Hæstiréttur íslands
Mál nr. 57/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
|
|
Föstudaginn 8. febrúar 2002. |
|
Nr. 57/2002. |
Samtök um kvennaathvarf(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) gegn Auði Einarsdóttur Ágústi Einarssyni Elínu Einarsdóttur Elísabet Einarsdóttur dánarbúi Guðríðar Einarsdóttur Helgu Einarsdóttur Ólöfu Einarsdóttur dánarbúi Sigurðar Einarssonar Sólveigu Einarsdóttur og Svövu Einarsdóttur (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Útburðargerð.
A o.fl. afsöluðu fasteigninni X til SJ á árinu 1981, en áskildu sér forkaupsrétt að eigninni. Á árinu 2000 gerði SJ kaupsamning um eignina við SK án þess að bjóða A o.fl. að neyta forkaupsréttar síns. Af þessu tilefni höfðuðu A o.fl. mál til viðurkenningar á forkaupsréttinum. Með dómi Hæstaréttar 20. september 2001 í máli nr. 154/2001 var fallist á kröfu A o.fl. Eftir að A o.fl. höfðu fengið afsal fyrir fasteigninni kröfðust þau þess að SK yrði með beinni aðfarargerð borinn út úr fasteigninni. SK mótmælti kröfunni með vísan til þess annars vegar að A o.fl. hefðu lýst því yfir fyrir dómi að SK yrði veittur sanngjarn frestur til að finna sér nýtt húsnæði og hins vegar að ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 stæðu í vegi fyrir kröfunni. Talið var að fyrrgreind yfirlýsing A o.fl. gæti ekki að efni til hafa falið í sér skuldbindingu um að SK fengi að halda umráðum fasteignarinnar lengur en þá tvo mánuði, sem liðu frá uppsögu dóms Hæstaréttar til þess að A o.fl. kröfðust heimildar til að fá SK borinn út af henni. Væri því óhjákvæmilegt að líta svo á að SK hefðist nú við í húsi A o.fl., sem SK ætti engan rétt til, í ólofi A o.fl., sbr. ákvæði VI. bókar 14. kapítula 6. gr. norsku laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687. Var því fallist á að SK yrði borinn út af fasteiginni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2002, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að þeim yrði heimilað að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð út úr fasteigninni Bárugötu 2 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um framangreinda aðfarargerð verði hafnað og þeim gert óskipt að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að þeim verði dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði keypti sóknaraðili fasteignina að Bárugötu 2 af klausturreglu St. Jósefssystra með samningi 8. nóvember 2000. Varnaraðilar, sem töldu gengið fram hjá forkaupsrétti sínum að eigninni með þessum samningi, höfðuðu af því tilefni mál, sem leitt var til lykta með dómi Hæstaréttar 20. september 2001. Í þeim dómi var forkaupsréttur varnaraðila viðurkenndur og seljanda eignarinnar gert að selja þeim hana og afsala með þeim kjörum, sem í samningnum greindi. Því til samræmis fengu varnaraðilar afsal fyrir fasteigninni 7. nóvember 2001. Í máli þessu leita þau heimildar til að fá sóknaraðila vikið af eigninni með útburðargerð, en kröfu um hana báru þau upp fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 21. nóvember 2001.
Í hinum kærða úrskurði eru tekin upp orðrétt ummæli úr fyrrgreindum dómi Hæstaréttar varðandi yfirlýsingu, sem fram kom af hendi varnaraðila við flutning þess máls, um að þau myndu veita sóknaraðila sanngjarnan frest til að finna sér nýtt húsnæði ef kröfur þeirra yrðu teknar þar til greina. Ekki verður litið svo á að yfirlýsing með svo óákveðnu orðalagi geti að efni til hafa falið í sér skuldbindingu um að sóknaraðili fengi að halda umráðum fasteignarinnar lengur en þá tvo mánuði, sem liðu frá uppsögu dóms Hæstaréttar fram til þess að varnaraðilar kröfðust heimildar til að fá sóknaraðila borinn út úr henni. Sóknaraðili öðlaðist rétt til að hafast við á eigninni með kaupum hennar. Þegar þau kaup urðu að engu vegna þeirra atvika, sem áður greinir, var um leið liðinn undir lok réttur sóknaraðila til umráða yfir henni án heimildar varnaraðila. Vera hans á eigninni á því tímamarki gat ekki ein og sér skapað honum rétt til að halda áfram umráðum hennar, hvorki svo sem húsaleigusamningur hefði verið gerður um hana né á öðrum grunni. Er því óhjákvæmilegt að líta svo á að sóknaraðili hafist nú við í húsi varnaraðila, sem hann á engan rétt til, í ólofi eiganda, sbr. ákvæði VI. bókar 14. kapítula 6. gr. norsku laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 30. nóvember sl.
Gerðarbeiðendur eru Auður Einarsdóttir, kt. 121262-5929, Vesturbrún 26, Reykjavík, Ágúst Einarsson, kt.110152-3969, Fornuströnd 19, Seltjarnarnesi, Ólöf Einarsdóttir, kt. 280856-3719, 865 Pine Flat Road, Santa Cruz, CA, Bandaríkjunum, Sólveig Einarsdóttir, kt. 090859-5369, Aragötu 10, Reykjavík, Guðbjörg M. Matthíasdóttir, kt. 140352-3499, f.h. dánarbús Sigurðar Einarssonar, Birkihlíð 17, Vestmannaeyjum, Elísabet Einarsdóttir, kt. 250849-2309, Hvassaleiti 87, Reykjavík, Svava Einarsdóttir, kt. 301053-2589, Nesvegi 82, Reykjavík, Helga Einarsdóttir, kt. 140558-6649, Álagranda 24, Reykjavík, Elín Einarsdóttir, kt. 310564-7969, Ægisíðu 103, Reykjavík og dánarbú Guðríðar Einarsdóttur, kt. 230648-4179, Bjarmalandi 8, Reykjavík.
Gerðarþoli er Samtök um kvennaathvarf, kt. 410782-0229, Austurstræti 6, Reykjavík.
Dómkröfur gerðarbeiðenda eru þær að úrskurðað verði um að Samtök um kvennaathvarf verði ásamt öllu sem þeim tilheyrir borið út úr fasteigninni Bárugötu 2, Reykjavík, með beinni aðfarargerð. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins, auk þess að fjárnám verði heimilað hjá gerðarþola fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Dómkröfur gerðarþola eru þær að kröfum gerðarbeiðenda verði synjað og að þeim verði gert að greiða gerðarþola málskostnað að skaðlausu. Þá er þess krafist, verði dómurinn við kröfu gerðarbeiðenda um útburð, að kveðið verði svo á í úrskurðinum, að málskot til Hæstaréttar skuli fresta gerðinni.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 20. desember sl.
I
Málsatvik
Málavextir eru í stuttu máli þeir, að með afsali, dags. 15. janúar 1981, afsöluðu gerðarbeiðendur fasteigninni Bárugötu 2, Reykjavík, ásamt tilheyrandi eignarlóð og öllu sem eigninni fylgdi og fylgja bæri, til St. Jósefssystra, Landakoti, Reykjavík. Með afsalinu var gerðarbeiðendum veittur forkaupsréttur að fasteigninni. Umrætt afsal var afhent til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 22. janúar 1981 og því þinglýst þar. Þann 8. nóvember 2000 gerðu St. Jósefssystur kaupsamning um fasteignina við gerðarþola. Gerðarbeiðendum var ekki send tilkynning um sölu þessa né var þeim boðið að neyta forkaupsréttar síns. Gerðarbeiðendur höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til viðurkenningar á forkaupsrétti sínum og til útgáfu afsals fyrir fasteigninni frá St. Jósefssystrum. Með dómi Hæstaréttar þann 20. september 2001 í málinu nr. 154/2001 var forkaupsréttur gerðarbeiðenda að fasteigninni Bárugötu 2, Reykjavík viðurkenndur og St. Jósefssystrum gert skylt að selja og afsala fasteigninni til gerðarbeiðenda. Gerðabeiðendur fengu afsal fyrir fasteigninni frá St. Jóselssystrum í samræmi við dómsorð Hæstaréttar þann 7. nóvember 2001.
Gerðarbeiðendur halda því fram að frá því að nefndur dómur féll í Hæstarétti hafi gerðarbeiðendur og lögmaður þeirra tjáð gerðarþolum að þeim yrði einungis veittur skammur frestur til að rýma fasteignina Bárugötu 2, Reykjavík. Lögmaður gerðarbeiðenda hafi m.a. í því skyni haft samband við forstöðumann gerðarþola, Þórlaugu Jónsdóttur, þann 18. október 2001, og tjáð henni að gerðarþoli hefði frest til 15. nóvember 2001 til að rýma fasteignina. Þetta hafi verið áréttað með símbréfum lögmanns gerðarbeiðenda til lögmanns gerðarþola dags. 24. október og 13. og 14. nóvember 2001, auk þess sem gerðarbeiðendur hafi sent gerðarþola símskeyti þess efnis dags. 14. nóvember 2001.
