Hæstiréttur íslands
Mál nr. 406/2008
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Einkahlutafélag
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2009. |
|
Nr. 406/2008. |
Steinagerði ehf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Icelandic Group hf. (Ragnar Tómas Árnason hrl.) |
Kaupsamningur. Einkahlutafélög.
SG ehf. krafðist þess að viðurkennt yrði að I hf. væri skaðabótaskylt vegna þess að eignarhlutur þess hafi ranglega verið afmáður úr hlutaskrá SV ehf. á tímabilinu frá 14. nóvember 2003 til 4. apríl 2005, en SV ehf. var síðar sameinað I hf. Talið var að ósannað væri að SG ehf. hafi orðið eigandi að hlutabréfum í SV ehf., en greiðslur hafi ekki farið fram og ekki væri sannað að greitt hafi verið með vinnuframlagi. Þá var talið að skrá um hluti 14. nóvember 2003 hafi ekki borið það með sér að vera vottorð úr hlutaskrá SV ehf., þrátt fyrir orðalag hennar um það, enda hafi hún ekki uppfyllt formskilyrði 19. gr. laga um einkahlutafélög. Hafi SG ehf. ekki getað byggt eignarrétt sinn á þessu skjali enda hafi því mátt vera ljóst að kaupsamningur hafi ekki komist á og það ekki orðið löglegur eigandi. Hafi SG ehf. því ekki sýnt fram á að það hafi orðið fyrir tjóni sem I hf. beri skaðabótaábyrgð á og var I hf. því sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júlí 2008. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart sér „vegna þess atviks sem gerðist á tímabilinu frá 14. nóvember 2003 til 4. apríl 2005, að eignarhlutur áfrýjanda var ranglega afmáður úr hlutaskrá Sjóvíkur ehf., síðar Icelandic Group hf.“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Steinagerði ehf., greiði stefnda, Icelandic Group hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 22. apríl sl., er höfðað 11. janúar 2007.
Stefnandi er Steinagerði ehf., Steinagerði 18, Reykjavík.
Stefndi er Icelandic Group hf., Borgartúni 27, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefndi, Icelandic Group hf., sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þess atviks sem gerðist á tímabilinu frá 14. nóvember 2003 til 4. apríl 2005 að eignarhlutur stefnanda var ranglega afmáður úr hlutaskrá Sjóvíkur ehf., síðar Icelandic Group hf.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Stefndi gerir þá dómkröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Er jafnframt krafist málskostnaðar ú hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að í apríl 2003 hafi hann keypt hluti í félaginu Sjóvík ehf. af Sundi ehf. í kjölfar hlutafjáraukningar í félaginu, en aukningin hafi verið samþykkt á aðalfundi þess hinn 31. október 2002. Í viðskiptum sínum við Sund ehf. hafi stefnandi orðið eigandi hlutafjár að nafnvirði 22.500 krónur sem hafi tekið til 0,90% af heildarhlutafé félagsins.
Um hafi verið samið að kaupverð bréfanna skyldi vera 8.665.000 krónur og skyldi stefnandi greiða Sundi ehf. andvirði þeirra samkvæmt nánara munnlegu samkomulagi aðila. Í samræmi við framangreint samkomulag hafi hlutaskrá Sjóvíkur ehf. verið breytt á þann veg að stefnandi, Steinagerði ehf., var skráður hluthafi að 0,9% hlut í félaginu, eða fyrir hlutum að fjárhæð 22.500 krónur að nafnverði.
Hinn 20. apríl 2005 hafi fyrirhugaður samruni Sjóvíkur ehf. og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hf. verið tilkynntur til Kauphallar Íslands hf. Í aðdraganda samrunans hafi komið í ljós að stefnandi var ekki lengur skráður hluthafi í Sjóvík ehf. Til marks um það hafi stefnanda í engu verið getið í staðfestri hlutaskrá Sjóvíkur ehf., dags. 4. apríl 2005, en hlutur stefnda, Sunds ehf., hafi að sama skapi hækkað um sömu fjárhæð og hlutir stefnanda höfðu áður verið skráðir. Í ljósi framangreinds hafi stefnandi haft ástæðu til að ætla að hlutaskrá Sjóvíkur ehf. væri ranglega skráð. Hafi stefnandi því óskað eftir formlegri staðfestingu á hlutafjáreign hans í Sjóvík ehf. með bréfi þar um, dags. 22. apríl 2005. Með svarbréfi frá Sjóvík ehf., dags. 18. maí 2005, hafi því verið hafnað að Steinagerði ehf. ætti hluti í Sjóvík ehf. Þegar óskað hafi verið nákvæmari upplýsinga um hvernig á því stæði að hlutaskrá félagsins hafi verið breytt, að því leyti að stefnandi væri ekki lengur skráður hluthafi, hafi sú skýring verið gefin að Sjóvík ehf. hefði ekki borist nein tilkynning um að stefnandi Steinagerði ehf. hefði með formlegum og löglegum hætti orðið eigandi hluta í Sjóvík ehf.
Stefnandi kveðst, í bréfi til framkvæmdastjóra Sjóvíkur ehf., dags. 30. maí 2005, eða sama dag og hluthafafundur hafi verið haldinn í félaginu, hafa komið þeirri tilkynningu á framfæri við félagið að brotið væri á rétti hans sem hluthafa, þar sem hann fengi ekki aðgangs- og/eða atkvæðisrétt á hluthafafundinum, en meðal dagskrárliða fundarins var atkvæðagreiðsla, þar sem hluthafar tóku afstöðu til samrunaáætlunar, vegna samruna félagsins við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. Hafi stefnandi tekið það sérstaklega fram í bréfinu, að hann myndi greiða atkvæði á móti samrunanum, ef hann hefði færi á því að vera viðstaddur hluthafundinn. Hafi tilkynningu þessari verið komið á framfæri í því augnamiði að tryggja sömu réttarverkan líkt og fulltrúi stefnanda hefði mætt á fundinn og greitt atkvæði á móti tillögu um samruna. Samhliða tilkynningu þessari hafi verið send efnislega samhljóða tilkynning til hlutaskrár Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hf. og Fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra um málið. Stefnandi hafi jafnframt lýst því yfir í tilkynningunni að hann treysti því að yfirtökufélagið, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. og hlutaskrá þess, myndi leiðrétta hina augljósu villu í hlutaskrá sameinaðs félags að því er varðaði hluti stefnanda í Sjóvík ehf., sem nú séu hlutir í lcelandic Group hf.
Hinn 23. júní 2005 hafi stefnandi sent ítrekunarbréf til þáverandi forstjóra stefnda, Icelandic Group hf., áður Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf., þar sem ítrekuð hafi verið krafa um leiðréttingu á hlutaskrá hins sameinaða félags og óskað eftir því að erindið fengi faglega og eðlilega málsmeðferð svo ekki þyrfti að koma til þess að kröfunni yrði fylgt eftir fyrir dómstólum. Erindi þessu hafi ekki verið svarað.
Stefnandi kveðst ítrekað og staðfastlega hafa leitað eftir því að fá leiðréttingu á hlutafjáreign sinni, fyrst hjá Sjóvík ehf. og síðar hjá Icelandic Group hf., eftir sameiningu Sjóvíkur ehf. og Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna hf. Þeim beiðnum hafi ýmist verið hafnað með ófullnægjandi útskýringum eða ekki svarað. Telur stefnandi því sinn eina kost að leita atbeina Héraðsdóms Reykjavíkur til að skera úr um réttmæti kröfu sinnar.
Í greinargerð sinni mótmælir stefndi málavaxtalýsingu stefnanda eins og hún er rakin hér að framan. Lýsir stefndi málavöxtum þannig að á aðalfundi Sjóvíkur ehf., þann 31. október 2002, hafi verið ákveðið að hækka hlutafé félagsins úr 1.250.000 krónum í 2.500.000 krónur að nafnverði. Gengi hinna nýju hluta hafi verið ákveðið 346,6. Heildarfjárhæð sú sem félagið hugðist afla með útboðinu jafngilti USD 5.000.000. Í tillögu stjórnar um hlutafjárhækkun komi fram að hinir nýju hlutir veiti réttindi í félaginu frá þeim tíma sem þeir eru greiddir.
Áskrift hafi hins vegar ekki fengist fyrir 250.000 krónum að nafnvirði eða jafnvirði USD 1.000.000. Á þessum tíma, þ.e. síðla árs 2002, hafi Sjóvík ehf. átt í viðræðum við Kaupþing hf. um lán. Eitt af skilyrðum lánasamnings á milli félagsins og bankans hafi verið að áskrift fengist fyrir öllu hlutafé í hlutafjárhækkuninni og að allt hlutafé væri inngreitt. Hafi Sund ehf. því ábyrgst, gagnvart bankanum, greiðslu þeirra 20% sem eftir stóðu með útgáfu víxils að fjárhæð USD 1.000.000.000. Hafi Kaupþing lofað að afhenda Sundi víxilinn þegar hlutafjáraukningin hefði verið að fullu greidd og það staðfest af endurskoðanda félagsins. Hlutafjárhækkunin hafi verið tilkynnt til Hlutafélagaskrár þann 18. desember 2002 og skráð í kjölfar þess. Á hluthafafundi þann 7. janúar 2003 hafi Guðmundur Hjaltason, eigandi og framkvæmdastjóri stefnanda, tekið sæti í stjórn Sjóvíkur sem fulltrúi Serafin Shipping Corporation. Guðmundur hafi verið og sé náinn samstarfsmaður aðaleiganda Serafin, Ólafs Ólafssonar. Á þessum tíma hafi hann m.a. verið framkvæmdastjóri Kers ehf. þar sem Ólafur var aðaleigandi en Sund hafi jafnframt átt hluti í félaginu. Á stjórnarfundi 7. janúar 2003 hafi verið rætt um þá hluti sem Sund ehf. hafi verið í ábyrgð fyrir og ákveðið að taka málið upp á símafundi þann 16. janúar.
Á þessum tíma hafi verið rætt um að Serafin og Guðmundur myndu skrá sig og greiða Sjóvík ehf. fyrir hlutafé sem eftir stóð, samtals 250.000 hluti. Þeir hafi þó aldrei skráð sig fyrir hlutum en þann 25. apríl 2003 hafi stjórnarformaður Sjóvíkur ehf., Jón Kristjánsson, sent tölvupóst til Guðmundar. Þar sé upplýst um kaupverð 25.000 hluta samkvæmt gengi hluta í hlutafjárhækkuninni 346,6, þ.e. 8.665.000 krónur. Kaupþing, fyrir hönd Serafin, hafi svo greitt Sjóvík ehf. 77.985.000 krónur fyrir 225.000 hluti á genginu 346,6 þann 27. maí 2003. Stefnandi hafi hins vegar ekki efnt fyrirætlanir sínar um skráningu fyrir hlutum og greiðslu kaupverðs þrátt fyrir að rætt hefði verið lauslega um að Serafin og Sund ehf. myndu jafnvel aðstoða hann við fjármögnun kaupanna. Það hafi þó aldrei verið gengið frá því og það aldrei komið til vegna afstöðu Serafin.
Yfirlit um hlutaskrá, sbr. dómskjöl 4 og 5, hafi verið útbúið þann 14. nóvember 2003 fyrir Sam Park, einn af erlendum hluthöfum félagsins. Stefnandi sé þar tilgreindur vegna ofangreindrar umræðu um skráningu hans fyrir hlutum og sýni það skiptingu hlutafjár ef hann hefði greitt fyrir hina umdeildu hluti. Stefnandi hafi hins vegar hvorki skráð sig fyrir hlutum né hafi hann greitt þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir fyrirsvarsmanna Sjóvíkur ehf. Óhjákvæmilegt hafi verið að ganga frá greiðslu hlutanna fyrir lok reikningsársins enda hafi þeir enn verið ógreiddir í ósamræmi við tilkynningu til Hlutafélagaskrár, sbr. dómskjal 28. Þá sé lögboðin hámarksgreiðslufrestur vegna hlutafjárhækkunar eitt ár samkvæmt 5. tl. 25. gr. og 28. gr. laga um einkahlutafélög. Þar sem Sund ehf. hafi verið í ábyrgð fyrir hinu ógreidda hlutafé gagnvart Kaupþingi hafi málið verið leyst með því að Sund ehf. greiddi Sjóvík ehf. fyrir hlutina 31. desember 2003. Hafi Sund ehf. þar með orðið eigandi umdeildra hluta, þ.e. 22.500 hluta að frágengnum hluta Sam Park, starfsmanns félagsins. Hafi fyrirsvarsmanni stefnanda verið þetta vel kunnugt og í kjölfar þess hafi verið rætt um að hann myndi jafnvel kaupa hlutina af Sundi ehf. gegn því að greiða því kaupverðið en aldrei hafi neitt orðið úr því.
Stjórnir Sjóvíkur ehf. og stefnda hafi undirritað samrunaáætlun 19. apríl 2005 sem hafi komið í stað áætlunar sem var undirrituð 5. mars. Samruninn hafi svo verið samþykktur á hluthafafundi Sjóvíkur þann 30. maí og hafi miðast við 1. janúar 2005, þó þannig að fyrsti dagur sameinaðs félags var 1. júlí það ár. Stefnandi gerði Sjóvík ehf. fyrst viðvart um tilkall sitt til hlutanna með bréfi, dags. 22. apríl 2005, eða tveimur árum eftir að kaupin áttu sér stað samkvæmt fullyrðingu hans. Hafði verðmæti þeirra þá margfaldast, m.a. vegna sameiningar Sjóvíkur ehf. og stefnda. Hafi verið fjallað um erindi hans á hluthafafundi Sjóvíkur ehf. 30. maí 2005 og því hafnað. Stefnda hafi svo fyrst verið gert viðvart um kröfur stefnanda með bréfum, dags. 30. maí og 23. júní 2005.
Sund ehf., eða eigendur þess, eigi ekki hluti í stefnda. Félagið eigi þó minna en helming í Fjárfestingafélaginu Gretti ehf. sem eigi um 20-30% hlut í stefnda. Stefnandi beini kröfum sínum nú eingöngu að stefnda en ekki meintum viðsemjanda sínum í umdeildum kaupum, Sundi ehf.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda, Icelandic Group hf., á því að félagið hafi með ólögmætum hætti máð stefnanda úr hlutaskrá Sjóvíkur ehf., sem síðar hafi orðið Icelandic Group hf., en hann hafi verið réttur eigandi hluta að nafnverði 22.500 krónur í Sjóvík ehf. sem samsvari hlutum að nafnverði 5.383.732 krónur í Icelandic Group, eftir sameiningu Sjóvíkur ehf. og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, nú Icelandic Group hf. Stefnandi reisi kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu á eftirfarandi atriðum:
Hlutaskrá einkahlutafélags sé aðalheimildin um eignaraðild í félaginu og vottorð gefin út í því sambandi, sbr. 19. og 20. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Stefnandi bendi á að áreiðanleiki hlutaskrár sé slíkur að þó svo að gefin séu út hlutaskírteini í einkahlutafélögum í undantekningartilvikum, sem ekki liggi fyrir í þessu máli, þá séu slík skírteini ekki viðskiptabréf, þar sem eignarréttur til hlutarins sé ekki bundinn frumriti hlutaskírteinisins. Sé byggt á því að færsla í hlutaskrá félags ráði úrslitum um eignaraðild að hlutum, bæði gagnvart félaginu sjálfu og lánadrottnum eða veðhöfum. Einnig að treysta megi vottorðum sem gefin séu út á grundvelli hlutaskrár félags, megi treysta sem lögmætri sönnun fyrir eignarhlut í einkahlutafélagi. Þegar félag mái hluthafa með ólögmætum hætti úr hlutaskrá félags baki það félaginu skaðabótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar gagnvart þeim hluthafa sem mátti þola slíka rangskráningu, sé ekki að öðru leyti unnt að leiðrétta hlutaskrána og halda hluthafa skaðlausum af rangfærslunni.
Stefnandi byggi á því að framsal hluta til eignar eða veðsetningar hafi ekki gildi, nema félagið hafi fengið tilkynningu þar að lútandi frá framseljandanum, þ.e. stefnanda í þessu tilviki, eða að þriðji aðili leggi fram fullar sönnur á eignarrétt sinn. Ágreiningslaust sé að stefnandi, sem eigandi hluta að nafnverði 22.500 krónur í félaginu Sjóvík ehf., hafi aldrei tilkynnt um framsal hluta sinna, hvorki til Sjóvíkur ehf., né nokkurs annars aðila. Þá hafi stefndi, Icelandic Group hf., ekki sýnt stefnanda fram á neitt er bendi til þess að þriðji maður hafi lagt fram sönnur á eignarrétti sínum til umræddra hluta. Þegar af þeirri ástæðu hafi verið óheimilt að afmá nafn hans úr hlutaskrá félagsins, en sú aðgerð Sjóvíkur ehf., nú stefnda Icelandic Group hf., að afmá stefnanda úr hlutaskrá félagsins hafi bakað stefnanda mikið fjárhagslegt tjón.
Fyrir liggi í málinu að á aðalfundi í félaginu Sjóvík ehf., hinn 31. október 2002, hafi verið ákveðið að hækka hlutafé í félaginu um 1.250.000 krónur að nafnverði á genginu 346,60 krónur. Nokkrum mánuðum síðar hafi stefnandi keypt hluti í félaginu að nafnvirði 22.500 krónur, af Sundi ehf., og hafi umsamið kaupverð verið 8.665.000 krónur. Í þessu sambandi breyti engu þó að ekki hafi verið um skriflegan gerning að ræða, enda munnlegir gerningar jafngildir skriflegum í íslenskum rétti. Það sem öllu skipti sé sá skilningur sem samningsaðilar hafi lagt í efni samkomulagsins og áhrif þess á réttarsamband aðila. Stefnandi velkist ekki í vafa um lögmæti eða skuldbindingargildi samningsins, sem sjáist best á því að hann hafi ávallt virt efnisinnihald hans. Því til staðfestingar nægi að benda á þá staðreynd að ekki hafi verið gerðar athugasemdir af hans hálfu er hlutirnir voru færðir á hans nafn í hlutaskrá félagsins Sjóvíkur hf. Einnig staðfesti stefnandi þann skilning sinn með því að telja eign sína í félaginu fram til eigna og skuld sína við Sund ehf. fram til skulda við framtal til skatts. Þá gefi sú staðreynd, að stefnanda var getið sem eiganda í Sjóvík ehf. á vottorði gefnu út á grundvelli hlutaskrár Sjóvíkur ehf., stefnanda hvorki tilefni né ástæðu til að ætla annað en að sá skilningur sem hann hafi lagt í samkomulag aðila væri gagnkvæmur, en sú staðfesting hafi verið ítrekuð með tölvupósti frá fjármálastjóra og prókúruhafa Sjóvíkur ehf. þann 15. nóvember 2003.
Stefnandi viðurkenni að uppgjöri vegna hlutanna sé ólokið. Hvað sem óútkljáðum uppgjörsmálum líði, þá veitti það Sundi ehf., engan rétt til þess að tilkynna hlutaskrá Sjóvíkur ehf. um að hlutirnir skyldu færðir aftur yfir á nafn félagsins. Hlutaskrá Sjóvíkur ehf., nú stefnda Icelandic Group hf., hafi í það minnsta ekki átt að taka mark á þeirri tilkynningu nema með samþykki stefnanda, eða beinni sönnun þess að eignaraðild að hlutum stefnanda hafi færst yfir til Sunds ehf. Stefnandi haldi því fram að lögskiptin að baki yfirfærslu hlutanna til stefnanda eigi ekki og geti ekki haft áhrif á skráningu hluta hans hjá félaginu, þrátt fyrir samkomulag á milli stefnanda og fyrri eiganda bréfanna um síðari greiðslu kaupverðs, enda séu þau lögskipti félaginu með öllu óviðkomandi. Það sem skipti máli sé að stefnandi hafi mátt treysta því að Sund ehf. hafi tilkynnt hlutaskrá Sjóvíkur ehf. um að stefnandi væri orðinn eigandi hluta að nafnverði 22.500 krónur sem Sund ehf. hafði áður verið skráð fyrir. Að öðrum kosti hefði hlutaskrá Sjóvíkur ehf. ekki verið breytt til samræmis við hana.
Stefnandi telji sig hafa fært fullgild rök að því að hann hafi verið lögmætur eigandi hluta að nafnverði 22.500 krónur í Sjóvík ehf., eða sem svari til þeirra hluta sem 22.500 krónur að nafnverði í Sjóvík ehf. gefi í Icelandic Group hf., samkvæmt samrunaáætlun Sjóvíkur ehf. og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hf. Hlutafjáreign hans hafi hins vegar verið ranglega afmáð úr hlutaskrá Sjóvíkur ehf. fyrir samruna félagsins við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. Við sameininguna hafi skiptigengi verið þannig að hluthafar í Sjóvík ehf. hafi fengið 239,277 hluti í sameinuðu félagi fyrir hverja krónu hlutafjár í Sjóvík ehf., sem þýði að stefnandi hefði átt að vera skráður eigandi hluta að nafnverði 5.383.732 krónur í hinu sameinaða félagi, Icelandic Group hf. Þar sem Sund ehf. sé ekki lengur eigandi þeirra hluta sem ranglega hafi verið færðir aftur á nafn þess hafi verið staðfest með dómi að ómögulegt sé að leiðrétta hlutaskrá stefnda Icelandic Group hf. með þeim hætti að hlutirnir séu aftur færðir á hans nafn. Veiti þetta stefnanda hins vegar rétt til að krefja stefnda um bætur vegna þeirra ólögmætu gjörða sem hér hafi verið rakin.
Í bréfi stefnanda til Sjóvíkur ehf., frá 30. maí 2005, en afrit þess hafi verið sent Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, áskilji stefnandi sér rétt til innlausnar á verðmæti bréfanna, svo sem hann eigi rétt til samkvæmt 106. gr. laga um einkahlutafélög, sbr. einnig 131. gr. laga um hlutafélög. Megi hér því nefna að gengi bréfa í Icelandic Group hf. hafi verið 11,3 þann 31. maí 2005, sem í tilviki stefnanda hefði gefið honum 60.836.172 krónur í söluandvirði.
Krefjist stefnandi því þess að viðurkennt veri með dómi að stefndi, Icelandic Group hf., sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þess atviks sem gerðist á tímabilinu frá 14. nóvember 2003 til 4. apríl 2005 að eignarhlutur stefnanda hafi ranglega verið afmáður úr hlutaskrá Sjóvíkur ehf., síðar Icelandic Group hf.
Stefnandi byggir kröfu sína á reglum skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennum reglum skaðabótaréttar. Þá vísar stefnandi til reglna laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, einkum 19., 20. og 106. gr. laganna, og til laga um hlutafélög nr. 2/1995, einkum 131. gr. laganna.
Um málskostnaðarkröfu er vísað til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi krefst í fyrsta lagi sýknu á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki eignast hina umdeildu hluti í Sjóvík ehf. Í öðru lagi krefst stefndi sýknu með vísan til þess að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna meintrar háttsemi stefnda eða beri sök á því. Í þriðja lagi er krafist sýknu þar sem ekkert tjón hafi orðið vegna þess að formskilyrði fyrir eignayfirfærslu séu ekki uppfyllt. Í fjórða lagi þar sem stefnandi beri sjálfur sök á meintu tjóni sínu og í fimmta lagi að krafa hans sé fallin niður fyrir tómlæti.
Verði fyrst vikið að þeirri sýknuástæðu sem lúti að meintu eignarhaldi stefnanda. Stefnandi haldi því fram að færsla í hlutaskrá félags ráði úrslitum um eignaraðild að hlutum, m.a. gagnvart félaginu sjálfu, og segi jafnframt að lögskipti að baki yfirfærslu hluta geti ekki haft áhrif á skráningu hluta hjá félaginu. Stefnandi fullyrði þó jafnframt að hann hafi raunverulega orðið eigandi hinna umdeildu hluta. Rétt sé að víkja fyrst að meintum efnislegum eignarrétti hans enda sé hann grundvöllur þess að skráning í hlutaskrá hafi verið röng. Í stefnu sé lýsing á þeim kaupum sem stefnandi byggi eignarrétt sinn á afskaplega rýr. Hvað sem öðru líði blasi við að enginn grundvöllur sé fyrir því að stefnandi krefjist þess að fá hlutina í dag þegar gengi þeirra á markaði sé honum að skapi. Gengi hlutanna hafi stórhækkað og stefnandi geti, hvað sem öðru líði, ekki gert kröfu til afhendingar á verði sem ákveðið hafi verið á tíma þegar fjárfestingin var áhættusöm, nú þegar hlutirnir hafi margfaldast í verði og áhættan sé engin. Þessu svipi til kröfu um að fá að kaupa happdrættismiða eftir að dráttur hefur farið fram og vinningur komið á miðann.
Stefnandi yrði sérstaklega að sýna fram á að hann hafi samið um kaup og að greiðsla á hinu ákveðna gengi gæti farið fram löngu síðar. Rétt sé að árétta að stefnandi láti ekki einu sinni svo lítið að bjóða fram greiðslu fyrir hina umdeildu hluti í sömu stefnu og hann krefst réttinda yfir hlutunum. Af þeirri ástæðu einni sé raunar rétt að hafna kröfum hans.
Stefnandi kveðst hafa keypt hluti í Sjóvík að nafnvirði 22.500 krónur af Sundi í apríl 2003. Þessu sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Eins og gerð hafi verið grein fyrir í málsatvikalýsingu hafi Serafin og fyrirsvarsmanni stefnanda hins vegar staðið til boða af hálfu Sjóvíkur ehf. að skrá sig fyrir og greiða Sjóvík fyrir hluti sem áskrift hafði ekki fengist fyrir í hlutafjárhækkun félagsins haustið 2002 og Sund ehf. hafi verið í ábyrgð fyrir. Stefnandi hafi hins vegar hvorugt gert og hafi því ekki orðið eigandi hlutanna.
Serafin hafi staðið til boða 225.000 hlutir og fyrirsvarsmanni stefnanda 25.000 hlutir. Þeir hafi þó ekki skráð sig fyrir hlutum en þessu til staðfestingar megi hins vegar m.a. vísa til tveggja málsgagna. Hið fyrra sé tölvupóstur þáverandi stjórnarformanns Sjóvíkur ehf., Jóns Kristjánssonar, til fyrirsvarsmanns stefnanda hinn 25. apríl 2003. Þar segi að krónutalan fyrir hluti í Sjóvík ehf. sé 8.665.000 krónur. Með þessu ákveðna kaupverði sé vísað til samtals 25.000 hluta samkvæmt gengi hluta í hlutafjárhækkuninni sem hafi verið 346,6, þ.e. 25.000 hlutir margfaldaðir með 346,6 sem geri 8.665.000 krónur. Í stefnu sé hins vegar, í ósamræmi við þetta, miðað við að stefnandi hafi aðeins orðið eigandi 22.500 hluta. Ástæða þessa sé væntanlega tilvísun í því skjali, sem stefnandi leitist við að byggja rétt sinn á, til 0,9% hlutar, yfirlýsingu Ellerts Vigfússonar og Jóns Kristjánssonar, dags. 14. nóvember 2003 um hluthafa og hlutafjáreign. Nánar verði fjallað um gildi þessa skjals hér á eftir en ljóst sé að þetta ósamræmi dragi verulega úr sönnunargildi þess, ef eitthvert sé, en staðfesti á hinn bóginn málsatvikalýsingu stefnda. Þá hreki þetta einnig fullyrðingar stefnanda í málsatvikalýsingu um að „hlutaskrá“ hafi verið breytt í samræmi við meint samkomulag aðila. Hvað sem öðru líði blasi við að það sé ekki rétt.
Hitt gagnið sé kvittun fyrir greiðslu Serafin á 77.985.000 krónum til Sjóvíkur ehf. þann 27. maí 2003. Sé það greiðsla fyrir þá hluti sem því hafi staðið til boða, þ.e. 225.000 hluti á genginu 346,6. Þetta staðfesti framangreinda lýsingu á málsatvikum, hvað stefnanda hafi staðið til boða af hálfu Sjóvíkur ehf. og hvenær greiðsla hafi átt að fara fram.
Í málinu haldi stefnandi því hins vegar fram að hann hafi gert kaupsamning við Sund ehf. um hina umdeildu hluti í apríl 2003. Þessu sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu enda liggi ekkert fyrir í málinu sem veiti fullyrðingum um samningssamband þessara aðila stuðning. Í því sambandi megi ítreka að Jón Kristjánsson hafi, sem stjórnarformaður Sjóvíkur ehf., sent tölvupóst til fyrirsvarsmanns stefnanda, eins og undirskrift í póstinum beri skýrlega með sér. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að kaupsamningur hafi komist á og hans eigin fullyrðingar fjarri því að nægja til sönnunar á tilvist hans. Sé þar rétt að hafa í huga að tilgreining stefnanda á hlutaskrá, dags. 14. nóvember 2003, veiti enga leiðbeiningu um mögulegan viðsemjanda hans. Skjalið sé ótengt hinum meintu kaupum enda útbúið hálfu ári síðar fyrir Sam Park, hluthafa í félaginu. Það sé því fjarri öllum sannleika að þetta skjal hafi með einhverjum hætti gefið stefnanda til kynna gagnkvæman skilning Sunds ehf. á meintu samkomulagi aðila, eins og haldið sé fram í stefnu. Staðreyndin sé sú að stefnandi sé einungis nefndur á yfirlitinu vegna boðs um áskrift frá Sjóvík ehf. og sýni stöðuna ef hann hefði greitt Sjóvík ehf. fyrir hlutina, eins og þegar hafi verið færðar sönnur á. Tilvist kaupsamnings milli stefnanda og Sunds um hluti í Sjóvík ehf. sé því ósönnuð.
Þurfi raunar ekki frekari staðfestingar við, en einnig megi benda á að stefnandi haldi því fram að hann hafi keypt hlutina af Sundi ehf. í apríl 2003. Sund ehf. hafi hins vegar ekki verið orðinn eigandi hinna umdeildu hluta fyrr en félagið greiddi Sjóvík ehf. fyrir þá þann 31. desember 2003. Sundi hafi þá fyrst verið unnt að selja hlutina. Stefnanda hafi verið þetta fullljóst enda hafi fyrirsvarsmaður hans verið í stjórn Sjóvíkur ehf. á þessu tímabili. Hér megi einnig benda á atriði sem nánar sé fjallað um hér á eftir, þ.e. að hvorki Sund ehf. né stefnandi hafi tilkynnt hina meintu eignatilfærslu til Sjóvíkur ehf. og stjórn félagsins, með fyrirsvarsmann stefnanda innanborðs, hafi aldrei fallið frá forkaupsrétti vegna þessa. Þá hafi stefnandi aldrei notið réttinda sem hluthafi í félaginu og hafi hann ekki gert athugasemdir vegna þess. Megi hér í dæmaskyni vísa til fundargerða aðalfunda félagsins hinn 30. apríl 2003 og 4. maí 2004 og hluthafafundar hinn 27. janúar 2005, sem bera þess ekki merki að stefnandi hafi verið þar sem hluthafi. Rétt sé að geta þess að einungis einn hluthafafundur hafi verið haldin í Sjóvík ehf. árið 2004, þ.e. fyrrnefndur aðalfundur.
Þá sé því haldið fram í stefnu að stefnanda hafi fyrst orðið kunnugt í apríl 2005 að hann væri ekki tilgreindur sem eigandi hlutanna í hlutaskrá Sjóvíkur ehf. Augljóst sé að þessi fullyrðing standist ekki þar sem í ársreikningum Sjóvíkur ehf. fyrir árin 2002 og 2003 sé sami fjöldi hluthafa tilgreindur en einn hefði átt að bætast við árið 2003 ef fullyrðingar stefnanda væru réttar. Þrátt fyrir það hafi fyrirsvarsmaður stefnanda undirritað ársreikning árið 2003 án athugasemda 21. apríl 2004, sem stjórnarmaður í Sjóvík ehf. Þessi fullyrðing í stefnu sé raunar einnig í ósamræmi við framburð fyrirsvarsmanns stefnanda í fyrra máli aðila, þar sem hann hafi viðurkennt að honum hefði orðið kunnugt um að stefnandi væri ekki tilgreindur sem hluthafi þegar hann fékk fjárhagslega áreiðanleikakönnun á Sjóvík ehf. senda hinn 14. desember 2004. Í þeirri könnun sé tæmandi yfirlit yfir hluthafa félagsins og sé stefnandi ekki þeirra á meðal. Áreiðanleikakönnunin hafi verið unnin fyrir SÍF hf. í tilefni af fyrirhuguðum kaupum þess á hlut í Sjóvík, en fyrirsvarsmaður stefnanda hafi á þeim tíma einnig verið stjórnarmaður í SÍF. Honum hafi verið kunnugt um efni þeirrar áreiðanleikakönnunar samkvæmt framburði hans og tveim tölvupóstum frá honum í desember árið 2004. Þrátt fyrir það hafi stefnandi fyrst gert Sjóvík ehf. grein fyrir kröfum sínum í apríl 2005 og stefnda í maí 2005. Staðfesti þetta að stefnandi hafi ekki talið sig eiganda umræddra bréfa. Megi í þessu sambandi einnig vísa til lista yfir hluthafa í Sjóvík ehf., sem var útbúinn þann 31. desember 2004.
Auk þess að halda því fram að kaupsamningur hafi komist á við Sund ehf. í apríl 2003 fullyrði stefnandi að kjör samkvæmt samningnum hafi verið honum afar hagstæð. Lítið sem ekkert sé hins vegar fjallað um það í stefnu í hverju þessi hagkvæmu kjör fólust. Þar sé þó vísað til síðari greiðslu kaupverðs en ekki sé heldur gerð nánari grein fyrir því. Nokkuð erfitt sé að verjast svo óljósum málatilbúnaði en stefndi árétti þó að stefnandi beri ekki einungis sönnunarbyrði fyrir því að Sund ehf. og stefnandi hafi gert kaupsamning heldur einnig um hvaða kjör var samið. Sú sönnunarbyrði þyngist allverulega þegar hann haldi því fram að þau hafi verið mun hagkvæmari en almennt tíðkist. Stefnandi hafi hins vegar engin sönnunargögn til stuðnings þessum fullyrðingum sínum frekar en um tilvist kaupsamningsins. Stefndi mótmæli þeim og teljist þær því ósannaðar. Raunar staðfesti þau gögn sem liggi fyrir í málinu, einkum tölvupóstur stjórnarformanns Sjóvíkur ehf. til Guðmundar Hjaltasonar og greiðsla Serafin, að Sjóvík ehf. hafi gert kröfu um greiðslu í samræmi við almennar reglur. Þá virðist fyrirsvarsmaður stefnanda ekki gefa þessi meintu fríðindi upp til skatts sem launagreiðslur. Sé það í ósamræmi við málatilbúnað hans um að honum hafi verið veitt þess kjör vegna starfa í þágu félagsins og stjórnarsetu. Yfir allan vafa sé hafið að menntuðum endurskoðanda, eins og fyrirsvarsmanni stefnanda, sé kunnugt um kröfur skattalaga í þessum efnum. Í þessu sambandi sé framlagningu skriflegs vitnisburðar endurskoðanda stefnanda í málinu sérstaklega mótmælt. Veki þó athygli að endurskoðandinn fullyrði að í skattframtölum hafi verið tilgreind skuld við Sund ehf. án þess að nokkur skuldaskjöl eða önnur staðfesting liggi því til grundvallar. Þetta gagn hafi ekkert gildi og því skorað á stefnanda og fyrirsvarsmann hans að leggja fram skattframtöl sín á viðkomandi tímabilum. Til áréttingar sé rétt að taka fram að hvorki sé tilgreind sala á hlutum í Sjóvík ehf. né lán til stefnanda eða fyrirsvarsmanns hans í bókhaldi Sunds ehf. Þar séu hins vegar tilgreind kaup Sunds ehf. á hlutabréfum í Sjóvík þann 31. desember 2003.
Óumdeilt sé að stefnandi hafi hvorki greitt fyrir hina umdeildu hluti né boðið fram greiðslu fyrir þá þrátt fyrir að tæp fjögur ár séu liðin frá því hann segi að kaupin hafi átt sér stað. Eigi hann því engan rétt til hlutanna. Þá bendi stefndi á að þó deilur aðila um hin meintu kaup varði einkum sönnun fyrir staðreyndum þá sé lýsing stefnanda á meintum samningum aðila afskaplega fátækleg.
Stefnandi leggi mikla áherslu á hlutaskrá 14. nóvember 2003, sem hann nefndi staðfest afrit hlutaskrár Sjóvíkur ehf. í fyrri málshöfðun sinni, en kalli nú staðfest vottorð úr hlutaskrá félagsins. Hér á eftir verði fjallað um að umrætt skjal sé hvorki hlutaskrá Sjóvíkur ehf. né vottorð úr slíkri hlutaskrá. Jafnvel þótt svo væri sé því mótmælt að færsla í hlutaskrá félags geti ráðið úrslitum um eignarrétt að hlutum. Lögskipti aðila ráði hvor þeirra teljist eigandi hlutafjár og gagnvart félaginu sjálfu gildi fullnægjandi sönnun á eignarrétti. Það komi skýrlega fram í 4. mgr. 19. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í ákvæði þessu segi að verði eigendaskipti að hlut skuli nafn hins nýja hluthafa fært í hlutaskrána þegar hann tilkynni eigendaskiptin og sanni rétt sinn. Þessi tilvísun í sönnun fyrir eignarrétti sé endurtekin í lokamálslið 4. mgr. 19. gr. þar sem tekið sé fram að sá sem eignast hafi hlut geti ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum. Í þessu ákvæði sé einnig staðfestur sá megintilgangur hlutaskrár að vera sönnunargagn vegna félagslegra réttinda og að fullnægjandi sönnun fyrir eignarrétti gangi eðli málsins samkvæmt framar skráningu í hlutaskrá. Að öðrum kosti gæti nýr eigandi aldrei fengið sig skráðan á hlutaskrá. Fullyrðingar stefnanda um að færsla í hlutaskrá ráði úrslitum um eignarrétt gagnvart félaginu gangi einfaldlega ekki upp þegar þetta sé haft í huga. Þá sjáist jafnframt að fullyrðingar um að lögskiptin að baki hafi ekki áhrif á skráningu séu rökleysa, enda byggist sönnun á eignarrétti á þeim lögskiptum. Hér sé jafnframt rétt að geta þess að 20. gr. laga um einkahlutafélög varði einungis gildi framsals gagnvart lánardrottnum framseljanda eða veðsala, eins og skýrlega segi í ákvæðinu sjálfu. Samningar gildi hins vegar á milli aðila og gagnvart félaginu gildi lögfull sönnun á eignarrétti.
Í framburði fyrir dómi, í fyrra máli þessara aðila, hafi fyrirsvarsmaður stefnanda viðurkennt að hvorki hann né Sund ehf. hefðu tilkynnt um hin meintu kaup til Sjóvíkur ehf. Þrátt fyrir það sé því enn haldið fram í stefnu að stefnandi hafi mátt treysta því að Sund ehf. hafi tilkynnt þetta vegna tilgreiningar hans í hlutaskrá. Hér sé einfaldlega um hugarburð að ræða og sé þetta afar sérkennileg fullyrðing í ljósi framburðar fyrirsvarsmanns stefnanda og setu hans í stjórn Sjóvíkur ehf. á þessum tíma. Stefndi hafi þegar fært sönnur á að eina ástæða þess að stefnandi var tilgreindur á yfirlitinu sé að Sjóvík ehf. hafi enn gert ráð fyrir að hann myndi skrá sig fyrir og greiða fyrir hlutina. Þar sem hann hafi ekki gert það hafi hann engan rétt til umdeildra hluta og breyti þessi tilgreining engu þar um. Stefndi árétti jafnframt að tilgreining stefnanda á þessum skjölum skapi honum engan sjálfstæðan rétt yfir hlutunum hvorki gagnvart Sundi ehf. né gagnvart stefnda. Samkvæmt framangreindu hafi stefnandi ekki orðið fyrir neinu tjóni við meinta afmáningu úr hlutaskrá Sjóvíkur ehf. og beri því að sýkna stefnda af kröfum hans.
Önnur sýknuástæða stefnda byggist á því að jafnvel þó stefnandi teldist hafa eignast hina umdeildu hluti þá hafi hið meinta atvik á árunum 2003 til 2005 ekki valdið honum neinu tjóni og, jafnvel þó svo væri, þá beri stefndi enga sök á því.
Skipti hér meginmáli að skráning í hlutaskrá hafi enga sjálfstæða þýðingu um rétt stefnanda enda sé eignarréttur yfir hlutum ekki háður slíkri skráningu. Teljist stefnandi eigandi hlutanna verði hann, því til viðbótar, að sanna að sá réttur sé verðminni vegna ólögmætrar háttsemi stefnda. Enginn reki sé gerður að því í stefnu og sé það ósannað.
Þá hafi stefnandi aldrei verið færður á hlutaskrá Sjóvíkur ehf. og því aldrei afmáður úr henni. Þau skjöl sem stefnandi byggi fullyrðingar sínar á séu hvorki hlutaskrá félagsins né vottorð úr þeirri hlutaskrá. Í þessu sambandi sé rétt að geta þess að í fyrri stefnu hafi verið á því byggt að umrædd skjöl væru hlutaskrá Sjóvíkur ehf. Hafi stefnandi því breytt málatilbúnaði sínum hvað þetta varðar og endurspegli það vel veikleika í málatilbúnaði hans. Í 2. mgr. 19. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 komi fram að í hlutaskrá skuli hlutir skráðir í númeraröð og skuli fyrir sérhvern hlut greint frá nafni eiganda, kennitölu og heimilisfangi. Ljóst sé að umrætt skjal uppfylli ekki þessi formskilyrði og sé ekki hlutaskrá félagsins. Miðað við málatilbúnað stefnanda í þessu máli virðist þetta raunar vera óumdeilt.
Lög um einkahlutafélög setji ekki sömu formskilyrði um staðfestingu úr hlutaskrá, en í 5. mgr. 19. gr. laganna segi þó að ef þess er krafist af hluthafa eða veðhafa skuli félagið gefa út staðfestingu um færslu í hlutaskrána. Augljóst sé að yfirlýsing frá 14. nóvember 2003 sé ekki staðfesting um færslu í hlutaskrá heldur einhvers konar yfirlit. Jafnvel þó svo væri þá sé óumdeilt að stefnandi hafi ekki gert kröfu um þessa staðfestingu heldur hafi þetta yfirlit verið útbúið fyrir Sam Park, erlendan hluthafa félagsins. Skjalið geti því ekki skapað stefnanda neinn rétt gagnvart stefnda þó hann hafi komist yfir það sem stjórnarmaður í stefnda. Að lokum sýni skjalið einungis stöðuna eins og hún hefði verið ef stefnandi hefði greitt fyrir hlutina og hafi honum verið það fullljóst.
Stefndi árétti einnig að jafnvel þó að um hlutaskrá félagsins eða vottorð úr slíkri hlutaskrá væri að ræða þá geti skráning Sunds ehf. ekki talist saknæm háttsemi stefnda. Í málinu liggi fyrir að Sund ehf. hafi fært fullnægjandi sönnur á eignarrétt sinn, sbr. staðfestingu á greiðslu þess fyrir hlutina. Stefnandi hafi hins vegar ekki tilkynnt stefnda um meintan rétt sinn fyrr en tveimur árum eftir hin meintu kaup og tæplega einu og hálfu ári eftir að Sund ehf. greiddi fyrir hlutina. Þá hafi hann enga sönnur fært fyrir eignarhaldi sínu enda hafi hann enga slíka sönnun. Skráning Sunds ehf. sem eiganda umræddra hluta sé því fullkomlega réttmæt háttsemi af hálfu stefnda og réttur Sunds ehf. til hlutanna sé vafalaus gagnvart félaginu. Fullyrðingum í stefnu um að Sund ehf. hafi tilkynnt Sjóvík ehf. að hlutirnir yrðu færðir aftur á nafn félagsins, sé sérstaklega mótmælt enda í ósamræmi við framburð fyrirsvarsmanns stefnanda í fyrra máli. Engin slík tilkynning hafi borist stefnda. Þó megi árétta að þó svo hefði verið þá hefði stefndi mátt breyta skráningu í samræmi við slíka tilkynningu enda hafði Sund ehf. kvittun fyrir greiðslu umræddra hluta og því sönnun á eignarrétti samkvæmt 19. gr. einkahlutafélagalaga, ólíkt stefnanda.
Í þriðja lagi sé á því byggt að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni þar sem formskilyrði laga um einkahlutafélög og samþykktir Sjóvíkur ehf. fyrir yfirfærslu eignarréttar að hlutum hafi ekki verið uppfyllt. Í 7. gr. samþykkta Sjóvíkur ehf. sé þannig gert ráð fyrir því að eigendaskipti að hlutum í félaginu öðlist ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hafi verið tilkynnt um það skriflega. Stjórnin hafi ekki fengið slíka tilkynningu.
Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis samþykkta eigi félagið, og hluthafar að því frágengnu, forkaupsrétt að fölum hlutum. Samkvæmt ákvæðinu hafi þessir aðilar tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þar sem slík tilkynning hafi aldrei borist sé ljóst að ef eigendaskipti teljist hafa átt sér stað, eigi félagið og hluthafar enn forkaupsrétt að hinum umdeildu hlutum. Í því felist jafnframt að meintur eignarréttur stefnanda sé háður því skilyrði að fallið hafi verið frá þeim forkaupsrétti. Þar til það sé gert geti stefnandi ekki gert kröfur á grundvelli eignarréttar yfir hlutunum.
Að lokum sé rétt að geta þess að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi haldið því fram í fyrra máli aðila að viðsemjandi hans hefði verið Jón Kristjánsson. Jón hafi hins vegar hvorki haft sérstakt umboð Sunds ehf. né umboð, stöðu sinnar vegna, til að selja stefnanda hluti í Sjóvík ehf., veita honum lán eða önnur hagstæð kjör samkvæmt óljósum málatilbúnaði stefnanda. Vegna menntunar og reynslu fyrirsvarsmanns stefnanda af viðskiptum sem og setu hans í stjórn Sjóvíkur ehf. og samstarfs við Sund ehf. hljóti honum að hafa verið þetta ljóst. Raunar hafi Jón ekki heldur haft formlegt umboð frá Sjóvík ehf. Á grundvelli þessa og fyrrgreindra formgalla á hinum meintu kaupum verði að sýkna stefnda.
Í fjórða lagi er krafist sýknu þar sem stefnandi beri sjálfur sök á tjóni sínu, ef eitthvert er. Hlutafélög hafi enga sjálfstæða skyldu til að fylgjast með eignarhaldsbreytingum á hlutum í þeim. Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga um einkahlutafélög beri nýjum hluthafa að tilkynna félaginu um eigendaskipti svo nafn hans verði fært á hlutaskrá. Jafnvel þó að um skyldu seljanda væri að ræða þá sé hafið yfir allan vafa að félaginu verði að berast tilkynning um eigendaskipti svo skráning, eða vanhöld þar á, geti gert það skaðabótaskylt.
Stefnanda hafi sjálfum borið að tilkynna Sjóvík ehf. um meint kaup sín á hlutum af Sundi ehf. Það sé bæði í samræmi við almenna ábyrgð kaupanda og sérreglur um hlutafjárkaup. Í málinu sé óumdeilt að hann hafi ekki gert það og ef sannað teljist að hann hafi keypt umrædda hluti af Sundi ehf. og hafi orðið fyrir tjóni vegna meintrar háttsemi stefnda, þá eigi það tjón að öllu leyti rætur sínar að rekja til þessa athafnaleysis stefnanda. Verði hér að hafa í huga að sök stefnanda verði enn ámælisverðari í ljósi þess að hann hafi ekki gert Sjóvík ehf. viðvart um hin meintu kaup við undirritun ársreiknings fyrir árið 2003 þar sem hann hafi augljóslega ekki verið á meðal hluthafa, og jafnframt þegar honum hafi verið afhent áreiðanleikakönnun á Sjóvík ehf. í desember 2004 þar sem hans hafi ekki verið getið í tæmandi talningu á hluthöfum félagsins.
Um þýðingarleysi yfirlits hlutaskrár hafi þegar verið fjallað. Hér megi þó árétta að gerð þeirra og afhending til stjórnarmanns í Sjóvík ehf. geti ekki valdið félaginu skaðabótaskyldu gagnvart honum sem einstaklingi. Trúnaðarskylda hans gagnvart félaginu sé þar yfirsterkari. Þá skapi tilgreining eða afmáning þar engan sjálfstæðan eignarrétt yfir hlutunum né aflétti nauðsyn á fullnægjandi tilkynningu til félagsins enda sé yfirlitið hvorki formleg hlutaskrá né útbúið fyrir stefnanda eða í tengslum við hin meintu kaup.
Í fimmta lagi sé á því byggt að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Stefnandi hafi hvorki tilkynnt um hin meintu kaup til félagsins né hafi hann óskað eftir formlegri staðfestingu á eignarhlut sínum, eins og segi í stefnu, fyrr en rúmlega tveimur árum eftir að þau eigi að hafa átt sér stað. Þetta tómlæti stefnanda verði enn ámælisverðara þegar haft sé í huga að honum hafi, a.m.k. tvívegis, verið gert skriflega viðvart að hann væri ekki hluthafi, sbr. ársreikning félagsins árið 2003 og áreiðanleikakönnun á félaginu árið 2004. Hafi félagið ekki mátt búast við því að hann gerði slíkar kröfur eftir það.
Stefndi mótmælir að lokum öðru því í málatilbúnaði stefnanda sem er í andstöðu við hagsmuni hans. Áskilnaði um skaðabótakröfur og grundvelli þeirra sé sérstaklega mótmælt. Þá sé athygli vakin á því að stefnandi færir engin rök fyrir því af hverju stefndi beri ábyrgð á háttsemi Sjóvíkur ehf. eða mögulegum grundvelli fyrir yfirfærslu ábyrgðar.
Krafa stefnda um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Sérstaklega sé þess krafist að tekið verði tillit til þess að stefnandi beri þetta mál öðru sinni undir dómstóla en stefndi hafi fengið kostnað vegna málsvarnar sinnar í fyrra máli ekki bættan.
Niðurstaða
Guðmundur Hjaltason, eigandi og stjórnarformaður stefnanda, heldur því fram í máli þessu að hann hafi, fyrir hönd stefnanda, keypt hlutabréf í félaginu Sjóvík ehf. Hafi það verið í apríl 2003, í kjölfar hlutafjáraukningar í Sjóvík ehf. Bar Guðmundur Hjaltason fyrir dómi að hann hefði keypt hlutabréfin af Sundi ehf. og hafi viðsemjandi sinn verið Jón Kristjánsson, stjórnarformaður félagsins. Kveðst hann hafa keypt hlutafé að nafnvirði 22.500 krónur er hafi tekið til 0,90% af heildarhlutafé félagsins. Bar stefnandi fyrir dómi að Jón hefði boðið honum að kaupa hlutaféð gegn því að hann greiddi kaupverðið en hann hafi mátt hafa sína hentisemi við greiðslu þess. Jón hafi á umræddum tíma einnig verið stjórnarformaður Sjóvíkur ehf. Taldi Guðmundur að Jón hefði vitað að hann hefði ekki getu til þess að kaupa hlutafé og hafi Jón boðið þetta af vinsemd í hans garð. Kvaðst stefnandi hafa unnið ýmis störf fyrir Sjóvík ehf. sem ekki hafi komið greiðsla fyrir og hafi hann litið á hlutinn í Sjóvík ehf. sem ígildi launa vegna þeirra starfa.
Jón Kristjánsson bar fyrir dómi um meint hlutabréfakaup stefnanda að vorið 2003 hafi nýir hluthafar komið að Sjóvík ehf., þ.á m. Serafin shipping. Guðmundur Hjaltason hafi tekið sæti í stjórn Sjóvíkur ehf. fyrir hönd þess félags. Á þessum tíma hafi verið rætt um að Guðmundur fengi keypt hlutabréf í félaginu. Rætt hafi verið um að aðrir hluthafar myndu fjármagna þau kaup hans en það hafi ekki verið samþykkt. Kvaðst Jón hafa tilkynnt Guðmundi það. Þá hafi Guðmundur óskað eftir að gefa út reikning vegna stjórnarstarfa sinna hjá Sjóvík ehf. og fá hlutafé í staðinn. Það hafi heldur ekki verið samþykkt. Stefnanda hafi staðið til boða að kaupa hlutafé en ágreiningur hafi verið um hvernig greiða ætti fyrir það og aldrei hafi náðst samkomulag um það.
Jón kvað Sund ehf. hafa greitt Sjóvík ehf. fyrir 22.500 hluti vegna þess að Sund ehf. hafi verið í ábyrgð fyrir félagið hjá Búnaðarbankanum. Hlutafjáraukning hafði orðið og það hafi þurft að greiða fyrir þá hluti.
Aðspurður um yfirlýsingu Ellerts Vigfússonar og Jóns Kristjánssonar, dags. 14. nóvember 2003, á dskj. nr. 4, yfir eigendur hluta í Sjóvík ehf., kvað Jón þennan lista hafa verið sendan til Sam AM Park. Skyldi listinn sýna hvernig staðan yrði eftir breytingar á hlutafjáreign. Stefnandi hafi verið tilgreindur sem hluthafi þar sem til stóð að hann keypti hlut í félagi. Hann hafi bara aldrei greitt fyrir þann hlut. Guðmundi hafi staðið til boða að kaupa en samkomulag ekki náðst um greiðsluna. Hafi þessar þreifingar tekið nokkra mánuði eða fram að áramótum 2003/2004. Guðmundur hafi ekki verið búinn að greiða fyrir áramót 2003/2004. Þá hafi verið endanlega ljóst að Guðmundur myndi ekki greiða fyrir hlutaféð og hafi Sund ehf. greitt fyrir umræddan hlut. Það hafi þurft að ljúka bókunum og hlutafjárloforðum og þessu hafi verið lokað með samþykki flestra.
Sveinlaugur Kristjánsson, fjármálastjóri Sjóvíkur ehf., sem er dótturfyrirtæki stefnda í málinu, bar fyrir dómi að Serafin shipping hefði komið inn sem hlutafjáreigandi í hlutafjáraukningunni í október 2002. Í desember 2003 hafi Guðmundur Hjaltason tekið sæti í stjórn Sjóvíkur ehf. sem fulltrúi Serafin shipping. Hafi verið samkomulag um það. Bar Sveinlaugur að hlutafjárskrá félagsins væri í hans umsjá. Hann hafi enga tilkynningu fengið um þessi meintu kaup stefnanda. Hann hafi hins vegar vitað að það stæði til að stefnandi keypti hlut í félaginu. Sam Park hafi óskaði eftir að fá staðfestingu á hlutafjáreign sinni. Honum hafi verið sendur listi yfir hluthafa, sem dags. var 14. nóvember 2003. Sveinlaugur kvaðst ekki hafa viljað hafa ógreitt hlutafé á listanum og því hafi nafn stefnanda verið fært á listann. Hlutafé sé ekki endanlega skráð fyrr en greitt sé fyrir það. Alltaf hafi verið talað um að Guðmundur yrði hluthafi. Guðmundur hafi beðið sig um að senda sér listann yfir hluthafa og hafi hann sent honum listann frá 14. nóvember 2003. Guðmundur hafi hins vegar ekki verið að biðja um staðfestingu á hlutafjáreign sinni. Sveinlaugur kvað Guðmund ekki hafa undirritað hlutafjárloforð en búið hafi verið að eyrnamerkja honum hlutinn.
Ellert Vigfússon, framkvæmdastjóri Sjóvíkur, bar fyrir dómi að listi yfir hluthafa á dskj. nr. 4 sé ekki vottorð úr hlutaskrá félagsins heldur sé það minnisblað sem Sam Parker hafi verið sent um þær breytingar sem til hafi staðið að gera. Skjalið hafi ekki verið yfirlýsing um að stefnandi væri eigandi. Sam Park hafi vitað að til stóð að Guðmundur Hjaltason keypti hlut í félaginu og vildi hafa hann á listanum. Guðmundur hafi hins vegar ekki gengið frá kaupum á hlutabréfum. Ellert kvað sér fyrst hafa orðið ljóst þegar málarekstur á hendur stefnda hófst að Guðmundur teldi sig eiga hlut í félaginu. Ekki kvaðst Ellert kannast við samkomulag Guðmundar og Jóns Kristjánssonar um kaup á hlut í félaginu. Kvað hann skilyrði þess að eiga hlut í félaginu að greiða fyrir hann.
Páll Þór Magnússon, framkvæmdastjóri Sunds ehf., átti sæti í stjórn Sjóvíkur ehf. Bar hann að stefnandi hefði ekki samið við Sund ehf. um kaup á hlutabréfum í Sjóvík ehf. með ótímabundnum greiðslufresti. Hann kvað það hins vegar hafa verið í umræðunni að Guðmundur keypti hlutabréf í félaginu en hann hafi ekki keypt bréfin. Hafi honum verið kunnugt að rætt hafi verið um að eigendur Sunds ehf. og hluthafar í Sjóvík ehf. myndu aðstoða hann við kaupin en þeir hafi ekki viljað fjárfesta í þessum viðskiptum. Bar Páll að Guðmundur Hjaltason hefði setið í stjórn Sjóvíkur ehf. fyrir Serafin shipping. Mál Guðmundar hefði aldrei fengið formlega afgreiðslu. Kvað hann oft hafa verið ýtt á eftir greiðslum frá Guðmundi.
Kröfu sína í málinu, um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart honum, byggir stefnandi á því að hann hafi í apríl 2003 eignast hlut í Sjóvík ehf. og hafi stefndi með ólögmætum hætti afmáð eignarhlut hans úr hlutaskrá Sjóvíkur ehf. á tímabilinu frá 14. nóvember 2003 til 4. apríl 2005.
Stefnandi hefur engin skrifleg gögn lagt fram í málinu til staðfestingar á meintum samningi sínum við Sund ehf. um kaup á hlutabréfum í Sjóvík ehf. Ekki liggur fyrir að hann hafi undirritað hlutafjárloforð vegna kaupa á hlut í Sjóvík ehf. Stefnandi heldur því fram að hann hafi gert samning við Jón Kristjánsson, stjórnarformann Sunds ehf., um kaupin. Eins og rakið er hér að framan bar Jón fyrir dómi að stefnanda hefði staðið til boða að kaupa hlutafé í Sjóvík en samkomulag hafi ekki náðst um kaupin og hafi stefnandi ekki greitt hlutaféð og er það í raun óumdeilt. Engin gögn liggja frammi um meint vinnuframlag Guðmundar Hjaltasonar í þágu Sjóvíkur. Er með öllu ósannað að stefnandi hafi greitt kaupverð hlutabréfanna með vinnuframlagi sínu í þágu Sjóvíkur ehf.
Framburður Jóns Kristjánssonar, um að kaupsamningur um hlutafé hafi ekki komist á milli stefnanda og Sunds ehf., fær stuðning í framburði Sveinlaugs Kristjánssonar, Ellerts Vigfússonar og Páls Þórs Magnússonar. Með hliðsjón af því, svo og öðru sem fram hefur komið í málinu, telst ósannað að stefnandi hafi orðið eigandi að hlutabréfum í Sjóvík ehf. með samningi við Sund ehf. svo sem haldið er fram í stefnu.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi verið tilgreindur eigandi 0.90% hlutar í Sjóvík ehf. í hlutaskrá félagsins. Vísar stefnandi í því sambandi til yfirlýsingar, dags. 14. nóvember 2003, sem undirrituð er af Ellert Vigfússyni og Jóni Kristjánssyni. Þar segir að skjalið sé staðfestur listi yfir hluthafa Sjóvíkur ehf. Eins og rakið er hér að framan mótmælir Ellert Vigfússon, framkvæmdastjóri Sjóvíkur ehf., því að skjalið sé vottorð úr hlutskrá félagsins en segir það minnisblað sem Sam Parker, væntanlegum hluthafa, hafi verið sent um þær breytingar sem til stóð að yrðu á hlutafjáreign félagsins. Skjalið hafi ekki verið yfirlýsing um að stefnandi væri eigandi.
Þrátt fyrir ótvírætt orðalag skjalsins ber það ekki með sér að vera vottorð úr hlutaskrá Sjóvíkur ehf. Þá uppfyllir það ekki formskilyrði 19. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 um slíkar skrár. Þá liggur fyrir að þeir sem undirrituðu skjalið litu ekki á það sem slíkt, sbr. framburð þeirra fyrir dómi. Telst ósannað að stefnandi hafi verið skráður eigandi í Sjóvík ehf. Þá er ekki fallist á að stefnandi geti byggt eignarrétt sinn á hlutafé í Sjóvík ehf. á þessu skjali enda mátti honum vera ljóst að kaupsamningur við Sund ehf. hafði ekki komist á og að hann varð ekki löglegur eigandi hlutar í Sjóvík ehf., sbr. það sem áður er rakið.
Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á og ber að sýkna stefnda af kröfum hans í málinu.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 700.000 krónur
Kristjana Jónsdóttir kvað upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Icelandic Group hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Steinagerðis ehf. Stefnandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað.