegur núna og gefið til kynna með líkamstjáningu að hún vildi að lögreglumenn færu í burtu. Lögreglan hefði þá reynt að fá frekari skýringar og hafi staðið fyrir utan íbúðina þegar ákærði kom skyndilega út úr íbúðinni og kastaði skóm og öðru lauslegu í átt að lögreglumönnum. F hafi lokað hurðinni, en hún fljótlega opnast aftur og ákærði ráðist á móti lögreglumönnunum. Átök hafi borist fram í anddyri hússins og hafi báðir lögreglumennirnir tekið upp kylfur sér til varnar. Hafi G lögreglumaður tekið upp piparúða á meðan A lögreglumaður beitti kylfunni gegn ákærða. Óljóst sé hversu mörgum höggum ákærði hafi verið sleginn með kylfunni en hann hafi haldið áfram að veitast að lögreglunni eftir að hann hafi verið sleginn í höfuðið með kylfunni þannig að blæddi úr. Á meðan á þessu stóð hafi F einnig veist að lögreglumönnum. Kom hjúkrunarfræðingur að og aðstoðaði lögreglumenn við að gera að sárum ákærða. Var ákærði eftir aðhlynningu færður í fangageymslu.

                Í gögnum málsins liggur fyrir læknisvottorð H læknis, dagsett 30. mars 2012, vegna A. Segir í vottorðinu að A kvarti um verki í mjóbaki, vinstra hné og hægri olnboga. Hann sé einnig allur lemstraður/stirður og aumur í liðum og aðeins skjálfandi. Hann sé einnig mjög andlega sleginn. Þá segir að það komi fram hjá lögreglumanni að árásarmaður hafi verið smitaður með lifrarbólgu B og HIV-smitaður. Þá segir að A gangi aðeins stirður í baki og sé vægt óstyrkur á fótum. Hruflusár undir höku, vinstra megin. Ekki kvartanir um höfuðverk. Hruflusár á vinstri hendi, nær gegnum skinn, aðeins blætt. Hruflusár á hægri olnboga og vinstra hné, ekki blæðandi. Eymsli við þreifingu á báðum stöðum. Nokkrir verkir við hreyfingu um vinstra hné og gengur hægt og heldur um hnéð. Nær fullum hreyfiferli passíft en verkjar í ystu stöðum. Roði á „Throacal“ baki og mikil eymsli við þreifingu á Throacal baki, sérlega út til hægri og út á hægra herðablað. A kom í eftirlit 30. mars 2012 og þurfti bólusetningu vegna lifrarbólgusmits. Lýsir A fyrir lækninum atburðarásinni þannig að ákærði hafi komið hlaupandi, öskrandi að A. A hafi þá slegið á móti með kylfu en þeir fallið báðir við og A á bakið. Þrátt fyrir höggið frá A hafi ákærði ekki rotast og haldið ákveðið áfram að ráðast að A. Við fallið hafi A rekið hægri olnboga í hurðarkarm eða gólf. Síðan hafi orðið mikil átök á gólfinu og A þá skaddast á vinstra hné. Einhvern tíma í átökunum hafi ákærði slegið A með hægri hendi í hálsinn eða hökuna vinstra megin. Segir að við skoðun sé hruflusár á vinstri hnúa  og hægri olnboga eins og við fyrri skoðun. Lítil skurfa undir höku vinstra megin. Talsverð eymsli við þreifingu undir hökunni og vinstra megin á hálsi á sama stað og hruflusárið var þann 27. mars. Hruflan hafi minnkað. Mar á hægra herðablaði, eymsli við þreifingu yfir/undir hægra herðablaði. Einnig verkjaður við hreyfingu og við þreifingu um hægri öxl.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákæra dagsett 5. nóvember 2012.

Ákæruliður I.

Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið á svæði sem hann hélt að væri ruslahaugar fyrir bíla. Hafi hann ætlað að gera bíl móður sinnar kláran fyrir veturinn þar sem hann væri að fara á sjó. Hann hafði áður sett sæti í [...]-bifreið móður sinnar sem ekki pössuðu og fengið ábendingu frá vini sínum um að þarna væri [...]bifreið. Hann hafi því ákveðið að athuga hvort í bílnum væri sæti þar sem erfitt væri að fá sæti í [...]-bifreiðar. Engin merki hafi verið um að þarna væri neitt annað en ruslahaugur. Hann hafi farið inn um gat á girðingunni og séð mottur í bifreið sem hann hafi haldið að væri rusl. Því hafi hann ætlað að setja motturnar í bíl móður sinnar og sett þær í skottið á bílnum. Kvað hann rétt að girðing væri umhverfis svæðið en innan girðingar væri víðavangur. Það sem var innan girðingar hafi því verið á víðavangi.

