Hæstiréttur íslands
Mál nr. 149/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Lögreglumaður
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 13. apríl 1999. |
|
Nr. 149/1999:
|
Ákæruvaldið (Ólafur Kr. Hjörleifsson fulltrúi) gegn Ólafi Jónssyni (Pétur Þór Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Lögreglumenn. Frávísunarúrskurður úr gildi felldur.
Ó var ákærður fyrir of hraðan akstur. Fyrir lá að ratsjármæling, sem lá til grundvallar ákæru, hafði verið gerð af lögreglumönnum, sem þá voru staddir utan starfssvæðis síns samkvæmt 2. mgr. 7. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Ekki var á það fallist að þetta leiddi til þess að ekki yrði á verkum og rannsóknargögnum lögreglumannanna byggt. Rannsókn málsins þótti ekki svo áfátt að augljóslega færi í bága við 67. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var því felldur úr gildi úrskurður héraðsdómara um að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 1999, þar sem máli ákæruvaldsins gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdómara og kærumálskostnaðar.
Í máli þessu liggur fyrir ákæra útgefin af lögreglustjóranum í Hafnarfirði 10. febrúar 1999. Af gögnum málsins er ljóst að lögreglustjórann brast ekki vald til útgáfu ákæru í málinu og hún er ekki haldin neinum þeim annmörkum, sem varðað geta frávísun þess.
Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 hafa lögreglumenn lögregluvald hvar sem er á landinu. Ekki verður á það fallist að það að lögreglumenn fóru í umrætt sinn út fyrir starfssvæði sitt, sbr. 2. mgr. sömu greinar laganna, leiði til þess að á verkum þeirra og rannsóknargögnum verði ekki byggt. Ber að meta sönnunargildi slíkra gagna við efnisúrlausn málsins í samræmi við almennar reglur opinbers réttarfars, sbr. einkum VII. kafla laga nr. 19/1991. Þá þykir rannsókn málsins ekki hafa verið áfátt þannig að augljóslega fari í bága við 67. gr. laga nr. 19/1991 og varðað geti frávísun þess.
Samkvæmt framangreindu voru ekki lagaskilyrði til að vísa málinu frá héraðsdómi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 1999.
Ár 1999, miðvikudaginn 31. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í Dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara kveðinn upp úrskurður um frávísunarkröfu ákærða í málinu nr. S-154/1999: Ákæruvaldið gegn Ólafi Jónssyni.
Málið höfðaði Lögreglustjórinn í Hafnarfirði með ákæru útgefinni 10. febrúar 1999 á hendur ákærða, Ólafi Jónssyni, kt. 070540-3719, Birkihlíð 2b, Hafnarfirði, til refsingar fyrir ætlað brot á 1. sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ,,með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 19. ágúst 1998, ekið bifreiðinni ZU-418, suður Hafnarfjarðarveg norðan Arnarnesvegar, með allt að 95 km hraða á klukkustund, en hámarkshraði þar er 70 km/klst.”
I.
Miðvikudaginn 19. ágúst 1998 ók ákærði suður Hafnarfjarðarveg í fólksbifreiðinni ZU-418. Á sama tíma voru Alva Kristín Ævarsdóttir og Kristinn Örn Sverrisson lögreglumenn við embætti Lögreglustjórans í Kópavogi við hraðamælingar með ratsjá í kyrrstæðri lögreglubifreið, sem lagt hafði verið í Garðabæ, norðan Arnarnesbrúar, í umdæmi Lögreglustjórans í Hafnarfirði. Samkvæmt frumskýrslu lögreglumannanna tveggja mældu þeir hraða bifreiðar ákærða með ratsjá klukkan 22:28 á vegarkafla í Garðabæ. Ákærða var kynnt niðurstaða mælingar á vettvangi, án þess að hann gengist við sök. Í frumskýrslunni er aðstæðum á vettvangi lýst og þess getið, að lögreglumennirnir hafi prófað ratsjána fyrir og eftir mælingu. Eru ekki skráðar athugasemdir við niðurstöðu þeirrar prófunar. Lögreglustjórinn í Hafnarfirði bauð ákærða síðar að ljúka málinu með greiðslu 8.000 króna sektar, en þeim málalokum hafnaði ákærði. Í framhaldi af því var tekin ákvörðun um opinbera málshöfðun.
II.
Ákærði reisir frávísunarkröfu á því að viðkomandi lögreglumenn hafi greint sinn verið utan starfssvæðis síns samkvæmt 2. sbr. 4. mgr. 7. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. lög nr. 29/1998 og því verið óheimilt að gera þá hraðamælingu með ratsjá, sem lögð er til grundvallar ákæru. Um sé að ræða svo bersýnilega annmarka á lögreglurannsókn að ekki verði bætt úr við meðferð málsins fyrir dómi. Beri af þeim sökum að vísa málinu frá dómi.
III.
Fyrir liggur að Alva Kristín Ævarsdóttir og Kristinn Örn Sverrisson voru á greindum tíma lögreglumenn í lögregluliði Sýslumannsins í Kópavogi, sem jafnframt fer með lögreglustjórn í umdæmi sínu samkvæmt 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. 27. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 57/1992 um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Umrætt sinn höfðu lögreglumennirnir ekið lögreglubifreið út fyrir umdæmi Lögreglustjórans í Kópavogi og lagt henni af ásettu ráði í umdæmi Lögreglustjórans í Hafnarfirði, sbr. 26. tl. 1. gr. téðrar reglugerðar, að því er virðist til að fylgjast með umferð ökutækja á leið frá Kópavogi til Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Samkvæmt frumskýrslu lögreglumannanna mældu þeir hraða bifreiðar ákærða á leið suður Hafnarfjarðarveg, á vegarkafla í Garðabæ. Staðsetning bifreiðar ákærða skiptir þó ekki máli við úrlausn um frávísunarkröfuna.
Lögreglulög nr. 90/1996, sem öðluðust gildi 1. júlí 1997, leystu af hólmi lög um lögreglumenn nr. 56/1972. Í þeim lögum voru ekki sérstök ákvæði um starfssvæði lögreglumanna, en dómsmálaráðherra var heimilt samkvæmt 3. mgr. 2. gr. og 6. gr. laganna að ákveða að hluti lögregluliðs skyldi gegna lögreglustörfum hvar sem er á landinu eða gegna annars löggæslustörfum utan umdæmis síns. Meginreglan var hins vegar ótvírætt sú, að starfsvettvangur lögreglumanns var það umdæmi, sem hann var skipaður, settur eða ráðinn til þess að starfa í.
Með setningu lögreglulaga nr. 90/1996 fólst endurskoðun á skipulagi æðstu stjórnar lögreglunnar, brugðist var við heildarendurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála (lög nr. 19/1991 með síðari breytingum) og breyttu hlutverki rannsóknar- og ákæruvalds eftir gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Lögfestar voru skýrari reglur um réttindi og skyldur lögreglumanna og skýrari reglur settar um framkvæmd lögreglustarfa. Með engu var hróflað við því mikilvæga hlutverki lögreglu, að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og allsherjarreglu í landinu.
Í 1. mgr. 7. gr. lögreglulaga segir, að lögreglumenn hafi ,,lögregluvald” hvar sem er á landinu. Um handhafa lögregluvalds er nánar fjallað í 9. gr. laganna. Með ,,lögregluvaldi” er í lögunum átt við vald, sem lögreglunni einni er falið til að gefa fyrirskipanir og til að grípa til aðgerða gagnvart þegnunum, með valdbeitingu ef nauðsynlegt er, sbr. ummæli í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna á sínum tíma. Með greindum ákvæðum eru tekin af öll tvímæli um það að þegnarnir hafi ekki sjálftökurétt þótt þeir telji á sér brotið og hafa ekki heimildir til að beita valdi, lögregluvaldi, nema þeir séu sérstaklega til þess kvaddir. Skýra verður hugtakið ,,lögregluvald” samkvæmt 1. mgr. 7. gr. lögreglulaga í þessu ljósi.
Í 2. mgr. 7. gr. laganna er orðuð svohljóðandi meginregla: ,,Starfssvæði lögreglumanns er það umdæmi sem hann er skipaður, settur eða ráðinn til þess að starfa í.” Ákvæðið var nýmæli í lögum nr. 90/1996. Frá meginreglunni eru gerðar undantekningar í 3. og 4. mgr. 7. gr. Ákvæði 3. mgr. kemur ekki til skoðunar í þessu máli.
Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna er heimilt að víkja frá meginreglu 2. mgr. ,,í eftirfarandi tilvikum:” eins og orðrétt segir í ákvæðinu. Eru síðan rakin þau tilvik, sem upp geta komið og réttlætt geta frávik frá meginreglunni. Verða þau tilvik ekki rakin sérstaklega, enda kom fram í ræðu sækjanda við málflutning fyrir dómi um frávísunarkröfu ákærða að ómótmælt væri að undantekningarreglurnar eiga hér ekki við. Við túlkun á orðalagi og inntaki 7. gr. laganna í heild er þó mikilvægt að líta til eftirfarandi tilvika, sem talin eru í nefndri 4. mgr. Heimilt er lögreglumanni að fara út fyrir starfssvæði sitt til þess að ljúka lögregluaðgerð, sem hann hefur hafið innan þess. Á sama hátt getur lögreglumaður unnið lögregluverk utan umdæmis síns, ef verkefnið krefst þess eða brýna nauðsyn ber til. Loks er lögreglumanni, sem er að störfum en á leið um annað lögregluumdæmi, heimilt að hafa afskipti af mönnum, sem hann stendur að lögbrotum.
Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. lögreglulaga skal lögreglumaður, sem beitir einhverri framangreindra heimilda tilkynna yfirmanni sínum um aðgerðir sínar, svo fljótt sem kostur er. Með sama hætti ber að tilkynna lögreglustjóra hlutaðeigandi umdæmis um aðgerðir viðkomandi lögreglumanns. Rannsóknargögn bera ekki með sér að þessara reglna hafi verið gætt í því máli, sem hér er til úrlausnar.
Þegar framangreind atriði eru virt verður ekki ályktað á annan veg en að ákvæði 1. mgr. 7. gr. lögreglulaga um að lögreglumenn hafi lögregluvald hvar sem er á landinu beri að skýra í ljósi meginreglu 2. mgr. 7. gr., enda myndi gagnstæð túlkun gera bæði meginregluna og fyrrgreindar undantekningarreglur með öllu marklausar. Lögregluvald fylgir því aðeins nánar tilgreindum störfum innan lögreglunnar, hvar sem er á landinu, að uppfylltum skilyrðum 2., 3. og 4. mgr. 7. gr. lögreglulaga um starfssvæði.
Lögreglumennirnir Alva Kristín Ævarsdóttir og Kristinn Örn Sverrisson fóru út fyrir starfssvæði sitt án nokkurs aðkallandi tilefnis samkvæmt framanröktu og fóru því ekki með lögregluvald í skilningi lögreglulaga þegar þau greint sinn prófuðu hraða bifreiðar ákærða með ratsjá. Þau lögregluverk, sem lögreglumennirnir unnu undir greindum kringumstæðum, verða því ekki lögð til grundvallar ákæru í málinu. Þar sem málshöfðun ákæruvalds byggir eingöngu á ratsjármælingunni og vitnisburði nefndra lögreglumanna um mælinguna og mælitækið ber að vísa málinu frá dómi með vísan til 3. mgr. 122. gr., sbr. 1. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt þeim úrslitum máls ber að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð, þar með talda þóknun Péturs Þórs Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, sem þykir hæfilega ákveðin krónur 40.000, auk virðisaukaskatts.
Úrskurðarorð:
Máli Lögreglustjórans í Hafnarfirði nr. S-154/1999 á hendur ákærða, Ólafi Jónssyni, er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 40.000 króna þóknun Péturs Þórs Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða.