Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 19. febrúar 2015. |
|
Nr. 18/2014. |
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Daníel Heiðari Hallgrímssyni (Guðmundur Ágústsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Aðfinnslur.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa slegið A í andlitið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi nefbrotnaði. Hins vegar var talið ósannað að X hefði kastað bjórglasi í höfuð B og var hann því sýknaður af ákæru fyrir brot gegn 2. mgr. sama ákvæðis. Var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og refsingin bundin skilorði í tvö ár. Í dómi Hæstaréttar var fundið að drætti á rannsókn málsins og því að liðlega ellefu mánuðir liðu frá því að áfrýjunarstefna var gefin út þar til málsgögnin voru afhent Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af því broti sem honum er gefið að sök í 2. lið ákæru og að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði.
I
Ákærða er gefið að sök í 1. lið ákæru að hafa veist að A með því að slá hann tveimur til þremur höggum með krepptum hnefa í andlitið á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur 9. janúar 2011. Ákærði hefur játað að hafa greitt brotaþola eitt högg í andlitið með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru en neitar að hafa slegið hann oftar. Ef frá er talið vætti B kom fram í skýrslum þeirra sem um þetta gátu borið að ákærði hefði aðeins slegið brotaþola eitt högg í andlitið. Að því gættu er ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi slegið brotaþola oftar en einu sinni. Ákærði verður því sakfelldur fyrir brotið í samræmi við játningu sína en það er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
II
Í 2. lið ákæru er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa skömmu eftir það atvik er greinir í 1. lið ákærunnar á sama skemmtistað kastað bjórglasi í höfuðið á C. Ákærði neitar sök hvað varðar þennan lið ákærunnar.
Í frumskýrslu lögreglu, sem rituð var í kjölfar atvika, var haft eftir D, sem var dyravörður á skemmtistaðnum, að árásarmaðurinn hefði slegið annan brotaþola í andlitið og svo í beinu framhaldi slegið hinn brotaþola með glasi í höfuðið. Aftur á móti lýsti vitnið atvikum ekki þannig hvorki við skýrslutöku hjá lögreglu né fyrir dómi. Að því gættu hafa ummæli sem höfð eru eftir vitninu í frumskýrslu takmarkað sönnunargildi.
Andspænis eindreginni neitun ákærða stendur vætti B sem bar fyrir dómi að ákærði hefði, eftir að hafa slegið annan brotaþolann, kastað bjórglasi sem hafnað hefði í höfði hins brotaþolans. Ekkert annað vitni sem kom fyrir dóm gat borið um að ákærði hefði verið þar að verki. Þótt Hæstiréttur geti ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður því slegið föstu að ekki sé komin fram næg sönnun fyrir sekt ákærða svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Verður ákærði því sýknaður af þessum ákærulið.
III
Ákærða verður gert að sæta þriggja mánaða fangelsi fyrir það brot sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, en rétt er að skilorðsbinda refsinguna á þann veg sem í dómsorði greinir.
Ákærða verður gert að greiða helming sakarkostnaðar í héraði eins og hann var þar ákveðinn, en að öðru leyti fellur sá kostnaður á ríkissjóð.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og í dómsorði segir.
Það athugast að þótt málsatvik væru einföld lauk rannsókn málsins ekki fyrr en í október 2012. Ákæra var síðan gefin út 27. maí 2013. Þá bárust Hæstarétti málsgögn í nóvember 2014, en þá voru liðnir liðlega ellefu mánuðir frá því að áfrýjunarstefna var gefin út. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á þessum ítrekaða drætti á meðferð málsins og er hann aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Ákærði, Daníel Heiðar Hallgrímsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði 219.300 krónur í sakarkostnað í héraði.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember sl. er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru dagsettri 27. maí 2013, á hendur Daníel Heiðari Hallgrímssyni, kennitala [...],[...],[...], fyrir eftirfarandi líkamsárásir framdar á skemmtistaðnum English Pub við Austurstræti í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 9. janúar 2011:
1. Fyrir líkamsárás, með því að hafa veist að A með því að slá hann tveimur til þremur höggum með krepptum hnefa í andlitið, með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði, fékk skurð á nefhrygginn og þurfti að undirgangast aðgerð til að rétta nefið.
2. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa skömmu eftir atvik í 1. ákærulið kastað bjórglasi í höfuðið á C, með þeim afleiðingum að C hlaut fimm til sex cm langan skurð á hvirfli höfuðsins sem sauma þurfti saman með fimm sporum.
Er talið að brot í 1. lið ákæru varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en að brot samkvæmt 2. lið ákæru varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði játar sök skv. 1. tl. ákæru fyrir utan að hann kveðst einungis hafa veitt brotaþola eitt hnefahögg með krepptum hnefa. Ákærði neitar sök skv. 2. tl. ákæru. Af hálfu verjanda ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og að sakarkostaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt sunnudagsins 9. janúar 2011 fékk lögregla þann dag kl. 03.15 tilkynningu um líkamsárás á skemmtistaðnum English Pub við Austurstræti í Reykjavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu gaf E sig á tal við lögreglu og gerði grein fyrir því að vinur hans, C, brotaþoli skv. 2. tl. ákæru, hefði verið sleginn með glerglasi. Lýsti E árásaraðila sem lágvöxnum manni, með skegghýjung og þéttvöxnum. Fram kemur að rætt hafi verið við dyravörð, en þá hafi komið í ljós að um tvær líkamsárásir væri að ræða, þar sem árásarmaðurinn væri einn og sá sami. Lýsti dyravörður árásarmanni sem lágvöxnum og þéttum manni með skegghýjung. Væri hann klæddur í svartan bol með hvítum stöfum, brúnar Levis buxur og hvíta skó. Hafi dyravörðurinn, D, borið að árásarmaðurinn hafi farið inn á skemmtistaðinn Hvítu Perluna, við hlið skemmtistaðarins English Pub. D hafi lýst atvikum þannig að árásarmaðurinn hafi slegið A, brotaþola skv. 1. tl. ákæru, í andlitið og í beinu framhaldi slegið brotaþola skv. 2. tl. með glasi í höfuðið. Myndi D þekkja árásarmanninn í sjón. Fram kemur að rætt hafi verið við báða brotaþola. Eins hafi verið rætt við B, sem gefið hafi sig fram á vettvangi. Hafi hún lýst því að hún hafi orðið vitni að árásinni og að hún treysti sér til að bera kennsl á árásarmanninn. Sjúkraflutningamenn hafi komið á vettvang til að huga að brotaþolum. Lögreglumenn hafi farið inn á skemmtistaðinn Hvítu Perluna. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að D hafi farið með lögreglu til að bera kennsl á árásarmanninn. Að ábendingu D hafi lögregla handtekið Daníel Heiðar Hallgrímsson, ákærða í máli þessu. Hafi hann verið klæddur í hvíta skó, brúnar Levis buxur og svartan bol með hvítum stöfum. Sjá hafi mátt blóðkám framan á bol ákærða, auk þess sem sjá hafi mátt sár á hægri hnúa, líklega eftir högg. Ákærði hafi verið handtekinn í þágu rannsóknar málsins.
F, sérfræðingur á bráða- og göngudeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur ritað læknisvottorð vegna komu beggja brotaþola á slysadeild aðfaranótt sunnudagsins 9. janúar 2011. Í vottorði vegna brotaþola skv. 1. tl. ákæru kemur m.a. fram að við skoðun hafi brotaþoli greinilega verið nefbrotinn. Hafi hann verið með sár vinstra megin á nefi og hafi nefið verið útflatt til hægri og vinstri nös fallin saman. Hafi nefið verið rétt að hluta eftir deyfingu. Hafi hann komið á háls-, nef og eyrnadeild 14. janúar 2011 og þá farið í aðgerð þar sem nefið hafi verið rétt betur. Í vottorði læknisins vegna brotaþola skv. 2. tl. ákæru kemur m.a. fram að við skoðun hafi verið nokkuð djúpur skurður á hvirfli höfuðs um 5 til 6 cm langur. Sárabarmar hafi verið deyfðir og 5 spor verið saumuð í höfuðleður.