Gerðarþoli kveðst hafa rekið starfsemi sína í fasteign að Öldugötu 14, Reykjavík. Sú eign hafi verið seld 23. október 2000 eftir að gerðarþoli hafði tryggt sé hið nýja húsnæði. Fyrir liggi að hann hafi verið grandlaus um forkaupsrétt gerðarbeiðenda að Bárugötu 2, Reykjavík, þegar hann festi kaup á eigninni, enda hafi engar upplýsingar komið fram um þennan rétt á veðbókarvottorði um eignina, sem hafi legið frammi við samningsgerðina. Þá heldur gerðarþoli því fram að eftir að forkaupsréttarkrafa gerðarbeiðenda hafi verið komin fram hafi Þórlaug Jónsdóttir rekstrarstjóri ritað varnaraðila lögmanni þeirra bréf dags. 12. desember 2000 þar sem lýst hafi verið sérstökum þörfum samtakanna í húsnæðismálum. Hafi af bréfinu verið ljóst, að slík hús, sem samtökin þyrftu til að mæta þessum þörfum, séu ekki á hverju strái. Við yfirheyrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. apríl 2000 hafi Þórlaug lýst þessum aðstæðum frekar. Í málinu sem dæmt hafi verið í Hæstarétti 20. september 2001, hafi meðal annars verið tekist á um skýringu á 18. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, þar sem dómari hafi auk annars þurft að taka afstöðu til þess, hvorum aðilanna yrði bagalegra að þurfa að víkja með rétt sinn til eignar. Við þessar aðstæður hafi gerðarbeiðendur gefið það loforð, sem í forsendum dóms Hæstaréttar sé lýst með þessum orðum: "Af hálfu áfrýjenda hefur því verið lýst yfir að verði kröfur þeirra teknar til greina muni þeir veita stefndu sanngjarnan frest til að finna sér nýtt húsnæði. " Þegar að gengnum dómi Hæstaréttar 20. september 2001 hafi gerðarþoli hafist handa um að finna sér nýtt húsnæði. Hafi það tekist á ótrúlega stuttum tíma, því þann l. nóvember 2001 hafi verið gerður kaupsamningur um húsnæði í Reykjavík, sem gerðarþoli hafi talið að gæti hentað starfseminni. Þetta húsnæði hafi hins vegar verið bundið í útleigu, eins og húsaleigusamningur sýni, og sé ekki unnt að losa það úr leigu fyrr en með uppsögn 28. febrúar 2002 og með þriggja mánaða fyrirvara. Með því að nýta þessa heimild geti húsnæðið fyrst orðið laust fyrir gerðarþola þann l. júní 2002.
II
Málsástæður og lagarök gerðarbeiðenda
Gerðarbeiðendur byggja kröfu sína um útburð á því að Hæstiréttur hafi kveðið upp dóm um rétt gerðarbeiðenda til fasteignarinnar Bárugötu 2, Reykjavík, og fasteigninni hafi verið afsalað til þeirra frá fyrri eiganda hennar í samræmi við dómsorð Hæstaréttar. Gerðarbeiðendur séu því réttir eigendur og umráðamenn fasteignarinnar. Gerðarþoli dvelji hins vegar í umræddu húsnæði í leyfisleysi þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir gerðarbeiðenda til hans um að rýma húsnæðið. Vegna þessa sé gerðarbeiðendum nauðsynlegt að kveðinn verði upp dómsúrskurður um útburð.
Um lagarök vísa gerðarbeiðendur til almennra reglna kröfu- og fasteignakauparéttar, eignarréttar um forræði og umráðarétt manna á eignum sínum sem og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Loks er vísað 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför o.fl.
III
Málsástæður og lagarök gerðarþola
Gerðarþoli byggir kröfur sínar um að synjað verði útburðar aðallega á túlkun á fyrrgreindu loforði gerðarbeiðenda um "sanngjarnan frest", sem gefið hafi verið við rekstur dómsmálsins. Við túlkun á efnisinnihaldi loforðsins sé óhjákvæmilegt að skoða við hvaða aðstæður það hafi verið gefið. Þá hafi legið fyrir a) að samtökin hafi haft mjög sérstakar þarfir í húsnæðismálum, bæði að því er snerti staðsetningu húss og gerð þess, b) að samtökin hafi um langa hríð leitað að húsnæði, sem hentað gæti þessum þörfum, áður en þau hafi fest kaup á Bárugötu 2, c) að samtökin hafi ekki selt eldri húseign sína, fyrr en þau höfðu fest sér húsið að Bárugötu 2, þar sem slíkt hafi verið til þess fallið að skapa millibilsástand, þar sem samtökin hefðu í ekkert hús að venda með starfsemi sína og d) að þessar kringumstæður hafi valdið því, að samtökin treystu sér ekki til að víkja úr húsnæði sínu eftir að upplýsingar hafi verið komnar fram um forkaupsrétt gerðarbeiðenda og hafi fremur valið að láta reyna á rétt sinn til hins keypta húss. Auk alls þessa verði einnig að hafa í huga við túlkun á þessu loforði gerðarbeiðenda, að það hafi verið gefið til að milda mat dómstóla þeim í hag á fyrrgreindum skilyrðum í 18. gr. þinglýsingalaga, þar sem gert sé ráð fyrir samanburði á hagsmunum þeirra aðila sem kalla til réttar yfir fasteign.
Ætla verði, að í loforði gerðarbeiðenda hafi falist fyrirheit um að gerðarþoli fengi sanngjarnan frest til hvors tveggja, að finna húsnæði sem hentað gæti lýstum þörfum og síðan einnig til að fá slíkt húsnæði afhent svo unnt yrði að taka það til afnota fyrir starfsemina. Eðlilegt sé að þessi tími sé gagnvart gerðarbeiðendum metinn sem ein heild, þannig að það sem kunni að sparast á öðru tímabilinu vinnist á hinu.
Í málinu liggi fyrir, að gerðarþola hafi tekist á ótrúlega skömmum tíma eftir að dómur Hæstaréttar gekk, að finna húsnæði sem hentaði sértækum þörfum hans. Hafi kaupsamningur verið undirritaður 1. nóvember 2001. Það taki síðan 7 mánuði að losa hina nýju fasteign þannig að gerðarþoli geti flutt starfsemi sína þar inn. Sá tími hljóti að teljast eðlilegur sem afhendingartími í fasteignakaupum almennt, hvað þá í kaupum á svo stórri eign í miðborg Reykjavíkur.
Á því er byggt af hálfu gerðarþola að sá frestur sem hann þurfi til að komast í hið nýja húsnæði hljóti að teljast sanngjarn í skilningi loforðs gerðarbeiðenda. Beri því að synja kröfum þeirra. Hvað sem þessu líði, verði að telja ljóst, að frestur sá til 15. nóvember 2001, sem gerðarbeiðendur hafi tilkynnt gerðarþola, eftir að dómur Hæstaréttar gekk og sem gerðarbeiðni þeirra byggist á, sé fjarri því að uppfylla þá skuldbindingu sem í loforðinu hafi falist. Nægi þetta til að synja kröfum þeirra í málinu.
Í bréfi lögmanns gerðarbeiðenda virðist felast ráðagerð um að gerðarþoli eigi að freista þess að "leigja gistiheimili yfir starfsemina fram til vors". Því sé mótmælt að loforð gerðarbeiðenda teljist bundið skilmála af þessu tagi. Að minnsta kosti hafi ekkert verið tekið fram um hann, þegar loforðið hafi verið gefið við rekstur dómsmálsins. Þar að auki hafi gerðarbeiðendur ekki bent á það gistiheimili, sem tiltækt eigi að vera né hvernig slíkt heimili geti mætt þörfum gerðarþola.
Gerðarþoli kveðst freista þess að komast inn í hið nýja húsnæði sitt fyrir l. júní 2002 með samkomulagi við leigutaka þess. Telji hann horfur nokkuð góðar á því að þetta takist, þó að ekki sé það öruggt.
Kröfur gerðarþola eru til vara á því byggðar að beita eigi 3. tl. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 um þá réttarstöðu sem hér sé uppi, hvort sem það sé gert með rýmkandi lögskýringu eða lögjöfnun. Gerðaþoli hafi að vísu ekki skriflegan leigusamning um eignina, en hann hafi samt fengið hana til afnota eftir heimild, sem jafna megi til slíks samnings. Þannig hafi hann fengið afnotin með samningi við löglegan eiganda hennar á þeim tíma er til afnotanna hafi verið stofnað. Í sjálfu sér hafi sá eigandi getað leigt gerðarþola eignina með ótímabundnum leigusamningi, sbr. 2. mgr. 9. gr. húsaleigulaga og hafi slík samningsgerð ekki farið á nokkurn hátt í bága við forkaupsrétt gerðarbeiðenda. Fallist dómurinn ekki á málflutning gerðarþola í 1. tl. um túlkun á loforði gerðarbeiðenda sýnist ekkert vera því til fyrirstöðu að taka kröfur gerðarþola til greina á þessum grundvelli. Uppsögn hafi þá farið fram í októbermánuði 2001. Uppsagnarfrestur hafi samkvæmt því hafist 1. nóvember 2001, sbr. l. mgr. 57. gr. húsaleigulaga og renni ekki út fyrr en l. maí 2002. Standi þetta í vegi fyrir kröfum gerðarbeiðenda.
Krafan um að málskot skuli fresta gerðinni hafi stoð í 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
Krafa gerðarþola um málskostnað er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
IV
Niðurstaða
Með dómi Hæstaréttar nr. 154/2001, sem kveðinn var upp þann 20. september sl., var viðurkenndur forkaupsréttur gerðarbeiðenda að fasteigninni Bárugötu 2, Reykjavík. Jafnframt var kveðið á um það í dóminum að St. Jósepssystrum væri skylt að selja og afsala gerðarbeiðendum fasteigninni að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Það var gert með afsali dags. 7. nóvember sl.
Gerðarbeiðendur gáfu gerðarþola frest til 15. nóvember sl. til að rýma fasteignina.
Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 felst það almenna skilyrði fyrir beinni aðfarargerð að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði fyrir þeim færðar með þeim gögnum sem afla má fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr. sömu laga. Í máli þessu liggur fyrir að gerðarbeiðendur eru eigendur að umræddu húsnæði að Bárugötu 2, Reykjavík. Sú eignarheimild er ótvíræð og óumdeild.
Gerðarþoli byggir kröfur sínar um að synjað verði útburðar aðallega á því að við meðferð málsins um forkaupsrétt að fasteigninni Bárugötu 2 fyrir Hæstarétti hafi gerðarbeiðendur lofað að veita gerðarþola sanngjarnan frest til að finna sér nýtt húsnæði. Fyrir liggur að gerðarþoli hefur þegar keypt annað húsnæði fyrir starfsemi sína, en fær það hins vegar ekki afhent fyrr en 1. júní 2002. Ekki verður talið að fyrrgreind yfirlýsing af hálfu gerðarbeiðenda fyrir dómi verði túlkuð svo rúmt að gerðarþola sé heimil afnot af fasteigninni til þess tíma. Er ekki fallist á málsástæður gerðarþola þar um. Ekki verður heldur talið að í yfirlýsingunni hafi falist skuldbindandi loforð gerðarbeiðenda um það að gerðarþola bæri lengri frestur en veittur var til þess að afhenda húsnæðið. Þá er því hafnað að ákvæði 3. tl. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 geti átt við um gerðarþola. Gerðarþoli hefur enga heimild til að dvelja í eigninni og gerðarbeiðendur hafa skorað á gerðarþola að rýma eignina. Samkvæmt framansögðu verður að telja að lagaskilyrði séu fyrir því að gerðin fari fram og verður því fallist á útburðarkröfu gerðarbeiðenda.
Gerðarþoli krefst þess, með vísan til 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, að kveðið verði svo á í úrskurðinum að málskot til Hæstaréttar skuli fresta gerðinni. Þegar litið er til þeirrar starfsemi sem gerðarþoli rekur í húsnæðinu og biðstöðu hans nú er ljóst að tafarlaus útburður á hendur honum hefði í för með sér verulegt óhagræði og röskun á starfsemi hans. Hins vegar verður ekki séð að hagsmunir gerðarbeiðenda af því að útburður fari fram þegar í stað séu brýnir. Verður því fallist á þessa kröfu gerðarþola.
Gerðarþoli skal greiða gerðarbeiðendum 65.000 krónur í málskostnað.
Ekki er tilefni til þess að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af framkvæmd umbeðinnar gerðar vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Krafa gerðarbeiðenda, Auðar Einarsdóttur, Ágústs Einarssonar, Ólafar Einarsdóttur, Sólveigar Einarsdóttur, Guðbjargar M. Matthíasdóttur f.h. dánarbús Sigurðar Einarssonar, Elísabetar Einarsdóttur, Svövu Einarsdóttur, Helgu Einarsdóttur, Elínar Einarsdóttur og dánarbús Guðríðar Einarsdóttur, um að gerðarþoli, Samtök um kvennaathvarf, verði ásamt öllu sem þeim tilheyri borin út úr fasteigninni Bárugötu 2, Reykjavík, er tekin til greina.
Gerðarþoli greiði gerðarbeiðendum 65.000 krónur í málskostnað.
Málskot til Hæstaréttar frestar aðfarargerðinni.