Hæstiréttur íslands

Mál nr. 69/2008


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Ógilding samnings
  • Aðild


                                     

Fimmtudaginn 23. október 2008.

Nr. 69/2008.

Þóra Margrét Þórarinsdóttir

(Ingólfur Hjartarson hrl.)

gegn

Sighvati Jóni Þórarinssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kaupsamningar. Ógilding samnings. Aðild.

Þ, sem sat í óskiptu búi eftir K, seldi syni sínum S jörð í eigu búsins ásamt bústofni, greiðslumarki og vélum með kaupsamningi 1. október 2003. Í júlí 2006 lést Þ og var bú hans og K tekið til opinberra skipta. Í málinu krafðist ÞM, systir S þess að umræddur kaupsamningur milli föður hennar og bróður yrði dæmdur ógildur með vísan til 33. gr. samningalaga nr. 7/1936. Byggði hún mál sitt á því að S hefði mátt vita að með kaupsamningnum hefði faðir þeirra verið að afsala sér öllum eigum hins óskipta bús á verði sem að hennar mati væri langt undir markaðsverði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af 33. gr. samningalaga yrði ekki ráðið að aðrir en þeir sem staðið hefðu að löggerningnum eða komið hefðu í stað þeirra að lögum gætu orðið aðilar að ógildingarmálinu. Þar sem K hafði ekki tekið við réttindum og skyldum föður aðila, enda bú hans undir opinberum skiptum, auk þess sem hún gat ekki reist aðild sína að málinu á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991, var niðurstaða héraðsdóms um sýknu S staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 2008 og krefst þess nú að kaupsamningur 1. október 2003 um sölu á jörðinni Næfranesi, Dýrafirði, og 12/30 hlutum jarðarinnar Höfða, Dýrafirði, ásamt byggingum, bústofni, greiðslumarki, vélum og tækjum, verði dæmdur ógildur. Hún krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Móðir málsaðila lést 7. janúar 1992 og fékk faðir þeirra leyfi til setu í óskiptu búi. Hann lést 19. júlí 2006. Áfrýjandi hefur höfðað málið til að hnekkja gjöf, sem hún telur að hafi falist í kaupsamningi milli föður aðila og stefnda 1. október 2003 um framangreinda jörð og jarðarhluta. Málsaðilar eru einu erfingjar foreldra sinna, en dánarbú þeirra var tekið til opinberra skipta 25. janúar 2007, eftir að mál þetta var höfðað.

Í héraði gerði áfrýjandi þá aðalkröfu að kaupsamningurinn yrði dæmdur ógildur með vísan til 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum og þá varakröfu að honum yrði rift á grundvelli 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í héraðsdómi var stefndi sýknaður af aðalkröfu áfrýjanda, en að kröfu stefnda var varakröfu áfrýjanda vísað frá héraðsdómi. Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi kröfu sína um ógildingu samningsins á 33. gr. laga nr. 7/1936. Þar segir að löggerning, sem ella myndi talinn gildur, geti sá maður, er við honum tók, eigi borið fyrir sig yrði það talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla má að hann hafi haft vitneskju um.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi borið því við um aðild sína að hún hafi haft heimild á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. til að reka málið í eigin nafni til hagsbóta dánarbúi foreldra aðilanna og hafi hún tilkynnt það skiptastjóra. Í héraði var ekki byggt á þessari málsástæðu og er hún of seint fram komin. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi borið fyrir sig aðildarskort, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þessari málsástæðu var ekki hreyft í héraði og er hún of seint fram komin.

Af 33. gr. laga nr. 7/1936 verður ekki leitt að aðrir en þeir, sem staðið hafa að löggerningi eða komið hafa í þeirra stað að lögum, geti orðið aðilar að máli til ógildingar honum. Áfrýjandi hefur ekki tekið við réttindum og skyldum föður aðilanna, enda er dánarbú hans til opinberra skipta. Sem fyrr greinir getur áfrýjandi ekki reist aðild sína að máli þessu á því að hún reki það í eigin nafni til hagsbóta dánarbúinu í skjóli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Af þessum sökum er fallist á með héraðsdómi að áfrýjandi geti ekki byggt rétt á ákvæði 33. gr. laga nr. 7/1936. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda.

Rétt er að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 20. nóvember 2007

Mál þetta, sem dómtekið var 11. október sl., höfðaði stefnandi, Þóra Margrét Þórarinsdóttir, Hrauntungu 63, Kópavogi, hinn 22. nóvember 2006, gegn stefnda, Sighvati Jóni Þórarinssyni, Höfða 3, Dýrafirði, Ísafjarðarbæ.

Kröfur stefnanda eru aðallega að kaupsamningur, dagsettur 1. október 2003, milli Þórarins Sighvatssonar og stefnda, sem þinglýst var 26. október 2003, og fjallar um sölu á jörðinni Næfranesi, Dýrafirði, og 12/30 hlutum jarðarinnar Höfða, Dýrafirði, ásamt byggingum, bústofni, greiðslumarki, vélum og tækjum, verði dæmdur ógildur. Til vara krefst stefnandi þess að kaupsamningnum verði rift með dómi. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi gerir aðallega þær kröfur að varakröfu stefnanda um riftun kaupsamningsins verði vísað frá dómi en stefndi sýknaður af öðrum kröfum stefnanda í málinu. Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Krefst stefndi málskostnaðar í báðum tilvikum.

I.

Málsaðilar eru systkin, börn hjónanna Karlottu Margrétar Jóhannsdóttur, sem lést 7. janúar 1992, og Þórarins Sighvatssonar, er andaðist 19. júlí 2006. Eftir andlát Karlottu Margrétar fékk Þórarinn útgefið leyfi hjá sýslumanninum á Ísafirði 18. mars 1992  til setu í óskiptu búi eftir maka sinn.

Haustið 2003, nánar til tekið 1. október það ár, undirrituðu stefndi og faðir hans kaupsamning. Hið selda samkvæmt samningnum var í fyrsta lagi jörðin Næfranes í Dýrafirði, í öðru lagi eignarhluti Þórarins heitins í jörðinni Höfða, Dýrafirði (12/30 hlutar jarðarinnar), ásamt öllum þeim mannvirkjum, réttindum og skyldum er eignarhlutanum fylgdi, þar með talið greiðslumark jarðarinnar. Í þriðja lagi var hið selda bústofn samkvæmt lista er fylgdi kaupsamningnum og í fjórða lagi vélar og tæki til landbúnaðarnota samkvæmt lista sem fylgdi samningnum. Samkvæmt 6. gr. kaupsamningsins tók kaupandi við hinu selda við undirritun samningsins.

Kaupverð samkvæmt umræddum samningi var ákveðið 14.735.000 krónur sem skiptist þannig að stefndi skyldi greiða 5.000.000 króna fyrir jarðirnar ásamt öllu því er þeim fylgdi, þar með talin mannvirki, hlunnindi og ræktað og óræktað land. Söluverð greiðslumarks í mjólk var ákveðið 6.600.000 krónur, söluverð bústofns 1.135.000 krónur og söluverð véla og tækja 2.000.000 króna. Í samningnum sagði ennfremur að kaupverðið skyldi greiðast þannig að 2.000.000 króna skyldu greiðast með peningum við undirritun kaupsamnings, 1.000.000 króna skyldi greiðast með peningum eigi síðar en 1. febrúar 2004, 8.500.000 krónur skyldu greiðast með andvirði væntanlegs láns frá Lánasjóði landbúnaðarins vegna kaupanna og þá skyldu 3.235.000 krónur greiðast með skuldabréfi til fjögurra ára, með einni afborgun á ári, þann 15. ágúst ár hvert, í fyrsta sinn 15. ágúst 2004.

Með kaupsamningi og afsali, dagsettu 1. desember 2003, keypti Þórarinn Sighvatsson af stefnda íbúðarhúsið að Höfða 1 í Dýrafirði, sem er 127,2 m² steinsteypt hús með kjallara. Samkvæmt skjalinu var hús þetta byggt árið 1939 en það mun hafa verið mikið endurnýjað og tekið í gegn á árunum 1986 til 1990. Kaupverð var í nefndu skjali sagt 4.150.000 krónur, sem greiddar væru að fullu við undirritun.

Hinn 1. febrúar 2004 gaf Þórarinn Sighvatsson út afsal til handa stefnda fyrir þeim eignum er hann seldi syni sínum með fyrrnefndum kaupsamningi frá 1. október 2003. Í niðurlagi afsalsins sagði að umsamið kaupverð fyrir eignirnar væri að fullu greitt. Var afsal þetta móttekið til þinglýsingar 22. nóvember 2004 og innfært í þinglýsingarbækur tveimur dögum síðar.

Svo sem áður var getið lést Þórarinn Sighvatsson 19. júlí 2006. Með bréfi 18. nóvember það ár setti stefnandi fram kröfu við dóminn um að dánarbú foreldra málsaðila yrði tekið til opinberra skipta. Höfðaði stefnandi mál þetta fjórum dögum síðar samkvæmt áðursögðu. Með úrskurði dómsins 25. janúar 2007 var dánarbúið tekið til opinberra skipta.

II.

Stefnandi byggði í upphafi á því í málinu að Þórarinn Sighvatsson hefði ekki fengið útgefið leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína, Karlottu Margréti Jóhannsdóttur. Eftir höfðun málsins var upplýst að slíkt leyfi var gefið út 18. mars 1992 af sýslumanninum á Ísafirði, en stefndi lagði leyfið fram í þinghaldi 2. febrúar sl. Leyfinu hefur hins vegar ekki verið þinglýst og var við aðalmeðferð málsins byggt á því af hálfu stefnanda að hin umdeilda ráðstöfun Þórarins heitins hefði honum ekki verið heimil af þeirri ástæðu, þinglýsing leyfis til setu í óskiptu búi hefði verið forsenda hinnar umdeildu ráðstöfunar eigna hins óskipta bús.

Stefnandi reisir sýknukröfu sína einnig á því að ekkert samræmi hafi verið á milli þeirra verðmæta sem faðir hennar afsalaði til stefnda 1. febrúar 2004 og þess verðs sem stefnandi kunni að hafa greitt fyrir þau. Vísar stefnandi til þess að fasteignamat húseigna á jörðinni hafi 31. desember 2003 samtals numið 7.809.000 krónum og samanlagt brunabótamat eignanna 39.792.000 krónum. Ennfremur bendir stefnandi á að jörðin Höfði sé landstór, ræktað land talið 33,8 hektarar, og fasteignamat 12/30 hluta ræktaðs lands jarðarinnar 31. desember 2003 hafi verið 476.000 krónur. Þá sé ræktað land jarðarinnar Næfraness 14,5 hektarar og hafi fasteignamat þess á fyrrgreindum tíma verið 451.000 krónur.

Tilgreint söluverð í kaupsamningi um framangreinda eignaþætti, 5.000.000 króna, kveður stefnandi hafa verið langt frá öllu eðlilegu markaðsverði. Þá hafi söluverð greiðslumarks mjólkur í kaupsamningi verið 198,80 krónur á lítra er verið hafi verulega lægra en almennt markaðsverð sem á umræddum tíma hafi verið 230 til 240 krónur á lítra samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökum Íslands. Bústofn hafi jafnframt verið reiknaður í kaupsamningi á mun lægra verði en samkvæmt skattmati, sem almennt sé þó lægra en markaðsverð. Bókfært verð bústofns, skattmat, hafi verið 2.823.600 krónur, en samkvæmt kaupsamningi hafi kaupverð hans verið 1.135.000 krónur. Tilgreint söluverð véla og verkfæra hafi hins vegar verið nálægt bókuðu verði, 2.292.567 krónur.

