Hæstiréttur íslands

Mál nr. 304/1998


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Framsal
  • Aðild


Fimmtudaginn 25

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999.

Nr. 304/1998.

Allrahanda/Ísferðir ehf. og

Sigurdór Sigurðsson

(Sveinn Skúlason hdl.)

gegn

Gúmmívinnslunni hf.

(Lárus L. Blöndal hrl.)

Skuldabréf. Framsal. Aðild.

G gerði kröfu á hendur A og S á grundvelli skuldabréfs sem gefið var út 2. apríl 1997 af A með sjálfskuldarábyrgð S auk annars manns. Við útgáfu bar bréfið ekki með sér nafn kröfuhafa, en það var í kjölfarið afhent Í. Kvaðst G hafa eignast bréfið frá Í um miðjan apríl 1997. Bú Í var tekið til gjaldþrotaskipta í lok febrúar 1998. Á bakhlið skuldabréfsins var fært að það hafi verið framselt B, en auk framsalsins var rituð aftan á bréfið yfirlýsing þess efnis að Í takist á hendur sjálfskuldarábyrgð á bréfinu og sé heimilt að skuldfæra við greiðslufall eða mótmæli. Undir yfirlýsingunni var dagsetningin 22. apríl 1997, stimpill Í og nafnritun forráðamanns Í. B hafði gefið yfirlýsingu um að hann hefði ekki keypt eða eignast skuldabréfið, en ekki lágu fyrir yfirlýsingar Í sem staðfestu að bréfið hefði verið framselt G. Talið var að þrotabú Í væri eigandi skuldabréfsins samkvæmt hljóðan þess og gegn því hefði G ekki sannað eignarrétt sinn að bréfinu. Var málið því höfðað af röngum aðila og voru A og S sýknaðir af kröfum G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. júlí 1998. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms með þeirri breytingu, að höfuðstóll kröfu sinnar lækki um 29.148 krónur og að hún lækki jafnframt um 200.000 krónur miðað við 1. desember 1997 vegna innborgunar annars áfrýjenda. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Stefndi sækir kröfu sína í málinu á hendur áfrýjendum í skjóli skuldabréfs, sem gefið var út 2. apríl 1997 af áfrýjandanum Allrahanda/Ísferðum ehf. með sjálfskuldarábyrgð hins áfrýjandans auk annars manns. Við útgáfu bar bréfið ekki með sér nafn kröfuhafa, en óumdeilt er að það var í kjölfarið afhent Íslandsdekki ehf. Kveðst stefndi hafa eignast bréfið frá því félagi um miðjan apríl 1997. Bú Íslandsdekks ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 27. febrúar 1998.

Málið er rekið samkvæmt reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II.

Á bakhlið nefnds skuldabréfs er fært, að það sé framselt Búnaðarbanka Íslands hf., en auk þess takist undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á bréfinu og sé heimilt „að skuldfæra við greiðslufall eða mótmæli.“ Undir þessu er dagsetningin 22. apríl 1997, stimpill Íslandsdekks ehf. og nafnritun forráðamanns félagsins. Telja áfrýjendur þessa áritun sýna að bréfið sé nú nafnbréf, þótt það hafi verið handhafabréf í upphafi. Sé eigandinn samkvæmt hljóðan bréfsins Íslandsdekk ehf. eða Búnaðarbanki Íslands hf. Málið sé því höfðað af röngum aðila, sbr. a. lið 1. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991.

Í héraðsdómi er getið um yfirlýsingar Búnaðarbanka Íslands hf., þar sem fram kemur að bankinn hafi ekki keypt eða eignast skuldabréfið með öðrum hætti. Ekkert er hins vegar fram komið frá forráðamönnum Íslandsdekks ehf., sem staðfesti að bréfið hafi verið framselt stefnda. Að virtri áðurnefndri skýringu Búnaðarbanka Íslands hf. er Íslandsdekk ehf., nú þrotabú þess félags, eigandi skuldabréfsins samkvæmt hljóðan þess. Gegn því hefur stefndi ekki sannað eignarrétt sinn að bréfinu. Málið er því höfðað af röngum aðila og verður ekki komist hjá að sýkna áfrýjendur af kröfum stefnda. Skal stefndi jafnframt greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Allrahanda/Ísferðir ehf. og Sigurdór Sigurðsson, eru sýknir af kröfum stefnda, Gúmmívinnslunnar hf.

Stefndi greiði hvorum áfrýjenda samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 1998.

         Mál þetta, sem dómtekið var 6. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 15. og 24. október 1997, af Gúmmívinnslunni hf., Réttarhvammi 1, Akureyri gegn Allrahanda/Ísferðum ehf., Funahöfða 17, Reykjavík og Sigurdóri Sigurðssyni, Hlaðbrekku 22, Kópavogi.

Dómkröfur

         Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.056.681 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1997 til greiðsludags. Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. maí 1998, en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

         Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður sem beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. degi eftir dómsuppsögu og til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að dráttarvextir leggist við tildæmdan málskostnað á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum frá upphafsdegi vaxtanna.

Málsástæður

         Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar í málinu á skuldabréfi útgefnu 2. apríl 1997 af stefnda, Allrahanda/Ísferðum ehf., upphaflega að fjárhæð 4.000.000 króna. Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins skyldi endurgreiða lánið með 36 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. maí 1997. Skyldi greiða breytilega meðaltalsvexti af skuldabréfinu samkvæmt ákvörðun Búnaðarbanka Íslands, þá 8,2%. Heimild sé í skuldabréfinu til þess að gjaldfella eftirstöðvar skuldabréfsins ef ekki sé staðið í skilum með greiðslur af bréfinu. Ákvæði sé í bréfinu um hæstu lögleyfðu dráttarvexti af vanskilum skuldarinnar.

         Skuldabréfið sé gefið út til handhafa. Stefnandi, Gúmmívinnslan hf., sé handhafi og eigandi skuldabréfsins. Stefndi, Sigurdór Sigurðsson og Þórir Garðarsson, hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldarinnar, en Þóri Garðarssyni sé ekki stefnt að svo stöddu þar sem hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 7. júlí 1995 og hafi skiptum lokið 9. febrúar 1996 þar sem búið hafi verið eignalaust. Ábyrgðaraðila, Íslandsdekki ehf., sé ekki stefnt að svo stöddu.

         Þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir hafi ekki verið staðið í skilum með greiðslur af bréfinu frá og með gjalddaga 1. maí 1997.

         Stefnufjárhæðin sundurliðast þannig.

Höfuðstóll, gjaldfelldur

4.029.148 kr.

Samningsvextir

27.533 kr.

Samtals

4.056.681 kr.

         Stefnandi rekur mál þetta samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991

         Af hálfu stefndu er því mótmælt að umstefnt skuldabréf sé ógreitt. Við athugun á bókhaldsgögnum stefnda, Allrahanda/Ísferða ehf., hafi komið í ljós að krafa stefnanda hafi að fullu verið greidd 15. júlí 1997 með því að Íslandsdekkjum ehf., sem handhafa og kröfuhafa samkvæmt skuldabréfinu, hafi verið greidd krafan með nýju skuldabréfi. Fulltrúa stefnda, Allrahanda/Ísferða ehf., hafi ekki verið þetta ljóst er hann hafi greitt 1. desember 1997 innborgun til lögmanns stefnanda.

         Málsástæður stefndu eru þær að stefnandi eigi enga kröfu á hendur þeim en aftur á móti skuldi stefnandi stefnda, Allrahanda/Ísferðum ehf., innborgun 1. desember 1997, er stefndi hafi greitt í rangri trú um skuld sína. Geri stefnandi því kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxtum frá greiðsludegi.

         Ennfremur sé á það bent að framlagt skuldabréf sé útgefið til Íslandsdekks ehf. sem jafnframt hafi tekið við greiðslu á andvirði þess, sbr. það sem að ofan er rakið. Skuldabréfið hafi ekki verið framselt stefnanda máls þessa og því sé mál þetta höfðað af röngum aðila, sbr. 1. mgr. a-lið 118. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

         Af hálfu stefndu er sýknukrafa á því byggð að skuldabréf það sem stefnandi byggir kröfur sínar á hafi verið greitt 15. júlí 1997, sbr. kvittun á dskj. nr. 7. Þá er jafnframt á því byggt að mál þetta sé höfðað af röngum aðila.

         Framlagt skuldabréf er útgefið af Allrahanda/Ísferðum ehf. 2. apríl 1997. Reitur á skuldabréfinu, þar sem gert er ráð fyrir að nafn kröfuhafa sé ritað, er óútfylltur og ber því að líta svo á að bréfið hafi verið útgefið sem handhafabréf.

         Á bakhlið bréfsins er áritun, stimpill, undirrituð af Íslandsdekki ehf. Þar segir að skuldabréfið sé framselt Búnaðarbanka Íslands og segir jafnframt að undirritaður takist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfinu. 

         Stefnandi hefur lagt fram í málinu yfirlýsingar frá Búnaðarbanka Íslands og hefur þeim ekki verið mótmælt sem óstaðfestum. Þar segir að Búnaðarbanki Íslands hafi ekki keypt eða eignast með öðrum hætti umstefnt skuldabréf. Í yfirlýsingu Gests Jónssonar deildarstjóra útlánadeildar Búnaðarbankans á Akureyri er í upphafi lýst umstefndu skuldabréfi. Síðan segir: „Að beiðni Gúmmívinnslunnar hf. á Akureyri, sendum við þann 17.04.1997 framangreint skuldabréf í Melaútibú Búnaðarbankans til undirskriftar ábyrgðarmanns. Þann 23.04.97 móttókum við skuldabréfið aftur og skráðum það til innheimtu hjá okkur að beiðni Gúmmívinnslunnar hf. Þann 23.09.1997 tók Gúmmívinnslan hf. skuldabréfið úr innheimtu hjá bankanum.”

         Telja verður upplýst, samkvæmt þeim gögnum er fyrir liggja, að Búnaðarbankinn hafi aldrei eignast skuldabréfið og því mistök að ekki var strikað yfir setningu í stimpli á bakhlið þar sem segir að skuldabréfið sé framselt Búnaðarbanka Íslands. Telja verður einnig upplýst, samkvæmt nefndum yfirlýsingum, að umstefnt skuldabréf var í innheimtu hjá Búnaðarbanka Íslands á Akureyri frá 17. apríl 1997 til 23. september 1997. Þykir því sýnt að Íslandsdekk ehf. hafði ekki vörslur bréfsins þegar félagið gaf út kvittun um greiðslu skuldabréfs að fjárhæð 4.000.000 króna, útgefið 2. apríl 1997, og gat því ekki tekið við greiðslu á umstefndu skuldabréfi.

         Eins og áður segir, ber að líta á framlagt skuldabréf sem handhafabréf.  Stefnandi hefur handhöfn skuldabréfsins og þykir með því, sem að framan er rakið, hafa sýnt fram á eignarrétt sinn að skuldabréfinu og telst því réttur aðili að máli þessu.

         Ber því að taka kröfur stefnanda til greina.

         Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

         Stefndu, Allrahanda/Ísferðir ehf. og Sigurdór Sigurðsson, greiði in solidum stefnanda, Gúmmívinnslunni hf., 4.056.681 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1997 til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.