Brotaþoli skv. 1. tl. ákæru mætti á lögreglustöð 10. janúar 2011 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Brotaþoli skv. 2. tl. ákæru mætti á lögreglustöð á sama degi og lagði sömuleiðis fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás.
Ákærði hefur lýst atvikum þannig að hann hafi umrætt sinn staðið í tröppum innandyra á skemmtistaðnum English Pub, beint fyrir framan barinn, nálægt útgangi er snúi að Austurvelli. Mikil mannþröng hafi verið á staðnum og gestir verið að bíða eftir að komast á barinn. Af þessum sökum hafi verið um mikinn troðning að ræða. Er ákærði hafi verið að ræða við gamlan félaga hafi hann fundið að einhver hafi byrjað að ýta ítrekað við honum. Hafi viðkomandi haldið uppteknum hætti um stund þrátt fyrir að ákærði hafi beðið hann um að hætta og færa sig. Eftir því sem ákærði hafi beðið oftar um að hann léti af þessari háttsemi hafi háttsemin orðið grófari. Að endingu hafi ákærði tekið viðkomandi, sem þá hafi staðið andspænis honum, ýtt honum um 2 metra afturábak í gegnum þvöguna. Við það hafi maðurinn dottið aftur fyrir sig á gólfið. Hafi ákærði kýlt manninn einu sinni í andlitið þar sem maðurinn lá á gólfinu. Atvikið hafi átt sér stað beint á móti útihurð staðarins Austurvallar megin, í skoti nálægt tröppum niður að salernisgangi staðarins. Hafi dyravörður komið fljótlega þar að og leitt ákærða í gegnum troðning af fólki. Ákærði kvaðst hafa séð blóð drjúpa úr nefi brotaþola og kæmi til greina að við hnefahöggið hafi brotaþoli nefbrotnað og fengið skurð á nefhrygginn líkt og fram komi í læknisvottorði. Hvað 2. lið ákæru varðar kvaðst ákærði ekkert geta sagt um það atvik né um glasið sem í ákæru greinir. Ákærði kvaðst sjálfur ekki hafa haldið á glasi inni á staðnum og engu slíku hent.
A hefur lýst atvikum þannig að umrætt sinn hafi hann verið á ferð í miðbæ Reykjavíkur. Með honum í för hafi verð B. Þau hafi farið inn á skemmtistaðinn English Pub við Austurstræti. Inni á staðnum hafi verið mikið af fólki. Þau hafi gengið í gegnum þvögu af fólki er staðið hafi fyrir framan bar á veitingastaðnum. Sökum troðnings hafi þau af og til rekist utan í nærstadda. A kvaðst meðal annars hafa rekist utan í mann sem staðið hafi fyrir framan hann. Sá hafi snúið sér við og hrint A til baka. Skömmu síðar hafi A aftur rekist utan í manninn. Sá hafi brugðist illa við og hrint A á ný aftur á bak. Maðurinn hafi slegið A fast högg í hnakkann og er A hafi snúið sér við hafi hann fyrirvaralaust fengið hnefahögg frá manninum sem komið hafi í andlit A. Við höggið hafi Avankast lítillega, án þess þó að missa meðvitund. Við þetta hafi töluverð læti orðið inni á staðnum og hafi A m.a. séð að einhverju hafi verið kastað. Ekki hafi hann séð hver hafi kastað þeim hlut eða hvar hann hafi lent. Hafi þetta verið í beinu framhaldi af því höggi er A hafi fengið í andlitið. Er borið var undir A að B, er samferða var A umrætt sinn, hafi staðhæft að árásarmaðurinn hafi slegið A ítrekað í andlitið kvað A það geta staðist. Hann hafi vankast þannig að vel geti verið að höggin í andlitið hafi verið fleiri en eitt. A kvaðst hafa farið í tvær aðgerðir á nefi í kjölfar nefbrots sem hann hafi fengið við árásina. Búi hann við varanlega skekkju á nefi. Varanlegar afleiðingar árásarinnar séu einnig fólgnar í því að slímhúð myndist ekki lengur í nefinu. Leiði það til blæðingar er hann búi stöðugt við. Hafi sérfræðingar staðfest að engin varanleg lausn sé til staðar við ónýtri slímhúðinni.
C kvaðst hafa farið á skemmtistaðinn English Pub við Austurstræti umrædda nótt. Mikill troðningur hafi verið við barinn inni á staðnum. Einhver hafi ýtt á bak C og C beðið viðkomandi um að slaka á. Hafi hann snúið sér við og fengið mikið högg í höfuðið. Um leið hafi hann orðið var við blóð sem lekið hafi úr höfði hans. Um leið hafi hann séð þann sem kastað hafi glasi í hann, en sá hafi sett sig í ,,stellingar“. Chafi í framhaldi farið að bar veitingastaðarins til að leita eftir einhverju til að þurrka blóðið með. Dyravörður á staðnum hafi aðstoðað C og farið með hann inn á eldhús staðarins. Þar hafi verið reynt að stöðva blæðinguna. Skömmu síðar hafi lögregla og sjúkralið komið á staðinn. Á leið á slysadeild hafi C rætt við annan slasaðan í sjúkrabílnum en af þeim umræðum hafi þeir getað ályktað að árásarmaðurinn væri einn og sá hinn sami. Árásarmaðurinn hafi verið þéttvaxinn og í stuttermabol.
B kvaðst hafa verið samferða A þessa nótt. Mikill troðningur hafi verið inni á skemmtistaðnum. Við það hafi þau kastast til í þvögu fólks. Hafi A skollið á manni sem hrint hafi A til baka. Sá hafi í framhaldi lamið A hnefahögg sem komið hafi í andlit A. Hafi höggin verið tvö. Við síðara höggið hafi A fallið niður. Högg árásarmannsins hafi verið þung og nef A flast út við þau. Í beinu framhaldi þessa hafi árásarmaðurinn tekið glas sem hafi verið nánast tómt. Hafi hann skvett restinni úr því í andlit B og því næst kastað því frá sér. Hafi virst eins og árásarmaðurinn henti glasinu án þess að miða á einhvern sérstakan. Glasið hafi hins vegar hafnað í andliti manns sem staðið hafi í um 2ja til 3ja metra fjarlægð frá árásarmanninum. Árásarmaðurinn hafi verið fremur lágvaxinn, en sterklega vaxinn. Er borið var undir B að hún hafi í lögregluskýrslu talið högg árásarmannsins hafa verið 3 til 4 kvað hún það ekki útilokað. B kvaðst hafa verið í matarboði þetta kvöld og hafa drukkið þar áfengi. Hún hafi hins vegar verið á leið heim er þarna var komið og ekki verið mikið ölvuð.
D kvaðst hafa starfað sem dyravörður á English Pub þetta kvöld. Hafi hann starfað sem dyravörður á staðnum lengi og oft orðið vitni að átökum inni á staðnum. Aðgreindi hann því ekki einstök tilvik vel. Ætti það einnig við um atvik þessa máls. Er lögregla hafi komið á staðinn hafi hann greint þeim frá atvikum málsins. Væri sú lýsing er hann þar hafi gefið rétt af atvikum máls. Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir D að árásarmaðurinn hafi slegið A í andlitið og í beinu framhaldi slegið C með glasi í höfuðið.
E kvaðst hafa verið að skemmta sér á English Pub þessa nótt og verið samferða C. Þröngt hafi verið fyrir framan bar staðarins um nóttina. Hafi E staðið fyrir aftan C. Hafi hann séð að eitthvað hafi komið fljúgandi og lent í höfði C. C hafi í framhaldi gripið um höfuð sér og farið fyrir aftan bar veitingastaðarins þar sem hugað hafi verið að honum. Staðfesti E að hafa farið í myndbendingu hjá lögreglu vegna málsins þar sem fyrir hann hafi verið lagt að bera kennsl á árásarmanninn.
G kvaðst hafa starfað sem dyravörður á English Pub þessa nótt. Kvaðst hann hafa þekkt til ákærða, þar sem þeir hafi æft saman. Hafi G séð ákærða slá A, en á þeim tíma hafi G staðið við hlið D dyravarðar. Hafi D beðið G um að fara og sjá um ákærða, þar sem þeir tveir þekktust. Hafi G skammað ákærða, um leið og hann hafi leitt hann út af staðnum. G kvaðst einungis hafa séð ákærða slá A einu hnefahöggi. G kvaðst þess fullviss að ákærði hafi ekki verið með glas í hendi á þessum tíma og hafi ákærði ekki hent neinu glasi frá sér.
H læknir staðfesti læknisvottorð vegna brotaþola í málinu.
Lögreglumennirnir I, J, H, L og M staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Í skýrslu M kom fram að lögreglu hafi borist upplýsingar um að vera kynni að upptökur væru til úr eftirlitsmyndavélakerfi inni á skemmtistaðnum. Hafi M haft samband við rekstraraðila staðarins til að fá myndskeið í hendi. Hafi M ítrekað gengið eftir þessu. Þeim tilmælum hafi hins vegar ekki verið sinnt. Að endingu hafi of langur tími verið liðinn frá atvikinu og búið að taka yfir mynddisk sem notaður hafi verið. Upptaka hafi því aldrei komist í hendur lögreglu. Erfiðlega hafi gengið að ná af vitnum í málinu og þau illa sinnt boðunum um að mæta. Þá hafi treglega gengið að fá ákærða til að koma í myndatöku vegna myndflettingar. Allt þetta hafi tafið rannsókn málsins.
Niðurstaða:
1. tl. ákæru.
Ákærði játar sök samkvæmt 1. tl. ákæru. Kveðst hann þó ekki hafa slegið brotaþola nema einu sinni í andlitið. Með hliðsjón af framburði B, sem studdur er framburði brotaþola sjálfs, telur dómurinn hins vegar sannað að ákærði hafi slegið brotaþola fleiri en eitt högg í andlitið með krepptum hnefa. Áverkar brotaþola samkvæmt ákæru eru í samræmi við fyrirliggjandi læknisvottorð í málinu. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt 1. tl. ákæru og er háttsemi ákærða þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
2. tl. ákæru.
Ákærði neitar sök samkvæmt 2. tl. ákæru. Að því er þennan hluta málsins varðar er til þess að líta að B hefur lýst því með skilmerkilegum hætti að ákærði hafi lamið brotaþola samkvæmt 1. tl. ákæru í andlitið með krepptum hnefa. Ákærði hafi í beinu framhaldi gripið glas í hendi sem hafi verið honum nærri, skvett úr því í andlit B og í framhaldi hent glasinu stefnulaust frá sér. Hafi glasið hafnað í höfði drengs sem staðið hafi í um 2ja til 3ja metra fjarlægð. Þá er til þess að líta að dyravörður á staðnum, D, staðfesti fyrir dómi að framburður sem eftir honum væri hafður í frumskýrslu lögreglu væri réttur. Lýsti hann því fyrir lögreglumönnum á vettvangi að árásarmaðurinn hafi slegið fyrri brotaþola í andlitið og í beinu framhaldi slegið annan mann með glasi í höfuð. Þegar til þessara atriða er litið er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi, í beinu framhaldi af árás samkvæmt 1. tl. ákæru, kastað bjórglasi stefnulaust frá sér, sem hafnað hafi í höfði brotaþola, með þeim afleiðingum að brotaþoli hafi hlotið áverka samkvæmt ákæru. Telur dómurinn með þessu liggja fyrir að ákærði hafi ekki fyrirfram ætlað að kasta glasi í höfuð brotaþola. Hins vegar mátti ákærði sjá það fyrir, inni á mannmörgum skemmtistaðnum, að slíkt framferði myndi mjög líklega hafa slíkar afleiðingar í för með sér. Sú háttsemi að kasta glerglasi stefnulaust frá sér inni á mannmörgum skemmtistað er sérstaklega hættuleg líkamsárás. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt 2. tl. ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í júní 1984. Hann hefur ekki áður sætt refsingu, svo kunnugt sé. Háttsemi ákærða hafði í för með sér alvarlegar og varanlegar afleiðingar. Þá eru árásirnar tvær. Með hliðsjón af háttsemi ákærða er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Með hliðsjón af alverleika brotsins eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvalds sótti mál þetta Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Daníel Heiðar Hallgrímsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði greiði 438.600 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 376.500 krónur.