Með kaupsamningnum segir stefndi Þórarin Sighvatsson hafa verið að selja allar eignir dánarbúsins. Ljóst sé að ekkert samræmi hafi verið á milli verðmætis hins selda og kaupverðs. Þar sem leyfi til handa Þórarni til að sitja í óskiptu félags- og dánarbúi sínu og látinnar eiginkonu sinnar hafi aldrei verið þinglýst hafi Þórarinn ekki haft heimild til að selja allar eigur búsins án samþykkis samerfingja. Stefndi hafi mátt vita um heimildarskort föður síns og þá hafi hann vitað að hið afsalaða voru allar eignir dánarbúsins. Ennfremur hafi hann hlotið að gera sér grein fyrir því að allt verðmætamat í kaupsamningnum hafi verið langt undir markaðsverði. Vísar stefnandi í þessu sambandi til 33. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Stefnandi heldur því fram að títtnefndur kaupsamningur hafi verið örlætisgerningur. Þó svo hann hafi að formi til verið gagnkvæmur viðskiptagerningur þá sé slíkt misræmi á milli verðmætis hinna seldu eigna og kaupverðs að gerningurinn sé bersýnilega málamyndagerningur og gjöf til stefnda. Verið sé að koma eignum undan skiptum.

Stefnandi segir liggja fyrir að engin sérstök þörf hafi verið á að ívilna stefnda fyrir að hafa stundað búskap með foreldrum sínum þar sem hann hafi fyrir kaupsamningsgerðina þegar verið búinn að eignast, að öllum líkindum með aðstoð foreldra sinna, verulegan hluta jarðarinnar og bygginga á henni. Með gerningnum hafi stefndi heldur ekki tekið að sér framfærsluskyldu gagnvart föður sínum sem best sjáist á því hversu lítið standi eftir af söluandvirðinu í dánarbúinu.

Verði ekki fallist á ógildingu kaupsamningsins krefst stefnandi þess að samningnum verði rift á grundvelli 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Stefnandi kveðst fyrst hafa fengið upplýsingar um kaupsamninginn þegar fara hafi átt að skipta búinu eftir andlát föður þeirra. Hvorki stefndi né faðir málsaðila hafi minnst á gerninginn.

Þegar fyrir hafi legið upplýsingar um að jarðirnar Höfði og Næfranes hefðu verið seldar til stefnda með byggingum og bústofni hafi verið óskað eftir veðbókarvottorðum fyrir jarðirnar. Í þeim hafi verið vísað til afsals frá 1. febrúar 2004.

Stefnandi heldur því fram að upphafstíma þriggja ára reglu 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 beri í þessu tilviki að miða við þinglýsingu afsals, 24. nóvember 2004, en verði ekki á það fallist í fyrsta lagi frá dagsetningu afsals, 1. febrúar 2004.

Þó svo afhending sé í kaupsamningi sögð vera 1. október 2003 kveður stefnandi ekki hægt að miða við þann dag þar sem raunveruleg eignayfirfærsla verði ekki fyrr en við útgáfu afsals. Bendir stefnandi jafnframt á að kaupsamningnum hafi ekki verið þinglýst fyrr en 26. nóvember 2003.

Að lokum segir stefnandi hér einnig verða til þess að líta að um viðskipti feðga var að ræða. Stefndi hafi þekkt vel til allra aðstæðna og faðir hans verið orðinn alvarlega veikur.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og 2. töluliðar 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

III.

Stefndi vísar til þess að mál þetta hafi verið höfðað með stefnu sem birt hafi verið umboðsmanni hans 22. nóvember 2006. Í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962 sé að finna tvenns konar málshöfðunarfresti um hvenær mál þurfi í síðasta lagi að höfða. Höfða þurfi mál innan beggja þessara fresta en stefndi telji að þeir hafi báðir verið liðnir þegar málið var höfðað.

Í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962 segir stefndi erfingjum settur þriggja ára afdráttarlaus frestur frá afhendingu „gjafar“ úr óskiptu búi til höfðunar riftunarmáls. Hinn umdeildi kaupsamningur hafi verið undirritaður 1. október 2003 og afhending hins selda farið fram samdægurs, sbr. 6. gr. samningsins. Krafa stefnanda um riftun kaupsamningsins sé því í öllu falli of seint fram komin, jafnvel þótt svo ólíklega vildi til að litið yrði á samninginn sem gjafagerning líkt og stefnandi geri, þar sem nefndur þriggja ára frestur hafi verið liðinn 1. október 2006 þegar liðin voru þrjú ár frá afhendingu umráða yfir hinu selda, eða eftir atvikum undirritun samnings er fól í sér skuldbindingu um gjöf. Mótmælir stefndi þeim málatilbúnaði stefnanda að miða megi upphaf frestsins við útgáfu afsals eða þinglýsingu kaupsamnings og tekur sérstaklega fram að í umræddri lagagrein sé tímamarkið sagt vera  „frá afhendingu gjafar“ en ekki gerður áskilnaður um að samningnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberri skráningu.

Upphafstíma ársfrestsins skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962 kveður stefndi hafa í síðasta lagi byrjað að líða við þinglýsingu kaupsamningsins 26. nóvember 2003. Auk þess hafi stefndi upplýst stefnanda um fyrirhugaða sölu án þess að fram kæmu athugasemdir af hennar hálfu. Stefndi hafi ennfremur upplýst stefnanda síðar um að salan væri um garð gengin. Hafi stefnandi engu að síður verið andvígur sölunni hafi þessar upplýsingar gefið henni ástæðu til að fylgjast með því hjá sýslumanni hvort búið væri að þinglýsa kaupsamningi.

Stefndi mótmælir þeim málatilbúnaði stefnanda að þinglýsing hafi verið forsenda hinnar umdeildu ráðstöfunar eigna dánarbúsins. Vísar stefndi til þess að Þórarinn hafi fengið útgefið leyfi til setu í óskiptu búi og honum því verið ráðstafanirnar heimilar, algerlega óháð þinglýsingu búsetuleyfisins, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Skírskotun í stefnu til ógildingarákvæða laga nr. 7/1936 segir stefndi með öllu vanreifaða og án tilvísana til málsástæðna. Krafa um riftun verði heldur ekki byggð á ógildingarreglum laganna. Þá séu þær aðstæður sem í ákvæðunum er lýst ekki á nokkurn hátt fyrir hendi í þessu máli, enda hafi efni kaupsamningsins frá 1. október 2003 og afsals, dagsett 1. febrúar 2004, verið í samræmi við ákvörðun og vilja Þórarins heitins. Þórarinn hafi verið heilsuhraustur og við góða andlega heilsu fram til ársins 2005 og fyrir honum hafi vakað að tryggja áframhaldandi búrekstur á jörðinni. Einnig hafi hann viljað búa heima eins lengi og hægt var. Það hafi því verið fyrir tilstuðlan og að frumkvæði Þórarins að gengið var þannig frá málum sem gert var og án nokkurs þrýstings frá stefnda. Í þessu sambandi vísar stefndi að lokum til þess að meira en þrjú ár eru liðin frá því að kaupsamningurinn var undirritaður og stefndi tók við hinu selda, en síðan hafi stefndi ráðist í umtalsverðar endurbætur á jörðinni.

Stefndi mótmælir því að í hinum umdeilda kaupsamningi hafi falist gjöf honum til handa. Kaupverð hins selda hafi verið í samræmi við almennt markaðsverð þess þegar salan fór fram.

Við mat á verðmæti hins selda kveður stefndi í fyrsta lagi verða að horfa til þess að um var að ræða sölu á hluta af landi jarðarinnar Höfða, sem óhjákvæmilega hafi haft áhrif á söluverðið. Einnig verði að líta til þess að jarðir til sveita séu oft torseljanlegar og mjög örðugt að segja fyrir um hvert sé almennt markaðsverð þeirra.

Þá mótmælir stefndi því alfarið að söluverð greiðslumarks mjólkur samkvæmt kaupsamningnum hafi verið verulega lægra en almennt markaðsverð greiðslumarks mjólkur á þessum tíma. Mótmælir stefndi því verði sem stefnandi haldi fram sem röngu. Meðalverð í september og október 2003 hafi samkvæmt könnun Bændasamtaka Íslands verið nálægt 240 krónum á lítra. Þá hafi samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarsamtökum Vesturlands verð greiðslumarks á því svæði verið á bilinu frá 200 til 240 krónur á lítra á árinu 2003. Ennfremur hafi á Vestfjörðum verið tilhneiging í þá átt að selja mjólkurkvóta á lægra verði þegar um var að ræða sölu innan svæðis.

Við verðlagningu bústofns kveður stefndi að mestu hafa verið miðað við sláturverð gripa, en algengast sé að miða verð á fæti við sláturverð. Auk þess hafi verð á búpeningi á umræddum tíma verið frekar lágt, en skattmat sé hærra en almennt markaðsverð. Þá hafi söluverð véla og tækja miðast við bókfært verð eins og algengast sé.

Verði talið að stefndi hafi greitt verð fyrir hið selda sem verið hafi lægra en almennt markaðsverð byggir stefndi á því að ekki sé uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962 að í kaupsamningnum hafi falist gjöf sem telja verði óhæfilega verðmæta miðað við efni bús. Við matið verði til þess að líta að um var að ræða sölu á jörð og búi frá föður til sonar, sem verið hafi lögerfingi að helmingi eigna Þórarins og óskipta búsins, í þeim tilgangi föðurins að búreksturinn héldist á jörðinni þar sem búskapur hafði haldist í fjóra ættliði. Þá hafi Þórarinn, eftir að hann var hættur að sinna bústörfum, vegna eigin hagsmuna, séð ástæðu til að koma málum fyrir á þann hátt að hann sjálfur gæti búið áfram heima og notið umönnunar og aðhlynningar sonar síns og tengdadóttur, sem tryggt hafi verið að sætu jörðina með hinum umdeildu ráðstöfunum. Heldur stefndi því fram að játa verði Þórarni nokkurt svigrúm til ráðstafana í þessu sambandi. Ennfremur verði til þess að líta að stefndi vann hjá foreldrum sínum við búskapinn um nokkurt tímabil, fram til 1996, án þess að þau störf væru að fullu launuð.

Að lokum bendir stefndi á að virða þurfi kaupin heildstætt, enda til dæmis jörð og mannvirki lítils virði án framleiðsluheimilda. Þá hafi fjárhæð kaupverðs verið ákveðin í samræmi við tillögu og mat ráðgjafa á því hvert væri eðlilegt verð. Því sé heldur ekki uppfyllt gagnvart stefnda huglæg skilyrði fyrir riftun skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962.

Hvað varðar kröfu um málskostnað bendir stefndi sérstaklega á að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnaðila síns.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og ákvæða II. kafla sömu laga um óskipt bú, einkum 12. gr. þeirra laga. Vegna galla á málatilbúnaði stefnanda kveðst stefndi vísa til e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 og reglna um skýran og glöggan málatilbúnað og frávísunarástæður. Ennfremur vísar stefndi til efnisatriða skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962 og til dóms í dómasafni Hæstaréttar frá árinu 2000, bls. 820.

IV.

A.

Fyrir liggur að Þórarinn Sighvatsson fékk útgefið leyfi hjá sýslumanninum á Ísafirði 18. mars 1992 til setu í óskiptu búi eftir maka sinn, Karlottu Margréti Jóhannsdóttur. Skv. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962 hefur maki, sem situr í óskiptu búi, í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins. Í erfðalögunum er hvergi nefnt að þinglýsing sé skilyrði þess að eignarráð handhafa leyfis til setu í óskiptu búi verði virk. Þá verður ekki séð að aðrar réttarheimildir styðji þá málsástæðu stefnanda. Hún er því haldlaus.

Í 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga segir að löggerning, sem ella myndi talinn gildur, geti sá maður, er við honum tók, eigi borið fyrir sig ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla má að hann hafi haft vitneskju um.

Fallast má á það með stefnda að málatilbúnaður stefnanda í stefnu hvað varðar ógildingarákvæði 33. gr. laga nr. 7/1936 sé ekki svo skýr sem skyldi. Þó verður af stefnunni ráðið að ógildingarkrafa stefnanda sé að þessu leyti á því byggð að stefndi hafi mátt vita að með kaupsamningnum 1. október 2003 hafi faðir málsaðila verið að afsala sér öllum eignum hins óskipta bús og þá hafi stefndi hlotið að gera sér grein fyrir að allt verðmætamat í kaupsamningnum væri langt undir markaðsverði.

Svo sem að framan er rakið er dánarbú Karlottu Margrétar Jóhannsdóttur og Þórarins Sighvatssonar undir opinberum skiptum. Í 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 er að finna sérákvæði sem veitir erfingjum rétt, við þær aðstæður sem nánar greinir í ákvæðinu, til að höfða mál til riftunar á óhæfilega hárri gjöf, miðað við efni búsins, úr óskiptu búi, ef viðtakandi sá eða átti að sjá, að gefandi sat í óskiptu búi og að gjöf var úr hófi fram. Ákvæði þetta veitir hins vegar erfingja ekki rétt til höfðunar máls í eigin nafni á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936 til ógildingar á samningum langlífari maka, sem sat í óskiptu búi. Þá verður ekki séð að aðrar réttarheimildir styðji málshöfðun stefnanda á þeim grundvelli. Þegar að þessu virtu getur stefnandi ekki byggt rétt á 33. gr. laga nr. 7/1936 í málinu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður stefndi sýknaður af aðalkröfu stefnanda.

B.

Í 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 segir að mál til riftunar á grundvelli greinarinnar skuli höfða áður en ár sé liðið frá því að erfingi eða lögráðamaður hans fékk vitneskju um gjöfina, og þó ekki síðar en innan þriggja ára frá afhendingu gjafar.

Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að í kaupsamningi stefnda og föður málsaðila frá 1. október 2003 hafi falist gjöf í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962. Samkvæmt 6. gr. kaupsamningsins tók stefndi „... við hinu selda 1. október 2003 og tekur frá og með þeim tíma við öllum réttindum og skyldum seljanda hvað varðar hið selda. Kaupandi hirðir arð af hinu selda frá afhendingardegi og greiðir skatta og skyldur af hinu selda frá sama tíma, en seljandi til þess tíma.“ Hefur ekkert fram komið í málinu annað en að nefndur dagur hafi verið formlegur afhendingardagur umræddra eigna og að þann dag hafi áhættan af hinu selda færst yfir á stefnda.

Mál þetta var höfðað 22. nóvember 2006. Var þá liðinn hinn afdráttarlausi þriggja ára frestur sem settur er í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962 til höfðunar riftunarmáls á grundvelli greinarinnar. Stefnandi getur því ekki byggt á nefndu ákvæði í málinu, enda hefur ekki verið í ljós leitt að stefndi hafi leynt gerð samningsins með sviksamlegum hætti, sbr. meðal annars þá staðreynd að hinum umdeilda kaupsamningi var þinglýst 26. nóvember 2003 og þá var afsali fyrir hinu selda þinglýst 24. nóvember 2004.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu stefnda um frávísun varakröfu stefnanda.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Sighvatur Jón Þórarinsson, skal sýkn af aðalkröfu stefnanda, Þóru Margrétar Þórarinsdóttur, í málinu.

Varakröfu stefnanda er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.