Kvað ákærði mann hafa komið á svæðið og spurt hvað hann væri að gera þarna, hann hafi talið að maðurinn væri einn af haugunum eins og hann sjálfur, þeir sem leiti í rusli. Honum hafi þó orðið ljóst að sá hinn sami var eigandinn. Ákærði hafi viljað vera heiðarlegur og sagt honum að hann hafi sett gólfmottur í bifreið sína. Hann hafi viljað borga motturnar en engin viðbrögð fengið við því, eigandinn hafi hringt á lögregluna. Lögreglan hafi komið og handtekið sig á afar niðurlægjandi hátt og flutt sig á lögreglustöð.

C, eigandi bílapartasölunnar [...], kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á ferð hjá athafnasvæðinu og séð þá bifreið fyrir utan svæðið og farið að kanna málið. Hafi hann þá séð ákærða inni á svæðinu og tekið hann tali. Ákærði hafi verið búinn að taka til ýmislegt dót og hafi hann sagst vera að leita að varahlutum í bifreið móður sinnar. Kvað hann ákærða hafa reynt að leynast í upphafi þegar hann kom gangandi að svæðinu en ekki tekist. Kvað hann ákærða hafa farið inn um gat á girðingunni en svæðið væri afgirt og skilti væri á húsnæðinu merkt fyrirtækinu. Merkingar væru á húsnæðinu um opnunartíma, afgreiðslu og móttöku bifreiða, síma, heimasíðu o.fl. Aðspurður kvað hann ákærða ekki hafa komið til móts við sig þegar hann kom að. Kvað hann rétt að ákærði hafi sagt sér að hann hafi tekið mottur og sett í bifreið sína. Rangt væri að ákærði hafi boðist til að greiða motturnar um kvöldið. Ákærði hafi hlustað á símtalið þegar hann hringdi á lögreglu en ákærða hafi fundist það óþarfi.

I lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið sendur að [...] vegna þjófnaðar. Hann hafi hitt eiganda fyrirtækisins ásamt ákærða. I kvað ákærða hafa viðurkennt það strax að hafa tekið þessar mottur en neitaði lögreglu um að leita í bifreið sinni. Í framhaldi hafi ákærði verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð ásamt bifreið ákærða. Kvað I bílapartasöluna samanstanda af húsi eða skemmu og væri vírgirðing frá húsinu utan um port þar sem bílapartar væru geymdir. Þetta væri allt afgirt en gat hafi verið á girðingunni.

J lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið kallaður til á athafnasvæði [...] í umrætt sinn. Búið hafi verið að handtaka ákærða þegar hann kom að og hafi hlutverk J verið að flytja ákærða á lögreglustöð. Kvað hann ljóst að um fyrirtæki væri að ræða þar sem [...] er.

K lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið send í útkall vegna þjófnaðar. Hún hafi farið ásamt I og rætt við ákærða á staðnum. Ákærði hafi sagst hafa verið að leita að bílsætum í bifreið móður sinnar en hann hafi einnig sagst hafa tekið mottur og sett í bifreiðina. Kvað hún alveg augljóst að svæðið væri lokað af en gat væri í girðingunni sem þau hafi farið í gegnum. Aðspurð kvað hún rangt að bifreið hafi staðið í gatinu eins og ákærði hafi lýst. Þau hafi farið fram á að leita í bifreiðinni, sem ákærði hafi neitað. Ákærði hafi þá verið handtekinn og færður á lögreglustöðina.

Ákæruliður 2.

Ákærði neitaði háttsemi í þessum ákærulið en kvað rétt vera að hann væri með lifrarbólgu C. Ákærði kvaðst hafa verið færður í fangaklefa í framhaldi af handtökunni. Lögreglan hafi reynt að leggja sig niður á dýnu í fangaklefanum sem hafi verið útmigin og hann neitað að leggjast á hana. Hafi hann verið í stuttbuxum en nærbuxnalaus. Lögreglan hafi tekið buxurnar niður um hann og leitað á honum. Hann hafi verið rólegur en lögreglan reynt að æsa hann upp. Inn hafi komið kona sem ákærði kvaðst ekki hafa viljað fá inn í klefann. Fimm lögreglumenn hafi haldið sér og lögreglukonan hafi leitað á sér, með buxurnar niður um sig. Hafi það verið mjög niðurlægjandi. Síðan hafi allir farið út úr klefanum og lokað hann inni. Honum hafi verið leyft að fara út af og til að reykja og hann hafi fylgst með þegar leitað var í bifreið móður hans. Lögreglan hafi tekið motturnar sem voru í bifreiðinni.

B lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á vakt á lögreglustöð þegar komið var með ákærða á stöðina. Ákærði hafi verið skráður inn og þá komið í ljós að hann var á boðunarlista Fangelsismálastofnunar og haft samband við stofnunina. Þá hafi komið beiðni um að ákærði yrði færður til afplánunar daginn eftir. Hann og D hafi farið til ákærða og tilkynnt honum um beiðni Fangelsismálastofnunar. D hafi opnað lúguna og sagt ákærða frá þessu. Við það hafi ákærði orðið mjög reiður og farið að kalla lögregluna öllum illum nöfnum sem endaði með því að ákærði hótaði að blóðga sig og smita þá og sagði þeim að lögreglan vissi að hann væri lifrarbólgusmitaður. Lögreglan hafi vitað það. Ákærði hafi verið mjög reiður og þeir tekið hótanir hans alvarlega. Lögreglan hafi því ekki farið inn í klefa ákærða á meðan hann var svona reiður en þegar bráði af honum hafi þeir átt ágætis samskipti eftir það. Aðspurður kvað hann dýnur í fangaklefum ætíð vera sótthreinsaðar og klefarnir sérstaklega merktir ef þeir væru óþrifnir. Aðspurður hvort lögreglukona hafi leitað á honum nöktum neitaði hann því. Samskipti við ákærða hafi verið mjög erfið í um tvær klukkustundir eftir það og bara í gegnum lúgu á hurðinni á fangaklefann. Spurður um hvort ákærði hafi gert tilraunir til að blóðga sig, kvað hann ákærða hafa reynt það með því að berja í veggi og hurðina. Aðspurður hvort hótanirnar hafi beinst að lögreglunni almennt eða þeim persónulega, kvaðst hann hafa litið svo á að hótanirnar hafi beinst að þeim lögreglumönnum sem voru á vakt. Hann hafi því haft varann á sér í framhaldi.

D lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á vakt í umrætt sinn. Hann hafi verið stjórnandi vaktarinnar þetta kvöld. Óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu upp í [...] vegna þjófnaðar fyrr um kvöldið. Ákærði hafi verið færður á lögreglustöð og í fangaklefa. Í ljós hafi komið að ákærði var á boðunarlista hjá Fangelsismálastofnun og óskað var eftir að hann yrði færður í afplánun daginn eftir. Hann ásamt B hafi farið til ákærða og tilkynnt honum það og hafi ákærði orðið mjög reiður við þær upplýsingar og hótað þeim öllu illu. Þeir hafi vitað að ákærði var smitaður af lifrarbólgu. D hafi tekið hótanir hans alvarlega og verið mjög feginn að hafa klefahurðina á milli þeirra. Ákærði hafi nokkru áður lent í blóðugum átökum við lögreglu og þeir óttast hótanir hans. Hafi það varað fram eftir nóttu. Aðspurður kvað hann ekki rétt að lögreglukona hafi leitað á ákærða. Kvaðst D ekki muna hvort hann hafi verið viðstaddur leit á ákærða. Ákærði hafi aldrei verið beittur pyntingum á meðan ákærði var í sinni umsjá. Aðspurður kvað hann hótunina vera þannig að hann hafi sagst ætla að blóðga sig og smita þá. Skyldi D það þannig að þeir sem reyndu að fara inn í klefann yrðu smitaðir.

L lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa tekið á móti ákærða við komu hans á lögreglustöð og fært hann í fangaklefa. Ákærði hafi verið í handjárnum þegar hann kom og verið töluvert æstur. Kvaðst hann ekki geta sagt til um hvort dýnan í fangaklefanum hafi verið útpissuð, hann hafi ekki fundið neina pissulykt en klefar ættu að vera hreinir þegar fangar væru færðir í þá. Kvað hann rangt að ákærða hafi verið skellt upp við vegg í fangaklefanum. Aðspurður kvað hann þrjá lögreglumenn hafa fært ákærða í fangaklefa. K hafi ekki tekið þátt í leit á ákærða, hún hafi staðið fyrir utan klefann. Neitaði L því að ákærði hafi verið keyrður niður í dýnuna með þjösnaskap en það hafi þurft að beita ákveðni. Kvaðst hann ekki muna til að buxurnar hafi verið dregnar niður um ákærða.

L lýsti öryggisleit þannig að lögregla þreifaði menn í þeim tilgangi að ganga úr skugga um hvort þeir væru með eitthvað á sér sem þeir gætu skaðað sig með eða aðra. Væri þetta gert utanklæða.  

K lögreglumaður sagði ákærða hafa verið samvinnuþýðan þegar þau komu á lögreglustöð og hann hafi verið lagður á magann á dýnu en kvaðst ekki muna hvort dýnan hafi verið útpissuð. K kvaðst ekki hafa tekið þátt í leit á ákærða þar sem hún væri kona. Hún hafi verið viðstödd fyrst þegar ákærði kom í fangaklefann en farið fram og ekki verið viðstödd líkamsleit á ákærða. 

Ákæra dagsett 13. nóvember 2012.

Ákærði neitaði háttseminni sem lýst er í ákæru. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neina áverka á lögreglumanninum. Kvað ákærði atvik vera þau að hann og [...] hafi verið að ræða mál sem þau voru ekki sammála um, ákærði hafi verið undir áhrifum. Í bræði hafi [...] hringt á lögreglu þar sem hann hafi neitað að fara út. Lögreglan hafi komið og [...] afþakkað aðstoðina. Hann hafi farið fram á gang og muni lítið síðan. Hann hafi ekki lent í átökum við lögregluna. Hann muni að honum var hent í gólfið og lögreglan barði hann í höfuðið. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvernig lögreglumaðurinn fékk áverkana sem lýst er í ákæru og ákærða var sýnt á myndum.

L lögreglumaður kvaðst fyrir dómi hafa farið að [...] vegna tilkynningar um rúðubrot. Þegar hann kom á vettvang hafi átök verið yfirstaðin. Hann hafi rætt við konu ákærða á staðnum og hún hafi tjáð honum að ákærði hafi verið ógnandi við sig og hún því hringt á neyðarlínuna. Þegar lögreglan hafi bankað, hafi ákærði ruðst fram hjá henni og hent skóm í lögreglumennina sem voru á vettvangi. Staðfesti L upplýsingaskýrslu sem hann gerði um atvikið. Sagði hann ákærða hafa verið mjög vankaðan á vettvangi og blóðugan. Sagði hann rétt að F hafi sagt sér að lögreglan hafi beitt kylfu gegn ákærða.

A lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í útkall vegna rúðubrots uppi á [...]. Hafi hann hitt tilkynnanda og leitað að geranda bak við húsið en engan fundið. Þau hafi ætlað að tala við húsráðanda og bankað á dyrnar. Kona hafi komið til dyra og þeir séð að eitthvað var að. Þeir hafi rétt verið byrjaðir að tala við hana þegar þeir sjá ákærða koma fyrir horn í íbúðinni alveg brjálaðan og henda skó í þau. Hann hafi komið fram og ráðist á sig. Hann hafi fengið högg í hálsinn og hann hafi þurft að verja sig. A hafi beitt kylfunni gegn ákærða. Átökin hafi endað með því að þau hafi haft ákærða undir. A kvaðst í kjölfarið hafa leitað læknis vegna áverka. Kvaðst A enn finna fyrir óþægindum í baki en annað hafi jafnað sig fljótt. Myndir voru bornar undir A og kvað hann hluta af því sem sæist á myndunum vera blóð úr ákærða en ekki áverkar á sér. A hafi fengið hruflsár á vinstra hné og hendi. Hann hafi verið í lögreglubúningi þegar hann kom á vettvang. Aðspurður neitaði A því að hafa dregið ákærða út úr íbúðinni. A kvað ákærða hafa verið sleginn tvisvar áður en hann var yfirbugaður. Ekki hafi verið ætlunin að slá ákærða í höfuðið, höggið hafi hins vegar lent þar. Ákærði hafi veitt mótspyrnu eftir að hann var sleginn. Hafi rýmið sem átökin fóru fram í verið mjög þröngt og erfitt að athafna sig. G hafi ekki slegið ákærða.

G lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í útkall að [...] í umrætt sinn. Þau hafi séð brotna rúðu í einni íbúðinni og ákveðið að banka þar. Kona hafi komið til dyra og hafi greinilega verið í uppnámi. Hafi hún bandað lögreglunni í burtu en lögreglan viljað fá upplýsingar um hvað hafi gerst. Þá hafi ákærði komið fram á gang og hent í lögreglu skóm og fleiru. Hurðin hafi lokast andartak en opnast aftur og ákærði komið þá stökkvandi á þau bæði. G kvaðst aldrei hafa séð ákærða slá A en hún hafi í byrjun reynt að koma sér fram á gang þar sem rýmið sem þau voru í hafi verið mjög þröngt. Ákærði hafi ráðist að þeim með höggum og öskrum og þau reynt að verja sig. Hún hafi hins vegar séð ákærða slá til þeirra í öllum látunum. Kvað hún þau hafa tekið kylfur fyrst upp þegar ákærði kom út úr íbúðinni á móti þeim. Aðspurð hvort hún hafi séð ákærða rífa í jakka A, kvaðst hún ekki hafa séð það, en hún hafi séð ákærða ýta A og átök þeirra. Þá kvað hún F, [...], hafa skipt sér af átökunum. 

F, [...], kom fyrir dóminn og kvaðst hafa hringt í lögreglu vegna ósættis á heimili hennar. Lögreglan hafi komið en hún afþakkað aðstoð þeirra. Lögreglan hafi ekki verið sátt og ákærði þá komið æðandi fram ganginn. Ákærði hafi verið æstur eða órólegur. Kvað hún ákærða hafa hent skóm en þeir hafi ekki lent á lögreglumönnum. Ákærði hafi gengið upp að lögreglumanninum og átök orðið milli ákærða og lögreglumannsins. F kvaðst hafa farið inn og þegar hún kom fram aftur hafi lögreglan legið ofan á ákærða og lögreglukonan þrýst kylfu í maga ákærða. Fannst F ákærði ekki hafa gefið lögreglu neina ástæðu fyrir átökunum.

M lögreglumaður kom fyrir dóminn og kannaðist við að hafa rætt við ákærða í lögreglubifreið frá spítala að lögreglustöð. Þar hafi ákærði sagst sjá eftir því að hafa ráðist á lögreglumennina, hann hafi ekki áttað sig á því að þetta hafi verið lögreglumenn þó svo þeir hefðu verið í lögreglubúningi. Hann hafi sagt sér frá hnífaárás sem hann hafði orðið fyrir stuttu áður. Kvaðst hann hafa skynjað að ákærði var miður sín vegna þessa. Ákærði hafi verið rólegur og „vímaður“ í lögreglubifreiðinni en hann hafi svo orðir æstur aftur þegar hann kom í fangaklefann.

H læknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti vottorð sín. Kvað hann A hafa þurft að gangast undir rannsóknir vegna möguleika á lifrarbólgu en A hafði sýkst af lifrarbólgu B. Hann hafi þurft meðferð í framhaldi vegna þess. Kvað hann lifrarbólgu B vera verstu tegund lifrarbólgu.

Forsendur og niðurstöður.

Ákæra dagsett 5. nóvember 2012.

Ákæruliður I.

Óumdeilt er að ákærði fór inn á athafnasvæði bílapartasölunnar [...] og tók þar fimm gólfmottur og setti í bifreið móður sinnar. Ákærði neitar sök og kveðst í fyrsta lagi hafa talið að um brotajárn hafi verið að ræða á víðavangi auk þess sem hann hafi síðan boðist til að greiða motturnar þegar eigandi svæðisins kom á staðinn. Dómurinn telur fullsannað að umrætt svæði sem ákærði fór inn á hafi verið lokað svæði í eigu eða umsjá bílapartasölunnar og ekki heimilt óviðkomandi að vera inni á því. Mátti ákærða vera það fullljóst miðað við allar aðstæður og merkingar en svæðið var afgirt með hárri girðingu. Verður þeirri málsástæður ákærða um að um víðavang hafi verið að ræða því hafnað. Ákærði tók umræddar mottur og setti í bifreið sína án heimildar og áður en eigandi staðarins kom á svæðið. Þá neitaði ákærði lögreglu um að leita í bifreiðinni á staðnum. Er skilyrði 244. gr. laga nr. 19/1940 því fullnægt, þ.e. að ásetningur ákærða hafi staðið til að taka umræddar mottur ófrjálsri hendi og brotið því fullframið.

Verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi.

Ákæruliður 2.

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi kváðu D og B lögreglumenn báðir á þann veg að ákærði hafi orðið reiður eftir að honum var tilkynnt um að Fangelsismálastofnun gerði þá kröfu að hann yrði færður til afplánunar morguninn eftir og barið veggi og hurð og hótað þeim að blóðga sig og smita lögreglu með lifrarbólgu ef hún reyndi að nálgast hann. Kváðust þeir báðir hafa tekið þá hótun alvarlega en þeir vissu að ákærði var smitaður af lifrarbólgu C. Voru umræddir lögreglumenn á vakt á lögreglustöðinni þessa nótt og telur dómurinn að hótun ákærða hafi verið beint að þeim tveimur þó svo að hótunin hafi einnig átt að beinast að öðrum lögreglumönnum sem reyndu að nálgast ákærða.

Telur dómurinn fulla sönnun hafa verið færða fram fyrir dóminum, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem tilgreind er í ákærulið 2. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi.

Ákæra útgefin 13. nóvember 2012.

Ákærði neitar sök. Fram kom fyrir dómi, sem stoð fær í gögnum málsins, að tveir lögreglumenn fóru á vettvang þar sem tilkynnt var um rúðubrot og ræddu við húsráðanda, eiginkonu ákærða, vegna þess. Þá telur dómurinn sannað með framburði A og G lögreglumanna, sem einnig fær stoð í framburði F, að ákærði hafi í fyrstu hent skóm og einhverju fleiru í átt til lögreglumannanna þar sem þeir voru að sinna skyldustörfum. Þá hafa lögreglumennirnir lýst því að ákærði hafi stokkið á þá og slegið til þeirra. F kvaðst ekki hafa séð það en hún kvaðst líka hafa farið inn í íbúðina áður en átökin hófust og ekki orðið vitni að þeim fyrr en þau voru hafin. Hvort ákærði hafi rifið í jakka A og ýtt honum breytir engu um þá háttsemi að ákærði réðst að lögreglumönnunum í upphafi og sló A hnefahöggi í háls eins og hann hefur sjálfur lýst, en sá framburður fær stoð í læknisvottorði H sem skoðaði beinu framhaldi af átökunum. Urðu átök í kjölfar. Ákærða mátti vera ljóst að lögreglumenn væru í skyldustörfum er hann sá þá í dyragættinni en þeir voru báðir klæddir einkennisbúningi. Breytir engu þar um að ákærði kveðst hafa verið haldinn áfallastreituröskun eftir árás tæpum tveimur mánuðum áður. Telur dómurinn sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákærunni. Verður hann sakfelldur fyrir hana.

                Verður ákærða gerð refsing fyrir þau brot sem hann hefur verið sakfelldur fyrir.

                Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum tuttugu sinnum verið gerð refsing fyrir ýmis hegningarlagabrot, umferðarlagabrot og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Frá árinu 2005 hefur ákærða fimm sinnum verið gerð refsing fyrir þjófnaðarbrot og tvisvar frá árinu 2006 verið gerð refsing fyrir ofbeldisbrot. Með hliðsjón af sakaferli ákærða er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Ekki er tilefni til að skilorðsbinda refsinguna.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, sem er samkvæmt yfirliti 33.300 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 375.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði, Guðni Þorberg Theodórsson, kt. [...], skal sæta fangelsi í tíu mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað sem 408.300 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl. 375.000 krónur.