Hæstiréttur íslands
Mál nr. 480/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Föstudaginn 11. júlí 2014. |
|
Nr. 480/2014.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X (Ásta Björk Eiríksdóttir hdl.) |
Kærumál. Framsal sakamanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Póllands var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2014, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 27. maí 2014 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist sakarkostnaður vegna þessa kærumáls úr ríkissjóði, þar með talin þóknun réttargæslumanns varnaraðila, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 7. apríl 2014.
I
Mál þetta var þingfest 13. júní sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 30. sama mánaðar. Sóknaraðili er ríkissaksóknari, en varnaraðili er X, kt. [...], pólskur ríkisborgari, búsettur að [...],[...], en með lögheimili að [...], einnig í [...].
Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 27. maí 2014 um að framselja varnaraðila til Póllands. Varnaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að hæfileg þóknun skipaðs réttargæslumanns verði greidd úr ríkissjóði.
II
Með bréfi 17. desember 2013 óskuðu pólsk dómsmálayfirvöld eftir því við innanríkisráðuneytið að varnaraðili, sem er pólskur ríkisborgari, yrði framseldur til Póllands til fullnustu fangelsisrefsingar. Kröfunni til stuðnings var vísað til samnings Evrópuráðsins um framsal sakamanna frá 1957. Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili með dómi héraðsdómstóls í Suwalki í Póllandi, sem upp var kveðinn 26. júlí 2010, dæmdur í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið í fimm ár, með því í fyrsta lagi að hafa 4. apríl 2010, í félagi við annan pilt tekið drykk af pilti og í kjölfarið, í því skyni að halda drykknum, veist að honum með ofbeldi, með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka á andliti og handlegg, og í öðru lagi veist með ofbeldi, nánar tiltekið með höggum og spörkum, að tveimur piltum með þeim afleiðingum að þeir hlutu nánar tilgreinda höggáverka á höfði. Er háttseminni nánar lýst í meðfylgjandi framsalsbeiðni og varðar hún að því er fyrri liðinn áhrærir við 2. mgr. 281. gr., sbr. 283. gr., sbr. 2. mgr. 157. gr. pólsku hegningarlaganna, en að því er seinni lið varðar við 1. mgr. 158. gr., sbr. 2. mgr. 157. gr. sömu laga.
Með úrskurði héraðsdómstólsins í Suwalki 27. mars 2012 var afplánun á fangelsisrefsingunni fyrirskipuð vegna skilorðsrofs. Fram kemur þar að með dóminum frá 26. júlí 2010 hafi varnaraðili verið látinn sæta eftirliti skilorðsfulltrúa á skilorðstímanum, en þrátt fyrir að hafa verið kynnt réttindi og skyldur vegna skilorðsbindingarinnar hafi hann komið sér undan eftirlitinu og farið úr landi án samþykkis skilorðsfulltrúans. Því hafi hann brotið gegn skilyrðum dómsins. Úrskurðurinn fylgdi framsalsbeiðninni, ásamt áðurnefndum dómi frá 26. júlí 2010 og staðfestingu á ríkisfangi varnaraðila.
Í greinargerð ríkissaksóknara til dómsins frá 4. júní sl. segir m.a.: „Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin þann 15. janúar sl. hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Aðspurður kvað varnaraðili framsalsbeiðnina eiga við sig en mótmælti framsali. Kvað hann fjölskyldu sína vera hér á landi og að hann ætti enga fjölskyldu í Póllandi. Kom fram hjá honum að skilorðsfulltrúinn hafi vitað að hann væri á leið úr landi og ætti hann gögn um það. Einnig var tekin lögregluskýrsla af varnaraðila áður en framsalsbeiðnin barst eða þann 11. desember sl. vegna eftirlýsingar pólskra yfirvalda.“
Í álitsgerð ríkissaksóknara til innanríkisráðuneytisins 3. febrúar sl. kemur fram að ríkissaksóknari telji skilyrði laga nr. 13/1984 fyrir framsali varnaraðila uppfyllt, sbr. einkum ákvæði 1., 3. og 5. mgr. 3. gr., 8.-10. gr. og 12. gr. laganna.
Innanríkisráðuneytið tók ákvörðun í máli varnaraðila 27. maí sl., en varnaraðili hafði þá skilað ráðuneytinu greinargerð sinni og gerði þar grein fyrir málsatvikum og málsástæðum sínum. Með greinargerðinni fylgdi skjal sem varnaraðili segir skilorðsfulltrúa hafa látið honum í té vegna flutnings til Íslands.
Í forsendum ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið endurskoði ekki niðurstöðu ríkissaksóknara um skilyrði framsals. Ráðuneytið hafi á hinn bóginn lagt heildstætt mat á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaga nr. 13/1984, og hafi ekki þótt nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli þess ákvæðis. Við það mat hafi ráðuneytið haft til hliðsjónar að umrædd 7. gr. sé undantekningarákvæði sem beri eðli málsins samkvæmt að túlka þröngt. Þá hafi einnig verið litið til þess að ekki megi beita 7. gr. nema í alveg sérstökum tilvikum, þar eð framsalskerfið missi ella gildi sitt í alþjóðlegu samstarfi á sviði afbrotamála. Í því sambandi kveðst ráðuneytið m.a. vísa til þess að varnaraðili hafi hlotið refsidóm í Póllandi fyrir hegningarlagabrot og hafi pólsk yfirvöld metið það svo að þau hefðu hagsmuni af því að fá hann framseldan til fullnustu refsingarinnar, enda hefði varnaraðili rofið skilorð dómsins.
Vegna þess skjals sem fylgdi greinargerð varnaraðila til ráðuneytisins og varnaraðili taldi sýna að hann hefði haft heimild skilorðsfulltrúa til að ferðast til Íslands og dvelja þar, án þess að slíkt teldist skilorðsrof, segir eftirfarandi í ákvörðun innanríkisráðuneytisins: „Með tölvupósti, dags. 18. mars 2014, óskaði ráðuneytið eftir afstöðu pólskra yfirvalda til málsástæðu varnaraðila um að skilorðsbrot hans hafi verið byggt á misskilningi og að hann hafi ferðast í góðri trú til Íslands. Með bréfi, dags. 25. apríl 2014, barst ráðuneytinu svar frá héraðsdómstólnum í Suwalki þar sem fram kom að varnaraðila hafi verið veitt leyfi af skilorðsfulltrúa til að hafa búsetu á Íslandi frá 11. desember 2010 til mars 2011 í því skyni að leita atvinnu. Hafi varnaraðili af því tilefni undirritað yfirlýsingu, dags. 8. desember 2010, þar sem fram komu réttindi og skyldur hans og frekari fyrirmæli á skilorðstíma. Framangreind yfirlýsing fylgdi enn fremur svarbréfi til héraðsdómstólsins. Í bréfi pólskra yfirvalda kemur einnig fram að varnaraðili hafi þrátt fyrir yfirlýsinguna komið sér undan eftirlitinu og ekki tilkynnt sig til skilorðsfulltrúa, nánar tiltekið frá 2. júní 2011 til 2. mars 2012. Þar af leiðandi var afplánun varnaraðila á fangelsisrefsingunni fyrirskipuð með úrskurði dómsins þann 27. mars 2012. Að lokum kemur fram í svarbréfi héraðsdómstólsins að það skjal, sem meðfylgjandi var greinargerð varnaraðila, feli ekki í sér formlega heimild yfirvalda í Póllandi til þess að ferðast erlendis. Að mati ráðuneytisins mátti varnaraðila því vera fyllilega ljóst að með því að rjúfa skilorð myndu pólsk dómsmálayfirvöld krefjast afplánunar dómsins.“
Ákvörðun innanríkisráðuneytisins var kynnt varnaraðila 28. maí sl. og lýsti varnaraðili því þá yfir að hann krefðist úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort fyrir hendi væru lagaskilyrði fyrir framsali hans, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.
Í greinargerð ríkissaksóknara til dómsins kemur fram að eitt mál á hendur varnaraðila sé til meðferðar hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, en því sé ólokið og hafi ákæra ekki verið gefin út í málinu. Því standi 10. gr. laga nr. 13/1984 ekki í vegi fyrir framsali, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 63/2009 og 432/2012. Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 vísar ríkissaksóknari til áðurnefndrar álitsgerðar sinnar frá 3. febrúar sl. og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 27. maí sl.
Við upphaf aðalflutnings í málinu lagði sóknaraðili fram afrit af ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem gefin hafði verið út á hendur varnaraðila 20. júní sl., fyrir að hafa í félagi við annan mann 19. ágúst 2012 slegið mann með krepptum hnefa í andlitið, með þeim afleiðingum að sá hlaut opið sár á augabrún. Er háttsemi varnaraðila þar heimfærð til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981. Byggir sóknaraðili á því að ákæran komi ekki í veg fyrir framsal varnaraðila, enda geti brot á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga í mesta lagi varðað fangelsi allt að 1 ári. Þessu til stuðnings vísar varnaraðili til 10. gr. framsalslaga nr. 13/1984 og áðurnefndra dóma Hæstaréttar.
III
Krafa varnaraðila byggist í fyrsta lagi á því að framsal uppfylli ekki efnisskilyrði 1. mgr. 3. gr. laga um framsal sakamanna nr. 13/1984, sem kveður á um að aðeins sé heimilt að framselja mann ef refsiverður verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár. Eins og brotum varnaraðila sé lýst í framsalsbeiðni pólskra yfirvalda sé fullljóst að áverkar af völdum þeirra hafi verið minniháttar. Ekkert gefi heldur til kynna að sú aðferð sem beitt hafi verið hafi verið sérstaklega hættuleg í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Því sé óskiljanlegt að ríkissaksóknari meti það svo að umrætt brot falli undir ákvæðið og varði þar af leiðandi 16 ára fangelsi. Þvert á móti telur varnaraðili að um minniháttar líkamsárás hafi verið að ræða, sem falli undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og varði einungis sektum eða fangelsi í allt að 6 mánuði. Því til stuðnings vísar varnaraðili í dæmaskyni til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 143/2004. Þá telur varnaraðili að þjófnaðarbrot hans sé smávægilegt þar sem hann hafi tekið gosdrykk, að verðmæti um 100 íslenskra króna á núverandi gengi pólsks Zloty, af öðrum dreng. Þótt athæfið sé rangt telur varnaraðili erfitt að ímynda sér að slíkt yrði tekið sérstaklega fyrir af dómstólum hér á landi, og algjörlega fráleitt að jafna því við háttsemi er varði 6 ára fangelsi. Brotið hafi augljóslega ekki verið framið í auðgunarskyni og því skuli ekki refsað fyrir það samkvæmt 243. gr. almennra hegningarlaga.
Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að synja beri um framsal á grundvelli mannúðarástæðna samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984. Vísar varnaraðili í því efni til athugasemda í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 13/1984, þar sem segi að við mat á því hvað falli undir skilgreininguna „aðrar persónulegar ástæður“ geti m.a. skipt máli hvort viðkomandi eigi fjölskyldu hér á landi og hversu lengi hann hafi búið hér. Einnig sé þar tekið fram að ákvæðið eigi við þau tilfelli þar sem afleiðingarnar sem framsal hefði í för með sér fyrir viðkomandi væru í svo miklu ósamræmi við atvik máls og eðlilega hagsmuni erlenda ríkisins af framsalinu, að telja megi það ósamræmanlegt mannúðarsjónarmiðum að heimila framsal. Þá skuli við mat á því hvaða hagsmuni erlenda ríkið hafi af framsali m.a. hafa í huga grófleika brotsins og hversu langt sé um liðið síðan það var framið. Vísar varnaraðili í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar 29. apríl 2010 í málinu nr. 215/2010.
Varnaraðili bendir einnig á að koma hans hingað til lands hafi átt sér langan aðdraganda. Fyrst hafi hann flust hingað sextán ára að aldri og búið hér í fjóra eða fimm mánuði hjá móður sinni í [...], en hún hafði flust til Íslands nokkrum árum áður. Hafi hann þá stundað nám við [...]. Í lok árs 2009 hafi hann neyðst til að flytjast til föður síns í Póllandi vegna forsjárdeilna foreldra hans, en faðir hans hafi ekki samþykkt áframhaldandi dvöl hans á Íslandi. Eftir nokkurra mánaða dvöl hjá föður sínum í Póllandi hafi faðir hans látist og því hafi aldrei komið annað til greina en að varnaraðili flyttist aftur til Íslands þar sem öll fjölskylda hans búi nú. Varnaraðili hafi því búið hér á landi samtals í tæplega fjögur ár, fyrst um nokkurra mánaða skeið árið 2009, en svo frá maí 2011 til dagsins í dag. Fullyrðir varnaraðili að hann eigi í engin hús að venda í Póllandi.
Varnaraðili leggur jafnframt áherslu á að hann sé aðeins 22 ára að aldri og muni komandi ár skipta miklu um mótun lífs hans til framtíðar. Það að rífa hann frá stórfjölskyldu sinni og framselja hann til afplánunar refsidóms í Póllandi geti haft afdrifaríkar afleiðingar á líf hans til hins verra. Þá hafi hann einungis verið rétt rúmlega 18 ára gamall þegar hann framdi umrædd brot og hafi þau verið minniháttar, eins og áður hafi verið lýst. Loks telur varnaraðili ljóst að skilorðsbrot hans geti hvorki talist vítavert né framkvæmt af ásetningi, enda megi það að mestu rekja til misskilnings og ófullnægjandi upplýsinga af hálfu pólskra yfirvalda. Þannig hafi hann hafi ekki fengið fullnægjandi leiðbeiningar um hvernig eftirliti ætti að vera háttað eftir að hann tilkynnti skilorðsfulltrúa sínum um flutning til Íslands. Hafi það verið í höndum pólskra yfirvalda að sjá til þess.
Í ljósi alls ofanritaðs telur varnaraðili að framsal hans til Póllands sé í hrópandi ósamræmi við mannúðarsjónarmið og eðlilega hagsmuni framsalsbeiðanda. Því beri að verða við kröfu hans og synja um framsal.
Um lagarök er vísað til laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, einkum 3. og 7. gr. laganna, en málskostnaðarkrafan styðst við 2. mgr. 16. gr. sömu laga.
IV
Samkvæmt 1. gr. Evrópuráðssamningsins um framsal sakamanna frá 1957, sem Ísland hefur fullgilt, eru aðilar hans skuldbundnir til framsals að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í 1. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, segir að framselja megi þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna að 1. gr. og aðrar greinar frumvarpsins leggi ekki skyldu á íslensk stjórnvöld til framsals. Hins vegar geti verið skylt að framselja mann samkvæmt gagnkvæmum framsalssamningum, og er í dæmaskyni tilgreindur áðurnefndur Evrópuráðssamningur frá 1957. Þar sem bæði Ísland og Pólland hafa fullgilt þann samning verður að líta svo á að meginreglan sé sú að íslenskum stjórnvöldum beri að verða við kröfu pólskra yfirvalda um framsal, enda séu þá uppfyllt önnur skilyrði laga nr. 13/1984.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal því aðeins heimilt að verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Er hér horft til refsiramma þeirra ákvæða sem við eiga, en ekki mögulegrar dæmdrar refsingar. Sú háttsemi sem varnaraðili var dæmdur fyrir í heimalandi sínu, og gerð er grein fyrir hér að framan, myndi að því er fyrri verknaðinn varðar teljast gripdeild og minni háttar líkamsárás, en sérstaklega hættuleg líkamsárás að því er varðar seinni verknaðinn, sbr. 245. gr., 1. mgr. 217. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn 245. gr. varðar fangelsi allt að 6 árum, brot gegn 1. mgr. 217. gr. varðar fangelsi allt að 1 ári og brot gegn 2. mgr. 218. gr. laganna fangelsi allt að 16 árum. Samkvæmt því eru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 fyrir framsali varnaraðila.
Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 segir að aðeins sé heimilt að framselja mann til fullnustu á dómi ef refsing hans er minnst 4 mánuðir. Refsing varnaraðila fyrir þau brot sem hann framdi í Póllandi á árinu 2010 og dæmd var með dómi héraðsdómstólsins í Suwalki í Póllandi 26. júní það ár, var tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið í fimm ár. Ákvæði þetta stendur því ekki í vegi fyrir framsali varnaraðila. Ekkert bendir heldur til þess að 5. mgr. 3. gr. tilvitnaðra laga geti átt við í máli þessu, en samkvæmt því ákvæði er framsal óheimilt ef rökstudd ástæða er til að ætla að grunur um refsiverða háttsemi eða niðurstaða dóms þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar. Þá er óumdeilt að refsing varnaraðila er ófyrnd samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 83. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að 7. gr. framsalslaga eigi að koma í veg fyrir að fallist verði á kröfu sóknaraðila. Í því sambandi vísar varnaraðili sérstaklega til þess að hann sé ungur að árum og hafi aðeins verið rétt rúmlega 18 ára þegar hann framdi þau brot sem hann hlaut dóm fyrir, hann hafi búið hér á landi samtals í tæp fjögur ár, öll fjölskylda hans búi hér einnig og að hann eigi í engin hús að venda í Póllandi. Þá telur hann að það geti haft afdrifaríkar afleiðingar fari svo að hann verði framseldur til afplánunar refsidóms í Póllandi. Loks byggir hann á því að skilorðsbrot hans sé vegna misskilnings og ónógra upplýsinga af hálfu pólskra yfirvalda.
Í fyrrnefndri ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 27. maí sl. er tekin rökstudd afstaða til þess hvort mannúðarástæður samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað. Mat ráðuneytisins er að ekki séu nægar ástæður fyrir hendi til að réttmætt sé að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Þetta mat ráðuneytisins verður ekki endurskoðað, enda hafa hvorki verið leiddar að því líkur að aðstæður varnaraðila hafi ekki verið metnar með réttum og málefnalegum hætti, né að ekki hafi verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvörðun ráðuneytisins er enn fremur fjallað um skilorðsrof varnaraðila og það skjal sem varnaraðili taldi sýna að hann hefði haft heimild skilorðsfulltrúa í Póllandi til að ferðast til Íslands og dvelja þar. Er það niðurstaða ráðuneytisins, að fengnum skýringum pólskra yfirvalda á umræddu skjali, að það hafi ekki falið í sér formlega heimild til handa varnaraðila til að ferðast á milli landa. Á hinn bóginn hafi varnaraðila mátt vera ljóst að með því að rjúfa skilorð myndu pólsk dómsmálayfirvöld krefjast afplánunar dómsins. Fellst dómurinn á það álit ráðuneytisins.
Eins og áður greinir kom í ljós undir rekstri málsins fyrir dómi að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafði gefið út ákæru á hendur varnaraðila 20. júní 2014 vegna líkamsárásar 19. ágúst 2012. Samkvæmt ákærunni er háttsemin heimfærð til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981, en brot gegn því ákvæði getur varðað fangelsi allt að 1 ári.
Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1984 er óheimilt að framselja mann, ef hér á landi er til meðferðar mál fyrir annan verknað en þann sem hann óskast frameldur fyrir og sem getur varðað minnst 2 ára fangelsi. Þar sem verknaður sá sem varnaraðili er ákærður fyrir samkvæmt áðurnefndri ákæru 20. júní sl. getur að hámarki varðað 1 árs fangelsi stendur ákæran ekki í vegi fyrir framsali varnaraðila, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. mars 2009 í málinu nr. 63/2009.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að hafna beri kröfum varnaraðila, en staðfesta þess í stað ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 27. maí 2014 um að framselja varnaraðila til Póllands.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun réttargæslumanns og annar sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði. Með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur hdl., hæfilega ákveðin 570.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 27. maí 2014 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur hdl., 570.000 krónur.