Hæstiréttur íslands

Mál nr. 124/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 6

 

Mánudaginn 6. mars 2006.

Nr. 124/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. mars 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að varnaraðila verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. mars 2006, klukkan 16:00.

Lögregla kveðst rannsaka meint fíkniefnabrot kærða.  Meðkærði, A, litháískur ríkisborgari, hafi flutt til landsins sterkt amfetamín í vökvaformi.  Lögregla telur meðkærða hafa tekið að sér að flytja fíkniefnin til landsins, en grunar kærða um að hafa staðið fyrir innflutningnum.  A hafi greint frá annarri sams konar ferð í desember sl. og hafi hann þá hitt kærða og afhent honum flöskurnar.  Benti A á kærða og eiginkonu hans við myndsakbendingu.  Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. f.m.  Lögregla segir að hann hafi orðið missaga og þannig dregið rannsókn málsins á langinn. Þá sé ósamræmi milli framburðar hans og annarra grunaðra. 

Kærði hefur neitað sök hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni og krefst þess til vara að henni verði markaður skemmri tími. Þá bendir hann á að farbann ætti að duga.

Meint brot kærða kann að varða hann refsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Hann er undir rökstuddum grun og rannsóknarhagsmunir eru enn af því að hann verði útilokaður frá því að hafa samband við aðra kærðu eða gefið færi á að spilla sakargögnum.  Verður gæsluvarðhald er hann sætir nú framlengt svo sem lögregla krefst samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð :

Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. mars 2006, klukkan 16:00.